Rán en ekki lán?

peningar Haustið 2005 keypti ég hús hér vestur á Ísafirði og tók af því tilefni 12 mkr lán á föstum 4,15% vöxtum út lánstímann. Greiðslubyrði lánsins var á þeim tíma 50 þús kr á mánuði.

Nú - þremur árum síðar - hef ég greitt um 1,8 mkr af þessu láni - en það hefur á sama tíma hækkað úr 12 mkr. í 14,5 mkr. Það er þriðjungi hærri upphæð en nemur afborgunum. 

Mánaðarleg afborgun hefur hækkað úr 50 þús í 64 þúsund kr.

Ég þori ekki að hugsa þá hugsun til enda, hvernig staðan verður eftir önnur tvö ár - ég tali nú ekki um tíu ár - ef áfram heldur sem horfir.

Þessi saga er sambærileg fjölmargra annarra sem hafa þurft að taka lán til að fjármagna fasteignakaup að undanförnu. Einn þeirra kemur fram í meðfylgjandi frétt í 24 stundum sem mbl gerir að umtalsefni í dag. Það hljóta allir að sjá hvílík hít blasir við þeim sem skulda hærri upphæðir - ég tala nú ekki um ef fólk hefur tekið lán með breytilegum vöxtum. Shocking

Mér er skapi næst að kalla þetta rán - en ekki lán.


mbl.is "Sem betur fer fór maður ekki til bankanna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er ekkert annað en rán, svik og prettir! Sonur minn keypti sér sína fyrstu íbúð fyrir rúmlega ári síðan. Hann tók lán hjá íbúðarlánasjóði uppá 8,5 miljónir sem standa núna í 10! Þegar ég settist niður með honum og útskýrði að nú þyrfti hann að fara að reyna kannski að selja íbúðina því með lækkandi húsnæðisverði þá verður fyrr en varir lánið hærra en íbúðin! Hann á mjög erfitt að skilja þetta verðtryggingabull og sagði við mig þegar ég var búin að reyna mitt besta að útskýra hlutina þá sagði hann "mamma, þetta má ekki"!! Nei þetta má ekki! og að einhverjir dúddar vogi sér að segja að þetta er bara svona fyrir þá sem skulda þá verð ég brjáluð, því hvaða manneskja hér á landi með lélegustu laun í heimi getur keypt sér húsnæði án þess að taka lán fyrir því?? Jú þessir dúddar sem voru með starfslokasamninga/laun upp á trilljónir það er að segja þessi 5% af þjóðinni þeir geta borgað cash! Þetta er hneyksli!

Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 11:25

2 identicon

Rán en ekki lán. Þarna hittirðu naglann á höfuðið.

rut sumarliðadóttir (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 11:29

3 identicon

Ég ætla ekki að segja neina sögu um hvernig farið er með fólk sem fer útí það að eignast húsnæði og taka verðt.lán til þess hér á landi. Ég spyr hvernig og hvenær verður hægt fyrir venjulegt fólk að gera áætlanir fram í tíman hér á landi, vonandi svara þeir sem vitið hafa þ.e. þeir sem segja"  fólk á ekki að veðsetja sig svona mikið"

Eva Þorkelsdóttir (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 11:33

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Frá því bankarnir byrjuðu að lána hér í stórum stíl til húsnæðiskaupa haustið 2004 í boði Framsóknarflokksins hækkaði verð á húsnæði í Reykjavík um 80% á þremur árum og húsaleiga svipað.

Þetta kallaði Framsóknarflokkurinn uppgang í efnahagslífinu. Fólk keypti stóra jeppa og ennþá stærri jeppa, enda hafði Geir Haarde sem fjármálaráðherra lækkað tolla á stórum jeppum. Fleiri og stærri bílar, meiri mengun. Malbikið spændist upp í Reykjavík sem aldrei fyrr.

Kennarar fundu ekki lengur stæði við skólana. Enginn á reiðhjóli, nema andlega fatlað fólk. Ungt fólk keypti íbúð án þess að hafa lagt nokkuð fyrir, nýjan bíl, ísskáp og jafnvel Siemens-frystikistu. "Sjáðu mamma, hvað ég á fallega fjögurra herbergja íbúð í Hlíðunum, jeppa, mann og hund."

En bankinn átti allan tímann íbúðina, jeppann, manninn og hundinn.

Það er so mikið soleis.

Þorsteinn Briem, 25.9.2008 kl. 11:36

5 identicon

Hugsaðu þér svo hvernig ungt fólk hefur það, sem var og er nýskriðið úr háskólanámi með jafnvel börn, sem þurfti að taka hærri lán en þetta, og hver staða þeirra er núna. Lífið lítur vel út þegar maður kemur úr námi, og nær sér jafnvel í vel launaða vinnu. Það snýst hins vegar við þegar staðan er þannig núna að vel launaða vinnan dugar rétt svo fyrir mánaðarlegum greiðslum, og þá á eftir að fylla á ísskápinn !!!! Ef þetta versnar meira þá er nokkuð öruggt að yfirgnæfandi meirihluti þessa fólks fer á hausinn. Fróðlegt væri að sjá þjóðfélagið eftir nokkur ár, þegar meirihluti fólks fætt 1972-1982 er gjaldþrota, og hefur jafnvel flúið land.

Ég veit um lækna, verkfræðinga, lögfræðinga, tölvunarfræðinga og hjúkrunarfólk sem er mjög virkt í leit að vinnu erlendis núna, svona til að sleppa áður en skattmann innsiglar þau.

Svo segja menn blákalt að þetta unga fólk hefði ekki átt að skuldsetja sig svona.... Ég spyr á móti, hvað hefði þetta fólk átt að gera ?? Ráðleggingar voru á eina leið í þessum málum fyrir örstuttu síðan.

Mér sýnist að þeir sem eigi að vera skynsamir eigi að búa hjá foreldrum sínum - með maka, börn og buru.... Það eru ekki allir í þeirri aðstöðu, og ennþá færri sem hafa áhuga á því. Svo veit ég ekki hversu áhugasöm sú kynslóð er fyrir því.

Nú, sem aldrei fyrr, ríður á að hið opinbera komi þessu fólki til hjálpar - ég er að tala um mjög stóran part þeirra sem eru undir 35 ára aldri.

Þetta er svo miklu meira en rán, þetta eru aðfarir að fólki sem ekki má við því.

Gunnar G (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 12:17

6 identicon

Já, og svo talar Davíð bara um lýðskrumara af versta tagi, líti hann sér nær.

Annars eru þetta ,,bara" peningar en við sem búum ,,úti á landi" erum sjálfviljug í átthagafjötrum með okkar húsnæði. Sjáum t.d. Raufarhöfn þar sem flott 170 fm einbýlishús voru seld fyrir nokkru á 2 milljónir. gegnheilt parket og náttúruflísar, eldhúsinnrétting úr viði, gróðurhús og heitur pottur en..... in the middle of nowhere

Guðrún Jónína Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 12:56

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gunnar G. Allir sem kaupa sína fyrstu íbúð verða að leggja fyrir nokkrar milljónir króna áður en þeir skrifa undir kaupsamninginn, hvort sem þeir hafa búið heima hjá foreldrum sínum eða í leiguíbúð.

Ungt fólk sem kaupir sinn fyrsta bíl á að staðgreiða hann en ekki taka lán fyrir öllu kaupverðinu til sex ára og greiða þannig verð tveggja nýrra bíla þegar upp er staðið. Framhalds- og háskólanemar geta flestir ferðast ókeypis með strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu.

Nú er hægt er að fá 18 milljóna króna lán hjá Íbúðalánasjóði til 40 ára, þannig að mánaðarlegar afborganir yrðu um 90 þúsund krónur, 45 þúsund krónur á mann, ef um par er að ræða. Það er nú ekki dýrara en að leigja litla íbúð í Reykjavík og að sjálfsögðu ræður hásólamenntað fólk við þessa upphæð.

Og á meðan fólk er í háskólanámi í Reykjavík getur það leigt til dæmis þriggja herbergja íbúð á Vallarheiði, gamla Varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll, fyrir 60 þúsund krónur á mánuði. Ókeypis strætó á milli Vallarheiðar og Reykjavíkur.

Eftir námið getur það svo leigt íbúð í Reykjavík fyrir til dæmis 120 þúsund krónur á mánuði, 60 þúsund krónur á mann ef um par er að ræða. Háskólamenntað fólk er með miklu hærri laun en það og getur því vel lagt fyrir þar til það kaupir sína fyrstu íbúð.

En að sjálfsögðu ætti leigumarkaðurinn að vera mun stærri hérlendis, því rúm 80% búa hér í eigin húsnæði og sagt er að það sé heimsmet.

Þorsteinn Briem, 25.9.2008 kl. 12:57

8 identicon

Það er ekki skrýtið að þessi umræða sé að byrja, svona í ljósi þess að það virðist hafa verið þjóðaríþrótt að eiga ekki fyrir draslinu sem fólk var að kaupa sér. Sökin er hinsvegar þeirra sem tóku lánin, ekki þeirra sem veittu þau, enda er ákvæðin sem réttlæta lánahækkanirnar væntanlega að finna á góðum stað í lánasamningnum. Fólk hefur bara ekki hugsað dæmið til enda!

Það er ekkert voðalega erfitt að spara, jafnvel þó svo að maður búi ekki í foreldrahúsi. Það er getur hinsvegar virtst voðalega erfitt ef að fólk hefur vanið sig á það að eiga ekki fyrir því sem það kaupir sér og er með yfirdráttinn í botni. Óþolinmæðin hjálpar síðan ekki til.

Gunnar G, ég verð að segja að það að ríkið eigi að hlaupa undir bagga með þessu liði er með fyndnari tillögum sem ég hef heyrt, eða ég ætti kannski að segja með hlægilegri tillögum. Reyndar var athugasemdin þín ansi fyndin, en látum það liggja á milli hluta

Góðar stundir!

Bjarni (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 15:20

9 Smámynd: Sævar Helgason

Verðbólgan er skelfilegur skaðvaldur . Hún étur eigur okkar ef við skuldum . Þessvegna er stjórn efnahags og peningamála okkur gríðarlega mikilvæg...  Árum saman var varað við hvert stefndi -- í núverandi ástand - en stjórnvöld brugðust hrapalega...

Sævar Helgason, 25.9.2008 kl. 15:58

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú ættir að reyna að greiða niður höfuðstólinn eins oft og svigrúm leyfir. Kynntu þér það, Það er ekki sama hvernig staðið er að því. Mig minnir að þú verðir að gera það um leið og þú greiðir afborgun, annar reiknast innleggið sem fyrirframgreiðsla á afbroganir.  hundrað þúsundkall hér og fimmtíu þar, munar miklu. Ég er nýbyrjaður að borga af avona láni og er það um 35.000 kall á mánuði. Í borginni var húsaleigan 90.000, svo ég ef hugsað mér að reyna, svona þegar hægt er að borga höfuðstólinn niður um 50 þús. við hverja afborgun.

Það er betra að gera þetta en að taka lán til styttri tíma með hærri afborgunum. Lánið er tekið af því að maður getur ekki slengt fram stórri upphæð og því tímabundið hagræði. Maður getur svo stýrt því eftir efnum og aðstæðum hve mikið maður vill lækka höfuðstólinn hverju sinni. Þeir eru ekki hrifnir af að fólk geri þetta og eru alls ekki að halda þessum möguleika á lofti. Kynntu þér málið. 

Jón Steinar Ragnarsson, 26.9.2008 kl. 05:38

11 identicon

Steini, það er nú ekki svo að þetta sé einungis sök Framsóknarflokksins þótt hann eigi nú sinn þátt í þessu. Hvaða flokkur (eða einstaklingur) hefur farið með stjórn efnahagsmála síðan 1991 ?  Endalaust hjal um góðæri sem augljóslega var tekið að láni.  Einkavinavæðing á röngum forsendum, skattalækkanir í röngum tíma, tollalækkanir á "skriðdrekum". 

Það var varað við þessu. Fyrir kosningarnar 1999 og 2003.  Hvernig var því svarað af stjórnarflokkum þess tíma ? Almenningur sem og fyrirtæki (og hið opinbera) skildu eyða meira, ekki gæta aðhalds.  Enda sagði Davíð Oddson að hagfræðingar vissu ekkert um hagfræði. En í raun þurfti nú aldrei mikinn snilling til að skilja það sem var á seyði.  

Því miður er staða margra mjög slæm núna. Mér sýnist að síðuhöfundur sé með þeim "heppnari" þótt það sé engin heppni að lenda í stjórnlausum skuldum. En hvernig ætlar ríkisstjórn að bregðast við ? Styð tillögu Guðmundar hjá RSÍ, fastsetja gengi krónunnar og afnema lög um seðlabankann. Amk. tímabundið. Síðan má taka upp þráðinn að nýju og setja hæft fólk í raðir seðlabanka. Síðan þarf að taka á öllum bankageiranum. Þeir eiga hvort eð er eftir að upplifa erfiða tíma, sem þeir gætu sent reikninginn til skuldara með hækkuðum vöxtum og gjöldum. Það þarf að passa sérstaklega upp á það. Frekar að einhverjir bankanna fari á hausinn eins og í Bandaríkjunum.

Gísli (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 10:44

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gísli. Í skýrslu sem Edda Rós Karlsdóttir, nú forstöðumaður Greiningarsviðs Landsbankans, skrifaði, sagði hún að Framsóknarflokkurinn hafi staðið fyrir þessum stórfelldu íbúðalánum bankanna, enda held ég að flokkurinn sverji þetta nú ekki af sér. En sjáum til. Ég vísaði í þessa skýrslu í fyrravor og þá var alla vega hægt að finna hana á Netinu.

Nema mig hafi dreymt þetta allt saman, enda dreymir mig oft Eddu Rós. Hún er með masterspróf í þjóðhagfræði og ég vildi gjarnan eiga með henni 2,2 börn. En það vill mig engin.

Að sjálfsögðu ber Sjálfstæðisflokkurinn einnig ábyrgð á stjórn efnahagsmála þegar hann er við völd. En burtséð frá alþjóðlegum efnahagssamdrætti í ár var þó fyrirséð strax í fyrravor að hér yrði lítill, enginn og jafnvel neikvæður hagvöxtur eftir að framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun lyki að mestu leyti., eins og þá mátti lesa í spám Seðlabanka Íslands.

Þorsteinn Briem, 26.9.2008 kl. 11:34

13 Smámynd: Ragnheiður

Já þetta er svakalegt. Án þess að ég vilji vera að úttala mig á netinu um mín fjármál þá er ég með eitt lán, tekið í apríl 2007 og það hefur hækkað um 2.3 millur á þessum tæpa eina og hálfa ári.

Ég hef hinsvegar verið að greiða hraðar niður höfuðstól lána hjá mér og það munar ótrúlega hratt um það en betur má ef duga skal. Maður þarf alveg að vera á vaktinni til að eignir manns brenni ekki upp

Ragnheiður , 26.9.2008 kl. 12:03

14 identicon

Steini, eins ágæt og Edda Rós er, þá getur hún og aðrir bankamenn, kennt sjálfum bönkunum að miklu leyti um þá þróun sem orðin er. Samkeppni bankanna við Framsókn (eða ríkisstjórn þess tíma) um íbúðarlán til einstaklinga og að hafa reynt að ryðja Íbúðarlánasjóði frá. Einnig þau miklu bíla- og neyslulán sem bankarnir stóðu fyrir. Þessi stórauknu íbúðar- og neyslulán á tímum lágra heimsvaxta og furðulegrar sterkrar krónu var mun alvarlega en nokkurn tíma stórframkvæmd eins og Kárahnjúkar. Þenslan var langmest á höfuðborgarsvæðinu, miklu meiri en fyrir austan t.d. 

Bankarnir (eða undirfyrirtæki þeirra) hvöttu jafnvel fólk til að erlend lán í stórum stíl. Hvers konar fjármálaráðgjöf er það? Í dag tek ég ekkert mark á þessum bankamönnum (nema Ragnar Ö.), sérstaklega ekkert mark á greiningardeildunum. Hverju spáðu greiningardeildirnar fyrir þetta ár ? Var það ekki hækkun hlutabréfa ? Endilega rifjaðu það upp og spáðu í það :) 

Bestu kveðjur

Gísli (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 12:19

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Gísli. Ekki getur Edda Rós gert að því að hún sé sæt og mig dreymi hana. Eins er með nammiskálina. Óþarfi að graðga í sig nammi, enda þótt hún sé á borðum. Og hafa verður vit fyrir börnunum að þau éti ekki á sig gat úr skálinni.

Fólk sem komið er til sæmilegs vits og ára á að hafa vit á að taka ekki lán, nema nauðsyn beri til. Lán er ekki hagstætt, nema eitthvert vit sé í að taka lánið. Og það er ekkert vit í að taka lán til að kaupa bíl til einkanota eða legu á sólarströnd, til að mynda.

Ég hef staðgreitt þá bíla sem ég hef keypt og farið til útlanda vegna minna starfa, til að skoða mig um í veröldinni eða heimsækja mína ættingja og vini. Mikið sólskin fer illa með húðina, getur valdið húðkrabbameini og það er óhollt. Ég nota ekki kreditkort og það er engin ástæða til að vera með þau.

Bæði innláns- og útlánsvextir hafa verið háir hér undanfarið og þá er um að gera að spara, ef hægt er. Og flestir geta nú alltaf lagt eitthvað fyrir, til dæmis 10% af laununum sínum mánaðarlega.
Og margir geta öðru hverju greitt niður höfuðstólinn af langtímalánum sínum, til dæmis námslánum.

Sonur minn, 18 ára gamall, er hvorki með debet- né kreditkort, hefur ekki tekið bílpróf og greiðir sín skólagjöld sjálfur í Kvikmyndaskóla Íslands, 1,2 milljónir króna á ári, sem hann hefur sjálfur unnið fyrir. Samt er hann Íslendingur. En hann er ekki dæmigerður Íslendingur. Það er málið. En ekki nammiskálin hennar Eddu Rósar.

Þorsteinn Briem, 26.9.2008 kl. 13:30

16 identicon

Isssss.... ekkert að marka þessar greiningardeildir! Fólk verður að athuga það að þær eru sko að vinna með bönkunum! Þessi Edda Rós og co ættu að hætta að tala um spár, ættu frekar að fara að tala um STAÐREYNDIR!

Ragnheiður Arna Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 13:32

17 identicon

Edda er vissulega mikið augnayndi, og þal. skásti greiningarspámaðurinn. Fjármál: Ég skal bæta um betur :) Ég hef beðið með að kaupa stærri íbúð meðan lánafylleríinu stóð og í stað höfum við kytrast í 3ja herb. íbúð. Ekkert stór-vandamál.  Í staðinn hef ég reynt að fjárfesta, m.a. í hlutabréfum eða peningamarkaðssjóðum. Hlutabréf og íbúðarverð hafa lækkað og hávaxtareikningarnir rétt svo halda í verðbólgu. Ss. hvatinn er nú ekki meiri !  Best væri líklega að fjárfesta í betri heilsu, borgar sig alltaf. Staðgreiðsla borgar sig alltaf.

En í upphafi árs ræddi ég við spámann greiningardeilda um hvort rétt væri að kaupa evrur þar sem ég teldi að krónan myndi lækka. Ekki stóð á svarinu, nei alls ekki. Meðan við töluðum saman féll krónan um 3%, síðan hefur hún fallið ca. 50% gagnvart evru.

Mörg efnahagsmistök hafa verið gerð og venjulegt fólk sem tók lán á hluta af því vandamáli. En þeir sem starfa sem fjármálaráðgjafar bera samt sem áður mestu skömmina, vegna þess einfaldlega að spár þeirra hafa ekki gengið eftir, en þeir sem taka lán, taka eðlilega mið af spánum. Þessar spár eru frekar notaðar til að handstýra markaðnum í þágu fjármálastofnanna. Þess vegna væri í góðu lagi að banna bönkum að spá, en notast frekar við Þjóðhagsstofnun sem illu heilli var lögð niður í einni "herferðinni".

Kveðja

Gísli (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 14:00

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jamm, konurnar eru nú skynsamari en karlpeningurinn, svona yfirleitt, og ef þú átt góða konu og gott sjónvarp ertu nú ekki á flæðiskeri staddur, Gísli minn.

Með góðri kveðju,

Þorsteinn Briem, 26.9.2008 kl. 17:10

19 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Mín ágæta Ólína!

Til að hnykkja aðeins betur á málflutningi sumra hérna og uppplýsa jafnframt aðeins meir um það, þá er já lykillin að því að fólk geti borgað lán sín hraðar og betur niður, að greiða sem hæst hluttfall af stofnfjárhæð lánsins. Vestir og verðbætur eru nefnilega tengdar la´nstímanum og því hraðar sem við getum greitt lánið niður, því minna greiðum við þar að leiðandi í vesti og verðbætur.Ég giska á að í þínu tilfelli Ólína sé afborgun af nafnverðinu um eða rúmlega 20 þúsund. með því að auka þessa upphæð um 10 þ. á mánuði, sem þér sem öðrum lánþegum er frjálst hygg ég samkvæmt lánalögum, gætir þú stytt lánstíman um einvher ár, en hversu mörg þori ég ekki að fara með. En svo ég fari nú ekkert að eigna mér þessa speki og aðrir fari ekki til dæmis að halda að Jón Steinar hérna að ofan eigi heiðurinn að henni heldur, þá vil ég upplýsa að um margra ára skeið hefur fyrst og fremst einn maður rekið áróður fyrir þessu og m.a. skrifað bók um þetta, Ingólfur H. Ingólfsson fjármálaráðgjafi!

Hefur hann nefnt þetta Veltukerfið og ég held að hann haldi enn úti netsíðu sem heitir spar.is.

Fólk man kannski eftir honum af NFS stöðinni sem var og hét, þar sem hann var fyrst með reglulega pistla um fjármál, en á síðustu dögum stöðvarinnar, svo með eigin þætti!

Magnús Geir Guðmundsson, 27.9.2008 kl. 01:00

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/#entry-652837

http://www.spara.is/

Þorsteinn Briem, 27.9.2008 kl. 12:43

21 Smámynd: Jón Ragnarsson

Fyrir 30 árum dugði ein fyrirvinna. Stundum þurfti að taka skorpur í yfirvinnu, en alltaf gat annað foreldrið verið heima og sint búi og börnum. Getið þið ímyndað ykkur par í dag þar sem bara annar vinnur úti fyrir húsnæði og fæði?

Fólk fær varla íbúð undir 20M í dag, ef við gefum okkur að þetta sé par með 1 barn. Þá eru afborganirnar orðnar  100.000 (reynar ótrúlega lítill munur á 25 og 45 ára láni) Og þá á eftir að bæta við verðtryggingu. (Ég nota reiknivél Kaupþings).Bætum 5% meðalverðbólgu ofan á það, og meðalafborgun á mánuði er yfir 200.000!!!

Er þetta normal?

Jón Ragnarsson, 29.9.2008 kl. 18:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband