Færsluflokkur: Dægurmál
Hvað ef heimsfriður væri í húfi?
9.10.2008 | 13:58
Þvílík hneisa - fyrir alla hlutaðeigandi.
Árni Matthiesen er auðvitað með allt niðrum sig. En það eru þeir Alistair Darling og Gordon Brown líka.
Hafi Árni Matthiesen gefið Darling raunverulegt tilefni til að skiljast það að Íslendingar myndu ekki standa við lögbundnar skyldur sínar gagnvart viðskiptamönnum Ice-Saving netbankans í Bretlandi - þá er óþægilegt til þess að hugsa að eitt símtal skuli geta orsakað milliríkjadeilu af þessu tagi. Það liggur ekki fyrir nein formleg yfirlýsing af hálfu Íslenskra stjórnvalda um þetta mál - og það er ekki til mikils ætlast að forsætisráðherra Breta taki upp símtólið og kanni stöðu málsins aðeins betur áður en hann rýkur til og stefnir Íslendingum fyrir dómstóla frammi fyrir heimspressunni.
"Belive it or not - they're not going to pay" sögðu þeir félagar, Brown og Darling, á blaðamannafundi yggldir á brún báðir. Svo var gripið til ákvæða hryðjuverkalöggjafar til þess að gera Íslendingum ljóst að nú væri Bretum sko alvara.
Þessi harkalegu viðbrögð breskra ráðamanna á opinberum vettvangi hafa nú haft örlagaríkar afleiðingar fyrir okkur Íslendinga. Dvergþjóðina við nyrsta haf, sem nú berst um í ölduróti alþjóðlegrar fjármálakreppu, og liggur við drukknun.
Bretland er málsmetandi ríki í samfélagi þjóðanna. Þetta er herveldi. Orð og gjörðir ráðamanna þar eru afdrifarík alla jafna. Það er þess vegna óþægilegt til þess að hugsa ef ekki þarf meira til þess að breskir ráðherrar bregðist við í fljótfærni. Hvað ef heimsfriður væri í húfi - en ekki "bara" afdrif smáþjóðar?
Svo mikið er víst að Bretar eru ekki vinir okkar. Það vitum við nú.
Og Árni Matthiesen verður að segja af sér sem ráðherra. Það er deginum ljósara.
Samtal við Árna réð úrslitum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Þeir sem aldrei þekktu ráð ...
8.10.2008 | 23:32
Nú er svo komið að það er einhvern veginn ekki um neitt að blogga. Maður er eins og þurrausinn eftir það sem á undan er gengið - búinn að tapa smáræðinu sem maður átti í Glitni. Hver veit nema meira tapist síðar. Kannski er þetta bara byrjunin, hvað veit ég?
Eins og stundum þegar syrtir í álinn, seildist ég í ljóðasöfnin mín kvöld í leit að einhverju sem gæti hýrgað andann eins og ástatt er. Nú brá svo við að ég fann ekkert sem mér líkaði. Ekkert sem gaf mér andagift í eins og eina bloggfærslu - enda hafa ljóðskáld þjóðarinnar varla staðið í þeim sporum sem við Íslendingar stöndum í núna.
Þá rifjaðist upp fyrir mér vísan eftir Egil Jónasson á Húsavík og Friðrik Jónsson landspóst á Helgastöðum í Reykjadal (sjá PS neðar) sem þeir félagarnir ortu í sameiningu:
Upp er skorið, engu sáð
allt er í varga ginum.
Þeir sem aldrei þekktu ráð
þeir eiga'að bjarga hinum.
Þar með fann ég jarðtengingu á nýjan leik - og mér varð hugsað til fjármálaráðgjafanna sem undanfarin ár hafa í sjálfumgleði sinni sagt mér og fleirum fyrir verkum varðandi ráðstöfun þeirra takmörkuðu umframaura sem við höfum sum hver haft undir höndum, viðbótarlífeyrissparnaðinn og eitthvað fleira. Ekki hafa þeir nú allir reynst heilráðir blessaðir.
Sjálf hef ég svosem ekki verið neinn fjármálasnillingur heldur - enda búin að brenna mig svolítið. Ekki mikið sem betur fer - kemst vonandi hjá frekari brunasárum í framtíðinni.
Jamm ... allt leitar jafnvægis um síðir. Munum það bara.
---------
PS: Þegar ég setti þessa vísu fyrst hér inn sagði ég að hún væri eftir Sigmund Sigurðsson úrsmið á Akureyri - en hann er skráður fyrir vísunni á vef Skjalasafns Skagfirðinga.
Vinur minn, Baldur Jónasson (sonarsonur Egils) hafði samband við mig og benti mér á að vísan væri ranglega eignuð Sigmundi. Vísan mun hafa birst í minningargrein um Sigmund og þar ranglega eignuð honum.
Dægurmál | Breytt 9.10.2008 kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Geir. Þú þarft blaðafulltrúa, þó seint sé.
6.10.2008 | 13:55
Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að gerast PR-ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í fjarska og beina til forsætisráðherra eindregnum tilmælum: Fáið ykkur upplýsingafulltrúa. Strax.
Þjóðin á ekki að horfa upp á ráðamenn landsins misvel til hafða og þreytulega þar sem þeir ganga inn og út af fundum - eða standa útundir húsveggjum í ýmsum veðrum að verjast frétta og tjá sig í sem óræðustum orðum um stöðu mála. Það er ekki sérlega traustvekjandi þegar forsætisráðherra hrekst hálfpartinn upp að vegg undan hljóðnemaskóginum sem otað er að honum - og á ekki einu sinni fyrsta orðið, loks þegar hann kemur út af fundi til að tala við fréttamenn, eins og í gærkvöldi.
Því meira sem vinnuálagið er og þreytan, því ríkari áhersla er til að skapa vinnufrið og skipulag á upplýsingagjöf.
Upplýsingafulltrúi myndi koma fram til fréttamanna á tveggja tíma fresti - við aðstæður sem þessar - og gefa upplýsingar. Létta á spennunni með því að tala við fréttamenn. Segja frá því við hverja sé verið að ræða, hverjir séu væntanlegir til fundar næst, hvenær búast megi við yfirlýsingu frá ráðamönnum og hvar sá blaðamannafundur verði haldinn. Forsætisráðherra á síðan að koma með yfirlýsingu þegar hann er tilbúinn - vera öruggur í fasi, skýr í máli OG eiga fyrsta og síðasta orðið. Þess á milli þarf hann að hafa vinnufrið.
Þetta gera menn á betri bæjum erlendis, til dæmis í Hvíta húsinu þangað sem ég hef verið svo fræg að koma og sitja fréttamannafundi um nokkurra daga skeið fyrir margt löngu. Þar eru haldnir reglulegir upplýsingafundir til fréttamanna - síðan koma kanónurnar sjálfar þegar mál liggja ljós fyrir.
Ágæta ríkisstjórn: Fáið einhvern til liðs við ykkur í þetta verkefni. Strax.
Alvarlegri en talið var | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laufið titrar - loga strá
5.10.2008 | 10:03
Við Ísfirðingar erum í alveg sérstöku sambandi við sólina - ástæðan er sú að sólskin er meðal þeirra lífsgæða sem okkur eru takmörkuð. Sólin hverfur héðan úr Skutulsfirðinum síðari hluta Nóvembermánaðar og kemur ekki aftur fyrr en 25. Janúar. Þess vegna kunnum við að meta sólina - höldum henni sérstaka sólrisuhátíð þegar hún birtist á nýju ári - vegsömum hana.
Síðustu daga hefur lítið sést til sólar. En í gær, braust hún skyndilega fram úr skýjum. Það var svo undarlega gott að finna fyrir geislum hennar í haustlogninu - finna nærveru hennar, og minnast þess að hún er alltaf á sínum stað, jafnvel þó maður sjái hana ekki fyrir fjöllum og skýjabólstrum.
Og þar sem ég gekk milli kjarrgreina inni í Tunguskógi í gær, og virti fyrir mér litadýrð haustsins í sólskininu, rifjaðist upp fyrir mér vísukorn sem ég einhverntíma orti við álíka aðstæður:
Laufið titrar, loga strá
lyngs á rjóðum armi.
Hneigir sólin höfga brá
að hafsins gyllta barmi.
Myndina hér fyrir ofan fékk ég á bloggsíðu Ásthildar Cecil Þórðardóttur, bloggvinkonu minnar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Nú er ráðskonurass á minni
4.10.2008 | 13:56
Í gær setti ég frystikistuna í samband í fyrsta skipti í fjögur ár. Já, hún hefur blessunin fengið að sofa þyrnirósarsvefni í geymslunni hjá mér allan þann tíma.
Þar sem ég síðar um daginn raðaði í kistuna og skápana hjá mér slátri, súpukjöti, mjölvöru, sykri og fleiru sem möl og ryð fá að vísu grandað seint um síðir, en geymist engu að síður vel við góð skilyrði í frosti og köldum búrgeymslum - þá upplifði ég gamla og næstum gleymda tilfinningu frá því ég var með fullt hús af börnum, efnalítill námsmaður. Það er þessi djúpa, frumstæða þægindatilfinning sem fylgir því að hlaða forðabúrið fyrir veturinn og vita af mat á heimilinu.
Þetta gerði ég árum saman meðan börnin voru lítil. Þá var tekið slátur á hverju hausti og hlaðið niður heilu og hálfu skrokkunum af spaðkjöti, soðinni kæfu, rabarbarasultu og berjasaft. Á haustin keypti maður inn mjölvöru og sykur - bakaði svo og matreiddi til vetrarins. Svo dró maður fram prjónana og prjónaði hosur, vettlinga, húfur, trefla og peysur af hagsýnni vinnugleði.
Aldrei gleymi ég þó blessuðu litla folaldinu sem varð búbjörg fjölskyldunnar eitt haustið á mínum fátækustu námsárum.
Ég hef aldrei getað borðað hrossakjöt að neinu gagni - enda hef ég hingað til átt hross að reiðskjótum og félögum. En þarna bjuggum við fimm í 36 fermetra íbúð á stúdentagörðum. Við vorum við svo blönk, ungu hjónin, að ég þáði kjöt af nýslátruðu folaldi.
Það barst barst mér í svörtum plastpoka skömmu síðar - svo nýslátrað að það rauk upp úr pokanum þegar ég opnaði hann. Mig sundlaði af velgju - enda ófrísk að fjórða barni og frekar klígjugjörn. Í fyrsta skipti á ævinni féllust mér hendur - og það gerist nú ekki oft.
Grátandi tók ég upp símann og hringdi í mömmu. Hún brást mér ekki. Tók við öllu kjötinu heim til sín, breytti sínu eigin eldhúsi í kjötvinnslu, söng og trallaði fram eftir degi á meðan hún hjó í spað, hakkaði, snyrti og matbjó kjötið. Afhenti mér það svo fallega unnið daginn eftir með bros á vör, og saman komum við því fyrir í frystikistunni.
Þetta blessaða folald varð okkur mikil búbót. Það var matreitt í buff, steikur, gúllas og glás og var vitanlega herramannsmatur að flestra áliti.
En húsmóðirin sagði fátt: Settist að matborði. Hugsaði um litla barnið í móðurkviði sem þyrfti næringuna sína, og leyndi söltum tárum sem þrýstu sér fram í augnkrókana um leið og hún stakk gafflinum í safaríkan bita.
Æ - "það er saurlífi að matreiða hross!"
Góð hugmynd
4.10.2008 | 09:54
Það er góð hugmynd að nýta eignir lífeyrissjóðanna erlendis til þess að hlaupa undir bagga með íslenskum fjármálamarkaði. Fullyrt hefur verið að eignir lífeyrissjóðanna séu vel ríflega sú upphæð sem ríkið er að kaupa á 75% hlut í Glitni. Ef lífeyrissjóðirnir myndu losa þessar eigur sínar erlendis fengist væn gjaldeyrisinnspýting í hagkerfið.
Þessari hugmynd var komið á framfæri í athugasemd hér á síðunni hjá mér í fyrradag (sjá hér) og hún síðan rökstudd betur á bloggsíðu Benónýs Jónssonar (sjá hér).
Það er gaman að sjá að þeir sem hafa blandað sér í bloggumræðuna að undanförnu - meðal annars hér á síðunni minni - skuli hafa fingurinn á púlsinum og vera svo vel í takt við hugleiðingar og ráðgjöf málsmetandi aðila þessa dagana.
Mætt snemma til funda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 5.10.2008 kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
Fellur stjórnin líka?
3.10.2008 | 18:04
Fellur gengi, fellur náð,
fellur kusk á ríka.
Falla lauf og fimbulráð.
Fellur stjórnin líka?
Orðrómur um yfirvofandi stjórnarslit er ekki til þess fallinn að róa mann eins og á stendur. Nóg er nú samt.
Best að anda núna í gegnum aðra nösina og út um hina - eins og í jóganu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bíddu við ... ??
3.10.2008 | 15:11
Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann hvetur alla hluthafa til að samþykkja boð íslenska ríkisins um kaup á 75% hlut í bankanum - og fagnar nú ummælum forsætisráðherra og Seðlabankastjóra um að hag viðskiptamanna Glitnis verði borgið þar með.
Er þetta örugglega sami Þorsteinn Már og sá sem ég sá í Kastljósi fyrir fáum dögjum titrandi af bræði yfir því að ríkið skyldi hafa lýst vilja til að kaupa bróðurpartinn í Glitni? Þá talaði hann um "mistök lífs síns" að hafa gengið á fund Seðlabankans - eða var Kastljóssviðtalið kannski mistök?
Þorsteinn Már hefur kannski verið vansvefta þann daginn - en þessi kúvending er vægast sagt furðuleg.
Það er eitthvað á bak við þetta.
Hvetur hluthafa Glitnis til að samþykkja tilboð ríkisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Smellin vísa um síðustu atburði
3.10.2008 | 10:33
Hárfínt sagan hefur breyst
hún er oss í fersku minni,
en Davíð kanske gekk full geyst
frá Golíat að þessu sinni.
Þessa vísu fékk ég senda í tölvupósti í morgun - höfundur vill ekki láta nafn síns getið, en hún mun vera ættuð frá Egilsstöðum. Sel það ekki dýrara en ég keypti.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Smjörklípa Davíðs: Þjóðstjórnin!
2.10.2008 | 16:49
Nú, þegar Davíð Oddsson Seðlabankastjóri situr undir vaxandi ámæli fyrir yfirsjónir og hagstjórnarmistök Seðlabankans í alvarlegu árferði - skellir hann smjörklípu á nefið á fjölmiðlum til þess að drepa umræðunni á dreif. Sem við var að búast. Smjörklípan að þessu sinni er: Þjóðstjórn!
Takið eftir því að þetta er ekki einu sinni haft eftir honum beint - ó, nei. Hann á að hafa andað þessu út úr sér á lokuðum fundi. Tvisvar! Spunameistararnir hvísla þessu hljóðlega í eyru fjölmiðlamanna og álitsgjafa - og eitt augnablik eru tekin andköf! Tvisvar í sömu vikunni? Þjóðstjórn!
Hægan, hægan. Davíð er ekki lengur forsætisráðherra. Skoðanir hans á þjóðmálum eru okkur óviðkomandi. Við höfum stjórnvöld með styrkan meirihluta til þess að stýra þjóðarskútunni - Davíð á að standa vaktina í Seðlabankanum. Hann á meðal annars að gæta að gjaldeyrisinnstreyminu - súrefni efnahagslífsins. Hefur Davíð verið að gera þetta?
Nei - eins og menn hafa bent á síðustu daga, þá hefur Seðlabankinn ekki hirt um að gera gjaldeyrisskiptasamninga eins og seðlabankar annarra Norðurlanda, hafa gert. Hann missti af þeirri lest, virðist vera, og hefur ekki sinnt þeirri skyldu sinni að styrkja gjaldeyrisvaraforðann nægjanlega. Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins skýtur föstum skotum á Davíð fyrir þetta í dag.
Hagfræðiprófessorinn Þorvaldur Gylfason er ómyrkur í máli í grein í sama blaði, þar sem hann segir Sjálfstæðisflokkinn vera eins og uppstoppaðan hund í bandi Seðalbankastjórans.
Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins vandar Davíð ekki kveðjurnar á bloggsíðu sinni: Það er við völd í landinu ríkisstjórn með mikinn meirihluta. Aftur á móti eru við völd menn í Seðlabankanum sem mótuðu þá efnahagsstjórn sem við búum við," segir Guðmundur réttilega.
Ljóst er að ráðherrum ríkisstjórnarinnar er lítið um þessar meiningar Davíðs gefið. Það var til dæmis auðheyrt á Össuri í hádegisútvarpinu að honum er ekki skemmt, ekkert frekar en menntamálaráðherra sem líka hefur tjáð sig um málið.
Og lái þeim hver sem vill: Nóg er nú samt að Davíð skuli hafa sest undir stýri með forsætisráðherrann í framsætinu hjá sér og fjármálaráðherrann í aftursætinu á sunnudagskvöldið. Sú ógleymanlega sjón er nokkuð sem spunameistararnir munu illa fá við ráðið í bráð.
Þannig, að það mátti reyna að skella fram hugmyndum um þjóðstjórn. Aldrei að vita nema kötturinn myndi gleyma sér við smjörklípuna.
En það mun ekki gerast að þessu sinni. Stjórn landsins er með styrkan meirihluta manna sem eru að gera það sem þeir geta til að halda þjóðarskútunni á floti - í samráði við formenn þingflokka eftir því sem efni eru til hverju sinni. Þeirra hlutverk er að stjórna landinu.
Davíð væri nær að standa vaktina sem Seðlabankastjóri - og halda vöku sinni betur en verið hefur.
Seðlabankastjóri viðrar hugmynd um þjóðstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)