Færsluflokkur: Fjölmiðlar
Morgunblaðseggjum kastað
24.9.2009 | 12:40
Sé þetta rétt, sem fullyrt er á visir.is um uppsagnirnar á Morgunblaðinu, þá er nú verið að segja upp mörgum af bestu og tryggustu starfsmönnum blaðsins í gegnum tíðina.
Það er óneitanlega undarleg tilfinning að sjá þarna nöfn starfsmanna sem hafa fylgt Mogganum í áratugi, verið málsvarar blaðsins og einhvern veginn órjúfanlegur hluti þess: Hér erum við að tala um kanónur á borð við Freystein Jóhannesson, Björn Vigni, Árna Jörgensen o.fl. Morgunblaðsegg sem stundum hafa verið nefnd svo.
Það hefur hingað til ekki vafist fyrir væntanlegum ritstjóra Morgunblaðsins að skilja hafra frá sauðum í sínum liðsveitum - eins og sannast núna. Trúlega leggur hann þó eitthvað annað til grundvallar við skilgreiningu á því hvað séu hafrar og hvað sauðir, en fjölmiðlareynslu og gæði blaðamennsku einvörðungu.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Klisjukennd mynd um undarlegt fólk undir jökli
22.9.2009 | 23:14
Fór að sjá tvær myndir á kvikmyndahátíðinni í Háskólabíói í kvöld. Stuttmyndina Melt (Bráðnun) sem er sannkallað listaverk, myndatakan, tónlistin og hugmyndin. Falleg og sterk upplifun.
Seinni myndin var ekki jafn heilsteypt: Dularmögn Snæfellsjökuls eftir franskan höfund - hvers nafn ég ekki man.
Myndin er klisjukennt safn af frásögnum fólks um dularreynslu sína í námunda við jökulinn. Hún er tekin í þoku. Jökullinn sjálfur sést aldrei nema sem málverk, teikning eða ljósmynd, og því augljóst að kvikmyndagerðarmennirnir hafa ekki tafið lengi á Snæfellsnesinu - a.m.k. ekki nógu lengi til þess að jökullinn hreinsaði af sér. Inn á milli frásagna af orku jökulsins og huldum vættum hans voru leikin undarlega uppstillt tónlistaratriði sem áttu að magna upp einhverja tilfinningu fyrir menningarrótum þessarar furðulegu þjóðar sem myndin sýndi - en stungu í stúf við allt annað.
Útlendingar sem sjá þessa mynd sannfærast um að Íslendingar séu stórundarlegt fólk sem sjái huldar vættir í stokkum og steinum, trúi staðfastlega á geimverur, og syngi framandlega fimmundarsöngva í tíma og ótíma, gjarnan íklætt síðum kuflum með ennisband um höfuð, berjandi skinntrommur í flæðarmáli eða inni í helli, milli þess sem þeir undirbúa heimsóknir geimvera eða knýja á kletta og steina í von um að upp lokið verði fyrir þeim.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Vettvangur dagsins: AGS, hagsmunatengslin, stjórnmálaástandið og gagnavinnsla Jóns Jósefs
20.9.2009 | 15:55
Staða stjórnmálanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, uppgjörið við hrunið, hagsmunatengsl viðskiptalífsins, ritstjóraskiptin á Morgunblaðinu - þetta var til umræðu á "vettvangi dagsins" í Silfri Egils í dag. Þar skiptumst við á skoðunum, Árni Snævarr, Agnes Bragadóttir, Andri Geir Arinbjarnarson og ég.
Áhugasamir geta horft og hlustað hér.
Á eftir var fjallað um sættir þær sem náðst hafa milli milli ríkisskattstjóraembættisins og Jóns Jósefs Bjarnasonar eftir stórundarlega uppákomu sem varð vegna upplýsingaöflunar þess síðarnefnda um þau flóknu og fjölþættu viðskiptatengsl sem til staðar eru í samfélagi okkar. Nú hafa náðst friðsamlegar málalyktir - ríkisskattstjóri hefur meira að segja beðið Jón Jósef afsökunar á upplýsingum sem fram komu í fréttatilkynningu um það þegar lokað var á aðgang Jóns að gögnunum (sbr. eldra blogg mitt um það mál).
Niðurstaða málsins er báðum málsaðilum til sóma. Þennan hluta þáttarins má sjá og heyra hér.
Það var einmitt ...
18.9.2009 | 19:09
... en er það nú ekki full djarft að tala um þriggja manna þingflokk sem "hreyfingu" ??
Hreyfingin verður til | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stiglitz mælir gegn almennum afskriftum
7.9.2009 | 10:36
Það var athyglisvert að hlusta á hagfræðiprófessorinn og Nóbels- verðlaunahafann Joseph Stiglitz í Silfrinu í gær. Þessi hagfræðingur er maður að mínu skapi. Sérstaklega þótti mér athyglisvert það sem hann sagði um afskriftir skulda - þegar hann benti á að almennar afskriftir skulda fela ekki í sér neitt réttlæti, þar sem þeir eru þá lagðir að jöfnu, auðmaðurinn og stórfyrirtækið sem voru í ofurskuldsetningunni annarsvegar, og hinsvegar Jóninn og Gunnan sem tóku íbúðalánið.
Ég hef áður bloggað um þetta mál á sömu nótum og Stiglitz talaði Silfrinu í gær. Flest bendir til þess að flöt niðurfærsla lána - almenn aðgerð - myndi fela í sér gífurlega eignatilfærslu frá einstaklingum til stórskuldugra fyrirtækja. Við værum jafnvel að tala um mestu eignatilfærslu af því tagi sem um getur.
Niðurfærsla lána hjá þeim sem helst þurfa á því að halda er annað mál. Sé tekið mið af greiðslugetu fólks þannig að niðurfærslan nýtist þar sem hennar er helst þörf, þá horfir málið öðruvísi við. Sú hugmynd sem Þórólfur Matthíasson hagfræðingur hefur sett fram um afkomutengingu lána, er í þeim anda, og ég tel að þá leið beri að skoða vel, eins og ég bloggaði um fyrir stuttu. Afkomutengin lána hefur þann kost að vera almenn aðgerð sem þó tekur tillit til greiðslugetu og afkomu skuldarans.
Jöfnuður felst ekki endilega í því að allir fái "eins" - heldur að hver og einn fái það sem hann þarfnast.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Egill yrkir ljóð
30.8.2009 | 23:23
Ljóð dagsins á Egill Helgason - það birtist á bloggsíðu hans í dag og er svohljóðandi:
Hvítur flötur
Að sitja hjá í Icesave málinu er eins og að vera beðinn um að mála mynd og skila auðum striga.
Daginn eftir er svo hafist handa við að túlka myndina út og suður.
Sem er ekkert nema hvítur flötur.
-----------------------
Ég hefði ekki getað orðað þetta betur - og erum við Egill þó tæpast sammála í Icesave málinu.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Orkuverðmæti á brunaútsölu
22.8.2009 | 15:10
Það er fróðlegt að bera saman kauptilboð Magma Energy á þriðjungshlut í HS Orku við eldri samninga fyrirtækisins við önnur orkufyrirtæki. Magma hefur gert tvo samninga í Oregon og Nevada í Bandaríkjunum sem eru aðeins til tíu ára (í stað 65 ára skv. tilboðinu í HS Orku) ) með möguleika á tíu ára framlengingu (í stað 65 ára framlengingar hjá HS Orku). Fyrstu tíu árin þarf að greiða auðlindagjald sem nemur 1,75 prósenti af heildartekjum af raforkusölu og eftir tíu ár 3,5 prósentum (sjá hér).
Fréttablaðið greinir frá því í dag að Magma ætli að fjármagna 70% kaupverðsins með kúluláni frá Orkuveitunni til sjö ára með 1,5 % vöxtum og veði í bréfunum sjálfum.
Mér finnst þetta ekki koma til greina. Ef rökin fyrir því að semja við Magma Energy eru þau að okkur vanti erlent fjármagn - þá er degin ljósara að þau rök halda ekki í þessu tilviki. Hér er ekkert erlent fjármagn sem neinu nemur. Hér er einfaldlega stórfyrirtæki að reyna að ná undir sig verðmætum nýtingarrétti auðlindar á brunaútsölu - og nýtir sér í því skyni erfiða stöðu sveitarfélags og þjóðar í kreppu.
Hætt er við að fleira af þessu tagi geti átt sér stað í þeim efnahagsaðstæðum sem við búum við núna. Við Íslendingar verðum að halda fast og vel utan um auðlindir okkar og láta ekki glepjast í tímabundnum fjárþrengingum til þess að selja ómetanleg verðmæti frá okkur, síst með afarkostum.
Ég vona að fjármálaráðherra takist með einhverjum ráðum að stöðva það sem þarna er að eiga sér stað.
Afneitun og ósvífni
20.8.2009 | 12:10
Því miður virðist ljóst að þeir sem stjórnuðu íslensku fjármálakerfi fyrir hrun -- hverjir enn eru sumir við stjórnvölinn og/eða virkir í opinberri umræðu -- hafa lítið lært.
Hugmyndir stjórnenda Straums-Burðaráss um bónusgreiðslur í samræmi við endurheimtur á eignum bankans á næstu fimm árum, er eitt talandi dæmi. Þar er um að ræða greiðslur frá 2,7 milljörðum og upp í tæpa 10 milljarða, eða 222 milljónir á hvern starfsmann bankans, sem "áætlun" hefur verið gerð um. Ummæli forstjórans þess efnis að "um væri að ræða áætlun um árangurstengd laun" sem "utanaðkomandi lögfræðingar" hefðu sagt "í fullu samræmi við það sem gengur og gerist" bæta ekki úr skák.
Sú tíð þegar stjórnendur fjármálafyrirtækja fengu föst laun fyrir það eitt að draga andann, og svo bónusgreiðslur fyrir að vinna vinnuna sína - sú tíð á að heyra sögunni til. Að einhverjum skuli raunverulega koma til hugar að fara fram á "árangurstengd laun" við það að "hámarka verðmæti" þrotabús eftir fjármálahrun, það er blaut tuska í andlit allra þeirra sem nú hafa tekið á sig lífskjaraskerðingu og búsifjar fyrir tilverknað þessarar hugmyndafræði. Leiðari Moggans tekur ágætlega á þessu máli í dag.
Annað dæmi er forherðing Kjartans Gunnarssonar, fv. stjórnarformanns gamla Landsbankans - sem ótvírætt hlýtur að teljast gerandi í bankahruninu en lætur það þó ekki hindra sig í að veitast að fjármálaráðherra og ríkisstjórninni í þeim björgunaraðgerðum sem nú standa yfir. Jón Baldvin Hannibalsson tók Kjartan í nefið í snarpri Morgunblaðsgrein í gær, sem ég hvet alla til þess að lesa (m.a. hér).
Hversu langt getur sjálfsafneitun og forherðing eiginlega náð?
Að fyrrverandi stjórnarformaður gamla Landsbankans -- og fv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins sem innleiddi hér hugmyndafræði hinnar skefjalausu einkavinavæðingar sem olli ógæfu okkar -- skuli veitast að þeim sem nú standa í björgunaraðgerðum á vettvangi -- það er eiginlega meiri ósvífni en maður hefði að óreyndu gert sér í hugarlund.
Gleymum ekki á hvaða vettvangi við erum, íslensk þjóð. Við erum stödd í þrotabúi Sjálfstæðisflokksins og frjálshyggjuhugmyndafræði hans. Átökin í íslenskum stjórnmálum næstu misserin munu m.a. snúast um það hvernig gert verður upp við fortíðina, og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í núverandi stöðu.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Klækjastjórnmál og ráðaleysi - slæmur kokteill
10.8.2009 | 22:22
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur hefur vakið athygli á því að ef Icesave samningurinn verður felldur í þinginu þá sé skollin á alvarleg stjórnarkreppa í landinu. Þar með sé ljóst að forysta landsins geti í raun og veru ekki komið sér saman um það hvernig bregðast skuli við brýnasta lífshagsmunamáli þjóðarinnar eins og hann orðar það svo réttilega.
Á sama tíma hefur Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar látið í ljósi efasemdir um að þingmönnum í fjárlaganefnd sé raunverulega alvara í málinu, enda hefur nefndin nú haft það til meðferðar í 8 vikur án þess að lyktir hafi ráðist.
Já, það er þyngra en tárum taki að fylgjast með atburðarásinni í þinginu þessa dagana.
Og ekki er bætir fjölmiðlaumfjöllunin úr skák þar sem sérfræðingarnir eru eltir hver af öðrum í misvísandi fullyrðingum um túlkun og afleiðingar alls þessa fyrir land og þjóð. Sjálfstæð vinnubrögð fyrirfinnast varla, bara brugðist við yfirlýsingum þess sem hæst hefur hverju sinni.
Undir öllu þessu situr þjóðin, ráðvillt, agndofa og veit vart sitt rjúkandi ráð.
Klækjastjórnmál í bland við ráðaleysi - það er ekki kokteillinn sem þjóðin þarf á að halda um þessar mundir.
Við verðum að afgreiða þetta mál frá okkur eins og manneskjur.
Það er núna sem reynir á þingið, hvort það yfirleitt stendur undir nafni sem þjóðþing.
Það er núna sem reynir á ríkisstjórnina hvort hún er yfirleitt til staðar.
Og það er núna sem reynir á fjölmiðlana - hvort þeir rísa undir nafni sem "fjórða valdið".
------------------
PS: Ég mun hiklaust fjarlægja allar athugasemdir sem fela í sér ókurteisi , meiðandi ummæli, uppnefni eða órökstuddar ásakanir í garð nafngreindra manna eða fylgjenda tiltekinnna stjórnmálaflokka.
Ef ykkur leikur forvitni á að vita mína nálgun og afstöðu til þessa máls, þá getið þið kynnt ykkur það hér, hér, hér, hér og hér . Ég mun ekki svara spurningum að þessu sinni um efnisatriði sem hafa komið fram í mínum skrifum áður.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
Ekki erindi til almennings?
1.8.2009 | 19:52
"Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings telja að upplýsingar um viðskiptavini Kaupþings eigi ekki erindi til almennings og sé brot á þeirri vernd sem bankaleynd á að veita viðskiptamönnum. Mikilvægt er að traust og trúnaður ríki milli fjármálastofnana og viðskiptavina" segir í yfirlýsingu þessara sömu aðila til fjölmiðla.
Það er einmitt það "vernd" til viðskiptamanna, "traust og trúnaður"
Það vantar eitt inn í þessa jöfnu - það vantar traust og trúnað almennings gagnvart umræddum fjármálastofnunum.
Þær upplýsingar sem nú hafa verið lögbannaðar varða ekki eingöngu "viðskiptavini Kaupþings" heldur viðskiptaaðferðir bankans og þær eiga fullt erindi til almennings, að mínu viti.
Kaupþing fékk lögbann á RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |