Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
Aukið heilbrigðissamstarf á Vestur-Norðurlöndum
21.1.2013 | 13:53
Í afskekktu fámennu þorpi á Grænlandi - sem allt eins gæti verið hér á Íslandi - veikist barn skyndilega með vaxandi höfuðverk, uppköst og hækkandi hita. Það hafði verið að leika sér fyrr um daginn og í ærslum leiksins hafði það fallið fram fyrir sig og fengið kúlu á ennið. Er samhengi milli höfuðhöggsins og veikindanna, eða er barnið með umgangspestina sem er farin að stinga sér niður í byggðarlaginu? Barnið er flutt á næsta sjúkrahús í nálægu byggðarlagi þar sem hægt er að taka röntgenmynd af höfði þessi. En læknirinn er ungur og óreyndur, myndgæðin ekki þau bestu sem völ er á, og hann þarfnast sérfræðiálits. Með tilkomu tölvutækninnar á hann þess kost að senda myndina fjarstöddum sérfræðingum til nánari greiningar - vegalengdir skipta þá ekki máli, heldur reynir nú á gæði tölvusambandsins og gagnaflutningagetuna. Enn fremur reynir á það hvort lagaumhverfi viðkomandi sjúkrastofnana heimilar slíka gaqnaflutninga og gagnvirka upplýsingagjöf, jafnvel á milli landa.
Þetta er eitt dæmi af mörgum hugsanlegum um gagnsemi þess að auka heilbrigðissamstarf á Vestur-Norðurlöndum, ekki aðeins á sviði fjarlækninga, líkt og í dæminu hér fyrir ofan, heldur einnig á sviði sjúkraflutninga, þjálfunar starfsfólks eða innkaupa á dýrum búnaði eða lyfjum sem stórar stofnanir gætu sameinast um og náð þannig niður kostnaði. Málið snýst um gagnsemi þess að taka upp aukið heilbrigðissamstarf milli landa og stofnana - að auka heilbrigðisþjónustu með samlegð og samstarfi en lækka um leið tilkostnaðinn eftir föngum.
Þetta var umfjöllunarefni nýafstaðinnar þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem fram fór á Ísafirði 14.-17. janúar síðastliðinn. Þangað mættu um 40 vestnorrænir og norskir stjórnmála-, háskóla- og fræðimenn til að ræða samstarfsmöguleika milli Íslands, Grænlands og Færeyja í heilbrigðiskerfi Vestur-Norðurlanda.
Markmið ráðstefnunnar var að veita innsýn í heilbrigðiskerfi vestnorrænu landanna þriggja, á hvaða hátt þau eru ólík og greina hvaða vandamálum þau standa frammi fyrir auk þess að rannsaka hvaða tækifæri felist í auknu samstarfi landanna. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru ráðherrar heilbrigðismála auk sérfræðinga og stjórnenda í heilbrigðisstofnunum landanna þriggja.
Meðal umræðuefna var hvort hægt sé að skapa sameiginlegan heilbrigðismarkað á svæðinu þar sem hvert land sérhæfir sig í ákveðnum hlutum og þjónusti allt svæðið.
Þrýstingur á hagkvæmni í rekstri heilbrigðiskerfa á Vesturlöndum eykst ár frá ári. Samhliða gera íbúar í velferðarsamfélögum kröfu um góða og skilvirka heilbrigðisþjónustu. Eftir því sem þrýstingurinn á sparnað verður meiri samhliða kröfum um bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á, hljóta stjórnmálamenn og fagfólk í okkar heimshluta að velta fyrir sér möguleikum þess að auka hagkvæmni reksturs heilbrigðiskerfa. Á þetta sérstaklega við um fámenn lönd þar sem tilkostnaður við sómasamlega heilbrigðisþjónustu er tiltölulega mikill en þörfin á auknu öryggi þjónustunnar jafnframt brýn.
Er skemmst frá því að segja að ráðstefnan tókst í alla staði vel. Þarna gafst kærkomið tækifæri fyrir pólitískt og faglegt samráð þar sem allir hlutaðeigandi leiddu fram hugðarefni sín, skiptust á hugmyndum og reyndu að finna lausnarfleti. Af framsöguerindum og þeim umræðum sem sköpuðust má glöggt ráða að sóknarfærin eru mörg og vilji meðal fagfólks og stjórnmálamanna að nýta þau sem best. Fundarmenn voru á einu máli um að miklir möguleikar felist í því að efla enn frekar en orðið er samstarf landanna á þessu sviði til hagsbóta fyrir íbúana ekki síður en opinber fjármál í löndunum þremur.Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvert rennur fiskveiðiauðlind okkar?
21.9.2009 | 11:21
20 milljarða skuldabréf með veði í íslenskum sjávarútvegi er nú komið í eigu Seðlabankans í Lúxemborg.
Þetta er ein birtingarmynd þess sem við er að eiga í þessari atvinnugrein sem á síðustu tveimur áratugum eða svo hefur byggst upp á framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kerfi sem er í eðli sínu óréttlátt og hefur haft í för með sér alvarlega atvinnu- og byggðaröskun víða. Kerfi þar sem verslað er með fiskveiðiauðlind þjóðarinnar eins og hvert annað skiptagóss.
Sjávarútvegsráðherra benti á það í útvarpinu í morgun að samkvæmt lögum mætti ekki veðsetja aflaheimildir "með beinum hætti". Auðveldlega má þó færa rök fyrir því að veðsetning "í íslenskum sjávarútvegi" þýði að kvótinn hafi þá verið veðsetturmeð óbeinum hætti.
Hvaða þýðingu hefur það í reynd ef íslensk sjávarútvegsfyrirtæki komast í hendur erlendra fyrirtækja? Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að arðurinn af nýtingu fiskveiðiheimildanna við landið komi í íslenska þjóðarbúið? Nákvæmlega enga.
Satt að segja held ég að þarna glitti rétt í toppinn á ísjakanum. Það er alvarleg og aðsteðjandi hætta á ferðinni þarna.
Eitt helsta stefnumál Samfylkingarinnar er að leiðrétta kvótakerfið og koma fiskveiðiauðlindinni í hendur þjóðarinnar á ný. Það verk má ekki dragast. Ef eitthvað er þyrfti að flýta því enn frekar en áformað er.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
Fiskveiðistjórnun þriggja landa
16.9.2009 | 20:13
Nýlega fjallaði ég hér um þau áform Vestnorræna ráðsins að taka sérstaklega fyrir fiskveiðistjórnunarkerfi Íslands, Færeyja og Grænlands á þemaráðstefnu ráðsins sem haldin verður á Sauðárkróki næsta sumar. Það vorum við Íslendingar sem lögðum til á ársfundi ráðsins í ágúst að sjónum yrði beint að fiskveiðistjórnun landanna sem hafa hvert sinn háttinn á í þessu efni. Grænlendingar og Íslendingar hafa kvótakerfi, en Grænland er auk þess með nokkuð viðamikinn fiskveiðisamning við Evrópusambandið. Færeyingar hentu sínu kvótakerfi og tóku upp sóknardagakerfi. Þeir fullyrða að þar með hafi kvótasvindl, brottkast og framhjálandanir horfið eins og dögg fyrir sólu.
Víst er að þjóðirnar þrjár geta lært margt hver af annarri og hugsanlega haft áhrif á stefnumótun ESB sem nú er að fara í endurskoðun á sinni fiskveiðistjórnunarstefnu.
Málið kom til tals Svæðisútvarpi Vestfjarða í gær (hlustið hér).
Og ef einhver skyldi nú hafa gaman af að lesa dönskuna mína þá er hér grein sem ég skrifaði á heimasíðu NORA um Vestnorræna samstarfið um þessar mundir.
Verði ykkur að góðu.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Samkeppnin um fólkið og fiskinn
5.9.2009 | 17:55
Þó að Ísland, Færeyjar og Grænland, liggi ekki þétt saman landfræðilega séð, eiga þau margt sameiginlegt. Þetta eru litlar" þjóðir í alþjóðlegum samanburði. Engu að síður eru þær ríkar að auðæfum til lands og sjávar.
Landfræðileg lega þeirra og sambærileg skilyrði í atvinnulífi og menningu gera að verkum að hagsmunir þjóðanna fara á margan hátt saman. Sömuleiðis þær ógnanir og áskoranir sem þær standa frammi fyrir. Má þar nefna auknar pólsiglingar sem skapa bæði tækifæri og hættur í norðurhöfum; vaxandi alþjóðavæðingu með miklum fólksflutningum milli landa og samkeppni um mannafla og atgervi.
Allar horfast þjóðirnar þrjár í augu við brottflutning ungs fólks sem leitar út fyrir landsteina eftir menntun, en skilar sér mis vel til baka. Allar eru þær miklar fiskveiðiþjóðir. Ekkert er því mikilvægara efnahagslífi þeirra en sjávarútvegurinn ... og mannauðurinn.
Vestnorræna ráðið - sem er pólitískur samstarfsvettvangur landanna þriggja - hélt í síðustu viku ársfund sinn í Færeyjum. Fundinn sóttu fulltrúar landsdeildanna þriggja sem skipaðar eru sex þingmönnum hver. Ég átti þess kost sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins að sitja fundinn. Ekki þarf að koma á óvart að sjávarútvegsmál og menntun voru þar í brennidepli.
Eining var um það á ársfundinum að tryggja beri aukið samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði menntamála. Var meðal annars samþykkt ða hvetja ríkisstjórnirnar til að koma á samstarfi milli menntastofnana um nemendaskipti milli mennta- og fjölbrautaskóla í löndunum þremur.
Fundurinn hvatti menntamálaráðherra landanna til að koma á tilraunaverkefni milli landanna um fjarnám. Einnig var samþykkt tillaga Íslands um að efla samstarf um bóklegt og starfstengt nám, m.a. iðn- og verkmenntir fyrir ófaglært starfsfólk í löndunum. Lögðum við til sérstakt tilraunaverkefni tiltekinna menntastofnana í þessu skyni í þeim tilgangi að hvetja þá sem ekki hafa stundað framhaldsnám til að auka á þekkingu sína svo þeir verði betur búnir undir hugsanlegar breytingar á atvinnumarkaði. Hafa Menntaskólinn á Ísafirði og Fræðslumiðstöð Vestfjarða lýst sig reiðubúin til að taka þátt í verkefninu af Íslands hálfu.
Þessi áhersla á samstarf í menntamálum er ekki að ófyrirsynju. Aldrei fyrr hafa þjóðirnar þrjár þurft svo mjög á því að halda að standast samanburð við umheiminn - standast samkeppnina um unga fólkið og þar með framtíðarbyggð landanna. Samkeppnin um unga fólkið veltur ekki hvað síst á möguleikum þess til menntunar og framtíðaratvinnu. Efnahagslegar stoðir undir hvort tveggja er sjávarútvegurinn í þessum löndum - en sjávarútvegsmál voru annað aðalumfjöllunarefni ársfundarins.
Þingfulltrúar ársfundarins beindu sjónum að þörfinni fyrir aukið samstarf milli landanna á sviði sjávarútvegs. Annars vegar varðandi rannsóknir á ástandi fiskistofna og sjávarspendýra á norðlægum slóðum, sem ráðið hefur ályktað um áður. Hins vegar að hagnýtingu fiskistofnanna og fiskveiðistjórnun landanna. Í ályktun fundarins var því beint til sjávarútvegsráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands að láta gera nákvæma úttekt á því samstarfi sem löndin eiga með sér um bæði rannsóknir á lifandi auðlindum hafsins og um stjórnun fiskveiða, ekki síst varðandi deilistofna.
Jafnframt var samþykkt - að frumkvæði okkar Íslendinga - að þemarástefna ráðsins næsta ár skyldi helguð samanburði á mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfum Íslands, Grænlands og Færeyja. Umrædd þemaráðstefna er undirbúningur fyrir ársfund Vestnorræna ráðsins 2010 og verður hún haldin á Sauðárkróki í byrjun júní næsta sumar. Þar er ætlunin að kryfja fiskveiðistjórnunarkerfi landanna og meta kosti þeirra og galla. Sú umræða er tímabær á þessum vettvangi, nú þegar við Íslendingar stöndum frammi fyrir endurskipulagningu okkar eigin fiskveiðistjórnunarkerfis. Grænlendingar hafa sömuleiðis ýmis vandamál að kljást við í sínu kerfi. Þar er m.a. um að ræða ágreining vegna fiskveiðasamningsins við ESB - en þannig vill til að ESB er einnig að endurskoða eigin fiskveiðistjórnunarstefnu. Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um fiskveiðistjórnun gæti því orðið innlegg í þá stefnumótun, ef vel er á málum haldið.
Það var lærdómsríkt að sitja þennan ársfund Vestnorræna ráðsins og upplifa þá vináttu og samkennd sem ríkir milli þjóðanna þriggja. Víst er að þessar þjóðir þurfa að standa saman um þá hagsmuni og gagnvart þeim hættum sem steðja að fámennum samfélögum á norðlægum slóðum.
Fiskurinn og fólkið eru verðmætustu auðlindir okkar - og Vestnorrænu löndin eiga í samkeppni við umheiminn um hvort tveggja.
----------------
PS: Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Klækjastjórnmál og ráðaleysi - slæmur kokteill
10.8.2009 | 22:22
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur hefur vakið athygli á því að ef Icesave samningurinn verður felldur í þinginu þá sé skollin á alvarleg stjórnarkreppa í landinu. Þar með sé ljóst að forysta landsins geti í raun og veru ekki komið sér saman um það hvernig bregðast skuli við brýnasta lífshagsmunamáli þjóðarinnar eins og hann orðar það svo réttilega.
Á sama tíma hefur Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar látið í ljósi efasemdir um að þingmönnum í fjárlaganefnd sé raunverulega alvara í málinu, enda hefur nefndin nú haft það til meðferðar í 8 vikur án þess að lyktir hafi ráðist.
Já, það er þyngra en tárum taki að fylgjast með atburðarásinni í þinginu þessa dagana.
Og ekki er bætir fjölmiðlaumfjöllunin úr skák þar sem sérfræðingarnir eru eltir hver af öðrum í misvísandi fullyrðingum um túlkun og afleiðingar alls þessa fyrir land og þjóð. Sjálfstæð vinnubrögð fyrirfinnast varla, bara brugðist við yfirlýsingum þess sem hæst hefur hverju sinni.
Undir öllu þessu situr þjóðin, ráðvillt, agndofa og veit vart sitt rjúkandi ráð.
Klækjastjórnmál í bland við ráðaleysi - það er ekki kokteillinn sem þjóðin þarf á að halda um þessar mundir.
Við verðum að afgreiða þetta mál frá okkur eins og manneskjur.
Það er núna sem reynir á þingið, hvort það yfirleitt stendur undir nafni sem þjóðþing.
Það er núna sem reynir á ríkisstjórnina hvort hún er yfirleitt til staðar.
Og það er núna sem reynir á fjölmiðlana - hvort þeir rísa undir nafni sem "fjórða valdið".
------------------
PS: Ég mun hiklaust fjarlægja allar athugasemdir sem fela í sér ókurteisi , meiðandi ummæli, uppnefni eða órökstuddar ásakanir í garð nafngreindra manna eða fylgjenda tiltekinnna stjórnmálaflokka.
Ef ykkur leikur forvitni á að vita mína nálgun og afstöðu til þessa máls, þá getið þið kynnt ykkur það hér, hér, hér, hér og hér . Ég mun ekki svara spurningum að þessu sinni um efnisatriði sem hafa komið fram í mínum skrifum áður.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
Hughrif af Grænlandi
7.8.2009 | 23:21
Hér koma nokkrar myndir sem ég tók í ferð minni til Grænlands. Þar varð ég fyrir sterkum hughrifum af ýmsu sem fyrir augu bar og gæti skrifað langt mál um það allt - ef ég væri ekki svona illa haldin af sjóriðu eftir siglinguna með herskipi hennar hátignar, sem nefnt er eftir Einari Mikjálssyni landkönnuði. Nánari frásögn bíður betri tíma, en myndir segja meira en mörg orð.
Hér sjáið þið hvernig sólin sest á bak við Grænlensku fjöllin - sem eru helmingi hærri en þau Íslensku, firðirnir margfalt lengri og dýpri ...
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Grænland næst á dagskrá
3.8.2009 | 23:21
Á morgun held ég af stað til Grænlands til að sitja þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin verður í Grønnedal á suðvesturströndinni og stendur í fjóra daga. Fyrst verður flogið til Narsarsuaq og þaðan siglt með dönsku herskipi til Gr ønnedal. Ráðstefnan er undirbúningur fyrir ársfund ráðsins í lok ágúst.
Það eru Ísland, Færeyjar og Grænland sem mynda vestnorræna ráðið (sjá www.vestnordisk.is). Löndin þrjú eru ekki aðeins tengd vináttuböndum, heldur eiga þjóðirnar margt sameiginlegt í samfélagslegum, pólitískum og sögulegum skilningi. Allar hafa þær lotið yfirráðum Dana til dæmis, og Grænland gerir að það ákveðnu leyti enn, þó landið hafi nú stigið mikilvæg skref í sjálfstæðisátt. Allt eru þetta strjálbýl lönd og tiltölulega fámenn þar sem sjávarútvegur í einni eða annarri mynd er drýgstur hluti atvinnulífs ásamt þjónustu og vaxandi ferðamannaiðnaði. Öll gætu löndin talist jaðarsvæði í einhverjum skilningi.
Vestnorræna ráðið beitir sér fyrir samstarfi milli landanna þriggja á þeim sviðum þar sem hagsmunir fara saman. Ráðið hefur t.d. ályktað um og hvatt til skipulegs samstarfs varðandi björgunar- og öryggismál á norðurslóð - nokkuð sem hefði þurft að vera komið á fyrir löngu, en hefur vaxandi þýðingu með aukinni umferð skipa og ferðafólks á þessu svæði.
Á þessari þemaráðstefnu verða menntamálin í brennidepli, líkt og oft áður, enda hefur ráðið beitt sér fyrir samstarfi milli landanna í þeim efnum - jafnt varðandi menntunarkosti sem og rannsóknir.
Ég fer í þessa ferð í embættiserindum, sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Hef ekki komið á þessar slóðir áður, og hlakka til ferðarinnar.
PS: Við undirbúning minn rakst ég á ágæta bloggfærslu Sivjar Friðleifsdóttur frá því í fyrra þar sem hún tínir saman nokkrar tölulegar staðreyndir um lífs- og samfélagshætti á Grænlandi (sjá hér).
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Orð Evu Joly
2.8.2009 | 13:12
Ég er undrandi á þeim orðum Hrannars B. Arnarsonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra, að Eva Joly eigi að halda sig við sín ráðgjafastörf fyrir sérstakan saksóknara en láta öðrum eftir efnahagsmálin. Þessi orð mætti allt eins heimfæra upp á Hrannar sjálfan - þ.e. að hann ætti að láta pólitíkusunum eftir að vinna sitt starf og sinna sjálfur þeim viðfangsefnum sem honum er trúað fyrir.
En við búum nú einu sinni í lýðfrjálsu landi þar sem málfrelsi ríkir. Fyrir það má þakka, að fleiri skuli almennt taka til máls um þjóðfélagsmál, en þeir einir sem til þess eru kjörnir eða ráðnir.
Eva Joly er kona með mikla yfirsýn og reynslu. Hún er vissulega stjórnmálamaður - nýkjörin sem þingmaður á Evrópuþinginu - og virðist eiga ýmislegt ósagt við ýmsa þar innan dyra, eins og grein hennar ber með sér. En skrif hennar eru umhugsunarefni, því "glöggt er gests augað" eins og þar stendur.
Ég tel mikils um vert að kynnst sjónarmiðum Evu Joly til bankahrunsins og stöðu okkar á alþjóðavettvangi. Ég verð að viðurkenna að ég er þungt hugsi yfir ákveðnum atriðum sem fram koma í grein hennar.
En hvort sem ég er sammála mati hennar á stöðunni eða ekki - og þó mér hafi áður fundist hún mætti bera sig öðruvísi að við að koma inn í umræðuna - þá er eitt alveg ljóst: Þessi kona stendur með okkur Íslendingum og vill vekja athygli á málstað okkar. Það gerir hún af einurð og ekki síður af hlýhug í garð þeirrar "grandvöru og elskulegu þjóðar" sem hún segir okkur vera.
Mér þótti vænt um að finna hugarþel hennar í okkar garð, og ég er sannfærð um að orð hennar eru betur sögð en ósögð.
-----------
PS: Loks langar mig að benda á ágæta greiningu Marðar Árnasonar á skrifum Joly.
Hrannar sendir Joly tóninn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 14:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
Þjóð í öngum
31.7.2009 | 12:42
Þjóðin er í öng.
Hvernig skyldi þeim vera innanbrjósts á þessari stundu formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, flokkanna sem bera höfuðábyrgð á því hvernig komið er, en láta eins og þeim komi afleiðingarnar ekki við? Ætla ekki að samþykkja Icesave samninginn "í núverandi mynd" eins og Bjarni Benediktsson orðaði það.
Vikum og mánuðum saman hafa þeir þvælst fyrir Ice-save samkomulaginu með öllum tiltækum ráðum og haldið málinu í gíslingu. Já, þeir hafa hagað sér eins og slökkviliðsstjórinn sem hefur verið rekinn en getur ekki unnt slökkviliðinu að vinna sitt verk, heldur skrúfar fyrir vatnið á brunahönunum, til þess að sýna fram á að hann hefði getað unnið verkið einhvernveginn öðruvísi. Á meðan brennur húsið.
Óliku er saman að jafna framgöngu þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar sem lagt hafa nótt við dag að bjarga því sem bjargað verður af því að þeim er annt um þjóðina (ekki bara flokkinn, eins og hinum tveimur). Þau hafa mátt róa á móti andófi og áróðursskrumi stjórnarandstöðunnar af ábyrgð og festu. Þau hafa jafnvel mátt kljást við ístöðuleysi ákveðinna stjórnarliða sem líftóran hefur verið hrædd úr.
Aldrei hafa þau þó gripið til sterkra orða eða lýðskrums. Þau svara hverri spurningu af háttvísi og alvöru. Aldrei hafa þau hlaupið í persónulegt orðaskak. Nei, þau hafa staðið eins og stólpar upp úr þessu umróti öllu, haldið stillingu sinni og yfirvegun eins og sannkallaðir leiðtogar. Það fróma orð myndi mér þó aldrei til hugar koma um þá félaga Bjarna Ben og Sigmund Davíð.
En nú er ljóst - sem við máttum vita - að Íslendingar hafa enga stöðu gagnvart öðrum þjóðum í augnablikinu. Við erum einfaldlega álitin ójafnaðarmenn í augum umheimsins: Þjóð sem ekki vill standa við skuldbindingar sínar; þjóð sem ekki er treystandi; þjóð sem ól af sér kynslóð fjárglæframanna, hannaði fyrir þá vettvang til að athafna sig á, þar sem þeir gátu látið greipar sópa um fjármálakerfið og narrað saklausan almenning til þess að leggja fé inn á reikninga, m.a. Icesave reikningana í Bretlandi og Hollandi.
Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra lýsti þvi yfir í haust að allir innistæðueigendur myndu fá greiddar innistæður sínar í íslenskum bönkum. Sú yfirlýsing var bindandi fyrir íslensk stjórnvöld. Halda menn virkilega að þau orð hafi aðeins getað gilt um suma en ekki aðra? Annað hvort eiga innistæðueigendur rétt á endurgreiðslum úr íslenskum bönkum eða ekki. Svo einfalt er það og skiptir engu hvort um er að ræða Íslendinga, Breta eða Hollendinga.
Málið snýst ekkert um það að "borga skuldir óreiðumanna" heldur að standa við alþjóðlegar og siðlegar skuldbindingar gagnvart innistæðueigendum í íslenskum bönkum.
Á meðan við ekki göngum frá Icesave samkomulaginu, fáum við enga aðstoð. Það erum við Íslendingar sem erum álitin óreiðumenn í augum umheimsins. Það vill enginn við okkur tala á meðan við sýnum engin merki þess að bæta ráð okkar.
Stjórnvöld halda í vonina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (70)
Ónákvæmni eða "hyldýpismisskilningur"
24.7.2009 | 19:08
Nýjasta útspilið í Ice-save umræðunni er fullyrðing lögmannsins Ragnars Hall um að Íslendingar hafi undirgengist að greiða "lögmannskostnað" fyrir Breta upp á tvo milljarða króna sem íslenska ríkið muni ábyrgjast samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar (sjá t.d. hér). Vísaði lögmaðurinn í sérstakan "uppgjörssamning" sem hann kvaðst að vísu ekki geta "lýst því nákvæmlega" í hverju fælist, en þar inni væru kröfur sem hann "hefði aldrei órað fyrir því að hægt væri að setja fram".
Þessi málfutningur lögmannsins varð fyrr í dag tilefni umræðna í þingsal, sem við mátti búast (sjá hér).
Í máli formanns fjárlaganefndar kom fram að skjalið sem hér um ræðir nefnist "Settlement Agreement" og er dagsett 5. júní 2009. Það er fyrsta skjalið í möppunni stóru með Ice-save skjölunum á þingloftinu.
Ég hafði upp á skjalinu og fann ákvæðið sem lögmaðurinn gerði að umtalsefni "án þess þó að geta lýst því nákvæmlega". Ákvæðið er í lið 3.1 og hljóðar svo:
FSCS [Financial Services Compensation Scheme Limited] may submit (on behalf of TIF [Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta] one Disbursement Request for £ 10.000.000 (ten million pounds) in respect of the costs incurred or to be incurred by FSCS in the handling and payment of compensation to depositors with the UK Branc and in dealing with related matters including, without limitation, recoveries and any disputes which may result.
Þetta ákvæði skil ég sem svo að Íslendingar fallist á að standa straum af tilfallandi kostnaði við umsýslu og afgreiðslu á endurgreiðslum til innistæðueigenda Ice-save reikninganna.
Í fljótu bragði virðist þetta því vera ofur eðlilegt ákvæði um að Íslendingar muni sjálfir standa straum af umstanginu við að endurgreiða viðskiptavinum Ice-save.
Nú hefur fjármálaráðherra staðfest þennan skilning - væntanlega að höfðu samráði við færustu lögfræðinga. Búast má við að ýmsum létti við það.
Um leið hlýtur ónákvæmni hæstaréttarlögmannsins að vekja umhugsun. Því miður er þetta ekki í fyrsta sinn sem Ragnar Hall gerist sekur um ónákvæmni sem skipt getur sköpum í málum sem hann hefur komið að (sbr. hér).
Ekki minnst á lögfræðikostnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)