Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Fréttir um að ekkert sé að frétta

Það er orðið hvimleitt að hlusta á fréttir dag eftir dag um að ekkert sé að frétta. Fréttamenn hanga eins og hálfgerðir papparazzar framan við stjórnarráð og ráðherrabústað, reka hljóðnemann upp í alla sem ganga þar um dyr, spyrjandi endalaust að sömu hlutum og fá endalaust sömu svör: Að það sé ekkert um málið að segja á þessu stigi - verið sé að vinna að lausnum.

Svo er því lýst í smáatriðum hvernig menn bera sig að við að stökkva út úr bílum, upp tröppur og inn í hús - svipbrigði þeirra .... úff! Tíu sinnum hef ég heyrt nú í vikunni að þessi eða hinn sé alvarlegur á svip.

Það á ekki að leggja fréttatímana undir þetta - hvað þá heldur misvitrar kenningar um það sem kannski gerist, og hvað hugsanlega muni koma fram, þar sem slegið er í og úr. Fréttatímar eiga greina okkur frá því sem gerist - ekki því sem kannski gerist, eða menn halda að muni gerast, eða menn vona að gerist. Í öllum bænum - hlífið okkur við þessu.

Svo finnst mér að fjölmiðlar mættu alveg fara að fækka öllum þessum dósentum, aðjúnktum og lektorum sem þeir eru að ræða við dag eftir dag núna. Það er vandstjórnað þegar raddir stjórnvalda kafna stöðugt í misvísandi upphrópunum misviturra álitsgjafa sem tala þvers og kruss - og á endanum veit almenningur ekki sitt rjúkandi ráð. Ekkert frekar en fjölmiðlarnir sem eru farnir að snúast í hringi með hljóðnema sína og myndavélar, eltandi fólk eins og illa vandir hundar.

Látum vera þó að í fréttatímum sé drepið á ígrundaðar kenningar um stöðu mála - en slíka vangaveltur eiga þó best heima í umræðu- og fréttaskýringaþáttum.

Annars hlustaði ég af athygli á Þorvald Gylfason í Silfri Egils núna áðan. Drakk í mig hvert orð sem hann sagði og er sammála honum að nánast öllu leyti (þó mér finnist hann draga full mikið úr lífeyrissjóðaleiðinni - en látum það vera).

Þorvaldur er hættur frýjunarorðum sínum um að Samfylkingin slíti stjórninni - það er ágætt.

Hinsvegar segir hann að ef ríkisstjórnin hafi ekki döngun í sér til þess að skipta um áhöfn í Seðlabankanum þá sé hún ekki starfi sínu vaxin.

Ég tek undir það.


mbl.is Allir róa í sömu átt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð hugmynd

Evra-AlvaranCom Það er góð hugmynd að nýta eignir lífeyrissjóðanna erlendis til þess að hlaupa undir bagga með íslenskum fjármálamarkaði. Fullyrt hefur verið að eignir lífeyrissjóðanna séu vel ríflega sú upphæð sem ríkið er að kaupa á 75% hlut í Glitni. Ef lífeyrissjóðirnir myndu losa þessar eigur sínar erlendis fengist væn gjaldeyrisinnspýting í hagkerfið.

Þessari hugmynd var komið á framfæri í athugasemd hér á síðunni hjá mér í fyrradag (sjá hér) og hún síðan rökstudd betur á bloggsíðu Benónýs Jónssonar (sjá hér).

Það er gaman að sjá að þeir sem hafa blandað sér í bloggumræðuna að undanförnu - meðal annars hér á síðunni minni - skuli hafa fingurinn á púlsinum og vera svo vel í takt við hugleiðingar og ráðgjöf málsmetandi aðila þessa dagana.


mbl.is Mætt snemma til funda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fellur stjórnin líka?

Fellur gengi, fellur náð,
fellur kusk á ríka.
Falla lauf og fimbulráð.
Fellur stjórnin líka?

Orðrómur um yfirvofandi stjórnarslit er ekki til þess fallinn að róa mann eins og á stendur. Nóg er nú samt.

Best að anda núna í gegnum aðra nösina og út um hina - eins og í jóganu.


Bíddu við ... ??

Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Glitnis, hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann hvetur alla hluthafa til að samþykkja boð íslenska ríkisins um kaup á 75% hlut í bankanum - og fagnar nú ummælum forsætisráðherra og Seðlabankastjóra um að hag viðskiptamanna Glitnis verði borgið þar með.

Er þetta örugglega sami Þorsteinn Már og sá sem ég sá í Kastljósi fyrir fáum dögjum titrandi af bræði yfir því að ríkið skyldi hafa lýst vilja til að kaupa bróðurpartinn í Glitni? Þá talaði hann um "mistök lífs síns" að hafa gengið á fund Seðlabankans - eða var Kastljóssviðtalið kannski mistök?

Þorsteinn Már hefur kannski verið vansvefta þann daginn - en þessi kúvending er vægast sagt furðuleg.

Það er eitthvað á bak við þetta. Errm


mbl.is Hvetur hluthafa Glitnis til að samþykkja tilboð ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldhúsdagsumræðurnar, óráðsjal um stjórnarslit og fleira fallegt

skidi-ReykjavikIs Ég er ein af þessum vel menntuðu, dugmiklu Íslendingum sem bý í ægifögru umhverfi - þessi sem þeir voru að tala um í eldhúsdagsumræðunni í kvöld. Mér skilst að ég - og við öll sem þessi lýsing á við um - séum von Íslands um þessar mundir.

Af hverju líður mér þá ekki eins og styrkri stoð? Crying Kannski vegna þess að ég hef ástæðu til að draga í efa að mannauðurinn í landinu fái notið sín við núverandi aðstæður. Það er alvarlegt atvinnuleysi yfirvofandi samhliða öðrum vandamálum. "Heimili landsins loga nú rafta á milli" sagði Guðni Ágústsson - eða heyrði ég það ekki rétt - í heimsósóma prédikuninni sem gekk með eldglæringum af munni hans núna áðan?

Já - staðan er vandasöm. Og ekki bætir úr skák að hlusta á æðrutal af þessu tagi. Það máttu þó aðrir þingmenn eiga, að þeir stilltu sig að mestu um skrum - allir nema Guðni. Hann tvinnaði saman hrakspám og svipuhöggum. Það er ekki góð blanda þegar hvetja þarf til dáða. Nei, Guðni minn.

Annars leið mér undir eldhúsdagsræðunum eins og það væri verið að tala til mín á stríðstímum. Og sú líking er ekki fjarri lagi - Kreppan er að skella á. Það er staðreynd, ekki kenning.

Þess vegna er það ekkert yfirborðstal að biðja menn um samhug og samstillt átak til að takast á við vandann. Oft var þörf, en nú er nauðsyn. Því furða ég mig hálfpartinn á því að  Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, skuli í alvöru leggja það til að Samfylkingin rjúfi ríkisstjórnina, knýi fram  kosningar eða myndi nýja stjórn strax með núverandi stjórnarandstöðu til þess að hægt verði að setja Davíð af sem Seðlabankastjóra.

Þetta er óráðshjal. Nóg er nú samt þó við bætum ekki stjórnleysi og ringulreið við þann vanda sem fyrir er.

Nei, nú verða menn að halda kúlinu.


Smjörklípa Davíðs: Þjóðstjórnin!

David60 Nú, þegar Davíð Oddsson Seðlabankastjóri situr undir vaxandi ámæli fyrir yfirsjónir og hagstjórnarmistök Seðlabankans í alvarlegu árferði - skellir hann smjörklípu á nefið á fjölmiðlum til þess að drepa umræðunni á dreif. Sem við var að búast. Smjörklípan að þessu sinni er: Þjóðstjórn!

Takið eftir því að þetta er ekki einu sinni haft eftir honum beint - ó, nei. Hann á að hafa andað þessu út úr sér á lokuðum fundi. Tvisvar! Spunameistararnir hvísla þessu hljóðlega í eyru fjölmiðlamanna og álitsgjafa - og eitt augnablik eru tekin andköf! Tvisvar í sömu vikunni? Þjóðstjórn!

Hægan, hægan. Davíð er ekki lengur forsætisráðherra. Skoðanir hans á þjóðmálum eru okkur óviðkomandi. Við höfum stjórnvöld með styrkan meirihluta til þess að stýra þjóðarskútunni - Davíð á að standa vaktina í Seðlabankanum. Hann á meðal annars að gæta að gjaldeyrisinnstreyminu - súrefni efnahagslífsins. Hefur Davíð verið að gera þetta?

Nei - eins og menn hafa bent á síðustu daga, þá hefur Seðlabankinn ekki hirt um að gera gjaldeyrisskiptasamninga eins og seðlabankar annarra Norðurlanda, hafa gert. Hann missti af þeirri lest, virðist vera, og hefur ekki sinnt þeirri skyldu sinni að styrkja gjaldeyrisvaraforðann nægjanlega. Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins skýtur föstum skotum á Davíð fyrir þetta í dag.

Hagfræðiprófessorinn Þorvaldur Gylfason er ómyrkur í máli í grein í sama blaði, þar sem hann segir Sjálfstæðisflokkinn vera eins og uppstoppaðan hund í bandi Seðalbankastjórans.

Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins vandar Davíð ekki kveðjurnar á bloggsíðu sinni:  „Það er við völd í landinu ríkisstjórn með mikinn meirihluta. Aftur á móti eru við völd menn í Seðlabankanum sem mótuðu þá efnahagsstjórn sem við búum við," segir Guðmundur réttilega.

Ljóst er að ráðherrum ríkisstjórnarinnar er lítið um þessar meiningar Davíðs gefið. Það var til dæmis auðheyrt á Össuri í hádegisútvarpinu að honum er ekki skemmt, ekkert frekar en menntamálaráðherra sem líka hefur tjáð sig um málið.

Og lái þeim hver sem vill: Nóg er nú samt að Davíð skuli hafa sest undir stýri með forsætisráðherrann í framsætinu hjá sér og fjármálaráðherrann í aftursætinu á sunnudagskvöldið. Sú ógleymanlega sjón er nokkuð sem spunameistararnir munu illa fá við ráðið í bráð.

Þannig, að það mátti reyna að skella fram hugmyndum um þjóðstjórn. Aldrei að vita nema kötturinn myndi gleyma sér við smjörklípuna.

En það mun ekki gerast að þessu sinni. Stjórn landsins er með styrkan meirihluta manna sem eru að gera það sem þeir geta til að halda þjóðarskútunni á floti - í samráði við formenn þingflokka eftir því sem efni eru til hverju sinni. Þeirra hlutverk er að stjórna landinu.

Davíð væri nær að standa vaktina sem Seðlabankastjóri - og halda vöku sinni betur en verið hefur.


mbl.is Seðlabankastjóri viðrar hugmynd um þjóðstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... þá voru flestir hvergi!

Nú þarf að bjarga heimilunum, og það strax - segir Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasmtakanna í grein sem hann skrifar á heimasíðu samtakanna. En mér kemur í hug vísan góða (og napra) eftir Friðrik Jónsson:

Heimsins brestur hjálparlið,
hugur skerst af ergi.
Þegar mest ég þurfti við
þá voru flestir hvergi.

Annars kann ég ekki glögg deili á höfundi vísunnar  - held þó að hann að þetta sé Friðrik Jónsson frá Halldórsstöðum í Reykjadal. Gaman væri að fá athugasemd frá einhverjum sem veit þetta.


mbl.is „Nú þarf að bjarga heimilunum og það strax“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í bróðurfaðmi - eða gini ljónsins?

DavidGeirMbl.is Vafalaust hafa runnið tvær grímur á marga sem horfðu á Kastljósið nú rétt í þessu. Viðtalið við Þorstein Má Baldvinsson stjórnarformann Glitnis fannst mér athyglisvert - einkum frásögn hans af aðdraganda ríkisyfirtökunnar á Glitni. Þorsteinn Már bað hluthafa Glitnis afsökunar á þeim "mistökum" sínum að hafa snúið sér til Seðlabankans með lausafjárvanda Glitnis.

Hluthafar urðu af hundruðum milljarða króna við yfirtökuna en ríkið gerði "dúndurkaup" eins og Pétur Blöndal orðaði það - keypti á genginu 1,80 á mánudagsmorgun. Þegar markaður lokaði í dag var verðið 4,50.

Glitnismenn standa titrandi af vanmáttugri reiði og telja sig hafa gengið í gin ljónsins. Það var jú stór lántaka Seðlabankans í Þýskalandi sem varð til þess að skrúfað var fyrir frekari lántökur þaðan til Glitnis, sem leiddi svo aftur til þess að þeir urðu að snúa sér til Seðlabankans um lánsfjármagn. "Stærstu mistök sem ég hef gert" sagði Þorsteinn Már.

Það snart mig undarlega að sjá manninn sitja i viðtalinu, fölan af stilltri, vanmáttugri bræði. Ég trúði honum - skildi einhvern veginn hvernig honum leið. Ábending hans um hugsanlegt vanhæfi Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, til að taka ákvarðanir um málefni Glitnis vegna fyrri samskipta hans og Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, er líka umhugsunarefni.

Nú velti ég því fyrir mér hvort ríkisstjórnin hafi verið ginnt í málinu - hafi hún á annað borð fjallað um það. Hvenær fjallaði ríkisstjórnin annars um málið - var það aðfararótt mánudags?

 "Davíð var við stýrið - Geir farþegi um borð" segir Valgerður Sverrisdóttir í beittri grein á heimasíðu sinni í dag. Hún er ekki bara að lýsa fréttamyndinni sem birtist af þeim félögum þegar þeir óku saman í einum bíl til fundarins örlagaríka - heldur hugsanlegri merkingu hennar.

Var myndin kannski táknrænni en mann hefði grunað í fyrstu?

Það er ýmsum spurningum ósvarað í þessu máli um aðdraganda kaupanna. Enn hefur ekki verið sýnt fram á að ákvörðun ríksins hafi verið röng - sjálf vil ég trúa því að hún hafi verið rétt. En stundum gerast réttir hlutir á röngum forsendum - og þá er ég að vísa til efasemda manna um hlutleysi Davíðs Oddssonar gagnvart Jóni Ásgeiri. Sú hugsun er óþægileg.

Svo mikið er víst að upplýsingarnar sem nú hafa verið bornar á borð gefa nokkuð aðra mynd en þá sem dregin var upp í fyrstu. Og það truflar mig.

ljónoglamb

mbl.is Sameining Glitnis og Landsbanka ólíkleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rán en ekki lán?

peningar Haustið 2005 keypti ég hús hér vestur á Ísafirði og tók af því tilefni 12 mkr lán á föstum 4,15% vöxtum út lánstímann. Greiðslubyrði lánsins var á þeim tíma 50 þús kr á mánuði.

Nú - þremur árum síðar - hef ég greitt um 1,8 mkr af þessu láni - en það hefur á sama tíma hækkað úr 12 mkr. í 14,5 mkr. Það er þriðjungi hærri upphæð en nemur afborgunum. 

Mánaðarleg afborgun hefur hækkað úr 50 þús í 64 þúsund kr.

Ég þori ekki að hugsa þá hugsun til enda, hvernig staðan verður eftir önnur tvö ár - ég tali nú ekki um tíu ár - ef áfram heldur sem horfir.

Þessi saga er sambærileg fjölmargra annarra sem hafa þurft að taka lán til að fjármagna fasteignakaup að undanförnu. Einn þeirra kemur fram í meðfylgjandi frétt í 24 stundum sem mbl gerir að umtalsefni í dag. Það hljóta allir að sjá hvílík hít blasir við þeim sem skulda hærri upphæðir - ég tala nú ekki um ef fólk hefur tekið lán með breytilegum vöxtum. Shocking

Mér er skapi næst að kalla þetta rán - en ekki lán.


mbl.is "Sem betur fer fór maður ekki til bankanna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú vandast málið: Hverjir eiga landið?

Bjarnarflag Landeigandi í Mývatnssveit hefur sótt um rannsóknarleyfi og forgang að nýtingu jarðvarmaorku á eignarlandi sínu. Hann vill reisa 50 megawatta virkjun. Nú vandast málið - jarðvarmaorkan er nefnilega ekki til skiptanna. Það er búið að taka hana frá handa Landsvirkjun. Og eins og iðnaðarráðherra bendir á þá er "ekki hægt að fara með neinni rányrkju gagnvart jarðhitanum" því það verða "ekki meira en 90 megavött miðað við þær rannsóknir sem liggja fyrir teknar upp úr þessum sama geymi".

Þetta er athyglisvert mál. Það virðist aldrei hafa hvarflað að mönnum að landeigendur sjálfir hefðu bolmagn til þess að nýta landgæði af þessu tagi. En hvers vegna ætti Landsvirkjun að eiga meiri rétt en sjálfur landeigandinn til þess? Af hverju ætti hann ekki að mega rannsaka sjálfur og virkja á sínu landi? Hann gæti þá selt virkjun sína til Landsvirkjunar í stað þess að selja henni aðganginn að jarðvarmanum. Báðir gætu hugsanlega haft hag af þeim skiptum.

Já, nú vakna nokkrar áleitnar grundvallarspurningar: Hverjir eiga landið? Hvernig skal farið með auðlindir þess?

Nærtækt dæmi er fiskurinn í sjónum. Í sjávarútveginum ganga leyfi til nýtingar kaupum og sölum milli útgerða. Þar er engin formleg "landsútgerð"  (þó að LÍÚ sé það kannski í raun) sem á forgangsrétt að þeirri takmörkuðu auðlind.

Kannski gætu menn lært eitthvað af því að skoða gæði lands og sjávar í einu samhengi til þess að átta sig á því hvernig réttast sé að fara með auðlindirnar og nýta þær.

Í því samhengi mættu menn líka líta á vítin sem varast ber.


mbl.is Umsókn landeigenda í Reykjahlíð vekur furðu ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband