Fréttir um að ekkert sé að frétta

Það er orðið hvimleitt að hlusta á fréttir dag eftir dag um að ekkert sé að frétta. Fréttamenn hanga eins og hálfgerðir papparazzar framan við stjórnarráð og ráðherrabústað, reka hljóðnemann upp í alla sem ganga þar um dyr, spyrjandi endalaust að sömu hlutum og fá endalaust sömu svör: Að það sé ekkert um málið að segja á þessu stigi - verið sé að vinna að lausnum.

Svo er því lýst í smáatriðum hvernig menn bera sig að við að stökkva út úr bílum, upp tröppur og inn í hús - svipbrigði þeirra .... úff! Tíu sinnum hef ég heyrt nú í vikunni að þessi eða hinn sé alvarlegur á svip.

Það á ekki að leggja fréttatímana undir þetta - hvað þá heldur misvitrar kenningar um það sem kannski gerist, og hvað hugsanlega muni koma fram, þar sem slegið er í og úr. Fréttatímar eiga greina okkur frá því sem gerist - ekki því sem kannski gerist, eða menn halda að muni gerast, eða menn vona að gerist. Í öllum bænum - hlífið okkur við þessu.

Svo finnst mér að fjölmiðlar mættu alveg fara að fækka öllum þessum dósentum, aðjúnktum og lektorum sem þeir eru að ræða við dag eftir dag núna. Það er vandstjórnað þegar raddir stjórnvalda kafna stöðugt í misvísandi upphrópunum misviturra álitsgjafa sem tala þvers og kruss - og á endanum veit almenningur ekki sitt rjúkandi ráð. Ekkert frekar en fjölmiðlarnir sem eru farnir að snúast í hringi með hljóðnema sína og myndavélar, eltandi fólk eins og illa vandir hundar.

Látum vera þó að í fréttatímum sé drepið á ígrundaðar kenningar um stöðu mála - en slíka vangaveltur eiga þó best heima í umræðu- og fréttaskýringaþáttum.

Annars hlustaði ég af athygli á Þorvald Gylfason í Silfri Egils núna áðan. Drakk í mig hvert orð sem hann sagði og er sammála honum að nánast öllu leyti (þó mér finnist hann draga full mikið úr lífeyrissjóðaleiðinni - en látum það vera).

Þorvaldur er hættur frýjunarorðum sínum um að Samfylkingin slíti stjórninni - það er ágætt.

Hinsvegar segir hann að ef ríkisstjórnin hafi ekki döngun í sér til þess að skipta um áhöfn í Seðlabankanum þá sé hún ekki starfi sínu vaxin.

Ég tek undir það.


mbl.is Allir róa í sömu átt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Runólfsson

Lífeyrissjóðirnir eru þrautalending, þeir eiga ekki að vera bíða eftir kallinu.

Bankarnir eiga að vera bíða eftir kallinu. Þeir eiga að selja eignir uppí skuldir.

Eigendur bankana eiga að bíða eftir kallinu. Þeir eiga að selja eignir til að veita inn í bankana sem þeir eru búnir að mergsjúga í gegnum tíðina.

Eigum við að bjarga bönkunum til að þeir geti haldið áfram hildarleiknum? 

Þórður Runólfsson, 5.10.2008 kl. 15:09

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta eru nú sætar stelpur sem norpa þarna fyrir utan Ráðherrabústaðinn. Vona bara að þær fái ekki blöðrubólgu.

Þorsteinn Briem, 5.10.2008 kl. 15:52

3 identicon

Mér finnst það móðgun við okkur landsmenn hvernig komið er fram við fréttamenn. Auðvitað ættum við að frétta af gangi mála. Annars finnst mér það ansi skítt, að stjórnarherrarnir hafi eitthvað með það að gera hvernig þeir eru búnir að glopra þessu úr hendi sér, ég vill fá hlutlausa sérfræðinga í það verk. Stjórnvöld eiga að víkja!

Sigfús (IP-tala skráð) 5.10.2008 kl. 17:37

4 Smámynd: Víðir Benediktsson

Við verðum bara að lesa Sunday Telegraph. Geir virðist fúsari að veita þeim  upplýsingar en íslenskum fjölmiðlum.

Víðir Benediktsson, 5.10.2008 kl. 20:38

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er löngu komið í ljós að erlendar greiningardeildir hafa gleggri sýn á ástand efnahagsmála okkar en Seðlabankinn og ríkisstjórnin. Þettareddast hagkerfi okkar er ekki eins trúverðugt og okkur var sagt á fréttastofum Rúv og í áramótaræðum forsætisráðherranna.

Mér sýnist stjórnvöld okkar hafa mestan hug á að redda stjórnendum bankanna með lántökum tryggðum með ábyrgðum fólksins í landinu.

Það er nú mín tilfinning en ég hef trú á að stjórnarflokkana muni greina eitthvað á í því efni. Ég vona að formaður Samfylkingarinnar nái heilsu sem fyrst og geri alvöru úr kaldhæðinni ályktun og sendi stóran hóp af fíklum í meðferð.-- Langa meðferð.

Árni Gunnarsson, 6.10.2008 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband