Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Fylleríinu lokið - vondir timburmenn yfirvofandi

Undanfarinn áratug hafa íslensku útrásarfyrirtækin siglt seglum þöndum við fagnaðarlæti og hvatningaróp hérlendra ráðamanna og fjölmiðla sem kepptust við að dilla og hossa “íslensku strákunum” í viðskiptalífinu. Þeir voru jú að meika það drengirnir með tugmilljónir króna í mánaðarlaun og kaupréttarsamninga á fáheyrðum kjörum. 

Þetta myndband á síðunni hennar Láru Hönnu segir ákveðna sögu um það sem að baki lá.

En nú er fylleríinu líklega lokið og óhjákvæmilegir timburmenn framundan. Íslensku útrásarjöfrarnir eru í svipuðum sporum og bóndinn sem fór í kaupstaðarferð og fékk sér of mikið neðan í því hjá kaupmanninum – lyktandi af ævintýrum gærdagsins og líður ekkert allt of vel undir augnaráði heimilisfólksins.


mbl.is Nýsir á barmi gjaldþrots
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjáveituleið Björns Bjarnasonar

Evra-AlvaranCom Af hverju telur forsætisráðherrann að íslenska krónan henti best sem gjaldmiðill? Gengi krónunnar er með lægsta móti. Ofan á geigvænlegar eldsneytishækkanir sem eiga upptök úti í heimi, er krónan að falla frá degi til dags með keðjuverkandi afleiðingum á verðlag. Af hverju hentar hún okkur sem gjaldmiðill? Af hverju?

Menn komast allt of oft upp með það að svara með almennum orðum - án þess að færa rök fyrir máli sínu. En það er ekkert - nákvæmlega ekkert - nú um stundir sem bendir til þess að íslenska krónan sé hentugasti gjaldmiðillinn. Þið leiðréttið mig þá, ef ég fleipra. En ég hef bara ekki séð nein haldbær rök fyrir því að halda í krónuna. Ég hef hins vegar bölvað því í hljóði að Sjálfstæðismenn skuli vera svo flæktir í andstöðu sína við ESB-aðild að umræðan um að taka hér upp Evru hefur strandað á því atriði. Á meðan líður efnahagskerfið fyrir vanmátt íslensku krónunnar.

Leiðin sem Björn Bjarnason hefur vakið máls á á heimasíðu sinni (sjá hér) er hinsvegar athyglisverð. Björn segir: 

 ,,Íslendingar hafa valið þann kost, að tengjast ESB eftir tveimur meginleiðum: með EES-samningnum og Schengen-samkomulaginu. Hvernig væri að láta reyna á það á markvissan hátt, hvort unnt sé að setja þriðju stoðina undir þetta samstarf, það er um evruna? Engin lagarök eru gegn því, að það verði gert. Mun meiri pólitísk sátt yrði um þá leið en aðildarleiðina. Evruleiðin kann auk þess að hafa meiri hljómgrunn í Brussel en aðildarleiðin.''

Snjallt - eitursnjallt. Og þó svo að Björn segi á heimasíðu sinni í gær, að fjölmiðlar hafi snúið út úr orðum hans - þá vona ég að meginhugsunin í tillögu hans hafi skilist rétt. Því þá gætum við verið hér að tala um nokkurskonar hjáveituleið, sem ég leyfi mér að kalla svo.  Hún felur það í sér að hugsanlega verði hægt að taka upp nothæfan gjaldmiðil án þess að láta það standa og falla með rótgrónu ágreiningsmáli sem litlar líkur eru á að leysist í bráð; að hægt verði að fara framhjá ágreiningnum í átt að viðunandi lausn á aðsteðjandi og vaxandi vandamáli - sem er veik staða íslensku krónunnar.

Menn ættu að skoða þetta vel.

 GetLost

PS: Rétt í þessu var ég að lesa viðbrögð Percy Westerlund, sendiherra og yfirmanns fastanefndar Evrópusambandsins við þessari hugmynd (sjá hér). Verst hvað kallinn er neikvæður.


mbl.is Evruhugmynd ekki ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótt mál - og stóð of lengi

 JonAsgeir Þá er því loks lokið þessu makalausa Baugsmáli sem staðið hefur í sex ár og kostað mörg hundruð milljónir króna. Og til hvers var svo unnið öll þessi ár fyrir allt þetta fé? Jú til þess að sanna "sekt" hins meinta höfuðpaurs, Jóns Ásgeirs, sem samkvæmt dómi Hæstaréttar reyndist jafnast á við umferðarlagabrot að viðurlögum - eins og dæmt hafði verið í héraði.

 Eftir því sem þetta mál hefur staðið lengur, og  því meira sem hefur verið um það fjallað, þeim mun frekar hef ég hallast á að fjármunum og tímanum sem fóru í rekstur þess hefði verið betur varið í annað. Í löggæslumálefnum eru mörg brýn verkefni sem ég hefði frekar viljað sjá þessa fjármuni fara í. Til dæmis starfsemi réttargeiðdeildarinnar á Sogni - sem í ljós hefur komið að var rekin á faglegum brauðfótum og ekki allt með felldu. Til dæmis í að efla lögregluembættin á landsbyggðinni sem mörg hver kljást við manneklu og fjársvelti. Til dæmis í að bæta aðbúnað og efla betrunarstarf í fangelsum landsins almennt. Og þannig mætti lengi telja ýmislegt sem liðið hefur fyrir fjárskort á undanförnum árum.

Allir sem komu nálægt þessu máli hafa skaðast af því. Ekki bara málsaðilar sjálfir, heldur fjöldi manns sem tengdist þeim með einhverjum hætti. Hvorugur málsaðila er fyllilega sáttur með leikslokin. Og enginn almennur þjóðfélagsþegn veit raunverulega hvað þarna átti sér stað. Það vita einungis þeir sem hófu málareksturinn, hvað þeim sjálfum gekk til. Þeir eru hins vegar horfnir af sviðinu sumir hverjir - laskaðir eftir átökin.

En, vonandi er þessu nú lokið fyrir fullt og allt.


mbl.is Baugsmálinu lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt skref

Vonandi halda menn áfram að feta sig hina vandrötuðu slóð til aukins jafnvægis í efnahagslífi þjóðarinnar, samstíga og samábyrgir, eins og þessi fundur fulltrúa ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins gefur vonir um.

Samráð af þessu tagi er hin ábyrga leið - og hún er mun farsælli en upphlaup og yfirlýsingagleði um að stjórnvöld verði að fara að "grípa í taumana" og "gera eitthvað". Það er þetta "eitthvað" sem getur verið svo torráðið stundum - sérstaklega þegar mikið liggur við.

Nú ríður á að allir hlutaðeigandi hjálpist að og leggi gott til mála: Aðilar vinnumarkaðarins, ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan. Þjóðin horfir til þessara aðila einmitt núna.

Einmitt núna er horft til þeirra allra.


mbl.is Ætla að vinna á verðbólgunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólga yfirlýsinganna

gengið  Það er víðar verðbólga en í efnahagskerfinu - og sú verðbólga er líka að fara upp úr öllu valdi. Ég er að tala um verðbólgu orðanna. Yfirlýsingar stjórnmálamanna verða sífellt gífurlegri og æsingakenndari - og um leið rýrari að inntaki, rétt eins og verðgildi krónunnar.

Guðni Ágústsson er mætur maður - að mörgu leyti sjarmerandi á sinn sérkennilega hátt. "Glíminn og skemmtinn" sagði samverkamaður hans um hann eitt sinn. Mér fannst sú lýsing eiga vel við þá hugmynd sem ég hef gert mér um Guðna.

En það klæðir hann ekki vel að vera í stjórnarandstöðu. Til þess hefur hann einfaldlega setið of lengi við stjórnartaumana sjálfur. Það eru nefnilega Guðni og hans samverkamenn í fyrrverandi ríkisstjórnum - mörgum ríkisstjórnum, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar - sem hafa skapað þau skilyrði í efnahagslífinu sem við erum að klást við nú. Að svo miklu leyti sem sá vandi er heimatilbúinn. Stóryrtar yfirlýsingar Guðna og ákall hans um aðgerðir hafa því holan hljóm.

En við skulum ekki gleyma því að gengisfall krónunnar og verðhækkanir undanfarinna daga eru utanaðkomandi vandi. Og þó ég treysti ríkisstjórninni til ýmissa hluta, þá dreg ég í efa getu hennar til þess að lækka heimsmarkaðsverð á olíu eða vinna bug á þeim samdrætti og erfiðleikum sem við er að eiga á erlendum fjármálamörkuðum.

Það hryggir mig - nú þegar hefur harðnað í ári - að sjá menn eins og Guðna Ágústsson hlaupa í ábyrgðarlaust lýðskrum með hrópum og köllum. Sömu menn og stýrðu þjóðarskútunni í logni undanfarinna góðæra, værukærir og makráðugir.

Stjórnarandstöðunni væri nær að setjast á rökstóla með ríkisstjórninni - bjóða fram ábyrga aðstoð nú þegar gefur á bátinn. Það er að segja, ef þörfin á aðgerðum hér innanlands er svo brýn sem Guðni vill vera að láta - og lausnirnar raunverulega á færi stjórnvalda.

Til þess eru stjórnmálamenn kosnir af þjóð sinni - að þeir hlaupi ekki með ýlfrum og gólum í hælana á hrossinu þegar klyfjarnar hallast, heldur gangi með öðrum undir baggana þegar þess gerist þörf.

Þjóðinni væri a.m.k. meiri þökk í því en að hlusta á þetta þras  - og fjas sem ekkert er á bak við þegar á reynir. 

 


mbl.is Telur að ríkisstjórnin eigi að segja af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skortstöður - gengisvísitala - úrvalsvísitala - "grænt" útlit ??

Evra-AlvaranCom Þessa dagana eru íslenskir fjölmiðlar vaðandi í fjármálafréttum. Allt í einu er ég orðin æsispennt yfir stöðu mála, og fylgist áfjáð með sveiflum gengisins, stýrivaxtahækkunum og úrvalsvísitölu ... og, og ... ööö ... skil ekki neitt í neinu. Errm

Hvernig á svona meðalgreind manneskja með venjulegt máluppeldi annars að botna upp eða niður í þungum ásökunum á hendur fjárfesta um að þeir taki skortstöður í íslenskum hlutabréfum og skuldatryggingum. Hvað er það þegar menn "keyra skuldatryggingaálagið upp"? Og hvernig á maður að botna í þessu með hækkun gengisvísitölu sem þýðir lækkun gengis en hækkun verðlags?

Svo féll mér nú allur ketill í eld þegar ég las í einni af fjölmörgu fjármálafréttum vefmiðla í dag að það hafi verið "grænt" um að litast í Kauphöll Íslands við lokun markaða enda hafi úrvalsvísitalan endað  í 5450 stigum og hækkað um 0,40 prósent. Shocking

Skyldu blaðamenn sjálfir botna eitthvað í þessu? Spyr sú sem ekki veit . Woundering


Þarf einhver að fjúka úr Seðlabankanum?

gengið  Egill Helgason velti þeirri spurningu fyrir sér á bloggsíðu sinni í gær hvort tímabært sé orðið að reka Seðlabankastjóra - til dæmis Davíð. Tilefnið er fall íslensku krónunnar. Guðmundur Gunnarsson og fleiri eyjubloggarar taka í sama streng.

Menn telja mistök Seðlabankans í því fólgin að hann hefur beitt kenningum úr klassískri hagfræði sem virka ekki vegna þess hversu hagkerfið er opið. Þar með hafi verið gerð "stórkostleg mistök" í hagstjórninni. Vöxtum hefur verið haldið ofurháum meðan erlent fjármagn hefur flætt inn í landið sem lánsfé og vegna spákaupmennsku.

 Í hálffimmfréttum greiningardeildar Kaupþings í gær var slegið á svipaðar nótur og því haldið fram að stýritæki  Seðlabankans væru hætt að virka. Þar er bent er á að svigrúm Seðlabankans sé takmarkað vegna þess hve gjaldeyrisforði bankans er lítill. "Samt sem áður. Sú staða að stýritæki bankans hafi ekki lengur virkni hlýtur að vera mjög illþolanleg fyrir bankann og skapa væntingar um einhverjar aðgerðir af hans hálfu" segir greiningardeildin.

Hmmm ... það er kannski kominn tími til að einhver í Seðlabankanum taki ábyrgð á hagstjórnarmistökunum. En halda menn að það gerist ...?

 


Tímamótasamningar - jafnaðarhugsun

samningar08 Rétt í þessu var ég að hlusta á Steingrím Joð í Kastljósinu. Blekið vart þornað af undirritun nýrra kjarasamninga milli ASÍ og atvinnurekenda, samninga sem menn segja að marki tímamót. Ríkisstjórnin kom rausnarlega að málum og liðkað fyrir svo um munaði, og menn brosmildir og kátir - ný búnir að undirritað og svona. En Steingrímur er ekki alveg kátur. Hann langar augljóslega að "skemmileggja" aðeins stemninguna.

Já, þetta kom aðeins of vel út fyrir ríkisstjórnina fannst honum - og best að bíða ekki of lengi með aðfinnslurnar. Tímamótasamningar? Ja - prinsippið er auðvitað gott, sagði hann. Auðvitað alveg rétt að láglaunafólk fær meira en tíðkast hefur með þessu móti. Joóó, jooóó, útaf fyrir sig - en ríkisstjórnin átti að gera ennþá meira. Ennþá meira. Menn munu sjá það seinna, sko. Seinna, þó þeir sjái það ekki núna.

Sjálf hefði ég ekki trúað því þegar ég heyrði í formanni Rafiðnaðarsambandsins fyrir helgi að ríkisstjórnin væri á sömu stundu að leggja lokahönd á sitt rausnarlega útspil. Ég verð bara að viðurkenna það - enda held ég að Guðmundur rafiðnaðarformaður hafi ekki trúað sínum eigin augum þegar "sú gamla" loks hlammaði sínum skerfi á borðið:  Hækkun persónuafsláttar, rýmra tekjusvigrúm vegna barnabóta,  lækkun tekjuskatts fyrirtækja, hærri húsaleigubætur, hærri eignaskerðingamörk vaxtabóta, niðurfelling stimpilgjalda, fyrirheit um lækkun tolla og vörugjalda og hækkun atvinnuleysisbóta. Hana, hafið þetta -  þið hljótið að geta samið núna! Eins og feitlagin, ljúf frænka, sem reddar barnaafmæli.

Þetta eru óvenjulegir samningar - andinn sem svífur yfir þessum samningum minnir svolítið á gömlu þjóðarsáttarsamningana. Verkalýðshreyfingin hefur tekið þann pól í hæðina að líta til almennra kjara og aðstæðna í efnahagslífinu í stað þess að kalla einungis eftir launahækkunum. Í þessum samningum er verið að horfa á samhengi hlutanna og knýja aðila til samábyrgðar. Í því er fólgin ákveðin - tja, hvað á maður að kalla það - frelsun er sennilega rétta orðið. Frelsun undan gamalli og úr sér genginni kröfugerðarpólitík - sem sum stéttarfélög eru enn allt of upptekin af, því miður.

Atvinnurekendur hafa gengið að samningaborði með sama hugarfari. Sameiginlega hafa aðilar vinnumarkaðarins slegið nýjan tón sem vonandi mun hafa áhrif til framtíðar, með auknum jöfnuði og um leið jafnvægi í efnahagslífinu og þar með almennum kjarabótum launafólks.

Já, ég gæti bara trúað að þegar fram í sækir verði þessi samningsgerð álitin hornsteinn að nýrri hugsun í íslenskri stéttabaráttu. Og það er vel.


Segir enginn af sér? Enginn sóttur til saka?

Spaugstofan1 Skýrsla stýrihópsins sem fjallaði um samruna REI og GGE er ekki aðeins áfellisdómur "um alla stjórnsýslu málsins" eins og segir í frétt mbl.is. Skýrslan leiðir einnig í ljós alvarlega bresti ákveðinna einstaklinga. Umboðssvik er líklega rétta orðið yfir gjörðir þáverandi borgarstjóra Reykvíkinga, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Maðurinn starfaði í umboði almennings - hann átti að gæta milljarða verðmæta í almenningseigu - hann brást því trausti. Hann sagði vísvitandi ósatt, oftar en einu sinni, eins og kom fram í greinargóðri Kastljóssumfjöllun í gærkvöld.

Nú hefur fengist staðfest að ekki aðeins voru verkferlar og valdmörk óskýr, heldur voru stórar og afdrifaríkar ákvarðanir teknar án fullnægjandi umræðu eða samþykkis kjörinna fulltrúa. Í ljós er komið að fulltrúi FL-Group hafði beina aðkomu að gerð þjónustusamningsins milli REI og Orkuveitu Reykjavíkur. Aðkoma FL-Group var mikil og jafnvel ráðandi í samningagerðinni. Stýrihópurinn er sammála um að trúnaðarbrestur hafi orðið milli æðstu stjórnenda REI og OR annars vegar og ákveðinna borgarfulltrúa hins vegar.

Og samt segir í skýrslunni að hún sé "málamiðlun" meðlima hópsins og að farinn hafi verið "meðalvegur" í orðalagi hennar.

Detta mér nú allar dauðar lýs - ætlar enginn að segja neitt við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson sem ítrekað fór með ósannindi? Eða þurfa sveitarstjórnarmenn ekki að axla ábyrgð þegar þeir verða uppvísir að vísvitandi blekkingum? Og hvað með stjórnir þessara fyrirtækja sem tóku þátt í samsærinu - eða aðra sem þarna spiluðu með? Allir þessir aðilar eru rúnir trausti. Þeir hafa brotið af sér - alvarlega. Mál Árna Johnsens er hátíð miðað við þetta.

Hér kemur engin "málamiðlun" til greina. Á sama tíma og mönnum er varpað í fangelsi fyrir að stela sér skiptimynd á bensínstöðvum, neitaég að trúa því að þessi skýrsla verði látin duga sem endapunktur þessa máls.  Ef svo fer, þá búum við ekki í lýðræðislegu réttarríki. 

 

 


mbl.is REI skýrslan áfellisdómur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rándýr þorramatur

hrutspungar Jæja, þá er komið að fyrsta verðlagspistlinum á bloggævi minni - það er neytandinn sem nú lætur til sín heyra: Mér er nóg boðið. Þrettánhundruð krónur fyrir tvær sneiðar af hrútspungum og hvalspiki - samanlagt ein lófafylli af mat Angry Þegar við bætist lifrarpylsukeppur (350 kr), sneið af nýrri svínasultu (226 kr. - helmingi ódýrari en sviðasultan sem var að sjálfsögðu ekki keypt), pakki af flatkökum (108 kr) hálfur sviðakjammi (299 kr) og sletta af rófustöppu (566), þá kostaði þessi auma þorramáltið sem dugði rétt fyrir tvær fullorðnar manneskjur um þrjúþúsund krónur!

Til frekari upplýsingar þá er það verslunin Samkaup á Ísafirði sem verðleggur svona. Kallið mig nískupúka - en sú var tíðin að slátur og innmatur voru ódýrasti matur sem hægt var að fá, enda ekki mikið lagt í sviðasultu eða súran mat. Samanborði við Ora-fiskibollur eða annan unninn mat er þessi verðlagning fáránleg.

Og hvað gerð ég svo? Neytandinn sjálfur? Hundþreytt eftir leiðinlegan dag lét ég mig hafa það. Nennti ekki að keyra inn í Bónus til að gera ódýrari innkaup - vildi komast heim - nennti ekki að elda. Get því auðvitað sjálfri mér um kennt og er ósátt við bæði sjálfa mig og verslunina Angry


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband