Færsluflokkur: Vefurinn

Áramótakveðja í bloggheima

flugeldar

Jæja, þá er blessað árið að hníga til viðar -  flugeldahríðarnar farnar að boða komu þess nýja.

Það eru ýmsar tilfinningar tengdar þessu ári sem nú er að líða. Flestar góðar, sem betur fer enda hefur margt skemmtilegt gerst á þessu ári - ferðalög, nýtt fólk, ný viðfangsefni og áhugamál. Bloggið er eitt af því nýja sem fyrir mig hefur borið á árinu, og eitt það skemmtilegasta. Eins og góð bloggvinkona skrifar um á sinni síðu í dag, þá hefur þessi vettvangur orðið mörgum dægradvöl og vinamynni. Það kom skemmtilega á óvart. 

 

Völva vikunnar talar niðrandi um bloggið í áramótablaðinu að þessu sinni, segir þennan nýja vettvang hafa orðið þjóðinni "frekar til vansa"Errm

Ég get ekki tekið undir það. Þvert á móti finnst mér bloggheimarnir hafa þroskast og tekið á sig mótaðri og yfirvegaðri mynd á þessu ári en áður var. Þetta er lifandi umræðuvettvangur - hér kemur fólk fram með skoðanir sínar og hugleiðingar sem yfirleitt eru settar fram á ábyrgan hátt, þó að stíllinn sé óformlegri en í hefðbundnum blaðagreinum. Vissulega eru til nokkrir einstaklingar sem kunna ekki að haga sér á þessum vettvangi frekar en annarsstaðar. Slíkir einstaklingar eru alltaf og allstaðar til staðar í einhverjum mæli. En það er þá undir hinum komið að láta hina æskilegu þróun halda áfram, þannig að umræðan þróist í farsælar áttir.

En, hér hefur maður kynnst skemmtilegu fólki sem setur fram skoðanir sínar umbúðalaust en af háttvísi og hugsun í bloggfærslum og athugasemdum. Hér hefur maður "mátað" kenningar sínar og skoðanir sem eru í mótun, fengið viðbrögð og góðar ábendingar. Það er allt til góðs.

Bloggvinum og lesendum þakka ég fyrir árið sem er að líða - þið eruð öll orðin hluti af góðri minningu, og ég hlakka til nýja ársins með ykkur hér í bloggheimum.

Gleðilegt ár!


Hvert stefnir eiginlega?

160_ap_pakistan_blast_07101 Ég ætlaði ekki að  blogga um fréttir eða þjóðmál þessi jól. Ég ÆTLAÐI bara að vera friðsöm og södd og værukær. En svo fóru fjölmiðlar að hafa samband við mig og biðja mig að tjá mig um tíðindi líðandi árs - og áður en ég vissi af var ég farin hafa áhyggjur af veröldinni á nýjan leik.

Já, jörðin hætti svosem ekki að snúast þessi jólin. Nú er búið að myrða Benazir Bhutto og allt í upplausn í Pakistan. Maður má þakka fyrir að búa í friðsömu landi þar sem menn leggja það ekki í vana sinn að afgreiða pólitískan ágreining með blóðsúthellingum. En það er hryggilegt að heimurinn skuli ekki færast neitt nær friði - hversu mörg sem vítin verða sem varast ber. 

"When will they ever learn?" Spurði Bob Dylan á sínum tíma - og sú spurning er enn brýn og áleitin sem fyrr. Ógnaráróður og tortryggni milli þjóða, heimshluta og menningarheima. Fjandskapur, ótti, stríðsátök, tilræði og hryðjuverk. Það er ekkert lát á.

Og hvernig horfir í umhverfismálum jarðarinnar? Úff!

Svo eru menn að tala um að kirkjan eigi ekki að hafa hlutverk í samfélaginu! Þegar stríð og ógnir eru nánast daglegt brauð í fréttum af heimsmálum - svo mjög að börnum er ekki óhætt að horfa á sjónvarpsfréttir. Þegar ótti og heift eru allsráðandi hvert sem litið er? Nei, ég held satt að segja að kristin kirkja hafi aldrei átt brýnna erindi en einmitt nú - segi það bara hreint út fyrir sjálfa mig.

Ég ætla að fá mér heitt súkkulaði og reyna að hugsa ekki um þetta. 


Gauksi í stuði

Þegar maður hefur ekkert að skrifa um - er bara pakksaddur og alsæll á jólanótt eftir góða samveru með ættingjum og vinum - þá skellir maður bara inn einum léttum svona rétt fyrir svefninn. Þessi er reyndar ómótstæðilegur - og með taktinn á hreinu.

Páfagaukur í stuði - kíkið á þetta. Cool


Gleðileg jól!

Kæru bloggvinir og lesendur nær og fjær.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári - og þakka fyrir góð og gefandi kynni á árinu sem er að líða.

Bloggið er ný vídd í mínu lífi, sem hefur reynst mér gjöfult og hvetjandi.  Hér hef ég eignast nýja vini, kynnst skemmtilegu fólki, fengið góðar kveðjur og skemmtileg skoðanaskipti.

Fyrir allt þetta þakka ég nú af heilum hug og vona að ég hitti ykkur öll fyrir heil og endurnærð, hér á sama vettvangi á nýju ári.

 

Mynd_Agust_Atlason

 


Bæjarstjóri í pólitískri aðför

Ísafjordur-vetur Í viðtali í svæðisútvarpi Vestfjarða fyrr í vikunni réðist Halldór Halldórsson bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ með ómaklegum hætti á vefmiðilinn skutull.is og sakaði hann um að starfa undir fölskum formerkjum:

 "Í mínum huga, er Skutull fyrst og fremst pólitískur vefmiðill .... Skutull hefur ekkert sýnt það - ekki fyrir mér að minnsta kosti - að það sé einhver óháður fréttamiðill. Þetta er fyrst og fremst pólitískur miðill sem vinnur fyrir Í-listann hér í bæjarstjórn" sagði bæjarstjórinn.

Með þessum orðum veitist bæjarstjórinn á Ísafirði að trúverðugleika nýstofnaðs vefmiðils sem hefur yfirlýsta stefnu um faglega og óhlutdræga fréttamennsku. Þetta gerir hann á grundvelli stjórnmálaskoðana þeirra sem að vefsíðunni standa. Það er alvarlegt mál þegar forsvarsmaður stjórnvalds reynir beinlínis að bregða fæti fyrir þá sem eru að koma undir sig fótum á einhverju sviði. Enn alvarlegra er þegar slíkt er gert á grundvelli stjórnmálaskoðana - og nægir að vísa til 11. greinar stjórnsýslulaga sem kveður á um þá skyldu stjórnvalda að mismuna ekki aðilum vegna stjórnmálaskoðana, trúarbragða, kynferðis eða þjóðfélagsstöðu, heldur gæta "samræmis og jafnræðis" við úrlausn mála. Þetta er svokölluð jafnræðisregla.

Tildrög þessara orðaskipta nú, eru eftirfarandi:

Fyrir nokkrum vikum sendi skutull.is Ísafjarðarbæ erindi þar sem vefmiðillinn var kynntur bæjaryfirvöldum og þess óskað að skutull.is hlyti sama rými á heimasíðu bæjarins og annar vefmiðill hér í bæ, bb.is, hefur nú þegar. Ennfremur var þess óskað að skutull.is fengi að sitja við sama borð og bb.is varðandi auglýsingar og fjárstyrki.

Þess ber að geta að bb.is er með beina RSS-veitu inn á heimasíðu Ísafjarðarbæjar og fær greitt fyrir. Er það líklega einsdæmi að fjölmiðill fái greiðslu frá stjórnvaldi fyrir að auglýsa sjálfan sig á heimasíðu þess. En hjá Ísafjarðarbæ heitir þetta víst "þjónusta" og bb.is er eitt um þá hitu. Á móti hefur bæjarstjórinn fengið sérstakan flýtihnapp á bb.is sem tengir lesendur beint inn á hans persónulegu bloggsíðu. Er mér ekki kunnugt um að nokkur stjórnmálamaður fái aðra eins þjónustu hjá "óháðum" fréttamiðli.

Nú hefur einnig komið í ljós að bb.is er eini vefmiðillinn hér á svæðinu sem er í viðskiptum við Ísafjarðarbæ. Til blaðsins sem heldur vefnum úti, útgefanda þess og vefsíðunnar hafa runnið 4,2 mkr á undanförnum 22 mánuðum. Það er um fjórðungur alls þess sem bærinn greiðir fyrir fjölmiðlaþjónustu 157 aðila sem samanlagt hafa fengið um 16 mkr á sama tíma.

Skemmst er frá því að segja að bæjaryfirvöld samþykktu að setja lítinn tengil á skutul.is inn á heimasíðu bæjarins en erindinu var hafnað "að öðru leyti". RSS-veita kom því ekki til greina og bréf bæjarins verður ekki skilið öðruvísi en svo auglýsingar frá bænum verði ekki settar inn á skutul.is

Nú hefur Halldór bæjarstjóri, í fyrrnefndu viðtali upplýst um raunverulega ástæður þessarar synjunar. Þær eru pólitískar: "Þetta er fyrst og fremst pólitískur miðill sem vinnur fyrir Í-listann hér í bæjarstjórn" segir hann.

Ég fullyrði að þeir sem starfa við skutul.is gera það af fullri fagmennsku - stjórnmálaskoðanir þeirra koma bæjaryfirvöldum hinsvegar ekkert við. Á skutull.is eru siðareglur fréttamanna í heiðri hafðar og allar fréttir unnar eftir bestu fáanlegu heimildum. Halldór bæjarstjóri er þess ekki umkominn að efast um heilindi eða fagmennsku þessa fólks - enda hefur hann engin dæmi máli sínu til sönnunar.

 


Breytingar breytinganna vegna

Ég þekkti mig ekki hér á moggablogginu þegar ég opnaði það í morgun. Nýtt útlit! Crying Ömffff? Af hverju alltaf að vera að skipta um alla hluti? Moggasíðan var bara flott eins og hún var.

Kannski er ég að verða íhaldssöm með aldrinum - en stundum fæ ég á tilfinninguna að menn séu að breyta bara til þess að breyta. Það eru alltaf að koma einhverjar tækninýjungar sem eiga að vera eitthvað flottari og betri en það gamla. Svo kemur upp úr kafinu að þær eru ekkert betri - kannski flottari, en ekki betri. Og alls ekki endingarbetri. Enda er það sjálfsagt ekki markmiðið. Hvaða tilgangur væri í því að finna upp nýja hluti ef þeir entust svo von úr viti? GetLost Það þarf auðvitað að halda söluhringiðunni gangandi.

Og svo er þetta með vefsíðurnar sem alltaf er verið að breyta. Til bóta? Ekki endilega - þær bara breyta um útlit. Ef eitthvað er til vitnis um stöðnunarfóbíu þá eru það vefsíðurnar. Ég hef a.m.k. enn ekki séð dæmi um betra viðmót eða skemmtilegri notkunarmöguleika á þeim fréttasíðum sem tekið hafa á sig nýtt útlit að undanförnu - mbl.is þar á meðal. 

 Já, mér fannst gamla síðan betri - og flottari. Undecided Eeeeeeen .... ég jafna mig.   


Lauslætinu lokið - Sigtryggur vann!

gulfre Æ, þetta var erfitt. Ég var að kveðja blogglesendur mína á visir.is til þess að færa mig alfarið yfir á moggabloggið. Snúin frá mínu hliðarspori - komin heim í "hjónarúm". Wink

Þannig er að ég byrjaði hér á moggablogginu í byrjun þessa árs. Hér kynntist ég þeim bloggurum sem ég hef síðan verið í sambandi við, og hér á ég flestalla mína lesendur. Í sumar tók ég svo einhverskonar tilboði um að koma yfir á visir.is og ákvað að sjá til. Veit ekki hvaða lauslætiskast það var eiginlega. Enda kom á daginn að ég gat aldrei fengið mig til þess að loka moggablogginu og flytja mig yfir. Alltaf þegar ég ætlaði að gera það titraði einhver taug innra með mér og ég GAT það bara ekki. Var einfaldlega búin að eignast of marga vini hér.InLove

Enda hafa mál þróast þannig að ég gleymi æ oftar að setja inn færslur á hina síðuna. Og nú er bara komið að því að VELJA,. Það á ekki við mig að þjóna tveimur herrum samtímis.

Að sumu leyti er þessi niðurstaða svipuð glímulýsingunum sem margir muna frá áttunda áratungum. Þá var aldrei spurning um leikslokin. Þulur sagði einfaldlega: Þeir taka hald  (löööööng þögn). Sigtryggur vann! 

 

PS: Myndina hér fyrir ofan tók ég af www.fva.is/harpa  - veit því miður ekki nánari deili á listamanninum.


Nýr landsmálavefur skutull.is

 Vestfirðir Nýr landsmálavefurm skutull.is, hefur nú litið dagsins ljós. Hann var opnaður með pompi og prakt í hádeginu í gær.

Þetta er fréttavefur tileinkaður Vestfjörðum og þjóðmálaumræðunni, ekki síst þeirri sem tengist svæðinu. Að vefnum stendur hópur áhugafólks um framsækna fjölmiðlun. Allt er það fólk sem vill veg og vanda Vestfjarða sem mestan og vill glæða skilning og áhuga á málefnum svæðisins. 

Sjálf er ég í þessum hópi, titluð fréttastjóri - en vart þarf að taka fram að öll fréttavinnsla og efnisöflun er á þessu stigi málsins unnin í sjálfboðavinnu og bætist að sjálfsögðu við önnur störf sem fólk hefur með höndum. Í framtíðinni tekst okkur vonandi að afla auglýsingatekna og nýsköpunarstyrkja til þess að standa undir einhverjum lágmarksrekstri, og greiða fólki laun.

Skutull var nafn á blaði jafnaðarmanna í Ísafjarðarbæ. Af stakri velvild hefur Samfylkingarfélagið í Ísafjarðarbæ nú eftirlátið vefsíðunni þetta táknræna nafn með velfarnaðaróskum - þar með má segja að þau hafi ýtt fleytunni úr vör. Þeim er ljóst að fréttastefna vefsíðunnar er á faglegum nótum, ekki pólitískum. Þau segjast treysta okkur - eru áhugasöm eins og við um að fjölga valkostum í fréttamiðlun á Vestfjörðum.

Svo sjáum við hvað setur.


Frábært!

Þetta er hreint út sagt frábært - þessi fréttakona ætti að fá alþjóðleg blaðamannaverðlaun. Það var tími til kominn að einhver fréttamaður með sjálfsvirðingu segði eða gerði eitthvað gagnvart þessari alheimsmúgsefjun um persónu Parisar Hilton. 

Ég tek ofan fyrir þessari fréttakonu - vil fá hana sem fyrirlesarar á málþing um blaðamennsku og fréttasiðferði sem er löngu tímabært að halda. Væri verðugt verkefni fyrir blaðamannafélag Íslands.


mbl.is Fréttaþulur neitaði að byrja á frétt um París Hilton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverskonar vettvangur er bloggið?

pressan  Ég hef stundum orðið þess vör að sumir virðast álíta að "blogg" sé samheiti yfir einhverskonar sóðaskrif á netinu.

Í dag hitti ég landsþekktan blaðamann, gamlan kollega frá því ég var sjálf í þeim bransa. Þessi ágæti blaðamaður hraunaði því yfir mig - þar sem ég í sakleysi mínu vísaði til einhvers sem ég hefði sagt á bloggsíðu minni - að enginn málsmetandi Íslendingur myndi nokkru sinni standa í rökræðum á blogginu. Var helst á viðkomandi að skilja að bloggsíður væru vettvangur fyrir fólk að viðra sínar verstu hvatir.

Hmmm..... Ég er svolítið hugsi yfir þessu. Sjálf er ég gamall frétta- og blaðamaður, hef skrifað fjölda greina í blöð og tímarit, verið álitsgjafi í spjallþáttum o.s.frv.. Ég tel mig hvorki betri né verri eftir að ég setti upp bloggsíðu - hef einfaldlega bara sett upp minn eigin fjölmiðil sem er síðan mín Tounge. Þangað má fólk koma og viðra skoðanir sínar svo fremi þær meiði engan.

Ég á fjölda bloggvina sem una sælir við sömu iðju, halda úti skemmtilegum bloggsíðum með fréttum af mönnum og málefnum, umræðum um fréttatengt efni í bland við dagbókafærslur og áhugamál. Þetta eru yfirleitt góðir pennar og ég tel hvorki þá né sjálfa mig neitt minni fyrir það að skrifa á bloggsíður. 

Vitanlega eru líka til bloggarar sem misnota aðstöðu sína - blogga t.d. undir dulnefnum og liggja eins og óværa í athugasemdadálkum hjá öðrum. En það er ansi hart ef sá hópur á að verða útgangspunkturinn þegar skilgreina skal bloggara. Það fyrirfinnast líka óvandaðir fjölmiðlamenn, slúðurblaðamenn hinnar gulu pressu til dæmis - ekki látum við það ráða afstöðu okkar til fjölmiðlafólks almennt, eða hvað?

Það væri leitt ef fordómar af fyrrnefndu tagi yrðu til þess að almennilegt fólk færi að forðast bloggið sem vettvang til skoðanaskipta. 

Cool Ég ætla a.m.k. ekki að hætta - ekki á meðan þetta er skemmtilegt. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband