Færsluflokkur: Vefurinn
Jón eða séra Jón: Jakob Frímann eða Markús Örn
12.5.2008 | 13:22
Hvar voru hinir ágengu fréttahaukar þegar Markús Örn Antonsson var ráðinn sem forstöðumaður Þjómenningarhúss, án auglýsingar fyrir skömmu - með 1,1, mkr á mánuði? Enginn fjölmiðill hefur mér vitanlega spurst nánar fyrir um launakjörin - eða fett fingur út í ráðningaraðferðina. Hvað þá að nokkur maður hafi verið kallaður til viðtals. Hvernig skyldi standa á því?
Vísir.is sagði þannig frá ráðningunni að Markús Örn hafi verið ráðinn frá 1. sept. n.k., hann muni leysa af hólmi Guðríði Sigurðardóttur sem hættir störfum að eigin ósk. Síðan er rakinn stuttlega ferill Markúsar. Enginn hneykslunartónn, ekki orð um launakjör.
Mbl.is sagði frá með svipuðum hætti. Enginn hneykslan - allt bara sjálfsagt og eðlilegt. Þar segir að Markús hafi verið "fluttur til í starfi".
Eyjan.is er raunar eini vefmiðillinn sem tekur fram að starfið hafi verið veitt án auglýsingar - en ekki er gert neitt með þá staðreynd að öðru leyti.
Ég minnist þess ekki að Kastljósið eða Ísland í dag hafi skipt sér neitt af þesu máli - þið leiðréttið mig ef það er misminni hjá mér.
Áleitin fréttamennska? Varðstaða fyrir almenning? Hmmm ...
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Meiri maður en Vilhjálmur Þ - en við hvern var Lára að tala?
25.4.2008 | 17:01
Lára Ómarsdóttir - sem nú hefur ákveðið að hætta störfum sem fréttamaður á Stöð-2 eftir óheppileg ummæli sem hún lét falla á vettvangi atburða í fyrradag - er maður að meiri fyrir vikið.
Og hún er meiri maður en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, kjörinn borgarfulltrúi í Reykjavík, fyrrverandi og tilvonandi borgarstjóri.
Lára kveðst hafa talað í gríni við starfsfélaga. Gráglettni er nokkuð sem erfitt getur verið að meta af þriðja aðila sem heyrir tilvituð orð á öðrum stað og annarri stund.
En það er nokkuð sem vekur athygli þegar hlustað er á hljóðupptökuna, sem þið getið heyrt hér. Það er engu líkara en Lára sé að reyna að koma til móts við tilmæli einhvers hinumegin á línunni. Hver var það? Enn og aftur verður að setja fyrirvara um eftirátúlkun þriðja aðila - en það er eitthvað sem slær mig undarlega við þetta samtal. Og ef ég ætti að hafa túlkunarvald, þá myndi ég veðja á að þarna séu tveir samstarfsmenn að ræða sína á milli um mögulega sviðsetningu.
Nú hefur annar þeirra sagt upp starfi sínu - hinn ekki. Og hvor skyldi hafa verið hærra settur?
En hvort sem Lára var nú að grínast eða ekki - og hvort sem hún ætlaði að þóknast einhverjum hærra settum á Stöð-2 eða ekki - þá eru viðbrögð hennar ábyrg. Hún hefur axlað sína ábyrgð - það er meira en sagt verður um ýmsa sem þó bera þyngri ábyrgð á velferð almennings en einn fréttamaður á sjónvarpsstöð.
Ég óska Láru velfarnaðar í þeim verkefnum sem bíða hennar - og þess verður vafalaust ekki langt að bíða að hún finni hæfileikum sínum og kröftum viðnám á verðugum vettvangi.
----------
PS: Ég heyrði í sjónvarpinu í kvöld að Lára væri fimm barna móðir. Ég er sjálf fimm barna móðir, var einu sinni fréttakona á sjónvarpinu. Sömueliðis Ólöf Rún Skúladóttir sem ég held að eigi fjögur eða fimm börn, og Jóhanna Vigdís líka, ef mér skjátlast ekki. Hvað er þetta með fréttakonur og frjósemi??
![]() |
Hættir sem fréttamaður á Stöð 2 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
GAAAS, GAAAS! - Getum við ekki látið einhvern kasta eggjum?
23.4.2008 | 23:01
Jeminn eini - það er agalegt að horfa upp á þetta (smellið hér ).
Hvað gerðist eiginlega í dag? Misstu allir glóruna?
GAAAAS - GAAAAS - GAAAS - öskrar ungur lögreglumaður með úðabrúsa sem hann beitir augljóslega sem vopni en ekki varnartæki gegn mannfjöldanum.
"Við getum kannski látið einhvern kasta eggjum rétt á meðan við erum live?" segir ung fréttakona á Stöð-2 svo heyrist skýrt á einu upptökutækinu. Sama fréttakona spyr áköf af hverju lögreglan beiti ekki sömu hörku við flutningabílstjórana og umhverfisverndarsinnana í fyrra. Það er óþægileg ögrun í röddinni.
Lögreglumaðurinn sem verður fyrir svörum segir - líka með ákefðarglampa í augum: "Bíddu bara í nokkrar mínútur, þá skulum við sýna þér hvernig við látum verkin tala!" Var lögreglan á þeirri stundu búin að ákveða að beita valdi? Þegar maður gerir sig líklegan til þess að fara að fyrirmælum lögreglu og fjarlægja bíl sinn, þá er hann handtekinn með látum.
Það leynist engum sem sér þessi myndskeið sem ganga á netinu núna og sýnd voru á sjónvarpsstöðvunum í dag, að adrenalínið tók stjórnina. Ábyrgir aðilar, lögregla og fjölmiðlar voru farnir að láta sig dreyma um valdbeitingu áður en atburðarásin hófst - með ofbeldi, ryskingum og eggjakasti.
Það var sárt að sjá þarna ráðalausa unglinga horfa upp á þessar aðfarir. Menn liggja blóðuga og ofurliði borna í götunni - öskrandi lögreglumenn og bílstjóra. Þarna var svo augljóslega farið yfir mörkin - í orðsins fyllstu merkingu: Mörkin sem lögreglan setti sjálf - gula bandið sem strengt hafði verið milli lögreglu og mótmælenda. Svo ruddist lögreglan sjálf yfir þessi mörk í átt að fólkinu.
Er þetta fordæmið sem við viljum hafa fyrir unglingum og óhörðnuðu fólki? Er þetta það sem við viljum?
Svei.
Vefurinn | Breytt 25.4.2008 kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Sýndarfyrirtæki Íslensks hátækniiðnaðar?
15.4.2008 | 20:33
Þetta er dularfullt í meira lagi. Ég fór að leita að heimasíðu Katamak-NAFTA, fyrirtækisins sem Íslenskur hátækniiðnaður fullyrðir í fréttum að sé í samstarfi við sig um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Fyrirtækið sé dótturfyrirtæki Geostream (raunar spyr ég mig líka: Hvað er Geostream?)
Það sem ég fann um Katamak-NAFTA var eftirfarandi:
Heimilisfang í Dublin á Írlandi - og síða með slóðinni http://www.katamak.ru/english.html. Yfirskrift þessarar síðu er Iceland Petroleum Refining Company - íslenska olíuhreinsifélagið !!! Íslenski titillinn er líka á síðunni.
Þetta er það sem íslenskur hátækniiðnaður kallar "heimasíðu" fyrirtækisins - og þeir tala um sem raunverulegt fyrirtæki. Skoðið þetta bara sjálf. Efnislega er ekkert á síðunni nema tilvísanir í íslenska fjölmiðla. Ekkert um fyrirtækið sjálft.
Það er verið að hafa okkur öll að fíflum: Vestfirðinga, fjölmiðla, sveitarstjórnarmenn og almenning í landinu.
Og ef það er eitthvað sem hleypir í mig illu blóði þá er það þegar einhver reynir að spila með mig.
Nú bíð ég spennt eftir Kompás þætti kvöldsins.
Til hvers mannanafnanefnd?
13.4.2008 | 23:10
Vinkona mín sendi mér að gamni lista sem nú gengur eins og logi yfir akur á netinu. Þetta var sagður listi yfir þau nöfn sem mannanafnanefnd hefur samþykkt. Mér þótti listinn svo sundurgerðarlegur að ég vildi ekki trúa honum. Svo ég lagðist í svolitla rannsókn.
Það tók ekki langa stund með leitarinnslætti í úrskurðum mannanafnanefndar að sjá að fyrrnefndur listi er býsna sannverðugur. Þó að nöfnin Ljósálfur, Dreki og Kaktus finnist ekki í úrskurðum mannanafnanefndar, þá eru þar nöfn eins og Kristall, Kópur, Kveldúlfur, Hraunar, Hnikar, Skefill, Sírnir, Skæringur, Galdur og Grani. Sömuleiðis kvennanöfnin Kapítóla, Kaðlín, Randalín, Venus, Vígdögg, Stjarna, Blíða, Þrá og Ósa.
Í lögum um mannanöfn segir í 5. gr. að nafn megi ekki vera þannig að það sé nafnbera til ama. Við getum auðvitað deilt um fagurfræðina - en ég öfunda ekki dreng sem þarf að bera nafn á borð við Kveldúlfur Kópur eða Skæringur Sírnir. Og ekki vildi ég heita Kaðlín Ósa, Randalín Venus, Blíða Þrá, eða Kapítóla Stjarna.
Þó að nöfn eins og Kristall, Venus, Blíða og Stjarna hafi fallega merkingu þá get ég ekki að því gert að mér finnst þau fara betur á búpeningi en börnum.
Þetta er sjálfsagt smekksatriði - maður getur svosem aldrei deilt um smekk.
Hinsvegar spyr ég mig að því til hvers við séum með mannanafnanefnd þegar það virðist nokkuð ljóst að hún getur ekki með nokkru móti framfylgt þessari 5. gr. mannanafnalaga - og reynir það ekki. Megintilgangur nefndarinnar virðist vera sá að tryggja að eignarfallsendingar falli að íslensku málkerfi. Um merkingu og áferð nafna hirðir nefndin ekki, enda ægir öllu saman í úrskurðum hennar, íslenskum og erlendum nöfnum innanum nafnskrípi sem enginn skilur.
Mætti ég þá frekar biðja um nefnd sem verndar lítil börn fyrir því að sitja uppi með nafnskrípi sem þau líða fyrir og þeim er strítt á - skítt með eignarfallsendingarnar.
Skortstöður - gengisvísitala - úrvalsvísitala - "grænt" útlit ??
10.4.2008 | 11:02
Þessa dagana eru íslenskir fjölmiðlar vaðandi í fjármálafréttum. Allt í einu er ég orðin æsispennt yfir stöðu mála, og fylgist áfjáð með sveiflum gengisins, stýrivaxtahækkunum og úrvalsvísitölu ... og, og ... ööö ... skil ekki neitt í neinu.
Hvernig á svona meðalgreind manneskja með venjulegt máluppeldi annars að botna upp eða niður í þungum ásökunum á hendur fjárfesta um að þeir taki skortstöður í íslenskum hlutabréfum og skuldatryggingum. Hvað er það þegar menn "keyra skuldatryggingaálagið upp"? Og hvernig á maður að botna í þessu með hækkun gengisvísitölu sem þýðir lækkun gengis en hækkun verðlags?
Svo féll mér nú allur ketill í eld þegar ég las í einni af fjölmörgu fjármálafréttum vefmiðla í dag að það hafi verið "grænt" um að litast í Kauphöll Íslands við lokun markaða enda hafi úrvalsvísitalan endað í 5450 stigum og hækkað um 0,40 prósent.
Skyldu blaðamenn sjálfir botna eitthvað í þessu? Spyr sú sem ekki veit .
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Orðum fylgir ábyrgð
26.2.2008 | 19:16
Dómurinn sem féll í meiðyrðamáli gegn bloggara í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag staðfestir að bloggsíður eru fjölmiðlar og bloggarar bera ábyrgð í samræmi við það.
Um leið vekur þessi dómur áleitnar spurningar um það fyrirkomulag að menn geti stofnað bloggsíður undir dulnefnum. Hver ber ábyrgð í slíkum tilvikum? Maðurinn á bak við nafnið, eða sá sem hýsir vefsíðuna? Getur mbl.is þurft að sæta ábyrgð vegna nafnlausra skrifa á bloggsíðu til dæmis?
Bloggið er að þroskast sem umræðuvettvangur - og sem betur fer fækkar þeim stöðugt sem misnota málfrelsi sitt á bloggsíðum. Þó eru enn of mikil brögð að því að menn vaði fram á þessum vettvangi eins og þeir séu stikkfrí. Eins og meiðandi ummæli, brigslyrði, dylgjur og persónuárásir eigi eitthvað skylt við málfrelsi. Sumir virðast álíta að þeir eigi "rétt" á því að tala skefjalaust og að þessi meinti "réttur" helgist af skoðana- og tjáningarfrelsi.
En orð geta bitið - orð eru vopn. Og auðvitað ekkert til sem heitir takmarkalaust frelsi. Það vill stundum gleymast að frelsinu fylgir ábyrgð. Því beittari sem orðin eru, því ríkari ástæða er til að beita þeim varlega.
Ritsóðunum fer fækkandi - sem betur fer. Vonandi verður þessi dómur til þess að fækka þeim enn frekar. Um leið er hann þörf áminning fyrir ritsnillingana að gæta sín við meðferð stílvopna.
![]() |
Sekur um meiðyrði á bloggi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (48)
Eins árs í dag :-)
23.2.2008 | 16:56
Þá er nú eins árs bloggafmælið runnið upp - fyrir mér. Því ég var eiginlega bara að átta mig á því rétt í þessu að í dag er nákvæmlega eitt ár frá því ég kvaddi mér hljóðs hér í bloggheimum á mbl.is. Síðan er mikið vatn til sjávar runnið, og mikill orðaflaumur á vefinn sömuleiðis.
Kæru bloggvinir og lesendur - takk fyrir samveruna þetta undanfarna ár. Takk fyrir að deila með mér vangaveltum og hugleiðingum. Takk fyrir að taka þátt í mínum hugðarefnum með athugasemdir ykkar og kveðjum.
Fyrsta færslan mín fjallaði um ákvörðun Marels að flytja útstöð sína frá Ísafirði. Þeim voru ekki vandaðar kveðjurnar þann 23. febrúar 2007. Sjö athugasemdir bárust við þá færslu. Daginn eftir taldi ég brýnt að þjóðin fengi Ingibjörgu Sólrúnu sem forsætisráðherra, enda var ég nýkomin af aldeilis hreint skemmtilegum fundi með samfylkingarkonum í borginni þar sem mikill hugur var í okkur öllum. Ég fékk fimmtán athugasemdir við þá færslu. Þá einhenti ég mér í mikla messu sem ég nefndi "Hinar hljóðu hamfarir" og fjallaði um það hvernig sigið hefur á ógæfuhliðina í atvinnumálum Vestfirðinga undanfarin ár. Færri höfðu áhuga á því máli, en þó komu níu athugasemdir.
Ég man enn hvað mér þótti gaman að fá fyrstu athugasemdina - því það var tilboð um bloggvináttu, sem ég þáði að sjálfsögðu. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu fljótt fólk gerði vart við sig á síðunni. Sömuleiðis var ég sæl þegar heimsóknartölurnar fóru yfir fyrsta hundraðið. Já, fyrstu vikurnar sem ég bloggaði var ég alsæl ef tvöhundruð manns sóttu síðuna mína á einum degi. Nú kippi ég mér ekki mikið upp þó heimsóknirnar fari yfir þúsundið - en er þó alltaf ánægð með það að sjálfsögðu.
Þegar þessi orð eru skrifuð eru komin 286.641 innlit á síðuna mína frá upphafi - en það gera að meðaltali 785 innlit á dag - sem ég er afar þakklát fyrir. Bloggvinum hefur fjölgað svo mjög að ég hef vart á þeim tölu (eitthvað á annað hundrað), og get því alls ekki sinnt þeim öllum eins og ég vildi. Vona að þeir fyrirgefi mér það.
Í tilefni dagsins ætla ég að bíða með frekara blogg þar til á mánudag. Þess í stað setti ég inn þessa ægiförgru mynd sem Ágúst Atlason tók af sólrisu í Arnarfirði nú nýlega.
Vefurinn | Breytt 24.2.2008 kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Össur lætur vaða
21.2.2008 | 20:42
Össur Skarphéðinsson er frábær rithöfundur. Ég hef verið aðdáandi hans á því sviði í fjölmörg ár enda fáum lagið að koma orðum að hugmyndum sínum og skoðunum á sama hátt og hann gerir jafnan. Að því leyti ber Össur nafn með réttu. Hann er örninn sem flýgur fugla hæst í forsal hinna pólitísku sviptivinda þegar hann beitir stílvopninu og tekst vel upp í skrifum um menn og málefni.
Gísli Marteinn Baldursson er frambærilegur pólitíkus sem ég hef lengi haft dálæti á - aðallega fyrir það hvað hann er kurteis og vel máli farinn. Ég hef gert mér þá mynd af manninum að hann sé fulltrúi uppvaxandi kynslóðar í stjórnmálum, kynslóðar sem vill nýjar áherslur og aðferðir. Vissulega þykist ég sjá - ekki síður en Össur - að Gísli Marteinn hefur að undanförnu viðhaft aðferðir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins sem ekki hafa reynst flokknum farsælar og verða seint skilgreindar sem foringjahollusta. Hann er svosem ekki einn um það. Ég man ekki betur en allur borgarstjórnarflokkurinn að Vilhjálmi undanskildum hafi gengið á fund formanns og varaformanns flokksins til þess að ræða um foringja sinn að honum fjarstöddum. Þeim var veitt móttaka og áheyrn - án foringja síns. Hvað segir það um móralinn í flokknum?
Gísli Martein er ungur maður - hann er enn að læra. Og ungt fólk þarf að fá svigrúm til að læra í lífinu. Það ætti Össur að vita.
Bloggfærsla Össurar um Gísla Martein Baldursson er snilldar vel skrifuð - því verður ekki á móti mælt. En hún er óvægin - allt of óvægin. Og ég spyr mig hvað valdi þessum tilfinningaþunga hjá iðnaðarráðherra í garð "sjónvarpsdrengsins" sem hann nefnir svo.
Hitt er svo annað mál, að Össur er ekki þarna að gagnrýna samstarfsmann í ríkisstjórn - og því hljóma dulbúnar hótanir Sigurðar Kára Kristjánssonar um áhrif þessa á ríkisstjórnarsamstarfið hálf kjánalega. Össur er þarna að skrifa um skoðun sína á borgarmálefnum og pólitískum vandræðagangi í Reykjavík. Hann skrifar utan síns lögbundna vinnutíma, í eigin frítíma, á eigin bloggsíðu. Skrif hans ættu ekki að bifa meira við ríkisstjórnarsamstarfinu nú en skrif Björns Bjarnasonar á sínum tíma þegar hann réðist að foringja Samfylkingarinnar í borgarstjórn sem hann kallaði "pólitískan loddara" ef mig misminnir ekki.
Það var því hálf hjákátlegt að sjá Sigurð Kára standa á öndinni af hneykslan í sjónvarpinu í kvöld - ekki bara í ljósi þess hvernig Björn hefur skrifað - heldur vegna þess hvernig Sigurður Kári hefur sjálfur talað um aðra stjórnmálamenn. Ekki er ýkja langt síðan hann kallaði borgarfulltrúa í Reykjavík spilltasta og siðlausasta stjórnmálamann landsins, ef ég man rétt.
Sú orðræða sem hér er vísað til er hinsvegar leiðinleg. Persónulegar árásir eru blettur á íslenskri stjórnmálaumræðu - já og opinberri umræðu almennt og yfirleitt.
Þar er við ýmsa að sakast, ekki síst fjölmiðlana, sem alltaf eru tilbúnir að éta upp allt sem mönnum dettur í hug að segja um náungann, hversu rætið og ómerkilegt sem það er. Er þess skemmst að minnast þegar "hnífasettsmálið" fræga komst í umræðuna. Drottningarviðtal við framsóknarmann sem taldi sig eiga harma að hefna á öðrum framsóknarmanni vegna þess að sá síðarnefndi taldi þann fyrrnefnda ekki hafa kjörþokka. Þessu var sjónvarpað yfir landslýð - rætnum sögum um óskemmtileg samskipti þessara tveggja manna. Ég hef enn ekki fengið botn í það hvað okkur landsmönnum kom þetta við. En það er annað mál.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
Mikill munur á útgönguspám og úrslitum í New Hampshire
9.1.2008 | 16:16
Það er undarlegt hve mikill munur virðist vera á útgönguspám og úrslitum í forvalinu í New Hampshire, einkum í forvali Demúkrata. Ég horfði á Sky News í gærkvöld og hlustaði þar á fjálglegar fullyrðingar fréttamannanna sem vísuðu í allar áttir, aðra fjölmiðla, ýmsa sérfræðinga - sem allir virtust vera að túlka útgönguspár um yfirvofandi úrslit.
Á fimm mínútna fresti komu fréttamenn inn með miklar bollaleggingar um afhroð Hilary Clinton og sterka stöðu Obama (sem hafði áður náð góðum sigri í Iowa með 38% en Clinton 29%). Úrslitin í Iowa virðast hafa setið ansi sterkt í fréttamönnum: Einn fjölmiðill kvað upp úr um sigurlíkur Obama, sá næsti vitnaði í þennan fjölmiðil og svo líka útgönguspárnar, þriðji fjölmiðilinn vitnaði í fyrrnefnda tvo fjölmiðla og útgönguspár. Og þannig vatt þetta upp á sig - var orðin ein hringavitleysa þar sem hver át upp eftir öðrum af ákefð.
Það hvarflar að manni að þessar útgönguspár hafi nú ekki verið unnið af tilhlýðlegri vandvirkni. Sömuleiðis setti að mér svolítinn óhug við að hlusta á það hvernig hver át upp eftir öðrum fullyrðingar sem undu upp á sig eins og í sögunni um fjöðrina sem varð að fimm hænum.
Jæja, en Hilary blessunin hafði það í New Hampshire - það skiptir máli.
Nú er ég í þeirri undarlegu stöðu að halda eiginlega með tveimur frambjóðendum. Ég vil að Clinton vinni - en um leið er ég auðvitað mjög svag fyrir Obama. Ekki endilega vegna þess að hann gæti orði fyrsti þeldökki forsetinn - heldur vegna þess að hann er bara svo asskoti sjarmerandi og sætur
Við spyrjum að leikslokum.
![]() |
Clinton vann í New Hampshire |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)