Færsluflokkur: Vefurinn

Óstjórn í Vikulokunum á Rás-1

Í morgun hlustaði ég á seinni hluta Vikulokanna á Rás-1 undir stjórn (eða óstjórn) Hallgríms Throsteinssonar. Þarna sátu  Egill Helga, Dagur B, og Júlíus Vífill ásamt stjórnandanum blaðrandi og þrefandi hver ofan í annan. Hallgrímur hafði nákvæmlega enga stjórn á umræðunum og þetta var óþolandi áheyrnar.

Menn ímynda sér kannski að svona skvaldur sé eitthvað "líflegt" eða "skemmtilegt". En það er það ekki fyrir þann sem hlustar. Það er bara pirrandi að heyra ekki mannsins mál fyrir blaðri. Heyra menn rífast og pexa hvern í kapp við annan. Það er eins og enginn geti unnt öðrum þess að tala svo hann skiljist. 

Hvað er þetta með íslenska þáttastjórnendur? Af hverju geta þeir ekki stjórnað umræðuþáttum  og unnið fyrir kaupinu sínu? Angry

Þáttastjórnendur eiga að hafa stjórn á umræðunni - þeir eiga að tryggja það að þátttakendur fái tjáð sig um það sem til umræðu er. Annað er bara dónaskapur - ekki bara við þá sem koma í þáttinn heldur líka hina sem hlusta. Greiðendur afnotagjalda og hlustendur RÚV.

Svo voru umræðuefnin í þessum hluta þáttarins nánast öll með neikvæðum formerkjum um bæði menn málefni. Hrútleiðinlegt.


Borgarstjórar, njótið lífsins!

bar Hvað er að því þó að borgarstjóri djammi? Spyr Jens Guðmundsson í skemmtilegri  bloggfærslu. Ég hef líka verið að velta því fyrir mér hvað það átti að þýða að draga það inn í umræður um borgarpólitík að Ólafur F. Magnússon hefði sést á öldurhúsi. Ekki var hann í opinberum erindum - auk þess allsgáður. Það er nú meira en sagt verður um suma af æðstu ráðamönnum landsins sem m.a. hafa lyft Bermúdaskál við opinbert tækifæri, eins og frægt varð og um var ort svo eftirminnilega:

Í stjórnmálum lífið er leikur,
mér lætur að standa því keikur.
En mér brá er ég sá
að ég birtist á skjá
svona blind ösku þreifandi .... veikur. 

 Því miður man ég ekki hver orti þessa limru - hún hljómar svolítið eins og hún hafi liðast upp úr Hákoni Aðalsteinssyni án þess ég þori að fullyrða það.

Ólafur F. var allsgáður með vinafólki þegar hann sást á öldurhúsi. En þó svo hefði ekki verið. Þó svo hann hefði nú bara fengið sér ölkollu og setið að spjalli við fólk á einhverjum af börum bæjarins. Það hefði auðvitað bara verið hið besta mál. Og hvað þó einhver hefði séð til hans fara á fjörur við konu? Er þetta ekki einhleypur maður og sjálfs síns ráðandi? Eru það ekki hans mannréttindi að leita fyrir sér gagnvart konu? Á meðan menn haga sér skammlaust er ekkert við því að segja þó þeir njóti lífsins - það verða meira að segja pólitískir andstæðingar að sætta sig við og skilja.

Þessi söguburður er þeim til skammar sem standa fyrir honum. Það er mín skoðun.

Svo vona ég að borgarstjórar sem og borgarfulltrúar almennt eigi eftir að njóta lífsins í góðra vina hópi hér eftir sem hingað til - óhræddir við að láta sjá sig á meðal fólks.


Amy Winehouse, Britney, Jackson - harmsaga okkar daga.

amy-winehouse-fat-thin Amy Winehouse er að upplagi falleg og hæfileikarík söngkona með stórbrotna rödd. Ung stúlka sem fyrri fáum mánuðum var svona útlítandi:

 amy_winehouse_narrowweb__300x414,0 En er nú orðin svona:

AmyWinehouse-horud AmyWinehouse2603_468x406

Hún er grindhoruð, alsett kaunum og kýlum eins og þeir sem neyta heróíns, kókaíns og cracks.  Tónlistarframmistaðan hefur þróast á svipaðan veg. Ekki er ýkja langt síðan Amy kom fram við verðlaunaafhendingu og söng þá með þessum hætti. Bara sæmilegt, ekki satt? Back to black söng hún um svipað leyti og gerði það bærilega. En á  þessum tónleikum má hinsvegar sjá að hún er farin að missa fjaðrirnar: Máttfarin, laglaus og óstyrk.

amy_winehouse_4_wenn1832955 Já, það hefur sigið á ógæfuhliðina hjá Amy Winehouse. Þetta hefur gerst svo hratt að maður trúir því varla. Á hverjum tónleikunum af öðrum birtist hún skökk og skæld, þvoglumælt og hræðileg, eins og til dæmis hér. Hún hefur jafnvel gengið svo langt að fá sér í nösina frammi fyrir áhorfendaskaranum, eins og hún hafi ekki áttað sig á því hvar hún var stödd.

Þetta "Hollywood-líf" er eins og banvænn sjúkdómur. Ungt fólk í blóma lífsins er bókstaflega étið upp til agna ef það kann ekki fótum sínum forráð. Um þetta höfum við fjölmörg dæmi: Britney Spears,  Michael Jackson og fleiri og fleiri. Birtingarmyndirnar eru margvíslegar - en allar eiga þær það sammerkt að í þeim eru ungar, hæfileikaríkar manneskjur að veslast upp fyrir augunum á heimsbyggðinni. Og heimurinn horfir og horfir - af áfergju og grimmd - tekur myndir og selur. Græðir á ógæfunni. 

Enginn segir "nóg komið". Og enginn kemur til hjálpar.


"Bloggarar eru ábyrgðarlaust fólk" ...

... sagði Þorbjörn Broddson fjölmiðlafræðingur í útvarpsviðtali á RÚV í morgun. Í viðtalinu var Þorbjörn að útskýra það hvers vegna fjölmiðlaumræðan hefur verið svo óvægin og nærgöngul gagnvart Ólafi F. Magnússyni sem raun ber vitni. Hann var spurður um ástæður þess að fjölmiðlar hafa að undanförnu farið með dylgjur um einkalíf fráfarandi borgarstjóra og taldi hann helst að um væri að kenna æsingi og samkeppni við bloggheiminn. Shocking

Ég fór að rifja upp hvar ég hefði fyrst heyrt eða séð dylgjur um einkalíf fráfarandi borgarstjóra. Það var í Kastljóss viðtali við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir nokkrum dögum. Um svipað leyti rakst ég á klausu í einhverju dagblaðanna. Ég hef ekki séð orð um þetta á blogginu.

Mér virðast velflestir bloggarar vera ábyrgir í sínum skrifum. Þorbjörn Broddason er háskólakennari í fjölmiðlafræðum, og það er alvarlegt mál ef slíkur maður setur fram hleypidóma af þessu tagi um tiltekinn hóp fólks sem á það eitt sameiginlegt að halda úti bloggsíðum.

Það verður hver og einn að vera ábyrgur orða sinna - það á við um Þorbjörn Broddason ekkert síður en bloggarana og fjölmiðlafólkið. Þá er það aumur málflutningur að gera bloggheiminn ábyrgan fyrir slælegum vinnubrögð ríkisfjölmiðlanna og rótgróinna dagblaða. 

dagblöð


Orðabrigð og laumuspil - vond byrjun hjá Hönnu Birnu

Látum vera þó að meirihlutinn hafi sprungið og nýr myndaður. En framkoma helstu persóna og leikenda í því handriti er í senn yfirgengileg og sorgleg. Það eru ósannindin, hálfsannindin og blekkingar þessa fólks sem valda mér hugarangri og hneykslan.

"Orð skulu standa" er stundum sagt. Við Íslendingar höfum löngum litið svo á að orð og handsöl hafi gildi enda mikilvægt að hægt sé að reiða sig á eitthvað í mannlegum samskiptum.  Ekki síst hefði maður nú haldið að stjórnmálamenn þyrftu að kunna þessa kúnst - og einhvern veginn hélt maður að Íslendingar væru enn það siðvæddir að líta á orðheldni sem dyggð.  En í Borgarstjórn  Reykjavíkur er annað uppi á teningnum. Þar eru orð og yfirlýsingar einskis virði.

Í gær og morgun kepptist Óskar Bergsson við að sannfæra fjölmiðla og borgarfulltrúa minnihlutans um að hann ætti ekki í neinum þreifingum um nýja meirihlutamyndun í borgarstjórn. Hanna Birna hefur margoft lýst því yfir að Sjálfstæðismenn væru heilshugar í samstarfi sínu við Ólaf F. Magnússon. Flóttaleg framkoma hennar og Vilhjálms Þ. síðustu daga þar sem þau hafa laumast út um brunaútganga til að forðast fjölmiðla hefur ekki beinlínis borið vott um góðan málstað. Þau hafa verið á harðahlaupum undan eigin orðum og gjörðum - svo dapurlegt sem það nú er. Jafnvel sjálfur forsætisráðherrann hefur orðið uppvís að ummælum sem ekki fá staðist nánari skoðun - hann hefur ekki viljað kannast við að neitt væri í gangi.

Og nú hefur samstarfinu - þessu sem gengið var til svo "heilshugar" fyrir skömmu - verið slitið. Nýr meirihluti er orðinn að veruleika, Hanna Birna borgarstjóri og Óskar Bergsson formaður borgarráðs. Þetta hefur gerst þrátt fyrir nokkurra klukkustunda gamlar yfirlýsingar í allt aðra veru. Já, án þreifinga - án vitneskju formanns Sjálfstæðisflokksins, ef marka mætti orð þessa fólks - sem er auðvitað ekki hægt. Undangengnir atburðir sanna að ekki er ORÐ að marka sem það segir.

Samt er þetta fólkið sem þiggur umboð sitt frá almenningi og á að starfa í hans þágu. Svona starfar það.

Nei, dyggðir á borð við orðheldni, heilindi, drengskap eru augljóslega hverfandi á þessum leikvangi.  Og það er sorglegt að sjá.

Þetta er vond byrjun hjá Hönnu Birnu.


mbl.is Nýr meirihluti að fæðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttalegt ástand á moggabloggi - en hitabylgjan bjargar því

Óttalegt ástand er á moggablogginu þessa daga. Í gær lá síðan mín niðri eins og síður fjölmargra moggabloggara, vegna bilunar. Svo þegar hún opnaðist aftur í dag var komið allt annað útlit á hana, allir bloggvinir mínir horfnir, heimsóknartölurnar og fallega Ísafjarðarmyndin sem hafði prýtt hausinn.

Ég þykist vita að vefstjórum sé ekki skemmt meðan verið er að komast fyrir þessi vandræði - svo ég ætla ekki að æðrast mikið yfir þessu. En ég vona sannarlega að við moggabloggarar endurheimtum "gullin" okkar fljótlega. 

Þangað til ætla ég að bíða með að blogga - tja, nema eitthvað stórfenglegt gerist. Varla er nú von á því í sumarhitanum.

Já þetta er nú meiri bongóblíðan - 20 - 25 stiga hiti dag eftir dag - maður er hálf meðvitundarlaus af hita utandyra, hætti maður sér þangað á annað borð.

Sjáumst Wink


Dýravernd í lamasessi

kria Það er ekki um að villast. Dýraverndunarmál á Íslandi eru í lamasessi. Þau samtök, eða félög sem kenna má við dýravernd eru fá og óaðgengileg. Þetta er mín niðurstaða eftir leit á netinu og í símaskrá:

Engin virk heimasíða er til um dýraverndunarmál. Heimasíðan www.dyravernd.is var síðast uppfærð árið 2003.

 

BlidaogHjorvar

Í símaskrá er að finna Dýraverndarsamband Íslands með símanúmer 5523044. Þar ískrar í faxtæki ef hringt er - enginn símsvari. Samkvæmt símaskránni á þó að vera hægt að senda póst á dyravernd@dyravernd.is Ég hef ekki látið reyna á þann möguleika.

Á vafri mínu rakst ég hinsvegar á greinargóða bloggfærslu frá árinu 2006 um stöðu dýraverndamála hérlendis, eftir ungan mann, Snorra Sigurðsson að nafni. Hér er tengillinn á hana. Þó að greinin sé 2ja ára gömul virðist allt eiga við enn, sem þar er sagt.

 Á vegum umhverfisstofnunar er starfandi Dýraverndarráð sem í eiga yrðlingursæti fulltrúar frá bændasamtökum, dýralæknum, Dýraverndarsambandi Íslands og samtökum náttúrufræðinga. Ráðið er skipað til fjögurra ára í senn. Hlutverk þess er að vera Umhverfisstofnun og umhverfisráðherra til ráðgjafar um dýraverndarmál. Ólafur Dýrmundsson, sem í Kastljósþætti í fyrradag var kynntur sem formaður Dýraverndarsambands Íslands hefur verið fulltrúi bændasamtakanna í ráðinu undanfarin ár. Svo er að skilja sem hann hafi nú skipt um sæti - og vonandi verður það Dýraverndarsambandinu til góðs og umræðunni í heild sinni. Fyrsta skrefið mætti verða það að koma upp nothæfri heimasíðu um málefnið.

  Hrefna 

Það er nefnilega staðreynd að starfsemi áhugasamtaka um dýravernd er afar lítil hér á landi; upplýsingar óaðgengilegar og torsóttar og lítil opinber umræða um dýraverndunarmál. Það er til vansa fyrir okkur Íslendinga og löngu tímabært að við hysjum upp um okkur.


Hangið í lagakrókum - hálfrifin sjálfsréttlæting

471885A Eftir fund sem allsnerjarnefnd Alþingis hélt í gær með ýmsum aðilum vegna brottvísunar Paul  Ramses Odour úr landi kom fram að menn teldu "að málsmeðferðarreglur hefðu ekki verið brotnar" í máli mannsins (sjá frétt mbl).

 Ég furða mig á þessu - sérstaklega í ljósi þess að samkvæmt stjórnsýslulögum ber að úrskurða og upplýsa fólk um ákvarðanir stjórnvalda svo fljótt sem mögulegt er. Það getur a.m.k. ekki verið eðlilegt að birta ekki úrskurð fyrir manni fyrr en búið er að handtaka hann níu vikum síðar. Það gefur auga leið að Paul Ramses Odour átti velferð sína (jafnvel líf sitt) undir því að geta leitað annarra úrræða félli úrskurður honum í óhag. Þessi málsmeðferð getur því ekki talist eðlileg.

Vera má að meðferð Útlendingastofnunar á Paul Ramses standist lög - en lög og siðferði eru ekki endilega sami hlutur, eins og Vilmundur heitinn Gylfason benti eftirminnilega á.

Ég vona heitt og innilega að menn beri gæfu til þess að bæta úr í þessu máli - sé það mögulegt. Það er stórmannlegra að horfast í augu við það sem hefur farið úrskeiðis og bæta fyrir það, heldur en að hanga í lagakrókum á sjálfsréttlætingunni hálfrifinni.

 


mbl.is Kært til ráðherra í dag vegna máls Paul Ramses
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er mennskan?

Nú virðist sem þjóðarsálin og "kerfið" hafi orðið viðskila - að minnsta kosti vona ég að framkoma stjórnkerfisins við Paul Ramses Odour og fjölskyldu hans sé ekki til vitnis um hugarþel þjóðar minnar. 

Gestrisni og samhjálp hefur löngum verið einn mælikvarði á menningarstig þjóða. Við Íslendingar höfum í gegnum tíðina haft gestrisni í hávegum, og álitið níðingsskap að synja þeim sem þurfandi eru. Það er inngróið í þjóðarsál okkar. Það hvernig tekið er á móti nýjum samfélagsþegnum, fæddum og innfluttum, er því ekki aðeins til  vitnis um menningu okkar, heldur mennsku.

Hvernig samfélag er það þá sem rekur úr landi ungan fjölskylduföður í lífshættu? Getur slíkt samfélag kennt sig við velferð og mennsku?

Við státum okkur af því á tyllidögum að taka vel á móti flóttafólki. Það vantar ekki að stjórnmálamenn láti mynda sig og nefna á nafn þegar verið er að taka á móti hópum fólks af einhverjum ástæðum hafa flúið heimaland sitt. Þá er fjálglega talað um það að halda saman fjölskyldum, taka vel á móti og skapa skilyrði fyrir fólk til að hefja nýtt líf.

En ... nú kom maður sem leitaði á náðir okkar. Hann var ekki sérvalinn af sérstakri sendinefnd. Hann mætti ekki við ljósaleiftur fjölmiðla á Keflavíkurflugvöll í gefinni lopapeysu eins og flóttamannahóparnir sem stjórnvöld hafa státað sig af á undanförnum árum. Nei - hann kom á eigin vegum - í raunverulegri þörf fyrir aðstoð handa sér og sinni ungu fjölskyldu - eiginkonu og nýfæddum syni. Hann bað um hæli, maður í hættu staddur.

Viðbrögðin? Mannréttindi hans hafa verið fótum troðin. Hann var svikinn um þá málsmeðferð sem hann átti rétt á. Svikinn um svör, blekktur ... og sendur úr landi. Rifinn frá nýfæddum syni og ungri konu. Fjölskyldunni sundrað.

Yfir móður og mánaðargömlu barni vofir að verða vísað úr landi á næstu dögum.

Við Íslendingar höfum viljað kalla okkur menningarþjóð - en hver er mennska okkar?

 


mbl.is Óvissuástand hjá Paul Ramses
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sorglegt að sjá

Það er sorglegt að sjá þessar aðfarir lögreglumanns gagnvart unglingspilti sem grunaður var um búðarhnupl en reyndist svo alsaklaus þegar til kom, og ekkert fannst á honum. En þó svo hefði verið - þá réttlætir það ekki svona aðfarir. Þetta er unglingur - og það er nú ekki eins og hann hafi verið grunaður um stórglæp. Afbrot hans virðist einkum vera að lýsa yfir sakleysi sínu. 

Ég velti fyrir mér afleiðingum þessa atviks á sálarlíf piltsins og tilfinningar þeirra sem voru með honum til lögreglunnar  framvegis. Svo  mikið er víst að þetta eykur ekki traust almennings á lögreglunni. Innra með sjálfri mér hafa vaknað alvarlegar efasemdir um að lögreglumönnum sé innrætt rétt hugarfar gagnvart borgurum þessa lands, þ.á.m. unglingum.

Ef íslenskir lögreglumenn þola ekki að þeim sé svarað á vettvangi - hvar stöndum við þá?  Hver eru réttindi borgaranna ef þeir mega ekki tjá sig við lögregluna án þess að eiga á hættu  meiðingar og lítillækkun?

Löggæslustörf eru vissulega krefjandi - þau eiga að vera það. En þessar aðstæður voru ekkert sérlega krefjandi. Hver einasti grunn- eða framhaldsskólakennari hefði leyst betur úr þessu máli en lögreglumaðurinn gerði þarna. Þetta var einfaldleg ástæðulaus árás á varnarlausan ungling. Lögregluoflæti - paranoja.

Og hvað skyldu lögregluyfirvöld gera í málinu, nú þegar atvikið er lýðum ljóst?

Hvað hefðu þau gert ef þetta myndband væri ekki til staðar? Spyr sú sem ekki veit.

 


mbl.is Mál lögreglumanns til ríkissaksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband