Færsluflokkur: Vefurinn
Meinið burt
13.10.2008 | 10:51
Undanfarna daga hafa stjórnmálamenn í áfalli endurtekið hver eftir öðrum að nú sé ekki tími til að leita sökudólga heldur lausna. Ég óttast að þetta sé orðin einhverskonar sefjun eða mantra sem menn þylja til þess að róa sálartetur sitt og annarra. En sannleikurinn er sá, að uppgjörið er oft liður í lausninni - eða svo gripið sé til sjúkdómslíkingar utanríkisráðherra í merkri grein sem birt er á mbl.is í dag: Stundum þarf að skera meinið burtu.
"Það getur leitt af sér tímabundna vanlíðan, dregið úr virkni hins daglega lífs og sett okkur ýmsar erfiðar skorður en þegar allt er um garð gengið erum við betur sett eftir en áður en meinið var skorið" segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í grein sinni þar sem hún ræðir efnagaskreppuna sem við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir.
"Það má ... líta á þessa atburði alla sem sársaukafullt en um leið kærkomið tækifæri til að staldra við og endurmeta það sem máli skiptir í lífinu. Forsenda þess er að maður sætti sig við þá staðreynd að það er ekki hægt að komast á réttan kjöl aftur án umtalsverðra inngripa þar sem mein eru skorin burt" segir Ingibjörg Sólrún ennfremur.
En hvert er meinið sem skera þarf burtu úr íslenskum þjóðarlíkama svo hann nái bata? Mér sýnist það vera samsett af ýmsum sökudólgum:
Í fyrsta lagi er það hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem læddi þeirri hugvillu inn hjá ráðandi öflum að leikreglur og siðferði væru heftandi fyrir vaxtarmöguleika hagskerfisins. Íhlutanir, eftirlit og inngrip, að ég tali nú ekki um aðild hins opinbera, væru gamaldags og þunglamaleg, beinlínis skaðleg fyrir efnahagslífið sem þyrfti að fá að blómgast í friði, laust við "forræðishyggju" og "ríkisafskipti".
Í öðru lagi eru það boðendur hugmyndafræðinnar - stjórnmálamenn og valdhafar - sem skeyttu ekki um að setja leikreglur og skorður, heldur hönnuðu leikvang hins "fullkomna frelsis" þar sem allt var leyfilegt og engin bar ábyrgð. Þeir lögðu gatnakerfið, en umferðarskilti, ljós og gatnamerkingarnar voru víðsfjarri.
Í þriðja lagi eru það iðkendur hugmyndafræðinnar - útrásarvíkingarnir - sem nýttu sér aðhaldsleysið og fóru eins og byssubrandur í útrásinni. Ragnar Önundarson bankamaður orðaði það ágætlega í Silfri Egils í gær þegar hann líkti þessum mönnum við ökuþrjóta sem gerst hafa sekir um ofsaakstur fjármálakerfisins sem leitt hefur til stórslyss í hagkerfinu.
Í fjórða lagi er það eftirlitsaðilinn - Seðlabankinn - sem með rangri peningastefnu, skorti á eftirliti og röngum viðbrögðum við ástandinu, gerði vont verra.
Nú þarf að gera þrennt:
- Hverfa frá hinni skaðlegu hugmyndafræði og gera rækilega upp við hana.
- Kalla þá menn til ábyrgðar sem báru ábyrgð á atburðarásinni meðan þessi ósköp voru að gerjast og svipta þá umboði til þess að fara með efnahagsmál. Liður í því er að skipta um stjórn í Seðlabankanum.
- Leiða fyrir dómstóla þá fjármálajöfra sem með pappírssölum fyrirtækja og geigvænlegri lánasetningu bankakerfisins komu hér öllu í kaldakol.
Þetta er forsenda þess að að hægt verði að leggja grunn að bata í íslensku efnahagslífi - að íslenska þjóðarsálin finni þrótt til þess að takast á við vandann. Enginn sjúklingur nær bata nema hann sjái eitthvað framundan. Fyrsta skrefið núna er einmitt að fjarlægja meinið svo batinn geti hafist.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Fréttir um að ekkert sé að frétta
5.10.2008 | 14:34
Það er orðið hvimleitt að hlusta á fréttir dag eftir dag um að ekkert sé að frétta. Fréttamenn hanga eins og hálfgerðir papparazzar framan við stjórnarráð og ráðherrabústað, reka hljóðnemann upp í alla sem ganga þar um dyr, spyrjandi endalaust að sömu hlutum og fá endalaust sömu svör: Að það sé ekkert um málið að segja á þessu stigi - verið sé að vinna að lausnum.
Svo er því lýst í smáatriðum hvernig menn bera sig að við að stökkva út úr bílum, upp tröppur og inn í hús - svipbrigði þeirra .... úff! Tíu sinnum hef ég heyrt nú í vikunni að þessi eða hinn sé alvarlegur á svip.
Það á ekki að leggja fréttatímana undir þetta - hvað þá heldur misvitrar kenningar um það sem kannski gerist, og hvað hugsanlega muni koma fram, þar sem slegið er í og úr. Fréttatímar eiga greina okkur frá því sem gerist - ekki því sem kannski gerist, eða menn halda að muni gerast, eða menn vona að gerist. Í öllum bænum - hlífið okkur við þessu.
Svo finnst mér að fjölmiðlar mættu alveg fara að fækka öllum þessum dósentum, aðjúnktum og lektorum sem þeir eru að ræða við dag eftir dag núna. Það er vandstjórnað þegar raddir stjórnvalda kafna stöðugt í misvísandi upphrópunum misviturra álitsgjafa sem tala þvers og kruss - og á endanum veit almenningur ekki sitt rjúkandi ráð. Ekkert frekar en fjölmiðlarnir sem eru farnir að snúast í hringi með hljóðnema sína og myndavélar, eltandi fólk eins og illa vandir hundar.
Látum vera þó að í fréttatímum sé drepið á ígrundaðar kenningar um stöðu mála - en slíka vangaveltur eiga þó best heima í umræðu- og fréttaskýringaþáttum.
Annars hlustaði ég af athygli á Þorvald Gylfason í Silfri Egils núna áðan. Drakk í mig hvert orð sem hann sagði og er sammála honum að nánast öllu leyti (þó mér finnist hann draga full mikið úr lífeyrissjóðaleiðinni - en látum það vera).
Þorvaldur er hættur frýjunarorðum sínum um að Samfylkingin slíti stjórninni - það er ágætt.
Hinsvegar segir hann að ef ríkisstjórnin hafi ekki döngun í sér til þess að skipta um áhöfn í Seðlabankanum þá sé hún ekki starfi sínu vaxin.
Ég tek undir það.
![]() |
Allir róa í sömu átt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Vond minning um eldsvoða
30.9.2008 | 11:39
Stórbruninn í Vestra-Fíflholti í Landeyjum vekur upp hjá mér vonda minningu frá þeim tíma þegar ég var ungur fréttamaður á Sjónvarpinu send austur að Ketilstöðum á Völlum þar sem hafði orðið eldsvoði í fjósi nóttina áður. Á þriðja tug stórgripa drápust í þessum bruna. Ég var sett um borð í flugvél þarna um morguninn og beint á vettvang, eiginlega áður en ábúendur höfðu sjálfir náð að átta sig á aðstæðum.
Aðkoman var svo hræðileg að því lýsa engin orð, enda skelfileg fjörbrot sem brjótast út þegar stórgripir brenna inni. Þegar okkur bar að garði var allt yfirstaðið, en ummerkin óhögguð. Lyktinni gleymi ég aldrei.
Ég finn til með öllum þeim sem hafa þurft að koma að þessu í morgun. Ábúendur í Vestra-Fíflholti eiga samúð mína alla - eignatjónið er augljóslega mikið, en trúlega er tilfinningaskaðinn ekki minni.
![]() |
Missti 120-130 nautgripi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvað segja konurnar í ríkisstjórninni?
12.9.2008 | 12:15
Formaður samningarnefndar ríkisins hefur haldið því fram að kjaradeila ljósmæðra snúist ekki endilega um menntun ljósmæðra heldur "eðli starfans". Eiginlega veit ég ekki hvort er meiri móðgun við ljósmæður að halda því fram að eðli starfs þeirra eða menntunin sé ekki launahækkunar virði.´
Sem margra barna móðir þekki ég af eigin raun - líkt og fjölmargar kynsystur mínar - hið djúpa þakklæti sem hver kona finnur í garð sinnar ljósmóður þegar barn er farsællega fætt inn í þennan heim. En kannski verður slík tilfinning aldrei útskýrð fyrir karlmanni í samninganefnd ríkisins eða fjármálaráðuneytinu. Karlmenn þar á bæ hafa kannski engar forsendur til að skilja helgi fæðingarstundarinnar og mikilvægi ljósmóðurinnar í aðdraganda hennar. Að minnsta kosti verður það ekki ráðið af orðum þeirra eða gjörðum.
Í þessu myndbandi sem Lára Hanna Einarsdóttir setti saman má heyra Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðhera marglýsa yfir stuðningi við málstað ljósmæðra. Hann talar um að "allir" hafi ríkan skilning á þeirra stöðu enda sé á næsta leyti "myndarlegt" útspil af hálfu ríkisins inn í kjaradeiluna.
Hmm... næstu fréttir eru lögsókn fjármálaráðherra á hendur Ljósmæðrafélaginu. Sannarlega útspil í lagi.
"Sínum augum lítur hver á silfrið" segir máltækið. Það er augljóst af öllu að hinn "ríki" skilningur stjórnvalda á stöðu ljósmæðra er ekki af einum toga.
Fjármálaráðherra og formanni samninganefndar ætlar að takast það ótrúlega - að skipa allri íslensku þjóðinni í sveit með ljósmæðrum í þessari kjaradeilu. Það er í sjálfu sér þarft verk - en aðferðin óneitinalega óhefðbundin, þ.e. að ganga fram af af fólki með lítilsvirðandi ummælum og óbilgirni.
Skyldu konurnar í ríkisstjórninni engu fá ráðið í þessu máli? Ég trúi því ekki að þeim sé skemmt núna.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Litla hetjan Ella Dís ...
11.9.2008 | 14:55
... er haldin afar sjaldgæfum hrörnunarsjúkdómi sem læknar standa ráðþrota gagnvart. Hún er aðeins 2ja ára gömul. Móðir hennar hefur undanfarin misseri háð harða baráttu með dóttur sinni og leitað henni lækninga eftir megni - en átt mjög á brattann að sækja.
Fátt er þungbærara foreldrum en að horfa upp á alvarleg veikindi barna sinna. Í tilviki sem þessu gefur einnig auga leið að baráttan er kostnaðarsöm og ströng. Móðirin getur ekki vikið frá barninu.
Nú er hafin söfnun fyrir Ellu Dís og fjölskyldu. Á bloggsíðu Rauða ljónsins má finna nánari upplýsingar um aðdraganda og málsatvik. En reikningsnúmerið er 0525-15-020106 Kennitala: 020106-3870.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Opinber meiðyrði afsökuð í einkasamtali?
1.9.2008 | 10:00
Matthías Johannessen hefur á opinberum vettvangi borið meiðandi álygar á Guðjón Friðriksson sagnfræðing. Fréttir herma að hann hafi beðist afsökunar í einkasímtali. Á vefsíðu Matthíasar er enga slíka afsökunarbeiðni að finna - en Guðjón hefur staðfest í fréttum að hann hafi beðist munnlega afsökunar og málinu sé lokið af hálfu Guðjóns.
Guðjón Friðriksson sýnir Matthíasi mikið drenglyndi að sætta sig við þessi málalok. Þá á ég við það að sætta sig við einkasímtal sem afgreiðslu á opinberri ávirðingu. Matthías er þó ekki meiri maður fyrir vikið. Maður með sjálfsvirðingu sem gerst hefði sekur um að bera álygar á saklausan mann myndi að sjálfsögðu biðjast afsökunar á sama vettvangi og meiðingarnar hefðu komið fram. Ég hefði búist við því af Matthíasi Johannessen að hann væri maður til að gera slíkt.
Ég hef áður bloggað um dagbækur Matthíasar sem mér finnast á köflum varða við siðareglur blaðamanna, og nú einnig við ærumeiðingarákvæði almennra hegningarlaga. Það er illt til þess að vita að ritstjóraskrifstofa Morgunblaðsins skuli árum saman hafa verið rógsmiðja. Ekki sú kvika framsækinnar og faglegrar samfélagsumræðu sem hægt væri að ætlast til af jafn öflugum og virtum fjölmiðli heldur "áburðarverksmiðja" - svo ég noti nú gamalt orð í nýjum tilgangi.
Og eiginlega er mér alveg nóg boðið að fá enn eina staðfestingu þess hvernig íslenskt fjölmiðlafólk hefur á stundum látið misnota sig; draga sig ofan í rógpytti og slúðurfen um menn og málefni í stað þess að greina, gagnrýna og hugsa sjálfstætt.
Fyrir þá sem hafa orðið fyrir slíkum vinnubrögðum - og þekkja hvernig þau svíða á sálartetrinu - er átakanlegt að verða vitni að öðru eins hjá mikilsvirtum ritstjóra og skáldi sem margir hafa hingað til litið upp til og í ýmsu tekið sér til fyrirmyndar.
Sorglegt.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 15:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Það sem höfðingjarnir hafast að ...
29.8.2008 | 14:36
Ekki alls fyrir löngu hvatti Geir Haarde almenning til aðhalds í peningamálum vegna versnandi efnahagsástands (sjá hér ). Í opinberum ummælum ráðamanna og atvinnurekenda um kjaraviðræður er hamrað á því að fólk verði að sýna nægjusemi í erfiðu árferði. Á sama tíma sjáum við og heyrum í fjölmiðlum um milljónaútlát vegna ferðalaga einstakra ráðherra sem fara með fríðu föruneyti á Ólympíuleikana, ekki einu sinni heldur tvisvar. Við heyrum af rándýrum boðsferðum ráðamanna í laxveiðiár og lesum í tekjuyfirliti Frjálsrar verslunar um stjórnendur í fjármálageiranum sem hafa tugi milljóna á mánuði í laun.
Er nema von þó að almenningi sé um og ó?
Í ljósi þessarar umræðu er svolítið vandræðalegt að lesa varnarræðu Sigurðar Kára Kristjánssonar á bloggsíðu hans í dag. Þar ber hann í bætifláka fyrir menntamálaráðherra sem hefur sætt harðri gagnrýni fyrir mikinn ferðakostnað vegna Ólympíuleikanna. Sigurður Kári beitir því bragði að reyna að draga forsetann inn í umræðuna, augljóslega ergilegur yfir því að fólk skuli ekki beina athyglinni að honum en hlífa flokkssystur Sigurðar Kára, menntamálarðaherranum. Sá er þó munur á að forseti Íslands er þjóðhöfðingi, kjörinn af þjóð sinni til þess að vera fulltrúi hennar á alþjóðavettvangi. Ráðherra hins vegar er yfirmaður tiltekins málaflokks í umboði alþingis. Á þessu er allverulegur munur. Forsetahjónin voru tvö í för - í föruneyti menntamálaráðherra voru fjórir að ráðherra meðtöldum.
"Það sem höfðingjarnir hafast að - hinir ætla að þeim leyfist það" segir máltækið. En satt að segja, held ég að engum venjulegum manni dytti þó í hug að fara tvær opinberar ferðir á einn og sama viðburðinn við fjórða mann. Sannleikurinn er nefnilega sá að venjulegu fólki dettur ekki svona bruðl í hug. Þetta er ekki veruleikinn sem almenningur býr við í eigin aðstæðum.
Þeir sem mæla svona óráðsíu bót eru einfaldlega ekki í tengslum við raunveruleg kjör almennings. Þannig er nú það.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Orð meiða
29.8.2008 | 10:18
Orð eru vopn - og maður verður að fara varlega með vopn, sérstaklega nálægt börnum og ungmennum. Á síðunni skessuhorn.is er í dag sagt frá því að 15 ára gömul stúlka sem hneig niður meðvitundarlaus á Dönskum dögum reyndist ekki undir áhrifum ólöglegra vímuefna eins og fullyrt var í fjölmiðlum. Nú liggur niðurstaða blóðrannsóknar fyrir.
Stúlkan býr í litlum bæ þar sem allir þekkja alla. Hún er aðeins 15 ára gömul og "á ekki viðreisnar von" að sögn náins aðstandanda. Hún hefur þjáðst vegna umtalsins sem af þessu hlaust.
Orsök umtalsins má rekja til ummæla unglingspilts sem var viðstaddur þegar hún hné niður og taldi þetta augljós einkenni e-töflu neyslu. Lögreglan tók piltinn trúanlegan og rannsakaði málið sem e-töflumál. Fjölmiðlar fréttu þetta og fiskisagan flaug.
Nú er komið í ljós að stúlkan var einfaldlega saklaus af e-töfluneyslunni. Það breytir þó ekki vanlíðan hennar yfir umtalinu. Hún er jú bara 15 ára.
Ég hvet ykkur til þess að lesa fréttina um tilurð þessa orðróms - lesið og lærið.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Laglega byrjar það ...
25.8.2008 | 22:43
... hjá nýja borgarstjóranum. Ekki það að hlakki í mér. Nei þótt ótrúlegt megi virðast þá er ég eiginlega farin að finna til með Hönnu Birnu. En - svo hristi ég það af mér að sjálfsögðu. Hún er vel að þessari skoðanakönnun komin, eins og allt hennar fylgilið í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Þau hafa algjörlega kallað þetta yfir sig sjálf.
![]() |
Borgarstjórn með fjórðungs fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Ég finn veðurbrigði í nánd ...
25.8.2008 | 10:10
Jæja, þá eru haustlægðirnar farnar að gera vart við sig, og nú mun vera von á einni frekar krappri eins og fram kemur á bloggsíðu Einars Sveinbjörnssonar. Ekki er laust við að maður finni þetta á sér, enda komið hausthljóð í vindinn fyrir nokkru.
Ég er ein af þeim sem finn fyrir veðurbrigðum þegar þau nálgast. Margir halda að þetta sé einhverskonar hjátrú eða bábilja. Svo er þó ekki. Ég beinlínis finn fyrir því í mjöðmum og baki þegar loftþrýstingur lækkar. Gömlu konurnar hafa löngum haldið þessu fram - og ég held að margt yngra fólk finni fyrir þessu þó það átti sig ekki alltaf á ástæðunni. Sömuleiðis verð ég svefnþung og þreytt þegar lægð er yfir landinu - þannig er það bara.
Ég minnist þess þegar ég kenndi í Gagnfræðaskóla Húsavíkur fyrir mörgum árum, að ef krakkarnir urðu óvenju órólegir - þá á ég við hópinn allan - þá sagði Sigurjón Jóhannesson skólastjóri ævinlega: Nú er lægð á leiðinni. Og það brást ekki.
Maður getur líka séð ýmis veðurmerki á dýrum, sérstaklega fuglum, þegar loftþrýstingur er að breytast.
Og sumsé - nú er lægð á leiðinni. Ég var svefnþung í morgun og svei mér ef það lagðist ekki svolítill seiðingur í spjaldhrygginn í gærkvöldi.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)