Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Sólbrennd og sæl eftir Hornstrandir

 Jæja, þá er ég nú komin heim - sólbrennd og sælleg með harðsperrur og frunsuvott á efrivör - eftir frábæra fjögurra daga gönguferð um Hornstrandafriðlandið.

Veðrið lék við okkur dag eftir dag, og við nutum lífsins til hins ýtrasta - fjórtán manna gönguhópur sem þetta árið kallar sig "Þéttum hópinn" . Þannig er að hópurinn skiptir nefnilega um nafn árlega eftir því hvað ber hæst í ferðum hverju sinni. Í þetta skiptið lentum við í þreifandi þoku á Háu heiði þegar komið var upp úr Fljótavík, fyrsta daginn.

Sennilega hefðum við villst þarna í þokunni, ef Hjörtur Sigurðsson, sem er ókrýndur leiðsögumaður hópsins, hefði ekki verið fljótur að hugsa. Við sáum þokuna nálgast með ógnarhraða, þar sem við áðum efst á fjallabrún, nýkomin upp. Hann hafði engin umsvif heldur hljóp upp á næstu hæð til þess að sjá hvernig leiðin væri vörðuð. Þegar hann kom til baka var niðdimm þokan skollin á. Víð vissum nú hvar fyrsta varðan var og þegar þangað kom sáum við grilla í þá næstu. Þegar dimmast var mynduðum við n.k. keðju milli varða þannig að einn gekk framfyrir svo langt sem næsti maður sá, en hinir biðu. Þá hélt næsti maður framfyrir hann, og þannig koll af kolli þannig að menn misstu aldrei sjónar af síðustu vörðu fyrr en sú næsta var fundin.

 Ég hefði ekki haft áhyggjur nema vegna þess að með í för voru fjórir ungir piltar, sem ég hefði síður viljað láta gista á heiðinni. Þetta voru þeir frændur: Hjörvar (sonur minn, 13 ára), Vésteinn (systursonur minn, 13 ára) og systursynir Sigga, Nonni (15) og Þorsteinn (16).

Það var því gaman að koma niður af fjallinu hinumegin, eftir tíu tíma göngu, þar sem þokan leystist upp fyrir augum okkar og Hesteyrin blasti við, og framundan henni hluti Ísafjarðardjúpsins.  Sumir hófust handa við að tjalda, en aðrir (ég og mitt fólk þar á meðal) notfærðu sér að geta keypt svefnpokagistingu í læknishúsinu á Hesteyri, gömlu, fallegu húsi sem ilmar af sögu og panellykt.

 Hesteyri2 (Small)  Daginn eftir tókum við það  rólega, röltum um nágrennið. Sumir gengu inn fyrir ófæru - aðrir slökuðu á, skoðuðu gömlu verksmiðjuna sem er þarna rétt hjá og nutu lífsins. Þarna við gömlu verksmiðjuna rákumst við á tvo yrðlinga undir vegghleðslu sem léku sér í sólskininu. Sé rýnt í myndina má sjá annan þeirra skjótast milli veggbarma.

 Burfell2 (Medium) Þriðja daginn gengum við upp Hesteyrarskarð og umhverfis Búrfell. Þaðan sáum við "vítt of heima alla" þar sem við gátum virt fyrir okkur Aðalvík, Rekavík, og óendanlegt hafflæmi norðanmegin en Ísafjarðardjúpið og hluta Jökulfjarða með útsýni yfir Drangajökul hinumegin (sjá mynd). Þarna upplifðu drengirnir það að standa á vatnaskilum, í orðsins fyllstu merkingu, því þar sem við stóðum sáum við litlar uppsprettur tvær, og ekki meira en faðmur á milli þeirra. Önnur rann til suðurs, hin til norðurs.

Um kvöldið var slegið upp grillveislu eins og hefðin segir til um. Þá er farið yfir atburði ferðarinnar og valið nýtt nafn á hópinn. Var glatt á gjalla og mikið hlegið.

Veðurblíðan á Hesteyri var engu lík þessa daga. Logn á firðinum, sól og sandfjara freistuðu ferðalanganna. Enda stóðumst við ekki mátið, skelltum okkur í sundfötin og böðuðum okkur þarna í sjónum á kvöldin. Það var ótrúlega hressandi og gott.

Fjórði dagurinn var heimferðardagur. Þá var gengið út Hesteyrafjörðinn, með stuttri viðkomu í kirkjugarðinum gamla, og svo áleiðis til Aðalvíkur. Útsýnið á þessari leið er ólýsanlegt. Þegar leið á daginn sáum við úrkomubelti nálgast yfir Ísasfjarðardjúpið, en rigningin náði okkur aldrei.

LeidiOddsÓThoroddsen (Small) Á Stað í Aðalvík á ég jarðsettan móðurbróður, Odd Ó. Thoroddsen sem hrapaði til bana í Hælavíkurbjargi á Hvítasunnu árið 1911, þá nítján ára gamall. Hann var þá í ferð með afa mínum, Ólafi E. Thoroddsen, sem gerði út skútu frá Patreksfirði. Þetta vor var skútan við fiskveiðar norður af Hornbjargi og á Hvítasunnunótt komu þeir inn í Hælavík. Veður var stillt og bjart. Ungu mennirnir um borð stóðust ekki mátið að fara í bjargið eftir eggjum, þrátt fyrir bann afa míns, skipstjórans, sem vildi ekki að þeir færu. Þessi för endaði með því að Oddur lenti í sjálfheldu og félagar hans, Jón Eiríksson (síðar skipstjóri á Lagarfossi) og Sigurður Andrés, flýttu sér niður í Hælavík til að sækja mannskap og reipi honum til bjargar. Þegar þeir komu til baka var Oddur horfinn. Í þrjár vikur slæddi afi sjóinn framundan bjarginu án árangurs. Varð hann frá að hverfa við svo búið. Þrem mánuðum síðar rak lík Odds upp í Aðalvík og var hann jarðsettur þar - en afi og áhöfn voru þá löngu sigldir til heimahafnar með sorgarfregn um týndan son. Afi lét síðar gera þessum frumburði sínum veglegan legstein sem komið var upp í garðinum á Stað - og stendur sá steinn enn í góðu ástandi, þó að flest annað sé sokkið í hvönn og órækt þarna í þessum gamla kirkjugarði.

Það gladdi mig að geta vitjað þessa frænda míns sem jarðsettur var þarna fjarri ástvinum sínum og frændfólki, einungis 19 ára, sumarið 1911. Ég get þakkað Sigga mínum það að ég vitjaði leiðisins, því það var hann sem óð hvönnina upp í axlir og fann það fyrir mig. Sjálf var ég eiginlega fyrirfram búin að gefa það upp á bátinn, þar sem ég leit yfir kirkjugarðinn - taldi mig ekkert geta fundið í þessu kafgresi og hvannastóði.

En Aðalvíkin tók vel á móti okkur, þar sem við örkuðum áfram, göngumóð í átt til sjávar, eftir stuttan stans á Stað. Og það var notalegt að sjá bátinn nálgast þegar við skyldum sótt, síðdegis. Sjóferðin heim gekk vel og kyrrt í sjóinn. 

heimleid (Small)

Í dag verður svo farin létt 2ja tíma "afturganga" (les: eftirganga) um Korpudal, þar sem Pétur tengdafaðir minn mun slást með í för og fræða mannskapinn um byggð og búskap fyrir botni Önundarfjarðar, fyrr á tíð.

En í kvöld mun hópurinn svo halda svolítið kveðjuhóf í Edinborgarhúsinu þar sem ferðin verður væntanlega rifjuð upp með tilheyrandi gamansögum og gríni, áður en menn fara hver í sína áttina.

Gönguhópurinn samanstendur nokkurn veginn af sama fólki ár eftir ár. Það hefur þó ekki gerst enn að hópurinn sé allur í ferð - því alltaf hrökkva einhverjir úr skaftinu eins og gengur. En þeir sem hafa farið í ferðir með hópnum eru: Ólína og Sigurður (stundum með börn), Edda og Bergstein (stundum með börn), Kristín og Pétur, Helga Magnea og Einar Már (stundum með börn), Hjörtur Sigurðs, Ingibjörg Sólrún og Hjörleifur, Þórhildur og Arnar, Jón Baldvin og Kolfinna, Ragnheiður Davíðs og Sigrún Ólafs.

 


Æ, þessi klukkleikur!

Ég hef ekkert vitað hvað er að gerast í þessum klukkleik sem hefur gengið á netinu síðustu daga. Fólk hefur komið inn á síðuna hjá mér og klukkað mig. Ég hef bara sagt KLUKK á móti, hin ánægðasta Whistling

En það er víst ekki leikurinn. Maður á semsagt að lista upp 8-10 staðreyndir um sjálfan sig og klukka svo jafnmarga á netinu - held ég.  Undecided  Jæja - best að vera ekki félagsskítur. Hér koma nokkrar staðreyndir um mig:

1) Ég er kona á góðum aldri Wink

2) ... orðin amma - og á sætasta ömmustrák í heimi Smile

3) Ég er fædd í meyjarmerkinu - rísandi ljón með tungl í krabba - það skýrir margt Cool

4) ... og einmitt vegna þess að ég er "meyja" hef ég verið að dunda mér við það undanfarna daga að raða öllum bloggvinum mínum upp í stafrófsröð á síðunni minni ... Undecided

5) ... og þess vegna vil ég EKKI fá upplýsingar um að þetta sé hægt að gera með einu handtaki  Angry

6) Ég er útivistarkona og elska gönguferðir Smile

7) Ég elska fjölskylduna mína og held ég myndi verja líf barnanna minna með mínu eigin lífi ef með þyrfti Woundering

8) Mér leiðast úrtölur ...Pinch

9) ... þoli ekki slugs og hangs Angry

10) Ég er draumspök og svolítið göldrótt

Wizard

Og svo þetta sé nú tekið saman í stuttu máli:  

  • Ég kostum búin ýmsum er:
  • Áköf, kurteis, gjafmild, þver.
  • Engan löst þó af mér ber,
  • enda flókinn karakter 

Wink


Hornstrandir - here I come!

Hornbjarg Jæja, þá er ég nú að leggja lokahönd á undirbúning Hornstrandaferðarinnar sem hefst í fyrramálið. Við  munum sigla norður í Fljótavík og ganga þaðan yfir á Hesteyri, þar sem við ætlum síðan að halda til næstu daga og ganga þaðan mismunandi dagleiðir. Hluti hópsins verður í tjöldum, hluti í húsi á staðnum. Sjálf ætla ég að þiggja þægindin að vera í húsi - gott að hvíla sig á því að liggja á jörðinni svona einu sinni úr því mér gefst kostur á því Smile

Þetta er fjórða árið í röð sem við göngum á Hornstrandir ferðafélagarnir - erum oftast 12-16 saman - og alltaf er farin ný leið á hverju ári. Við sjáum fram á að geta farið a.m.k. fjögur ár enn án þess að endurtaka gönguleiðir - og raunar hitti ég hjón í fyrradag sem hafa farið fjórtán sinnum, og segjast ekki enn vera búin að "loka hringnum".  

Það verður því ekki bloggað næstu daga - en vonandi verð ég með skemmtilega ferðasögu fyrir ykkur eftir helgina.

Þangað til bendi ég ykkur bara á að hlusta á Laufskálaþáttinn okkar Lísu Páls frá því í fyrradag Wink (sjá næstu færslu hér fyrir neðan).

Hafið það sem allra best á meðan.

 PS: Mikið var gott að fá þessa rigningu í nótt - gróðurinn er ferskur og þrútinn í dag eftir blessaða vætuna. Það má mín vegna rigna í allan dag - en á morgun bið ég um uppstyttu Undecided 


Hitað upp fyrir Hornstrandir: 2. kafli.

Já, þessa dagana er að myndast svolítil hrúga á gólfinu í sjónvarpsherberginu - hún hækkar dag frá degi: Þetta eru bakpokar, ullarföt, flugnanet og svona hitt og þetta sem hafa þarf til taks fyrir Hornstrandagönguna um næstu helgi. Bóndinn er farinn að breiða úr kortum, athuga göngustafina og svona .... við erum í rólegheitum að setja okkur í gírinn. Hluti af því er að tölta hérna um nágrennið á nýju gönguskónum; skreppa upp í Naustahvilft í kvöldlogninu, ganga með góðum vinum inn í Álftafjarðabotn og svona ...

Og þar sem greiðviknir bloggvinir hafa gefið mér greinargóðar leiðbeiningar um það hvernig eigi að setja inn myndir úr einkaalbúminu - þá koma hér nokkrar frá ferðum okkar síðustu daga.  

Alftafjordur3 (Medium) (Medium)Alftafjordur7 (Medium)Alftafjordur6 (Medium)

Þessar þrjár myndir voru teknar inni í Álftafjarðarbotni í gær: 1) Við Siggi með Blíðu í Valagili 2) Guðrún og Gummi kasta mæðinni 3) Svanbjörn, Siggi, ég og Gummi að skoða nýju göngubrúna

 

Svo höfum við farið tvær ferðir upp í Naustahvilftina fyrir ofan flugvöllinn. Þessar myndir voru teknar eitt kvöldið þegar við skruppum með Hjörvari syni okkar og Vésteini frænda hans. Við það tækifæri stóðust þeir ekki mátið og fengu sér vatnssopa beint úr uppsprettunni.

Naustahvilft6 (Medium)Naustahvilft2 (Medium)Naustahvilft9 (Medium)

Svo er bara að krossleggja fingur og vona að blíðan haldist fram yfir næstu helgi Woundering


Sumardýrð og lóðarí

Sól skín á sundin - léttist nú hver lundin.

Ótrúlega fallegur dagur í dag. Ætla að drífa mig í góðan göngutúr inn í Álftafjörð með hundana.

Noi07 Jamm, ég er með aukagest á heimilinu - hann Nóa blessaðan. Fallegan, rauðbrúnan "Vísel" eins og sagt er. Nói er hreyfihamlaður, varð fyrir bíl sex mánaða gamall og er því með visinn annan afturfót. Ótúrlega duglegur að hoppa um þá þremur þessi elska - en ég þarf samt að hjálpa honum upp stigann í húsinu, hann er ekki alveg búinn að læra á þrepastærðina þar.

 NoiogBlida07  En það er ástand á heimilinu. Dalmatíutíkin mín hún Blíða er nefnilega að lóða - alveg á hátindi þeirrar sveiflu. Nói getur lítið gert fyrir hana, því hann er búinn að missa kúlurnar blessaður, auk þess sem hann hefur bara einn nothæfan afturfót. Hinsvegar reynir hann að gera sitt besta - og það er hálf átakanlegt að fylgjast með aðförunum. Hún hjálpar honum eftir fremsta megni - en það ber lítinn árangur. Hún skilur ekkert í þessu. 

Úff! Ég þyrfti eiginlega banna aðgang að heimilinu innan sextán, meðan þetta stendur sem hæst.

Hvað um það - ætla í göngutúr með þau núna á eftir. Læt fljóta hér vísu sem rifjaðist upp fyrir mér þegar ég leit sólardýrðina (og hundana í garðinum)  í morgun. Það hefur verið hamingjusamur maður sem orti þetta:

  • Engu kvíðir léttfær lund
  • ljúft er stríði að gleyma.
  • Blesa ríð ég greitt um grund,
  • Guðný bíður heima.

 Hafið það gott í dag - njótið sumarblíðunnar Smile

 

 


Þetta er nú Saga mín

saga-dansarSaga

Þessi kattliðuga stúlka heitir Saga Sigurðardóttir. Hún er nýútskrifaður danshöfundur frá nútímadansdeild Listaháskólans í Arnhem í Hollandi. Ekki alls fyrir löngu sigraði hún í alþjóðlegri danshöfundakeppni í Búdapest, og hefur síðan verið á ferð um heiminn að sýna dansverk sín og annarra samstarfsmanna og samnemenda frá Arnhem. Þau hafa m.a. komið til Íslands og sett hér upp verkið Víkingar og Gyðingar sem sýnt var í Hafnarfjarðarleikhúsinu í fyrra og vakti verðskuldaða athygli.  Nú er hún á leið til Ísrael að sýna sólóverk eftir sjálfa sig - hún nefnir það Rite.

Ég er afskaplega stolt af þessari stelpu - eins og reyndar börnunum mínum öllum Smile Segi kannski meira frá þeim síðar.

 


Brunninn kórbúningur

Ég er í svolítið vondu máli. Ég þarf nefnilega að útskýra fyrir upphaflegum eiganda kórbúningsins sem ég hef haft að láni undanfarin ár, hvernig mér tókst að brenna tvö hnefastór göt á treyjuna, eitt á framhlið og annað á bakhlið. Sé henni haldið uppi má horfa í gegnum götin bæði, eins og hleypt hafi verið af haglabyssu í gegnum búninginn. Blush

Þetta gerðist í hinni merku tónleikaferð Sunnukórsins til Eystrasaltslanda, sem sagt hefur verið frá hér á síðunni fyrir skemmstu.

Málið er hið vandræðalegasta, enda ýmsar kenningar uppi um það hvað raunverulega gerðist. Hvort ég hafi verið að reykja eða fikta með eld inni á hótelherbergi Bandit. Jafnvel að Sigurður bóndi minn hafi verið svo heitur í atlotum að ég hafi hreinlega fuðrað upp þarna rétt ofan lífis  InLove Sú kenning varð raunar tilefni ofurlítillar stöku sem sett var fram á góðri stundu og er svona:

  • Með aldri funann finna menn
  • fölskvast í sér,
  • en Siggi kátur kann vel enn
  • að kveikja í mér.

Jæja, svo skemmtilega vildi þetta þó ekki til. Tildrög óhappsins yrði of langt mál að rekja hér í smáatriðum en við sögu koma: Standlampi, logandi heit pera af einhverri ónefnanlegri tegund (skaðræðisgripur sem hitnar eins og skot), og Siggi minn blessaður sem í sakleysi sínu kveikti ljósið .... og fann svo brunalykt. Whistling

En nú þarf ég semsagt að manna mig upp í að hringja í hinn upprunalega eiganda og útskýra málið.                         


Úlfur um nótt

úlfur Í nótt voru úlfar á kreiki - náttúlfar í næturkyrrðinni.

Þannig er að ég á stundum erfitt með svefn. Eftir góða daga þegar mikið hefur verið um að vera er ég oft eirðarlaus og get ekki farið að sofa. Þannig var það í nótt. Eftir gott kvöld með vinum úr  hundabjörgunarsveitinni sem borðuðu hjá okkur og sátu að spjalli fram eftir kvöldi gat ég ekki fengið mig til að fara að sofa. Næturkyrrðin lagðist yfir húsið. Ég sat við gluggann og horfði á lognværan fjörðinn. Innra með mér óx úlfurinn. Ég hef stundum orðið hans vör, lengi vel streittist ég gegn honum, en gat það auðvitað ekki.  Úlfurinn í mér er þarna, og þegar hann gerir vart við sig verð ég eirðarlaus - get ekki sofið, vil ekki sofa. Í nótt var tungl nærri fullt - ég fann fyrir því þó ég sæi það ekki.

Og hvað gera úlfar undir fullu tungli? Þeir tylla sér upp á næstu hæð og senda langdregna, tregafulla tóna út í nóttina. Áður en ég vissi af var ég sest við tölvuna og farin að vafra um netið. Skellti inn einni lítilli færslu og fór svo að kíkja á síður hjá öðrum. En viti menn, það voru fleiri náttúlfar á kreiki. Þeir komu inn á síðuna mína með athugasemdir, og heimsóknatalningin tók óvæntan kipp. Á annað hundrað manns kíktu við á síðunni þennan hálftíma sem ég sat við tölvuna - og um stund má segja að nóttin hafi ómað af úlfasöng umhverfis mig.

Þetta var óvænt og skemmtileg uppgötvun. Ég var þá ekki sú eina sem vakti. Það eru hundruð manna andvaka undir fullu tungli - og þetta fólk á sér samfélag þegar aðrir sofa: Úlfahjörð sem reikar um náttheima netsins. Vúúúúúúúú - gaman.

úlfar

 


Komin úr söngferðinni - og fer nú beint í hundana!

SunnukorinnFinnland Jæja, þá er ég komin úr stórkostlegu söngferðalagi með Sunnukórnum á Ísafirði til Eystrasaltslanda. Fyrsti viðkomustaður var Finnland - sungum þar undir Síbelíusarminnismerkinu (sjá mynd), líka á Esplanaden,  og svo var það hápunkturinn: Sjálf Klettakirkjan. Það var mikil upplifun ... og margt sem fór úrskeiðis, bæði fyrir tónleikana og meðan á þeim stóð.

Til dæmis tókst mér, fyrir ótrúlega slysni sem of langt mál yrði að rekja hér, að brenna hnefastórt gat á kórbúninginn minn kvöldið fyrir tónleikana í Klettakirkjunni Whistling. Ég á það hjálpsamri kórsystur að þakka, henni Hrafnhildi, að þessu varð bjargað. Hún er nefnilega völundur í höndum, og þrátt fyrir að hótelið gæti einungis útvegað okkur ónýta saumavél, sem að sjálfsögðu bilaði á meðan verið var að reyna að gera við skemmdina þarna á síðustu stundu, þá tókst henni að sauma treyjuna upp með sínum fimu fingrum. Og nú er treyjan betri ef eitthvað er. Enda sáu allir - þegar viðgerðinni var lokið - að svona styttri treyjur væru eiginlega bara klæðilegri á okkur konunum. Þannig að óhappið hefur sennilega skapað nýjan "trend" fyrir kórbúninga Sunnukórsins í framtíðinni Tounge

 Jæja, en tónleikarnir tókust vel. Þeir voru vel sóttir og viðtökur áheyrenda frábærar í lokin, mörg uppklöpp og endaði með því að salurinn reis á fætur fyrir okkur. Jamm - ekkert minna.

Sanngirninnar vegna skal þess getið að við höfðum fyrirtaks klapplið með í för þar sem makar okkar voru annarsvegar. Þeir tóku að sér hlutverk kynningarfulltrúa og aðdáenda með öllu sem því tilheyrir - klöppuðu mest og hæst og sköpuðu stemningu hvar sem við komum. Nú skil ég betur en nokkru sinni gildi þess fyrir fótboltaliðin að hafa góða aðdáendaklúbba Smile

En kórinn sjálfur átti auðvitað sinn hlut í þessu - og þá ekki síst stjórnandinn okkar hún Ingunn Ósk Sturludóttir. Hún er sjálf mezzo-sopran söngkona með djúpa og þróttmikla rödd - og það gerði auðvitað útslagið þegar hún tók lagið með okkur. Sérstaklega var áhrifamikið þegar hún söng Ave Maríu eftir Sigvalda Kaldalóns. Það eru engar ýkjur að fólk tárfelldi undir söng hennar, og eftir það áttum við hvert bein í áheyrendum.  Þá spillti ekki fyrir að undirleikari kórsins, Sigríður Ragnarsdóttir, er snillingur á hljóðfærið. Sömuleiðis BG sjálfur, hann Baldur Geirmundsson með harmonikkuna og Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir sem sló rengtrommuna af mikilli list þegar við tókum "Húsið" (lagið góða "Húsið er að gráta" sem Helgi Björns gerði frægt en Vilberg Viggósson hefur nú útsett sérstaklega fyrir Sunnukórinn).,

Jæja, svo var haldið til Eistlands. Þar sungum við á ráðhústorginu í Tallin og héldum svo opinbera tónleika síðar um daginn í sænsku kirkjunni. Hljómburðurinn í kirkjunni var ótrúlega fagur, og satt að segja held ég að þar hafi styrkur kórsins og samstilling notið sín best.  Oft hef ég heyrt fagra Ave Maríu sungna eftir Sigvalda - en hvergi eins og þar.

Lettland Frá Tallin var haldið til Lettlands og sungið í menningarmiðstöðinni í Riga ásamt heimakór, sem að fáum vikum liðnum mun þreyta kapps í alþjóðlegri kórakeppni. Í Riga hittum við líka samkór Kópavogs sem voru á söngfeðralagi. Kórarnir slógu sig saman eitt kvöldið, borðuðu saman og tóku svo lagið, m.a. framan við hótelið þar sem báðir hóparnir gistu (sjá mynd). Kraftmikill söngur kóranna tveggja vakti óskipta athygli gesta og gangandi.

Síðustu tveimur dögunum eyddum við svo í Vilníus í Litháen. Þar gerðum við okkur glaðan dag á 17. júní með því að syngja þjóðsönginn okkar á tröppum ráðhússins. Að því loknu var haldið fylktu liði niður að Óperutorginu og sungið á leiðinni. Vakti þetta mikla athygli í Vilníus og var okkur tjáð að um fátt hefði verið meira rætt þann sunnudaginn en þessa skemmtilegu Íslendinga.

Í gær ókum við svo aftur frá Vilníus til Riga og tókum þaðan ferju yfir til Stokkhólms - gistum um borð og áttum skemmtilegt lokahóf í gærkvöldi. Mikið sungið og trallað.

Tallinn1

Ferðina kórónaði Bryndís Schram, sem var fararstjórinn okkar þessa daga. Hún er hafsjór af fróðleik um Eystrasaltslöndin, enda fylgdist hún með sjálfstæðisbaráttu þeirra í óvenjulegu návígi sem utanríkisráðherrafrú á sínum tíma (þegar Jón Baldvin tók sig til fyrir hönd Íslendinga og viðurkenndi sjálfstæði þeirra á undan öðrum). Er síst ofmælt að Bryndís átti sinn þátt í því að gera þessa ferð ógleymanlega.

Whistling 

Jæja, en nú er næst á dagskrá að halda norður í Vaglaskóg með fjölskylduna og hundinn, á nokkurra daga björgunarhundanámskeið og tjaldútilegu.

Blessað barnið hann Hjörvar minn, og tíkin hún Blíða, hafa verið í sveitinni hjá systur minni meðan við hjónin vorum á fyrrnefndu söngferðalagi. Er ekki að orðlengja að þau hafa hvort með sínum hætti notið frelsisins í sveitinni. Hann með frænda sínum og jafnaldra honum Vésteini. Tíkin með heimilishundinum á bænum, honum Sámi. Hefur þar verið óheftur aðgangur að sauðfé, hrossum og öðrum hundum - og nú er spurningin hvernig mér gengur að tjónka við hundspottið þegar við komum norður á björgunarhundanámskeiðið.  

Frá því verður kannski sagt síðar - næsta blogg kemur sennilega ekki fyrr en eftir helgina. Hafið það gott á meðan.


Á ferð og flugi - það er komið sumar!

bardastrond  Það er margt spennandi framundan næstu daga.

Um helgina er förinni heitið austur að Leirubakka í Landssveit á ráðstefnuna "Hálendi hugans" sem þjóðfræðingar og sagnfræðingar standa fyrir í Heklusetrinu.  Þar verður fjallað um hálendi Íslands frá ýmsum sjónarhornum. Sjálf verð ég með erindi sem nefnist "Óttinn við hið óþekkta - hálendið í íslenskum þjóðsögum". Ég ætla að fjalla um hlutverk hálendisins í íslenskum þjósögum; ótta og átök sem menn upplifðu utan marka mannfélagsins, í hólum, hömrum og á heiðum uppi í viðureign við vættir landsins. Ég greini frá sögum um samskipti mennskra manna við álfkonur, tröllskessur og drauga. Spennandi Wink

Áður en að þessu kemur verð ég þó á fundi í Háskóla Íslands - stofnfundi nýs Rannsókna og fræðaseturs HÍ á Vestfjörðum. Það er mikilsverður áfangi fyrir okkur Vestfirðinga að fá nýtt fræðasetur, og mun vafalaust hafa þýðingu fyrir þekkingarsamfélagið hér vestra.

Annars verð ég á ferð og flugi mestallan júnímánuð. Um miðjan mánuðinn er fyrirhuguð tónleikaferð með Sunnukórnum til Eistlands, Finnlands og Svíþjóðar.

Undir lok mánaðarins mun ég svo mæta með stóran hluta fjölskyldunnar (eiginmann, tvo syni, tengdadóttur, ömmustrák og tvo hunda) norður í Vaglaskóg þar sem við verðum ásamt fleiri félögum í Björgunarhundasveit Íslands í tjaldbúðum við leitarþjálfun o.fl. Það er svo sannarlega tilhlökkunarefni að fá litla ömmustrákinn með, hann Daða Hrafn. Hann er svo voðalega langt frá mér svona dags daglega.

Sumsé - mikið um að vera og viðbúið að lítið verði bloggað á næstunni. Læt þessu lokið í bili með mynd af fallegum ömmudreng í heimaprjónaða vestinu sem amma sendi honum um jólin.

DadiHrafn

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband