Færsluflokkur: Evrópumál

Fiskveiðistjórnun þriggja landa

Nýlega fjallaði ég hér um þau áform Vestnorræna ráðsins að taka sérstaklega fyrir fiskveiðistjórnunarkerfi Íslands, Færeyja og Grænlands á þemaráðstefnu ráðsins sem haldin verður á Sauðárkróki næsta sumar. Það vorum við Íslendingar sem lögðum til á ársfundi ráðsins í ágúst að sjónum yrði beint að fiskveiðistjórnun landanna sem hafa hvert sinn háttinn á í þessu efni. Grænlendingar og Íslendingar hafa kvótakerfi, en Grænland er auk þess með nokkuð viðamikinn fiskveiðisamning við Evrópusambandið. Færeyingar hentu sínu kvótakerfi og tóku upp sóknardagakerfi. Þeir fullyrða að þar með hafi kvótasvindl, brottkast og framhjálandanir horfið eins og dögg fyrir sólu.

 Víst er að þjóðirnar þrjár geta lært margt hver af annarri og hugsanlega haft áhrif á stefnumótun ESB sem nú er að fara í endurskoðun á sinni fiskveiðistjórnunarstefnu.

Málið kom til tals Svæðisútvarpi Vestfjarða í gær (hlustið hér).

Og ef einhver skyldi nú hafa gaman af að lesa dönskuna mína Wink þá er hér grein sem ég skrifaði á heimasíðu NORA um Vestnorræna samstarfið um þessar mundir.

Verði ykkur að góðu.


Samkeppnin um fólkið og fiskinn

P1000929 Þó að Ísland, Færeyjar og Grænland, liggi ekki þétt saman landfræðilega séð, eiga þau margt sameiginlegt. Þetta eru „litlar" þjóðir í alþjóðlegum samanburði. Engu að síður eru þær ríkar að auðæfum til lands og sjávar.

Landfræðileg lega þeirra og sambærileg skilyrði í atvinnulífi og menningu gera að verkum að hagsmunir þjóðanna fara á margan hátt saman. Sömuleiðis þær ógnanir og áskoranir sem þær standa frammi fyrir. Má þar nefna auknar pólsiglingar sem skapa bæði tækifæri og hættur í norðurhöfum;  vaxandi alþjóðavæðingu með miklum fólksflutningum milli landa og samkeppni um mannafla og atgervi.

Allar horfast þjóðirnar þrjár í augu við brottflutning ungs fólks sem leitar út fyrir landsteina eftir menntun, en skilar sér mis vel til baka. Allar eru þær miklar fiskveiðiþjóðir. Ekkert er því mikilvægara efnahagslífi þeirra en sjávarútvegurinn ... og mannauðurinn.

narsarsuaq.jpgVestnorræna ráðið - sem er pólitískur samstarfsvettvangur landanna þriggja -  hélt í síðustu viku ársfund sinn í Færeyjum. Fundinn sóttu fulltrúar landsdeildanna  þriggja sem skipaðar eru sex þingmönnum hver. Ég átti þess kost sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins að sitja fundinn. Ekki þarf að koma á óvart að sjávarútvegsmál og menntun voru þar í brennidepli.

Eining var um það á ársfundinum að tryggja beri aukið samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði menntamála. Var meðal annars samþykkt ða hvetja ríkisstjórnirnar til að koma á samstarfi milli menntastofnana um nemendaskipti milli mennta- og fjölbrautaskóla í löndunum þremur.

Fundurinn hvatti menntamálaráðherra landanna til að koma á tilraunaverkefni milli landanna um fjarnám. Einnig var samþykkt tillaga Íslands um að efla samstarf um bóklegt og starfstengt nám, m.a. iðn- og verkmenntir fyrir ófaglært starfsfólk í löndunum.  Lögðum við til sérstakt tilraunaverkefni tiltekinna menntastofnana í þessu skyni í þeim tilgangi að hvetja þá sem ekki hafa stundað framhaldsnám til að auka á þekkingu sína svo þeir verði betur búnir undir hugsanlegar breytingar á atvinnumarkaði. Hafa Menntaskólinn á Ísafirði og Fræðslumiðstöð Vestfjarða lýst sig reiðubúin til að taka þátt í verkefninu af Íslands hálfu.

Þessi áhersla á samstarf í menntamálum er ekki að ófyrirsynju. Aldrei fyrr hafa þjóðirnar þrjár þurft svo mjög á því að halda að standast samanburð við umheiminn - standast samkeppnina um unga fólkið og þar með framtíðarbyggð landanna.  Samkeppnin um unga fólkið veltur ekki hvað síst á möguleikum þess til menntunar og framtíðaratvinnu. Efnahagslegar stoðir undir hvort tveggja er sjávarútvegurinn í þessum löndum - en sjávarútvegsmál voru annað aðalumfjöllunarefni ársfundarins.

Þingfulltrúar ársfundarins beindu sjónum að þörfinni fyrir aukið samstarf milli landanna á sviði sjávarútvegs. Annars vegar varðandi rannsóknir á ástandi fiskistofna og sjávarspendýra á norðlægum slóðum, sem ráðið hefur ályktað um áður. Hins vegar að hagnýtingu fiskistofnanna og fiskveiðistjórnun landanna. Í ályktun fundarins var því beint til sjávarútvegsráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands að láta gera nákvæma úttekt á því samstarfi sem löndin eiga með sér um bæði rannsóknir á lifandi auðlindum hafsins og um stjórnun fiskveiða, ekki síst varðandi deilistofna. 

Jafnframt var samþykkt - að frumkvæði okkar Íslendinga - að þemarástefna ráðsins næsta ár skyldi helguð samanburði á mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfum Íslands, Grænlands og Færeyja. Umrædd þemaráðstefna er undirbúningur fyrir ársfund Vestnorræna ráðsins 2010 og verður hún haldin á Sauðárkróki í byrjun júní næsta sumar. Þar er ætlunin að kryfja fiskveiðistjórnunarkerfi landanna og meta kosti þeirra og galla. Sú umræða er tímabær á þessum vettvangi, nú þegar við Íslendingar stöndum frammi fyrir endurskipulagningu okkar eigin fiskveiðistjórnunarkerfis.  Grænlendingar hafa sömuleiðis ýmis vandamál að kljást við í sínu kerfi. Þar er  m.a. um að ræða ágreining vegna fiskveiðasamningsins við ESB  - en þannig vill til að ESB er einnig að endurskoða eigin fiskveiðistjórnunarstefnu. Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um fiskveiðistjórnun gæti því orðið innlegg í þá stefnumótun, ef vel er á málum haldið.

Það var lærdómsríkt að sitja þennan ársfund Vestnorræna ráðsins og upplifa þá vináttu og samkennd sem ríkir milli þjóðanna þriggja. Víst er að þessar þjóðir þurfa að standa saman um þá hagsmuni og gagnvart þeim  hættum sem steðja að fámennum samfélögum á norðlægum slóðum.

Fiskurinn og fólkið eru verðmætustu auðlindir okkar - og Vestnorrænu löndin eiga í samkeppni við umheiminn um hvort tveggja.

 

----------------

PS: Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag.


Hver er þá staða Icesave málsins?

Hver er þá staðan í Icesave málinu eftir að Alþingi samþykkti ríkisábyrgðina með fyrirvörum? Staðan er sú að samningur sá sem undirritaður var í vor, er óbreyttur, og verður það nema Bretar og Hollendingar sætti sig ekki við fyrirvarana sem settir hafa verið.

Það sem hefur gerst í meðförum þingsins er hins vegar þetta:

Alþingi hefur samþykkt ríkisábyrgðina á Icesave samningnum með skilyrðum. Þingið hefur með öðrum orðum kveðið upp úr um það hvaða skilning beri að leggja í ríkisábyrgðina á grundvelli samningsins. Skilningur og þar með skilmálar þingsins eru m.a. þessir:

  • Að greiðslur vegna samningsins fari ekki fram úr greiðsluþoli þjóðarinnar og haldist í hendur við landsframleiðslu. Þannig verði tekið tillit til erfiðra og fordæmalausra aðstæðna eftir bankahrunið á Íslandi
  • Að ekki verið gengið að náttúruauðlindum Íslendinga.
  • Að Íslendingar geti látið reyna á málstað sinn fyrir dómtólum.
  • Að ríkisábyrgðin falli niður 2024.
  • Að Alþingi geti ákveðið hvenær sem er að fram fari endurskoðun á lánasamningunum við Breta og Hollendinga. Alþingi hefur eftirlit með framkvæmdinni og fjármálaráðherra ber að veita þinginu árlegt yfirlit um hana.

Þetta eru veigamiklir fyrirvarar sem settir eru af þingsins hálfu fyrir ríkisábyrgðinni. Þeir eru til mikilla bóta þar sem þeir eru í reynd lagalegt, efnahagslegt og pólitískt öryggisnet fyrir okkur. Auk þeirrar verndar sem fyrirvararnir veita, telur lánshæfismatsfyrirtækið Moody’s að þeir muni styðja við sjálfbærni ríkisfjármála hér á landi og jafnvel hafa jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Þá er ekki talið ólíklegt að  fleiri ríki muni fylgja fordæmi Íslendinga og setja þak á skuldagreiðslur, eins og  bent hefur verið á.

Minn skilningur er sá að fyrirvararnir við ríkisábyrgðinni breyti ekki samningnum sjálfum og feli því heldur ekki í sér gagntilboð til Breta og Hollendinga. Um þetta geta menn þó deilt, og úr því fæst ekki skorið fyrr en í ljós kemur hvort Bretar og Hollendingar sætta sig við fyrirvarana.

Það hlýtur að ráðast á allra næstu dögum.

Annað sem hefur gerst í meðförum þingsins á þessu máli er ekki minna um vert. Það er aukið sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Það sjálfstæði birtist ekki hvað síst í efnistökum þessa veigamikla máls í nefndum þingsins. Sú breiða samstaða sem náðist um fyrirvarana í fjárlaganefnd er m.a. til vitnis um þetta. Má segja að þar hafi sannast máltækið "fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott" - því þrátt fyrir allt hefur þetta erfiða og fordæmalausa mál leitt til betri vinnubragða á Alþingi Íslendinga.  

En nú spyrjum við að leikslokum.

 

 


Grænland næst á dagskrá

narsarsuaq.jpg Á morgun held ég af stað til Grænlands til að sitja þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin verður í Grønnedal á suðvesturströndinni og stendur í fjóra daga. Fyrst verður flogið til Narsarsuaq og þaðan siglt með dönsku herskipi til Gr ønnedal. Ráðstefnan er undirbúningur fyrir ársfund ráðsins í lok ágúst.

Það eru Ísland, Færeyjar og Grænland sem mynda vestnorræna ráðið (sjá www.vestnordisk.is). Löndin þrjú eru ekki aðeins tengd vináttuböndum, heldur eiga þjóðirnar margt sameiginlegt í samfélagslegum, pólitískum og sögulegum skilningi. Allar hafa þær lotið yfirráðum Dana til dæmis, og Grænland gerir að það ákveðnu leyti enn, þó landið hafi nú stigið mikilvæg skref í sjálfstæðisátt. Allt eru þetta strjálbýl lönd og tiltölulega fámenn þar sem sjávarútvegur í einni eða annarri mynd er drýgstur hluti atvinnulífs ásamt þjónustu og vaxandi ferðamannaiðnaði. Öll gætu löndin talist jaðarsvæði í einhverjum skilningi.

Vestnorræna ráðið beitir sér fyrir samstarfi milli landanna þriggja á þeim sviðum þar sem hagsmunir fara saman. Ráðið hefur t.d. ályktað um og hvatt til skipulegs samstarfs varðandi björgunar- og öryggismál á norðurslóð - nokkuð sem hefði þurft að vera komið á fyrir löngu, en hefur  vaxandi þýðingu með aukinni umferð skipa og ferðafólks á þessu svæði.

Á þessari þemaráðstefnu verða menntamálin í brennidepli, líkt og oft áður, enda hefur ráðið beitt sér fyrir samstarfi milli landanna í þeim efnum - jafnt varðandi menntunarkosti sem og rannsóknir.

Ég fer í þessa ferð í embættiserindum, sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Hef ekki komið á þessar slóðir áður, og hlakka til ferðarinnar.

 -----siv.jpg

PS: Við undirbúning minn rakst ég á ágæta bloggfærslu Sivjar Friðleifsdóttur frá því í fyrra þar sem hún tínir saman nokkrar tölulegar staðreyndir um lífs- og samfélagshætti á Grænlandi (sjá hér).


Orð Evu Joly

EvaJolyÉg er undrandi á þeim orðum Hrannars B. Arnarsonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra, að Eva Joly eigi að halda sig við sín ráðgjafastörf fyrir sérstakan saksóknara en láta öðrum eftir efnahagsmálin. Þessi orð mætti allt eins heimfæra upp á Hrannar sjálfan - þ.e. að hann ætti að láta pólitíkusunum eftir að vinna sitt starf og sinna sjálfur þeim viðfangsefnum sem honum er trúað fyrir.

En við búum nú einu sinni í lýðfrjálsu landi þar sem málfrelsi ríkir. Fyrir það má þakka, að fleiri skuli almennt taka til máls um þjóðfélagsmál, en þeir einir sem til þess eru kjörnir eða ráðnir.

Eva Joly er kona með mikla yfirsýn og reynslu. Hún er vissulega stjórnmálamaður - nýkjörin sem þingmaður á Evrópuþinginu - og virðist eiga ýmislegt ósagt við ýmsa þar innan dyra, eins og grein hennar ber með sér. En skrif hennar eru umhugsunarefni, því "glöggt er gests augað" eins og þar stendur.

Ég tel mikils um vert að kynnst sjónarmiðum Evu Joly til bankahrunsins og stöðu okkar á alþjóðavettvangi.  Ég verð að viðurkenna að ég er þungt hugsi yfir ákveðnum atriðum sem fram koma í grein hennar.

En hvort sem ég er sammála mati hennar á stöðunni eða ekki - og þó mér hafi áður fundist hún mætti bera sig öðruvísi að við að koma inn í umræðuna - þá er eitt alveg ljóst: Þessi kona stendur með okkur Íslendingum og vill vekja athygli á málstað okkar. Það gerir hún af einurð og ekki síður af hlýhug í garð þeirrar "grandvöru og elskulegu þjóðar" sem hún segir okkur vera.

Mér þótti vænt um að finna hugarþel hennar í okkar garð, og ég er sannfærð um að orð hennar eru betur sögð en ósögð.

-----------

 PS: Loks langar mig að benda á ágæta greiningu Marðar Árnasonar á skrifum Joly.


mbl.is Hrannar sendir Joly tóninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóð í öngum

Þjóðin er í öng. 

Bjarni BenHvernig skyldi þeim vera innanbrjósts á þessari stundu formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, flokkanna sem bera höfuðábyrgð á því hvernig komið er, en láta eins og þeim komi afleiðingarnar ekki við? Ætla ekki að samþykkja Icesave samninginn "í núverandi mynd" eins og Bjarni Benediktsson orðaði það.

Sigmundur DavíðVikum og mánuðum saman hafa þeir þvælst fyrir Ice-save samkomulaginu með öllum tiltækum ráðum og haldið málinu í gíslingu. Já, þeir hafa hagað sér eins og slökkviliðsstjórinn sem hefur verið rekinn en getur ekki unnt slökkviliðinu að vinna sitt verk, heldur skrúfar fyrir vatnið á brunahönunum, til þess að sýna fram á að hann hefði getað unnið verkið einhvernveginn öðruvísi. Á meðan brennur húsið.

Óliku er saman að jafna framgöngu þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar sem lagt hafa nótt við dag að bjarga því sem bjargað verður af því að þeim er annt um þjóðina (ekki bara flokkinn, eins og hinum tveimur). Þau hafa mátt róa á móti andófi og áróðursskrumi stjórnarandstöðunnar af ábyrgð og festu. Þau hafa jafnvel mátt kljást við ístöðuleysi ákveðinna stjórnarliða sem líftóran hefur verið hrædd úr.

stjornAldrei hafa þau þó gripið til sterkra orða eða lýðskrums. Þau svara hverri spurningu af háttvísi og alvöru. Aldrei hafa þau hlaupið í persónulegt orðaskak. Nei, þau hafa staðið eins og stólpar upp úr þessu umróti öllu, haldið stillingu sinni og yfirvegun eins og sannkallaðir leiðtogar. Það fróma orð myndi mér þó aldrei til hugar koma um þá félaga Bjarna Ben og Sigmund Davíð.

En nú er ljóst - sem við máttum vita - að Íslendingar hafa enga stöðu gagnvart öðrum þjóðum í augnablikinu. Við erum einfaldlega álitin ójafnaðarmenn í augum umheimsins: Þjóð sem ekki vill standa við skuldbindingar sínar; þjóð sem ekki er treystandi; þjóð sem ól af sér kynslóð fjárglæframanna, hannaði fyrir þá vettvang til að athafna sig á, þar sem þeir gátu látið greipar sópa um fjármálakerfið og  narrað saklausan almenning til þess að leggja fé inn á reikninga, m.a. Icesave reikningana í Bretlandi og Hollandi.

GeirHaarde (Small)Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra lýsti þvi yfir í haust að allir innistæðueigendur myndu fá greiddar innistæður sínar í íslenskum bönkum. Sú yfirlýsing var bindandi fyrir íslensk stjórnvöld. Halda menn virkilega að þau orð hafi aðeins getað gilt um suma en ekki aðra? Annað hvort eiga innistæðueigendur rétt á endurgreiðslum úr íslenskum bönkum eða ekki. Svo einfalt er það og skiptir engu hvort um er að ræða Íslendinga, Breta eða Hollendinga. 

Málið snýst ekkert um það að "borga skuldir óreiðumanna" heldur að standa við alþjóðlegar og siðlegar skuldbindingar gagnvart innistæðueigendum í íslenskum bönkum.

Á meðan við ekki göngum frá Icesave samkomulaginu, fáum við enga aðstoð. Það erum við Íslendingar sem erum álitin óreiðumenn í augum umheimsins. Það vill enginn við okkur tala á meðan við sýnum engin merki þess að bæta ráð okkar.


mbl.is Stjórnvöld halda í vonina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var þá ekkert jákvætt?

Í upphafi þessarar fréttar segir að ýmislegt hafi eftirlitsnefnd ÖSE þótt "með ágætum" í framkvæmd síðustu Alþingiskosninga. Síðan les maður áfram og les um ágallana sem ræddir eru í skýrslunni. Vissulega þurfum við að horfa til þess sem betur má fara. Rétt er það,  en .... það kemur hvergi fram í þessari frétt hvað  það var sem var með svo miklum "ágætum".

Af hverju ekki? Angry

Satt að segja finnst mér þetta lýsa umræðunni í samfélaginu betur en flest annað - hér er  allt sogað niður í hyldýpi neikvæðninnar.  

Ég vil fá að vita hvað var jákvætt í þessari  ÖSE skýrslu. Fyrst þar var eitthvað jákvætt, þá vil ég sem almennur íslenskur lesandi fá að sjá það! 

I rest my case.

 


mbl.is Atkvæðavægi átalið af eftirlitsnefnd ÖSE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítill fugl í vanda

mariuerla170606_9 Maríuerlan í garðinum mínum komst í hann krappan í morgun. Þegar mér varð litið út um eldhúsgluggann sá ég hvar hún var komin inn fyrir öryggisnetið í trampólíninu í næsta garði. Þarna flögraði hún ráðvillt um fyrir innan netið og lengi vel leit út fyrir að hún fyndi enga leið úr prísundinni. 

Ég fylgdist með henni góða stund og furðaði mig á hátterni hennar, því í rauninni átti hún greiða leið í frelsið.

Hvað eftir annað tókst henni - þó með erfiðismunum væri - að fljúga upp á bandið sem hélt netinu uppi. Þaðan hefði hún auðveldlega getað flogið út í garðinn. En ... nei, hún var svo örvingluð orðin að aftur og aftur hoppaði hún niður röngu megin við netið, föst í sínu sjálfskipaða fangelsi, og þar upphófst sama baksið á ný.

Ég var að því komin að hlaupa út til að blanda mér í þetta þegar hún skyndilega rambaði fram á litla rifu á netinu niðri við dýnuna. Og án þess að hún eiginlega stjórnaði því sjálf, þá stóð hún allt í einu í þessu litla gati, og viti menn ... hún hoppað út í grasið, frjáls úr prísundinni.

Ekki veit ég hvernig á því stóð, en þar sem ég virti fyrir mér atganginn innan við netið, varð mér hugsað til stöðu okkar Íslendinga í samfélagi þjóðanna þessa dagana.

Og nú læt ég lesendum eftir að leggja út af sögunni.


Margur heldur mig sig

Enn eina ferðina tókst þingmanni Borgarahreyfingarinnar að fanga athygli fjölmiðla um stund, með yfirlýsingum um einelti, kúgun og ofbeldi á hinu háa Alþingi. Vandlætingartónninn leyndi sér ekki - en í honum var þó holur hljómur að þessu sinni. 

Þetta er sami þingmaður og fyrir fáum dögum var tilbúinn að selja sannfæringu sína gagnvart ESB til þess að ná fram frestun á Ice-save, málinu.

Þessi þingmaður - og fleiri í hennar flokki - hafa verið ósparir á hneykslunarorð og brigslyrði um aðra þingmenn og þeirra meintu hvatir í hverju málinu af öðru. Hneykslun og vandlæting hafa verið nánast einu viðbrögðin hvenær sem mál hefur komið til umræðu í þinginu.

Þið fyrirgefið, gott fólk - en ég gef ekki mikið fyrir svona málflutning. Og nú vil ég fara að heyra einhverjar tillögur frá þessu fólki um það hvað megi betur fara - hvernig það megi betur fara. Það væri bara svo kærkomin tilbreyting frá þessum falska vandlætingarsöng að heyra eins og eina málefnalega tillögu, bara eitthvað sem túlka mætti sem málefnalegt innlegg.

Þeir sem eru tilbúnir að selja sannfæringu sína ættu ekki að vanda um fyrir öðrum.

 


Og ....?

Hver er þá niðurstaða ráðherrans?

Allt það sem Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segir í þessu viðtali gæti ég sagt ... það vantar bara botninn í þessi spakmæli öll sömul. 

Hver er skoðun Ögmundar?

 


mbl.is Ögmundur: Hugsum um þjóðarhag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband