Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Þjóðkirkjan okkar

Í dag ræddum við í þinginu um stöðu Þjóðkirkjunnar.

Í nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá var sérstaklega spurt um afstöðu almennings til þjóðkirkjunnar. Niðurstaðan var afgerandi: Íslendingar vilja þjóðkirkju.

 Þjóðkirkjan hefur veigamiklu hlutverki að gegna í samfélagin okkar. Hún hefur lögbundnar skyldur, menningarlegar og félagslegar. Kirkjan hefur verið það skjól sem tugþúsundir Íslendinga hafa leitað til í sorgum og gleði, jafnt í einkalífi sem og í þjóðlífinu sjálfu, t.d. þegar áföll hafa dunið yfir þjóðina.

 Síðustu ár hafa verið kirkjunni erfið í margvíslegum skilningi – ekki síst fjárhagslega. Líkt og aðrar stofnanir þjóðfélagsins hefur þjóðkirkjan tekist á við mikinn niðurskurð, sem – þegar grannt er skoðað – virðist umtalsvert meiri en öðrum stofnunum hefur verið ætlað.

 Megintekjustofnar Þjóðkirkjunnar eru tveir. Annars vegar greiðsla fyrir eignir sem Þjóðkirkjan afsalaði til ríkissjóðs 1997 og hins vegar skil á félagsgjaldi sem ríkið tók að sér að innheimta og var árið 1987 umreiknað í tiltekið hlutfall tekjuskatts.

 Í ljós hefur komið að frá og með fjárlögum 2009 hafa báðir ofangreindir tekjustofnar þjóðkirkjunnar verið skertir umtalsvert.

 Að teknu tilliti til verðþróunar, nemur skerðing sóknargjalda um 20% . Við þetta bætist hagræðingarkrafan sem gerð er til allra stofnana samfélagsins, þar á meðal kirkjunnar því hún hefur mátt sæta umtalsverðri skerðingu á lögbundnum og samningsbundnum framlögum. Þá hefur einnig orðið tilfinnanleg fækkun gjaldenda í sumum sóknum. Að sögn þeirra sem til þekkja er þetta nú þegar farið að hafa veruleg áhrif á þjónustu kirkjunnar um allt land,  þar á meðal grunnþjónustuna - sjálft helgihaldið, sálgæsluna, æskulýðsstarfið og líknarmálin. Það er mikið áhyggjuefni.  

 Fjárhagsstaða margra kirkna úti á landi er þannig að hún rétt nægir til að greiða hita, rafmagn og önnur lögbundin útgjöld, fjármunir til safnaðarstarfs eru ekki til staðar. Guðsþjónustum er því fækkað og fjármunir til venjulegs viðhalds eigna er ekki fyrir hendi.  Þeir varasjóðir sem til voru eru víða þurrausnir og komið að enn frekari niðurskurði.

 Í  stærri sóknum í þéttbýli er barna- og æskulýðsstarf í hættu vegna þess að sóknir geta ekki greitt fyrir það, en það er það starf sem víðast hvar var reynt að hlífa. Sömu sögu er að segja um eldriborgarastarf, fullorðinsfræðslu, kærleiksþjónustu og líknarmál.

 Við svo búið má ekki standa. Á meðan við höfum þjóðkirkju í landinu, verðum við að búa svo að henni að hún geti sinn lögbundnu hlutverki sínu og skyldum. 

Andleg umönnun er allt eins mikilvægt  og önnur umönnun – ekki síst á erfiðum tímum líkum þeim sem við höfum upplifað undanfarin ár. Maðurinn lifir ekki á brauðinu einu saman.


Og kannski meira í vændum?

solstafir Ég var víðsfjarri jarðskjálftanum sem reið yfir í gærkvöld, sem betur fer, enda í mér beygur við jarðskjálfta frá barnæsku. Ég gat þó ekki varist því að hugsa til Láru nokkurrar Ólafsdóttur sem spáði jarðskjálfta þann 27. júlí. Hún var auðvitað höfð að háði og spotti strax daginn eftir, þegar enginn kom skjálftinn. Við Íslendingar erum hvatvíst fólk eins og dæmin sanna.

Nú hafa fréttmenn haft samband við Láru á ný, og ekki batnar það: Hún segir enn stærri viðburði í aðsigi.

Ég skal játa, að ég var ekkert sérlega hissa á því að þessi skjálfti skyldi koma svo skömmu eftir spádóm sjáandans. Eins og aðrir Íslendingar er ég höll undir það að fleira sé milli himins og jarðar en augað greinir og vísindind fá skilgreint.

Við Íslendingar erum náttúrutengt og næmt fólk. Berdreymi er til dæmis viðurkenndur hæfileiki og trúlega kannast allir við einhvern í sinni fjölskyldu sem hefur slíkt næmi að geta séð aðeins lengra nefi sínu.

Jamm ... nú sjáum við hvað setur.


mbl.is Snarpur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jónsmessunótt

sumarsolstodur

Nú fer Jónsmessunóttin í hönd - sú dulmagnaða nótt sem þjóðtrúin telur öðrum nóttum máttugri í mörgum skilningi. Þá nótt glitra óskasteinar í tjörnum, jarðargróður er þrunginn vaxtarmagni og lækningarmætti, döggin hreinsunarmætti. Því velta menn sér naktir í Jónsmessudögg enn þann dag í dag. Grasa- og galdrakonur fara á kreik og tína jurtir sínar sem aldrei eru máttugri en þessa nótt. Álfar sjást á ferli og kynjaverur sveima á heiðum og í holtum.

Annars er Jónsmessan kirkjuleg hátíð - og eins og flestar hátíðir kirkjunnar (t.d. jólin) þá var henni ætlað að leysa af heiðna sólstöðuhátíð þ.e. sumarsólstöðurnar sem eru tveim dögum fyrr. En sumarsólstöðurnar eru hinn náttúrulegi hápunktur sumarsins.

Það er dásamlegt að vera utandyra ef veður er gott um sumarsólstöður, t.d. á Jónsmessunótt og skynja kraftinn úr jörðinni - tína þá grös í poka og finna fallega steina. Vera einn með sjálfum sér.

Hér fyrir vestan hafa verið rigningarskúrir í dag. Jörðin er hrein og rök. Full af krafti. Það er svartalogn á firðinum og nýtt tungl á himni.

 


Ekki hitti ég Dalai Lama

dalai_lama1 Mér brá heldur betur í brún þegar ég heyrði í útvarpinu um helgina að enginn alþingismaður hefði "séð ástæðu" til þess að þekkjast boð um að eiga fund með Dalai Lama. Var helst að skilja á fréttinni að okkur hefði öllum verið sent bréf með boði um að hitta trúarleiðtogann að máli.

Og ég sem hafði öfundað þá þingmenn sem sitja í forsætisnefnd og utanríkisnefnd Alþingis af því að fá að hitta Dalai Lama - átti ég þess svo kost eftir alltsaman?

Nei - að sjálfsögðu ekki. Hvorki mér né neinum öðrum óbreyttum alþingismanni var gefinn kostur á að hitta höfðingjann í eigin persónu. Njet. Yfirlýsingar aðstandenda heimsóknarinnar þar að lútandi voru einfaldlega rangar. Við fengum ekkert bréf. Því miður. Ég hefði þegið slíkt boð.

Hvað skipuleggjendum heimsóknarinnar gekk til með því að koma því inn hjá fjölmiðlum að alþingismenn væru að sniðganga Dalai Lama, veit ég ekki. Hvað fjölmiðlum gekk til með því að éta þetta upp bara sísvona - án þess að hringja í svosem eins og einn, til að vita hverju þetta sætti - veit ég ekki heldur.

Hitt veit ég, að trúarleiðtoganum hefur verið sýndur margvíslegur sómi á ferð sinni hér, og aðstandendur heimsóknarinnar geta verið hæstánægðir með þær viðtökur sem hann hefur fengið af hálfu Alþingis, kirkjunnar manna og almennings. 

Enda er Kínverjum ekki skemmt, eins og best sést á því að þeir hafa kallað sendiherra sinn heim frá Íslandi.

Það segir sína sögu.


mbl.is Dalai Lama í Alþingishúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarkur og siðbót

ljónoglamb Þó að stjórnvöld standi nú frammi fyrir fleiri og brýnni úrlausnarefnum en nokkru sinni fyrr er krafa dagsins einföld. Hún rúmast í einu orði: Siðbót.

Þetta hógværa orð  er í reynd lausnarorðið fyrir íslenskt samfélag eins og staðan er í dag. En siðbót kallar á kjark.

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Þetta eru falleg orð, en þau hafa enga þýðingu nema hugur fylgi máli og gjörðir orðum.

Íslendingar hafa nú fengið óþyrmilega að kynnast því hvað gerist þegar ábyrgðar- og skeytingarleysið ræður ríkjum. Jöfnuður án ábyrgðar er óhugsandi. Þegar enginn tekur ábyrgð á velferð annarra, þá ríkir einungis ójöfnuður.

Ójafnréttið í samfélaginu hefur birst okkur með ýmsum hætti. Það  birtist í aðstöðumun landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis; óréttlátu kvótakerfi; skefjalausri sérhagsmunagæslu; ójöfnum lífskjörum; launamun kynjanna og þannig mætti lengi telja.

Samfylkingin á nú það erindi við íslenska þjóð að hefja jafnaðarhugsjónina til vegs og virðingar.  Að standa fyrir endurreisn íslensks samfélags og siðbót í íslenskum stjórnmálum. Til þess þarf kjark.

  •  Það þarf kjark til að breyta íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu með sanngjörnum hætti þannig að um það náist sátt í samfélaginu.      
  • Það þarf kjark til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leita nýrra tækifæra á vettvag þjóðanna til hagsbóta fyrir íslenskan almenning.
  • Það þarf kjark til þess að halda áfram uppbyggingu háskólastarfs og símenntunar; já, að veðja á menntun og mannrækt í þeim mótbyr sem framundan er.
  • Það þarf kjark til að innleiða ábyrga stjórnsýslu og knýja fram lýðræðisumbætur.
  • Það þarf kjark til að leita sannleikans varðandi efnahagshrunið og kalla til ábyrgðar alla sem að því komu – jafnt stjórnmálamenn sem forsvarsmenn fjármálastofnana.

Já, það útheimtir kjark að vera ábyrgur jafnaðarmaður við þær aðstæður sem nú ríkja. Líklega hefur það hlutskipti aldrei haft meiri þýðingu en einmitt nú.  

 -----------------

PS: Þessi hugleiðing birtist sem grein í Morgunblaðinu s.l. fimmtudag og er endurbirt hér


Það þarf kjark til að vera jafnaðarmaður

DyrafjordurAgustAtlason Þó að stjórnvöld standi nú frammi fyrir fleiri og brýnni úrlausnarefnum en nokkru sinni fyrr er krafa dagsins einföld. Hún rúmast í einu orði: Siðbót. Þetta hógværa orð  er í reynd lausnarorðið fyrir íslenskt samfélag eins og staðan er í dag. Ef stjórnmálamenn, forsvarsmenn atvinnuveganna, þeir sem stjórna fjármála- og viðskiptalífinu, fjölmiðlamenn og almenningur bæru gæfu til nýrrar siðvæðingar í samfélaginu, þá væri eftirleikur bankahrunsins auðveldur. En siðbót kallar á kjark.

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Þetta eru falleg orð, en þau hafa enga þýðingu nema hugur fylgi máli, og gjörðir orðum. Markmið jafnaðarstefnunnar er að hver maður fái notið grunngæða samfélagsins; að úthlutun gæðanna taki mið af þörfum hvers og eins.

Íslendingar hafa nú fengið óþyrmilega að kynnast því hvað gerist þegar þessi sjónarmið eru virt að vettugi. Þegar ábyrgðarleysið ræður ríkjum. Jöfnuður án ábyrgðar er óhugsandi. Þegar enginn tekur ábyrgð velferð annarra, þá er ekkert sem heitir jöfnuður. Þá ríkir græðgin ein.

Ójafnréttið í samfélaginu hefur birst okkur með ýmsum hætti. Það  birtist okkur sem aðstöðumunur landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Það kristallast í óréttlátu kvótakerfi þar sem braskað er með auðlindir þjóðarinnar. Það blasir við í skefjalausri sérhagsmunagæslu á kostnað almannahagsmuna. Það kemur fram í ójöfnum lífskjörum og misskiptingu gæða, launamun kynjanna og þannig mætti lengi telja. Það speglast í spillingu, hugsanaleti og ákvarðanafælni. Ábyrgðarleysi leiðir af sér ójafnrétti.

Samfylkingin á það erindi við íslenska þjóð að þessu sinni að hefja jafnaðarhugsjónina til vegs og virðingar á ný.  Að standa fyrir endurreisn íslensks samfélags og siðbót í íslenskum stjórnmálum. Til þess þarf kjark.

  • Það þarf kjark til að breyta íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að af hljótist réttlát skipting þeirra auðæfa sem hafið geymir.
  • Það þarf kjark til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga þar með inn á vettvag þjóðanna sem fullvalda, sjálfstætt ríki meðal jafningja.
  • Það þarf kjark til þess að breyta ártatuga gömlu framleiðslustjórnunarkerfi í landbúnaði, færa það til nútímahorfs og gera bændum kleift að njóta sérstöðu og sérhæfingar sem sjálfstæðir matvælaframleiðendur, svo dæmi sé tekið.
  • Það þarf kjark til þess að halda áfram uppbyggingu háskólastarfs og símenntunar; já, að veðja á menntun og mannrækt í þeim mótbyr sem framundan er.
  • Það þarf kjark til að leita sannleikans varðandi efnahagshrunið og kalla til ábyrgðar alla sem að því komu - jafnt stjórnmálamenn sem forsvarsmenn fjármálastofnana.

Síðast en ekki síst þarf kjark til að vera ábyrgur jafnaðarmaður.

 ---------------------

PS: Myndina með þessari færslu tók Ágúst G. Atlason í Önundarfirði


Nú reynir á grunngildin

Skagafjörður Fyrir hálfri annarri öld flykktust Íslendingar hópum saman til Vesturheims undan harðindum og atvinnuleysi. Bændur flosnuðu frá búi og ungu fólki reyndist erfitt að fá jarðnæði. Sú atvinna sem bauðst við sjósókn eða vinnumennsku var árstíðabundin og stopul. Fjölmargir freistuðu því gæfunnar í Vesturheimi þar sem tækifærin biðu í hillingum og og margir náðu sem betur fer að skapa sér nýja fótfestu og framtíð.

Einn þeirra sem steig á skipsfjöl og sigldi mót óráðinni framtíð var skagfirskur, piltur, Stefán Guðmundur Guðmundsson, síðar þekktur sem Stephan G. Stephansson, Klettafjallaskáldið sem síðar orti:

Þitt er menntað afl og önd
eigirðu fram að bjóða
hvassan skilning, haga hönd
og hjartað sanna og góða.

Í þessum fjórum línum birtast þau grunngildi sem kynslóðir Íslendinga hafa tekið sér til fyrirmyndar öld fram af öld, allar götur þar til útrásin hófst og hitasótt frjálshyggjunnar náði að smita og gegnsýra allt okkar litla samfélag. Þegar efnahagur þjóðarinnar hrundi og sápukúlan sprakk í október síðastliðnum rann það upp fyrir okkur að það var ekki aðeins fjárhagur þjóðarinnar sem hafði beðið skipbrot - siðferðisgildin voru líka hrunin.

Um þessar mundir er dauft yfir íslenskum byggðum og ,,hnípin þjóð í vanda" líkt og þegar skagfirskur piltur steig á skipsfjöl og stefndi í vestur fyrir 140 árum. Hann hafði sín grunngildi á hreinu. Þau gildi hafa beðið alvarlega hnekki meðal núlifandi kynslóða.

Það er því núna sem reynir á íslenska jafnaðarmenn.

 

----

Myndin hér fyrir ofan er af sólsetri í Skagafirði - ég fékk hana á heimasíðu Ungmennafélags Skagafjarðar. Höfundar er ekki getið.


Eins og nýhreinsaður hundur

yoga_2 Jæja, ég er eins og nýhreinsaður hundur eftir jóganámskeið helgarinnar. Mér skilst að nýhreinsuðum hundum líði ekkert sérlega vel . Mér er hálf ómótt eftir alla sálarhreinsunina, svo hún hlýtur að hafa verið rækileg. Wink

Annars var þetta mjög jákvæð og endurnærandi upplifun. Fimmtán klukkustundir á þremur dögum, þar af fimm jógatímar. Ég er búin að fara í gegnum sólarhyllinguna, kóbruna, ungbarnið, fiskinn og hvað þetta heitir alltsaman - að ekki sé minnst á slökunina. Er orðin svo slök að ég hangi varla uppi.

En ég finn líka að þetta hefur gert mér mjög gott. Og nú er ætlunin að halda ótrauð áfram á sömu braut.

Friður. Smile


Aftakaárið 2008

solstafir Jæja, þá er nýtt ár gengið í garð. Ekki fékk það að koma óflekkað til okkar frekar en fyrri árin. Heimsfréttirnar segja frá stríðsátökum og manntjóni. Innlendu fréttirnar greina frá vaxandi vanlíðan og spennu meðal almennings, gríðarlegum hækkunum á heilbrigðisþjónustu og helstu nauðsynjum, uppsögnum á vinnumarkaði og gjaldþroti fyrirtækja. Nú er kreppan að koma í ljós. Áfallið er að baki, samdrátturinn er framundan. Hann á eftir að harðna enn, er ég hrædd um.

Samt kveð ég þetta undarlega nýliðna ár með þakklæti. Það færði mér persónulega margar gleðistundir, jafnt í einkalífi sem á samfélagssviðinu. Sem samfélagsþegn kastaðist ég öfganna á milli eins og þjóðin í heild sinni - milli spennu, gleði og áfalla. Borgarpólitíkin sá um spennuna. Þar nötraði allt og skalf fram eftir ári. Á íþróttasviðinu fengum við fleiri og stærri sælustundir en nokkru sinni svo þjóðarstoltið náði áður óþekktum hæðum þegar strákarnir tóku silfrið í Peking. Á Mikjálsmessu 29. september rann víman svo af okkur og við skullum til jarðar. *

Já, þetta var undarlegt ár. Í veðurlýsingum er talað um aftakaveður þegar miklar sviptingar eiga sér stað í veðrinu. Það má því segja að árið 2008 hafi verið "aftakaár" í sama skilning - en tjónið hefur ekki verið metið til fulls.

 Halo

 *PS: Þess má geta til fróðleiks að Mikjáll erkiengill, sem dagurinn er tileinkaður, hafði það hlutverk að kollvarpa illum öflum og vernda kristnar sálir. Sérstök Mikjálsbæn var beðin í kaþóskum messum til ársins 1964 en Mikjálsmessa var tekin út úr helgidagatalinu árið 1770.


Búálfarnir stríða mér

huldufólk Sagt er að um jól og áramót sé huldufólkið að hafa vistaskipti og því verði þess meira vart í mannheimum á þessum tíma en venjulega. Ég verð að játa að það þessa dagana virðist óvenju mikil huldu-umferð í húsinu hjá mér. Hér hverfur allt sem ég legg frá mér - sérstaklega pappírar.

Fyrir fáum dögum var ég að þýða texta - hann hvarf. Woundering Í gær hélt ég á miða með rúgbrauðsuppskrift sem ég setti inn á bloggið. Þegar ég stóð upp frá tölvunni og ætlaði að setja miðann á sinn stað var hann horfinn. Shocking Myndir sem ég var að skoða í tölvunni fyrir fáum dögum og ætlaði síðan að prenta út áðan til að setja inn í jólakort til kunningjafólks - þær eru horfnar. Blush DVD mynd sem ég ætlaði að gefa í jólagjöf gufaði einhvernveginn upp. Og nú er örkin með jólafrímerkjunum horfin af eldhúsborðinu. Whistling

Þetta mun allt skila sér aftur - það gerir það venjulega. En það sem er óvenjulegt við háttalag búálfanna að þessu sinni er að nú sækja þeir sérstaklega í pappíra og sjónræna hluti, ekki lykla, skæri, eða aðra smáhluti. Ég er vanari því að slíkt sé fengið "að láni" um þetta leyti.

Nei, nei - nú er greinilega verið að lesa og skoða í hulduheimum, því þeir eru óvenju lærdómsfúsir og hnýsnir blessaðir búálfarnir að þessu sinni.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband