Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fuglar himinsins og helgidagalöggjöfin
7.4.2007 | 13:03
Loksins lét ég verða af því að mæta hjá Ólöfu Nordal, myndlistarkonu, til þess að gera mína eigin leirlóu í altaristöfluna sem sett verður upp í Ísafjarðarkirkju í sumar. Við hjónin drifum okkur á verkstæðið í Vestrahúsinu síðdegis í gær og gerðum hvort sinn fuglinn. Mín lóa er nr. 707 og hans nr. 708. Þetta var ótrúlega gaman - þarna sá maður leirfugla í hundraða tali. Sumir báru með sér að vera gerðir af áköfum barnahöndum, aðrir voru haganleg smíði, og svo allt þar á milli. Eftir handverkið skráði maður nafn sitt í bók þar sem númer fuglsins kemur fram, og hér eftir getur maður dundað sér við - ef maður missir athygli prédikarans í kirkjunni - að finna fuglinn sinn í altaristöflunni.
Sagan sem varð kveikjan að þessu listaverki er svona: Þegar Jesú var lítill drengur fór hann að dunda sér við það á sunnudegi að búa til leirfugla - það voru lóur. Farísearnir komu að honum heldur þungir á brún og töldu það helgispjöll að vinna slíkt verk á sunnudegi. Ætluðu þeir að uppræta ósómann og brjóta fyrir honum fuglana. En í þann mund flugu fuglarnir til himins með fjaðrabliki og söng.
Mér kom í hug helgidagalöggjöfin, þegar ég heyrði þessa sögu. Í kvöldfréttunum í gær var sagt frá fólki sem ákvað að spila bingó á Austurvelli til þess að mótmæla skemmtanabanni föstudagsins langa. Lögreglan var á vappi í námunda og fylgdist með, en hafðist ekki að. Og hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að auðvitað var fólkið ekkert að gera af sér - samt var það að brjóta lögin. Leiðinleg klemma fyrir laganna verði að vera settir í þessa stöðu. Þeir hefðu sjálfir raskað helgidagafriðnum ef þeir hefðu farið að handtaka fólkið sem sat þarna með börnin sín og spilaði bingó. Fyrir vikið gerði löggan ekkert (sem betur fer) en braut um leið eigin starfsskyldur. Fáránleg staða.
Því skyldi fólk ekki mega gera sér glaðan dag á helgidegi? Gera eitthvað skapandi, eða bara skemmtilegt? Það þarf augljóslega að endurskoða þessa löggjöf.
Flest erum við hlynnt því að samfélagið haldi í heiðri reglur sem tryggja rétt fólks til þess að eiga "helga" daga. Þá er ég ekki að tala um hástemmda andaktuga daga, tileinkaða trúarlífi sem einungis hluti þjóðarinnar virðir í reynd, heldur daga sem fólk hefur fyrir sjálft sig: Daga helgaða friðsemd, afþreyingu eða hvíld frá daglegu amstri, daga þar sem fólk ráðstafar tíma sínum sjálft. Bann við ákveðnum tegundum skemmtana tryggir enga "helgi". Það er ekkert verra að spila bingó heldur en fara á skíði, fara á tónleika eða móta leirlóur á föstudaginn langa.
Lög samfélagsins eru ekki náttúruögmál - það þarf alltaf að vaka yfir þeim, endurskoða þau og bæta í takt við samfélagsþróunina. Og nú er sennilega kominn tími á helgidagalöggjöfina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Draumalandið Hafnarfjörður
1.4.2007 | 17:33
Ég er ánægð með niðurstöðu kosninganna í Hafnarfirði, en ég hef svolitlar áhyggjur vegna þess hve mjótt var á munum. Það er alltaf erfitt - fyrir báða aðila - þegar niðurstaða næst með mjóum mun. Ég held hins vegar að Hafnfirðingar hafi tekið rétta ákvörðun þarna.
Það er svolítið skemmtileg tilviljun að fyrir fáum dögum var ég á sýningunni Draumalandið í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Ég hafði fyrirfram velt því fyrir mér hvernig í ósköpunum handritshöfundi myndi takast að koma boðskap bókarinnar í leikrænan búning - en bókina las ég mér til óblandinnar ánægju fyrir allnokkru. Ég bjóst því ekki við neinu sérstöku þegar ég mætti í Hafnarfjarðarleikhúsið - og var svona eins og við því búin að finna til einhverskonar vonbrigða eins og stundum gerist þegar maður fer á bíómynd sem gerð er eftir bók. En það voru óþarfa áhyggjur. Í stuttu máli sagt átti ég frábært kvöld þarna og tek hér með ofan fyrir handritshöfundi, leikurum og öðrum aðstandendum verksins. Þau komust hjá því að festast í einstrengingshætti - gerðu létt grín að ýmsum hliðum málsins, m.a. umhverfisverndarsinnum og mótmælendum ekkert síður en virkjunarsinnum og hinum óupplýsta almenningi sem veit vart í hvorn fótinn skal stigið. Undir öllu niðaði hinsvegar þungur tónn sem engan lætur ósnortinn.
Það er uggvænlegt til þess að hugsa að íslensk stjórnvöld skuli hafa falboðið erlendum stóriðjufyrirtækjum landið; boðið upp á 30 terawattstundir ef stóriðjufyrirtækin vildu bara láta svo lítið að koma og virkja hér. Það er umhugsunarefni að öll íslenska þjóðin notar einungis þrjár terawattstundir - en Kárahnjúkavirkjunin ein og sér framleiðir fjórar. Já það eru undarleg stærðarhlutföll sem skyndilega eru komin inn í umræðuna - og ekki nema von þó að við, venjulegar manneskjur, eigum stundum erfitt með að átta okkur á þeim viðmiðunum sem viðhafðar eru.
Nei, það er engin sátt um stóriðjustefnuna á Íslandi. Þó svo að kosningin í Hafnarfirði hafi að forminu til snúist um deiliskipulag, er niðurstaðan engu að síður skilaboð til stjórnvalda um hug almennings í stóriðjumálum.
Ef stjórnvöld ættu að standa við stóru orðin um að hér megi virkja 30 terawattstundir á ári, þyrfti að virkja nánast allt sem rennur á Íslandi, þ.á.m. Gullfoss og Dettifoss. Ekki amalegt loforð upp í ermar komandi kynslóða. Úff!
Sem betur fer held ég að þjóðin sé búin að fá nóg af stóriðjuframkvæmdum. Umfang Kárahnúkavirkjunar kom flatt upp á íslenskan almenning - jafnvel hörðustu virkjunarsinna setti hljóða daginn sem Jökla þagnaði. Ósættið um þá framkvæmd hefur nánast skipt þjóðinni í tvennt - og til hvers? Til þess að skapa 1,5% af mannafla þjóðarinnar atvinnu í álveri?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Rógsmenn allir og umræðan
31.3.2007 | 12:45

Sjálf var ég alin upp við það sem barn að ekki væri rétt að setja út á fólk að því fjarstöddu. Það væri rógur, og að einungis huglaust fólk og illa innrætt beitti rógi. Rógur er aðför úr launsátri sagði faðir minn heitinn. Trúað gæti ég að fleiri Íslendingar hafi fengið viðlíka uppeldi.
Rógur er stjórnleysi - hann er siðvilla. Hver sá sem viðhefur róg eða hlustar á róg, hefur vikið frá réttlátum leikreglum. Þeir sem "hvísla" ærumeiðingar sínar í skjóli nafnleyndar að einhverjum æðra settum til þess að koma höggi á einstakling, hafa gerst sekir um tilraun til launvígs. Sá sem hlustar á róg, lætur hann viðgangast, jafnvel hafa áhrif á gerðir sínar er samsekur. Hann hefur þar með brotið mannréttindi þess sem um er rætt, brotið rétt viðkomandi til sjálfsvarnar. Þetta jafngilti ódæði á þrettándu öld - og einhvern veginn finnst manni að svo ætti að vera enn þann dag í dag. En þannig er það þó ekki.
Í íslenskum lögum er ekkert ákvæði um rógsmenn.
Íslensk stjórnsýslulög kveða á um málsmeðferð hins opinbera gagnvart þeim sem þurfa að sækja mál sitt til stjórnvalda, þ.m.t. andmælarétt, rannsóknarskyldu stjórnvalda og jafnræðisreglu. En í hinum almennu leikreglum sem gilda í reynd - þ.m.t. almennum hegningarlögum -- hafa rógberarnir frið til athafna. Yfir þeim vofir engin refsing eða krafa um að bera ábyrgð orða sinna.
Rógsmenn hafa fengið of mikið svigrúm í íslenskri umræðu. Við sjáum það á bloggsíðum netsins þar sem þeir vaða sumstaðar uppi í skjóli nafnleyndar. Við sjáum það jafnvel í opinberum málum sbr. bréfið fræga sem sent var dómendum í Baugsmálinu - og var tekið til umfjöllunar á opinberum vettvangi. Nafnlaus bréfritari sem bar ósannaðar sakir á dómendur og málsaðila varð stjarna um hríð. Ummæli hans urðu sérstakt umfjöllunarefni, einhverskonar liður í málflutningi. Ótrúlegt en satt.
Ég tel að þetta sé galli á íslenskri löggjöf - og um leið siðferðisbrestur í íslensku samfélagi.
Dómar utan dómsala
26.3.2007 | 11:07
Ég get ekki orða bundist vegna fyrirsagnar á mbl.is um Baugsmálið í dag, svohljóðandi: "Sigurður Tómas: Framburður Jóns Ásgeirs ekki trúverðugur".
Nú er ég ekki ein af þeim sem hef mótað mér fasta skoðun á sekt eða sakleysi þeirra manna sem hafa verið sóttir til saka í Baugsmálinu - læt dómstólum það eftir. Málið er augljóslega viðamikið og flókið. Þess vegna blöskrar mér stundum umfjöllun fjölmiðla um þetta mál - einkum fyrirsagnir á borð við þessa hér, þar sem fullyrt er að framburður Jóns Ásgeirs sé ekki trúverðugur. Vissulega sér maður nafn saksóknarans ásamt tvípunkti framan við fullyrðinguna. En allir sem hafa unnið í blaðamennsku (ég þar á meðal) þekkja að uppsetning fyrirsagna hefur áhrif á lesendur. Þess vegna er framsetningu frétta og fyrirsagna oft ætlað að hafa skoðanamótandi áhrif.
Þessi fyrirsögn er skoðanamyndandi. Hún fjallar um nafnþekktan mann og trúverðugleika hans fyrir dómi - áður en dómur er fallinn. Nú er auðvitað ekkert launungarmál að Jón Ásgeir er ein aðalpersóna Baugsmálsins. En hann á að fá sanngjarna meðferð í fjölmiðlum ekkert síður en fyrir dómstólum.
Annars velti ég því fyrir mér hvað sé að verða um hlutleysisskyldu fréttamiðla - mér finnst hún vera á hröðu undanhaldi. Það er mjög miður - því ábyrgð fjölmiðla er mikil, ekki síst þegar æra manna og lífsafkoma er annars vegar.
Látum dómstólum eftir að dæma - það er ekki viðeigandi að reka mál á mörgum vígstöðvum samtímis.
![]() |
Sigurður Tómas: Framburður Jóns Ásgeirs ekki trúverðugur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Leiðari Moggans í dag - ójöfnuður umræðunnar.
13.3.2007 | 12:22
Ég las leiðara Moggans í morgun, og fyrir eyrum mér ómaði rifhljóðið sem kemur í kvikmyndunum þegar alvarleg vonbrigði ríða yfir einhvern. Eftir gleðina sem fyllti mig þegar ég sá ítarlegar og góðar fréttir á forsíðu og í miðopnu blaðsins í gær um opinn baráttufund á Ísarfirði um framtíð byggðar á Vestfjörðum, var leiðarinn í morgun eins og blaut tuska í andlitið.
Þar segir:
Af frásögnum af fundinum að dæma var stjórnvöldum að flestu leyti kennt um og flestar þær hugmyndir og kröfur, sem viðraðar voru á fundinum, gengu út á aukin ríkisútgjöld eða ríkisafskipti af einu eða öðru tagi til að rétta hlut Vestfjarða.
Svo segir:
Nú stendur fyrir dyrum mikið átak í samgöngumálum á Vestfjörðum, sem mun stuðla að því að jafna stöðu þeirra miðað við aðra landshluta að þessu leyti, þótt því verki sé að sjálfsögðu fjarri því lokið.
Loks þetta:
Hitt er svo annað mál, að opinber störf munu aldrei verða undirstaða byggðar eða atvinnulífs í neinu landi eða landshluta. Lífvænleg byggðarlög byggjast á þróttmiklu atvinnulífi, sem einkaframtakið stendur undir.
Jæja, nú er tímabært að leggja orð í belg.
Í fyrsta lagi var fundurinn á Ísafirði ekki ákall um ríkisforsjá - hann var krafa um leiðréttingu.Auðlindir Vestfirðinga voru frá þeim teknar með einu pennastriki þegar núverandi kvótakerfi var komið á. Það var gert með stjórnvaldsákvörðun. Það þarf stjórnvaldsákvörðun til þess að leiðrétta það misrétti sem þessi landshluti hefur mátt búa við síðan.
Hverjir setja samfélagi okkar leikreglur - eru það ekki stjórnvöld? Eða eiga Vestfirðingar kannski að vera undanþegnir stjórnvaldsákvörðunum að mati leiðarahöfundar? Hverjir skapa skilyrðin fyrir atvinnuvegina og einkareksturinn? Eru þau skilyrði ekki sköpuð með lagasetningum og ákvörðunum stjórnvalda? Um hvað er leiðarahöfundur Morgunblaðsins eiginlega að tala?
Þegar því er haldið fram að nú standi fyrir dyrum"mikið átak í samgöngumálum á Vestfjörðum" vil ég benda á að það "mikla átak" hefur staðið fyrir dyrum í 44 ár - það var fyrst sett fram í byggðaáætlun árið 1963!
Í frábærri grein sem Kristinn H. Gunnarsson skrifar á bb.is í dag - og ég hvet alla til að lesa - eru raktar nokkrar staðreyndir um stærðargráður í þessu sambandi.
Kristinn bendir á að á sama tíma og stjórnvöld gera ráð fyrir 10 milljónum á ári í þrjú og hálft ár til Vestfirðinga setti Landsvirkjun milljarða króna í rannsóknir og undirbúning að virkjun við Kárahnjúka og að framkvæmdin ásamt álveri losar 200 milljarða króna. "Í Þingeyjarsýslum er verið að setja mikla peninga til þess að koma á fót álveri við Húsavík" segir Kristinn og bendir á að m.v. núverandi áætlanir vaxtasamnings Vestfjarða um fjárframlög ríkisins til atvinnumála á svæðinu tæki það ríkið eina öld að verja 1 milljarði króna til atvinnumála á Vestfjörðum, "það er að segja ef einhver trúir því að vaxtarsamningurinn verði framlengdur um 97 ár."
Ekki nóg með þetta. Kristinn - sem er stærðfræðingur - hefur reiknað það út að vaxtar-samningur í eina öld er samt ekki nema 0,5% af Austfjarðaátaki ríkisstjórnarinnar. Það myndi því taka 200 aldir með sama áframhaldi að ná "Kárahnjúkaumfangi" á Vestfjörðum.
Þetta er málið í hnotskurn - og verðugt íhugunarefni fyrir leiðarahöfund Morgunblaðsins sem og Íslendinga alla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.3.2007 kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Baráttufundur í Hömrum kl. 14:00
10.3.2007 | 20:46
Það verður baráttufundur í Hömrum á Ísafirði í dag (sunnudag) kl. 14:00.
Vestfirskir borgarar munu þar eiga orðastað við sína fulltrúa á þingi og í sveitarstjórnum um stöðu mála hér fyrir vestan, búsetu- og atvinnuhorfur. Ég hef verið að tjá mig um þessi mál hér á bloggsíðunni og í blöðunu að undanförnu - og það sýður á mér enn. Sérstaklega þegar ég hugsa um öll loforðin sem gefin hafa verið þessum landshluta í aðdraganda kosninga, allan fagurgalann í byggðaáætlunum og vaxtasamningum - úff!
Ég segi bara eins og fleiri, það er tímabært að þjóðin og ráðamenn hennar geri það upp við sig hvort eigi að vera byggð í landinu eða ekki. Og ef það á að vera byggð - að gera þá það sem þarf til að hún fái þrifist.
Vona að það verði góð mæting - en veðurspáin er slæm þannig að það horfir ekkert sérlega vel með flug. Við sjáum hvað setur.
Lifi Vestfirðir!
Hinar hljóðu hamfarir
26.2.2007 | 17:03
Náttúruhamfarirnar sem gengu yfir norðanverða Vestfirði árið 1995 voru þungt högg fyrir byggðarlagið. Þær dundu yfir á einni nóttu og afleiðingarnar voru öllum ljósar. Enda vafðist ekki fyrir landsmönnum, stjórnvöldum og öllum sem vettlingi gátu valdið að rétta fram hjálparhönd. Samtakamáttur og samhugur þjóðarinnar allrar varð þess valdandi að heimamönnum tókst að endurreisa tvö byggðarlög, nánast úr rústum. Það sem hefur verið að gerast í atvinnumálum hér á svæðinu undanfarna áratugi eru annarskonar hamfarir. Það eru hinar þöglu hamfarir sem ekki blasa við í fljótu bragði þar sem þær hafa átt sér stað á löngum tíma. Þess vegna hefur heldur ekki verið risið upp að heitið geti, hvorki í vörn né sókn.
Linsoðinn froskur í vatni.
Hlutskipti vestfirskra byggða hefur eiginlega verið hið sama og frosksins sem soðinn er rólega í vatninu. Hann áttar sig ekki á því hvað er gerast vegna þess að hann sjálfur hitnar með vatninu, verður máttfarinn og soðnar svo til bana. Lítum á hver þróunin hefur verið:
1) Íbúum hefur fækkað um 25% á 25 árum.
2) Útgerð og fiskvinnsla eru ekki svipur hjá sjón eftir að margumrædd hagræðing í sjávarútvegi náði fram að ganga á landsvísu í kjölfar óréttláts kvótakerfis. Af níu togurum sem gerðir voru út frá norðanverðum Vestfjörðum á áttunda áratugnum eru 2 eftir (mætti með góðum vilja segja 3).
3) Hagvöxtur á svæðinu hefur verið neikvæður á sama tíma og hann hefur verið jákvæður í öðrum landshlutum (nema Norðurlandi vestra). Til dæmis var hagvöxtur Vestfirðinga -6% en +29% á höfuðborgarsvæðinu á árunum 1998-2004.
4) Flest sveitarfélögin á Vestfjörðum berjast í bökkum og hafa neikvæða rekstrarstöðu.
5) Vegakerfi landshlutans er enn ófrágengið og sum svæði enn ekki komin í vegasamband að heitið geti. Samkvæmt nýrri samgönguáætlun er enn 2-3 ára bið eftir bundnu slitlagi frá Ísafirði til Reykjavíkur, og enn lengri bið fyrir suðurhluta svæðisins.
6) Flutningskostnaður er hærri á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum, lætur nærri að hann sé um 30-40% hærri en á Akureyri, svo dæmi sé tekið.
7) Menntunarstig er lágt miðað við aðra landshluta.
Samstöðuskortur
Þrátt fyrir þetta hefur ekki tekist að mjaka ráðamönnum svæðsins, hvorki á þingi né í sveitarstjórnum, til þess að sameinast um þau baráttumál sem mestu skipta fyrir byggðarlagið. Því miður hafa varðhundar stjórnmálaflokkanna í heimabyggð einatt komist upp með að hlaupa í skotgrafirnar og vefja mál í flokkspólitískar þrætur, þegar veigamikil mál ber á góma. Það er tími til kominn að velunnarar þessa svæðis taki saman höndum, teygi sig hver í átt að öðrum yfir skotgrafirnar, og beiti sér í sameiningu fyrir björgun þessa byggðarlags.Annar vandi er stefnuleysið, til dæmis eins og það hefur birst í samgöngumálum. Ég leyfi mér að nefna ákvörðun og nýafstaðin fagnaðarlæti yfir Óshlíðargöngum sem skyndilega eru komin framfyrir Arnarfjarðargöng bráðnauðsynlega samgöngubót sem beðið hefur verið eftir árum saman - á samgönguáætlun.
Gleðisöngskrafan
Og svo er það gleðisöngskrafan. Þá sjaldan eitthvað næst fram er fjöldanum skipað að fagna hátt og lengi, í nafni jákvæðrar umræðu. Annars eru menn sakaðir um niðurrif, hvorki meira né minna. Menn skulu kvaka og þakka hvað lítið sem gerist. Þessi gleðisöngskrafa er orðin að svipu sem svífur yfir höfðum íbúa á Vestfjörðum, því ekki má ræða það sem miður fer eða skaða ímynd svæðisins með því að tala um vandamálin eins og þau eru. Jæja, ég er búin að fá nóg af því að þegja ég tek ekki þátt í þessari vitleysu lengur. Gleðisöngsveitin verður að horfast í augu við þá staðreynd að ímynd Vestfjarða hefur beðið hnekki! Hvenær sem samgöngur ber á góma, hvenær sem starfsemi er lögð niður eða hagvaxtartölurnar eru rifjaðar upp, þá er ímyndarvandi á ferðum fyrir Vestfirði. Það er líka ímyndarvandi á ferðum þegar ótíðindin eiga sér stað beint í kjölfar fagnaðarláta af litlu tilefni, beint ofan í lofsyrði um uppsveiflu og framfarir sem lítil eða engin innistæða reynist svo fyrir. Þetta er grafalvarlegt mál.
Stökkvum upp úr!
Þegar þessi orð eru skrifuð skín sól á snæviþakin fjöllin umhverfis Ísafjörð. Djúpið blasir við mér út um gluggann fagurblátt og glitrandi í sólskininu. Ég vil búa hér hér líður fjölskyldu minni vel, hér er gott fólk og fallegt umhverfi. Það er til nokkurs að vinna að berjast fyrir framtíðinni á þessum fallega stað. En, ég vil ekki vera linsoðinn froskur í potti fullum af hálfvelgjuloforðum og skammtímalausnum. Þetta landssvæði hefur skapað þjóðarbúinu verðmæti, verið undirstaða sjávarútvegs og þar með þjóðartekna. Nú er röðin komin að okkur að fá almennilega vegi sem eru samanburðarhæfir við það sem gerist í öðrum landshlutum; strandsiglingar og jarðgöng undir Dynjandis- og Hrafnseyrarheiði til þess að lækka flutningskostnað og tengja saman byggðarlög. Síðast en ekki síst þurfum við Háskóla á Ísafjörð!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.2.2007 kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þjóðin þarf mömmu
25.2.2007 | 18:37
Á laugardaginn sótti ég ársfund kvennarhreyfingar Samfylkingarinnar sem haldinn var á hótel Loftleiðum. Margar konur mættar til leiks, góð stemning og fjörlegar umræður. Um kvöldið gerðum við okkur glaðan dag yfir kvöldverði ég í hlutverki veislustjóra að þessu sinni - enn meira fjör og enn fjörlegri umræður.
Það er endurnærandi að hitta gáfaðar og skemmtilegar konur víðsvegar að og eiga með þeim stund í glaðværum hópi. Ræða stjórnmál, kvenréttindi, velferðarmál, þjóðfélagsþróun gera saklaust grín að sjálfum sér og öðrum, skiptast á skoðunum og reynslusögum, hlæja. Svona trúnó stemning án þess þó að mærðin eða værðin fari úr hófi. Eftir situr góð tilfinning ýmsu ólokið og mörg vígi að vinna, vissulega en aukið baráttuþrek og skýrari sýn á verkefnin framundan. Þannig er það bara.
Þarf þjóðin landsfeður?
Ég fór að hugsa um það eftir þessa ánægjulegu samveru með samfylkingarkonunum á laugardagskvöldið hvers þjóðin þyrfti við um þessar mundir. Hugurinn reikaði ósjálfrátt aftur í stjórnmálasöguna, til allra landsfeðranna sem við sjáum á svarthvítum myndum í Íslandssögubókum.
Af lestri þeirra bóka má ýmislegt læra um þróun samfélagsins undanfarnar aldir. Þó rúma þær engan veginn allar breytingarnar sem orðið hafa á íslenskum þjóðfélagsháttum, svo ör sem þróunin hefur verið. Ekki er saman að jafna lífskjörum og tækifærum fólks í dag eða við upphaf síðustu aldar. Hinsvegar hafa þjóðfélagsbreytingarnar líka tekið sinn toll. Tæknidýrkun, neysluhyggja, skeytingarleysi markaðsafla fyrir samfélagslegum gildum, náttúruauðlindum og mannauði, eru bara örfá dæmi um þær vár verjast þarf.
Nú eru horfnir af sjónarsviðinu brautryðjendurnir sem höfðu hugsjón og barátturþek
til þess að vinna Íslandi allt eins og það var stundum orðað í ungmennafélagsræðum. Eldhugarnir eru komnir til starfa í stórfyrirækjum og farnir í úrásir erlendis og þeim fækkar stöðugt sem horfa umhyggjuaugum á landið sitt.
Ég held satt að segja að tími landsfeðranna sé liðinn þjóðin þarf ekki áhættufúsa ofurhuga til þess að gefa sér langt nef, raka saman arði til þess að fara með hann úr landi, eða knésetja lítil byggðarlög. Æska landsins þarf ekki meiri neysluhroka eða skeytingarleysi um mannleg gildi, en orðið er. Gamla fólki þarf ekki meiri æskudýrkun eða afskiptaleysi inn í íslenskt þjóðfélag. Arðsemiskrafa og útrásir eru ekki það sem íslenskt samfélag þarf að setja í forgang að þessu sinni, svo þjóðin fái þrifist. Markaðurinn sér um sig en hver ætlar að sjá um fólkið?
Þjóðin þarf mömmu.
Það er tími til kominn að leiða umhyggjuna til öndvegis í íslenskum stjórnmálum. Þjóðin þarf ekki fleiri landsfeður. Þjóðin þarf mömmu, svo ég vitni til orða flokksbróður míns, Guðmundar Steingrímssonar sem hann lét falla á fundi hér fyrir vestan nýlega. Mæli hann manna heilastur. Það sem íslensk þjóð þarf sárlega á að halda um þessar mundir er einmitt umhyggja.
Þau vita það sem eiga um sárt að binda vegna sjúkdóma, áfalla, vanrækslu, ellihrörnunar, fátæktar eða atvinnuleysis svo dæmi séu tekin. Þau vita það sem standa frammi fyrir kerfinu og bíða úrlausnar mánuðum, jafnvel árum saman. Við vitum það sem fylgjumst með fréttum af málefnum öryrkja, lesum um hagræðingarkröfu í heilbrigðisþjónustu, verðum vitni að ráðaleysi í skólakerfinu, misréttinu á vinnumarkaðnum eða arðsemisákvörðunum stórfyrirtækja svo einungis fátt eitt sé upp talið af öllu því sem aflaga hefur farið í samfélagi okkar.
Nú er verk að vinna
Í fyrsta skipti frá upphafi lýðveldis stöndum við frammi fyrir því sögulega tækifæri að geta leitt konu til valda sem forsætisráðherra. Sú kona hefur sýnt og sannað við ótal tækifæri að hún hefur bæði hugrekki og heiðarleika til þess að vinna þau verk sem vinna þarf. Hún talar hreint út, hún stendur við orð sín og hún hikar ekki við að skoða hluti í nýju ljósi ef aðstæður breytast. Hvers vegna? Vegna þess að Ingibjörg Sólrún ber umhyggju fyrir landi sínu og þjóð hún er nefnilega kona sem gegnt hefur bæði móðurhlutverki á heimili og forystuhlutverki í opinberu lífi. Hún býr yfir þeim samþætta streng sem góður stjórnmálaleiðtogi þarf að hafa.
Við megum ekki láta þetta tækifæri úr greipum renna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Hver er ábyrgð Marels?
23.2.2007 | 11:29
Hagræðingarkrafan?
Í máli Magnúsar Þórs Ásmundssonar, framkvæmdastjóra framleiðslusviðs Marels, kom fram fram að miklar breytingar hafi orðið á rekstrarumhverfi Marels undanfarin tvö ár. Á síðasta ári keypti fyrirtækið tvö stór fyrirtæki, AEW Delford Systems á Englandi og Scanvægt í Danmörku. Við þetta tvöfaldaðist Marel að stærð og rekur nú á fimmta tug starfsstöðva í 22 löndum, eins og fram hefur komið í fréttum.
Var helst á manninum að skilja að vegna þessarar velgengni fyrirtækisins væri nú öldungis óhjákvæmilegt annað en að stefna á frekari samþættingu fyrirtækjanna í eigu Marels, finna samlegðaráhrif og hagræða í rekstrinum eins og það var orðað. Já, þegar velgengnin er sem mest, þá er um að gera að hagræða og græða meira.
Ekki eru mörg ár síðan talsmenn þessa sama fyrirtækis komu hingað vestur í þeim erindum að innlima annað, rótgróið tæknifyrirtæki, Póls einmitt til þess að ná fram samlegðaráhrifum í innkaupum og sölukerfi eins og það var orðað á þeim tíma. Fram hefur komið að forsvarsmenn Marels fullvissuðu þá ráðamenn bæjarins um að Marel stundaði ekki uppkaup fyrirtækja til þess að leggja þau niður. Við sjáum nú hve mikið var að marka það tal. Nú vitum við að það var álíka öfugmæli og tafsið um samfélagslega ábyrgð sem hraut af vörum framkvæmdastjóra framleiðslusviðs Marels í sjónvarpsviðtalinu nú síðast.
Ímyndin?
Á síðustu árum hefur athygli markaðsfræðinga beinst í vaxandi mæli að ímynd fyrirtækja. Góð ímynd er yfirleitt talin jafngildi hagnaðar eða gróða enda verja mörg þeirra háum fjárhæðum til ímyndarsköpunar. Marel er fyrirtæki sem hefur haft á sér þokkalegt orð til þessa. Meðal annars þess vegna hef ég, líkt og margir, keypt í því hlutabréf. Minn hlutur er að sjálfsögðu hverfandi lítill á mælikvarða þeirra fjármuna sem höndlað er með í rekstri Marels. En sem hluthafa og velunnara fyrirtækisins til þessa, svíður mér að horfa upp á þessar aðgerðir. Þær eru skeytingarlausar gagnvart samfélagslegum og mannlegum gildum gerðar í hagnaðarskyni á kostnað annarra verðmæta. Auk alls annars trúi ég því að þær séu skaðlegar fyrir ímynd fyrirtækisins en yfir því græt ég þurrum tárum úr því sem komið er.
Siðferðileg ábyrgð?
Hafi stjórnendur Marels nokkurn tíma leitt hugann að samfélagslegri ábyrgð hefðu þeir að sjálfsögðu aldrei lagt niður starfsstöð í byggðarlagi sem sárlega þarf á slíkum atvinnurekstri að halda. Þeir hefðu frekar látið þetta byggðarlag njóta góðs af samlegð og hagræðingu, t.d. með því að færa hingað aukin verkefni. Því miður virðist deginum ljósara að ekkert slíkt hefur hvarflað að þeim.
Samfélagsleg ábyrgð?
Stjórnendur Marels virðast ekki vita hvað samfélagsleg ábyrgð er. Og samfélagið sem nært hefur starfsemi þeirra, komið undir þá fótunum, fært þeim þekkingu, mannauð og tækifæri í hendur það hverfur í mistur gleymskunnar jafnóðum og það hefur skilað sínu hlutverki. Þegar útrásin er orðin að veruleika og viðskiptin farin að ganga greitt, þá eru það sko stjórn fyrirtækisins og hluthafarnir sem sýna þarf hagnaðinn, ekki samfélagið. Þetta eru nefnilega stórir kallar í alvöru bissness. Þeir keyptu upp tvö erlend stórfyrirtæki og urðu svo stórir að nú þurfa þeir að hagræða.
Svei. Ég vil ekki eiga hlut í þessu fyrirtæki og mun selja mín bréf í Marel við fyrsta tækifæri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)