Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Barnavernd á erfiðum tímum

barnavernd Þegar þrengir að efnahag þjóðarinnar er ástæða til þess að huga betur en nokkru sinni að velferð barna. Opinberar tölur sýna mikla fjölgun barnaverndarmála á fyrstu mánuðum þessa árs, einkanlega í Reykjavík þar sem tilkynningar til barnaverndarstofu borgarinnar voru 40% fleiri en á sama tíma árið áður. Vera kann að þessi aukning beri vott um vaxandi vitund almennings um barnaverndarmál. Engu að síður er full ástæða til að taka þetta alvarlega sem vísbendingu um versnandi hag barna og fjölskyldna þeirra.

Börn eru saklaus og varnarlaus. Þau eru framtíð þjóðarinnar og að þeim verðum við að hlúa, ekki síst þegar illa árar.

Ég tók málið upp við félags- og tryggingamálaráðherra í fyrirspurnartíma í þinginu í morgun. Umræðuna í heild sinni má sjá hér

 -----------

PS: Meðfylgjandi mynd tók ég af vef mbl.is - hún var þar merkt Ásdísi.


Strandveiðarnar færa líf í hafnir

Smábátar Þingmenn Sjálfstæðisflokksins gefa lítið, "jafnvel ekkert" (svo ég vitni í þeirra eigin orð) fyrir það líf í höfnum sem strandveiðarnar hafa fært sjávarbyggðunum í sumar. Neibb - þeir finna þessu nýja fyrirkomulag allt til foráttu. Nú síðast það helst hversu óhagkvæmar fiskveiðar þetta séu vegna þess hversu margir hafa stundað þær og fært fisk að landi. Woundering

Reynslan í sumar sýnir að 505 bátar hafa farið á sjó og veitt rétt tæplega 4 þúsund tonn af fiski í 4.600 löndunum.

Þetta er gleðiefni fyrir flestalla (nema að sjálfsögðu varðhunda stórútgerðarinnar sem vill ekkert af þessum veiðum vita). 

Reynslan af þessu kerfi verður metin í lok veiðitímabilsins nú í haust. Nú þegar hefur komið í ljós að huga þarf betur að svæðaskiptingunni, því nú eru menn búnir að veiða allt sem þeir mega á svæði A (norðvesturmiðin) en á öðrum svæðum (B, C og D) hafa þeir veitt 30-50% af því sem leyfilegt er. Þetta kallar á sérstaka skoðun.

EN ... það er ólíku saman að jafna yfirbragði íslenskra hafna nú en áður þegar deyfðin var allt að drepa og sjávarútvegurinn beindist aðallega að þörfum stórútgerðarinnar og verksmiðjuskipanna sem landa á örfáum stöðum og eiga fátt sameiginlegt með smábátum á strandveiðum í hinum smærri byggðum.

Málið kom til umræðu í þinginu í dag þar sem  ég svaraði fyrirspurn Illuga Gunnarssonar (hér) sem fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins blönduðu sér í og nokkrar umræður spunnust í framhaldinu (t.d. hér).  Þetta er ekki langt.

Jebb, það getur verið líf víðar en í höfnum landsins. Wink


Klækjastjórnmál og ráðaleysi - slæmur kokteill

Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur hefur vakið athygli á því að ef Icesave samningurinn verður felldur í þinginu þá sé skollin á alvarleg stjórnarkreppa í landinu. Þar með sé ljóst að forysta landsins geti í raun og veru ekki komið sér saman um það hvernig bregðast skuli við brýnasta lífshagsmunamáli þjóðarinnar eins og hann orðar það svo réttilega.

Á sama tíma hefur Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar látið í ljósi efasemdir um að þingmönnum í  fjárlaganefnd sé raunverulega alvara í málinu, enda hefur nefndin nú haft það til meðferðar í 8 vikur án þess að lyktir hafi ráðist. 

Já, það er þyngra en tárum taki að fylgjast með atburðarásinni í þinginu þessa dagana.

Og ekki er bætir fjölmiðlaumfjöllunin úr skák þar sem sérfræðingarnir eru eltir hver af öðrum í misvísandi fullyrðingum um túlkun og afleiðingar alls þessa fyrir land og þjóð. Sjálfstæð vinnubrögð fyrirfinnast varla, bara brugðist við yfirlýsingum þess sem hæst hefur hverju sinni.

Undir öllu þessu situr þjóðin, ráðvillt, agndofa og veit vart sitt rjúkandi ráð.

Klækjastjórnmál í bland við ráðaleysi - það er ekki kokteillinn sem þjóðin þarf á að halda um þessar mundir. Angry

Við verðum að afgreiða þetta mál frá okkur eins og manneskjur.

Það er núna sem reynir á þingið, hvort það yfirleitt stendur undir nafni sem þjóðþing.

Það er núna sem reynir á ríkisstjórnina hvort hún er yfirleitt til staðar.

Og það er núna sem reynir á fjölmiðlana - hvort þeir rísa undir nafni sem "fjórða valdið".

------------------ 

PS: Ég mun hiklaust fjarlægja allar athugasemdir sem fela í sér ókurteisi , meiðandi ummæli, uppnefni eða órökstuddar ásakanir í garð nafngreindra manna eða fylgjenda tiltekinnna stjórnmálaflokka. 

Ef ykkur leikur forvitni á að vita mína nálgun og afstöðu til þessa máls, þá getið þið kynnt ykkur það  hér, hér, hér, hér og hér . Ég mun ekki svara spurningum að þessu sinni um efnisatriði sem hafa komið fram í mínum skrifum áður.


Grænland næst á dagskrá

narsarsuaq.jpg Á morgun held ég af stað til Grænlands til að sitja þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin verður í Grønnedal á suðvesturströndinni og stendur í fjóra daga. Fyrst verður flogið til Narsarsuaq og þaðan siglt með dönsku herskipi til Gr ønnedal. Ráðstefnan er undirbúningur fyrir ársfund ráðsins í lok ágúst.

Það eru Ísland, Færeyjar og Grænland sem mynda vestnorræna ráðið (sjá www.vestnordisk.is). Löndin þrjú eru ekki aðeins tengd vináttuböndum, heldur eiga þjóðirnar margt sameiginlegt í samfélagslegum, pólitískum og sögulegum skilningi. Allar hafa þær lotið yfirráðum Dana til dæmis, og Grænland gerir að það ákveðnu leyti enn, þó landið hafi nú stigið mikilvæg skref í sjálfstæðisátt. Allt eru þetta strjálbýl lönd og tiltölulega fámenn þar sem sjávarútvegur í einni eða annarri mynd er drýgstur hluti atvinnulífs ásamt þjónustu og vaxandi ferðamannaiðnaði. Öll gætu löndin talist jaðarsvæði í einhverjum skilningi.

Vestnorræna ráðið beitir sér fyrir samstarfi milli landanna þriggja á þeim sviðum þar sem hagsmunir fara saman. Ráðið hefur t.d. ályktað um og hvatt til skipulegs samstarfs varðandi björgunar- og öryggismál á norðurslóð - nokkuð sem hefði þurft að vera komið á fyrir löngu, en hefur  vaxandi þýðingu með aukinni umferð skipa og ferðafólks á þessu svæði.

Á þessari þemaráðstefnu verða menntamálin í brennidepli, líkt og oft áður, enda hefur ráðið beitt sér fyrir samstarfi milli landanna í þeim efnum - jafnt varðandi menntunarkosti sem og rannsóknir.

Ég fer í þessa ferð í embættiserindum, sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Hef ekki komið á þessar slóðir áður, og hlakka til ferðarinnar.

 -----siv.jpg

PS: Við undirbúning minn rakst ég á ágæta bloggfærslu Sivjar Friðleifsdóttur frá því í fyrra þar sem hún tínir saman nokkrar tölulegar staðreyndir um lífs- og samfélagshætti á Grænlandi (sjá hér).


Orð Evu Joly

EvaJolyÉg er undrandi á þeim orðum Hrannars B. Arnarsonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra, að Eva Joly eigi að halda sig við sín ráðgjafastörf fyrir sérstakan saksóknara en láta öðrum eftir efnahagsmálin. Þessi orð mætti allt eins heimfæra upp á Hrannar sjálfan - þ.e. að hann ætti að láta pólitíkusunum eftir að vinna sitt starf og sinna sjálfur þeim viðfangsefnum sem honum er trúað fyrir.

En við búum nú einu sinni í lýðfrjálsu landi þar sem málfrelsi ríkir. Fyrir það má þakka, að fleiri skuli almennt taka til máls um þjóðfélagsmál, en þeir einir sem til þess eru kjörnir eða ráðnir.

Eva Joly er kona með mikla yfirsýn og reynslu. Hún er vissulega stjórnmálamaður - nýkjörin sem þingmaður á Evrópuþinginu - og virðist eiga ýmislegt ósagt við ýmsa þar innan dyra, eins og grein hennar ber með sér. En skrif hennar eru umhugsunarefni, því "glöggt er gests augað" eins og þar stendur.

Ég tel mikils um vert að kynnst sjónarmiðum Evu Joly til bankahrunsins og stöðu okkar á alþjóðavettvangi.  Ég verð að viðurkenna að ég er þungt hugsi yfir ákveðnum atriðum sem fram koma í grein hennar.

En hvort sem ég er sammála mati hennar á stöðunni eða ekki - og þó mér hafi áður fundist hún mætti bera sig öðruvísi að við að koma inn í umræðuna - þá er eitt alveg ljóst: Þessi kona stendur með okkur Íslendingum og vill vekja athygli á málstað okkar. Það gerir hún af einurð og ekki síður af hlýhug í garð þeirrar "grandvöru og elskulegu þjóðar" sem hún segir okkur vera.

Mér þótti vænt um að finna hugarþel hennar í okkar garð, og ég er sannfærð um að orð hennar eru betur sögð en ósögð.

-----------

 PS: Loks langar mig að benda á ágæta greiningu Marðar Árnasonar á skrifum Joly.


mbl.is Hrannar sendir Joly tóninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki erindi til almennings?

"Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings telja að upplýsingar um viðskiptavini Kaupþings eigi ekki erindi til almennings og sé brot á þeirri vernd sem bankaleynd á að veita viðskiptamönnum. Mikilvægt er að traust og trúnaður ríki milli fjármálastofnana og viðskiptavina" segir í yfirlýsingu þessara sömu aðila til fjölmiðla.

Það er einmitt það "vernd" til viðskiptamanna, "traust og trúnaður" Angry

Það vantar eitt inn í þessa jöfnu - það vantar traust og trúnað almennings gagnvart umræddum fjármálastofnunum.

Þær upplýsingar sem nú hafa verið lögbannaðar varða ekki eingöngu "viðskiptavini Kaupþings" heldur viðskiptaaðferðir bankans og þær eiga fullt erindi til almennings, að mínu viti.


mbl.is Kaupþing fékk lögbann á RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóð í öngum

Þjóðin er í öng. 

Bjarni BenHvernig skyldi þeim vera innanbrjósts á þessari stundu formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, flokkanna sem bera höfuðábyrgð á því hvernig komið er, en láta eins og þeim komi afleiðingarnar ekki við? Ætla ekki að samþykkja Icesave samninginn "í núverandi mynd" eins og Bjarni Benediktsson orðaði það.

Sigmundur DavíðVikum og mánuðum saman hafa þeir þvælst fyrir Ice-save samkomulaginu með öllum tiltækum ráðum og haldið málinu í gíslingu. Já, þeir hafa hagað sér eins og slökkviliðsstjórinn sem hefur verið rekinn en getur ekki unnt slökkviliðinu að vinna sitt verk, heldur skrúfar fyrir vatnið á brunahönunum, til þess að sýna fram á að hann hefði getað unnið verkið einhvernveginn öðruvísi. Á meðan brennur húsið.

Óliku er saman að jafna framgöngu þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar sem lagt hafa nótt við dag að bjarga því sem bjargað verður af því að þeim er annt um þjóðina (ekki bara flokkinn, eins og hinum tveimur). Þau hafa mátt róa á móti andófi og áróðursskrumi stjórnarandstöðunnar af ábyrgð og festu. Þau hafa jafnvel mátt kljást við ístöðuleysi ákveðinna stjórnarliða sem líftóran hefur verið hrædd úr.

stjornAldrei hafa þau þó gripið til sterkra orða eða lýðskrums. Þau svara hverri spurningu af háttvísi og alvöru. Aldrei hafa þau hlaupið í persónulegt orðaskak. Nei, þau hafa staðið eins og stólpar upp úr þessu umróti öllu, haldið stillingu sinni og yfirvegun eins og sannkallaðir leiðtogar. Það fróma orð myndi mér þó aldrei til hugar koma um þá félaga Bjarna Ben og Sigmund Davíð.

En nú er ljóst - sem við máttum vita - að Íslendingar hafa enga stöðu gagnvart öðrum þjóðum í augnablikinu. Við erum einfaldlega álitin ójafnaðarmenn í augum umheimsins: Þjóð sem ekki vill standa við skuldbindingar sínar; þjóð sem ekki er treystandi; þjóð sem ól af sér kynslóð fjárglæframanna, hannaði fyrir þá vettvang til að athafna sig á, þar sem þeir gátu látið greipar sópa um fjármálakerfið og  narrað saklausan almenning til þess að leggja fé inn á reikninga, m.a. Icesave reikningana í Bretlandi og Hollandi.

GeirHaarde (Small)Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra lýsti þvi yfir í haust að allir innistæðueigendur myndu fá greiddar innistæður sínar í íslenskum bönkum. Sú yfirlýsing var bindandi fyrir íslensk stjórnvöld. Halda menn virkilega að þau orð hafi aðeins getað gilt um suma en ekki aðra? Annað hvort eiga innistæðueigendur rétt á endurgreiðslum úr íslenskum bönkum eða ekki. Svo einfalt er það og skiptir engu hvort um er að ræða Íslendinga, Breta eða Hollendinga. 

Málið snýst ekkert um það að "borga skuldir óreiðumanna" heldur að standa við alþjóðlegar og siðlegar skuldbindingar gagnvart innistæðueigendum í íslenskum bönkum.

Á meðan við ekki göngum frá Icesave samkomulaginu, fáum við enga aðstoð. Það erum við Íslendingar sem erum álitin óreiðumenn í augum umheimsins. Það vill enginn við okkur tala á meðan við sýnum engin merki þess að bæta ráð okkar.


mbl.is Stjórnvöld halda í vonina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ónákvæmni eða "hyldýpismisskilningur"

Nýjasta útspilið í Ice-save umræðunni er fullyrðing lögmannsins Ragnars Hall um að Íslendingar hafi undirgengist að greiða "lögmannskostnað" fyrir Breta upp á tvo milljarða króna sem íslenska ríkið muni ábyrgjast samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar (sjá t.d. hér). Vísaði lögmaðurinn í sérstakan "uppgjörssamning" sem hann kvaðst að vísu ekki geta "lýst því nákvæmlega" í hverju fælist, en þar inni væru kröfur sem hann "hefði aldrei órað fyrir því að hægt væri að setja fram".

Þessi málfutningur lögmannsins varð fyrr í dag tilefni umræðna í þingsal, sem við mátti búast (sjá hér).

Í máli formanns fjárlaganefndar kom fram að skjalið sem hér um ræðir nefnist "Settlement Agreement" og er dagsett 5. júní 2009. Það er fyrsta skjalið í möppunni stóru með Ice-save skjölunum á þingloftinu. 

Ég hafði upp á skjalinu og fann ákvæðið sem lögmaðurinn gerði að umtalsefni "án þess þó að geta lýst því nákvæmlega".  Ákvæðið er í lið 3.1 og hljóðar svo:

 FSCS [Financial Services Compensation Scheme Limited] may submit (on behalf of TIF [Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta] one Disbursement Request for £ 10.000.000 (ten million pounds) in respect of the costs incurred or to be incurred by FSCS in the handling and payment of compensation to depositors with the UK Branc and in dealing with related matters including, without limitation, recoveries and any disputes which may result.

Þetta ákvæði skil ég sem svo að Íslendingar fallist á að standa straum af tilfallandi kostnaði við umsýslu og afgreiðslu á endurgreiðslum til innistæðueigenda Ice-save reikninganna.

Í fljótu bragði virðist þetta því vera ofur eðlilegt ákvæði um að Íslendingar muni sjálfir standa straum af umstanginu við að endurgreiða viðskiptavinum Ice-save. 

Nú hefur fjármálaráðherra staðfest þennan skilning - væntanlega að höfðu samráði við færustu lögfræðinga. Búast má við að ýmsum létti við það. 

Um leið hlýtur ónákvæmni hæstaréttarlögmannsins að vekja umhugsun. Því miður er þetta ekki í fyrsta sinn sem Ragnar Hall gerist sekur um ónákvæmni sem skipt getur sköpum í málum sem hann hefur komið að (sbr. hér).


mbl.is Ekki minnst á lögfræðikostnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þinghlé skapar svigrúm fyrir Icesave-málið

Ice-save samningurinn er eitt þyngsta mál sem komið hefur til kasta Alþingis í lýðveldissögunni.  Nú ríður á að vinna málið af þeirri vandvirkni sem það verðskuldar, og ná því upp úr farvegi áróðurs og æsingakenndrar umræðu.

Sú ákvörðun að fresta nú þinghaldi um eina viku og gefa fjárlaganefnd þar með svigrúm til þess að vinna Ice-save málið sem best úr garði nefndarinnar, verður vonandi til þess að ná málinu upp úr skotgröfunum og yfir í farveg ábyrgari umræðu en verið hefur.

 Við Birgir Ármannsson ræddum þetta og fleira tengt Ice-save og störfum þingsins á Morgunvaktinni í morgun (hlusta hér).

 


mbl.is Rýnir í gögn vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margur heldur mig sig

Enn eina ferðina tókst þingmanni Borgarahreyfingarinnar að fanga athygli fjölmiðla um stund, með yfirlýsingum um einelti, kúgun og ofbeldi á hinu háa Alþingi. Vandlætingartónninn leyndi sér ekki - en í honum var þó holur hljómur að þessu sinni. 

Þetta er sami þingmaður og fyrir fáum dögum var tilbúinn að selja sannfæringu sína gagnvart ESB til þess að ná fram frestun á Ice-save, málinu.

Þessi þingmaður - og fleiri í hennar flokki - hafa verið ósparir á hneykslunarorð og brigslyrði um aðra þingmenn og þeirra meintu hvatir í hverju málinu af öðru. Hneykslun og vandlæting hafa verið nánast einu viðbrögðin hvenær sem mál hefur komið til umræðu í þinginu.

Þið fyrirgefið, gott fólk - en ég gef ekki mikið fyrir svona málflutning. Og nú vil ég fara að heyra einhverjar tillögur frá þessu fólki um það hvað megi betur fara - hvernig það megi betur fara. Það væri bara svo kærkomin tilbreyting frá þessum falska vandlætingarsöng að heyra eins og eina málefnalega tillögu, bara eitthvað sem túlka mætti sem málefnalegt innlegg.

Þeir sem eru tilbúnir að selja sannfæringu sína ættu ekki að vanda um fyrir öðrum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband