Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samkeppnin um fólkið og fiskinn

P1000929 Þó að Ísland, Færeyjar og Grænland, liggi ekki þétt saman landfræðilega séð, eiga þau margt sameiginlegt. Þetta eru „litlar" þjóðir í alþjóðlegum samanburði. Engu að síður eru þær ríkar að auðæfum til lands og sjávar.

Landfræðileg lega þeirra og sambærileg skilyrði í atvinnulífi og menningu gera að verkum að hagsmunir þjóðanna fara á margan hátt saman. Sömuleiðis þær ógnanir og áskoranir sem þær standa frammi fyrir. Má þar nefna auknar pólsiglingar sem skapa bæði tækifæri og hættur í norðurhöfum;  vaxandi alþjóðavæðingu með miklum fólksflutningum milli landa og samkeppni um mannafla og atgervi.

Allar horfast þjóðirnar þrjár í augu við brottflutning ungs fólks sem leitar út fyrir landsteina eftir menntun, en skilar sér mis vel til baka. Allar eru þær miklar fiskveiðiþjóðir. Ekkert er því mikilvægara efnahagslífi þeirra en sjávarútvegurinn ... og mannauðurinn.

narsarsuaq.jpgVestnorræna ráðið - sem er pólitískur samstarfsvettvangur landanna þriggja -  hélt í síðustu viku ársfund sinn í Færeyjum. Fundinn sóttu fulltrúar landsdeildanna  þriggja sem skipaðar eru sex þingmönnum hver. Ég átti þess kost sem formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins að sitja fundinn. Ekki þarf að koma á óvart að sjávarútvegsmál og menntun voru þar í brennidepli.

Eining var um það á ársfundinum að tryggja beri aukið samstarf Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði menntamála. Var meðal annars samþykkt ða hvetja ríkisstjórnirnar til að koma á samstarfi milli menntastofnana um nemendaskipti milli mennta- og fjölbrautaskóla í löndunum þremur.

Fundurinn hvatti menntamálaráðherra landanna til að koma á tilraunaverkefni milli landanna um fjarnám. Einnig var samþykkt tillaga Íslands um að efla samstarf um bóklegt og starfstengt nám, m.a. iðn- og verkmenntir fyrir ófaglært starfsfólk í löndunum.  Lögðum við til sérstakt tilraunaverkefni tiltekinna menntastofnana í þessu skyni í þeim tilgangi að hvetja þá sem ekki hafa stundað framhaldsnám til að auka á þekkingu sína svo þeir verði betur búnir undir hugsanlegar breytingar á atvinnumarkaði. Hafa Menntaskólinn á Ísafirði og Fræðslumiðstöð Vestfjarða lýst sig reiðubúin til að taka þátt í verkefninu af Íslands hálfu.

Þessi áhersla á samstarf í menntamálum er ekki að ófyrirsynju. Aldrei fyrr hafa þjóðirnar þrjár þurft svo mjög á því að halda að standast samanburð við umheiminn - standast samkeppnina um unga fólkið og þar með framtíðarbyggð landanna.  Samkeppnin um unga fólkið veltur ekki hvað síst á möguleikum þess til menntunar og framtíðaratvinnu. Efnahagslegar stoðir undir hvort tveggja er sjávarútvegurinn í þessum löndum - en sjávarútvegsmál voru annað aðalumfjöllunarefni ársfundarins.

Þingfulltrúar ársfundarins beindu sjónum að þörfinni fyrir aukið samstarf milli landanna á sviði sjávarútvegs. Annars vegar varðandi rannsóknir á ástandi fiskistofna og sjávarspendýra á norðlægum slóðum, sem ráðið hefur ályktað um áður. Hins vegar að hagnýtingu fiskistofnanna og fiskveiðistjórnun landanna. Í ályktun fundarins var því beint til sjávarútvegsráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands að láta gera nákvæma úttekt á því samstarfi sem löndin eiga með sér um bæði rannsóknir á lifandi auðlindum hafsins og um stjórnun fiskveiða, ekki síst varðandi deilistofna. 

Jafnframt var samþykkt - að frumkvæði okkar Íslendinga - að þemarástefna ráðsins næsta ár skyldi helguð samanburði á mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfum Íslands, Grænlands og Færeyja. Umrædd þemaráðstefna er undirbúningur fyrir ársfund Vestnorræna ráðsins 2010 og verður hún haldin á Sauðárkróki í byrjun júní næsta sumar. Þar er ætlunin að kryfja fiskveiðistjórnunarkerfi landanna og meta kosti þeirra og galla. Sú umræða er tímabær á þessum vettvangi, nú þegar við Íslendingar stöndum frammi fyrir endurskipulagningu okkar eigin fiskveiðistjórnunarkerfis.  Grænlendingar hafa sömuleiðis ýmis vandamál að kljást við í sínu kerfi. Þar er  m.a. um að ræða ágreining vegna fiskveiðasamningsins við ESB  - en þannig vill til að ESB er einnig að endurskoða eigin fiskveiðistjórnunarstefnu. Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um fiskveiðistjórnun gæti því orðið innlegg í þá stefnumótun, ef vel er á málum haldið.

Það var lærdómsríkt að sitja þennan ársfund Vestnorræna ráðsins og upplifa þá vináttu og samkennd sem ríkir milli þjóðanna þriggja. Víst er að þessar þjóðir þurfa að standa saman um þá hagsmuni og gagnvart þeim  hættum sem steðja að fámennum samfélögum á norðlægum slóðum.

Fiskurinn og fólkið eru verðmætustu auðlindir okkar - og Vestnorrænu löndin eiga í samkeppni við umheiminn um hvort tveggja.

 

----------------

PS: Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag.


Reynslan af strandveiðunum

fiskur Nú er lokið tveggja mánaða reynslutímabili strandveiðanna sem samþykktar voru með lagabreytingu á Alþingi fyrr í sumar. Ætlunin var - samkvæmt upphaflegu frumvarpi - að heimila veiðarnar frá 1. júní - 31. ágúst, og meta reynsluna af þeim að því loknu. Málið olli deilum í þinginu, því Sjálfstæðismenn settu sig öndverða gegn frumvarpinu og gerðu hvað þeir gátu til að tefja framgang málsins bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, sem og í umræðum í þinginu. Fyrir vikið varð strandveiðunum ekki komið á fyrr en 1. júlí. Þá voru tveir mánuðir eftir af fiskveiðiárinu og því ljóst að reynslan af veiðunum yrði takmarkaðri en ella.

Lagabreytingin fól það í sér að nú mátti veiða á handfæri 3.955 lestir af þorskígildum utan aflamarkskerfis. Fiskimiðunum við landið var skipt upp í fjögur svæði og ráðherra heimilað að skipta aflaheimildum á einstaka mánuði milli þessara svæða. Skyldi byggt á hlutfallslegri skiptingu byggðakvóta við útdeilingu aflaheimilda, en 2.500 lestum var auk þess skipt jafnt á öll svæðin (625 lestir á hvert svæði).

SmábátarSamkvæmt lögunum var ekki heimilt að fara í fleiri en eina veiðiferð á hverjum degi, fjöldi handfærarúlla var takmarkaður og afli hvers dags skyldi ekki fara yfir 800 kg af kvótabundnum tegundum. Með þessu var leitast við að láta leyfilegt veiðimagn dreifast sem mest á landsvæði og tíma auk þess sem þetta ákvæði átti að hindra að of mikið kapp yrði í veiðunum. Þá var kveðið á um að allur afli sem landað yrði við færaveiðar skyldi vigtaður og skráður hér á landi. 

 Þeir tveir mánuðir sem liðnir eru frá því strandveiðunum var komið á, hafa leitt góða reynslu í ljós. Við lok fiskveiðiársins þann 31. ágúst s.l. höfðu rétt innan við 4000 þorskígildistonn komið að landi. Landanir í sumar hafa verið 7.313 og 554 bátar á sjó. Mest hefur veiðst af þorski (3.397 tonn) en 576 tonn veiddust af ufsa og enn minna af öðrum tegundum.

Eitt af því sem vakti athygli við þessa tilraun sem staðið hefur í sumar, er hversu misjöfn aflabrögðin reyndust milli svæða. Þannig var búið að veiða allt leyfilegt aflamagn á svæði A (norðvestursvæðinu) þegar í byrjun ágúst, á meðan innan við helmingur veiðiheimilda var enn óveiddur á öðrum svæðum. Á norðvestursvæðinu voru langflestir bátar í róðrum, eða 195 samanborið við t.d. 94 báta á svæði B sem nær frá Skagabyggð í Grýtubakkahrepp. Þetta vekur spurningar um sókn á svæðunum í samhengi við aflamarkið og þarf að skoða vel.

Það er þó samdóma álit allra sem til þekkja að strandveiðarnar hafi orðið sjávarplássunum lyftistöng, enda færðist mikið líf í hafnir landsins í sumar. Þess sáust skýr merki þegar á fyrstu dögum eftir að veiðarnar hófust. Bryggjur þar sem vart hafði sést maður - hvað þá fiskur - árum saman iðuðu nú skyndilega af lífi. Aftur heyrðist vélahljóð báta í fjörðum kvölds og morgna, fólk að fylgjast með löndunum og spriklandi fiskur í körum.

Háskólasetur Vestfjarða hefur tekið að sér að skila skýrslu um reynsluna af þessum veiðum og verður fróðlegt að sjá hvað hún mun leiða í ljós.

En svo mikið er víst, að strandveiðarnar færðu líf í hafnir landsins - þær glæddu atvinnu og höfðu í alla staði jákvæð áhrif á mannlíf í sjávarbyggðum. Loksins, eftir langa mæðu, fengu íbúar við sjávarsíðuna að upplifa eitthvað sem líkja má við eðlilegt ástand - einhverskonar frelsi eða opnun á því niðurnjörvaða kvótakerfi þar sem mönnum hefur verið meinaður aðgangur að fiskimiðunum við strendur landsins nema þeir gerðust leiguliðar hjá útgerðum eða keyptu sér kvóta dýru verði.

Tilraunin með strandveiðarnar hefur nú þegar sannað gildi sitt, og því hlýtur endurvakning strandveiða við Ísland að vera ráðstöfun til framtíðar.


Hver er þá staða Icesave málsins?

Hver er þá staðan í Icesave málinu eftir að Alþingi samþykkti ríkisábyrgðina með fyrirvörum? Staðan er sú að samningur sá sem undirritaður var í vor, er óbreyttur, og verður það nema Bretar og Hollendingar sætti sig ekki við fyrirvarana sem settir hafa verið.

Það sem hefur gerst í meðförum þingsins er hins vegar þetta:

Alþingi hefur samþykkt ríkisábyrgðina á Icesave samningnum með skilyrðum. Þingið hefur með öðrum orðum kveðið upp úr um það hvaða skilning beri að leggja í ríkisábyrgðina á grundvelli samningsins. Skilningur og þar með skilmálar þingsins eru m.a. þessir:

  • Að greiðslur vegna samningsins fari ekki fram úr greiðsluþoli þjóðarinnar og haldist í hendur við landsframleiðslu. Þannig verði tekið tillit til erfiðra og fordæmalausra aðstæðna eftir bankahrunið á Íslandi
  • Að ekki verið gengið að náttúruauðlindum Íslendinga.
  • Að Íslendingar geti látið reyna á málstað sinn fyrir dómtólum.
  • Að ríkisábyrgðin falli niður 2024.
  • Að Alþingi geti ákveðið hvenær sem er að fram fari endurskoðun á lánasamningunum við Breta og Hollendinga. Alþingi hefur eftirlit með framkvæmdinni og fjármálaráðherra ber að veita þinginu árlegt yfirlit um hana.

Þetta eru veigamiklir fyrirvarar sem settir eru af þingsins hálfu fyrir ríkisábyrgðinni. Þeir eru til mikilla bóta þar sem þeir eru í reynd lagalegt, efnahagslegt og pólitískt öryggisnet fyrir okkur. Auk þeirrar verndar sem fyrirvararnir veita, telur lánshæfismatsfyrirtækið Moody’s að þeir muni styðja við sjálfbærni ríkisfjármála hér á landi og jafnvel hafa jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Þá er ekki talið ólíklegt að  fleiri ríki muni fylgja fordæmi Íslendinga og setja þak á skuldagreiðslur, eins og  bent hefur verið á.

Minn skilningur er sá að fyrirvararnir við ríkisábyrgðinni breyti ekki samningnum sjálfum og feli því heldur ekki í sér gagntilboð til Breta og Hollendinga. Um þetta geta menn þó deilt, og úr því fæst ekki skorið fyrr en í ljós kemur hvort Bretar og Hollendingar sætta sig við fyrirvarana.

Það hlýtur að ráðast á allra næstu dögum.

Annað sem hefur gerst í meðförum þingsins á þessu máli er ekki minna um vert. Það er aukið sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Það sjálfstæði birtist ekki hvað síst í efnistökum þessa veigamikla máls í nefndum þingsins. Sú breiða samstaða sem náðist um fyrirvarana í fjárlaganefnd er m.a. til vitnis um þetta. Má segja að þar hafi sannast máltækið "fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott" - því þrátt fyrir allt hefur þetta erfiða og fordæmalausa mál leitt til betri vinnubragða á Alþingi Íslendinga.  

En nú spyrjum við að leikslokum.

 

 


Egill yrkir ljóð

Ljóð dagsins á Egill Helgason - það birtist á bloggsíðu hans í dag og er svohljóðandi:

Hvítur flötur 

Að sitja hjá í Icesave málinu er eins og að vera beðinn um að mála mynd og skila auðum striga.

Daginn eftir er svo hafist handa við að túlka myndina út og suður.

Sem er ekkert nema hvítur flötur.

-----------------------

Ég hefði ekki getað orðað þetta betur - og erum við Egill þó tæpast sammála í Icesave málinu.


Magma Energy, erlent fjármagn, eignarhald ríkisins, almannahagsmunir

Bjarnarflag Ég hef ekkert á móti erlendu fjármagni eða skynsamlegri einkavæðingu. En þegar erlend fyrirtæki gera sig líkleg til þess að sölsa undir sig nýtingarrétt íslenskra auðlinda á kjörum sem varla geta talist annað en afarkostir - þá vil ég spyrna við fótum.

Þegar erlent stórfyrirtæki býðst til að kaupa hlut í HS-Orku  gegn því að Orkuveitan veiti 70% kúlulán (þ.e. afborganalaust lán sem greiðist í lok lánstíma) til sjö ára, á 1,5% vöxtum með veði í bréfunum sjálfum - þá fæ ég ekki séð að erlent fjármagn sé að streyma inn í landið.

Þegar erlent stórfyrirtæki sem hefur fengið 10 ára samning við erlend orkufyrirtæki (sjá hér) með framlengingar ákvæði til annarra 10 ára (samtals 20 ár), vill gera 65 ára samning  við okkur með framlengingarákvæði um önnur 65 ár - alls 130 ár - þá líst mér ekki á blikuna.

 Þegar svona er staðið að tilboðsgerð í nýtingarrétt íslenskra auðlinda, þá finn ég brunalykt og fer að hugsa um útsölur, eins og ég hef bloggað um áður.

 Vissulega verðum við að laða erlenda fjárfesta til landsins - en það er ekki hægt að falbjóða náttúruauðlindir landsins fyrir lítið sem ekkert, jafnvel þó hart sé í ári.

Samkeppni og einkavæðing geta verið góðra gjalda verðar - en þá verða líka að vera eðlileg samkeppnisskilyrði til staðar. Slík skilyrði eru ekki til staðar á Íslandi eins og sakir standa.

Þó ekki væri nema vegna þessa, finnst mér réttlætanlegt að ríkið grípi inn í fyrirhugaða sölu á hlut HS-Orku til Magma Energy, og reyni að ganga inn í tilboðið. Satt að segja held ég það sé ráðlegt eins og sakir standa. En þá sé ég fyrir mér tímabundna ráðstöfun, en ekki varanlegt eignarhald - því ég held að ríkið ætti þá að leitast við að selja hlutinn á ný, á betri kostum en þarna bjóðast.

Ef þessi samningur fer óbreyttur í gegn, er gefið fordæmi fyrir fleiri viðlíka samninga, án þess að nokkur trygging sé fyrir því að arðurinn af auðlindum okkar muni renna inn í þjóðarbúið. Ég held það sé hættulegt íslenskum almannahagsmunum.

Auðlindirnar eru helsta von okkar Íslendinga núna - við megum ekki glutra þeim úr höndum okkar í eftirhruns-örvæntingu. Þetta mál er þörf áminning um þá hættu sem við gætum staðið frammi fyrir ef erlend auðfyrirtæki taka að ásælast auðlindir okkar fyrir lítið verð.

 

 


Afkomutenging lána fremur en almennar afskriftir

Þórólfur Matthíasson Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor setur fram athyglisverða hugmynd í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í dag. Þar leggur hann til að afborganir húsnæðislána verði tengdar afkomu lántakans.

Þórólfur telur að þessi leið sé í reynd hagstæðari en lánalengingar enda sé ógerningur að fjármagna skuldaniðurfellingar sem einhverju máli skipta.

Mér líst vel á þessa hugmynd og hef stundum rætt þennan möguleika við óformleg tækifæri. A.m.k. tel ég það fyrirhafnarinnar virði að skoða þetta í fullri alvöru.

Bæði lántaki og lánveitandi geta haf ávinning af þessu fyrirkomulagi. Lánþeginn verður fyrir minni skerðingu ráðstöfunartekna ef tekjur hans lækka - lánveitandinn græðir á minni afföllum vegna greiðsluþrots lántakans. Verulega gæti dregið úr greiðslubyrði mjög skuldsettra heimila sem aftur gæti leyst bráðan vanda margra þeirra. Þannig myndi áhætta lántakans minnka án þess að áhætta lánveitanda sé aukin að nokkur marki, eins og Þórólfur bendir á.

Fyrir afkomutengingu lána eru ýmis fordæmi erlendis frá, en líka hérlendis. Til dæmis eru afborganir námslána bundnar við tekjur. Annað fordæmi höfum við í ríkisábyrgð Icesave samninganna sem á að binda við tekjuþróun.

Ég hef auk þess lengi haft þá skoðun að það skorti gagnkvæmni í íslenska lánasamninga. Þá á ég við það að áhættan er - og hefur alltaf verið - öll skuldarans megin. Lánasamningar eru þó ekkert frábrugðnir öðrum viðskiptum, og því ekki nema eðlilegt að lánveitendur taki á sig einhverja áhættu og/eða skuldbindingar til þess að virða breyttar forsendur. 

Sigurður G. Guðjónsson hrl, kom inn á þetta í spjalli við þá Guðmund Ólafsson hagfræðing og Sigurjón M Egilsson á Sprengisandi Bylgjunnar í morgun, sem fróðlegt var að hlusta á (hér).  


Orkuverðmæti á brunaútsölu

Það er fróðlegt að bera saman kauptilboð Magma Energy á þriðjungshlut í HS Orku við eldri samninga fyrirtækisins við önnur orkufyrirtæki. Magma hefur gert tvo samninga í Oregon og Nevada í Bandaríkjunum sem eru aðeins til tíu ára (í stað 65 ára skv. tilboðinu í HS Orku) ) með möguleika á tíu ára framlengingu (í stað 65 ára framlengingar hjá HS Orku). Fyrstu tíu árin þarf að greiða auðlindagjald sem nemur 1,75 prósenti af heildartekjum af raforkusölu og eftir tíu ár 3,5 prósentum (sjá hér). 

Fréttablaðið greinir frá því í dag að Magma ætli að fjármagna 70% kaupverðsins með kúluláni frá Orkuveitunni til sjö ára með 1,5 % vöxtum og veði í bréfunum sjálfum. Angry 

Mér finnst þetta ekki koma til greina. Ef rökin fyrir því að semja við Magma Energy eru þau að okkur vanti erlent fjármagn - þá er degin ljósara að þau rök halda ekki í þessu tilviki. Hér er ekkert erlent fjármagn sem neinu nemur. Hér er einfaldlega stórfyrirtæki að reyna að ná undir sig verðmætum nýtingarrétti auðlindar á brunaútsölu - og nýtir sér í því skyni erfiða stöðu sveitarfélags og þjóðar í kreppu.

Hætt er við að fleira af þessu tagi geti átt sér stað í þeim efnahagsaðstæðum sem við búum við núna. Við Íslendingar verðum að halda fast og vel utan um auðlindir okkar og láta ekki glepjast í tímabundnum fjárþrengingum til þess að selja ómetanleg verðmæti frá okkur, síst með afarkostum.

Ég vona að fjármálaráðherra takist með einhverjum ráðum að stöðva það sem þarna er að eiga sér stað.


Þreyttir þingmenn takast á um Icesave

Það var kominn hálfgerður svefngalsi í þingheim seint í gærkvöldi þegar Icesave umræðan hafði staðið allan liðlangan daginn. Trúlega mun umræðan halda áfram framyfir helgi, enda augljóst að fólki liggur margt á hjarta.

Í gærkvöld hitnaði vel í kolum um tíma. Ég átti m.a. í snarpri orðræðu við nokkra þingmenn stjórnarandstöðuna eftir mína ræðu seint í gærkvöld. Í máli mínu minnti ég á meinsemdir þær sem herjað hafa  og munu áfram herja á íslenskt samfélag, nema menn læri af reynslunni og hafni þeirri skefjalausu frjálshyggju sem riðið  hefur yfir þjóðina eins og holskefla. Þetta sveið sjálfstæðismönnum og aðrir stjórnarandstæðingar blönduðu sér líka í umræðuna.

Umræðurnar getur fólk séð á þessari slóð hér.

 


Afneitun og ósvífni

Því miður virðist ljóst að þeir sem stjórnuðu íslensku fjármálakerfi fyrir hrun -- hverjir enn eru sumir við stjórnvölinn og/eða virkir í opinberri umræðu -- hafa lítið lært.

Hugmyndir stjórnenda Straums-Burðaráss um bónusgreiðslur í samræmi við endurheimtur á eignum bankans á næstu fimm árum, er eitt talandi dæmi. Þar er um að ræða greiðslur frá 2,7 milljörðum og upp í tæpa 10 milljarða, eða 222 milljónir á hvern starfsmann bankans, sem "áætlun" hefur verið gerð um. Ummæli forstjórans þess efnis að "um væri að ræða áætlun um árangurstengd laun" sem "utanaðkomandi lögfræðingar" hefðu sagt "í fullu samræmi við það sem gengur og gerist" bæta ekki úr skák.

Sú tíð þegar stjórnendur fjármálafyrirtækja fengu föst laun fyrir það eitt að draga andann, og svo bónusgreiðslur fyrir að vinna vinnuna sína - sú tíð á að heyra sögunni til. Að einhverjum skuli raunverulega koma til hugar að fara fram á "árangurstengd laun" við það að "hámarka verðmæti" þrotabús eftir fjármálahrun,  það er blaut tuska í andlit allra þeirra sem nú hafa tekið á sig lífskjaraskerðingu og búsifjar fyrir tilverknað þessarar hugmyndafræði. Leiðari Moggans tekur ágætlega á þessu máli í dag.

Annað dæmi er forherðing Kjartans Gunnarssonar, fv. stjórnarformanns gamla Landsbankans - sem ótvírætt hlýtur að teljast gerandi í bankahruninu en lætur það þó ekki hindra sig í að veitast að fjármálaráðherra og ríkisstjórninni í þeim björgunaraðgerðum sem nú standa yfir. Jón Baldvin Hannibalsson tók Kjartan í nefið í snarpri Morgunblaðsgrein í gær, sem ég hvet alla til þess að lesa (m.a. hér).

Hversu langt getur sjálfsafneitun og forherðing eiginlega náð?

Að fyrrverandi stjórnarformaður gamla Landsbankans -- og fv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins sem innleiddi hér hugmyndafræði hinnar skefjalausu einkavinavæðingar sem olli ógæfu okkar -- skuli veitast að þeim sem nú standa í björgunaraðgerðum á vettvangi -- það er eiginlega meiri ósvífni en maður hefði að óreyndu gert sér í hugarlund.

Gleymum ekki á hvaða vettvangi við erum, íslensk þjóð. Við erum stödd í þrotabúi  Sjálfstæðisflokksins og frjálshyggjuhugmyndafræði hans. Átökin í íslenskum stjórnmálum næstu misserin munu m.a. snúast um það hvernig gert verður upp við fortíðina, og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í núverandi stöðu.


Lífsgæðin á landsbyggðinni

DyrafjordurAgustAtlason Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði um 166 frá 1. júlí í fyrra til 1. júlí á þessu ári á meðan landsmönnum fækkaði um 109. Þetta las ég á fréttasíðunni skutull.is  haft eftir Hagstofunni

Langt er síðan Vestfirðingum hefur fjölgað annað eins á milli ára.  Þeir eru nú 7.445 talsins og hefur þeim þar með fjölgað um 2,3% milli ára, sé rétt reiknað. Wink  

Ein afleiðing kreppunnar á Íslandi virðist ætla að verða sú að hagur landsbyggðarinnar vænkist. Fólk sér nú fyrir sér fleiri ákjósanlega búsetukosti en borgina. Víða úti á landi er húsnæði ódýrara en á höfuðborgarsvæðinu, vegalengdir styttri, öll þjónusta nær manni og um leið lipurri. Þar  er atvinnuleysi víðast hvar lítið. Fólk kemst í nánari snertingu við náttúruna, stutt er í gönguleiðir, skíðalönd og á aðrar útivistarslóðir. skidi-ReykjavikIs

Í litlu samfélagi verður einstaklingurinn stærri en hann annars væri -  það getur verið ótvíræður kostur, þó stundum sé það líka galli.  En í litlum byggðarlögum skipa allir máli.

Raunar sýna hagstofutölurnar að þrátt fyrir fækkun á landsvísu, þá fjölgar íbúum í flestum landshlutum nema á Austurlandi og Vesturlandi.  Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði bæði í Hafnarfirði og Kópavogi en fólki fækkaði hinsvegar í Reykjavík.  Á þessari stundu er ekki gott að segja til um hvaða þýðingu þetta hefur fyrir höfuðborgina - enda liggur ekki fyrir nákvæm greining á því að hvaða þjóðfélagshópar það eru sem eru að yfirgefa borgina, og í sumum tilvikum landið. Við verðum því sjálf að geta í þær eyður. 

 En það eru þó góðar fréttir að landsbyggðin skuli vera inni í myndinni sem vænlegur og raunhæfur búsetukostur fyrir fjölda fólks - enda held ég að þeir sem ala allan sinn aldur í Reykjavík og næsta nágrenni hennar fari mikils á mis. Kostir þess að búa úti á landi verða aldrei skýrðir fyrir þeim sem ekki þekkir til af eigin raun, því þar erum við að tala um lífsgæði sem ekki mælast í hagtölum.

kyr2

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband