Færsluflokkur: Bloggar
Hraðafíkn er staðreynd!
26.6.2007 | 19:46
Heimkomin af hundanámskeiðinu í Vaglaskógi - með nefið þrútið af ofnæmi, sólbrennd og sælleg - er ég sest við tölvuna og farin að kíkja á bloggið.
Sé ég þá á bloggsíðum Ragnheiðar Davíðsdóttur og Helgu Sigrúnar Harðardóttur nokkuð sem vekur athygli mína. Þær stöllur hafa orðið fyrir aðkasti og hálfgerðum hótunum af hálfu bifhjóla- og akstursíþróttamanna vegna skrifa sinna gegn ofsaakstri. Er helst að skilja að þær hafi talað um ofsaakstur á vegum úti sem hraðafíkn - og viðbrögðin ekki látið á sér standa.
Í bloggfærslu sem Ragnheiður nefnir "Nóg komið" segir hún:
"Nafnlaust níð á hinum ýmsu bloggsíðum, nafnlausar símhringingar með fúkyrðum og undarlegur, hægfara akstur ókunnra, vélknúinna ökutækja utan við heimili mitt, segja mér að nú sé nóg komið. Til verndar fjölskyldu minni, einkalífi og mínum góðu vinnuveitendum, mun ég ekki skrifa fleiri færslur um ofsaakstur og meint tilræði við saklausa vegfarendur hér á síðunni."
Það er illa komið fyrir umræðunni þegar fólk treystir sér ekki til þess að viðra skoðanir sínar vegna aðkasts, nafnlausra svívirðinga og jafnvel hótana þeirra sem telja að sér vegið.
Hraðafíkn er gott orð og lýsandi fyrir ítrekaðan ofsaakstur. Hraðafíkn er nefnilega staðreynd. Eða hvað annað ætti maður að segja um þá sem geta ekki sætt sig við gildandi umferðarlög og brjóta ítrekað af sér jafnvel þó það stefni lífi þeirra sjálfra og annarra í stórhættu?
Lítum á skilgreiningu fíknar: Hún tekur völdin af þeim sem við hana stríðir. Hún hefur áhrif á lífsháttu manns og kemur í veg fyrir að viðkomandi geti haldið sig við viðurkenndar skorður, jafnvel ekki heldur þær sem hann setur sér sjálfur. Fíkn ógnar lífi. Sé það sem svalar fíkninni tekið í burtu án samþykkis fíkilsins bregst hann við með árásargirni og getur teygt sig ansi langt í því að réttlæta hegðun sína.
Lítum svo á fyrirbærið ofsaakstur: Þrátt fyrir sektir og dóma eru sömu ökumenn að brjóta af sér aftur og aftur - eins og þeir ráði ekki sjálfir við hegðun sína þrátt fyrir hugsanlega góðan ásetning. Athæfið ógnar lífi. Það stríðir gegn almennri skynsemi og fer út fyrir ásættanlegar skorður.
Og hvað á maður svo að halda um lítt dulbúnar hótanir og nafnlausar árásir á þá sem vilja stemma stigu við hraðakstri? Hvað sýna slík viðbrögð annað en árásargirni og sjálfsréttlætingu þess sem vill fá "kikkið" sitt?
"Hraðafíkn" er gott orð - hraðafíkn er staðreynd - hvort sem áhangendum hennar líkar orðnotkunin betur eða verr.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Komin úr söngferðinni - og fer nú beint í hundana!
19.6.2007 | 20:59
Jæja, þá er ég komin úr stórkostlegu söngferðalagi með Sunnukórnum á Ísafirði til Eystrasaltslanda. Fyrsti viðkomustaður var Finnland - sungum þar undir Síbelíusarminnismerkinu (sjá mynd), líka á Esplanaden, og svo var það hápunkturinn: Sjálf Klettakirkjan. Það var mikil upplifun ... og margt sem fór úrskeiðis, bæði fyrir tónleikana og meðan á þeim stóð.
Til dæmis tókst mér, fyrir ótrúlega slysni sem of langt mál yrði að rekja hér, að brenna hnefastórt gat á kórbúninginn minn kvöldið fyrir tónleikana í Klettakirkjunni . Ég á það hjálpsamri kórsystur að þakka, henni Hrafnhildi, að þessu varð bjargað. Hún er nefnilega völundur í höndum, og þrátt fyrir að hótelið gæti einungis útvegað okkur ónýta saumavél, sem að sjálfsögðu bilaði á meðan verið var að reyna að gera við skemmdina þarna á síðustu stundu, þá tókst henni að sauma treyjuna upp með sínum fimu fingrum. Og nú er treyjan betri ef eitthvað er. Enda sáu allir - þegar viðgerðinni var lokið - að svona styttri treyjur væru eiginlega bara klæðilegri á okkur konunum. Þannig að óhappið hefur sennilega skapað nýjan "trend" fyrir kórbúninga Sunnukórsins í framtíðinni
Jæja, en tónleikarnir tókust vel. Þeir voru vel sóttir og viðtökur áheyrenda frábærar í lokin, mörg uppklöpp og endaði með því að salurinn reis á fætur fyrir okkur. Jamm - ekkert minna.
Sanngirninnar vegna skal þess getið að við höfðum fyrirtaks klapplið með í för þar sem makar okkar voru annarsvegar. Þeir tóku að sér hlutverk kynningarfulltrúa og aðdáenda með öllu sem því tilheyrir - klöppuðu mest og hæst og sköpuðu stemningu hvar sem við komum. Nú skil ég betur en nokkru sinni gildi þess fyrir fótboltaliðin að hafa góða aðdáendaklúbba
En kórinn sjálfur átti auðvitað sinn hlut í þessu - og þá ekki síst stjórnandinn okkar hún Ingunn Ósk Sturludóttir. Hún er sjálf mezzo-sopran söngkona með djúpa og þróttmikla rödd - og það gerði auðvitað útslagið þegar hún tók lagið með okkur. Sérstaklega var áhrifamikið þegar hún söng Ave Maríu eftir Sigvalda Kaldalóns. Það eru engar ýkjur að fólk tárfelldi undir söng hennar, og eftir það áttum við hvert bein í áheyrendum. Þá spillti ekki fyrir að undirleikari kórsins, Sigríður Ragnarsdóttir, er snillingur á hljóðfærið. Sömuleiðis BG sjálfur, hann Baldur Geirmundsson með harmonikkuna og Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir sem sló rengtrommuna af mikilli list þegar við tókum "Húsið" (lagið góða "Húsið er að gráta" sem Helgi Björns gerði frægt en Vilberg Viggósson hefur nú útsett sérstaklega fyrir Sunnukórinn).,
Jæja, svo var haldið til Eistlands. Þar sungum við á ráðhústorginu í Tallin og héldum svo opinbera tónleika síðar um daginn í sænsku kirkjunni. Hljómburðurinn í kirkjunni var ótrúlega fagur, og satt að segja held ég að þar hafi styrkur kórsins og samstilling notið sín best. Oft hef ég heyrt fagra Ave Maríu sungna eftir Sigvalda - en hvergi eins og þar.
Frá Tallin var haldið til Lettlands og sungið í menningarmiðstöðinni í Riga ásamt heimakór, sem að fáum vikum liðnum mun þreyta kapps í alþjóðlegri kórakeppni. Í Riga hittum við líka samkór Kópavogs sem voru á söngfeðralagi. Kórarnir slógu sig saman eitt kvöldið, borðuðu saman og tóku svo lagið, m.a. framan við hótelið þar sem báðir hóparnir gistu (sjá mynd). Kraftmikill söngur kóranna tveggja vakti óskipta athygli gesta og gangandi.
Síðustu tveimur dögunum eyddum við svo í Vilníus í Litháen. Þar gerðum við okkur glaðan dag á 17. júní með því að syngja þjóðsönginn okkar á tröppum ráðhússins. Að því loknu var haldið fylktu liði niður að Óperutorginu og sungið á leiðinni. Vakti þetta mikla athygli í Vilníus og var okkur tjáð að um fátt hefði verið meira rætt þann sunnudaginn en þessa skemmtilegu Íslendinga.
Í gær ókum við svo aftur frá Vilníus til Riga og tókum þaðan ferju yfir til Stokkhólms - gistum um borð og áttum skemmtilegt lokahóf í gærkvöldi. Mikið sungið og trallað.
Ferðina kórónaði Bryndís Schram, sem var fararstjórinn okkar þessa daga. Hún er hafsjór af fróðleik um Eystrasaltslöndin, enda fylgdist hún með sjálfstæðisbaráttu þeirra í óvenjulegu návígi sem utanríkisráðherrafrú á sínum tíma (þegar Jón Baldvin tók sig til fyrir hönd Íslendinga og viðurkenndi sjálfstæði þeirra á undan öðrum). Er síst ofmælt að Bryndís átti sinn þátt í því að gera þessa ferð ógleymanlega.
Jæja, en nú er næst á dagskrá að halda norður í Vaglaskóg með fjölskylduna og hundinn, á nokkurra daga björgunarhundanámskeið og tjaldútilegu.
Blessað barnið hann Hjörvar minn, og tíkin hún Blíða, hafa verið í sveitinni hjá systur minni meðan við hjónin vorum á fyrrnefndu söngferðalagi. Er ekki að orðlengja að þau hafa hvort með sínum hætti notið frelsisins í sveitinni. Hann með frænda sínum og jafnaldra honum Vésteini. Tíkin með heimilishundinum á bænum, honum Sámi. Hefur þar verið óheftur aðgangur að sauðfé, hrossum og öðrum hundum - og nú er spurningin hvernig mér gengur að tjónka við hundspottið þegar við komum norður á björgunarhundanámskeiðið.
Frá því verður kannski sagt síðar - næsta blogg kemur sennilega ekki fyrr en eftir helgina. Hafið það gott á meðan.
Bloggar | Breytt 20.6.2007 kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Er farin í tónleikaferð með Sunnukórnum ...
7.6.2007 | 22:43
... og ætla ekki að blogga á meðan - nema ég detti um tölvu í ferðinni og geti hreinlega ekki ráðið við mig að kíkja á mbl.is
Jebb, nú er það tveggja vikna ferð með Sunnukórnum til Finnlands, Eistlands og Svíþjóðar. Það verður sungið í Hellakirkjunni í Helsinki, á opnum tónleikum á Esplanaden, siglt með lystisnekkju, verslað, skoðað og "spókað sig" -- bara allur pakkinn, og bóndinn fær að fljóta með. Hús, barn og hundur komin í viðeigandi gæslu á meðan já, það er gott að eiga góða að.
Við förum eldsnemma í fyrramálið og ætlum ekki að hugsa um pólitík, byggðavanda eða kvótakerfi á meðan. Nebb!
Vona að sólin sleiki landsmenn á meðan - og okkur að sjálfsögðu líka þarna við söngvaseiða þúsundvatnalandsins
Bestu kveðjur á meðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Barsmíðar og söguburður - er það hlutverk lögreglu?
7.6.2007 | 21:04
Það var undarlegt að sjá í sjónvarpinu ofbeldisfullar aðgerðir lögreglunnar á Egilsstöðum gagnvart fíkniefnaneytanda sem hugðist taka mynd á farsímann sinn af lögreglumanni að störfum. Ég tek undir með Sigurði Þór Guðjónssyni sem bloggar um þetta atvik á síðu sinni í dag. Bræði lögreglumannsins og handbrögðin við að taka manninn voru ekki traustvekjandi - enda fingurbrotnaði maðurinn í átökunum.
Þá voru ummæli yfirlögregluþjónsins á Egilsstöðum ekki beint fagleg - þar sem hann bar út sögur um viðkomandi einstakling og það hvaða augum hann væri litinn á Egilsstöðum. Hvað varðar sjónvarpsáhorfendur um það hvaða augum yfirlögregluþjónninn lítur þennan mann, eða hvað hann hefur heyrt um hann? Söguburður er ekki í verkahring lögreglu. Þannig er það nú bara.
Þetta var ekki traustvekjandi - hreint ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eigum við að fara í kröfugöngu?
6.6.2007 | 23:18
Síðustu daga hafa verið líflegar umræður hér á síðunni hjá mér um sjávarútvegsmál og ágalla fiskveiðistjórnunarkerfisins, eins og lesendur geta séð í færslunum hér á undan. Ágallar þessa kerfis verða sífellt augljósari, og atburðirnir á Flateyri einna gleggsta dæmið um það hvernig farið getur á versta veg í þessu kerfi. Skýrsla Hafró er sömuleiðis til vitnis um að kerfið hefur ekki aðeins brugðist byggðunum, heldur líka þorskinum - og þá fer nú að verða áleitin spurning til hvers sé verið að halda þessu til streitu.
Í þeim líflegu umræðum sem hér hafa orðið hefur fæðst sú hugmynd að efna til samstöðu- og kröfugöngu til stuðnings þeim sem hafa orðið fyrir barðinu á þessu kerfi -- göngu þar sem krafist er úrbóta á kvótakerfinu þannig að byggðum landsins og fiskinum í sjónum stafi ekki beinlínis hætta af því.
Í Kárahnjúkamálinu kom samtakamáttur almennings í ljós - það var hinsvegar of seint.
Það er ekki of seint að bjarga byggðum landsins: Láta stjórnmálamenn finna að þjóðin stendur með sjávarbyggðunum og fiskverkafólkinu; að fólki er orðið ljóst að við svo búið má ekki standa lengur. Það þarf að grípa til vitrænna ráðstafana - og það strax!
Því skyldum við þá ekki krefjast úrbóta á kvótakerfinu - og sýna hug okkar í verki með því að ganga saman niður aðalgötur helstu þéttbýlisstaða, og þó víðar væri.
Hvað segið þið lesendur góðir - eruð þið til?
Nýtt kvótaár hefst þann 1. september - væri það ekki góður dagur til þess að fá sér göngutúr? Spáið í það
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Þjóðarsátt um fiskveiðistjórnun?
5.6.2007 | 00:26
Er hugsanlegt að ná þjóðarsátt um fiskveiðistjórnunarkerfið? Getur verið að menn séu loks tilbúnir að leiðrétta gallana á þessu kerfi? Þora þeir?
Sjávarútvegsráðherra hefur í hátíðarræðu á sjómannadegi talað um nauðsyn þess að ná þverpólitískri samstöðu - nokkurskonar sátt - um breytingar á kvótakerfinu. Það er athyglisverð nálgun, og vonandi góðs viti. Nú reynir hinsvegar á það hvort hlutaðeigandi aðilar - stjórnmálamenn og hagsmunaaðilar - eru raunverulega tilbúnir til þess að vega og meta afleiðingar kvótakerfisins af sanngirni og bæta vankantana af heilindum og réttsýni. En það er einmitt það sem sjávarbyggðir landsins þurfa á að handa núna: Sanngirni og heilindi þeirra sem hafa fjöregg byggðanna í höndum sér.
Ef sátt á að nást um breytingar á kerfinu - sem mér virðist sjávarútvegsráðherra vera að tala fyrir - verður að vera um raunverulegt samráð að ræða. Það dugir ekki að ganga á fund LÍÚ til að sækja leyfi fyrir því sem gera skal, kalla svo stjórnarandstöðuna til fundar og kynna henni niðurstöðuna og kalla það svo samráð. Það dugir heldur ekki að skella skollaeyrum við tillögum stjórnarandstöðunnar en halda því svo fram eftir á að við þá hafi verið haft samráð. Ef menn ætla í einhverja skollaleiki af því tagi þá verða þeir afhjúpaðir snarlega.
Ég hef grun um að það verði fylgst vel með Einari K Guðfinnssyni og hans framgöngu í þessu máli á næstunni - a.m.k. vona ég að fjölmiðlar og almenningur muni anda niður um hálsmálið á ríkisstjórninni þar til skynsamlegar tillögur liggja fyrir.
Sömuleiðis held ég að það verði fylgst vel með viðbrögðum stjórnarandstöðunnar - því nú reynir á það hvort menn vilja raunverulega leggja gott til mála - eða hvort þeir missa sig í lýðskrum og áróður.
Oft var þörf á ábyrgð og yfirvegun, en nú er nauðsyn. Þetta verður stóra prófið fyrir ríkisstjórnina ... og stjórnarandstöðuflokkana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Eru augun loks að opnast?
3.6.2007 | 22:00
Ég tek heilshugar undir með Einari K. Guðfinnssyni, sjávarútvegsráðherra, að það er tímabært að kalla eftir þverpólitísku samráði um aðgerðir í sjávarútvegsmálum í ljósi svörtu skýrslunnar frá Hafró - hún er þungt áfall fyrir atvinnugreinina í heild sinni.
Raunar hefði ráðherrann mátt taka af skarið fyrr - til dæmis þegar neyðarkallið barst frá almennum borgarfundi á Ísafirði undir yfirskriftinnui "lifi Vestfirðir" nú í vor. Þá var ráðherrann fjarverandi og virtist lítt skeyta um skilaboð fundarins. Sá hinsvegar ástæðu til þess að mæta á óformlegan fund sem boðarður var með "óábyrgum hætti" fyrir á þriðja tug sjálfstæðismanna nokkru síðar - eins og það gæti með einhverjum hætti bætt fyrir eða talist jafngildi þess að hlusta á raddir hins almenna íbúa. En látum það vera liðna tíð.
Auðvitað er löngu tímabært að menn stilli saman krafta þegar vá er fyrir dyrum - hvort sem hún beinist að einum landsfjórðungi, eða heilli atvinnugrein. Pólitísk sérstaða er óviðeigandi þegar grípa þarf til alvarlegra björgunaraðgerða - og ef Einar K. Guðfinnssyni er nú farið að skiljast það, er það vel. Í hans heimabyggð hafa 200 störf horfið frá áramótum, flest í fiskvinnslu. Ef skýrsla Hafró fær staðist er ljóst að sjávarútvegurinn í heild sinni hefur orðið fyrir miklum búsifjum. Raunar er skýrslan harður áfellisdómur yfir þessu fiskveiðistjórnunarkerfi. Og sem betur fer virðist sem ýmsir séu farnir að sjá það - og þora að tala um það.
Einn þeirra er fyrrverandi ráðherra sjálfstæðismanna, Matthías Bjarnason, sem nú hefur tjáð sig með afgerandi hætti um hætturnar af þessu kerfi. Ekki aðeins felur það í sér misskiptingu í útgerðinni og varnarleysi byggðanna gagnvart gróðaviðleitni einkaframtaksins, heldur virðist nú ljóst að það ógni þorskstofninum. Sú aðferð að taka ekki við smáfiski og greiða einungis fullt verð fyrir stærsta fiskinn kallar á gegndarlaust brottkast. Það segir sig sjálft að menn hirða ekki smáfiskinn sem lendir í trollum og netum fiskiskipa ef þeir fá ekki greitt fyrir hann. Afleiðingin er sú að menn veiða mun meira en ella væri - henda því sem þeir fá ekki fullgreitt og koma aðeins með stærsta fiskinn að landi.
Afleitt fyrirkomulag - og þessu verður að breyta.
En þorir Einar K. Guðfinnsson að beita sér raunverulegri breytingu á þessu kerfi? Og munu aðrir stjórnmálaflokkar koma til aðstoðar? Því er ósvarað að sinni.
![]() |
Sjávarútvegsráðherra: Stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 4.6.2007 kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Hvað er að?
31.5.2007 | 11:59
Hvað er að þegar þrjár unglingsstúlkur taka sig saman um að misþyrma tveimur yngri? Voru þær að refsa þeim fyrir eitthvað? Hvaðan kemur þeim sú hugmynd að það sé í lagi að taka sér vald til að misþyrma öðru fólki - eða refsa yfirleitt? Kannski var þetta enn verra - algjörlega tilhæfulaust í anda einhvers tölvuleiks, hvað veit maður?
Auðvitað er hugsanlegt að þarna hafi einhverskonar innri illska (a.m.k. óhamingja) brotist út í óhæfuverki þriggja einstaklinga sem hafa manað hvern annan upp. En oftar eiga svona atburðir sér margþættari skýringar. Það er svo margt sem aflaga getur farið í lífi fólks.
Atburður sem þessi leiðir til dæmis hugann að brestum í þjóðaruppeldinu - þar sem einstaklingshyggja, valddýrkun og síðast en ekki síst skeytingarleysi um mannhelgi fólks, tilfinningar þess og reisn eru vaxandi þáttur í viðhorfum og samskiptaháttum.
Við sjáum þetta ekki aðeins í afþreyingariðnaðinum, þar sem klám, ofbeldi og kúgun eru viðfangsefnið. Flestir kannast við umræðuna um nýlegan tölvuleik sem gengur út á það að nauðga varnarlausum konum. En dæmin eru mýmörg - hér er eitt af handahófi sem ég fann á kynningarsíðu fyrir tölvuleiki:
"(Þessir) leikir ... nota sér myndrænt ofbeldi til að grípa spilarann og flækja hann inn í leikheim sinn. Oft er þetta ansi vel gert ... og í (þessum tiltekna leik) tekst þessi hluti leiksins mjög vel. Blóð, hryllingur og stefnulaust ofbeldi er í miklu magni í leiknum en hér passar það við efnið, enda er ...(aðalpersónan)... ekkert lamb að leika sér við á leið sinni til hefnda.
Spilarinn tekur að sér hlutverk Frank Castle sem er fyrrverandi hermaður. Frank hafði séð fjölskyldu sína myrta með köldu blóði og hefnt sín grimmilega á bófunum og upp úr því blóðbaði kallaði hann sig Refsarann. Sem Refsarinn er Frank eins konar refsiengill sem notar allar aðferðir sem hann telur nauðsynlegar til að negla vondu kallana, hvort sem þær eru löglegar eða ólöglegar, snyrtilegar eða ósnyrtilegar."
Í raun þurfum við ekki að skoða ofbeldisleiki til þess að sjá viðlíka upphafningu valdbeitingar og stefnulauss ofbeldis. Okkur nægir að horfa á fréttir af þjóðarmorðum, pyntingum, mannsali og mannréttindabrotum sem viðgangast víða um heim í samskiptum þjóða, samfélagshópa og einstaklinga.
Hvarvetna í menningu okkar blasir skeytingarleysið við - skeytingarleysi um velferð náungans, um rétta breytni. Þetta er auðvitað ekkert nýtt. Atburðir þeir sem áttu sér stað á Breiðavíkurheimilinu fyrir nokkrum áratugum sýna að börn hafa í gegnum tíðina misþyrmt öðrum börnum. Slíkt gerist einmitt í aðstæðum þar sem börn njóta ekki umhyggju eða handleiðslu fullorðinna - þegar afþreyingarleikir og slæmt fordæmi fullorðinna verða fyrirmyndin að hegðun og framkomu.
Það eru engin ný sannindi að bágur efnahagur, vinnuálag og tímaskortur foreldra eiga sína sök á því hvernig börnum og ungmennum farnast hvert við annað. Aukin misskipting lífsgæða í okkar litla samfélagi er viðvörunarmerki sem við ættum að taka alvarlega. Slíkir áhrifaþættir eru auðvitað engin afsökun fyrir þá sem fremja óhæfuverk - auðvitað ber hver einstaklingur ábyrgð á sjálfum sér og eigin gjörðum. En það segir sig sjálft að þeir sem njóta umhyggju og handleiðslu standa betur að vígi.
Ég vona bara að þessum stúlkum verði hjálpað til þess að sjá villu síns vegar og bæta ráð sitt.
![]() |
Tveimur 12 ára stúlkum misþyrmt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þetta verður frábært
30.5.2007 | 21:20
Það verður frábært að rölta á kaffihús um helgina, fá sér eina kollu og draga andann - en ekki reykinn frá næsta borði. Við sem ekki reykjum (lengur) ættum að fjölmenna á veitingahús landsins þann 1. júní og sýna þannig hug okkar í verki!
Ég er staðráðin í að notfæra mér þessi nýju forréttindi hvenær sem tækifæri gefst til. Og ég ætla rétt að vona að veitingamenn fari ekki að grafa undan þessum nýfengnu réttindum meginþorra fólks (sem er reyklaus samkvæmt könnunum) með því að framfylgja ekki banninu. Kormákur - ég ætla að eiga það við þig að standa nú uppréttur!
Hitt er svo annað mál, að kannski væri bara hreinlegra að banna einfaldlega sölu tóbaks. Þetta er auðvitað svolítið skrítið að fólk skuli hvergi mega vera með löglegan neysluvarning - því sígarettur eru jú þrátt fyrir allt lögleg neysluvara.
En það er önnur saga. Ég er fegin því að geta loksins kíkt við á ölstofu og setið þar um stund að spjalli við fólk án þess að súrna í augum og fyrir brjósti af sígarettureyk.
![]() |
Reykingabann á skemmtistöðum gæti skilið milli feigs og ófeigs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Á ferð og flugi - það er komið sumar!
30.5.2007 | 13:11
Það er margt spennandi framundan næstu daga.
Um helgina er förinni heitið austur að Leirubakka í Landssveit á ráðstefnuna "Hálendi hugans" sem þjóðfræðingar og sagnfræðingar standa fyrir í Heklusetrinu. Þar verður fjallað um hálendi Íslands frá ýmsum sjónarhornum. Sjálf verð ég með erindi sem nefnist "Óttinn við hið óþekkta - hálendið í íslenskum þjóðsögum". Ég ætla að fjalla um hlutverk hálendisins í íslenskum þjósögum; ótta og átök sem menn upplifðu utan marka mannfélagsins, í hólum, hömrum og á heiðum uppi í viðureign við vættir landsins. Ég greini frá sögum um samskipti mennskra manna við álfkonur, tröllskessur og drauga. Spennandi
Áður en að þessu kemur verð ég þó á fundi í Háskóla Íslands - stofnfundi nýs Rannsókna og fræðaseturs HÍ á Vestfjörðum. Það er mikilsverður áfangi fyrir okkur Vestfirðinga að fá nýtt fræðasetur, og mun vafalaust hafa þýðingu fyrir þekkingarsamfélagið hér vestra.
Annars verð ég á ferð og flugi mestallan júnímánuð. Um miðjan mánuðinn er fyrirhuguð tónleikaferð með Sunnukórnum til Eistlands, Finnlands og Svíþjóðar.
Undir lok mánaðarins mun ég svo mæta með stóran hluta fjölskyldunnar (eiginmann, tvo syni, tengdadóttur, ömmustrák og tvo hunda) norður í Vaglaskóg þar sem við verðum ásamt fleiri félögum í Björgunarhundasveit Íslands í tjaldbúðum við leitarþjálfun o.fl. Það er svo sannarlega tilhlökkunarefni að fá litla ömmustrákinn með, hann Daða Hrafn. Hann er svo voðalega langt frá mér svona dags daglega.
Sumsé - mikið um að vera og viðbúið að lítið verði bloggað á næstunni. Læt þessu lokið í bili með mynd af fallegum ömmudreng í heimaprjónaða vestinu sem amma sendi honum um jólin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)