Færsluflokkur: Bloggar
Brunninn kórbúningur
2.7.2007 | 22:51
Ég er í svolítið vondu máli. Ég þarf nefnilega að útskýra fyrir upphaflegum eiganda kórbúningsins sem ég hef haft að láni undanfarin ár, hvernig mér tókst að brenna tvö hnefastór göt á treyjuna, eitt á framhlið og annað á bakhlið. Sé henni haldið uppi má horfa í gegnum götin bæði, eins og hleypt hafi verið af haglabyssu í gegnum búninginn.
Þetta gerðist í hinni merku tónleikaferð Sunnukórsins til Eystrasaltslanda, sem sagt hefur verið frá hér á síðunni fyrir skemmstu.
Málið er hið vandræðalegasta, enda ýmsar kenningar uppi um það hvað raunverulega gerðist. Hvort ég hafi verið að reykja eða fikta með eld inni á hótelherbergi . Jafnvel að Sigurður bóndi minn hafi verið svo heitur í atlotum að ég hafi hreinlega fuðrað upp þarna rétt ofan lífis
Sú kenning varð raunar tilefni ofurlítillar stöku sem sett var fram á góðri stundu og er svona:
- Með aldri funann finna menn
- fölskvast í sér,
- en Siggi kátur kann vel enn
- að kveikja í mér.
Jæja, svo skemmtilega vildi þetta þó ekki til. Tildrög óhappsins yrði of langt mál að rekja hér í smáatriðum en við sögu koma: Standlampi, logandi heit pera af einhverri ónefnanlegri tegund (skaðræðisgripur sem hitnar eins og skot), og Siggi minn blessaður sem í sakleysi sínu kveikti ljósið .... og fann svo brunalykt.
En nú þarf ég semsagt að manna mig upp í að hringja í hinn upprunalega eiganda og útskýra málið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Kvalafullt hláturskast í beinni
1.7.2007 | 21:40
Fyrst ég er farin að skemmta mér yfir sjónvarpsuppákomum þá get ég ekki stillt mig um að slaka þessari inn á síðuna. Þetta er sko martröð sjónvarpsmannsins. Hann hefur örugglega misst vinnuna fyrir frammistöðu sína þessi.
Þetta rifjaði upp fyrir mér ýmsar uppákomur sem stundum urðu í beinni á sjónvarpsárunum mínum í den - ekkert þó í líkingu við þetta.
http://www.youtube.com/watch?v=fl6jfOEPJGk
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Frábært!
1.7.2007 | 10:51
Þetta er hreint út sagt frábært - þessi fréttakona ætti að fá alþjóðleg blaðamannaverðlaun. Það var tími til kominn að einhver fréttamaður með sjálfsvirðingu segði eða gerði eitthvað gagnvart þessari alheimsmúgsefjun um persónu Parisar Hilton.
Ég tek ofan fyrir þessari fréttakonu - vil fá hana sem fyrirlesarar á málþing um blaðamennsku og fréttasiðferði sem er löngu tímabært að halda. Væri verðugt verkefni fyrir blaðamannafélag Íslands.
![]() |
Fréttaþulur neitaði að byrja á frétt um París Hilton |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Lúkas litli píslarvottur
1.7.2007 | 10:10
Síðustu daga hefur borið á gagnrýni vegna þess að hópar fólks sáu ástæðu til þess að minnast Lúkasar litla - hundsins sem hlaut skelfilegan dauðdaga á Akureyri fyrir skömmu. Ýmsir hafa orðið til þess að hrista höfuðið yfir því að fólk skuli hafa komið saman og kveikt á kertum "til minningar" um hund sem það "þekkti ekki neitt" svo notuð séu orð þeirra sem hafa tjáð sig um þetta. Einn pistlahöfunda spyr sig hvort það "skorti harm" í líf þess fólks sem grætur ókunnugan hund. Á blogginu hafa aðrir skemmt sér við að segja ófagrar sögur af misþyrmingum heimsþekktra manna á dýrum, og rekja matgæði og matreiðsluaðferðir hundakjöts svona eins og til að undirstrika fáránleika þess að minnast hunds.
Vissulega hefur Lúkas litli fengið meiri athygli liðinn enn hann gerði nokkurn tíma lífs. Og ef maður ætti að trúa því að þessar athafnirnar hafi snúist um hann sem einstakling, þá mætti segja að sitthvað væri bogið við það. En ég held að málið sé ekki þannig vaxið, það er margþættara en svo.
Lúkas er orðinn píslarvottur - fórnarlamb grimmdar og mannvonsku. Athafnirnar sem fram fóru eru táknræn mótmæli gegn illri meðferð á dýrum.
Í blöðum gaf að líta mynd af ungu, fallegu fólki með hund í bandi sem kveikti á kerti. Ekki veit ég hvort þetta unga fólk þekkti Lúkas, eða eigendur hans, nokkurn skapaðan hlut - eða hvort "harminn skortir í líf þess" eins og einn pistlahöfundur orðaði það. Satt að segja vona ég að þetta unga fólk hafi ekki þurft að harma margt enn sem komið er. En ég þykist vita að með þessu hafi það viljað sýna hug sinn til þess sem gerðist; tjá sorg vegna grimmilegrar meðferðar á saklausu dýri og samúð með eigendunum.
Til þess eru auðvitað ýmsar leiðir - og sjálfsagt er margt í mannlegu samfélagi sem ástæða væri til að vekja athygli á með minningarathöfnum, mótmælagöngum og kertafleytingum. En hvað? Má ekki fólk koma saman og taka afstöðu í dýraverndunarmáli? Það hefur margt verið gert fánýtara en það.
Og ef ástæðan er sú að "harminn skorti" í líf fólks, þá eru það bara góðar fréttir fyrir mér.
Læt að lokum fljóta hér með tvær sætar hvolpamyndir af tíkinni minni - á annarri hefur hún náð snuðinu af ömmudreng - og heldur augljóslega að hún sé líka maður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kvöldkyrrð
30.6.2007 | 01:27
Kvöldkyrrðin er ótrúleg - gulli sleginn hafflöturinn úti fyrir eyrinni þar sem sól er að setjast ofan í Djúpið. Inni á pollinum dúra værðarlegir fuglar á skyggðum sjónum. Ekki bærist hár á höfði.
Þrátt fyrir lognið kemur mér til hugar vísan fallega eftir Trausta Á. Reykdal:
- Þýtur í stráum þeyrinn hljótt
- þagnar kliður dagsins.
- Guð er að bjóða góða nótt
- í geislum sólarlagsins.
Ég fann þessa fallegu mynd á netinu - hún er tekin á Hesteyri í þann mund sem sólin tyllir sér á hafflötinn rétt áður en hún rís á ný. Leyfi ykkur að njóta hennar með mér - Ísafjarðardjúpið skartar einmitt þessum litum núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Úlfur um nótt
29.6.2007 | 11:35
Í nótt voru úlfar á kreiki - náttúlfar í næturkyrrðinni.
Þannig er að ég á stundum erfitt með svefn. Eftir góða daga þegar mikið hefur verið um að vera er ég oft eirðarlaus og get ekki farið að sofa. Þannig var það í nótt. Eftir gott kvöld með vinum úr hundabjörgunarsveitinni sem borðuðu hjá okkur og sátu að spjalli fram eftir kvöldi gat ég ekki fengið mig til að fara að sofa. Næturkyrrðin lagðist yfir húsið. Ég sat við gluggann og horfði á lognværan fjörðinn. Innra með mér óx úlfurinn. Ég hef stundum orðið hans vör, lengi vel streittist ég gegn honum, en gat það auðvitað ekki. Úlfurinn í mér er þarna, og þegar hann gerir vart við sig verð ég eirðarlaus - get ekki sofið, vil ekki sofa. Í nótt var tungl nærri fullt - ég fann fyrir því þó ég sæi það ekki.
Og hvað gera úlfar undir fullu tungli? Þeir tylla sér upp á næstu hæð og senda langdregna, tregafulla tóna út í nóttina. Áður en ég vissi af var ég sest við tölvuna og farin að vafra um netið. Skellti inn einni lítilli færslu og fór svo að kíkja á síður hjá öðrum. En viti menn, það voru fleiri náttúlfar á kreiki. Þeir komu inn á síðuna mína með athugasemdir, og heimsóknatalningin tók óvæntan kipp. Á annað hundrað manns kíktu við á síðunni þennan hálftíma sem ég sat við tölvuna - og um stund má segja að nóttin hafi ómað af úlfasöng umhverfis mig.
Þetta var óvænt og skemmtileg uppgötvun. Ég var þá ekki sú eina sem vakti. Það eru hundruð manna andvaka undir fullu tungli - og þetta fólk á sér samfélag þegar aðrir sofa: Úlfahjörð sem reikar um náttheima netsins. Vúúúúúúúú - gaman.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fársjúkt atferli
29.6.2007 | 01:05
Það hljóta að vera fársjúkir einstaklingar sem geta drepið dýr á þennan hátt.
Eins er ég afar hugsi yfir þeim hluta fréttarinnar að neyðarlínan skuli hafa svarað því til að lögreglan mætti ekki vera að því að "sinna svonalöguðu" þegar vitni lét vita af því að verið væri að murka lífið úr dýrinu með því að sparka því á milli manna, lokuðu innan í íþróttatösku. Er þá ekki sama hvaða lög er verið að brjóta þegar lögregla er kölluð til? Eru dýraverndunarlögin léttvægari en t.d. sú skylda lögreglunnar að vernda söluturna fyrir stuldi á kókflöskum og skiptimynt?
Ég á ekki orð yfir þetta atferli gagnvart vesalings dýrinu. Og það sem verra er, ég hugsa að þessir menn sem hlut eiga að máli fái vægan dóm - eftir svona 3 ár - þegar dómskerfið má vera að því að "sinna svonalöguðu".
Dýraverndarlögin vega því miður ekki þungt á vogarskálum réttvísinnar, um það eru ýmis dæmi, sum nýleg.
Sem hundaeigandi votta ég eigendum Lúkasar samúð mína.
![]() |
Hundrað manns á kertavöku til minningar um hundinn Lúkas |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Hverskonar vettvangur er bloggið?
27.6.2007 | 15:57
Ég hef stundum orðið þess vör að sumir virðast álíta að "blogg" sé samheiti yfir einhverskonar sóðaskrif á netinu.
Í dag hitti ég landsþekktan blaðamann, gamlan kollega frá því ég var sjálf í þeim bransa. Þessi ágæti blaðamaður hraunaði því yfir mig - þar sem ég í sakleysi mínu vísaði til einhvers sem ég hefði sagt á bloggsíðu minni - að enginn málsmetandi Íslendingur myndi nokkru sinni standa í rökræðum á blogginu. Var helst á viðkomandi að skilja að bloggsíður væru vettvangur fyrir fólk að viðra sínar verstu hvatir.
Hmmm..... Ég er svolítið hugsi yfir þessu. Sjálf er ég gamall frétta- og blaðamaður, hef skrifað fjölda greina í blöð og tímarit, verið álitsgjafi í spjallþáttum o.s.frv.. Ég tel mig hvorki betri né verri eftir að ég setti upp bloggsíðu - hef einfaldlega bara sett upp minn eigin fjölmiðil sem er síðan mín . Þangað má fólk koma og viðra skoðanir sínar svo fremi þær meiði engan.
Ég á fjölda bloggvina sem una sælir við sömu iðju, halda úti skemmtilegum bloggsíðum með fréttum af mönnum og málefnum, umræðum um fréttatengt efni í bland við dagbókafærslur og áhugamál. Þetta eru yfirleitt góðir pennar og ég tel hvorki þá né sjálfa mig neitt minni fyrir það að skrifa á bloggsíður.
Vitanlega eru líka til bloggarar sem misnota aðstöðu sína - blogga t.d. undir dulnefnum og liggja eins og óværa í athugasemdadálkum hjá öðrum. En það er ansi hart ef sá hópur á að verða útgangspunkturinn þegar skilgreina skal bloggara. Það fyrirfinnast líka óvandaðir fjölmiðlamenn, slúðurblaðamenn hinnar gulu pressu til dæmis - ekki látum við það ráða afstöðu okkar til fjölmiðlafólks almennt, eða hvað?
Það væri leitt ef fordómar af fyrrnefndu tagi yrðu til þess að almennilegt fólk færi að forðast bloggið sem vettvang til skoðanaskipta.
Ég ætla a.m.k. ekki að hætta - ekki á meðan þetta er skemmtilegt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Stundum eru englar í mannsmynd
27.6.2007 | 11:25
Guði sé lof fyrir engla í mannsmynd sem eru til staðar og geta hjálpað þegar líf liggur við.
![]() |
Þetta er kraftaverk" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ofsaakstur er hraðafíkn
26.6.2007 | 20:19
Frábært framtak hjá hjúkrunarfólki að standa fyrir þessari göngu. Þetta er sú starfsstétt sem verður einna oftast vitni að hörmulegum afleiðingum umferðarslysa og þeirri sorg sem þau geta valdið.
Fyrr í dag setti ég inn færslu um hraðafíkn og ofsaakstur - þessa áráttu sem rænir fólk allri skynsemi, stefnir lífi og limum í háska, en er samt endurtekin æ ofan í æ þrátt fyrir sektir, dóma og fortölur.
Auðvitað er ofsaakstur ekkert annað en fíkn - og kannski þarf að fara að taka á umferðarlagabrotum með því hugarfari.
![]() |
Mikil þátttaka í göngu gegn umferðarslysum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)