Færsluflokkur: Bloggar

Málþófið sigraði - lýðræðið tapaði

althingishusid_01 Með málþófi og fundatæknilegum bolabrögðum hefur Sjálfstæðismönnum tekist að ýta stjórnlagaþinginu út af borðinu. Málinu sem vakti vonarneistann með þjóðinni um að nú væri hægt að byrja eitthvað frá grunni: Semja nýjar leikreglur, veita fólkinu vald til þess að koma að samningu nýrrar stjórnarskrár - virkja lýðræðið í reynd. Já, málinu sem var til vitnis um það - að því er virtist - að stjórnvöld, þar á meðal Alþingi, hefðu séð að sér; að þau vildu raunverulega sátt við þjóð sína, fyrirgefningu og nýtt upphaf.

Það var auðvitað allt of gott til að geta verið satt. Og auðvitað var það Sjálfstæðisflokkurinn sem þumbaðist og rótaðist um eins og naut í flagi til að stöðva málið. Til þess þurftu þeir að skrumskæla leikreglur lýðræðisins og málfrelsið sem því fylgir; halda uppi málþófi og tefja störf þingsins. 

Það var þeim líkt.


mbl.is Stjórnarskráin áfram á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær ritdómur - móðurhjartað þrútið og heitt

Humanimal09 (Medium) Um helgina frumsýndi hópur ungra listamanna nýtt dansleikverk í Hafnarfjarðarleikhúsinu sem nefnist Húmanímal. Dóttir mín Saga var þátttakandi í þessu verki sem Páll Baldvinsson gefur hæstu einkunn í ritdómi sem birtist í Fréttablaðinu í dag.  Móðurhjartað sló ört og ótt við lestur ritdómsins eins og nærri má geta. Hann er svo frábær að ég stenst ekki freistinguna að birta hann hér:

Það er vissulega erfitt að draga sýninguna Húmanímal í dilka: stundum er hún hrein myndlist, stundum dramatískt samtal sem hverfist í tvídans, raddtilraun eða söngatriði, erótísk slagsmál, kyrrstæður sólódans án hreyfingar: hún er tilraunakennd hreyfing sem er bæði skopleg og sársaukafull, tvíræð en tilfinningaþrungin. Verkið er unnið í hópi en samt með leikstjórum, einfaldlega hugsað í rými með færanlegri dýpt tveggja veggbrota sem geta lifnað við á óvæntan og undurfagran máta.

Það var yndislega gaman að sjá verkið skríða fram, finna fjölbreytnina kveikja undrun og hrífast með í einfaldleika kyndugra hugmynda sem klæddust holdi og hreyfingu og stundum röddum. Þau hafa verið heppin krakkarnir sem standa að sýningunni að ná utanum svo óskyld konsept sem eru fyrst og fremst sjónræn og koma þeim í svo glæsilega heild. Þau eru misjafnlega á sig komin: Álfrún slíkt múltitalent að mann undrar það, Jörundur að þreifa sig inn á ný svið, Margrét nánast himnesk í sínum makalausa bakskúlptúr og víkur ekki undan erfiðum orðaleik undir lok verksins. Saga dýrslega líkamleg, Dóra tvíbent í ræðu sinni um hvatirnar og Friðgeir fáránlega þurr í erótískri útlistun á ertisvæðum kvenlíkama. Og allt er þetta borið fram af hispursleysi, taktskynjun og alvarlegri nálægð svo undrum sætti. Allt framkvæmt af fullnustu og slíkum krafti að aðdáunarvert var.

Víst gerir grunnhugmynd um liti og áferð búninga og leikmyndar mikið og hljóðheimurinn samsvarar fullkomlega tínslu hugmynda í atburðarásina.

Þetta var bara gaman og furðulegt og fallegt og maður ók glaður heim úr Firðinum. Það er á slíkum stundum að maður þakkar fyrir Leiklistarráð og það þrekfólk sem smíðar stórkostlega sýningu úr litlu. Og hina ungu og óreyndu leikstjóra sem binda pakkann saman að lokum.

Svo mörg voru þau orð.

Það er svolítið gaman að því að slá kjördæmapólitísku eignarhaldi á sýninguna. Það er nefnilega þannig að tveir frambjóðendur Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi eiga "börn" í þessari sýningu. Það erum við Ragnar Jörundsson sem skipar 6. sæti listans og er faðir Jörundar Ragnarssonar. 

Jebb ... og nú slær móðurhjartað - þrútið og heitt. InLove


Aðeins meira um 20% niðurfærsluleið

óbundin Mikið hefur verið skeggrætt um svokallaða 20% niðurfærsluleið sem kynnt var fyrir fáeinum vikum sem einföld lausn á skuldavanda fólksins í landinu. Hugmyndinni var strax tekið af velviljuðum áhuga allra þeirra sem láta sig hag almennings varða. Hún var skoðuð gaumgæfilega m.a. innan Samfylkingarinnar, enda vissulega þess virði að ígrunda vel allar lausnir sem boðnar eru - nógir eru nú erfiðleikar þjóðarinnar.

Seðlabanki Íslands gerði skýrslu um málið, byggða á gagnagrunni sem bankinn hefur yfir að ráða um skuldir og eignir landsmanna. Í skýrslunni er því haldið fram að kostnaður af 20% niðurfærslu allra skulda í landinu myndi lenda á ríkissjóði annarsvegar eða erlendum kröfuhöfum hinsvegar. Af skýrslunni má glöggt ráða að í þessu felist eignatilfærsla frá einstaklingum til fyrirtækja og að heildarkostnaðurinn við þetta muni verða 900 milljarðar króna, þar af 285 milljarðar vegna húsnæðisskulda eingöngu. Sú upphæð er 45% af heildarútgjöldum hins opinbera.

Skuldir ríkissjóðs sem áætlaðar eru 1100 milljarðar króna í lok þessa árs myndu því tvöfaldast við þetta.

Bent er á að flöt niðurfelling húsnæðisskulda myndi hafa ólík áhrif á mismunandi hópa. Þannig myndi aðeins helmingur umræddrar niðurfærslu nýtast þeim sem eru í alvarlegum vandræðum.

Magnús Þór Torfason doktorsnemi við Columbia Business School hefur skrifað mjög áhugaverða grein sem hann nefnir Að þykjast gefa þeim fátæku en gefa í raun þeim ríku sem ég hvet ykkur til þess að lesa. Þá hefur Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia háskóla skrifaði grein þar sem hann bendir á eignatilfærslu frá landsbyggð til höfuðborgar sem hlytist af þessari leið.

Það er athyglisvert að ýmsir Sjálfstæðismenn hafa talað á móti þessari leið. Ég bendi til dæmis á Pétur Blöndal og Elliða Vignisson bæjarstjóra í Eyjum.

Kjarni málsins er þó þessi: Ef hægt væri að sýna fram á að 20% niðurfærsluleið fæli í sér eitthvert réttlæti og raunverulega aðstoð við þá sem sárast þurfa hennar með, þá myndi ég heilshugar styðja hana. Fram á það hefur ekki verið sýnt. Þvert á mót bendir flest til þess að flöt niðurfærsla myndi fela í sér gífurlega eignatilfærslu frá einstaklingum til stórskuldugra fyrirtækja - við værum jafnvel að tala um mestu eignatilfærslu af því tagi sem um getur.

Niðurfærsla lána hjá þeim sem helst þurfa á því að halda er annað mál. Sé tekið mið af greiðslugetu fólks þannig að niðurfærslan nýtist þar sem hennar er helst þörf, þá horfir málið öðruvísi við.

Jöfnuður felst ekki endilega í flötum aðgerðum, heldur að hver og einn fái það sem hann þarfnast.


Rysjótt tíð en líf í tuskum á Snæfellsjökli

fyristdagurÞað hefur verið vindasamt hér á Snæfellsjöklinum það sem af er vikunni. Í dag var hvassviðri með slydduéljum. Hundarnir létu það ekkert á sig fá - mannfólkið ekki heldur. Hér koma nokkrar myndir sem ég náði rétt áður en hleðslubatteríið dó á myndavélinni minni (að sjálfsögðu gleymdi ég hleðslutækinu heima, þannig að það verða ekki fleiri myndir birtar í bili).      

Skutull minn stendur sig vel það sem af er. Hann sýnir bæði áhuga og sjálfstæði og þykir almennt efnilegur. Vonandi tekur hann gott C-próf á föstudaginn.

 

Það er ekki slegið slöku við hér á þessu vetrarnámskeiði Björgunarhundasveitarinnar:  AframDrengir (Medium)Klukkan níu á morgnana er haldið upp á jökul þar sem æfingar standa fram eftir degi. Við erum venjulega komin niður aftur milli kl. fimm og sex, síðdegis. Þá eru flokksfundir. Síðan kvöldmatur kl. sjö og að honum loknum taka við fyrirlestrar til kl. 10. Þá eru hundarnir viðraðir - síðan spjallað svolítið fyrir svefninn.

 

Annars er netsambandið afar lélegt hérna. Ég er með svona NOVA-internet tengil sem byggir á GSM sambandi og það er ekki upp á marga fiska. Þessi bloggfærsla er því ekki hrist fram úr erminni skal ég segja ykkur. Whistling

BumbuBanar (Medium)

 

 

 

 En þrátt fyrir rysjótt veðurfar er létt yfir mannskapnum eins og venjulega þegar við komum saman Björgunarhundasveitin. Hér sjáið þið tvo félaga vora taka léttan bumbubana. Annað þeirra hefur það sér til málsbóta að bera barn undir belti, en hitt ... hmmm  Wink 

 

Nú það er nóg að gera við að grafa snjóholur fyrir hundana aKrissiMatarHolu (Medium)ð leita - þær þarf svo að máta - og eins og sjá mér er æði misjafnt hversu rúmt er um menn.


Vikufrí frá pólitík - nú er það Snæfellsjökull

snaefelljokull08 Nú tek ég vikufrí frá pólitíkinni. Er mætt á Gufuskála ásamt á þriðja tug félaga minna úr Björgunarhundasveit Íslands. Hópurinn verður við æfingar á Snæfellsjökli út þessa viku. Það er alltaf mikil stemning á þessu námskeiðum og glatt á hjalla bæði kvölds og morgna. Þessu fylgir heilmikið stúss - hér eru björgunarbílar frá flestum landshornum, hundar og menn með mikinn útbúnað. Svo getur veðrið verið með ýmsu móti.

Hér sjáið þið mynd frá vetraræfingu á Snæfellsjökli í fyrra - ég mun trúlega setja inn fleiri eftir því sem tilefni gefst næstu daga.

Pólitíkinhefur bara sinn gang á meðan - ætli hún fari langt. Wink

 

 


Hugur í Samfylkingarfólki

Í þessum skrifuðum orðum sit ég á Landsfundi Samfylkingarinnar þar sem verið er að leggja lokahönd á málefnastarfið. Í gær var kjörin ný forysta fyrir flokkinn og í dag er verið að kjósa framkvæmdastjórn, flokksstjórn, nefndir og ráð.

Þetta hefur verið frábært þing og augljóslega mikill hugur í mönnum, ekki síst í velferðarmálum, sjávarútvegsmálum og Evrópumálum.

Ég bind miklar vonir við þá stefnu sem nú er að fæðast í meðförum þingsins.


Karl V. Matthíasson skiptir um flokk

KalliMatt Karl V. Matthíasson alþingismaður hefur sagt skilið við Samfylkinguna og gengið til liðs við Frjálslynda flokkinn eftir að hann hafnaði í 5. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar um síðustu helgi. Hann sóttist eftir 1. eða 2. sæti.

Í fréttatilkynningu segir Karl að skoðanir hans og hugsjónir um sjávarútvegsmál hafi ekki fengið hljómgrunn í Samfylkingunni og bendir hann á úrslit prófkjörsins sem staðfestingu þess.

Sárt þykir mér að sjá Karl halda þessu fram. Ég held nefnilega að hann viti betur. Þátttakendur prófkjörsins, bæði frambjóðendur og flokksmenn, vita líka betur.

Á þeim framboðsfundum sem haldnir voru í kjördæminu nú fyrir prófkjörið var varla um annað meira rætt en sjávarútvegsmálin.  Karl var að vísu ekki sjálfur viðstaddur alla fundina. En á þeim tóku velflestir frambjóðendur prófkjörsins afgerandi afstöðu í umræðunni. Var afstaða þeirra samhljóða þeim áherslum sem Karl kýs nú að láta sem hafi verið hans einkaáherslur. Þetta veit Karl.

En ég vil þakka Karli fyrir þann tíma sem hann starfaði og talaði sem Samfylkingarmaður á Alþingi - tímann sem hann var samverkamaður okkar félaga sinna í flokknum. Það hefði farið vel á því að sjá orðsendingu frá honum til flokksmanna áður en hann sendi út fréttatilkynninguna. En það verður hver að hafa sinn hátt á því hvernig hann kveður.

Ég óska honum velfarnaðar á nýjum slóðum.


mbl.is Karl V. til liðs við Frjálslynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frestun kosninga vegna tafa í þinginu?

thingsalur-eyjan Það kæmi mér ekki á óvart ef kosningunum yrði frestað. Fyrir liggja það mörg óafgreidd mál í þinginu að ekki er forsvaranlegt að senda þingmenn heim og hleypa öllu upp í kosningabaráttu. Þá er heldur ekki ásættanlegt að láta Sjálfstæðismenn komast upp með það að tefja  afgreiðslu mála endalaust með málþófi og allskyns fíflagangi. 

Þjóðin er á vonarvöl og almenningur hefur ekki þolinmæði eða löngun til þess að fylgjast með málfundaæfingum misviturra þingmanna sem finna sér viðspyrnu í  fundatæknilegu þrefi.

Framganga Sjálfstæðismanna að undanförnu hefur verið með ólíkindum. Þeir hafa hlaupið í ræðustól hver á fætur öðrum með  andsvör og athugasemdum hver við annan. Þeir hafa haldið þinginu í fundatæknilegri herkví. Það er svo augljóst hvað þeim gengur til. Og það er svo sorglegt að sjá þetta sama fólk sem talaði hvað mest um ábyrgð og öll þau verk sem vinna þyrfti fyrir aðeins fáeinum vikum. Þá var það í ráðherrastöðum. Nú er það komið í stjórnarandstöðu og augljóslega búið að skipta um disk í tækinu.

Þetta er vandi íslenskra stjórnmála í hnotskurn. Það er einmitt þetta sem fólk er búið að fá svo gjörsamlega nóg af. Angry

 


mbl.is Þingrof óákveðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það hafðist!

Þá er niðurstaða prófkjörsins í NV-kjördæmi ljós. Ég fékk 2. sætið eins ég stefndi að og ég er alsæl. Smile Guðbjartur fékk sannfærandi kosningu í fyrsta sætið, hann er vel að því kominn. Þriðja sætið hreppti svo Arna Lára Jónsdóttir, samverkakona mín hér á Ísafirði.

Ég er ánægð með þennan lista - mér sýnist hann vera mjög sterkur og ekki óraunhæft að ná inn þriðja manni fyrir Samfylkinguna í NV í þessu kosningum.

Ég vil þakka öllum sem kusu mig fyrir traustið. Um leið þakka ég meðframbjóðendum mínum góða viðkynningu og skemmtilega samveru á fundaferðalagi okkar um kjördæmið í aðdraganda prófkjörsins. Þetta er sigurstranlegur listi sem ég vona að muni fjölga þingmönnum Samfylkingarinnar í kjördæminu.

 


mbl.is Guðbjartur efstur - Ólína í 2. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennan eykst: Prófkjörinu lýkur í dag og hér eru leiðbeiningar :-)

uppskera Í dag er 8. mars: Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Vonandi mun þessi dagur færa okkur konum drjúga uppskeru - það væri vissulega gaman.  Nú er spennan í hámarki í prófkjöri Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi. Rafrænni kosningu lýkur kl. 16 og þá kemur í ljós hverjir hafa haft erindi sem erfiði í baráttuna. Smile

Ég hef fengið allmargar fyrirspurnir frá kjósendum varðandi rafkosninguna. Þeir sem ekki hafa heimabanka verða að mæta hjá næsta umboðsmanni og fá afhent lykilorð sem þeir kvitta fyrir. Þeir geta svo valið hvort þeir kjósa hjá umboðsmanni eða taka lykilorðið heim og kjósa í eigin tölvu.

Hér er skrá yfir umboðsmenn í kjördæminu ásamt símanúmerum. 6bokasafnÁ Ísafirði er umboðsmaðurinn Benedikt Bjarnason og hann verður til staðar í kosningamiðstöð okkar í Langa Manga, s. 825-7808.

Ég veit að sumir hafa lent í baksi með lykilorðið í heimabankanum og hér eru  leiðbeiningar um það. Athugið að lykilorðið kemur ekki í formi skilaboða í heimabankann heldur þarf að fara í rafræn skjöl (t.d. hjá Kaupþingi) eða netyfirlit (t.d. í Íslandsbanka).

Ég hef að undanförnu bloggað um mín helstu áherslumál, til dæmis hér og hér.

Svo sjáum við hvað setur. Nú er frost og fjúk hérna á Ísafirði, þannig að margir eru sjálfsagt fegnir því að geta bara kosið í rólegheitunum í eigin tölvu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband