Færsluflokkur: Bloggar
Af björgunarhundanámskeiði í berjamó!
13.8.2007 | 13:42
Jæja, þá er maður nú kominn heim til sín eftir mikið útivistarstand.
Eftir tiltektir, húsamálun og viðhaldsverk ýmis í borgarbústaðnum mínum á Framnesvegi hélt ég með minn "fjallahund" vestur á Gufuskála á fimmtudagskvöld. Þar fór fram helgarnámskeið Björgunarhundasveitar Íslands með félögum allstaðar að af landinu. Við eyddum þar helginni í góðra vina hópi við æfingar og leitarþjálfun við ágæt veðurskilyrði til slíkra hluta.
Blíða mín blessunin tók miklum framförum á þessu námskeiði - og nú hef ég tekið gleði mína með hana á ný. Mér sýnist hún vera komin yfir gelgjukastið síðara sem gekk yfir hana í vor, um það leyti sem við hættum í snjóflóðaleitinni og byrjuðum með nýtt prógram fyrir sumarleitina (víðavangsleit). Hún hefur endurheimt sinn fyrri áhuga, hefur gaman af því sem hún er að gera og vinnur vel með mér. Ég þakka það ekki síst góðum leiðbeinendum á síðustu tveim námskeiðum, sem hafa hjálpað mér að koma henni á góðan rekspöl.
Æfingar okkar að þessu sinni fólust í því að efla og treysta í sessi geltið hennar þegar hún finnur mann. Hún er löngu farin að gelta vel á mig þegar hún hefur fundið, en því miður hefur hún haft minni áhuga fyrir því að gelta hjá þeim "týnda" - fígúrantinum svokallaða - þegar hún fer í vísun og hleypur til hans aftur. Að vísu þarf hún þess ekki, samkvæmt reglunum, en ég vil gjarnan ná því upp hjá henni, þar sem það er ólíkt þægilegra að vinna með hundi sem geltir vel þegar hann vísar eigandanum á manninn.
Nú er þetta allt á réttri leið. Leiðbeinandinn minn lagði ríka áherslu á það við fígúrantinn að vanda móttökurnar og vera skemmtilegur þegar hún kemur. Ég var mjög heppin með fígúrant - reyndan hundaeiganda sem kunni vel til verka - og árangurinn lét ekki á sér standa. Hundurinn sýndi fígúrantinum ótvíræðan áhuga - gelti kröftuglega við hvatningu, kom svo til mín og gelti kröftuglega óbeðinn, og vísaði síðan af öryggi og gelti aftur hjá fígúranti. Ég er harðánægð með þetta, og nú verður haldið áfram á sömu braut.
En það var gott að koma heim í gærkvöld eftir sjö klst akstur vestur á Ísafjörð - fara í heitt bað og leggjast í rúmið sitt. Ekki var verra að vakna við sólskinið í morgun. Maddý dóttir mín er komin með vin sinn í heimsókn, og í kvöld koma góð vinahjón okkar til að vera í tvo daga. Sól skín á sundin og grænan lundinn - veður fyrir berjamó - og gaman að lifa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tiltektir og tiltektir - allt á öðrum endanum.
8.8.2007 | 23:58
Þessa dagana er allt á öðrum endanum hér á Framnesveginum - borgarbústaðnum okkar. Ekki höfðum við fyrr rennt í hlað eftir unglingalandsmótið á Höfn en við vorum komin með pensil í hönd, slípirokk, kúst og tusku ... jamm, það er verið að mála, þrífa, slá garðinn, pússa gólf, lakka gluggapósta ... nefnið það bara! Yfirbót fyrir sex ára vanrækslusyndir
.
Frá því við fluttum okkar aðal aðsetur vestur á Ísafjörð hefur gamla góða húsið okkar í Reykjavík setið á hakanum og nú er kominn tími til að gera því eitthvað til góða.
Annars virðast það vera álög á þessu húsi að það er sama hvaða málning er sett á það - alltaf verður hún bláleit eftir svolítinn tíma. Fyrir sjö árum máluðum við húsið rústrautt - tveim árum seinna var það orðið lillablátt.
Það var því með nokkurri staðfestu sem bóndi minn hélt í málningarbúðina að þessu sinni og kom heim með bros á vör og steingráa málningu, sagði hann. Nú skyldi sko settur almennilegur litur á útveggina - ekkert nærbuxnableikt takk fyrir!
Svo var hafist handa við að mála og fyrstu umferðinni komið á áður en fór að rigna. Ekki höfum við komist lengra að sinni - og ekki veit ég hvort það er rigningunni að kenna eða hvað - en húsið er EKKI steingrátt. Það er fölblátt - eiginlega gráblátt - eins og þið sjáið ef þið kíkið á myndina hér fyrir ofan en þar sjást bæði gamli liturinn og sá nýi.
Jæja, það gerir ekkert til - þetta er ágætis litur, þó hann sé svolítið kaldur. Aðal málið er að ná að klára þetta áður en maður þarf að þjóta vestur aftur.
Annars er heilmikil sálarró sem fylgir því að taka svona allt í gegn. Maður tekur einhvernvegin til í sálartetrinu um leið - verður bara eins og nýhreinsaður hundur. Og það er svo merkilegt að þegar maður er byrjaður er eins og allir smitist af þessu með manni. Börnin mín hafa öll tekið til hendinni (þau sem eru heima við) - flest óbeðin.
Já, húsið er að verða déskoti fínt. En það verður lítill tími til að njóta verkanna að þessu sinni - því við munum líklega rétt ná að klára sökkulinn á morgun, áður en við brunum af stað vestur.
Svo er bara að krossleggja fingur og vona að afkvæmin gangi vel um öll fínheitin þar til við komum í bæinn næst.
Bloggar | Breytt 9.8.2007 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Góð verslunarmannahelgi - flott unglingalandsmót á Höfn!
6.8.2007 | 18:40
Jæja, þá erum við komin heim af unglingalandsmótinu á Höfn í Hornafirði, þar sem við eyddum helginni hjónin, með Hjörvari, yngsta syni okkar og Vésteini systursyni mínum.
Frábært mót - vel skipulagt og skemmtilegt í fögru umhverfi og þokkalegasta veðri. Þangað mættum við á fimmtudagskvöld með tuttugu ára gamla tjaldvagninn okkar sem má nú muna sinn fífil fegurri en er alltaf jafn góður til síns brúks.
Strákarnir kepptu í fótbolta - en við "gömlu" skelltum okkur á stórmót í Hornafjarðarmanna (sem ég hélt að ég kynni, en komst að raun um að er allt öðruvísi en ég hélt). Að vísu tókst ekki að setja heimsmet í fjölda þátttakenda, en það gerði ekkert til. Þetta var frábært framtak.
Kvöldhimininn yfir Hornafirði á fimmtudagskvöldið var svo fagur að því lýsa engin orð. Öðrumegin sólarlagið og gulli sleginn jökullinn - hinumegin tungl í fyllingu - stafalogn og skyggður sjór. Það var engu líkt. Daginn eftir var komin svolítil súld, en annars var veður gott og góður andi yfir mótsgestum.
"Mínir" drengir tóku þriðja sætið í knattspyrnu 13 -14 ára fyrir HSV og mega vera stoltir af frammistöðu sinni. Stóðu sig frábærlega vel, börðust heiðarlega og sýndu fallega takta á köflum.Það er ótrúlega gaman að sjá hvernig þessir guttar eru að þroskast og koma til sem efnilegir fótboltamenn - þó ungir séu að árum. Þeir hafa lifað og hrærst í fótbolta frá því þeir voru sex eða sjö ára gamlir. Ég man þegar þessi sami hópur keppti í fyrsta skipti á innanhússmóti fyrir svona eins og sex árum. Þá stóðu þeir varla út úr keppnistreyjunum. Hópurinn myndaði einhverskonar hnykil eða hnoðra sem barst um völlinn í sömu átt og boltinn. Á línunni skælbrosandi foreldrar sem sáu ekkert nema sitt eigið barn.
Mikið vatn er til sjávar runnið síðan þá. Nú spila þeir og leggja upp leikfléttur - á línunni er kröfuharður þjálfari sem heldur þeim við efnið - og foreldrar sem láta til sín heyra: Fagna óspart þegar skorað er, en um leið fljótir að hvetja og hugga þegar illa gengur, bera krem á auma vöðva og finna jákvæðu hliðarnar á hverjum leik, hver svo sem úrslit hafa orðið.

Nú fer sumarleyfinu að ljúka svona hvað úr hverju. Ég ætla að vera nokkra daga í bænum að þrífa og laga eitt og annað í gamla húsinu okkar á Framnesveginum. Dugnaðarforkurinn hún Maddý dóttir mín og kærastinn hennar hann Eyþór voru þegar byrjuð áður en við komum. Búin að pússa upp eldhúsborðið og slípa trégólfið á loftherberginu, sem er nú eins og nýtt! Blessuð "börnin"
Það verður í nógu að stússast næstu daga - og um að gera að nota þá vel áður en sumarleyfinu lýkur.
Bloggar | Breytt 9.8.2007 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á ferð og flugi
1.8.2007 | 11:58
Ég verð á ferð og flugi næstu daga - gaman, gaman (vonandi): Ungmennalandsmótið á Höfn er fyrst á dagskrá. Mæti þar til að styðja mína drengi (soninn og félag hans) í fótboltanum. Það er spáð rigningu og leiðindaveðri - en ég mæli um og legg svo á að það muni rætast úr veðrinu
Jæja, svo verða það nú nokkrir dagar í borginni, helgaðir húsþrifum, garðrækt og kannski utanhússmálun á Framnesveginum -- gamla góða húsinu okkar sem hefur verið afrækt síðustu ár, eftir að við fluttum vestur. Mesta furða hvað það þó er.
Og svo - hvað haldið þið? Auðvitað hundanámskeið á Gufuskálum með Björgunarhundasveit Íslands. Jebb - bara nóg að gera. Fæ vonandi að hitta stóru börnin mín öll á þessu flakki - og litla ömmudreng : )
En nú er það fundur með iðnaðarráðherra sem heiðrar Vestfirðinga með nærveru sinni í dag í tilefni af stofnun nýsköpunarmiðstöðvar sem kynnt verður á hádegisverðarfundi í Edinborgarhúsinu nú á eftir. Er að verða of sein - get ekki bloggað meira í bili.
Eigið góðan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hringjum og syngjum!
31.7.2007 | 11:11
Ég var að hlusta á þáttinn hans Óla Þórðar á Rás-1, í morgun. Hann var að spila uppáhaldslagið mitt "Er völlur grær" með Óðni Valdimarssyni, og segja frá því að tvær konur - önnur á Ísafirði, hin í Reykjavík - hefðu það fágæta sið að hringja hvor í aðra þegar lag þetta heyrist í útvarpinu og syngja það saman í símann. Um leið lagði hann til að "sú í Reykjavík" myndi nú hringja vinkonu sína vestur.
Ég kipptist við þegar ég heyrði þetta. Fyrstu tónar lagsins bárust frá útvarpstækinu - og viti menn, síminn hringdi! Magga vinkona hinumegin á línunni: "... og vetur dvín, og vermir sólin gruuuund - la, la, la, la"
Ég tók undir: "Við byggjum saman bæ í sveit, sem blasir móti sóóóól ..... la la la la .... landið mitt mun ljá og veita skjóóóól".
Þannig kyrjuðum við báðar - eins og alltaf þegar lagið heyrist í útvarpinu. Sú sem fyrr heyrir það tekur upp tólið, og við brestum saman í sönginn: "Sól slær silfri á voga - sjáðu jökullinn loga ...."
Ýmsir hafa rekið upp stór augu þegar við hlaupum í símann. Sama hvernig á stendur í vinnunni eða á heimilinu. Við hringjum og SYNGJUM! Gleymum stund og stað og látum okkur engu skipta hverjir eru í kringum okkur á því augnabliki.
Þið megið kalla okkur skrýtnar. Okkur er sama. Við erum vaxnar upp úr spéhræðslunni - við erum vinkonur - og þetta er okkar stund, okkar leið til að treysta vináttuböndin, hvar svo sem við erum staddar þegar við erum minntar hvor á aðra. Þannig ræktum við okkar vináttuvöll.
Hvernig væri að taka upp dag vináttunnar á Íslandi, undir slagorðinu: Hringjum og syngjum! Þetta er pottþétt mannræktarúrræði - myndi redda deginum hjá mörgum.
Takk fyrir að hringja í morgun Magga mín Takk Óli fyrir að spila lagið okkar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Minningarbrot af stuttum kynnum
30.7.2007 | 11:05
Margar ljúfar stundir höfum við Íslendingar átt með Kristni Hallssyni söngvara - svo oft hefur rödd hans ómað í eyrum okkar úr útvarpstækjum og af hljómplötum, dimm og þýð.
Kristni Hallssyni kynntist ég lítillega fyrir 18 árum, þegar ég stjórnaði sjónvarps skemmtiþætti með honum og Guðmundi Jónssyni, söngbróður hans, á þrettánda degi jóla árið 1989. Mér eru þeir báðir sérstaklega minnisstæðir. Gamansamir og heillandi persónuleikar - lítillátir en öruggir, eins og allir sannir listamenn.
Í þessum sjónvarpsþætti ákváðu þeir félagarnir að koma mér á óvart með því að syngja til mín þekktan gamansöng með frumsömdum texta eftir þá sjálfa. Ég gleymi þeim aldrei þar sem þeir stóðu, þessir tveir glæsilegu heiðursmenn, klæddir í kjól og hvítt, og sungu mér kvæðið í beinni sjónvarpsútsendingu, eins og þeim einum var lagið. Þeir glöddu mig sannarlega - og tókst ætlunarverk sitt að koma mér í opna skjöldu.
Samband þeirra tveggja virtist vera eitthvað alveg sérstakt: Sambland af hlýju og gneistandi kímni. Annar hár og mikill á velli, hinn lávaxnari og þéttur fyrir. Þeir sögðu frá því glaðbeittir að þrátt fyrir stærðarmuninn væru þeir í raun jafn stórir, því þegar þeir tækju sæti þá snerust stærðarhlutföllin við. Kristinn væri nefnilega búklangur en Guðmundur kloflangur. Þetta sönnuðu þeir með því að standa hlið við hlið og taka sér svo sæti. Og mikið rétt!
Já, þetta voru stórir menn - í margvíslegri merkingu þess orðs.
Ég þakka Kristni Hallssyni þessi ljúfu og eftirminnilegu kynni. Þakka honum margar góðar stundir sem ég hef átt með honum við útvarpstækið bæði fyrr og síðar. Blessuð sé minning hans.
![]() |
Andlát: Kristinn Hallsson |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sendibílstjórinn í skotlínunni.
29.7.2007 | 19:41
Eftir að hafa horft á sjónvarpsfréttir nú í kvöld skil ég betur viðbrögð sendibílstjórans sem ók með fórnarlambið frá gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar að sundlaugunum í Laugardal. Hafandi það í huga að árásarmaðurinn er enn á staðnum með vopnið þegar fórnarlambið leitar ásjár hjá sendibílstjóranum, þá er auðvitað ljóst að hann hefur ekki átt um marga kosti að velja á stund og stað.
Frásögnin sem birtist á mbl.is fyrr í dag var svo hlutlaus og fjarræn að hún villti mér sýn, satt að segja, og ég virðist ekki ein um það að hafa velt vöngum yfir þessu akstursatriði.
Eftir því sem gleggri fréttir birtast af því sem gerðist verður ekki betur séð en að sendibílstjórinn hafi sýnt bæði snarræði og hugrekki undir þessum kringumstæðum.
Bloggar | Breytt 30.7.2007 kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Birtubrigði og borgarlíf
27.7.2007 | 00:13
Þá er sumardaginn tekið að stytta á ný. Það er svolítið sérstök tilfinning þegar aftur fer að húma á kvöldin og götuljósin kvikna. Sjálf fæ ég alltaf einhvern fiðring þegar skyggja tekur - þá víkur náttúrubarnið innra með mér smám saman fyrir borgarbarninu.
Mér finnst haustið vera tími borgarlífs - á sama hátt og vorið og sumarið laða mann til fundar við náttúruna. Sé ég ekki stödd í borginni þegar húma tekur á kvöldin verður mér yfirleitt hugsað til hennar um það leyti. Og þó að haustið sé ekki beint á næsta leiti, þá hafa birtubrigðin kallað fram hjá mér hughrif í þessa átt. Sonnettan hér fyrir neðan er ort í þeim anda.
Borg
Dökk ert þú borg í dvala hljóðra nátta,
dimmblár þinn himinn við spegilsvarta voga.
Á myrkum barmi ljósadjásn þín loga,
lýsandi veita sýn til margra átta.
Ætíð er svefn þinn ofinn þungum niði,
þó erillinn hjaðni kynlega þig dreymir.
Eirðarlaust líf um æðar þínar streymir.
Ung ertu og vökul, borg, í næturkliði.
Ungt rennur líka barna þinna blóð.
Brennandi óskum skuggar þínir svala.
Sorgir, þrár og söknuð kæfa gleðilæti.
Kynslóðir fara og koma þína slóð,
kall þeirra greindum ef þögnin mætti tala,
vonbrigði og sigra er geyma steinlögð stræti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sólbrennd og sæl eftir Hornstrandir
24.7.2007 | 12:39
Jæja, þá er ég nú komin heim - sólbrennd og sælleg með harðsperrur og frunsuvott á efrivör - eftir frábæra fjögurra daga gönguferð um Hornstrandafriðlandið.
Veðrið lék við okkur dag eftir dag, og við nutum lífsins til hins ýtrasta - fjórtán manna gönguhópur sem þetta árið kallar sig "Þéttum hópinn" . Þannig er að hópurinn skiptir nefnilega um nafn árlega eftir því hvað ber hæst í ferðum hverju sinni. Í þetta skiptið lentum við í þreifandi þoku á Háu heiði þegar komið var upp úr Fljótavík, fyrsta daginn.
Sennilega hefðum við villst þarna í þokunni, ef Hjörtur Sigurðsson, sem er ókrýndur leiðsögumaður hópsins, hefði ekki verið fljótur að hugsa. Við sáum þokuna nálgast með ógnarhraða, þar sem við áðum efst á fjallabrún, nýkomin upp. Hann hafði engin umsvif heldur hljóp upp á næstu hæð til þess að sjá hvernig leiðin væri vörðuð. Þegar hann kom til baka var niðdimm þokan skollin á. Víð vissum nú hvar fyrsta varðan var og þegar þangað kom sáum við grilla í þá næstu. Þegar dimmast var mynduðum við n.k. keðju milli varða þannig að einn gekk framfyrir svo langt sem næsti maður sá, en hinir biðu. Þá hélt næsti maður framfyrir hann, og þannig koll af kolli þannig að menn misstu aldrei sjónar af síðustu vörðu fyrr en sú næsta var fundin.
Ég hefði ekki haft áhyggjur nema vegna þess að með í för voru fjórir ungir piltar, sem ég hefði síður viljað láta gista á heiðinni. Þetta voru þeir frændur: Hjörvar (sonur minn, 13 ára), Vésteinn (systursonur minn, 13 ára) og systursynir Sigga, Nonni (15) og Þorsteinn (16).
Það var því gaman að koma niður af fjallinu hinumegin, eftir tíu tíma göngu, þar sem þokan leystist upp fyrir augum okkar og Hesteyrin blasti við, og framundan henni hluti Ísafjarðardjúpsins. Sumir hófust handa við að tjalda, en aðrir (ég og mitt fólk þar á meðal) notfærðu sér að geta keypt svefnpokagistingu í læknishúsinu á Hesteyri, gömlu, fallegu húsi sem ilmar af sögu og panellykt.
Daginn eftir tókum við það rólega, röltum um nágrennið. Sumir gengu inn fyrir ófæru - aðrir slökuðu á, skoðuðu gömlu verksmiðjuna sem er þarna rétt hjá og nutu lífsins. Þarna við gömlu verksmiðjuna rákumst við á tvo yrðlinga undir vegghleðslu sem léku sér í sólskininu. Sé rýnt í myndina má sjá annan þeirra skjótast milli veggbarma.
Þriðja daginn gengum við upp Hesteyrarskarð og umhverfis Búrfell. Þaðan sáum við "vítt of heima alla" þar sem við gátum virt fyrir okkur Aðalvík, Rekavík, og óendanlegt hafflæmi norðanmegin en Ísafjarðardjúpið og hluta Jökulfjarða með útsýni yfir Drangajökul hinumegin (sjá mynd). Þarna upplifðu drengirnir það að standa á vatnaskilum, í orðsins fyllstu merkingu, því þar sem við stóðum sáum við litlar uppsprettur tvær, og ekki meira en faðmur á milli þeirra. Önnur rann til suðurs, hin til norðurs.
Um kvöldið var slegið upp grillveislu eins og hefðin segir til um. Þá er farið yfir atburði ferðarinnar og valið nýtt nafn á hópinn. Var glatt á gjalla og mikið hlegið.
Veðurblíðan á Hesteyri var engu lík þessa daga. Logn á firðinum, sól og sandfjara freistuðu ferðalanganna. Enda stóðumst við ekki mátið, skelltum okkur í sundfötin og böðuðum okkur þarna í sjónum á kvöldin. Það var ótrúlega hressandi og gott.
Fjórði dagurinn var heimferðardagur. Þá var gengið út Hesteyrafjörðinn, með stuttri viðkomu í kirkjugarðinum gamla, og svo áleiðis til Aðalvíkur. Útsýnið á þessari leið er ólýsanlegt. Þegar leið á daginn sáum við úrkomubelti nálgast yfir Ísasfjarðardjúpið, en rigningin náði okkur aldrei.
Á Stað í Aðalvík á ég jarðsettan móðurbróður, Odd Ó. Thoroddsen sem hrapaði til bana í Hælavíkurbjargi á Hvítasunnu árið 1911, þá nítján ára gamall. Hann var þá í ferð með afa mínum, Ólafi E. Thoroddsen, sem gerði út skútu frá Patreksfirði. Þetta vor var skútan við fiskveiðar norður af Hornbjargi og á Hvítasunnunótt komu þeir inn í Hælavík. Veður var stillt og bjart. Ungu mennirnir um borð stóðust ekki mátið að fara í bjargið eftir eggjum, þrátt fyrir bann afa míns, skipstjórans, sem vildi ekki að þeir færu. Þessi för endaði með því að Oddur lenti í sjálfheldu og félagar hans, Jón Eiríksson (síðar skipstjóri á Lagarfossi) og Sigurður Andrés, flýttu sér niður í Hælavík til að sækja mannskap og reipi honum til bjargar. Þegar þeir komu til baka var Oddur horfinn. Í þrjár vikur slæddi afi sjóinn framundan bjarginu án árangurs. Varð hann frá að hverfa við svo búið. Þrem mánuðum síðar rak lík Odds upp í Aðalvík og var hann jarðsettur þar - en afi og áhöfn voru þá löngu sigldir til heimahafnar með sorgarfregn um týndan son. Afi lét síðar gera þessum frumburði sínum veglegan legstein sem komið var upp í garðinum á Stað - og stendur sá steinn enn í góðu ástandi, þó að flest annað sé sokkið í hvönn og órækt þarna í þessum gamla kirkjugarði.
Það gladdi mig að geta vitjað þessa frænda míns sem jarðsettur var þarna fjarri ástvinum sínum og frændfólki, einungis 19 ára, sumarið 1911. Ég get þakkað Sigga mínum það að ég vitjaði leiðisins, því það var hann sem óð hvönnina upp í axlir og fann það fyrir mig. Sjálf var ég eiginlega fyrirfram búin að gefa það upp á bátinn, þar sem ég leit yfir kirkjugarðinn - taldi mig ekkert geta fundið í þessu kafgresi og hvannastóði.
En Aðalvíkin tók vel á móti okkur, þar sem við örkuðum áfram, göngumóð í átt til sjávar, eftir stuttan stans á Stað. Og það var notalegt að sjá bátinn nálgast þegar við skyldum sótt, síðdegis. Sjóferðin heim gekk vel og kyrrt í sjóinn.
Í dag verður svo farin létt 2ja tíma "afturganga" (les: eftirganga) um Korpudal, þar sem Pétur tengdafaðir minn mun slást með í för og fræða mannskapinn um byggð og búskap fyrir botni Önundarfjarðar, fyrr á tíð.
En í kvöld mun hópurinn svo halda svolítið kveðjuhóf í Edinborgarhúsinu þar sem ferðin verður væntanlega rifjuð upp með tilheyrandi gamansögum og gríni, áður en menn fara hver í sína áttina.
Gönguhópurinn samanstendur nokkurn veginn af sama fólki ár eftir ár. Það hefur þó ekki gerst enn að hópurinn sé allur í ferð - því alltaf hrökkva einhverjir úr skaftinu eins og gengur. En þeir sem hafa farið í ferðir með hópnum eru: Ólína og Sigurður (stundum með börn), Edda og Bergstein (stundum með börn), Kristín og Pétur, Helga Magnea og Einar Már (stundum með börn), Hjörtur Sigurðs, Ingibjörg Sólrún og Hjörleifur, Þórhildur og Arnar, Jón Baldvin og Kolfinna, Ragnheiður Davíðs og Sigrún Ólafs.
Bloggar | Breytt 15.7.2010 kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Æ, þessi klukkleikur!
19.7.2007 | 14:07
Ég hef ekkert vitað hvað er að gerast í þessum klukkleik sem hefur gengið á netinu síðustu daga. Fólk hefur komið inn á síðuna hjá mér og klukkað mig. Ég hef bara sagt KLUKK á móti, hin ánægðasta
En það er víst ekki leikurinn. Maður á semsagt að lista upp 8-10 staðreyndir um sjálfan sig og klukka svo jafnmarga á netinu - held ég. Jæja - best að vera ekki félagsskítur. Hér koma nokkrar staðreyndir um mig:
1) Ég er kona á góðum aldri
2) ... orðin amma - og á sætasta ömmustrák í heimi
3) Ég er fædd í meyjarmerkinu - rísandi ljón með tungl í krabba - það skýrir margt
4) ... og einmitt vegna þess að ég er "meyja" hef ég verið að dunda mér við það undanfarna daga að raða öllum bloggvinum mínum upp í stafrófsröð á síðunni minni ...
5) ... og þess vegna vil ég EKKI fá upplýsingar um að þetta sé hægt að gera með einu handtaki
6) Ég er útivistarkona og elska gönguferðir
7) Ég elska fjölskylduna mína og held ég myndi verja líf barnanna minna með mínu eigin lífi ef með þyrfti
8) Mér leiðast úrtölur ...
9) ... þoli ekki slugs og hangs
10) Ég er draumspök og svolítið göldrótt
Og svo þetta sé nú tekið saman í stuttu máli:
- Ég kostum búin ýmsum er:
- Áköf, kurteis, gjafmild, þver.
- Engan löst þó af mér ber,
- enda flókinn karakter
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)