Færsluflokkur: Bloggar

Hangið í lagakrókum - hálfrifin sjálfsréttlæting

471885A Eftir fund sem allsnerjarnefnd Alþingis hélt í gær með ýmsum aðilum vegna brottvísunar Paul  Ramses Odour úr landi kom fram að menn teldu "að málsmeðferðarreglur hefðu ekki verið brotnar" í máli mannsins (sjá frétt mbl).

 Ég furða mig á þessu - sérstaklega í ljósi þess að samkvæmt stjórnsýslulögum ber að úrskurða og upplýsa fólk um ákvarðanir stjórnvalda svo fljótt sem mögulegt er. Það getur a.m.k. ekki verið eðlilegt að birta ekki úrskurð fyrir manni fyrr en búið er að handtaka hann níu vikum síðar. Það gefur auga leið að Paul Ramses Odour átti velferð sína (jafnvel líf sitt) undir því að geta leitað annarra úrræða félli úrskurður honum í óhag. Þessi málsmeðferð getur því ekki talist eðlileg.

Vera má að meðferð Útlendingastofnunar á Paul Ramses standist lög - en lög og siðferði eru ekki endilega sami hlutur, eins og Vilmundur heitinn Gylfason benti eftirminnilega á.

Ég vona heitt og innilega að menn beri gæfu til þess að bæta úr í þessu máli - sé það mögulegt. Það er stórmannlegra að horfast í augu við það sem hefur farið úrskeiðis og bæta fyrir það, heldur en að hanga í lagakrókum á sjálfsréttlætingunni hálfrifinni.

 


mbl.is Kært til ráðherra í dag vegna máls Paul Ramses
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er mennskan?

Nú virðist sem þjóðarsálin og "kerfið" hafi orðið viðskila - að minnsta kosti vona ég að framkoma stjórnkerfisins við Paul Ramses Odour og fjölskyldu hans sé ekki til vitnis um hugarþel þjóðar minnar. 

Gestrisni og samhjálp hefur löngum verið einn mælikvarði á menningarstig þjóða. Við Íslendingar höfum í gegnum tíðina haft gestrisni í hávegum, og álitið níðingsskap að synja þeim sem þurfandi eru. Það er inngróið í þjóðarsál okkar. Það hvernig tekið er á móti nýjum samfélagsþegnum, fæddum og innfluttum, er því ekki aðeins til  vitnis um menningu okkar, heldur mennsku.

Hvernig samfélag er það þá sem rekur úr landi ungan fjölskylduföður í lífshættu? Getur slíkt samfélag kennt sig við velferð og mennsku?

Við státum okkur af því á tyllidögum að taka vel á móti flóttafólki. Það vantar ekki að stjórnmálamenn láti mynda sig og nefna á nafn þegar verið er að taka á móti hópum fólks af einhverjum ástæðum hafa flúið heimaland sitt. Þá er fjálglega talað um það að halda saman fjölskyldum, taka vel á móti og skapa skilyrði fyrir fólk til að hefja nýtt líf.

En ... nú kom maður sem leitaði á náðir okkar. Hann var ekki sérvalinn af sérstakri sendinefnd. Hann mætti ekki við ljósaleiftur fjölmiðla á Keflavíkurflugvöll í gefinni lopapeysu eins og flóttamannahóparnir sem stjórnvöld hafa státað sig af á undanförnum árum. Nei - hann kom á eigin vegum - í raunverulegri þörf fyrir aðstoð handa sér og sinni ungu fjölskyldu - eiginkonu og nýfæddum syni. Hann bað um hæli, maður í hættu staddur.

Viðbrögðin? Mannréttindi hans hafa verið fótum troðin. Hann var svikinn um þá málsmeðferð sem hann átti rétt á. Svikinn um svör, blekktur ... og sendur úr landi. Rifinn frá nýfæddum syni og ungri konu. Fjölskyldunni sundrað.

Yfir móður og mánaðargömlu barni vofir að verða vísað úr landi á næstu dögum.

Við Íslendingar höfum viljað kalla okkur menningarþjóð - en hver er mennska okkar?

 


mbl.is Óvissuástand hjá Paul Ramses
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullt hús af fólki, hundum og ... ég í bloggfríi

Ég er enn í bloggfríi - þessi færsla er eiginlega bara svona ósjálfrátt viðbragð af því að ég fékk fiðring í fingurna þegar ég fór að kíkja á moggabloggið. En satt að segja hefur verið svo mikið að gera hjá mér undanfarna daga - fullt hús af fólki og hundum - og enginn tími til að skrifa bloggfærslur.

InyrriPeysu (Medium) Daði Hrafn ömmustrákur er í heimsókn með pabba sínum (honum Dodda mínum), mömmu sinni (Erlu Rún tengdadóttur minni) og heimilishundinum þeirra (henni Vöku).

Saga dóttir mín er hér líka.

Skutull0608 (Medium) Og svo má ekki gleyma nýjasti fjölskyldumeðlimnum, en það er hvolpurinn Skutull. Tíu vikna border-collie hvolpur (svona að mestu), algjört krútt. Hann á litla systur sem er algjör dúlla líka - og hana vantar sárlega heimili. Áhugasamir gefi sig fram hið fyrsta.

 En sumsé. Hér eru sem stendur sjö manns í heimili og þrír hundar. Jebb ... líf og fjör! Og ekki við því að búast að húsmóðirin sitji mikið við skriftir eins og ástatt er.

Hér sjáið þið nokkrar myndir af heimilishaldinu undanfarna daga.

P1000295 P1000465 (Medium) hundaburid (Medium) mátun (Medium) skutull08 (Medium)


Til hamingju með daginn allar!

þungun Ég vil óska okkur kvenþjóðinni til hamingju með daginn. Í tilefni af því geri ég eins og Jenný Anna bloggvinkona mín: Letra óskir mínar með bleiku.

Læt svo fljóta með vísukorn sem eitt sinn hraut af vörum mér á vísnakvöldi þar sem ég var spurð um hver væri munur karls og konu:

  • Hraustur ber á herðum sér
  • heljarfargið lóðar.
  • Hún þó undir belti ber
  • bestan auðinn þjóðar.

Og nú er ég farin í bloggfrí Smile


Sumarfrí á blogginu

Framundan er nokkurra daga bloggfrí. Er á leið vestur í Breiðavík á landsæfingu með Björgunarhundasveit Íslands. Vona bara að við mætum ekki bjarndýrum þar. Frown Eftir það mun ég hafa í ýmsu að snúast svo ég reikna ekki með að skrifa mikið á bloggsíðuna mína alveg á næstunni.

Við skulum bara kalla þetta sumarfrí á blogginu. Wink Sjáumst síðar, vonandi endurnærð og hress.

 Bestu kveðjur til ykkar allra, þangað til.

P1000281 (Small)


Logandi harðsperrur - fimmtugsafmæli og fleira

Nú sit ég með logandi harðsperrur og strengi eftir að hafa gengið á Esjuna ásamt vinafólki á sunnudaginn í yndislegu veðri og frábæru útsýni. Jamm, það var lokahnykkurinn á frábærri borgardvöl í "sumarbústaðnum" okkar á Framnesvegi.

Já, þannig er það nú með okkur hjónin, að líf okkar skiptist í meginatriðum á milli tveggja heima, má segja: Vestfjarða og Reykjavíkur. Okkar sumarhús er ekki inni í skóglendi einhversstaðar utan þéttbýlis, heldur stendur það á horni Holtsgötu og Framnesvegar, innan um önnur hús  í Vesturbæ Reykjavíkur.

Í þetta gamla hlýlega hús, sem við höfum átt í 19 ár, sækjum við einatt hvíld og upplyftingu með þeim vinum og ættingjum sem tilheyra hinum Reykvíska hluta lífs okkar - auk þess sem það er aðsetur okkar í vinnuferðum og erindum ýmiskonar.

Tilefnið að þessu sinni var fimmtugsafmæli eiginmannsins, þann 13. júní síðastliðinn. Hann vildi lítið láta fyrir sér fara á  afmælisdaginn og var því "að heiman" (þ.e. ekki á Ísafirði) en þó "heima við" (á Framnesveginum). Þetta var rólegur en skemmtilegur afmælisdagur, því vinir og kunningjar litu við í tilefni dagsins og þáðu léttu léttar veitingar. Ekkert formlegt, bara afslappað rennerí og innlit fram eftir kvöldi.

Sjálf afmælisveislan verður svo haldin síðar - því ég stefni að því að ná honum í haust.  Þá langar okkur að halda sameiginlega afmælisveislu með tilheyrandi húllumhæi hérna fyrir vestan.

Í augnablikinu er ég sumsé gift "eldri" manni sem kominn er á sextugsaldur. ÉG ætla að njóta þess næstu tvo og hálfan mánuðinn að vera bara rétt rúmlega fertug - þ.e. "unga konan" í sambandinu. Wink

P1000434 (Medium)

 Hér sjáið þið afmælisbarnið með frumburði sínum, henni Sögu, dóttur okkar. Nú er aldursmunur þeirra tveggja (24 ár) orðinn minni en aldur hennar (26 ár). Já, svona líður lífið.

 

 


Sumar í borginni

Nokkrir góðir dagar í Reykjavík standa yfir núna. Við hjónakornin brugðum okkur af bæ og höfum verið í borgarleyfi þessa viku. Þá sjaldan við gefum okkur tíma í bænum er svosem alltaf nóg að gera. Við höfum verið að dytta að húsinu okkar hér á Framnesveginum, hirða garðinn og stússast. Þannig að "frí" er auðvitað ekki rétta orðið yfir þessar borgardvalir. En það samt afslappandi að taka til hendi þegar tími gefst til og ákveðin hvíld að fást við eitthvað annað en atvinnuna (þó hún sé nú sjaldnast langt undan).

Veðrið hefur leikið við okkur og fyrir vikið kemur maður ekki eins miklu í verk og upphaflega var áætlað. En hvað um það - sólin skín og nú er sumar í borginni. Smile


Veggjakrot og veggjalist - ég er með tillögu

graffiti Ég vil gera það að tillögu minni að Reykjavíkurborg geri tilraun með að ná sáttum við veggjakrotara og veggjalistamenn. Sáttin felist í því að sett verði stór spjöld - svona á stærð við húsgafl - á völdum stöðum í borginni. Þessi spjöld verði til afnota fyrir þá sem þurfa að fá útrás fyrir skreytilist sína með spreybrúsanum, hvort sem það eru veggjalistamenn eða veggjakrotarar en á þessu tvennu, veggjalist og veggjakroti, er nefnilega allverulegur munur.

 Veggjakrot er náskylt þeirri frumstæðu þörf hunda og ýmissa rándýra að merkja veggjakrotsér svæði og óðul. Hópar og klíkur sem ganga á milli hverfa og svæða setja merki sitt við útjaðrana og tilkynna þar með "hér var ég" - sem þýðir "þetta á ég". Þessi tegund veggjakrots er afar hvimleið, enda eirir hún engu, hvorki íbúðarhúsnæði né opinberum byggingum, strætisvagnaskýlum, girðingum eða auglýsingaspjöldum. Þeir sem láta undan þessari þörf láta sig engu varða eigur annarra - þeir vaða bara yfir með sínar merkingar í fullkomnu skeytingarleysi.

graffitiSvo er það veggjalistin sem ég vil kalla svo. Myndlistarverkin sem mörg hver eru tilkomumikil og falleg þó þau komi úr úðabrúsum. Þessi myndverk geta verið prýði sé þeim fyrirkomið á réttum stöðum. Víða sér maður slík verk á auðum brandveggjum eða illa hirtu atvinnuhúsnæði þar sem þau eru beinlínis til bóta (þó ekki sé það nú alltaf).

Þess vegna vil ég nú leggja þetta til við borgaryfirvöld - að listamönnum götunnar verði hreinlega boðið upp á að fá útrás fyrir sprey- og merkiþörfina einhversstaðar annarsstaðar en á húsveggjum og strætóskýlum. Það er aldrei að vita nema eitthvað sjónrænt og skemmtilegt gæti komið út úr því. Spjöldin þyrftu auðvitað að vera í öllum hverfum borgarinnar, jafnvel víðar innan hvers hverfis. En hver veit nema þau  myndu hreinlega lífga upp á umhverfið og fegra það. Húseigendur gætu þá áhyggjulausir hirt um eigur sínar án þess að eiga það á hættu að þær séu eyðilagðar með spreybrúsa daginn eftir.

 Þessi tillaga er í mínu boði og þiggjendum að kostnaðarlausu Wink


Reykjavík er ljót borg

Korpulfsstadir Þegar ég ók Vesturlandsveginn í átt til höfuðborgarinnar í fyrradag ætlaði ég að venju að líta í átt til Korpúlfsstaða sem ævinlega gleðja augu mín frá þjóðveginum. En þá blasti við mér allt önnur sjón: Risastórt gímald - ferhyrndur álkassi sem á víst að heita hús og mun eiga að hýsa Rúmfatalagerinn. Angry 

Þetta hræðilega mannvirki dregur að sér alla athygli þarna sem það stendur. Það skyggir á formfagrar byggingar gamla stórbýlisins á Korpúlfsstöðum sem Thor Jensen reisti af metnaði og rausn og sem hafa verið héraðsprýði. Nú stendur Korpúlfsstaðabýlið eins og hálfgerður hundakofi í skugga þessarar risabyggingar sem virðist frá veginum séð vera tíu sinnum stærri. Hinumegin við Vesturlandsveginn er svo Bauhaus að reisa annan kumbalda. Álíka stóran - ef marka má húsgrindina sem komin er upp - og líklega jafn ljótan.

Sundurgerðin og skipulagsleysið í íslenskum arkitektúr held ég að hljóti að vera einstök í veröldinni.  Með örfáum undantekningum er nánast allt sem hér er byggt einhverskonar formtilraunir eða skipulagsfúsk. Engin virðing fyrir því sem fyrir er. Gler og álkössum er troðið niður innan um gömul og falleg hús, í hrópandi ósamræmi við umhverfið. 

Hér áður fyrr voru hús hönnuð og byggð til þess að fegra umhverfi sitt. FríkirkjuvegurMúrsteinar og falleg náttúruefni sjást varla lengur. Ég held bara að hér á Íslandi hafi ekki komið arkitekt sem stendur undir nafni frá því Guðjón Samúelsson leið. Hann hannaði byggingar inn í umhverfi og heildarmynd. Því miður var skipulagsuppdráttum hans ekki fylgt nema að takmörkuðu leyti - en það virðist vera þjóðareinkenni á okkur Íslendingum að geta aldrei fylgt skipulagi.

Borgin ber þessa merki þar sem hálfar húsaraðir blasa hvarvetna við með sína æpandi brandveggi. Sumar götur í Reykjavík eru eins og skörðóttur tanngarður þar sem misleitar byggingar og hver sundurgerðin tekur við af annarri. Á góðum degi reynir maður að telja sér trú um að þetta sé nú hluti af hinum Reykvíska sjarma - en sannleikurinn er sá að það er ekkert sjarmerandi við þetta. Þetta er bara ljótt.

 800px-Kringlan

Kaldur arkitektúr er það sem hefur tröllriðið allri byggingarlist undanfarna áratugi. Hvort sem um er að ræða íbúðarhúsnæði, verslunarhúsnæði eða opinberar byggingar. Þetta eru allt einhverjar klakahallir. Af hverju er ekki bara hægt að byggja eitthvað fallegt? Formfagrar byggingar í samræmi við umhverfi sitt?

Mér þykir vænt um Reykjavík. En hún ljót borg.


Ljótt mál - og stóð of lengi

 JonAsgeir Þá er því loks lokið þessu makalausa Baugsmáli sem staðið hefur í sex ár og kostað mörg hundruð milljónir króna. Og til hvers var svo unnið öll þessi ár fyrir allt þetta fé? Jú til þess að sanna "sekt" hins meinta höfuðpaurs, Jóns Ásgeirs, sem samkvæmt dómi Hæstaréttar reyndist jafnast á við umferðarlagabrot að viðurlögum - eins og dæmt hafði verið í héraði.

 Eftir því sem þetta mál hefur staðið lengur, og  því meira sem hefur verið um það fjallað, þeim mun frekar hef ég hallast á að fjármunum og tímanum sem fóru í rekstur þess hefði verið betur varið í annað. Í löggæslumálefnum eru mörg brýn verkefni sem ég hefði frekar viljað sjá þessa fjármuni fara í. Til dæmis starfsemi réttargeiðdeildarinnar á Sogni - sem í ljós hefur komið að var rekin á faglegum brauðfótum og ekki allt með felldu. Til dæmis í að efla lögregluembættin á landsbyggðinni sem mörg hver kljást við manneklu og fjársvelti. Til dæmis í að bæta aðbúnað og efla betrunarstarf í fangelsum landsins almennt. Og þannig mætti lengi telja ýmislegt sem liðið hefur fyrir fjárskort á undanförnum árum.

Allir sem komu nálægt þessu máli hafa skaðast af því. Ekki bara málsaðilar sjálfir, heldur fjöldi manns sem tengdist þeim með einhverjum hætti. Hvorugur málsaðila er fyllilega sáttur með leikslokin. Og enginn almennur þjóðfélagsþegn veit raunverulega hvað þarna átti sér stað. Það vita einungis þeir sem hófu málareksturinn, hvað þeim sjálfum gekk til. Þeir eru hins vegar horfnir af sviðinu sumir hverjir - laskaðir eftir átökin.

En, vonandi er þessu nú lokið fyrir fullt og allt.


mbl.is Baugsmálinu lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband