Færsluflokkur: Bloggar

Faðirvorið milt og hlýtt með skuldunautum á beit

bænÉg man hvað Faðirvorið var mér mikil ráðgáta þegar ég var barn. Þegar mamma sagði "nú skulum við fara með faðirvorið" hugsaði ég ósjálfrátt um ilmandi vor kennt við föðurinn á himnum. Og í þessu milda vori reikuðu skuldunautin, skjöldótt og sælleg um iðagræn tún himnaríkis þar sem þau slöfruðu í sig safaríkt góðgresi. Umhverfis sveimuðu englarnir og dreifðu molum hins daglega brauðs niður af hvítum skýjahnoðrum, svona eins og þegar börnin gefa öndunum á tjörninni.

Já, merkingarfræðin var ekki beint að sliga barnshugann - enda má segja að sýn mín á inntakið hafi verið einhverskonar "innri skilningur" - sannur á sinn hátt.

Enn eru börn að læra Faðirvorið án þess að botna upp eða niður í merkingu þess. Þau fara bara með þuluna sína. Sjálf hef ég stundum hugsað mér að uppfæra bænina, til þess að fara skiljanlega með hana þegar kemur að því að setjast á rúmstokkinn með barnabörnunum og signa þau fyrir nóttina. Hef ég þá hugsað mér hana á þessa leið:

Faðir minn og móðir,
þú sem ert mér æðri,
helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki.
Verði  þinn vilji
svo á jörðu sem á himni.

Veit þú mér fæði, klæði og skjól.
Fyrirgef mér syndir mínar
og ég mun sjálf fyrirgefa öðrum.

Leiddu mig um réttan veg
og frelsa mig frá öllu illu,
því að þitt er ríkið
mátturinn og dýrðin
að eilífu.

Svo myndi ég að sjálfsögðu segja amen á eftir efninu. Halo

Þar með svifi barnið inn í svefninn á dúnléttum skýhnoðra eigin hugsana með ömmukoss á kinn. 

En ... amma sæti sennilega eftir um stund og um hana færi svolítill efafiðringur: Til hvers er maður að breyta bænum? Er rétt að svipta lítið barn hlýju og mildu faðirvori bernskunnar með skjöldóttum skuldunautum á beit?

 Woundering

 

 


Fyrst komi Flokkurinn - svo fólkið!

 "Ég er þess fullviss að formaður bankastjórnar Seðlabankans muni á endanum velja þá leið sem er best fyrir Sjálfstæðisflokkinn"  er haft eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra í Fréttablaðinu í dag. Ummælin hafa vakið athygli ýmissa sem vonlegt er - enda er boðskapur þeirra með ólíkindum: Fyrst kemur Flokkurinn, svo kemur fólkið!

Þannig hugsar ráðherra í ríkisstjórn lands sem stendur frammi fyrir mestu erfiðleikum sem gengið hafa yfir þjóðina um aldir: Nú ætti Davíð að gera það sem er best fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Sick

Ætli þetta hugarfar sé ekki einmitt vandi ríkisstjórnarinnar í hnotskurn.

I rest my case.


Davíð veit en vill ekki segja

   "Veit en vill ekki segja" gæti verið nafn á nýjum samkvæmisleik - svona orðaleik í anda Davíðs Oddssonar. Þessi leikur gæti verið tilvalin skemmtun fyrir þá sem hafa gaman af því að hleypa upp jólaboðum.

DavidGeir Leikurinn fer þannig fram að einhver úr fjölskyldunni ákveður að fara með hálfkveðnar vísur um mikilvæg atriði , jafnvel leyndarmál sem sá hinn sami hefur búið yfir all lengi og skipta fjölskylduna miklu máli. Hann gefur í skyn að einhver annar í fjölskyldunni hafi vitneskju um það sem hann veit. En hann segir samt ekki hversu mikið sá hefur fengið að vita. Hinir verða að giska - og geta í eyður - og draga ályktanir - og helst fara í hár saman yfir því sem þeir halda að hafi gerst, af því að sá sem stjórnar leiknum "veit en vill ekki segja". Tilgangurinn með leiknum er auðvitað sá að hleypa upp samkvæminu og rjúfa vina og ættarbönd þannig að sá sem stjórnar leiknum standi að lokum uppi sem sá sem einn vissi allt.

 

Sýnidæmi um þetta höfum við séð að undanförnu í ýmsum ummælum Seðlabankastjórans:

 

  •  Hann veit hvað olli því að Bretar skelltu á okkur hryðjuverkalögum - ó, já. Veit en vill ekki segja.
  • Hann vissi líka að allt var hér að fara til fjandans. Ó, já. Það kannast bara enginn við að hann hafi sagt frá því - að minnsta kosti kom það ekki fram í skýrslu Seðlabankans sem send var viðskiptaráðherranum.
  • Hann veit um fund sem hann sjálfur átti með "fulltrúum ríkisstjórnarinnar" í júní - fund sem enginn kannast við að hafi verið haldinn þá. En Davíð vill ekki segja hvað þar fór fram annað en að þar hafi hann talað um 0% líkur á að bankarnir færu ekki á hausinn - orð sem enginn kannast heldur við. Davíð "veit" við hverja hann sagði þetta og sitt hvað fleira sem fram fór . En hann vill ekki segja.
  • Í útlenskum blöðum gefur Seðlabankastjórinn í skyn að kannski eigi hann endurkomu í stjórnmálin - hann lætur berast að hann eigi kosta völ sem hann vill ekki segja nánar frá að svo stöddu. 
  • Davíð mætir á fund viðskiptanefndar Alþingis í morgun - segist þar vita ýmislegt, en ber fyrir sig bankaleynd og vill ekki segja.

 

Jebb, þannig er leikurinn í sinni (hl)ægilegustu mynd!

Whistling

Og þar með er bloggfríið mitt fokið út í veður og vind.


mbl.is Ingibjörg: Aldrei talað um 0% líkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru nú handtökuheimildirnar?

 Hvar er nú efnahagsbrotadeild lögreglunnar? Hvar eru handtökuheimildir lögreglunnar? Það vantar ekki að hægt sé að taka krakkagrey og hneppa í varðhald fyrir það að mótmæla á almannafæri. En menn sem misnota aðstöðu sína og vitneskju - misfara með það traust sem þeim er sýnt - til þess að draga sér fé, þeir ganga lausir. Ekki nóg með það, þeir eru sérstakir ráðgjafar stjórnvalda og látnir starfa með skilanefndunum sem eiga að gera upp verkin þeirra. 

Ræningjar á rannsóknavettvangi. Angry

thjofurEigendur Landsbankans og Glitnis láta peningamarkaðssjóði bankanna kaupa í fyrirtækjum sem þeir eiga persónulega þegar þeir sjálfir eru komnir í lausafjárþröng, eins og það er orðað. Þeir nota fjármuni viðskiptavina bankans til þess að bæta sér upp persónuleg blankheit.   Fyrirgefið, en þetta er í reynd ekkert annað en innherjaþjófnaður - fjármunir færðir úr sjóðum viðskiptamanna yfir í veski stjórnenda.

Svo voga skilanefndirnar sér að hylma yfir með þessum mönnum og skjóta þeim á bak við bankaleynd. Angry 

Hvar er nú dómsmálaráðherra með allar sínar sérsveitir? Af hverju er ekki ruðst inn með dómsúrskurði og gögn gerð upptæk til að upplýsa þetta mál, eins og menn gera þegar grunur leikur á um skattsvik?

Þvílíkt og annað eins. 

Burt með þetta spillingarlið - þessa afbrotamenn!

 


mbl.is Notuðu peningamarkaðssjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, hvaða spillingarlið?

Burt með spillingarliðið er krafa sem um hríð var upphaf og endir allra bloggfærslna á þessari síðu. Krafan var sett fram af ærnu tilefni, daginn sem fréttist að yfirmenn Kaupþings hefðu ákveðið að afnema skuldaábyrgð útvalinna "lykilstarfsmanna" í bankanum vegna hlutabréfakaupa sem námu tugum milljarða króna. Þetta voru sömu menn og margir hverjir höfðu tugi milljóna króna í laun á mánuði áður en bakakerfið hrundi. Þarna var manni einfaldlega nóg boðið.

Nú hef ég hinsvegar tekið eftir því að krafan "burt með spillingarliðið" er orðin að einhverskonar samnefnara yfir kröfuna um afsagnir ráðherra, vantraust á ríkisstjórnina og sem tjáning á andúð gegn stjórnmálamönnum almennt. Þetta hefur jafnvel heyrst sem vígorð gegn lögreglunni. Woundering 

Sjálfri var mér rammasta alvara með þessum orðum þegar þau voru sett fram. Þess vegna er mér heldur ekki sama hvernig þau eru notuð. Pólitísk ábyrgð er eitt - spilling er annað. Athugið það.

Ég geri skýran greinarmun á því þegar:

  • Fagráðherra eða háttsettur embættismaður verður að horfast í augu við mistök eða að eitthvað hafi farið úrskeiðis á hans vakt annarsvegar - eða
  • yfirmenn banka falsa efnahagsreikninga, búa til leppfyrirtæki til að fela og koma undan fjármunum, nýta sér innherjaupplýsingar eða fella niður skuldaábyrgðir valinna starfsmanna vegna hlutabréfakaupa, eins og dæmi eru um.

Samskonar greinarmun geri ég á:

  • Ráðherra og/eða háttsettum embættsimanni sem er persónulega tengdur spillingu á borð við innherjaviðskipti (sbr. menntamálaráðherra/ ráðuneytisstjóri fármálaráðuneytisins), eða
  • ráðherra sem ber pólitíska ábyrgð á því að eitthvað fer úrskeiðis sem hann ræður illa við eða honum hefur yfirsést (sbr. forsætisráðherra, viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra).

Ekki man ég hvort það var í Japan eða Kína sem landbúnaðarráðherrann sagði af sér þegar uppskeran brást eitt árið. Þessi ráðherra tók ábyrgð á velferð fólksins í landbúnaðarhéruðum. Hann taldi sig bera pólitíska ábyrgð sem enginn annar en hann ætti að axla, jafnvel þótt um væri að ræða atburði sem hann hafði ekkert vald á.

Það er ekki sanngjarnt að krafa um afsögn ráðherra sem ber fagpólitíska ábyrgð á málaflokki hljóði:  Burt með spillingarliðið! Tja, nema sami ráðherra hafi á einhvern hátt gerst sekur um spillingu.

Burt með spillingarliðið er setning sem hefur þýðingu í mínum huga - hún er ekki bara eitthvert gaspur út í loftið. Við þessa kröfu geta menn svo bætt því sem þeim sýnist, vilji þeir ganga lengra t.d. að krefjast afsagnar ráðherra eða ríkisstjórnarinnar í heild.

En í öllum bænum - látum orð hafa merkingu. 

Já, og ... burt með spillingarliðið! Wink


Kraftmikill flokksstjórnarfundur

Woman's%20Guide%206Í dag átti ég tveggja kosta völ: Að mæta á mótmælafund á Austurvelli, eða flokkstjórnarfund hjá Samfylkingunni. Ég valdi að mæta á flokksstjórnarfundinn og komast þar með milliliðalaust inn í samræðu við ráðherra og forystumenn flokksins um stjórnmálaástandið og framtíðarhorfurnar.

Ég sé ekki eftir því - þetta var afar gagnlegur fundur. Þarna fór fram einörð umræða, hreinskiptin og opin þar sem tæplega fimmtíu manns tóku til máls. 

Engan hefði órað fyrir því þegar við hittumst síðast á flokkstjórnarfundi um miðjan september að svo margt alvarlegt ætti eftir að gerast milli funda. Enda lá fólki nú margt á hjarta. 

Fundarmenn voru sammála um að síðustu daga hafa mikilvæg skref verið stigin - aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, sátt í Ísbjargardeilunni og afnám eftirlaunarsérréttinda ráðamanna, svo veigamestu málefnin séu nú nefnd. Í burðarliðnum er tillaga um úttekt á aðdraganda bankahrunsins.

En menn voru jafn sammála um að framundan eru mörg og knýjandi verkefni varðandi úrvinnslu, endurreisn og ekki síst uppgjör þeirra atburða sem orðið hafa - því eins og formaðurinn orðaði það í sinni inngangsræðu: Fyrst kemur fólkið, svo flokkurinn!

Mér líður betur eftir að hafa tekið þarna til máls og hlustað á flokkssystkini mín tala.

Það var mikill kraftur í þessum fundi.


mbl.is Áfallastjórnuninni lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kastljósið

Í kvöld sat ég fyrir svörum hjá Helga Seljan í Kastljósinu ásamt Berki Gunnarssyni friðargæsluliða og starfsmann hjá NATO. Umræðuefnið var efnahagsástandið, eftirlaunafrumvarpið, ræða Davíðs o. s. frv.  Ég hefði auðvitað viljað fá helmingi lengri tíma til að segja allt sem mér liggur á hjarta, en .... maður getur ekki alltaf fengið allt sem maður vill. Wink

Þið sem áhuga hafið á þessari umræðu, getið séð þáttinn hér.


Þjóð í greipum Davíðs

DavidGeirMbl.is Ég man þá tíð þegar Davíð Oddsson varð borgarstjóri í Reykjavík, ég var fréttamaður á sjónvarpinu. Mér er það mjög minnisstætt þegar hann neitaði að veita fréttastofunni viðtöl nema ákveðnir fréttamenn tækju þau. Hann ætlaði til dæmis að neita að tala við mig. Þá sýndi Ingvi Hrafn Jónsson þáverandi fréttastjóri af sér þann dug að láta Davíð Oddsson vita það að hann veldi sér ekki viðmælendur á fréttastofu sjónvarpsins. Og þar við sat.

Þetta rifjast upp fyrir mér þegar Davíð talar núna um heljartök hagsmunaaðila á fjölmiðlum. Hann hefur sjálfur haft slíkt tök,  enda átti hann eftir að verða mun valdameiri í íslensku samfélagi en þegar hann var borgarstjóri. Hann hefur viljað hafa þessi tök og beita þeim. Þannig er það nú bara - það otar hver sínum tota.

Sjálfréttlæting var orðið sem kom fyrst í huga minn þegar ég hlýddi á ræðu Davíðs á fundi Viðskiptaráðs í morgun. Vissulega var þróttur í röddinni - hann er greinilega ekki af baki dottinn.  En það er einkennilegt að hlusta á opinberan embættismann tala á formlegum fundi og eyða mestum hluta ræðutíma síns í að réttlæta sjálfan sig persónulega.

Þetta er - hvað sem öðru líður - maðurinn sem skóp skilyrðin fyrir útrásinni í krafti forsætisráðherraembættis síns með hugmyndafræði frjálshyggjunnar að vopni. Var það ekki hann sem "seldi" bankana á gjafverði? Var það ekki hann sem réði lögum og lofum, deildi og drottnaði árum saman?  Skaut sendiboða slæmra tíðinda með því til dæmis að leggja niður Þjóðhagsstofnun þegar honum líkuðu ekki efnahagsspárnar? 

Vissulega má af tilvitnunum Davíðs lesa að hann hafi varað við því sem var yfirvofandi. Það var gert í einhverjum ræðum sem enginn tók eftir á formlegum fundum þar sem menn dotta eldsnemma á morgnana og boðskapurinn fer inn um annað eyrað en út um hitt. En tók hann upp símtólið og talaði við þá sem stjórna landinu? Hélt hann vinnufundi um málið? Gerði hann tillögur um viðbrögð við yfirvofandi hættuástandi? Hvar gerði hann þær tillögur, og við hvern? Hvar eru þær?

Sjáið til, það sem Davíð gerði  var annars eðlis en það sem hann sagði. Hann safnaði ekki korni í hlöður fyrir mögru árin. Gjaldeyrisvarasjóður Seðlabankans reyndist ekki nægur þegar til átti að taka. Sömuleiðis peningastóll bankana - enda búið að lækka bindiskylduna. Hver skyldi hafa borið ábyrgð á því?

Og svo klykkir hann út með því að hann viti hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögum. Hann veit en vill ekki segja. Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega?

Eitt stendur þó eftir stálinu sterkara: Davíð Oddsson ætlar ekki að falla einn úr háu sæti. Verði hann látinn víkja úr starfi Seðlabankastjóra mun hann taka fleiri með sér. Í þessari ræðu lét hann skína í tennurnar: Davíð er þess albúinn að fletta ofan af aðgerða- og andvaraleysi annarra. Og þar liggur hundurinn grafinn. 

Það er Davíð sem hefur ráðherra Sjálfstæðislfokksins í heljargreipum, og þar með þjóðina.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spillingin rædd Á Sprengisandi

Við Grímur Atlason vorum í þætti Sigurjóns M. Egilssonar Á Sprengisandi í morgun að ræða spillingarmálin og ástandið í þjóðfélaginu. Þeir sem hafa áhuga á að hlusta á þetta geta smellt HÉR.  Að svo stöddu hef ég ekki miklu við að bæta - læt þennan skammt duga í dag.

Burt með spillingarliðið!


Nú langar mig ekki að blogga - heldur yrkja

 

Haustfjöll 

Bak við gisnar trjágreinar
stendur fjallið
á móbrúnum
haustklæðum.

Tveir hrafnar leika í lofti.

Dökkur mýrarflákinn
dýgrænn í sumar

þá angaði lyngið.

Hlæjandi börn
gripu handfylli af berjum
með bláma um varir og vanga

rjóð af heitri sól
sæl í þýðum vindi

og veröldin söng

í bláum tindum
hvítu brimi við svartan sand.

Nú bíða fjöllin
rök og þung
blæju vetrar.

Laufið fokið burt.

haustlauf 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband