Færsluflokkur: Bloggar
Stundum er þörf - stundum nauðsyn
21.12.2008 | 14:54
Það er gott þegar björgunarsveitir landsins koma að gagni og farsællega tekst til með að hjálpa nauðstöddu fólki, eins og í þessu tilfelli. Það er jafn ergilegt þegar fjöldi björgunarsveitamanna er kallaður út til þess að hjálpa fólki sem hunsar viðvaranir og anar út í ófæruna, eins og gerðist á Hellisheiðinni í nótt. Þar höfðu á annan tug manna farið upp á heiðina þótt hún væri lokuð umferð, og fest sig.
Þeir sem vaða út í óvissuna - keyra framhjá lokunarskiltum á fjölförnum leiðum, rjúka upp á heiðar þrátt fyrir viðvaranir veðurstofu og tilmæli um að vera ekki á ferðinni - gera það í trausti þessa að björgunarsveitirnar muni koma til aðstoðar ef illa fer. Og það gera þær vissulega. Þeir sem starfa í björgunarsveitum gera það af mikilli ósérhlífni og verja til þess ómældum tíma og fjármunum. Köllun björgunarsveitanna er að hjálpa þeim sem þurfa þess - líka þeim sem hafa sjálfir komið sér í vandræði. Enda virðist svo vera sem fólki finnist almennt sjálfsagt að nýta sér aðstoð björgunarsveitanna hvernig sem á stendur.
Í gær voru tvö útköll - annarsvegar vegna manna sem villtust í slæmu veðri og voru í lífshættu, að minnsta kosti annar þeirra. Þar var mannafla og tækjabúnaði björgunarsveitanna vel varið. Í hinu tilvikinu - þar sem á annan tug manna óð upp á Hellisheiði þrátt fyrir viðvaranir og pikkfestist þar - má segja að sjálfboðastarf björgunarsveitanna hafi verið misnotað.
Nú má auðvitað segja að sjálfskaparvítin séu ekkert skárri en önnur víti. Eftir að menn eru komnir í vandræði þurfa þeir auðvitað aðstoð hvernig sem sem þeir komust í vandræðin. En mér finnst koma til álita að fólk borgi fyrir björgunarkostnað þegar svona stendur á. Nóg gefa björgunarsveitarmennirnir af tíma sínum og fjármunum þó þeir séu ekki að fara upp úr rúmum sínum um miðjar nætur til að bjarga fólki sem hefur komið sér í vandræði að óþörfu. Ég verð bara að segja eins og er.
Það geta alltaf komið upp stórútköll þar sem björgunarsveitirnar þurfa á öllum sínum liðsafna að halda. Ef slíkt gerist er ekki gott að stór hluti sveitanna sé bundinn í verkefnum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir, eins og að bjarga bílstjórum sem virða ekki lokanir á vegum.
----------
PS: Meðfylgjandi mynd var tekin í sumar á æfingu Björgunarhundasveitar Íslands á Gufuskálum af Sigrúnu Harðardóttur, ungum félaga í sveitinni.
Fundust heilir á húfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hamagangur í öskjunni
18.12.2008 | 11:44
Það hefur verið hamagangur í öskjunni hjá mér síðasta sólarhringinn. Rassinn á mér stóð úr bókahillum og geymslum í allan gærdag þar sem ég var að sortera skjöl, henda og sameina í möppur. Þvílíkt og annað eins.
Ég held ég hafi losað einar tíu möppur og hent samsvarandi magni af gömlum pappírum. Ég er nefnilega að hætta í vinnunni og ganga frá á skrifstofunni. Og af því að starfið hefur verið m.a. kennsla og rannsóknir eru allskyns hlutir sem ég þarf að taka með mér heim - hitt og þetta sem ég hef sankað að mér, bæði skjöl og bækur. Þessu þarf ég öllu að koma fyrir á skrifstofunni heima - þar sem bóndi minn blessaður er nú þegar búinn að fylla hvern krók og kima með sínum skjölum og bókum. Þannig að ... það er margt sem þarf að skipuleggja.
Á meðan seyddust rúgbrauðin í ofninum hjá mér, stillt og rótt, óháð fyrirganginum í húsmóðurinni. Þau rýrnuðu talsvert - og voru ekki tilbúin fyrr en í morgun. En mikið lifandis ósköp eru þau samt bragðgóð. Ooohhhh, ég fékk mér eina volga sneið núna áðan með miklu smjöri.
5 bollar rúgmjöl
3 bollar heilhveiti
5 tsk matarsódi
3 tsk salt
1 1/2 lítri súrmjólk (eða ab-mjólk)
500 gr. sýróp
Öllu hrært vel saman og deiginu hellt til hálfs ofan í fjórar 1-líters mjólkurfernur sem látnar eru standa upp á endann í ofninum á neðstu rim. Sett inn í 150° heitan ofn og lækkað strax í 100°. Bakað í 8-10 klst eða lengur. Verður dökkbrúnt að utan fullbakað.
Sumir geyma brauðin í fernunum, ég tek þau úr þeim hálf volg.
Njótið vel - nú er ég að fara að baka kryddbrauð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Máninn hátt á himni skín
17.12.2008 | 10:53
Fyrir skammri stundu voru litirnir hér í Skutulsfirinum nákvæmlega eins og á myndinni hérna fyrir ofan: Svartalogn og dögun yfir fjöllunum. Nú hefur birt aðeins meira og "máninn hátt á himni skín - hrímfölur og grár" (ekki "blár" eins og Elín Hirst missti út úr sér í kvöldfréttatíma fyrr í vikunni).
Ég er að baka rúgbrauð - er með fjögur stykki í ofninum. Bara góð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
DV birtir gamla frétt sem ,,engu'' bætir við!?
15.12.2008 | 14:22
Á vefritinu NEI lýsir blaðamaðurinn Jón Bjarki Magnússon tildrögum þess að frétt hans um Sigurjón Þ. Árnason fv bankastjóra Landsbankans var tekin út úr blaðinu af ritstjóra DV, Reyni Traustasyni þann 6. nóvember. Mun ritstjórinn hafa sagt að "stórir aðilar" úti í bæ hafi stöðvað birtinguna og um væri að ræða líf eða dauða fyrir DV að birta ekki fréttina.
Reynir hafnar þessu og segir nú að fréttin hafi engu bætt við það sem þegar var komið fram í fjölmiðlum um að Sigurjón Þ. Árnason væri að koma sér fyrir í húsakynnum Landsbankans og hygðist þar stunda ráðgjöf fyrir fjármálastofnanir.
En ... athyglisvert er það, að frétt sem var orðin "of gömul" fyrir mánuði, skuli samt tekin til birtingar núna á vefsíðu DV. Frétt sem auk þess "bætir engu við" það sem þá þegar var komið fram.
Sé það raunverulega "bull" eins og ritstjórinn segir, að óeðlilegar ástæður hafi legið að baki því að ákveðið var að birta ekki grein Jóns Bjarka Magnússonar um Sigurjón Þ. Árnason, af hverju er hann þá að birta þessa frétt löngu síðar?
Þið fyrirgefið, en ég gef lítið fyrir þessar útskýringar ritstjórans. Verð bara að segja það eins og er. Þessi yfirlýsing blaðamanna á DV sannfærir mig ekki heldur. Hún fyllir mig bara óöryggi - já, óljósum kvíða um að blaðamenn landsins séu hreint ekki frjálsir í skrifum sínum þegar allt kemur til alls.
Fjölmiðlavaldið hefur þjappast á fárra manna hendur á undanförnum árum. Nú kemur æ betur í ljós - sem okkur hefur sum hver lengi grunað - hvað sem líður siðareglum blaðamanna og góðum ásetningi þeirra að sinna sínum störfum af kostgæfni - að íslenskir fjölmiðlar eru ekki sá frjálsi upplýsingavettvangur sem æskilegt væri.
DV virðist að minnsta kosti ekki vera það.
Reynir: Fréttin bætti engu við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Verum umræðunni til sóma
14.12.2008 | 13:22
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir tæpum tveimur árum, undirgekkst ég ákveðna skilmála sem eiga að gilda um alla bloggara. Þar segir m.a.:
Notandi samþykkir að miðla ekki ólöglegu efni, áreiti, hótunum, særandi skrifum eða nokkru öðru sem getur valdið skaða. Notandi samþykkir sérstaklega að miðla ekki háði, rógi, smánun, ógnun eða ráðast á mann eða hóp manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, í samræmi við ákvæði 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þetta þýðir að sjálf ber ég ábyrgð á því sem sagt er á þessari bloggsíðu. Það er ekki nóg að ég sjálf gæti orða minna, heldur hef ég skyldu til að birta ekki á minni síðu efni sem felur í sér áreiti, hótanir eða særandi skrif, hvað þá háð, smánun, ógnun eða aðför að einstaklingum eða hópum.
Að gefnu tilefni neyðist ég nú til að árétta þetta. Um leið tek ég skýrt fram að hér eru allar skoðanir velkomnar svo framarlega sem framsetning þeirra er innan velsæmismarka. Séu þær það ekki áskil ég mér allan rétt til að eyða þeim út.
Í öllum bænum, berum þá virðingu fyrir eigin lífskoðunum og annarra, að skrif okkar séu málstaðnum og okkur sjálfum til sóma. Og þið sem hafið gengið hvað lengst í reiðiskrifum ykkar með því að uppnefna fólk, smána það og lífsskoðanir þess með niðrandi samlíkingum - ekki svína út bloggsíður annarra með þessháttar skrifum. Stofnið ykkar eigin bloggsíður og takið þar sjálf ábyrgð á orðum ykkar.
Að þessu sögðu vil ég vekja sérstaka athygli á aldeilis hreint frábærri grein eftir Einar Má Guðmundsson rithöfund sem birtist í Sunnudagsblaði Moggans í dag. Kapítalismi undir jökli nefnist hún. Snilldar grein - skyldulesning.
Eigið góðan sunnudag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Mikilvægar upplýsingar
13.12.2008 | 18:04
Þá hefur Ingibjörg Sólrún talað hreint út varðandi ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn - og það eru orð í tíma töluð. Margir hafa velt því fyrir sér að undanförnu hver væri staðan í stjórnarsamstarfinu. Nú vitum við það: Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera upp við sig Evrópumálin. Gangi í sundur með flokkunum í því máli má búast við stjórnarslitum og kosningum. Verði ekki kosningar má búast við breytingum í ríkisstjórninni.
Það er mikilvægt fyrir almenning að fá vitneskju um hvað forystumenn Samfylkingarinnar eru að hugsa núna.
En svo er spurning hvort þetta er nóg. Hvort almenningur sættir sig við annað hvort eða, þ.e. kosningar eða "breytingar" í ráðherraliðinu. Það á eftir að koma í ljós.
Ríkisstjórnin verður að svara kalli um breytingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (49)
Verum neytendur og neitendur
11.12.2008 | 21:27
Ég hef oft verlsað í Next og Noa Noa - þar hafa fengist falleg föt. Ég er hætt því. Málið er einfalt, eins og bloggvinur min Jón Ragnar Björnsson hefur skilmerkilega sett það upp, og ég leyfi mér að vitna beint í þá þríliðu:
- Verslanir settar á hausinn.
- Skuldirnar skildar eftir í bönkunum. Ég, börnin mín og barnabörn ásamt hinum óbreyttu Íslendingunum greiðum skuldirnar.
- Fyrri verslunareigandi kaupir skuldlausar verslanirnar og getur byrjað upp á nýtt og lifað hátt, þangað til hann setur aftur á hausinn.
Þetta er sumsé Nýja Ísland. Það er eins og þeir sem halda um fjármál og viðskipti séu orðnir svo spilltir í gegn að þeim sé ómögulegt að rífa sig upp úr sukkinu. Við, þessi svokallaði almenningur, megum bara standa agndofa og horfa upp á aðfarirnar - eða hvað?
Við getum beitt okkur sem neytendur - já og þar með líka sem neitendur með einföldi i þ.e. með því að neita einfaldlega að versla við þá aðila sem hafa komist yfir eignir með þessum hætti.
Next og Noa Noa aftur í eigu sömu hjóna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Hvar er hátekjuskatturinn?
11.12.2008 | 11:22
Jæja, þá er komið að því að boða skattahækkanir - flata 1% hækkun á línuna. Allt í lagi með það - bjóst svosem við einhverjum skattahækkunum eins og á stendur. En hvar er hátekjuskatturinn?
Þegar að herðir og leggja þarf auknar byrðar á samfélagið er ekki til mikils mælst þó þeir sem bera meira úr býtum taki á sig aðeins meiri byrðar en hinir. Það er grundvallarhugsun jafnaðarstefnunnar að hver maður leggi af mörkum í samræmi við það sem hann aflar og að allir menn njóti grundvallar lífsgæða.
Flöt skattahækkun á línuna er ekki í anda jafnaðarstefnunnar - síst af öllu eins og á stendur í samfélaginu. Nógu hefur nú almenningur tapað samt.
----------------------
PS: Og að lokum - til ykkar sem hafið svínað út athugasemdakerfið hjá mér með ómálefnalegum og rætnum athugasemdum um menn, málefni og stjórnmálaflokka síðustu daga: Nú mun ég ekki hika við að henda athugasemdum ykkar út ef mér ofbjóða þær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (72)
Fjölmiðlar eru fjórða valdið
11.12.2008 | 10:30
Um þessar mundir reynir mjög á íslenska fjölmiðla að standa sig sem fjórða valdið. Það gera þeir því aðeis að vera á vaktinni, kafa sjálfstætt ofan í mál og halda opinberum rannsóknaraðilum þar með við efnið.
Mogginn hefur boðað að á morgun muni hann fjalla um kaup Baugs á 10-11 verslununum af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Fréttin í dag fjallar um sérkennileg kaup og eignatengsl milli Kaldbaks, Burðaráss og eignarhaldsfélagsins Samson Global Holdings þar sem Björgúlfur Thor Björgúlfsson hefur setið beggja vegna borðs sem eigandi Samsons annarsvegar og stjórnarformaður almenningshlutafélagsins Burðaráss hinsvegar.
Ég vona að mogginn láti ekki hér við sitja heldur haldi áfram að fletta ofan af hagsmuna- og hugsanlegum spillingartengslum í íslensku fjármálalífi. Ekki veitir af.
Sami maður beggja vegna borðsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Af hverju vissi ráðherra ekki?
9.12.2008 | 20:51
Í framhaldi af þessum fréttum um endurskoðun KPMG og rannsókn fyrirtækisins á viðskiptum Glitnis fyrir bankahrunið finnst mér tímabært að rifja upp lögin um ráðherraábyrgð (HÉR), sérstaklega 2. gr., 6. gr. og 7. gr.
Hvernig stendur á því að viðskiptaráðherra vissi ekki af því að KPMG - sem sá um endurskoðun sumra stærstu hluthafa gamla Glitnis - hefði verið falin rannsóknin á viðskiptum bankans fyrir hrunið? Fyrirtækið hefur verið í þessari rannsókn í tvo mánuði.
Hvernig má það vera að viðskiptaráðherra veit ekki hvernig staðið er að þessari rannsókn og hverjir hafa hana með höndum? Hver ber ábyrgð á því að upplýsingar um þetta fyrirkomulag bárust ekki til ráðherrans? Undirmenn hans? Hann sjálfur? Er ráðuneytið kannski ekkert að sinna framgangi málsins - bara ekkert að fylgjast með? Þekkja þeir kannski ekki 9. gr. laganna um Stjórnarráð Íslands (HÉR) þar sem segir ,,Ráðuneyti hefur eftirlit með starfrækslu stofnana, sem undir það ber, og eignum á vegum þeirra stofnana"?
Það er óviðunandi annað en að skýring verði gefin á þessu vitneskjuleysi.
Þeir Atli Gíslason og Lúðvík Bergvinsson ræddu þetta í Kastljósi í kvöld. Atli rökstuddi mál sitt vel. Lúðvík talaði of mikið, greip of oft fram í og sagði of oft "það verða auðvitað mistök". Það er ekkert auðvitað eða sjálfsagt við hugsanleg mistök - síst af öllu þegar menn eiga að vanda sig.
Ef menn (les: ráðherrar) komast ekki yfir það að fylgjast með því sem er að gerast á þeirra eigin heimavelli, þá verða þeir einfaldlega að fá liðsauka. Það er ekki þeirra sjálfra að standa alla pósta, og sinna öllum verkum. En þeir bera ábyrgð á því að vaktstöðurnar séu mannaðar og upplýsingar berist.
Björgvin vissi ekki um KPMG fyrr en í gær | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)