Óboðleg líkamsræktartæki - tilvalin fyrir landsbyggðina!?
3.4.2008 | 14:08
Þessi frétt birtist á visir.is nú skömmu fyrir hádegi:
Orkuveita Reykjavíkur auglýsir til sölu í Morgunblaðinu í dag fjöldann allan af líkamsræktartækjum. Um er að ræða gömul tæki sem fyrirtækið keypti notuð þegar nýja húsið var tekið í notkun. Tilvalið fyrir fólk á landsbyggðinni" segir Sigrún A. Ámundadóttir hjá Orkuveitunni /.../ Sigrún segir að tækin séu mörg hver komin til ára sinna og séu ekki boðleg líkamsræktarstöðvum í Reykjavík. Þetta eru engu að síður tæki sem stöðvar úti á landi geta boðið sýnum viðskiptavinum, við gerum nefnilega minni kröfur úti á landi," segir Sigrún en öll tækin verða seld í einu lagi.
Hmmm ... líkamsræktartæki sem þykja "ekki boðleg" lengur ... nema landsbyggðafólki.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hvað skal með Hannes?
3.4.2008 | 10:19
Já, hvað á háskólarektor að gera við Hannes Hólmstein Gissurarson nú þegar hæstiréttur hefur dæmt hann fyrir ritstuld? Vefsíðan kistan.is hefur undanfarinn sólarhring beint nokkrum spurningum til háskólasamfélagsins um þetta mál. Af þeim svörum sem komin eru er ljóst að menn vilja að háskólarektor aðhafist á einhvern hátt og að menn telja dóm hæstaréttar eðlilegan.
Salvör Gissurardóttir bloggar í dag um þetta tiltæki kistunnar.is og telur að þarna sé ómaklega vegið að Hannesi bróður hennar. Hann sé þarna hafður að háði og spotti. Það er full ástæða til þess að hafa það sjónarmið í huga að hugsanlega fari menn offari í þessu máli. Söfnun álita eins og á sér stað á kistunni.is getur orkað tvímælis - því með henni er hætt við að það myndist sveifla eða stemning sem kannski er ekki nægilega yfirveguð. Aðgerðarleysi og þögn háskólans á þar trúlega nokkra sök.
Þó er ég ekki sammála bloggvinkonu minni Salvöru. Þeir fræðimenn sem tjá sig á vefsíðu kistunnar eru (flest)allir að gera það af af einurð sýnist mér. Ég er ein þeirra sem svaraði spurningum vefsíðunnar og gerði það af fullri alvöru, þó ég hefði ekki mörg orð. Fólki finnst að rektor - eða yfirstjórn háskólans - eigi að bregðast við. Fólki líður illa með stöðu málsins eins og hún er. Þetta verður að virða og það er full ástæða líka til þess að þetta komi fram.
Mál Hannesar hefur leitt eitt gott af sér - og það er umræðan og aukin vitund um meðferð ritheimilda í fræðiskrifum.
Dr. Gísli Gunnarsson, sagnfræðingur, kemur inn á það mál í sínu svari til kistunnar. Þar vekur hann athygli á þeim plagsið fræðimanna að stela verkum og hugmyndum með því að vitna ekki í frumheimildir, heldur milliliði. Höfundur A setur fram hugmynd eða kenningu sem B tekur upp. Síðan kemur C og notar kenninguna með því að vitna í B en ekki A.
Fyrir þessu hafa margir orðið, m.a. Gísli sjálfur, ég og margir fleiri. Þessi umræða er löngu tímabær - og mál til komið að hrista háskólasamfélagið aðeins til varðandi þetta, því þarna eiga margir sök.
Þó að svar Gísla sé yfirvegað og sett fram af sanngirni, get ég þó ekki tekið undir allt sem hann segir. Hann telur til dæmis að háskólayfirvöld geti ekki vikið Hannesi úr starfi vegna þess að hann hafi ekki brotið hegningarlög.
Brot í starfi þarf ekki að snúast um almenn hegningarlög - heldur gildandi starfsreglur. Séu þær brotnar, þá hlýtur viðkomandi stofnun eða fyrirtæki að bregðast við. Það er svo kaleikur yfirstjórnar stofnunarinnar að bregðast rétt við - en þann kaleik vill sjálfsagt enginn taka af háskólarektor eins og sakir standa.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Vestfirsk náttúra eignast málsvara
1.4.2008 | 23:33
Á laugardaginn verða stofnuð samtök til verndar vestfirskri náttúru - og var mál til komið. Ég hef verið að stússast í undirbúningi að stofnun þessara samtaka nú um nokkurt skeið ásamt góðu fólki (aðallega konum). Með framtakinu má segja að vestfirsku náttúruverndarsamtökin sem sofnuðu út af fyrir um tveimur áratugum gangi nú í endurnýjun lífdaga undir heitinu Náttúruverndarsamtök Vestfjarða (en hétu áður Vestfirsk náttúruverndarsamtök).
Vestfirsk náttúruverndarsamtök voru upphaflega stofnuð í Flókalundi árið 1971. Þau létu að sér kveða, gáfu m.a. út tímaritið Kaldbak og áttu stóran þátt í friðlýsingu Hornstranda. Af einhverjum ástæðum féll starfsemin niður eftir fimmtán ár og hefur legið niðri síðan. Nú er því mál að vakna. Nýting Hornstrandafriðlandsins, áform í ferðamennsku, rannsóknir og nýting náttúrugæða og vistkerfis, umræða tengd olíuhreinsistöð, pólsiglingum, hafnarmannvirkjum og samgöngum - allt kallar þetta á að vestfirsk náttúran hafi formlegan málsvara í heimabyggð.
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra verður heiðursgestur stofnfundarins sem verður haldinn kl. 14:00 í Hömrum á Ísafirði. Hún mun ávarpa fundinn. Meðal annarra frummælenda verða Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ómar Ragnarsson. Úr hópi heimamanna munu Þórhallur Arason, Sigríður Ragnarsdóttir og Ragnheiður Hákonardóttir taka til máls. Ég hef tekið að mér fundarstjórn og mun gæta þess að allt fari vel og virðulega fram.
Helstu verkefni náttúruverndarsamtaka eru verndun náttúru, umhverfisfræðsla, friðlýsing merkra og fagurra staða, verndun minja og skynsamleg nýting náttúruauðlinda. Vestfirðingar hafa löngum verið hreyknir af þeirri einstöku náttúrufegurð sem hér ríkir og hún er stór og mikilvægur þáttur í þeirri ímynd sem Vestfirðingar hafa skapað sér á undanförnum árum.
Við hvetjum því Vestfirðinga til að mæta á fundinn og láta sig varða þetta mikilvæga málefni. Þeir sem ekki komast en vilja ganga í samtökin geta haft samband við mig (s. 8923139), Bryndísi Friðgeirsdóttur (864 6754) eða Sigríði Ragnarsdóttur ( 861 1426) eða sent tölvupóst á netfangið smg5@simnet.is.
Sjáumst vonandi sem flest á laugardag

Bloggar | Breytt 2.4.2008 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Naktir vegagerðarmenn: Frábær mótmæli!
1.4.2008 | 10:36
Vestfirskir vegagerðamenn hafa ákveðið að mótmæla með afar athyglisverðum hætti afleitum vegsamgöngum í fjórðungnum. Þeir segja að nú sé mælirinn fullur, þeir geti ekki lengur setið aðgerðarlausir með hendur í skauti. Vegasamgöngur á Vestfjörðum séu klárt brot á mannréttindum.
Og hvað ætla mennirnir að gera? Haldið ykkur! Þeir ætla að láta mynda sig nakta á vegum úti, og fylgja þannig fordæmi kanadískra karlmanna. Þetta kemur fram á skutull.is í dag.
Með þessu vonast þeir til að vekja athygli sem flestra á að samgöngubóta sé mikil þörf, svo Vestfirðingar komist inn í 21stu öldina. Í framhaldinu ætla þeir að láta útbúa dagatal með myndunum og fer ágóðinn af dagatalinu í jarðgangasjóð sem þeir hafa stofnað. Ljósmyndarinn Spessi hefur lagt verkefninu lið og mun mynda vegagerðamennina á næstu misserum, en dagatalið sem er fyrir árið 2009 kemur út í haust.
Spessi segir þetta vera spennandi verkefni. Hann hefur tekið nokkrar prufur sem hann segir að komi vel út - sjá til dæmis þessa hér.
Hávaði er stjórntæki
31.3.2008 | 23:28
Hávaði er stjórntæki - hann er notaður markvisst til þess að stjórna kauphegðun fólks og neysluvenjum. Þessu hef ég nú loksins áttað mig á og það sýður á mér við tilhugsunina um það hvernig maður lætur stjórnast af áreitum eins og til dæmis hávaða.
Raunar tók ég aldrei eftir þessu þegar ég var yngri. Kannski voru eigendur verslana og veitingahúsa ekki jafn útsmognir í að beita þessu þá og þeir eru nú. En með árunum hef ég orðið þess vör að hávaðinn í kringum mig er sífellt að aukast. Sérstaklega þegar ég fer út fyrir landsteina. Á sumardvalarstöðum í sunnanverðri Evrópu er ástandið orðið þannig að það er hvergi friður fyrir tónlist. Í öllum verslunum, á öllum veitingahúsum, í lyftum, jafnvel á salernum ómar hvarvetna tónlist. Eiginlega er ekki rétt að segja að hún "ómi". Þetta bylur á manni í sífellu og hækkar eftir því sem nær dregur helgi, og eftir því sem líður á daginn. OG það er hvergi friður fyrir þessu. HVERGI.
London er engin undantekning. Þar sem ég hélt að Bretar væru séntilmenn, þá mannaði ég mig upp í það - þar sem ég lenti ítrekað í því að fá borð beint undir hátalara - að biðja um að tónlistin yrði lækkuð lítið eitt. Það bar ekki árangur. Þjónarnir ypptu öxlum og sögðu afsakandi að þeir gætu því miður ekkert gert. Það væri nefnilega búið að prógrammera tónlistina. Á tveimur veitingahúsum var gefið sama svar.
Og þar sem ég sat með síbyljuna í eyrunum, og þann góða ásetning að láta þetta ekki eyðileggja fyrir mér kvöldið, fór ég að fylgjast með fólkinu umhverfis mig. Ég sá pirraða matargesti á yfirfullum veitingahúsum moka í sig matnum og flýta sér síðan út. Um leið voru komnir nýir gestir á borðið. Þá rann upp fyrir mér að til þess er leikurinn einmitt gerður. Á veitingahúsum miðborgarinnar er tónlistin beinlínis notuð til þess að stýra því hversu lengi fólk staldrar við, sérstaklega um helgar þegar annríkið er mest. Því fleiri gestir sem koma og fara á einu kvöldi, því betra fyrir veitingahúsið. Af þessu leiðir að því meira sem er að gera, því hærri verður tónlistin - til þess að fólk staldri skemur við, borði meira og hraðar og forði sér svo.
Í miðri viku þegar minna er að gera lækkar tónlistin. Þá er notalegt að sitja kyrr og spjalla. Og það gerir fólk. Þeir sem sitja lengur kaupa meira, fá sér einn drykk enn, skoða eftirrréttaseðilinn í rólegheitum, fá sér kannski kaffið sem þeir ætluðu að sleppa. Þá græðir veitingahúsið á því að gesturinn vilji sitja.
Og gesturinn gerir bara eins og til er ætlast, eins og kýrnar sem hlaupa á réttan stað þegar þær fá rafstuð í rassinn.
Mórallinn í sögunni? Þögnin er stórlega vanmetin sem lífsgæði.
*
PS: Að þessu sögðu er rétt að upplýsa að ég er nýkomin úr annars yndislegri helgarferð til London - þar sem ég naut dvalarinnar ásamt eiginmanni, systur og mági - þrátt fyrir hávaða.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Vorlitir yfir London
28.3.2008 | 18:22
Eg sit her a hotelherbergi i London, og pikka a lyklabord sem hefur ekki islenska stafi. Fyrir vikid er eg halfpartinn mallaus, finnst mer.
En eg er semsagt i silfurbrudkaupsferd. Jebb, tad eru 25 ar i hjonabandi, segi og skrifa! Halldora systir og Nonni, hennar madur, giftu sig sama dag og vid Siggi fyrir aldarfjordungi, i stofunni heima a Hrannargotunni. Pabbi pussadi okkur saman med syslumannsvaldi = og thad hefur bara dugad oll thessi ar - blessud se minning hans.
Nu akvadum vid systurnar ad bjoda okkar heittelskudu eiginmonnum i helgarferd til London i tilefni af tessum merka afanga.
Her er thokkalegasta vedur, solarglennur af og til og stoku rigningarskurir. Vorid er a naesta leiti ser madur a litunum; tren eru farin ad graenka og gardarnir.
Vid spigsporum um gotur borgarinnar, aetlum ad kikja i leikhus, fara ut ad borda, kannski versla svolitid og svona.
Tad verdur tvi ekki bloggad meira fyrr en eftir helgi. Sjaumst!
Launaleynd Þórhalls
26.3.2008 | 10:46
Þórhallur Gunnarsson hefur lagt fram lögbannskörfu á Ríkisútvarpið til að hindra að launakjör hans verði opinberuð. Hann segist sjálfur ætla að ráða því hvenær persónulegar upplýsingar um hann verði birtar opinberlega og telur á sér brotið ef þetta verður upplýst. Frá þessu er sagt á visir.is og það er Óskar Hrafn Þorvaldsson ritstjóri visis.is sem hefur óskað eftir þessum upplýsingum. Hann óskar ennfremur eftir því að sjá launaupplýsingar Sigrúnar Stefánsdóttur sem gegnir sama starfi og Þórhallur - kveðst hafa grun um að laun þessara tveggja stjórnenda á ríkisútvarpinu séu ekki sambærileg.
Nú er auðvitað hugsanlegt að launin hans Þórhalls séu svo lág að hann skammist sín fyrir að sýna það. En hversvegna þumbast útvarpsstjóri við?
Nú er það þannig að fyrirtæki sem rekin eru af almannafé hafa lögbundnar skyldur til þess að upplýsa almenning - eða fulltrúa þeirra - um stjórnsýslu sína. Og á meðan lög gilda sem banna launamismunum á grundvelli kynferðis, þá verður almenningur að geta fylgst með því að þeim sé framfylgt. Málið snýst um grundvallaratriði - jafnréttislögin - launajöfnuð. Það virðist augljóst.
Hitt er auðvitað svolítið sérkennilegt að einkafyrirtæki skuli algjörlega undanþegin upplýsingaskyldu af þessu tagi á meðan ríkisstofnanir verða að leggja allt á borðið. En þannig virkar lýðræðið. Almenningur á rétt á því að vita hvernig farið er með fjármuni hans. Og þó svo að ríkisútvarpið sé orðið ohf - þá er það enn í eigu almennings, fjármagnað af opinberu fé. Á meðan svo er verður ríkisútvarpið að lúta sömu reglum og önnur opinber fyrirtæki.
Það verður því fróðlegt að sjá hvort lögbannskrafan nær fram að ganga. Ég verð að viðurkenna að mig langar að fá þessar upplýsingar - nú þegar forvitnin hefur verið vakin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
Eldarnir þrír sem brunnu
25.3.2008 | 21:36
Þessa dagana eru tíðar fréttir af eldsvoðum og slökkvistarfi. Það er svo undarlegt með eldinn, hann á það til að "ganga ljósum logum" í orðsins fyllstu merkingu, eins og farsótt. Stundum er engu líkara en ósýnileg hönd sé að verki sem kveiki nýjan eld jafnóðum og annar slokknar.
Eldurinn er merkilegt fyrirbæri. Hann bæði yljar og eyðir eins og ástríður mannanna, skapsmunir og aðrar tilfinningar. Það er því ekki að furða þó eldurinn hafi orðið skáldum og heimspekingum innblástur á stundum.
Í ljóðinu "Eldarnir þrír" sér Davíð Stefánsson tækifæri lífs síns sem kulnaða elda. Hér kemur ljóðið:
Þegar þú gekkst í garðinn fyrst,
brann gneisti í hverju spori.
En nornirnar gátu rúnir rist,
sem rændu mig sól og vori.
Eg hirti hvert sprek, sem við hafið lá,
frá hausti til hvítasunnu ...
Enn þá man eg eldana þrjá,
eldana þrjá, - sem brunnu.
Á bak við logana leyndumst við
og létum þá eina tala
um saklausar ástir, svanaklið
og sólmóðu grænna dala.
En oft er, að sumarið seiðir mest,
ef sól er að djúpi runnin,
og þegar við fundum funann bezt,
var fyrsti eldurinn - brunninn.
Sá uggur, sem fór um okkur tvö,
var öskunni mest að kenna.
Af loftinu hverfa sólir sjö,
er síðustu sprekin brenna.
En óskalandið var lýst í bann
og lífinu fjötrar spunnir.
Logarnir titruðu, tíminn rann,
unz tveir voru eldar brunnir.
Að una sem gestur í annars borg
var aldrei að þínu skapi.
Um loftið, myrkvað af leyndri sorg,
fór leiftur af stjörnuhrapi.
Á hinztu glæður brá fölskva fljótt,
því fram hjá var stundin runnin.
Þjáningin kom eins og þögul nótt
og þriðji eldurinn - brunninn.
Í dökkvanum jörðin döggvuð svaf,
og dulið var allt, sem við þráðum.
Milli okkar er hyldjúpt haf,
þó himinn sé yfir báðum.
Í fjarska eru djúpin fagurblá
þó frjósi þau, vötnin grunnu ...
Ennþá man ég eldana þrjá,
eldana þrjá - sem brunnu.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mannabein og galdur
24.3.2008 | 20:35
Hefðu "eigendur" hauskúpunnar sem fannst í Kjósinni verði uppi á sautjándu öld er nokkuð víst að þeir hefðu verið brenndir á báli sem sannreyndir galdramenn. Meðferð mannabeina í þá tíð var álitinn skýlaus vottur um fjölkynngi og ekkert annað.
Jafnvel dauðir menn voru brenndir ef í ljós kom að þeir höfðu eitthvað slíkt á sér. Það gerðist til dæmis árið 1650 þegar Jón Sýjuson var hálshöggvinn á alþingi fyrir blóðskömm. Þá uppgötvaðist eftir aftökuna að í skónum hans var hárug hausskel af manni. Höfðu menn nú snör handtök og brenndu líkið til ösku.
Meðferð mannabeina eða annarra líkamsleifa á borð við hár, neglur, jafnvel húð er þekkt í tengslum við galdraiðju og flokkast undir það sem kallað er necromantia. Í doktorsritgerð minni Brennuöldinni sem kom út árið 2000, gef ég þessu íslenska heitið náníð og tengi við myrkari gerðir galdurs á borð við þær að vekja upp og særa fram anda framliðinna. Um þetta eru þó skiptar skoðanir.
Það hljómar sjálfsagt undarlega í flestra eyrum, en þess eru dæmi enn í dag að iðkendur galdra notist við slík hjálpartæki. Til eru nornir og galdrafræðingar sem líta á líkamsleifar sem fullkomlega eðlileg meðul við galdraiðju og telja grafarmold til nauðsynjahluta. Bandaríska nornin Silver Raven-Wolf sem hefur skrifað nokkrar bækur um hagnýtan galdur, er í þeirra hópi. Ein þekktast norn á Norðurlöndum, danska galdrakonan Dannie Druehyld, talar að vísu ekki um mannabein í sinni fallegu bók Heksens håndbog, en hún er sannfærð um mátt grafarmoldar.
Ekki veit ég hvað hjólhýsafólkinu sem hafði hauskúpuna hjá sér gekk til - og ekki ætla ég að bera galdur upp á neinn. En það er hugsanlegt að þessi höfuðskel hafi einhverntíma þjónað öðru hlutverki en því að vera stofustáss.
![]() |
Hauskúpan var meðal húsmuna í hjólhýsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Flugvélagnýr í firðinum
24.3.2008 | 11:19
Jæja, þá er nú páskahelginni að ljúka. "Börnin" farin að tygja sig til ferðar eftir viðburðaríka, sólskinsdaga.
Skutulsfjörðurinn hefur svo sannarlega skartað sínu fegursta þessa góðu páska - dimmblár og spegilsléttur. Á morgnana hefur sjófuglinn liðið letilega um hafflötinn og framkallað silfurþræði til beggja átta í kyrrð og þögn. Síðan hefur lífið smám saman færst yfir bæinn; skíðabrekkurnar fyllst af fólki, og bærinn iðað af mannlífi.
Sannkallaðir dýrðardagar.
En nú er ballið búið. Í morgun var enginn sjófugl á letilegu svamli í silfurslegnum haffleti - enda sjórinn orðinn úfinn og himininn grár.
Það er flugfélagnýr í firðinum. Einn af öðrum svífa stálskrokkarnir inn yfir byggðina og tylla sér niður skamma stund. Taka síðan flugið aftur og hverfa inn í grámann, með gesti helgarinnar innanborðs.
Jamm, þetta er lífsins gangur .... best að bretta upp ermar fyrir vinnuvikuna framundan. Enda langt til næstu páska.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)