Hjartsláttur á danssýningu

leysingar Það voru svo sannarlega "Leysingar" í dansatriðum þeirra stallstystra, Sögu dóttur minnar, Evu Mariu Kupfer og Tönju Friðjónsdóttur, sem þær sýndu Ísfirðingum í Edinborgarhúsinu í dag. Ég er ekki frá því að heyrst hafi stöku hneykslunarandköf í síðara verkinu - Sabotage#1 - þar sem Saga og Eva Maria hlykkjuðust um gólfið í undarlegustu stellingum og samsetningum, án tónlistar. Um miðbik verksins var Eva Maria skyndilega orðin kviknakin  - og maður skynjaði fremur en sá hvernig áhorfendur litu hver á annan. Woundering

Það skal viðurkennt að inntak verksins lá ekki í augum uppi - og sem listræn upplifun reyndi það á áhorfandann. "Dans" er eiginlega ofmæli um það sem þarna átti sér stað - í raun væri nær að tala um hreyfilist.

Hvað um það - ég er ekki frá því að farið hafi um suma í þessu tiltekna atrið. Þarna voru mæður með barnungar dætur sínar sem bjuggust kannski við einhverju öðru en einmitt þessu - voru kannski að bíða eftir "ballettinum".

Og ég verð að viðurkenna að  þegar Eva Maria var komin úr hverri spjör og farin að sparka í allar áttir - fylltist ég þeirri skelfilegu tilhugsun að kannski mynda Saga mín líka fara að rífa sig úr fötunum. Blush Mér leist satt að segja ekki á blikuna - og prísaði mig sæla þegar verkinu var lokið og hún a.m.k. alklædd. Ég meina ... við erum jú á Ísafirði, ekki í Amsterdam.

Fyrra verkið "Leysingar" var allt annars eðlis. Það dönsuðu þær Saga og Tanja við undirleik þríeykisins Melneirophreinia sem þeir skipa Gunnar Theodór Eggertsson, Hallgrímur Jónas Jensson og Hallur Örn Árnason. Dansverk og tónlist voru í sameiningu dramatísk og ljóðræn upplifun. Eiginlega varð ég ekki síður hrifin af tónlistinni en dansinum. Það verður bara að segjast eins og er að þessir strákar eru meiriháttar.

Saga og Tanja sýndu góðan samleik í þessum dansi. Þær voru vatnsdropar sem slitnuðu sundur, elskendur sem sameinuðustu og sundruðust, klaki sem bráðnaði, gróður sem spratt upp úr jörðinni, ungt fólk sem dansaði ... þær sameinuðust tónlistinni og hver annarri afar vel. Verkið snerti ýmsa strengi.

Á heildina litið er ég sátt.

Ég veit hinsvegar ekki hvort þær eru það mömmurnar sem sátu með litlu stelpurnar sínar og biðu eftir ballett-atriðinu. Það verður bara að koma í ljós. Nútímadans er eins og önnur nútímalist - hann getur verið bæði átakamikill og ögrandi. Þegar best lætur ýtir hann hressilega við áhorfandanum og skilur eftir einhverskonar eftirbragð sem lifir með manni - stundum lengi.

Bæði þessi dansatriði skildu eitthvað slíkt eftir sig - hvort með sínum hætti.

 

 


Leysingar um páska

Skíðaland Ísfirðinga er uppljómað af sól þessa dagana. Við skelltum okkur á skíði í gær, það var dásamlegt veður. Ég hef ekkert farið á skíði í vetur, þó skömm sé frá að segja, og er því ekki alveg laus við harðsperrur. Wink

Bærinn iðar af menningu og mannlífi þessa dagana.

 saga-dansarÍ dag kl. 17:00 ætla Saga dóttir mín og tveir dansarar með henni, Eva Maria Kupfer og Tanja Friðjónsdóttir, að sýna tvö frumsamin nútímadansverk í Edinborgarhúsinu. Verkin heita  Leysingar og Sabotage#1eru samin af þeim stöllum ásamt hljómsveitinni Malneirophreinia. Þetta verður MJÖG spennandi.

 Stelpurnar útskrifuðust allar saman frá danshöfundadeild Listaháskólans í Arnhem í Hollandi fyrir tveimur árum og hafa getið sér gott orð sem dansarar og danshöfundar síðan. Saga til dæmis vann til 1. verðlauna sem danshöfundur í alþjóðlegri danshöfundakeppni í Búdapest í janúar í fyrra og hefur hlotið mjög lofsamlega dóma fyrir verk sín, m.a. í þýska danstímaritinu Tanz. Meðan hún var í dansnámi fékk hún fjárstyrk úr Minningarsjóði Gyðu Maríasdóttur - fyrrverandi skólastjóra Húsmæðraskólans Óskar á Ísafirði. Nú langar hana að þakka fyrir sig með þessum hætti. Smile

Jæja, má ekki vera að þessu - þarf að skella mér á skíði og vera komin á

 skiikkanlegum tíma til þess að sjá danssýninguna. Svo er allur hópurinn í mat hjá mér í kvöld.

Gleðilega páska!

páskar


Skíðavikan brostin á

skidi-ReykjavikIs Þá er páskafríið hafið - og börnin mín tínast heim í foreldrahús - þau sem það geta. Það eru þó aðeins tvö (af fjórum brottfluttum) sem koma vestur á Ísafjörð að þessu sinni. Saga og Pétur eru á leiðinni vestur - bæði með vini sína með sér. Svo það verður mannmargt hjá mér þó svo að húsið fyllist ekki af mínum eigin afkomendum.

Hjörvar sonur minn (14 ára) er alsæll yfir því að Nonni frændi hans (15 ára) er kominn í heimsókn vestur. Nú fara þeir á hverjum degi beint upp á skíðasvæði - Pétur afi keyrir þá - og eru þar allan daginn. Svo fara þeim saman heim til Hjördísar ömmu og leyfa henni að stjana við sig þegar þeir koma niður úr fjallinu síðdegis. Sældarlíf á þeim frændum. 

Það er mikið um að vera á Ísafirði um þessa páska eins og oftast. Skíðavika Ísfirðinga var sett í miðbæ Ísafjarðar í gær. Þrátt fyrir mikið fannfergi að undanförnu þurfti að bera snjó í aðalgötu bæjarins til þess að hin árlega sprettganga, sem markar upphaf skíðavikunnar, gæti farið fram.  

 Skíðavikan er mikill hápunktur í bæjarlífinu hér á Ísafirði. Hún er alltaf haldin í dymbilvikunni, því þá flykkjast ættmenni og vinir hvaðanæva að og mikið er um að vera á skíðasvæðinu og götum bæjarins. Fossvavatnsgangan fræga, garpamótið, Páskaeggjamótið og nammiregná skíðasvæðinu eru fastir liðir. Síðustu ár hefur Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, bæst í hóp fastra viðburða á skíðaviku. Í ár er Skíðamót Íslands einnig haldið hér. Já, það er mikið um að vera.

 Jébb - það er allt að gerast á Ísafirði þessa dagana og ég HLAKKA SVO til að knúsa börnin mín - þó þau séu orðin stór. InLove

 


Rennihurðir, rétt og rangt

einelti Hið góða sem ég vil, það gjöri ég ekki. Hið illa sem ég vil ekki, það gjöri ég, sagði Páll postuli á sínum tíma (Rómv. 7; 19). Allir menn kannast við þá innri baráttu sem þarna er lýst. Hún hefur fylgt mannkyninu frá öndverðu.

Getur þá einhver álasað innhverfri stúlku, sem orðið hefur fyrir einelti og aðkasti skólafélaga sinna, þó hún ráði ekki við tilfinningar sínar á erfiðri stundu? Er hægt að gera hana ábyrga fyrir viðbrögðum sínum jafnvel þó hún "þekki" muninn á réttu og röngu? Hún vildi vera ein - vildi loka að sér og ýtti á rennihurð - en var svo óheppin að kennarinn hennar varð fyrir hurðinni.

Nú hefur móðir stúlkunnar verið dæmd til að greiða 10 mkr. í bætur vegna örorku kennarans. Móðirin er gerð ábyrg fyrir hegðun barnsins vegna atviks sem á sér stað í skólanum.

Hvernig gengur það upp? Er ekki skólaskylda í landinu? Bar móðurinni ekki að hafa þetta barn í umsjá skólans? Og úr því svo er - ber skólinn þá enga ábyrgð? Ef barnið hefði nú sjálft farið sér að voða við það að ýta á rennihurðina? Hefði það klemmt sig illa, misst fingur til dæmis? Hver bar þá ábyrgð? Móðirin?

Sjálfri dettur mér ekki í hug að þessi stúlka hafi ætlað að meiða kennarann sinn. Hefði svo verið, þá hefði hún vafalaust slegið frá sér fremur en að ýta á rennihurðina. Mér sýnist augljóst að stúlkan hafi ætlað að loka að sér. Það var tilfinningaviðbragðið sem hún réði ekki við. Hún vildi vera ein. Margir hafa upplifað þessa tilfinningu og þekkja hana - nema kannski héraðsdómarinn sem dæmdi í málinu.

Það er undarlegt réttarfar að láta ábyrgðina falla á móður sem er víðsfjarri þegar atvik á sér stað.  Það er ómannúðlegt að "hanka" einhverft barn á því að það eigi að þekkja muninn á réttu og röngu.

Fólk gerir margt rangt þó það viti betur - það þekkjum við öll.


Þarf einhver að fjúka úr Seðlabankanum?

gengið  Egill Helgason velti þeirri spurningu fyrir sér á bloggsíðu sinni í gær hvort tímabært sé orðið að reka Seðlabankastjóra - til dæmis Davíð. Tilefnið er fall íslensku krónunnar. Guðmundur Gunnarsson og fleiri eyjubloggarar taka í sama streng.

Menn telja mistök Seðlabankans í því fólgin að hann hefur beitt kenningum úr klassískri hagfræði sem virka ekki vegna þess hversu hagkerfið er opið. Þar með hafi verið gerð "stórkostleg mistök" í hagstjórninni. Vöxtum hefur verið haldið ofurháum meðan erlent fjármagn hefur flætt inn í landið sem lánsfé og vegna spákaupmennsku.

 Í hálffimmfréttum greiningardeildar Kaupþings í gær var slegið á svipaðar nótur og því haldið fram að stýritæki  Seðlabankans væru hætt að virka. Þar er bent er á að svigrúm Seðlabankans sé takmarkað vegna þess hve gjaldeyrisforði bankans er lítill. "Samt sem áður. Sú staða að stýritæki bankans hafi ekki lengur virkni hlýtur að vera mjög illþolanleg fyrir bankann og skapa væntingar um einhverjar aðgerðir af hans hálfu" segir greiningardeildin.

Hmmm ... það er kannski kominn tími til að einhver í Seðlabankanum taki ábyrgð á hagstjórnarmistökunum. En halda menn að það gerist ...?

 


Er mjólk góð?

mjolkurglas Ég veit það ekki ... ég drekk ekki mjólk! segja horaðar og illa útlítandi hengilmænur og stara daufum, líflausum augum framan í myndavélina í auglýsingaherferð MS. Þar er fullyrt að mjólk sé rík af allskyns vítamínum og bætiefnum. Skilaboðin eru þessi: Ef þú neytir ekki mjólkur þá verður þú vesalingur.

Samt er það nú svo, að heimalningar sem aldir eru á mjólk úr fernu, deyja innan fárra vikna fái þeir ekkert annað. Gerilsneydd og fitusprengd mjólk er með öðrum orðum enganveginn sambærileg við þá mjólk sem kemur beint af skepnunni. Sú síðarnefnda er vitanlega lífsnauðsyn öllu ungviði - sú fyrrnefnda er það alls ekki.

Hið "ríka" vítamín-innihald unninnar mjólkur, hvert er það? Á nýmjólkurfernunni í ísskápnum mínum er það gefið upp: B-1 og B-2 vítamín, kalk og fosfór (fyrir svo utan kolvetni og prótein). Ekkert annað. Aðrar mjólkurvörur geta haft A og/eða D vítamín, að sagt er. En varla getur það talist "ríkt" vítamín innihald.

Mjólkuróþol er vaxandi vandamál - sem stafar líklega af allt of mikilli mjólkurneyslu okkar Vesturlandabúa. Í Asíulöndum þekkist ekki mjólkurneysla meðal fullorðinna - hún er vestrænt fyrirbæri. Samt er beinþynning mun alvarlegra vandamál hér á Vesturlöndum heldur en á austrænum slóðum. Nýlegar rannsóknir benda til þess að mjólk næri krabbameinsfrumur.

Er þá hægt að segja að mjólk sé góð?

Kannski getur mjólk verið góð í hófi - en hún hentar alls ekki öllum. Fyrir suma er hún beinlínis heilsuspillandi. Ég efast því satt að segja um að þessi markaðssetning mjólkur sem hollustuvöru fái staðist ströngustu siðakröfur um framsetningu auglýsinga.

Auglýsingin er í besta falli stórkostlegt ofmat á mjólk sem hollustuvöru. Í versta falli eru hún aum blekking sett fram í gróðaskyni.


Harðindi fyrir hundinn - hörkupúl fyrir mig

Vetrarnámskeið BHSÍ á Steingrímsfjarðarheiði var mikið ævintýri. Hér kemur ferðasagan.

Undirbúningur:  

  skafrenningur Daginn áður en námskeiðið hófst fór ég ásamt félögum mínum Auði og Skúla til þess að finna og merkja út hentug æfingasvæði. Við lögðum af stað um morguninn og vorum komin upp á heiði upp úr hádegi. Ekki vorum við heppin með veður. Það var mikill skafrenningur og blint þannig að okkur sóttist starfinn seint. Snjóbíll og tveir björgunarsveitarmenn frá Hólmavík aðstoðuðu okkur. Skúli var með vélsleða meðferðis og þau Auður með GPS tæki til þess að taka punkta á svæðunum. Hefði þessi búnaður ekki verið til staðar er næsta víst að værum öll týnd á heiðinni, því satt að segja sáum við ekki glóru.

Með nokkrum erfiðismunum tókst okkur að merkja út tvö svæði, en urðum að láta þar við sitja. Önnur tvö svæði urðu því að bíða næsta dags.

 

Fyrsti dagurinn:

Fyrsti dagurinn á svona námskeiði fer yfirleitt að mestu í að moka holur fyrir æfingarnar. Þá er tekin tveggja metra djúp gröf, síðan mokað inn þar til kominn er hæfilega stór hellir fyrir mann að liggja í og láta fara vel um sig. Síðan er mokað ofan í gröfina og skilin eftir svolítil rás eða op sem "fígúrantinn" getur smeygt sér niður um. Þegar hann er kominn ofan í er gatinu svo lokað og þarna dúsa menn þar til hundurinn finnur þá. Nú, eða þeir finnast með öðru móti, því fyrir kemur að hundarnir finna ekki. Þá koma að góðu gagni snjóflóðaýlarnir sem allir verða að hafa á sér við þessa iðju. Wink

 

Og hvernig liðu dagarnir? 

ReykjanesMannskapurinn gisti í Reykjanesi. Þar var stjanað við okkur í mat og öðru atlæti.

Klukkan sjö að morgni fór fólk á fætur og viðraði hundana. Þeir héldu til í búrum þessi grey.  Sumir í bílunum, aðrir inni í íþróttahúsi, svo það þurfti að viðra þá oft og reglulega. 

Klukkan hálfátta tók við morgunmatur. Við smurðum okkur nesti, settum heitt vatn á brúsa og tókum okkur til. Síðan var lagt af stað upp á svæði upp úr kl. hálfníu. Þangað kom hópurinn klukkutíma síðar.

Þá var tekið til við að hleypa úr dekkjum svo bílarnir kæmust inn á sjálf æfingasvæðin. Svo þurfti að byrja á því að opna holurnar, hreinsa upp úr þeim frá deginum áður og gera þær klárar. Þetta er heilmikið basl og brölt. Og þá - um það bil tveim tímum síðar - hófust æfingar sem stóðu með hléum til kl. hálf fimm. Þá var haldið heim á leið, eftir svolítið bras og snúninga í snjónum, menn þurftu að dæla lofti í dekkin að nýju, og það tók nú tímann sinn. 

Upp úr sex var mannskapurinn yfirleitt kominn í hús. Þá voru haldnir leiðbeinendafundir og í beinu framhaldi flokksfundir. Síðan kvöldmatur. Að honum loknum - eða klukkan átta - voru haldnir fyrirlestrar og erindi um eitt og annað sem lýtur að snjóflóðabjörgun og leit. Svo skelltu menn sér í laugina sem er heit eins og hitapottur. Þar var gott að slaka á eftir daginn.

 

Útkallsæfing: 

Þannig liðu dagarnir einn af öðrum. Á sunnudagskvöldinu var dagskráin brotin upp með útkallsæfingu strax eftir kvöldmat. Með aðstoð lögreglu var sett á svið raunverulegt snjóflóð og útkallshundarnir virkjaðir í leit: 9-10 manns "týndir" á skíðasvæði. Þetta var tilkomumikil æfing fannst mér og tókst í alla staði mjög vel. Frá því björgunarhundarnir voru komnir á svæðið og þar til tilkynnt var um síðasta fundinn liðu 53 mínútur sem er vel viðunandi.

 Síðasta kvöldið, á fimmtudagskvöld, var svo haldið lokahóf með afhendingu skírteina og viðurkenninga, skemmtiatriðum og söng og fólk gerði sér glaðan dag eftir erfiði vikunnar.  Á föstudagsmorgni tygjaði mannskapurinn sig til heimferðar - en menn voru misjafnlega hressir eins og gengur. Wink

 

Harðræði fyrir hundinn:

 Balti Ég sagði í síðustu færslu að ég væri úrvinda. Nú er ég öll að braggast - en það er önnur hér á heimilinu þreytt eftir þetta alltsaman. Það er tíkin mín hún Blíða. Þetta námskeið var mikið harðræði fyrir hana.

Það skyggði nokkuð á gleði daganna að hundurinn veiktist hjá mér og var eiginlega alveg ónýtur mestalla vikuna. Fyrsta vandamálið var eyrnabólga, og svo tók við svokölluð "vatnsrófa", á þriðja degi. Vatnsrófa (water-tale) hendir hunda sem lenda í vosbúð og bleytu (t.d. slyddu). Þetta er afar sársaukafullt fyrir hundinn og krefst verkjalyfja.  Taugaendar við rófuna  bólgna upp svo rófan lamast. Þetta líkist því helst að hundurinn sé rófubrotinn.  Blíða blessunin bar sig því illa um tíma, og ég var komin á fremsta hlunn með að taka hana heim. Hún gerði að vísu það sem fyrir hana var lagt en augljóst var að hún hafði enga gleði af því. Woundering Ég þarf því aðeins að hugsa þetta betur, hvað ég vil leggja á hana í framtíðinni.

Lærdómsríkt: 

breidadalsheidi07 Fyrir mig var þetta þó afar lærdómsríkt. Við fengum m.a. að leita  A-svæði með tveimur týndum sem hundurinn fann á innan við 25 mínútum. Mér skilst að svæðisvinnan mín hafi verið góð (í þessaari tilraun) og mér fannst mjög gaman að spreyta mig á þessu.

Ekki byrjaði ég þó glæsilega. Framarlega í svæðinu sökk ég á bólakaf í snjó og lá kylliflöt. Ekki beint tilkomumikið upphaf. Blush Ég veltist um góða stund í skaflinum, innan um snjóflóðastöngina og skófluna sem þvældust fyrir mér, og ætlaði aldrei að hafa mig á fætur. Það tókst þó með erfiðismunum, og áfram hélt ég. Þetta var svona eins og lífið sjálft - maður sekkur, bröltir upp aftur og heldur svo áfram. Wink

Jamm ...


Úrvinda og kem af fjöllum

Snaefellsnes08 Jæja, ég kem af fjöllum - í orðsins fyllstu merkingu. Úrvinda eftir tæprar vikudvöl við björgunarhundaþjálfun á Steingrímsfjarðarheiði ásamt fjölda manns úr BHSÍ, og hef hvorki lesið blöð né komist á netið "allan þennan tíma." Wink Sem var reyndar frábært!

Veðurbarin og freknótt eins og rjúpa í vorlitum, sit ég nú og kasta mæðinni með kaffibolla í hönd og bloggsíðuna opna fyrir framan mig. Komin til byggða á ný, með þrjár frunsur og vott af millirifjagikt eftir snjómokstur og bægslagang í fannfergi og fjallshlíðum.

Annars er mesta furða hvað maður saknar lítið menningarinnar þegar maður er svona úti við og fjarri mannabyggð. Maður dettur bara einhvernvegin úr sambandi. Helsta og eina fjölmiðlaefnið sem nær til manns eru veðurfréttirnar, sem maður hlustar gaumgæfilega á að sjálfsögðu, og spekúlerar svo um við morgunverðarborðið: Hvort skafrenningnum fari nú ekki að linna, hríðinni að slota, vindinn að lægja og sólin að skína.

Annars fengum tvo fína daga. Þar fyrir utan var rysjótt veður, en það var allt í lagi - ekkert óveður svosem.

Nú kasta ég mæðinni, áður en ég blogga meira - sjáumst. Smile

 


Farin á fjöll - bloggfrí í viku

snaefelljokull08 Jæja, þá er ég farin í bloggfrí. Legg af stað á vetrarnámskeið BHSÍ kl 9 í fyrramálið. Verð að mestu fjarri símsambandi og tölvum næstu vikuna - það er kærkomin tilbreyting svona einstöku sinnum. Wink

 Á meðan skil ég eftir nokkrar myndir frá fyrri ferðum.

Hittumst heil síðar.

 skalavikurheidi06ollyogskuliblidaibilnumSnaefellsnes08JoiSalmarOlly08

 


Viðurkenning og hvatning

Blidafinnur Það er gaman að fá hvatningu og svolitla viðurkenningu. Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitarinnar hefur nú borist kærkominn styrkur frá fyrirtæki í Reykjavík sem telur starf okkar mikilvægt og vill létta undir með okkur vegna kostnaðar við vetrarnámskeiðið sem hefst í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp á laugardag og stendur yfir næstu viku.

Það er kæli- og frystivélafyrirtækið Kæliver sem veitir okkur 125 þúsund króna styrk til að standa straum af námskeiðskostnaði. Steinar Vilhjálmsson eigandi og framkvæmdastjóri Kælivers, segist hafa ákveðið að styrkja Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitarinnar þar sem meðlimir sveitarinnar vinni gott og fórnfúst starf og brýnt sé að Vestfirðingar hafi greiðan aðgang að góðum hundateymum til björgunar og leitarstarfa. Steinar skorar á fleiri fyrirtæki að gera slíkt hið sama.Smile

„Ég hef unnið mikið fyrir vestan og kynnst aðeins starfi deildarinnar. Ég vildi styrkja þessa vinnu þeirra þar sem það hefur sýnt sig hversu mikilvægir björgunarhundar eru og þá sérstaklega á Vestfjörðum“, sagði Steinar í fréttaviðtali í gær.

Það björgunarfólk sem tekur þátt í úttektarnámskeiðum Björgunarhundasveitarinnar tekur sjálft á sig kostnaðinn vegna vinnutaps, gistingar og fæðis. Í sumum tilvikum koma björgunarfélögin til móts við þátttakendur með niðurgreiðslum eða greiðslu ferðakostnaðar, en það er misjafnt hversu vel björgunarfélögin eru í stakk búin til þess að styrkja sína félagsmenn að þessu leyti. Að auki leggja margir á sig langt ferðalag og sjálfboðavinnu við skipulag og undirbúning námskeiðanna þannig að útlagður kostnaður getur hlaupið á hundruðum þúsunda líkt og í þessu tilviki.

 Cool

En sumsé - við leggjum af stað í býtið í fyrramálið. Þurfum að vera tímanlega á ferð þar sem eftir er að velja æfingasvæði á Steingrímsfjarðarheiðinni. Við ætluðum að gera þetta um síðustu helgi, en komumst þá ekki vegna ófærðar og snjóflóðahættu.

Nú krossleggjum við fingur og vonumst eftir góðu veðri.

krafla-ollyogaudur

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband