Fundaferð og framhaldssagan um Kristinn H.

Grundarfjörður Framboðsferðalagið gengur vel. Í fyrradag var fundað á Sauðárkróki, Blönduósi og Hvammstanga. Þar bárust okkur þær fréttir að Kristinn H. Gunnarsson væri genginn til liðs við Samfylkinguna og hygðist bjóða sig fram í Norðvesturkjördæmi. Errm Menn litu hver á annan og nú upphófust ýmsar vangaveltur. Morguninn eftir brunuðum við á Hólmavík og héldum það ágætan fund í hádeginu. Nú voru komnar upp efasemdir um að Kristinn væri í Samfylkingunni, a.m.k. var hann ekki á leið í framboð  töldu menn. Jæja, áfram var haldið suður á bóginn, um Laxárdalsheiði í Búðardal. Þegar þangað var kom bárust enn spurnir af Kristni H. Gunnarssyni.  Nú var hann sko ekki á leið í Samfylkinguna heldur á leið í framboð fyrir Framsóknarflokkinn. Whistling

Hafi menn orðið undrandi við fyrstu fréttir af flokkaskiptaáformum Kristins þá datt nú andlitið af. En auðvitað varð til vísa í bílnum og hún er svona.

 Í Samfylkingu gekk með glans
- hann gerði það án rannsóknar
og eftir heldur stuttan stans
stökk á lista Framsóknar.

Annars er þetta hið skemmtilegasta ferðalag hjá okkur. Við erum fimm saman í bíl og þar er glatt á hjalla.

Nú erum við stödd í Stykkishólmi, búin að fá okkur heitt brauð og kruðerí í morgunmat. Í dag verða fundir í Grundarfirði og á Hellissandi. Á morgun verður fundur hér í Stykkishólmi. Þaðan tökum við ferjuna Baldur yfir Breiðafjörð og verðum svo með fund á Patreksfirði á Sunnudagskvöld.

Hér er prófkjörssíðan mín og hérna er prófkjörssíða kjördæmisins.


Fjörið að byrja: Sauðárkrókur, Blönduós og Hvammstangi á morgun!

DyrafjordurAgustAtlasonJæja, nú fer að færast fjör í leikinn. Á morgun leggja prófkjörsframbjóðendur Samfylkingarinnar af stað í fundaferð um norðvesturkjördæmið. Það segir sitt um samgöngumálin á Vestfjörðum að ég er komin í höfuðborgina til þess að komast norður á Sauðárkrók á morgun. Fyrsti fundurinn verður haldinn þar í hádeginu, síðan er Blönduós kl. 17.30 og svo Hvammstangi kl. 21 um kvöldið.

Á Sauðárkróki bíður okkar níu manna smárúta og í henni verðum við meira eða minna næstu fimm daga sýnist mér. Jamm, það verður transporterað með okkur milli staða sem leið liggur um kjördæmið og endað á Ísafirði 4. mars. Þar með verð ég komin heim til mín á ný.

 Hér er prófkjörssíðan mín og hérna er prófkjörssíða kjördæmisins þar sem fundadagskráin kemur skilmerkilega fram.

Þetta verður fjör!

 

ps: Fallegu myndina hér fyrir ofan tók Ágúst Atlason. Hún er tekin í Önundarfirði.


Ekkert er eins og fyrr

ArnarfjordurAgustAtlason Verkefnin sem íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir eru svo umfangsmikil - svo alvarleg - að íslensk stjórnmálaumræða mun aldrei verða söm eftir þá atburði sem átt hafa sér stað í hitasótt frjálshyggjunnar. Já, ég kalla það hitasótt, því það var eins og þeim sem báru ábyrgð á íslensku fjármálakerfi og stjórnmálaumræðu væri ekki sjálfrátt.

Í heila tvo áratugi smitaði og gegnsýrði frjálshyggjusóttin allt okkar litla samfélag. Þegar efnahagur þjóðarinnar hrundi og sápukúlan sprakk rann það svo upp fyrir okkur að að ekki einasta hafði fjárhagur þjóðarinnar beðið skipbrot - siðferðisgildin voru líka hrunin.

Þessir atburðir hafa breytt allri okkar hugsun. Þeir hafa afhjúpað siðferðisbresti, hugsanaleti, ákvarðanafælni og meðvirkni sem hefur gegnsýrt allt okkar stjórnkerfi; alla opinbera umræðu; allt þjóðlífið. Þeir hafa afhjúpað græðgi og misskiptingu af þeirri stærðargráðu að ekki einu sinni í okkar villtustu draumum gátum við gert okkur annað eins í hugarlund. 

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Í baráttunni sem framundan er megum við ekki missa sjónar af þeim grunngildum sem samfélag okkar byggir á. Það verður við ramman reip að draga því verkefnin eru mörg og knýjandi.

Það er því sorglegt að fylgjast með því hvernig menn láta sumir hverjir í þinginu þessa dagana - eins og þeim sé ekki sjálfrátt.


Ungir menn í gamalli klækjapólitík

Nú eru leikfléttur Framsóknarmanna farnar að taka á sig undarlegar myndir. Í gær greiddi Höskuldur Þórhallsson atkvæði með tillögu Sjálfstæðismanna í viðskiptanefnd Alþingis um að fresta afgreiðslu Seðlabankafrumvarpsins  þar til í dag. Svo mætir hann ekki á fund nefndarinnar í morgun og málið er fast í nefndinni.

Hvaða fíflagangur er þetta eiginlega? Halda menn virkilega að svona klækjapólitík sé að skora eitthvað hjá fólki um þessar mundir? Þetta sé það sem fólk vilji sjá í kreppunni?

Þegar Framsóknarflokkurinn kaus sér nýja forystu á dögunum töldu ýmsir - ég þar á meðal - að nú væri gamla framsóknar-maddaman að ganga í endurnýjun lífdaga með ungt og sprækt fólk í sinni framvarðarsveit. Já - ég trúði því meira að segja að þessum mönnum væri einhver alvara með því að lofa ríkisstjórninni hlutleysi sínu: Að þeir ætluðu virkilega að greiða fyrir því sem gera þyrfti - myndu a.m.k. ekki þvælast fyrir.

Nú lítur út fyrir að þeim hafi ekki verið sú alvara sem ætla mátti. Á bak við andlitslyftinguna og hina unglegu  ásýnd tinar gamli ellihrumi Framsóknarflokkurinn með sína klæki og klíkur, leikfléttur, samsæri og tilheyrandi paranoju sem við höfum þegar séð merki um, m.a. hjá formanninum unga.

Birgir Ármannsson fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd er sigri hrósandi yfir því að málið muni ekki komast á dagskrá Alþingis í dag þar sem nefndin hefur ekki enn lokið umfjöllun sinni. Já, hann er kátur yfir því að þeim tókst að tefja. Það var víst markmiðið að tefja, tefja, tefja ....

Jahjarna - segi ég nú bara.


mbl.is Ekki rætt um Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söguleg tímamót og hlutverk jafnaðarmanna

solstafir Samfylkingin stendur nú á sögulegum tímamótum sem stjórnmálaflokkur. Hún stendur annars vegar frammi fyrir því að innleiða löngu tímabærar lýðræðisumbætur (t.d. stjórnlagaþing) og siðbót í íslensku samfélagi. Hins vegar á hún þess kost að tryggja raunverulegum jafnaðarsjónarmiðum framgang við stjórnarákvarðanir á erfiðum tímum.

Flokkurinn stendur með öðrum orðum frammi fyrir því að endurreisa íslenskt samfélag á grundvelli jafnaðarstefnunnar. Það er ekki lítið hlutverk.

Aldrei fyrr hefur verið jafn rík þörf fyrir heiðarleika, ábyrgð og hugrekki  í íslenskum stjórnmálum. Aldrei  fyrr hefur verið jafn rík ástæða til þess að endurheimta þau verðmæti sem við þó eigum Íslendingar - andleg og veraldleg. Og aldrei fyrr hefur verið jafn rík ástæða til þess að endurheimta þá sjálfsvirðingu sem gerir okkur kleift að vera þjóð meðal þjóða, í bandalagi og samstarfi við vinaþjóðir þangað sem við getum sótt bæði tilstyrk og fyrirmynd.

Það er núna sem reynir á hvort íslenskir jafnaðarmenn rísa undir nafni.


Kosningaskjálfti í formanni Framsóknar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins heldur því fram í samtali við Fréttablaðið að Samfylkingin hafi lagst í rógsherferð gegn sér. Errm

Samfylkingarmenn líta hver á annan og koma af fjöllum. Hvernig er hægt að halda uppi skipulagðri rógsherferð án þess að nein merki séu um það í tölvupóstum eða öðrum samskiptum milli flokksmanna?

Skráðir félagar í Samfylkingunni fá tölvupósta frá kjördæmisráðum, flokksskrifstofunni og ýmsum málefnahópum innan flokksins - og ég verð bara að segja eins og er, að hvergi í þessum orðsendingum er vikið einu orði að formanni Framsóknarflokksins.

Ummæli formannsins unga eru þess vegna bara paranoja - kosningaskjálfti. Þau eru að mínu mati ekki aðeins óréttmæt heldur líka ósmekkleg. Það litla sem ég hef heyrt rætt um þennan unga mann meðal Samfylkingarfólks er allt á jákvæðum nótum.

Stjórnarflokkarnir hafa  öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa þessa dagana en að elta ólar við persónuhagi Framsóknarmanna - þeir eru nefnilega að sinna endurreisn samfélags. 

Ég efast um almenningur hafi mikinn áhuga eða þolinmæði fyrir umræðu af þessu tagi.


Óráðsía skilanefndar

fúlgurfjár Skilanefnd Kaupþings hefur í ýmis horn að líta þessa dagana og vafalaust einhver áform. Sparnaður virðist þó ekki vera þar á meðal, ef marka má þennan fréttaflutning af lúxusferð tveggja nefndarmanna til Indlands fyrr í mánuðinum. Gist var á fimm stjörnu hóteli, sem er með þeim glæsilegustu á Indlandi, og flogið á fyrsta farrými í "þeim tilgangi að gæta hagsmuna gamla Kaupþings" eins og segir í fréttinni. Ferðin mun hafa kostað um eina milljón króna.

„ Ég vil helst eitthvað í allra besta flokki ef þér er sama" segir starfsmaður nefndarinnar sem skipulagði ferðina í tölvupósti sem  nú hefur verið birtur. Hann bætir við: "Ég yrði þakklátur fyrir að dagskráin yrði í háum gæðaflokki".

Kannski nefndarmenn hafi ekki áttað sig á því hverjir það eru sem greiða þeim launin og dagpeningana eftir bankahrunið? Það er  nefnilega almenningur í landinu, því það mun koma í hlut samfélagsins að standa undir skuldum gömlu bankanna.

Sá hinn sami almenningur býr við harðnandi kost. Fólk sér ekki út úr skuldum.  Sumir eiga ekki til hnífs og skeiðar. Fregnir berast af fólki sem ekki treystir  sér  til að borga nauðsynlega læknisaðgerðir. Foreldrar eru að afpanta tannréttingar og tannviðgerðir barna sinna.

En skilanefndir bankanna - þær "gæta hagsmuna" síns banka og ferðast í vellystingum.

Ef þetta er ekki firring, þá þekki ég ekki merkingu þess orðs.  Angry


Búsáhaldabyltingin var galdur

busahaldabyltingin.jpg Ekki alls fyrir löngu ritað Sigurður Líndal grein í Fréttablaðið um ráðherravaldið í stjórnskipan landsins. Þetta er athyglisverð grein sem full ástæða er til að halda fram. Í niðurlagi kveður hinsvegar við óvæntan tón hjá Sigurði varðandi búsáhaldabyltinguna svokölluðu. Um hana segir Sigurður:

En fátt stendur þó lýðræðinu meira fyrir þrifum en ofurvald afþreyingariðnaðarins. Áhrif hans birtast ekki sízt í firringu þannig að menn losna úr tengslum við umhverfi sitt og berast inn í sýndarveruleika. Nýjustu birtingarmyndir hennar eru pottlokaglamur undir stjórn rokkara og rappara, sem leyst hefur rökræðuna af hólmi og þá er stutt í að bareflin taki við af sleifunum. Með þessu er forsendum lýðræðisstjórnarhátta hafnað. Við þessu má bregðast með almennri upplýsingu sem stuðlað geti að gagnrýnni hugsun. 

Ég get ekki tekið undir það að búsáhaldabyltingin hafi verið sigur afþreyingariðnaðarins yfir rökhyggjunni. Sem sérfræðingur í galdramálum hef ég kynnt mér vel ýmiskonar galdra- og trúarathafnir í gegnum tíðina, form þeirra og inntak. Og satt að segja hef ég fundið samsvörun með búsáhaldabyltingunni og ýmiskonar galdraathöfnum sunnar á hnettinum, t.d. í Afríku. 

Formið er þetta: Meðlimir ættbálksins koma saman við eldinn og stíga dans undir taktfastri hrynjandi og hrópa óskir sínar eða áköll til guðanna.

Nóttina sem búsáhaldabyltingin stóð sem hæst logaði eldur í miðborginni þaðan sem takturinn barst eins og hjartsláttur út í náttmyrkrið. Þarna var sunginn mikill seiður. Þarna sameinaðist hugarorka þúsunda manna í fastri hrynjandi og ákalli um breytingar. Þessi seiður hafði áhrif.

Búsáhaldabyltingin var því engin afþreying - hún var galdur.


Sláum í klárinn!

skjaldamerki Ýmis teikn eru á lofti þessa dagana um að áform ríkisstjórnarinnar um að koma í gegn lagafrumvarpi  um stjórnlagaþing verði tafið von úr viti. Sjálfstæðismenn virðast ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hindra þetta.

Fyrirheitið um stjórnlagaþing var eitt af þeim loforðum sem sefuðu reiði almennings á dögum búsáhaldabyltingarinnar góðu. Við sem stöndum að undirskriftarsöfnunin við áskorun um þessar lýðræðisumbætur á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is tókum eftir því að daginn sem hin nýja stjórn tilkynnti áform sín að setja lög um stjórnlagaþing, hægði mjög á undirskriftunum. Þær höfðu hrúgast inn af miklu afli dagana á undan, en svo kyrrðist skyndilega. Nú þegar þessi orð eru skrifuð eru þær orðnar 7.364.

 Það er afar mikilvægt að ríkisstjórnin missi ekki dampinn úr áformum um þær lýðræðisumbætur sem hér um ræðir. 

Það er jafn mikilvægt að almenningur í landinu missi ekki slagkraftinn við að minna á vilja sinn í þessu efni.

Krafan um stjórnlagaþing á sér sterkan hljómgrunn meðal almennings.En betur má ef  duga skal!

Við stefnum að því að afhenda undirskriftirnar 6. eða 7. mars- svo það er best að slá í klárinn!

 


Þá er komið að því - ég tek slaginn

bardastrond Jæja, þá er komið að því ... og enginn veit sína ævina ... og allt það. Ég er á leið í prófkjör fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi og stefni á annað efstu sætanna á framboðslistanum fyrir næstu Alþingiskosningar.

Eins og blogglesendur mínir vita hef ég ítrekað verið spurð að þessu undanfarnar vikur og mánuði. Ég hef svarað af varúð en ekki hugsað mikið um þetta fyrr en núna um helgina. Þá fóru hlutirnir að gerast.

Og eftir allmörg samtöl og tölvupósta er niðurstaðan sú að ég ætla fram. Cool

Í almennum orðum get ég sagt það um sjálfa mig að ég er sjálfstæð og framsækin kona með ríka réttlætiskennd. Ég hef látið málefni landsbyggðarinnar til mín taka í ræðu og riti undanfarin ár enda er ég búsett á Ísafirði og þekki mætavel hvar eldarnir brenna heitast í dreifðum byggðum landsins.

Um þessar mundir berst ég fyrir lýðræðisumbótum á Íslandi. Ég er í góðum hópi Íslendinga sem efnt hafa til undirskriftasöfnunar á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is  fyrir því að boðað verði til stjórnlagaþings og þjóðinni gefinn kostur á að velja verðuga fulltrúa til þess að setja nýja stjórnarskrá.

Í kjölfar þess efnahags- og siðferðishruns sem dunið hefur yfir tel ég brýnt að Alþingi Íslendinga endurvinni traust meðal þjóðarinnar og rísi undir hlutverki sínu sem leiðandi löggafarsamkoma í lýðfrjálsu landi.

Brýnast um þessar mundir er þó að verja lífskjör almennings í landinu við þau erfiðu efnahagsskilyrði sem hér ríkja. Stjórnvöld verða að hafa forgangsröðunina í anda mannúðar og jafnaðarstefnu þegar kemur að niðurskurði og aðhaldsaðgerðum hjá hinu opinbera. Að byrðunum verði jafnað réttlátlega á bökin. Að þess verði gætt að erfiðar aðgerðir komi síst niður á þeim sem standa höllum fæti fyrir, t.d. sjúklingum, öryrkjum, efnalitlum heimilum eða barnafjölskyldum.

Ég vil standa vörð um mannréttindi og lýðræði, jöfnuð og sanngjarnar leikreglur. Mín skoðun er að stjórnmálamenn og stjórnsýslan öll eigi að bera ábyrgð og standa vörð um hlutverk stofnana þannig að þær fái að sinna lögbundnu hlutverki sínu án inngripa eða óeðlilegra afskipta stjórnmálamanna eða hagsmunaafla.

Þeir sem vilja kynna sér bakgrunn minn geta séð hann hér. Þeir sem vilja vita um áherslur mínar og hugðarefni geta til dæmis kynnt sér bloggfærslur mínar hér á þessari síðu.

 Í stuttu máli sagt:

Ég er kona á besta aldri - nægilega lífsreynd til þess að þora að standa í báða fætur. Svolítið sorfin af sjávargangi lífsins en bjartsýn og drífandi. Verði mér treyst til þess að taka sæti á löggjafasamkundunni mun ég leggja mig alla fram í þágu þeirra mála sem ég tel horfa til framfara.

Mér er tamt að nota brjóstvitið ekki síður en hugvitið og hlýða eigin samvisku. Ég hyggst halda því áfram.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband