Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009
Þjóð í öngum
31.7.2009 | 12:42
Þjóðin er í öng.
Hvernig skyldi þeim vera innanbrjósts á þessari stundu formönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, flokkanna sem bera höfuðábyrgð á því hvernig komið er, en láta eins og þeim komi afleiðingarnar ekki við? Ætla ekki að samþykkja Icesave samninginn "í núverandi mynd" eins og Bjarni Benediktsson orðaði það.
Vikum og mánuðum saman hafa þeir þvælst fyrir Ice-save samkomulaginu með öllum tiltækum ráðum og haldið málinu í gíslingu. Já, þeir hafa hagað sér eins og slökkviliðsstjórinn sem hefur verið rekinn en getur ekki unnt slökkviliðinu að vinna sitt verk, heldur skrúfar fyrir vatnið á brunahönunum, til þess að sýna fram á að hann hefði getað unnið verkið einhvernveginn öðruvísi. Á meðan brennur húsið.
Óliku er saman að jafna framgöngu þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar sem lagt hafa nótt við dag að bjarga því sem bjargað verður af því að þeim er annt um þjóðina (ekki bara flokkinn, eins og hinum tveimur). Þau hafa mátt róa á móti andófi og áróðursskrumi stjórnarandstöðunnar af ábyrgð og festu. Þau hafa jafnvel mátt kljást við ístöðuleysi ákveðinna stjórnarliða sem líftóran hefur verið hrædd úr.
Aldrei hafa þau þó gripið til sterkra orða eða lýðskrums. Þau svara hverri spurningu af háttvísi og alvöru. Aldrei hafa þau hlaupið í persónulegt orðaskak. Nei, þau hafa staðið eins og stólpar upp úr þessu umróti öllu, haldið stillingu sinni og yfirvegun eins og sannkallaðir leiðtogar. Það fróma orð myndi mér þó aldrei til hugar koma um þá félaga Bjarna Ben og Sigmund Davíð.
En nú er ljóst - sem við máttum vita - að Íslendingar hafa enga stöðu gagnvart öðrum þjóðum í augnablikinu. Við erum einfaldlega álitin ójafnaðarmenn í augum umheimsins: Þjóð sem ekki vill standa við skuldbindingar sínar; þjóð sem ekki er treystandi; þjóð sem ól af sér kynslóð fjárglæframanna, hannaði fyrir þá vettvang til að athafna sig á, þar sem þeir gátu látið greipar sópa um fjármálakerfið og narrað saklausan almenning til þess að leggja fé inn á reikninga, m.a. Icesave reikningana í Bretlandi og Hollandi.
Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra lýsti þvi yfir í haust að allir innistæðueigendur myndu fá greiddar innistæður sínar í íslenskum bönkum. Sú yfirlýsing var bindandi fyrir íslensk stjórnvöld. Halda menn virkilega að þau orð hafi aðeins getað gilt um suma en ekki aðra? Annað hvort eiga innistæðueigendur rétt á endurgreiðslum úr íslenskum bönkum eða ekki. Svo einfalt er það og skiptir engu hvort um er að ræða Íslendinga, Breta eða Hollendinga.
Málið snýst ekkert um það að "borga skuldir óreiðumanna" heldur að standa við alþjóðlegar og siðlegar skuldbindingar gagnvart innistæðueigendum í íslenskum bönkum.
Á meðan við ekki göngum frá Icesave samkomulaginu, fáum við enga aðstoð. Það erum við Íslendingar sem erum álitin óreiðumenn í augum umheimsins. Það vill enginn við okkur tala á meðan við sýnum engin merki þess að bæta ráð okkar.
Stjórnvöld halda í vonina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (70)
Var þá ekkert jákvætt?
30.7.2009 | 20:16
Í upphafi þessarar fréttar segir að ýmislegt hafi eftirlitsnefnd ÖSE þótt "með ágætum" í framkvæmd síðustu Alþingiskosninga. Síðan les maður áfram og les um ágallana sem ræddir eru í skýrslunni. Vissulega þurfum við að horfa til þess sem betur má fara. Rétt er það, en .... það kemur hvergi fram í þessari frétt hvað það var sem var með svo miklum "ágætum".
Af hverju ekki?
Satt að segja finnst mér þetta lýsa umræðunni í samfélaginu betur en flest annað - hér er allt sogað niður í hyldýpi neikvæðninnar.
Ég vil fá að vita hvað var jákvætt í þessari ÖSE skýrslu. Fyrst þar var eitthvað jákvætt, þá vil ég sem almennur íslenskur lesandi fá að sjá það!
I rest my case.
Atkvæðavægi átalið af eftirlitsnefnd ÖSE | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Lítill fugl í vanda
29.7.2009 | 18:15
Maríuerlan í garðinum mínum komst í hann krappan í morgun. Þegar mér varð litið út um eldhúsgluggann sá ég hvar hún var komin inn fyrir öryggisnetið í trampólíninu í næsta garði. Þarna flögraði hún ráðvillt um fyrir innan netið og lengi vel leit út fyrir að hún fyndi enga leið úr prísundinni.
Ég fylgdist með henni góða stund og furðaði mig á hátterni hennar, því í rauninni átti hún greiða leið í frelsið.
Hvað eftir annað tókst henni - þó með erfiðismunum væri - að fljúga upp á bandið sem hélt netinu uppi. Þaðan hefði hún auðveldlega getað flogið út í garðinn. En ... nei, hún var svo örvingluð orðin að aftur og aftur hoppaði hún niður röngu megin við netið, föst í sínu sjálfskipaða fangelsi, og þar upphófst sama baksið á ný.
Ég var að því komin að hlaupa út til að blanda mér í þetta þegar hún skyndilega rambaði fram á litla rifu á netinu niðri við dýnuna. Og án þess að hún eiginlega stjórnaði því sjálf, þá stóð hún allt í einu í þessu litla gati, og viti menn ... hún hoppað út í grasið, frjáls úr prísundinni.
Ekki veit ég hvernig á því stóð, en þar sem ég virti fyrir mér atganginn innan við netið, varð mér hugsað til stöðu okkar Íslendinga í samfélagi þjóðanna þessa dagana.
Og nú læt ég lesendum eftir að leggja út af sögunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
"Jarmur fogla" og fénaðar - vel heppnuð útkallsæfing
26.7.2009 | 18:37
Bærilega tókst útkallsæfingin með björgunarhundunum í nótt - en ég verð að játa að ég er svolítið syfjuð eftir þetta allt saman, enda var ekki nokkur svefnfriður í sjálfri sumarnóttinni fyrir jarmi "fogla" og fénaðar. Hafði ég þó hugsað mér gott til glóðarinnar að sofa undir beru lofti í "næturkyrrðinni".
Ævintýrið hófst eiginlega strax í gærkvöld, þegar við komum að Hæl í Flókadal og fengum þar höfðinglegar móttökur hjá heimilisfólkinu sem bar í okkur góðan mat og heitt kaffi.
Sex úr hópnum höfðu það hlutverk að vera "týnd". Við vorum vakin klukkan þrjú í nótt og ekið með okkur sem leið lá niður í Stafholtstungur þar sem við áttum að fela okkur á mismunandi stöðum. Leitarteymin fimm voru svo kölluð út um klukkutíma síðar.
Ég fann mér góðan felustað í klettaskorningi, skreið ofan í svefnpokann, breiddi yfir mig feluábreiðuna og hugðist, eins og fyrr segir, sofa til morguns í lognblíðri sumarnóttinni. En ... það var bara ekki nokkur svefnfriður fyrir blessaðri náttúrunni.
Ekkert sker meir í eyrun og hjartað en móðurlaust lamb sem grætur út í næturkyrrðina. Og ef einhver heldur að fuglar himinsins sofi um sumarnætur, þá er það misskilningur. Þeir eru nefnilega á stanslausri vakt yfir ungum sínum. Þeim er meinilla við útiliggjandi björgunarsveitarmenn, og láta það óspart í ljósi með miklum viðvörunarhljóðum og hvellu gjalli við minnstu hreyfingu.
En ég lét nú samt fara vel um mig, og hlustaði á þessa nætursymfóníu. Heyrði hundgá í fjarska og fjarlæg fjarskipti - enda hljóðbært í logninu. Virti fyrir mér tvo svartbaka elta smáfugl út undir sjóndeildarhring. Ekki sá ég hvernig sá eltingarleikur endaði - en víst er að hann hefur endað illa fyrir einhvern og vel fyrir einhvern annan. Þannig er blessuð náttúran í allri sinni tign.
Ég var sú fyrsta sem fannst af þeim sem týndir voru. Það voru þeir félagarnir Krummi og Gunnar Gray sem fundu mig klukkan sjö í morgun.
Æfingin stóð í sex tíma. Á eftir var haldin höfðingleg grillveisla á Hæl, og að henni lokinni voru unghundarnir æfðir.
Skutull minn stóð sig vel, og nú vonast ég til að geta tekið C-prófið á hann í víðavangsleit í ágúst - að því gefnu að allt gangi að óskum hér eftir sem hingað til.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
... upp í Borgarfjörð, ætla að liggja þar í tjaldi í nótt og ekki að hugsa meira um pólitík þessa helgina. Ice-save getur beðið betri tíma.
En ég sá á visi.is að Þór Saari réðist á mig heiftúðlega með ósannindum um að ég hefði hlegið að eineltistali Birgittu Jónsdóttur í þinginu á föstudag og verið með framíköll. Lágt þykir mér maðurinn leggjast í þessum málatilbúnaði, enda fer hann með hrein ósannindi.
Hér er tengillinn á ræðu Birgittu - og dæmi nú hver um sig um það sem þarna fór fram - ég ætla ekki að svara því frekar.
En .. nú streyma félagar Björgunarhundasveitar Íslands upp í Flókadal þar sem útkallsæfing mun fara fram eldsnemma í fyrramálið. Sjálf er ég ekki með fullþjálfaðan hund, þannig að hann bíður þess að fá að spreyta sig síðar.
Ég verð "týnd" milli þúfna eins og fleiri. Svo verður grillað og unghundarnir æfðir.
"Sjáumst" síðar
P
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Ónákvæmni eða "hyldýpismisskilningur"
24.7.2009 | 19:08
Nýjasta útspilið í Ice-save umræðunni er fullyrðing lögmannsins Ragnars Hall um að Íslendingar hafi undirgengist að greiða "lögmannskostnað" fyrir Breta upp á tvo milljarða króna sem íslenska ríkið muni ábyrgjast samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar (sjá t.d. hér). Vísaði lögmaðurinn í sérstakan "uppgjörssamning" sem hann kvaðst að vísu ekki geta "lýst því nákvæmlega" í hverju fælist, en þar inni væru kröfur sem hann "hefði aldrei órað fyrir því að hægt væri að setja fram".
Þessi málfutningur lögmannsins varð fyrr í dag tilefni umræðna í þingsal, sem við mátti búast (sjá hér).
Í máli formanns fjárlaganefndar kom fram að skjalið sem hér um ræðir nefnist "Settlement Agreement" og er dagsett 5. júní 2009. Það er fyrsta skjalið í möppunni stóru með Ice-save skjölunum á þingloftinu.
Ég hafði upp á skjalinu og fann ákvæðið sem lögmaðurinn gerði að umtalsefni "án þess þó að geta lýst því nákvæmlega". Ákvæðið er í lið 3.1 og hljóðar svo:
FSCS [Financial Services Compensation Scheme Limited] may submit (on behalf of TIF [Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta] one Disbursement Request for £ 10.000.000 (ten million pounds) in respect of the costs incurred or to be incurred by FSCS in the handling and payment of compensation to depositors with the UK Branc and in dealing with related matters including, without limitation, recoveries and any disputes which may result.
Þetta ákvæði skil ég sem svo að Íslendingar fallist á að standa straum af tilfallandi kostnaði við umsýslu og afgreiðslu á endurgreiðslum til innistæðueigenda Ice-save reikninganna.
Í fljótu bragði virðist þetta því vera ofur eðlilegt ákvæði um að Íslendingar muni sjálfir standa straum af umstanginu við að endurgreiða viðskiptavinum Ice-save.
Nú hefur fjármálaráðherra staðfest þennan skilning - væntanlega að höfðu samráði við færustu lögfræðinga. Búast má við að ýmsum létti við það.
Um leið hlýtur ónákvæmni hæstaréttarlögmannsins að vekja umhugsun. Því miður er þetta ekki í fyrsta sinn sem Ragnar Hall gerist sekur um ónákvæmni sem skipt getur sköpum í málum sem hann hefur komið að (sbr. hér).
Ekki minnst á lögfræðikostnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Þinghlé skapar svigrúm fyrir Icesave-málið
24.7.2009 | 14:00
Ice-save samningurinn er eitt þyngsta mál sem komið hefur til kasta Alþingis í lýðveldissögunni. Nú ríður á að vinna málið af þeirri vandvirkni sem það verðskuldar, og ná því upp úr farvegi áróðurs og æsingakenndrar umræðu.
Sú ákvörðun að fresta nú þinghaldi um eina viku og gefa fjárlaganefnd þar með svigrúm til þess að vinna Ice-save málið sem best úr garði nefndarinnar, verður vonandi til þess að ná málinu upp úr skotgröfunum og yfir í farveg ábyrgari umræðu en verið hefur.
Við Birgir Ármannsson ræddum þetta og fleira tengt Ice-save og störfum þingsins á Morgunvaktinni í morgun (hlusta hér).
Rýnir í gögn vegna Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Margur heldur mig sig
23.7.2009 | 17:39
Enn eina ferðina tókst þingmanni Borgarahreyfingarinnar að fanga athygli fjölmiðla um stund, með yfirlýsingum um einelti, kúgun og ofbeldi á hinu háa Alþingi. Vandlætingartónninn leyndi sér ekki - en í honum var þó holur hljómur að þessu sinni.
Þetta er sami þingmaður og fyrir fáum dögum var tilbúinn að selja sannfæringu sína gagnvart ESB til þess að ná fram frestun á Ice-save, málinu.
Þessi þingmaður - og fleiri í hennar flokki - hafa verið ósparir á hneykslunarorð og brigslyrði um aðra þingmenn og þeirra meintu hvatir í hverju málinu af öðru. Hneykslun og vandlæting hafa verið nánast einu viðbrögðin hvenær sem mál hefur komið til umræðu í þinginu.
Þið fyrirgefið, gott fólk - en ég gef ekki mikið fyrir svona málflutning. Og nú vil ég fara að heyra einhverjar tillögur frá þessu fólki um það hvað megi betur fara - hvernig það megi betur fara. Það væri bara svo kærkomin tilbreyting frá þessum falska vandlætingarsöng að heyra eins og eina málefnalega tillögu, bara eitthvað sem túlka mætti sem málefnalegt innlegg.
Þeir sem eru tilbúnir að selja sannfæringu sína ættu ekki að vanda um fyrir öðrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (50)
Og ....?
21.7.2009 | 23:26
Hver er þá niðurstaða ráðherrans?
Allt það sem Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segir í þessu viðtali gæti ég sagt ... það vantar bara botninn í þessi spakmæli öll sömul.
Hver er skoðun Ögmundar?
Ögmundur: Hugsum um þjóðarhag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Úr Jökulfjörðum
21.7.2009 | 11:40
Fjögurra daga gönguferð í Jökulfjörðum að baki, og það var ljúft að smeygja sér undir dúnmjúka og tandurhreina sængina í gærkvöldi og hvíla lúin bein. Er svolítið þreytt í dag, en endurnærð engu að síður!
Þarna var á ferðinni sami hópur og gengur árlega um Hornstrandafriðland - hópurinn sem nú nefnist Skaflabjörn, eftir ævintýri síðasta árs (sjá hér, hér og hér). Í för með okkur að þessu sinni voru tengdaforeldrar mínir, Pétur Sigurðsson (78) og Hjördís Hjartardóttir (70). Hann gekk með alla dagana, hún hvíldi einn (eins og raunar fleiri úr hópnum, þar á meðal hundarnir tveir sem fylgdu okkur).
Að þessu sinni var þó ekki farið inn í Hornstrandafriðlandið heldur í Grunnavík og gengið þaðan um fjöll og fjörur.
Ferðin hófst með bátsferð frá Bolungarvík á föstudagsmorgni yfir að Berjadalsá á Snæfjallaströnd. Þaðan gengum við yfir í Grunnavík. Á leiðinni varð það óhapp að Kristín Böðvars féll um grjót og olnbogabrotnaði. Við vorum sem betur fer með góða sjúkrakassa meðferðis og gátum búið um brotið og spelkað það, enda enga aðra aðstoð að fá þarna uppi á fjallinu. Kristín harkaði af sér, tók eina verkjatöflu og gekk til byggða (3 klst). Góður kunningi okkar á Ísafirði var kallaður til aðstoðar og kom hann á bátnum sínum yfir í Grunnavík og skutlaði henni á sjúkrahúsið á Ísafirði þar sem gert var betur að brotinu. Síðan var mín kona komin aftur í Grunnavík seinna um kvöldið, tilbúin í göngu næsta dags.
Já það eru jaxlar í þessum hópi sem láta hvorki beinbrot né aldur hefta sína för.
Í Grunnavík beið farangurinn okkar og slegið var upp tjöldum. Við Helga Magnea og Pétur Sigurgeir skelltum okkur í sjóbað en aðrir drifu sig í heita pottinn sem þarna er.
Daginn eftir gengum við út Staðarhlíðina með stórgrýttri fjörunni út að Kollsá og þar upp á Staðarheiðina aftur til Grunnavíkur. Fjaran er stórgrýtt og illfær og getur ekki talist gönguleið. Ég ræð fólki frá að fara hana.
Þriðja daginn, sunnudaginn, gengum við á Maríuhornið. Um kvöldið fengum við notalega sögustund á Friðriki ferðabónda í Grunnavík sem bauð okkur í bæinn eftir kvöldmatinn.
Í gær, mánudag, gengum við síðan frá Grunnavík yfir Staðarheiðina, niður hjá Kollsá og áfram út að Flæðareyri þangað sem báturinn átti að sækja okkur. Raunar var ekki lendandi á Flæðareyri svo við röltum til baka inn í Höfðabótina þangað sem báturinn stefndi, og þar komst tuðran í land til að ferja okkur um borð.
Eins og alltaf eftir þessar gönguferðir er ég lúin en alsæl og hvíld á sálinni.
Framundan bíður Ice-save málið í þinginu og fleira sem krefst einbeitingar ... en ég er til í slaginn!
PS: Ég get því miður ekki sett inn mínar eigin myndir strax þar sem ég hef ekki komist í ferðatölvuna mína. Myndina efst á síðunni fann ég fyrir all löngu á vefnum en veit því miður ekki hver tók hana, hún er af Vébjarnargnúpi tekin af sjó. Myndin af Maríhorninu er fengin á vef SAF - hún er líka tekin af sjó. Svo er hér mynd tekin í Hlöðuvíkurskarði á fyrsta degi ferðar í fyrra .
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)