Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Suðurlandsvegur, Vaðlaheiði eða ...

malarvegir  Nú takast menn á um það hvort samgönguráðherra eigi frekar að leggja áherslu á Sundabraut, breikkun Suðurlandsvegar eða Vaðlaheiðargöng. Já - þeir tala eins og þetta séu valkostirnir.

Nú sýður á mér. 

Þeir sem þannig tala vita augljóslega ekki að til eru staðir á landinu þar sem fullnægjandi samgöngum hefur enn ekki verið komið á. Þar sem hið svokallaða "stofnkerfi" er einfaldlega ekki fullfrágengið. Dæmi um það er Vestfjarðavegur sem er eina leiðin út úr fjórðungnum fyrir íbúa á  sunnanverðum Vestfjörðum. Vegurinn um Dynjandisheiði og Hrafneyrarheiði er auk þess eina tengingin milli byggðarlaganna á norðan og sunnanverðum Vestfjörðum (Patreksfjarðar og Ísafjarðar). Sá vegur er ófær 9 mánuði ársins. Ef Patreksfirðingur á erindi til Ísafjarðar um hávetur, þarf hann að leggja á sig 10 klst. ferðalag um 700 km leið fyrir kjálkann - í stað 2 klst ferðalags yfir heiðarnar um sumartímann. Báðir þessir vegir teljast þó til þjóðvega.

Þegar skorið er niður skiptir miklu að forgangsraða verkefnum. Við forgangsröðun vegaframkvæmda er brýnt að gera greinarmun á því hvort um er að ræða

  • Samgöngubætur (að bæta og viðhalda samgöngum sem eru þokkalegar fyrir líkt og víðast hvar á Suðvesturlandi) eða:
  • Grunnkerfið sjálft (að koma á viðunandi samgöngum sem eru ekki til staðar að heitið geti (líkt og á Vestfjörðum).

Samfélagslegir þættir eiga að skipta máli við forgangsröðun verkefna á borð við vegaframkvæmdir. Ástand vega getur ráðið úrslitum um það hvort atvinnulíf fær þrifist á sumum stöðum, hvort þar er yfirleitt búandi. Samgöngurnar eru æðakerfið í byggðarlögunum. Ástand veganna getur þannig ráðið úrslitum um líf eða dauða byggðanna í landinu. 

Þandi mig aðeins um þetta á Rúv í hádeginu (hlusta hér)
 


Sjávarplássin lifna við

Smábátar Loksins sér maður aftur líf færast yfir bryggjurnar hér fyrir vestan. Bátarnir komu inn í gær eftir fyrsta strandveiðidaginn. Þeir voru kampakátir karlarnir þar sem þeir stumruðu yfir körunum fullum af spriklandi fiski.

Hjá einum var drukkið "strandveiðikaffi" til að halda upp á þessi tímamót.

Já, loksins eftir langa mæðu eru menn aftur frjálsir að því að sigla bátum sínum út á miðin og taka þar á handfærin allt að 800 kg á dag, án þess að kaupa eða leigja til þess sérstakan kvóta.

Loksins skynjar maður eitthvað sem líkist "eðlilegu" ástandi - einhverskonar frelsi eða opnun. Fram til þessa hefur mönnum verið meinaður aðgangur að fiskimiðunum við strendurnar, nema þeir gerðust leiguliðar hjá kvótaeigendunum - eða keyptu sér kvóta dýru verði. Undanfarið hefur lítill sem enginn kvóti verið fáanlegur, svo það hefur ekki verið um marga möguleika að ræða.

Já, nú eru sannarlega tímót. Og ég er glöð yfir því að hafa getað veitt þessu máli lið inni í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þaðan sem frumvarpið var afgreitt fyrir skömmu.

Loks er aftur líf í höfnum,
landa bátar afla úr sjó.
Mergð er nú af mávi og hröfnum
mikil yfir fsikislóg.

Vonandi eru strandveiðarnar komnar til að vera.


mbl.is 22 tonn af þorski á fyrsta degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómetanlegt starf björgunarsveita

 Það er mikið gleðiefni að þessi björgunaraðgerð skyldi takast giftusamlega. Ég veit að björgunarsveitarmenn um land allt gleðjast ævinlega í hjarta sínu þegar vel tekst til eins og í þessu tilviki. Það er nefnilega sama hvar á landinu þeir eru staddir þegar aðgerð er í gangi - þeim verður alltaf hugsað til þeirra sem bíða björgunar, og félaga sinna sem eru á vettvangi. Þannig er það bara.

Atvik sem þetta minna okkur á það hve björgunarsveitir landsins vinna ómetanlegt starf. Björgunarsveitarmaður spyr aldrei hvað klukkan sé, hvernig veðrið sé úti, hvort ekki geti einhver annar farið, þegar þörf er fyrir aðstoð. Hann stekkur af stað, hvernig sem á stendur.  

Þarna tókst vel til - og því ástæða til að óska öllum hlutaðeigandi til hamingju með það.

Talandi um björgunarsveitir: Við Skutull brugðum okkur í blíðviðrinu í dag á æfingu með Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitarinnar upp á Seljalandsdal. Það var svo yndislegt veðrið að það var eiginlega full mikið af því góða fyrir hundana. Þeim reynist oft erfitt að vinna í miklum hita. Samt stóðu þeir sig allir vel ... og á öndinni, eins og við mátti búast. Wink

Sjálf er ég orðin sólbrennd og sælleg eftir þennan dásamlega sólardag.

skutull.sumar08

 


mbl.is Dreng bjargað úr jökulsprungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakkarverð samábyrgð

solstafir Það er svo sannarlega ástæða til að óska þjóðinni til hamingju með Stöðugleikasáttmálann.

Þetta samkomulag við aðila vinnumarkaðarins er í raun og veru forsendan fyrir því að áform um endurreisn efnahagslífsins nái fram að ganga, eins og forsætisráðherra hefur bent á.

Allir þeir sem komið hafa að sáttmálagerðinni hafa sýnt ábyrgð og sanngirni í þessum samningaviðræðum. Slíkt hugarfar er aldrei mikilvægara en þegar þrengir að í lífi þjóðarinnar. Og einmitt þess vegna er ástæða til þess að þakka fyrir þann samningsvilja og samábyrgð sem allir hlutaðeigandi hafa sýnt við gerð Stöðugleikasáttmálans.


mbl.is Til hamingju með sáttmálann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundaferð Samfylkingarinnar

Þessa dagana eru þingmenn Samfylkingarinnar á fundum með fólki úti í kjördæmunum að ræða þau mál sem hæst ber í þinginu, Ice-save, ríkisfjármálin, efnahagsráðstafanirnar, ESB, sjávarútvegsmálin og fleira sem brennur á fólki.

Í  kvöld var ég á ágætum fundi í Grundarfirði ásamt Jónínu Rós Guðmundsdóttur, samflokkskonu minni  og þingmanni í NA-kjördæmi og Davíð Sveinssyni bæjarfulltrúa. 

Við Jónína Rós ókum saman vestur í sumarblíðunni nú síðdegis og nutum fegurðar Borgarfjarðar og Snæfellsness á leiðinni. Áttum svo ágætan fund með heimamönnum í kvöld þar sem margt var skrafað um landsins gagn og nauðsynjar.

Í gær var vel sóttur og skemmtilegur fundur á Ísafirði með mér, Kristjáni Möller samgönguráðherra og Sigurði Péturssyni, bæjarfulltrúa.  Á morgun verð ég á Akranesi ásamt Guðbjarti Hannessyni þingmanni.

Þetta eru afar gagnlegir fundir, ekki síst fyrir okkur þingmennina.

Það er nauðsynlegt að komast út úr þinginu af og til og hitta fólk. Tala við kjósendur, og ekki síst að hlusta (mun skemmtilegra heldur en að taka við fjöldapóstum svo dæmi sé tekið Wink).

En nú er ég orðin sybbin, enda komið fram yfir miðnætti. Góða nótt.Sleeping

 


Jónsmessunótt

sumarsolstodur

Nú fer Jónsmessunóttin í hönd - sú dulmagnaða nótt sem þjóðtrúin telur öðrum nóttum máttugri í mörgum skilningi. Þá nótt glitra óskasteinar í tjörnum, jarðargróður er þrunginn vaxtarmagni og lækningarmætti, döggin hreinsunarmætti. Því velta menn sér naktir í Jónsmessudögg enn þann dag í dag. Grasa- og galdrakonur fara á kreik og tína jurtir sínar sem aldrei eru máttugri en þessa nótt. Álfar sjást á ferli og kynjaverur sveima á heiðum og í holtum.

Annars er Jónsmessan kirkjuleg hátíð - og eins og flestar hátíðir kirkjunnar (t.d. jólin) þá var henni ætlað að leysa af heiðna sólstöðuhátíð þ.e. sumarsólstöðurnar sem eru tveim dögum fyrr. En sumarsólstöðurnar eru hinn náttúrulegi hápunktur sumarsins.

Það er dásamlegt að vera utandyra ef veður er gott um sumarsólstöður, t.d. á Jónsmessunótt og skynja kraftinn úr jörðinni - tína þá grös í poka og finna fallega steina. Vera einn með sjálfum sér.

Hér fyrir vestan hafa verið rigningarskúrir í dag. Jörðin er hrein og rök. Full af krafti. Það er svartalogn á firðinum og nýtt tungl á himni.

 


Skilaboð eða áreiti

Síðustu daga hefur tölvupóstum rignt yfir okkur alþingismenn. Fyrst var það vegna Ice-save samningsins, síðan vegna Evu Joly. Þetta eru fjöldapóstar með stöðluðu orðalagi sem sendir eru jafnvel aftur og aftur frá sama fólki.

Ég hef viljað svara þessum sendingum, vegna þess að ég tel það kurteisi að svara bréfum. Sú góða viðleitni mín er nú þegar orðin stórlöskuð, því þetta er óvinnandi vegur.

Ástæða þess að ég færi þetta í tal núna er sú að mér finnast fjöldasendingar af þessu tagi vera vond þróun. Þær leiða til þess að þeir sem fyrir þeim verða gefast upp á samskiptum við sendendur. 

Þar með rofna tengslin milli þingmannsins og kjósandans. Samskiptin hætta að vera gagnkvæm - þau verða einhliða. Í stað samræðu kemur áreiti. Það er slæmt.

Fjöldasendingar þar sem fólk notast við skilaboð sem einhver annar hefur samið, og sendir í þúsundavís á tiltekinn hóp viðtakenda, þjóna sáralitlum tilgangi. Vægi skilaboðanna aukast ekkert við það þó sama bréfið berist þúsund sinnum. Það verður bara að hvimleiðu áreiti. Því miður.

Mun þægilegra væri fyrir alla aðila ef þeir sem standa fyrir fjöldasendingum af þessu tagi myndu einfaldlega opna bloggsíðu þar sem safnað væri undirskriftum við tiltekinn málstað. Síðan væri þeim málstað komið á framfæri við alþingismenn og önnur stjórnvöld í eitt skipti. Það væri eitthvað sem hefði raunverulega vigt.

Þetta er mín skoðun ... að fenginni reynslu.

 


Dottað undir stýri

snaefellsjokullKomin heim frá Gufuskálum af helgaræfingu með Björgunarhundasveitinni. Kúguppgefin.

Ég var svoooo lúin þegar ég ók heim núna seinnipartinn að ég dottaði undir stýri í Eyja- og Miklaholtshreppnum. Woundering Um hábjartan dag.

Það var áreiðanlega engill sem hnippti í mig í tæka tíð áður en bíllinn fór út af - en hann var kominn yfir á rangan vegarhelming þegar ég áttaði mig.

Úff! Þarna munaði sannarlega mjóu.

Lifandi fegin að ekki fór verr, sá ég mitt óvænna, lagði bílnum í vegkanti og lagði mig í tíu mínútur. Fór svo út úr honum og fékk mér frískt loft áður en ég hélt ferð minni áfram.

Skutull5manEn námskeiðið var í alla staði frábært. Skutull minn stóð sig mjög vel. Á þessu námskeiði náði hann því risastóra skrefi í þjálfuninni að koma til mín þegar hann hefur fundið mann og gelta á mig áður en hann vísar mér til þess týnda. Í síðasta rennslinu "fann" hann þrjá og vísaði mér á þá alla. 

Annars stóðu allir hundarnir sig frábærlega og þetta var mjög skemmtilegt námskeið við rætur Snæfellsjökuls.

Á morgun er það svo þingið - þá skipti ég aftur um gír. Wink


Sjóbað á sautjándanum

P1000840 (Medium)Afrek dagsins hjá okkur mæðgum var: Sjóbað! Cool

Brrrrrrrrr - við dembdum okkur í sjóinn framundan lítilli sandfjöru á Seltjarnarnesinu í góða veðrinu í dag. Þetta var svona skyndihugdetta.

Skömmu áður stóðum við nefnilega eins og ratar á tröppunum við Vesturbæjarlaugina - höfðum ekkert hugsað út í það að auðvitað eru sundlaugarnar lokaðar á 17. júní.

Hálf vonsviknar fórum við út á Seltjarnarnes - komum þar við í ísbúð til að bæta okkur upp fýluferðina, og meðan við vorum að sleikja ísinn var tekinn svolítill rúntur um nesið. Þá sáum við mann á sundskýlu sem var að þurrka sér á bílastæðinu við golfvöllinn á Seltjarnarnesi. Við litum hvor á aðra: Hann hlýtur að vera að koma úr sjónum, þessi! Við í sjóbað!

Og það gerðum við. Ekki eins kalt og við héldum - en kalt samt.  Og hressandi. Cool

Svona gekk þetta fyrir sig.

Fyrst var tekin upplýst ákvörðun og náð í handklæði og sundföt

P1000835 (Medium) 

Svo var farið á staðinn og fötum fækkað

P1000837 (Medium)
Þá var tánni dýft út í og sjórinn aðeins mátaður
P1000839 (Medium)
Og svo var látið vaða!
P1000841 (Medium)
Dásamlegt!
P1000840 (Medium) 

Óvirðing við þjóðþingið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sýndi forseta Alþingis mikla óvirðingu í þinginu í gær, þegar hann kvaddi sér hljóðs undir liðnum "fundarstjórn forseta" og setti síðan á ræðu um allt annað mál án nokkurra tengsla við fundarnstjórn forseta. Þegar hann síðan dró upp Fréttablaðið og fór að lesa upp úr því var forseta þingsins nóg boðið - enda gera  þingsköp ráð fyrir því að óskað sé leyfis forseta áður en lesið er upp úr blöðum eða bókum í ræðustóli. Þegar þarna var komið sögu tók forseti Alþingis til sinna ráða, en Sigmundur Davíð þráaðist við og ætlaði ekki úr stólnum.

Framkoma nokkurra framsóknarmanna - ekki síst formannsins - hefur farið stigversnandi í þinginu undanfarna daga. Þau finna sér hvert tilefni til þess að stíga í pontu, atyrða þaðan aðra viðstadda með leiðinlegu orðavali. Þau hrópa fram í fyrir ræðumönnum, benda með fingri - berja jafnvel í pontuna og hækka röddina. Raunar hafa framíköll almennt aukist mikið undanfarið - og þá er ég ekki að tala um beinskeyttar athugasemdir sem fljúga glitrandi um salinn. Nei, ég er að tala um leiðinlegt húmorslaust þref sem heldur áfram eftir að menn eru komnir í sæti sitt. Agaleysi. Ókurteisi.

 Það er sorglegt þegar virðingarleysið fyrir þjóðþinginu er komið inn í sjálfan þingsalinn.

Sigmundur Davíð og co. eru á góðri leið með að breyta Alþingi Íslendinga í skrípaleikhús. Og það er hugraun fyrir okkur hin sem sitjum á þessu sama þjóðþingi að horfa á þetta gerast.

Forsætisnefnd Alþingis verður að taka á þessu máli.


mbl.is Óásættanleg framkoma forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband