Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Þrenn Grímuverðlaun fékk dóttirin: Þeir fiska sem róa!

Humanimal09Það gladdi mitt meyra móðurhjarta að sjá þrenn Grímu-verðlaun renna til sýningarinnar Húmanimal í kvöld - ég tala nú ekki um þegar Saga dóttir mín tók við einni styttunni sem danshöfundur. Heart Hún tók við þeim verðlaunum í fullri hógværð ásamt Möggu vinkonu sinni, sem líka fékk verðlaun sem dansari ársins. Báðar tóku skýrt fram (og það með réttu) að hópurinn allur ætti þessar styttur sem þær héldu á.

Já, þær voru sannarlega bæði þakklátar og örlátar á þessari sigurstundu - vildu ekki eiga neitt einar - hugsuðu til félaga sinna - deildu gleðinni og heiðrinum með fleirum. Fallegar og rétt þenkjandi ungar konur. Sannkallaðir listamenn.

Annars var ég að verða úrkula vonar um að ég kæmist á afhendingarathöfnina í tæka tíð. Strandveiðifrumvarpið sem ég hef haft framsögu um sem starfandi formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar kom svo seint inn til þriðju umræðu í þinginu að sjálft við lá að ég missti af Grímu-athöfninni. Loks þegar málið var komið á dagskrá og menn voru stignir í pontu til að þenja sig yfir því, var klukkan að verða sjö. 

Í brjósti mér toguðust á ólíkar tilfinningar: Löngunin til að fara eina ferðina enn í umræðurnar og reka nokkrar rangfærslur ofan í mótherjana - hinsagasvegar löngun móðurinnar til að samgleðjast dóttur sinni sem var að fá fjölda tilnefninga fyrir listrænt framlag, og var hugsanlega að fara að taka við verðlaunum (sem kom á daginn).

Eins og oft áður varð móðurhvötin pólitíkinni sterkari. Ég ákvað því að blanda mér ekki frekar í umræðuna - taldi mig hafa sagt í gær allt sem segja þurfti um málið - lét taka mig út af mælendaskrá og ... stakk af! Blush Og viti menn: Þingheimur komst af án mín þessar mínútur sem eftir lifðu fundarins. Það hefði dóttir mín svosem gert líka á þessari gleðistundu, en ég hefði ekki viljað missa af því að vera viðstödd. 

Það er af Strandveiðifrumvarpinu að segja að umræðunni lauk í kvöld, en frumvarpið með áorðnum breytingum kemur til atkvæðagreiðslu á fimmtudagsmorgun. Því er ljóst að strandveiðarnar munu ekki hefjast á þjóðhátíðardaginn, úr því sem komið er.

Mottó dagsins er enn sem fyrr: Þeir fiska sem róa!


mbl.is Utan gátta fékk flest verðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strandveiðar á 17. júní?

Í morgun var strandveiðifrumvarpið svokallaða tekið út úr sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og ef heppnin er með tekst kannski (vonandi) að afgreiða það úr þinginu í kvöld.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu, m.a. við loka umfjöllun þess í nefndinni í morgun.  Síðustu breytingarnar bar ég upp við nefndina í morgun. Samþykkt var að ákvæðið um 800 kg af þorski auk meðafla í hverri veiðiferð skyldi hljlóða upp á 800 kg af fiski í kvótabundnum tegundum. Þá var tímaákvæði frumvarpsins breytt úr 12 klst í 14 klst sem hver veiðiferð má taka.

Ýmsar aðrar smálegar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu sem ég hygg að séu allar til bóta, enda hafa fjölmargir umsagnaraðilar komið á fund nefndarinnar og verið inntir álits.

Það væri óskandi ef takast mætti að afgreiða frumvarpið svo breytt úr þinginu í dag. Ef ekki, þá verður það tekið fyrir á fimmtudag.

Það er a.m.k. nokkuð ljóst að menn geta farið að gera sig klára svona hvað úr hverju.

Mottó dagsins: Þeir fiska sem róa Wink


Strandveiðarnar tóku daginn

StykkisholmurÞað var þaulseta í þinginu í dag. Eftir óundirbúinn fyrirspurnartíma sem tók 40 mínútur, og svo drjúga (en óverðskuldaða) törn um fundarstjórn forseta, kom loks röðin að aðalmáli dagsins: Sjálfu Strandveiðifrumvarpinu.

Margir hafa beðið í óþreyju eftir lyktum þess máls - þær eru raunar ekki ráðnar til fulls, en verða það vonandi á morgun.

En sumsé: Ég sem starfandi formaður Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þingsins mælti fyrir nefndaráliti meirihluta nefndarinnar. Því virðulega hlutverki fylgir sú skylda að vakta umræðuna frá upphafi til enda, veita andsvör (t.d. hér, hér, hér og hér ) og taka þátt í málflutningnum.

Að lokinn þessari törn - sem tók lungann úr deginum - kom það í minn hlut að mæla fyrir meirihlutaáliti um nýgerðan búvörusamning. Ég var snögg að því - en gerði það svikalaust, enda var mér það bæði ljúft og skylt. Sauðfjár- og kúabændur að þessu sinni sýnt samningsvilja og samábyrgð í þessari samningsgerð sem er þeim til sóma og öðrum til eftirbreytni á erfiðum tímum.


Allt á öðrum endanum!

Jæja, þá er húsið mitt á Framnesveginum að komast í samt lag aftur eftir sex vikna umsátursástand hers af iðnaðarmönnum: Smiðum, pípurum, málurum og altmúlígmönnum. Þetta hefur auðvitað verið skelfilegt ástand, eftir að í ljós komu vatns og rakaskemmdir sem gera þurfti við. Svo fór af stað einhverskonar keðjuverkun - því þegar eitt er lagað blasir annað við sem gera má "í leiðinni" (þið þekkið þetta kannski).

Fyrstu þrjár vikurnar reyndi ég að búa í húsinu - svo gafst ég upp og fékk inni hjá systur minni elskulegri. Hún lánaði mér íbúðina sína í Hlíðunum sem var blessunarlega mannlaus um tíma. Það kom sér sannarlega vel að geta flúið í skjól undan hamarshöggum og saggalykt.

Daginn eftir að ég var komin í skjólið hjá systur, hringdi dyrabjallan. Á tröppunum stóðu þrír  vörpulegir iðnaðarmenn Undecided  komnir til að gera við baðherbergið.  Mér varð um og ó - en þeir stoppuðu nú stutt við blessaðir.

Meðan á öllu þessu hefur staðið hef ég verið að setja mig inn í allar aðstæður í þinginu - búandi hálfpartinn í ferðatösku. Og nú um helgina náði óreiðan hámarki - því um leið og húsið var að verða tilbúið, tók við hver viðburðurinn á fætur öðrum. Allt hefur það þó verið fagnaðarefni: Pétur sonur minn að útskrifast úr HR, afmæli eiginmannsins og barnabarnsins, stórafmæli hjá góðum vini og ýmislegt annað. Svona er þetta svo oft í lífinu - ef það kemst hreyfing á hlutina á annað borð, þá fer einhvernvegin allt af stað.

En sumsé, nú er ég komin með nýtt hús! Bara frágangsatriðin eftir. Siggi kominn suður og fer nú um húsið vopnaður borvél, hamri og skrúfjárni - bara ansi verklegur. InLove

Ég er auðvitað alsæl í augnablikinu - enda er reikningurinn fyrir herlegheitunum ekki kominn. Wink

 En nú má ég ekki vera að því að hangsa hér - er farin að skúra og gera  hreint.


Valtýr er vanhæfur - ekki óhæfur

 Umræðan um vanhæfi Valtýs Sigurðssonar ríkissaksóknara er að sjálfsögðu enginn áfellisdómur yfir honum sem einstaklingi. Vanhæfi snýst ekki um það hvernig menn eru innréttaðir eða hvað þeir kunna, heldur hitt hver tengsl þeirra eru úti í samfélaginu gagnvart málum sem koma inn á borð til ákvörðunar, dómsuppkvaðningar eða saksóknar. 

Við Íslendingar erum allt of uppteknir af því að afsagnir manna eða tilfærslur í starfi - hvort sem um er að ræða stjórnmálamenn eða embættismenn - sé einhverskonar persónulegt tap fyrir þá sjálfa. Auðvitað getur það haft óhagræði í för með sér að skipta skyndilega um starf, eða breyta stefnu á einhvern hátt. En afsögn er einfaldlega til vitnis um að menn viðurkenna aðstæður, skynja ábyrgð sína í þeim aðstæðum og taka henni.

Valtýr hefur fyrir löngu lýst sig vanhæfan varðandi rannsóknina á bankahruninu. Skiljanlega. En einmitt þess vegna verður hann að standa fjarri sem ríkissaksóknari á meðan sú rannsókn stendur yfir. Það er ekki nóg að hann standi einungis utan við þá tilteknu rannsókn. Meðan hann er við störf sem ríkissaksóknari má segja að allir hans starfsmenn séu vanhæfir til þess að koma að rannsókn málsins.

Annars var komið inn á þetta í Kastljósinu í gærkvöld þar sem við skiptumst á skoðunum hjá Sigmari, ég og Ólafur Arnarson. Þar var líka rætt um Ice-save málið (sjá hér).


mbl.is Valtýr vill ráða Evu Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuggahlið bloggsins

Ég heyri það að þú ert nýbyrjuð - sagði fyrrverandi þingmaður við mig í samtali fyrr í dag. Ég var að tjá honum áhyggjur mínar yfir framgangi tiltekins máls sem ég hef með höndum. Ég var að segja honum frá athugasemdum og ummælum sem ég hefði heyrt frá tilteknum aðilum og vildi taka mark á. Honum fannst ég taka þessu allt of alvarlega- og kannski hefur hann nokkuð til síns máls. 

Kannski er ég að taka allar athugasemdir sem falla of alvarlega. En ástæðan er sú að ég tek starf mitt alvarlega og lít á það sem skyldu mína að hlusta á fólk og taka tillit til sjónarmiða þess. Um leið finnst mér brýnt að leyna ekki skoðun minni og vera hreinskiptin.

Þetta gerir sjálfri mér erfitt fyrir, því þegar fólk beinir reiði sinni að mér persónulega - reiði sem á þó upptök sín annarsstaðar og verða ekki rakin til mín - þá hefur það  samt áhrif á mig.  Ég er bara þannig sköpuð -  þegar ég skynja vanlíðan og reiði annarra líður mér illa.

Síðust daga hafa komið margar athugasemdir inn á bloggsíðuna mína þar sem fólk tjáir reiði og vanlíðan með ýmsu móti. Birtingarmynd þessa hefur á köflum verið neikvæðari og persónulegri en góðu hófi gegnir.

Ég byrjaði upphaflega að blogga fyrir rælni - en ástæða þess að ég hélt áfram var sú að það gaf mér heilmikið að eiga skoðanaskipti við fólk. Eftir að ég varð þingmaður hafa þessi samskipti breyst. Það er auðséð að fjöldi manns lítur mig ekki sömu augum og áður, og athugasemdirnar bera þess vitni. Alls kyns skætingur, meinbægni og útúrsnúningar eru að verða hér daglegt brauð á kostnað uppbyggilegrar rökræðu. Afraksturinn er m.a. sá að margir góðir bloggvinir hafa horfið á braut og sjást ekki hér lengur. Ég sakna þeirra. Ég sakna ánægjunnar af því að skiptast á orðum við velviljað og áhugasamt fólk.

Ég hugleiði nú alvarlega að loka fyrir allar athugasemdir hér á blogginu - vegna þess hvernig orðræðan hefur þróast í athugasemdakerfinu.

Ég ætla að gefa þessu tvo þrjá daga. En verði ekki breyting á því hvernig fólk tjáir sig hér, þá mun ég loka fyrir skoðanaskiptin.


Eva Joly og vanhæfi ríkissaksóknara

thjofur Það er einhver undarlegur seinagangur í þessu máli. Vanhæfi ríkissaksóknara hefur legið fyrir lengi. Hann hefur sjálfur lýst sig vanhæfan. Gerði það fyrir mörgum mánuðum. Og hvað er þá málið?? Af hverju í ósköpunum er ekki búið að skipa nýjan mann?

Hér er um að ræða mikilvægustu efnahagsbrotarannsókn sem gerð hefur verið - ekki aðeins á Íslandi heldur trúlega í allri Evrópu. Þessi rannsókn varðar sögulegt hrun og er, eins og Eva Joly bendir réttilega á, margfalt stærri og mikilvægari en nokkuð sem hún sjálf hefur komið að til þessa. Lærdómarnir sem dregnir verða af þessari rannsókn - verði hægt að draga þá á annað borð - munu verða færðir í kennslubækur heimsins.

Það er með ólíkindum að ekki skuli hafa verið settur brýnn forgangur á að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem augljósar voru fyrir rannsókn málsins - til dæmis vanhæfi ríkissaksóknarans sem hefur lengi legið fyrir og mikið var fjallað um í október síðastliðnum þegar ég setti m.a. inn þessa bloggfærslu hér.

Hitt finnst mér umhugsunarefni - hafi ég tekið rétt eftir - að Eva Joly skuli frekar mæta í sjónvarpsviðtal til að koma athugasemdum sínum á framfæri heldur en að tala við þar til bær yfirvöld. Er hún fyrst að benda á þessa vankanta núna? Sé það tilfellið  - af hverju dró hún það svona lengi? Hvers vegna sneri hún sér ekki beint til dómsmálaráðuneytisins?


mbl.is Björn verður ríkissaksóknari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú reynir á styrk þingsins

thingsalur-eyjan Sú fáránlega staða kom upp á fundum efnahags- og skattanefndar og viðskiptanefndar í morgun að fulltrúar fjármálaeftirlitsins þóttust ekki geta veitt nefndunum umbeðnar upplýsingar um verðmat á eignum við uppgjör gömlu og nýju bankanna. Og til að réttlæta þögnina var vísað í 5. gr. upplýsingalaga en það er einmitt sú grein sem kveður á um rétt almennings til þess að fá upplýsingar.

Það er aumt ef Alþingi Íslendinga - sjálfur löggjafinn - getur ekki fengið upplýsingar út úr stjórnkerfinu til þess að grundvalla löggjafastörf sín á.

Alþingi Íslendingar þarf að sjálfsögðu að taka sínar ákvarðanir á grundvelli bestu fáanlegu upplýsinga hverju sinni. Það gefur auga leið.

Nú reynir á stöðu löggjafans gagnvart framkvæmdavaldinu sem mörgum finnst að séu að vaxa löggjafarvaldinu yfir höfuð. 

Hér er tekist á um grundvallaratriði og hér má þingið ekki fara halloka.

Nú reynir á styrk Alþingis.

  


mbl.is Tveimur þingnefndum meinað um upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svar mitt við áskorunum dagsins

Í dag hefur rignt inn í póstkerfið mitt fjöldaáskorunum vegna Ice-save samningsins sem var til umræðu á Alþingi í dag. Þetta eru staðlaðar bréfasendingar sem  sendar eru með skipulögðum hætti, sumir senda aftur og aftur og fara ekki dult með, því þær sendingar eru merktar áskorun 2, áskorun 3 o.s. frv.

Ég hef brugðist þannig við þessum sendingum að svara þeim með rökstuðningi fyrir afstöðu minni í málinu. Því miður virðist það ekki nægja sumum sem halda áfram að senda mér áskorun sína í sífellu. Þeir leggja augljóslega meira upp úr því að fylla pósthólfið mitt, en að koma sjónarmiðinu á framfæri eða kalla eftir svörum.

Þannig að nú er ég hætt að senda svör. Kemst einfaldlega ekki yfir það að skrifa fleirum, enda er ég búin að missa yfirsýn yfir það hverjir eru að senda í fyrsta, annað eða þriðja sinn.

Svar mitt er á þessa leið:

Ég lít svo á að íslensk stjórnvöld séu nú að róa lífróður fyrir íslenska þjóð, og ég er tilbúin að aðstoða þau við þann róður af öllum mínum kröftum. Eftirköstin af efnahagshruninu verða ekki auðveld - það vissum við. Nú er komið að skuldadögunum. Við eigum enga leið út úr hruninu aðra en að moka, og
það verða allir að hjálpast að við þann mokstur, hvort sem þeir bera ábyrgð á hruninu eða ekki.

Ég er ekki sátt við það að þurfa að taka á mig lífskjaraskerðingu og hækkun lána í framtíðinni vegna þessa ástands, enda ber ég enga ábyrgð á því frekar en þú. En við erum ein þjóð, og við verðum að takst á við þetta sem þjóð. Ekki bara okkar sjálfra vegna heldur barnanna okkar vegna og barnanna þeirra. Það er það minnsta sem við getum gert. Ég trúi því að þær aðgerðir sem nú eru í gangi, miði einmitt að því að bjarga. Þess vegna styð ég þær heilshugar og mun greiða atkvæði með þeim. Ég gæti ekki samvisku minnar vegna setið hjá, og þaðan af síður greitt atkvæði gegn, því ég trúi því að með Ice-save samningnum hafi verið kastað til okkar líflínu sem muni ráða úrslitum um það hvort við eigum okkur viðreisnar von sem þjóð. 
 

Dómstólaleiðin er að mati fjölmargra lögfræðinga ekki fær fyrir okkur - þeir bjartsýnustu segja hana afar áhættusama. Í því ljósi, sé ég enga aðra leið en þá sem  nú er verið að fara. Lánið er okkur hagstætt, 5,5% vextir  og sjö ára greiðslufrestur í upphafi, meðan verið er að ná eignum Landsbankans upp í
skuldir. Svartsýnustu spár segja að eignirnar muni duga fyrir 75% af láninu, þeir bjartsýnustu tala um 95%.

Með fullri virðingu fyrir skoðunum annarra - þá mun ég í þessu máli hlýða mínni eigin samvisku eins og Þingmannseiðurinn kveður á um að mér beri að gera. Ég mun ekki láta undan þrýstingi frá hvorki stjórn né stjórnarandstöðu, og mun ekki láta æsingslega og óábyrga umræðu villa mér sýn í þessu máli. 

Hér er of mikið í húfi.


Réttmæt ábending

Það er rétt hjá Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, að nú verða allir að standa saman ef takast á að rétta við ríkishallann og endurreisa efnahagslífið.

Eftir allt lýðskrumið sem vaðið hefur uppi í umræðunni að undanförnu er kærkomin tilbreyting að heyra  forystumann atvinnurekenda og fyrrum alþingismann Sjálfstæðisflokksins tala af stillingu og skynsemi um stöðu mála og lýsa vilja til að leggja hönd á plóg. Þetta er hin ábyrga afstaða og sú nálgun sem þörf er á um þessar mundir. Flokkssystkini Vilhjálms á Alþingi mættu af honum læra í þessu efni.

Það hefst ekkert með sundurlyndi og hrópum - samstaða og stilling er eina leiðin til þess að ná tökum á ástandinu.


mbl.is „Allir þurfa að standa saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband