Bloggfærslur mánaðarins, september 2008
Nei, hættið nú!
20.9.2008 | 21:45
Þegar ég var lítil stelpa skrifaði ég oft í minningabækur hjá vinkonum mínum. Þá setti ég gjarnan inn vísur sem ég kunni, teiknaði fugla og blóm í kringum þær og ... kvittaði svo undir alltsaman. Sama gerðu skólafélagar mínir, stelpurnar teiknuðu fiðrildi, hjörtu og blóm, strákarnir fjöll, sólskin og báta - en allir settu inn vísur eða kviðlinga ásamt "ég man þig - þú manst mig" og einhverju fleiru. Gott ef ég á ekki eina svona dagbók í fórum mínum frá gamalli tíð - og ef mér skjöplast ekki þá eiga dætur mínar svona bækur.
Nú hafa fundist tvær vísur sem Halldór Laxness skrifaði 12 ára gamall í minningabók hjá vinkonu sinni. Og menn eru farnir að fabúlera um að "hér sé kominn elsti varðveitti kveðskapur Halldórs Laxness". Það tók örfáar sekúndur að finna aðra vísuna með gúggli - eins og Guðmundur Magnússon sannreyndi og bloggaði um fyrr í dag. Hann fann vísuna á hinum frábæra vef Skjalasafns Skagafjarðar þar sem finna má fjölmargar lausavísur eftir ýmsa höfunda. Ekki er að orðlengja það, að önnur vísan er þar kennd Þorleifi Jónssyni á Hjallalandi í Vatnsdal. Hún er svona:
Haltu þinni beinu braut
berstu því með snilli
gæfan svo þér gefi í skaut
guðs og manna hylli.
Í ljósi þessa er heldur ólíklegt að 12 ára gamall drengur hafi ort hina vísuna, svo spök sem hún er - jafnvel þó við séum að tala um Nóbelskáldið. En sú vísa er svona:
Vart hins rétta verður gáð
villir mannlegt sinni,
fái æsing æðstu ráð
yfir skynseminni.
Ég held hann hafi bara verið að skrifa vísu í dagbók - eins og þúsundir Íslendinga hafa gert á unga aldri, og gera enn.
Elsti varðveitti kveðskapur Halldórs Laxness í póesíbók á Vegamótastíg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Aðalþing Neytendasamtakanna - hvar voru fjölmiðlar?
20.9.2008 | 00:29
Í dag hófst aðalþing Neytendasamtakanna sem stendur þar til síðdegis á morgun. Ég var í hlutverki þingforseta og gat því fylgst vel með umræðum dagsins, sem voru áhugaverðar. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra var með fróðlegt erindi í upphafi þings, byggt á tölulegum upplýsingum, um stöðu neytendamála í Evrópu. Í kjölfarið var svo fjallað um hagsmuni heimilanna gagnvart hugsanlegri Evrópusambandsaðild. Jón Sigurðsson fv. ráðherra (og fv Framsóknarformaður) og Ragnar Árnason hagfræðingur fluttu framsögur um það efni. Hvorugur er raunar hlynntur aðild - en báðir voru með athyglisverðar ábendingar og upplýsingar sem vöktu mann til umhugsunar um ýmislegt varðandi bæði kost og löst á Evrópusambandsaðild.
Þá var einnig fjallað um tryggingamarkaðinn á Íslandi og nýlega rannsókn sem gerð hefur verið á starfsemi og umsvifum tryggingafélaganna hér á landi í samanburði við tryggingamarkaðinn í nágrannalöndum.
Eins og gefur að skilja var staða neytenda í landinu í brennidepli og möguleikar þeirra til þess að fá leiðréttingu sinna mála sem og upplýsingar um vörur og þjónustu, m.a. erfðabreytt matvæli, upprunaland framleiðsluvöru og fleira. Satt að segja hefur ekki gengið allt of vel að fá íslensk stjórnvöld til að móta reglur um rétt neytenda til vitneskju um erfðabreytt matvæli, svo dæmi sé tekið.
Fjarvera fjölmiðla vakti athygli mína. Enginn fulltrúi útvarps- eða sjónvarpsstöðva var þarna sjáanlegur. Öðruvísi mér áður brá, þegar aðalþing neytenda í landinu þótti sjálfsagt fréttaefni ásamt viðtölum og ítarlegum umfjöllunum um það sem heitast brynni á neytendum. Hvað veldur? Hafa fjölmiðlar misst áhugann? Skortir eitthvað á upplýsingagjöfina til þeirra?
Ég veit ekki - segi bara það eitt, að mér hefði fundist vel við hæfi að sjá þarna eins og einn eða tvo fréttmenn að fylgjast með þinginu og þeim umræðum sem þar fóru fram í dag.
En kannski segir það allt sem segja þarf um stöðu íslenskra neytenda, að fjölmiðlar skuli ekki sjá ástæðu til að sinna því þegar Neytendasamtökin þinga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hver orti?
18.9.2008 | 10:01
Gráttu ei þótt svíði sár.
Sinntu ráði mínu.
Heimur öll þín hæðir tár
og hlær að böli þínu.
Þennan beiska húsgang lærði ég fyrir margt löngu - ekki fylgdi þó sögunni eftir hvern hann er. Hljómar svolítið eins og Bólu-Hjálmar, en ég veit þó ekki til þess að hann hafi ort þetta.
Og fyrst ég er byrjuð - þá væri fróðlegt að vita höfund að tveimur vísum í viðbót, ef einhver getur hjálpað mér:
Lastaranum líkar ei neitt,
lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt
hann fordæmir allan skóginn.
Taktu'ekki níðróginn nærri þér
það næsta gömul er saga.
Sjaldan lakasta eikin það er
sem ormarnir helst vilja naga.
Er einhver þarna úti sem getur frætt mig um þetta?
Ljóð | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Fylleríinu lokið - vondir timburmenn yfirvofandi
17.9.2008 | 10:35
Undanfarinn áratug hafa íslensku útrásarfyrirtækin siglt seglum þöndum við fagnaðarlæti og hvatningaróp hérlendra ráðamanna og fjölmiðla sem kepptust við að dilla og hossa íslensku strákunum í viðskiptalífinu. Þeir voru jú að meika það drengirnir með tugmilljónir króna í mánaðarlaun og kaupréttarsamninga á fáheyrðum kjörum.
Þetta myndband á síðunni hennar Láru Hönnu segir ákveðna sögu um það sem að baki lá.
En nú er fylleríinu líklega lokið og óhjákvæmilegir timburmenn framundan. Íslensku útrásarjöfrarnir eru í svipuðum sporum og bóndinn sem fór í kaupstaðarferð og fékk sér of mikið neðan í því hjá kaupmanninum lyktandi af ævintýrum gærdagsins og líður ekkert allt of vel undir augnaráði heimilisfólksins.
Nýsir á barmi gjaldþrots | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Á vængjum söngsins á Tónlistardaginn mikla!
16.9.2008 | 10:27
Í dag ætla ég ekki að hugsa um pólitík. Ég ætla bara að svífa "Á vængjum söngsins" í tilefni af því að nú er Tónlistardagurinn mikli framundan hér á Ísafirði næstkomandi laugardag. Þessi tónlistarveisla er haldin í tengslum við 60 ára afmæli Tónlistarskólans hér - og nú verður mikið um að vera. Allir kórarnir á svæðinu hafa verið virkjaðir í tónlistarflutning og íbúarnir sjálfir, því fólk mun geta komið inn á heimili bæjarbúa og hlýtt þar á tónlistarflutning heimafólks (sniðugt minnir svolítið á fiskidaginn).
Nú vill svo skemmtilega til að einkennislag Tónlistardagsins mikla er ABBA lagið "Thank you for the music" í íslenskri þýðingu. Lagið var valið í vor, áður en myndin Mama mia sló hér í gegn, áður en ABBA æðið gekk yfir landið. En nú fellur þetta alltsaman eins og flís við rass.
Ég fékk þann heiður að þýða textann og hann útleggst hjá mér "Á vængjum söngsins " . Þessari þýðingu hefur nú verið dreift í hús á Ísafirði, skilst mér, því það er ætlunin að allir taki undir með kórunum á Silfurtorginu á Ísafirði á laugardaginn. Ég verð sjálf fjarri góðu gamni, upptekin við að stjórna aðalþingi Neytendasamtakanna með meiru. En ég verð með í anda.
Fyrir þá sem vilja æfa sig, þá fer textinn hér á eftir. Og HÉR getið þið séð lagið sungið af ABBA.
En þýddi textinn er svona:
Látlaus ég virðist, ég verð sjaldan æst eða reið.
Ef ég segi sögu - þá syfjar þig trúlega um leið.
En leynivopn á ég - eitt dásemdarþing,
því kliðurinn þagnar þegar ég syng.
Það er hamingjugjöf
og mig langar að hrópa yfir höf.
Á vængjum söngsins hef ég svifið
í sorg og gleði,
sungið dátt með glöðu geði.
Án þess væri lífið svo laust við lit og róm.
Innihaldstóm
væri þá ævitilveran öll.
Á vængjum söngsins hef ég svifið
um lífsins tónahöll.
Dálítil hnáta ég dansaði af lífi og sál.
Ég dreymandi söng, því söngur var mitt eina mál.
Og oft hef ég hugsað hvers virði það er
að heyra og finna í brjóstinu á sér
þessa hljómkviðu slá,
hjartastrengina samhljómi ná.
Á vængjum söngsins hef ég svifið ....
Þakklæti finn ég - þegar ég syng af hjartans lyst.
Rödd mína þen ég hátt svo allir heyri:
Þennan róm, þennan tón, þennan hljóm.
Söngs á vængjum svíf ég - í sorg og gleði.
Syng ég dátt með glöðu geði ,
án þess væri lífið - svo laust við lit og róm.
Innihaldstóm
væri þá ævitilveran öll.
Á vængjum söngsins hef ég svifið
um lífsins tónahöll.
-----
PS: Í dag (18. sept) leiðrétti ég textann sem var settur hér inn í fyrstu - ég hafði í ógáti tekið eldri drög að textanum. Þetta hefur nú verið lagað - þetta er endanlegi textinn hér fyrir ofan.
Tónlist | Breytt 22.9.2008 kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Landsföðurlegur Geir - í vandræðum vegna Árna Matt
15.9.2008 | 10:43
Athyglisvert var að hlusta á ræður manna í Silfri Egilsí gær. Augljóst er að Sjálfstæðismenn vilja sem minnst gera úr þessu útspili Árna Matthiesen að lögsækja ljósmæður í miðri kjaradeilu. Forsætisráðherra talaði eins og lögsóknin væri "lagatæknilegt" úrskurðaratriðið sem "breytti ekki deilunni um kjörin" eins og þetta væru tvö aðskilin mál algjörlega úr tengslum hvert við annað.
Jebb ... menn eru í stökustu vandræðum, sem vonlegt er. Því það er auðvitað alveg sama hvað hver segir, lögsókn fjármálaráðherra á ljósmæður nú þegar verkföll eru hafin, er auðvitað innlegg í sjálfa deiluna og fjarri því að vera óháð henni. Hafi þetta legið fyrir frá því í júlí að efasemdir væru uppi um lögmæti uppsagna ljósmæðra, þá er þetta vægast sagt undarleg tímasetning núna.
Annars var Geir Hilmar bara landsföðurlegur og traustvekjandi í samtalinu við Egil. Það var gott að heyra hann tala af föðurlegri visku eftir hrunadans efnahagsumræðunnar í fyrri hluta þáttarins þar sem allt var á fallanda fæti, ævisparnaður fólks horfinn í kreppuhít og ég veit ekki hvað. Ef Kristinn H hefði ekki verið til staðar að stemma þau ósköp öllsömul af, veit ég ekki nema maður sæti enn stjarfur af skelfingu fyrir framan skjáinn.
En sumsé - svo kom Geir og sagði mér og fleirum að verðbólgan myndi minnka hratt á næsta ári. Í stjórnarráðinu væru menn að takast á við vandann og finna á honum lausnir af ábyrgð og yfirvegun. Hann náði mér úr þeim skelfingargreipum sem ég var komin í eftir að hlusta á Andrés Magnússon fyrr í þættinum. Og maður skyldi ekki vanmeta það hlutverk landsfeðra að tala til fólksins og róa það á viðsjárverðum tímum.
Geir er viðkunnanlegur maður - mildur og rökfimur. Maður hefur tilhneigingu til að trúa honum. Sem er gott eins og á stendur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Er glæpur að eiga 200 þúsund?
13.9.2008 | 19:55
Fram hefur komið í fréttum að lögregla hafi gert húsleit í þessu umrædda athvarfi og tekið í sína vörslu fjármuni fólks sem "sönnunargögn". Trúlega til að sanna illa fengið fé eða eitthvað álíka - því fólk sem bíður eftir hæli á Íslandi má víst ekki vinna fyrir sér. Það "má" bara vera á framfæri hins opinbera - í allt að þrjú ár: Án vinnu, án möguleika á að afla sér viðurværis og (að því er virðist) án þess að eiga nokkurn skapaðn hlut, síst af öllu peninga.
Nú er í sjálfu sér ekkert athugavert við það þó að lögregla eða útlendingaeftirlit óski skýringa á fjármunum í fórum fólks sem er að bíða eftir úrlausn sinna mála. En að gera "upptækar" eigur fólks (því hvað eru fjármunir annað en eigur) finnst mér full langt gengið.
Eða er það eitthvert skilyrði að þeir sem hingað leita eftir pólitísku hæli séu eignalaust fólk? Reglur segja til um að því skuli haldið uppi á meðan það bíður eftir afgreiðslu umsóknar sinnar - en er því þar með bannað að eiga sína eigin fjármuni og halda þeim til haga þar til það hefur fengið pólitískt hæli? Hvar stendur það í lögum?
Og hvað eru 200 þúsund krónur? Eða milljón ef út í í það er farið? Hvort tveggja mætti flokka sem ein mánaðarlaun - eftir því hvar í launastiganum almennt launafólk er statt.
Vera kann að eigendur þessara fjármuna hafi einfaldlega safnað sér skotsilfri og vilji geyma það til betri tíma. Það er í mínum huga allt eins líklegt og hitt, að eitthvað sé tortryggilegt eða glæpsamlegt við það þó maður eigi eina milljón króna. Hvort heldur sem er - þá er það grundvallar regla réttarríkisins að hver maður sé saklaus þar til sekt hans sannast. Í því ljósi er undarlegt að gera fjármuni fólks upptæka - það hlýtur eiginlega að vera brot á mannréttindum.
Nóg er nú samt fyrir hælisleitendur að bíða árum saman eftir úrlausn - þó það fái að njóta þeirra mannréttinda að eiga friðhelgi einkalífs, án þess að lögreglan geti ruðst inn á það og gert skotsilfrið upptækt ef grunur leikur á um að einhver í hópnum hafi aflað sér fjár án leyfis.
Sjálfsbjargarviðleitni er ekki glæpur - hún má aldrei verða glæpur. Það er satt að segja storkun við náttúrulögmál að ætlast til þess að fólk bíði aðgerðarlaust árum saman eftir því að fá að gerast nýtir samfélagsþegnar. Ekki gæti ég setið aðgerðarlaus í þrjá mánuði, hvað þá þrjú ár.
Ég hef hingað til lifað í þeirr trú að ég byggi í velferðar- og réttarríki. Nú seilist sú tilfinning eins og hrollköld krumla niður hrygginn á mér að hvort tveggja sé blekking: Ég búi einfaldlega í lögregluríki.
Hælisleitandi mótmælir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
Hvað segja konurnar í ríkisstjórninni?
12.9.2008 | 12:15
Formaður samningarnefndar ríkisins hefur haldið því fram að kjaradeila ljósmæðra snúist ekki endilega um menntun ljósmæðra heldur "eðli starfans". Eiginlega veit ég ekki hvort er meiri móðgun við ljósmæður að halda því fram að eðli starfs þeirra eða menntunin sé ekki launahækkunar virði.´
Sem margra barna móðir þekki ég af eigin raun - líkt og fjölmargar kynsystur mínar - hið djúpa þakklæti sem hver kona finnur í garð sinnar ljósmóður þegar barn er farsællega fætt inn í þennan heim. En kannski verður slík tilfinning aldrei útskýrð fyrir karlmanni í samninganefnd ríkisins eða fjármálaráðuneytinu. Karlmenn þar á bæ hafa kannski engar forsendur til að skilja helgi fæðingarstundarinnar og mikilvægi ljósmóðurinnar í aðdraganda hennar. Að minnsta kosti verður það ekki ráðið af orðum þeirra eða gjörðum.
Í þessu myndbandi sem Lára Hanna Einarsdóttir setti saman má heyra Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðhera marglýsa yfir stuðningi við málstað ljósmæðra. Hann talar um að "allir" hafi ríkan skilning á þeirra stöðu enda sé á næsta leyti "myndarlegt" útspil af hálfu ríkisins inn í kjaradeiluna.
Hmm... næstu fréttir eru lögsókn fjármálaráðherra á hendur Ljósmæðrafélaginu. Sannarlega útspil í lagi.
"Sínum augum lítur hver á silfrið" segir máltækið. Það er augljóst af öllu að hinn "ríki" skilningur stjórnvalda á stöðu ljósmæðra er ekki af einum toga.
Fjármálaráðherra og formanni samninganefndar ætlar að takast það ótrúlega - að skipa allri íslensku þjóðinni í sveit með ljósmæðrum í þessari kjaradeilu. Það er í sjálfu sér þarft verk - en aðferðin óneitinalega óhefðbundin, þ.e. að ganga fram af af fólki með lítilsvirðandi ummælum og óbilgirni.
Skyldu konurnar í ríkisstjórninni engu fá ráðið í þessu máli? Ég trúi því ekki að þeim sé skemmt núna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Ráðherra hótar ljósmæðrum lögsókn!
11.9.2008 | 22:33
Árna Matthiesen væri nær að semja við ljósmæður en lögsækja þær. Hann hefur nú stefnt þeim fyrir dómstóla fyrir það sem hann kallar "ólöglegar uppsagnir". Ég held barasta að maðurinn sé að missa alla veruleikatengingu.
Þessi stefna fjármálaráðherrans er það eina sem gerst hefur í kjaradeilu ríkisins við ljósmæður frá því þær sigldu í strand. Sumsé: Ef ekki semst við þessar kellingar - lögsækjum þær þá bara. Hræðum þær ærlega - þær hljóta einhverntíma að hætta þessari vitleysu.
Hvað er maðurinn að hugsa? Heldur hann að þetta sé vænlegt til þess að leysa kjaradeilu sem snýst um margra ára uppsafnaða óánægju yfir augljósu óréttlæti?
Það er staðreynd að ljósmæður fá ekki menntun sína metna til jafns við aðrar stéttir. Um það eru skýr og óhrekjanleg dæmi. Viðsemjandinn er ríkið - og samkvæmt stjórnsýslulögum ber ríkinu að virða jafnræðisreglu stjórnarskrár. Þið fyrirgefið, en ég sé engan grundvallarmun á því hvort fólki er mismunað við stjórnsýsluákvarðanir eða í kjarasamningum þar sem ríkið er viðsemjandi. Eiginlega finnst mér vel athugandi fyrir ljósmæður að láta reyna á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar vegna þess hvernig komið hefur verið fram við þær í kjarasamningum allar götur frá því að núverandi menntun ljósmæðra varð viðtekin regla. Þær eru ekki að fara fram á neinar hækkanir, heldur hreina og klára leiðréttingu - afnám óréttar og mismununar.
Árni Matthiesen hefur orðið sér til skammar með þessari lögsóknarhótun. Og ef ríkisstjórnin situr þegjandi og horfir upp á þetta, þá er ekki orð að marka það sem stjórnarflokkarnir hafa sett á blað um jafnréttismál.
Svei.
Ljósmæður: Uppsagnir löglegar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.9.2008 kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Litla hetjan Ella Dís ...
11.9.2008 | 14:55
... er haldin afar sjaldgæfum hrörnunarsjúkdómi sem læknar standa ráðþrota gagnvart. Hún er aðeins 2ja ára gömul. Móðir hennar hefur undanfarin misseri háð harða baráttu með dóttur sinni og leitað henni lækninga eftir megni - en átt mjög á brattann að sækja.
Fátt er þungbærara foreldrum en að horfa upp á alvarleg veikindi barna sinna. Í tilviki sem þessu gefur einnig auga leið að baráttan er kostnaðarsöm og ströng. Móðirin getur ekki vikið frá barninu.
Nú er hafin söfnun fyrir Ellu Dís og fjölskyldu. Á bloggsíðu Rauða ljónsins má finna nánari upplýsingar um aðdraganda og málsatvik. En reikningsnúmerið er 0525-15-020106 Kennitala: 020106-3870.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)