Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Silfur-skál!

Allt fór hér í brand og bál
Börðumst við af lífi og sál.
Boltar skullu á Björgvin Pál
í Beijing. Það var silfur - skál!

Íslenskur fáni yfir verðlaunapalli á Ólympíuleikunum - silfur um háls íslenska handboltalandsliðsins - tvímælalaust stoltasta stund okkar Íslendinga! Strákarnir okkar mega vera glaðir af frammistöðu sinni, við erum svo sannarlega glöð hér heima.

Úrslitin í lokaleiknum voru vel viðunandi - sami markamunur og var á okkur og Spánverjum. Röðun þjóða á verðlaunapallinum var því vel makleg miðað við frammistöðuna í þessum leikjum. Frakkarnir eru augljóslega með gríðarlega sterkt lið, og þeir unnu sannarlega fyrir gullinu. Engin skömm að tapa fyrir slíku liði.

Annars mátti sjá ákveðna veikleika í leik íslenska liðsins gegn Spánverjum - þá á ég við hraðasóknirnar sem ekki gengu upp. Ég óttaðist strax að þetta myndi verða okkur dýrkeypt í úrslitaleik gegn sterkara liði, og það kom á daginn. Engu að síður sýndu strákarnir mikinn baráttuvilja og gáfust ekki upp, jafnvel þó markastaðan væri orðin afar óhagstæð um miðbik leiksins.

Til hamingju Ísland: Silfur-skál!

Beijing08


mbl.is Íslendingar taka við silfrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óstjórn í Vikulokunum á Rás-1

Í morgun hlustaði ég á seinni hluta Vikulokanna á Rás-1 undir stjórn (eða óstjórn) Hallgríms Throsteinssonar. Þarna sátu  Egill Helga, Dagur B, og Júlíus Vífill ásamt stjórnandanum blaðrandi og þrefandi hver ofan í annan. Hallgrímur hafði nákvæmlega enga stjórn á umræðunum og þetta var óþolandi áheyrnar.

Menn ímynda sér kannski að svona skvaldur sé eitthvað "líflegt" eða "skemmtilegt". En það er það ekki fyrir þann sem hlustar. Það er bara pirrandi að heyra ekki mannsins mál fyrir blaðri. Heyra menn rífast og pexa hvern í kapp við annan. Það er eins og enginn geti unnt öðrum þess að tala svo hann skiljist. 

Hvað er þetta með íslenska þáttastjórnendur? Af hverju geta þeir ekki stjórnað umræðuþáttum  og unnið fyrir kaupinu sínu? Angry

Þáttastjórnendur eiga að hafa stjórn á umræðunni - þeir eiga að tryggja það að þátttakendur fái tjáð sig um það sem til umræðu er. Annað er bara dónaskapur - ekki bara við þá sem koma í þáttinn heldur líka hina sem hlusta. Greiðendur afnotagjalda og hlustendur RÚV.

Svo voru umræðuefnin í þessum hluta þáttarins nánast öll með neikvæðum formerkjum um bæði menn málefni. Hrútleiðinlegt.


Laumast út af fyrirlestri á lokamínútum leiksins

handbolti3 Í miðjum fyrirlestri laumaðist ég út svo lítið bar á til þess að fylgjast með síðasta korterinu af leiknum. Hafði gert samning við staðarhaldarann á Hrafnseyri um að fá að smjúga inn til hans og kíkja á sjónvarpið rétt á meðan leiknum væri að ljúka. Ég var nefnilega stödd á málþingi á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Dr. Einar Sigurbjörnsson var á  þeirri stundu með afar fróðlegt erindi um þremenningana Kolbein Tumarson, Guðmund Arason góða og Hrafn Sveinbjarnarson. En ... ég stóðst samt ekki mátið.  Og ég sá það á svipnum á Einari þegar ég kom til baka að hann fyrirgaf mér. Sama átti við um nánast alla í salnum sem sneru sér við í sætunum með spurnarsvip og vildu vita hvernig leikurinn fór. Tveir þumlar upp, það fór kliður um salinn, og bros breiddust um andlit.

Áður en ég laumaðist út til að horfa á lokamínúturnar var ég búin að fá regluleg SMS frá syni mínum um stöðuna frá byrjun: 1-0 var fyrsta skeytið, svo 5-0 FootinMouth og svo fóru Spánverjar að skora: 19-17 var staðan á einhverjum tímapunkti. Ég var orðin friðlaus í sætinu.

Það er ótrúlegt að við skulum vera komin í þá stöðu að geta spilað um gull á Ólympíuleikum. Þetta handboltalandslið okkar er samansafn af hetjum. 

Ósjálfrátt verður mér líka hugsað til Guðbjargar Guðjónsdóttur, ömmu Guðjóns Vals, þeirrar góðu konu sem er áttræði í dag. Varla hefði hún getað fengið betri afmælisgjöf.

Til hamingju Guðbjörg! Til hamingju strákar! Til hamingju Ísland! Wizard

 


mbl.is Íslendingar í úrslitaleikinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðiræða Óla Stef

ÓliStef Orðtakið að vera "ölvaður af gleði" fékk í fyrsta skipti merkingu í mínum huga þegar ég sá sjónvarpsviðtalið við Ólaf Stefánsson eftir sigur íslenska handboltalandliðsins á Pólverjum í gær. Því miður finn ég ekki tengil á sjálft viðtalið, en á visi.is má sjá þessa uppskrift af því.

Ólafur var í gleðivímu - hann var virkilega hátt uppi þegar fréttamaðurinn greip hann. Endorfínið fossaði um æðarnar á honum og samtalið var eftir því: Torskilin, samhengislaus gleðiræða ... sumpart um heimspeki. Tounge 

Þegar ég hinsvegar les viðtalið á blaði, skil ég mun betur hvað Ólafur er að fara. Og það gleður mig að einmitt þessar hugsanir skuli hafa verið honum efst í huga á þessari stundu - segi það satt: Þetta er alveg ný hlið á karlmennskuímyndinni sem keppnisíþróttirnar skapa. Jákvæð mynd - að vísu svolítið sundurlaus í framsetningunni á þeirri stundu sem orðin flæddu fram, en engu að síður virðingarverð.

Sömuleiðis er ógleymanleg senan þegar Björgvin markvörður lenti í hrömmunum á Loga að mig minnir (eða var það Sigfús?) sem öskraði upp í eyrað á honum af lífs og sálar kröftum eftir leikinn: "Mikið djöööfull ertu góóóóður!" Shocking Það mátti sjá (a.m.k. ímynda sér) augun ranghvolfast í höfðinu á Björgvini  sem var þó fljótur að jafna sig enda sjálfur í sæluvímu - og sú víma deyfir nú sjálfsagt nokkur desibil.

Guðmundur, þegar hann hljóp til strákanna eftir leikinn og hendurnar leituðu upp að vörunum.

Osssosssosss! Þetta var ógleymanleg stund. 

Vonandi verður önnur eins stund eftir leikinn á morgun. Smile 

Sjálf verð ég fjarri sjónvarpstækjum - því miður. Ég verð á málþingi vestur á Hrafnseyri í Arnarfirði um kaþólska Vestfirði í fortíð og nútíð. Svolítið frábrugðið viðfangsefni því sem hér er til umræðu - og viðbúið að ég verði friðlaus í sæti mínu einhvern hluta dagsins.


Borgarstjórar, njótið lífsins!

bar Hvað er að því þó að borgarstjóri djammi? Spyr Jens Guðmundsson í skemmtilegri  bloggfærslu. Ég hef líka verið að velta því fyrir mér hvað það átti að þýða að draga það inn í umræður um borgarpólitík að Ólafur F. Magnússon hefði sést á öldurhúsi. Ekki var hann í opinberum erindum - auk þess allsgáður. Það er nú meira en sagt verður um suma af æðstu ráðamönnum landsins sem m.a. hafa lyft Bermúdaskál við opinbert tækifæri, eins og frægt varð og um var ort svo eftirminnilega:

Í stjórnmálum lífið er leikur,
mér lætur að standa því keikur.
En mér brá er ég sá
að ég birtist á skjá
svona blind ösku þreifandi .... veikur. 

 Því miður man ég ekki hver orti þessa limru - hún hljómar svolítið eins og hún hafi liðast upp úr Hákoni Aðalsteinssyni án þess ég þori að fullyrða það.

Ólafur F. var allsgáður með vinafólki þegar hann sást á öldurhúsi. En þó svo hefði ekki verið. Þó svo hann hefði nú bara fengið sér ölkollu og setið að spjalli við fólk á einhverjum af börum bæjarins. Það hefði auðvitað bara verið hið besta mál. Og hvað þó einhver hefði séð til hans fara á fjörur við konu? Er þetta ekki einhleypur maður og sjálfs síns ráðandi? Eru það ekki hans mannréttindi að leita fyrir sér gagnvart konu? Á meðan menn haga sér skammlaust er ekkert við því að segja þó þeir njóti lífsins - það verða meira að segja pólitískir andstæðingar að sætta sig við og skilja.

Þessi söguburður er þeim til skammar sem standa fyrir honum. Það er mín skoðun.

Svo vona ég að borgarstjórar sem og borgarfulltrúar almennt eigi eftir að njóta lífsins í góðra vina hópi hér eftir sem hingað til - óhræddir við að láta sjá sig á meðal fólks.


Við hverja hefur samgönguráðherra talað?

KristjanMöller Kristján Möller samgönguráðherra sagði í Svæðisútvarpi Vestfjarða í gær að hann hefði orðið fyrir þrýstingi frá ýmsum "Vestfirðingum" að breyta áherslum í jarðgangagerð á Vestfjörðum. Verið væri að þrýsta á hann að fresta Arnarfjarðargöngum (hætta við?) en taka þess í stað göng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar fram fyrir.

Eitthvað er hér málum blandið varðandi  "þrýstinginn" sem ráðherrann verður fyrir. Mér vitanlega hefur hvergi nokkurs staðar verið samin ályktun eða samþykkt um að breyta forgangsröðun verkefna varðandi jarðgöng á Vestfjörðum. Þvert á móti hefur bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar áréttað fyrri samþykktir um nauðsyn á gerð Arnarfjarðarganga nú nýlega, ef mig misminnir ekki. Á síðasta ári var samþykkt í ríkisstjórn að flýta gerð jarðganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, þannig að framkvæmdum verði lokið árið 2012 í stað 2014.

Hvaðan kemur þá þessi "þrýstingur"? 

Mér finnst að ráðherra verði að skýra það betur. Og hvers vegna tekur hann mark á þessum svokallaða þrýstingi, svo mjög að hann færir málið í tal við fjölmiðla?

Í eyrum hins almenna Vestfirðings hljómar þetta allt mjög undarlega, því eins og sakir standa er ekkert sem bendir til þess að Vestfirðingar séu að hverfa frá áður markaðri stefnu í samgöngumálum, hvað svo sem líður afstöðu einhverra einstaklinga sem eiga símtöl við ráðherrann. Enda á þessi landshluti nánast allt sitt undir því að ráðist verði í þessi jarðgöng sem fyrst til þess að tengja saman norður og suðurhluta Vestfjarða og koma Kjálkanum þar með í raunverulegt vegasamband við landið.

Sá munur er á þessum tveimur framkvæmdum að göng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar myndu nýtast norðanverðum Vesfjörðum nær eingöngu. Þau myndu flýta för um Ísafjarðardjúp og auka umferðaröryggi milli tveggja bæja - líkt og göngin um Óshlíð bæta samgöngur milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar en nýtast ekki landshlutanum að öðru leyti.

Arnarfjarðargöngin hinsvegar nýtast landshlutanum í heild. Þau bæta samgöngur milli byggðarlaganna, gera Vestfirði að einu verslunarsvæði, jafnvel atvinnusvæði líka auk þess að bæta vegasamband við landið allt.

Samgönguráðherra hefur sést á ferli hér fyrir vestan síðustu daga. Mér vitanlega hefur hann þó ekki fundað með sveitarstjórnarmönnum um þessi mál, hvorki flokksmönnum sínum né öðrum. Ég leyfi mér að fullyrða að í þeim röðum er varla nokkur maður sem myndi mæla þessari stefnubreytingu bót.

Við hverja hefur ráðherrann þá verið að tala?


Sigurvíma morgunsins: Íslensku strákarnir voru frábærir!

handbolti3 Íslensku strákarnir stóðu sig aldeilis hreint snilldarlega í leiknum gegn Pólverjum í morgun: 32-30. Wizard Ekki amalegt!

Og Björgvin Páll Gústavsson! Að verja 21 mark í leiknum - þetta er bara tær snilld. Líka tær snilld að setja þennan töframann ekki inn á fyrr en í þessum leik. Þetta er leikurinn sem skipti máli, þá skellir maður út trompunum.  

En samt - alltaf þegar einhver sigrar er einhver annar sem tapar. Og mikið er núhandbolti4 alltaf rörende að horfa á menn fleygja sér örmagna í gólfið, bugaða eftir baráttuna. Ossosssoss. Sem betur fer veit maður að þeir jafna sig fljótt - gera betur næst. Það höfum við Íslendingar oft mátt reyna.

 

handbolti5  Annars er það Guðjón Valur sem alltaf á aðdáun mína öðrum fremur í íslenska karlalandsliðinu. Ástæðurnar eru nokkrar:

1) Krúttástæðan: Hann er litli frændi bestu vinkonu minnar og ég hef þekkt hann frá því hann var barn. 2) Huglæga ástæðan: Hann er drenglundaður í leikjum, prúður í framgöngu sinni en fastur og baráttuglaður. 3) Leikástæðan: Hann er ótrúlega góður leikmaður og gerir alltaf aðeins betur en getumörk leyfa, heldur uppi móral. 4) Algilda ástæðan: Hann ber fallega persónu.

Jamm ... það verður ekki leiðinlegt að fylgjast með framhaldinu. Ó, nei. Og svo er bara að kyrja einum rómi: Við gerum okkar, gerum okkar ... gerum okkar besta! Og aðeins betur en það er það sem þarf! La la la la la ......


Dagbækur Matthíasar og trúnaður við heimildamenn

matthíasMblIs  Dagbækur Matthíasar Johannesen fyrrum Morgunblaðsritstjóra hafa orðið tilefni fjölmiðlaumfjöllunar að undanförnu.  Enda ekki að furða - maður stendur agndofa yfir því að virtur ritstjóri skuli leyfa sér að opinbera einkasamtöl við menn með þeim hætti sem hann gerir. Það er eins og Matthías hafi aldrei heyrt talað um þá mikilvægu siðareglu blaðamanna að virða trúnað við heimildamenn. 

Í þessum dagbókarfærslum sem hann hefur nú birt rekur hann samtöl sín við ráðamenn þjóðarinnar frá ýmsum tímum. Samtöl sem augljóslega hafa verið "off the record" á sínum tíma: Slúður þeirra hvern um annan og óábyrgt tal. Hann opinberar tilraunir þeirra til þess að afhjúpa hvern annan og koma hver öðrum í koll. Allt er það fróðlegt aflestrar - en vekur um leið óþægilega tilfinningu þar sem auðséð er af öllu að þessir menn hafa treyst Matthíasi fyrir því sem þeir eru að segja.

Fréttahaukurinn fyrrverandi, Atli Rúnar Halldórsson, gerir  athyglisverðan útdrátt úr þessum minnispunktum Matthíasar á bloggsíðu sinni í dag.

Ósjálfrátt hvarflar hugurinn til þess tíma þegar Agnes Bragadóttir - þá blaðamaður undir stjórn Matthíasar á Morgunblaðinu - neitaði fyrir dómi að gefa upplýsingar um heimildir sínar í tilteknu máli. Hún og blaðið uppskáru virðingu annarra blaðamanna fyrir vikið, enda stóð blaðamannastéttin einhuga með henni í málinu. 

Traust er slungið hugtak - það felur m.a. í sér að maður geti gengið að ákveðnum leikreglum - jafnvel gagnvart óvinum sínum (það er nefnilega vel til í dæminu að trausti ríki milli andstæðinga). Þetta á jafnt við í opinberu lífi sem einkalífi. Til  dæmis treysta flestir því að einkalíf þeirra verði ekki sett á sölupall þó að hjúskaparstaðan breytist. Þess eru raunar dæmi að fólk hefur viljað græða á bókum og viðtölum um hjónalíf sitt eða náin samskipti með tilteknum aðila eftir skilnað. Það þykir ekki stórmannlegt.

Þessar opinberanir Matthíasar eru af svipuðum toga:  Að fá fólk til þess að opna sig við mann í einkasamskiptum, en ákveða svo einhliða hversu langt trúnaðurinn skuli ná og hvenær tímabært sé að rjúfa hann og segja frá.

Ég hef ekki orðið vitni að því fyrr að gamlir blaðamenn opinberuðu minnispunkta sína með þessum hætti - og ryfu þar með trúnað við heimildamenn sína. Sjálfri dytti mér það ekki í hug sem gömlum fréttamani að gera þetta - þykist ég þó vita að margir úr þessum bransa eigi ýmislegt í sínum minnisbókum, líkt og Matthías.

Dagækur


Amy Winehouse, Britney, Jackson - harmsaga okkar daga.

amy-winehouse-fat-thin Amy Winehouse er að upplagi falleg og hæfileikarík söngkona með stórbrotna rödd. Ung stúlka sem fyrri fáum mánuðum var svona útlítandi:

 amy_winehouse_narrowweb__300x414,0 En er nú orðin svona:

AmyWinehouse-horud AmyWinehouse2603_468x406

Hún er grindhoruð, alsett kaunum og kýlum eins og þeir sem neyta heróíns, kókaíns og cracks.  Tónlistarframmistaðan hefur þróast á svipaðan veg. Ekki er ýkja langt síðan Amy kom fram við verðlaunaafhendingu og söng þá með þessum hætti. Bara sæmilegt, ekki satt? Back to black söng hún um svipað leyti og gerði það bærilega. En á  þessum tónleikum má hinsvegar sjá að hún er farin að missa fjaðrirnar: Máttfarin, laglaus og óstyrk.

amy_winehouse_4_wenn1832955 Já, það hefur sigið á ógæfuhliðina hjá Amy Winehouse. Þetta hefur gerst svo hratt að maður trúir því varla. Á hverjum tónleikunum af öðrum birtist hún skökk og skæld, þvoglumælt og hræðileg, eins og til dæmis hér. Hún hefur jafnvel gengið svo langt að fá sér í nösina frammi fyrir áhorfendaskaranum, eins og hún hafi ekki áttað sig á því hvar hún var stödd.

Þetta "Hollywood-líf" er eins og banvænn sjúkdómur. Ungt fólk í blóma lífsins er bókstaflega étið upp til agna ef það kann ekki fótum sínum forráð. Um þetta höfum við fjölmörg dæmi: Britney Spears,  Michael Jackson og fleiri og fleiri. Birtingarmyndirnar eru margvíslegar - en allar eiga þær það sammerkt að í þeim eru ungar, hæfileikaríkar manneskjur að veslast upp fyrir augunum á heimsbyggðinni. Og heimurinn horfir og horfir - af áfergju og grimmd - tekur myndir og selur. Græðir á ógæfunni. 

Enginn segir "nóg komið". Og enginn kemur til hjálpar.


"Bloggarar eru ábyrgðarlaust fólk" ...

... sagði Þorbjörn Broddson fjölmiðlafræðingur í útvarpsviðtali á RÚV í morgun. Í viðtalinu var Þorbjörn að útskýra það hvers vegna fjölmiðlaumræðan hefur verið svo óvægin og nærgöngul gagnvart Ólafi F. Magnússyni sem raun ber vitni. Hann var spurður um ástæður þess að fjölmiðlar hafa að undanförnu farið með dylgjur um einkalíf fráfarandi borgarstjóra og taldi hann helst að um væri að kenna æsingi og samkeppni við bloggheiminn. Shocking

Ég fór að rifja upp hvar ég hefði fyrst heyrt eða séð dylgjur um einkalíf fráfarandi borgarstjóra. Það var í Kastljóss viðtali við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir nokkrum dögum. Um svipað leyti rakst ég á klausu í einhverju dagblaðanna. Ég hef ekki séð orð um þetta á blogginu.

Mér virðast velflestir bloggarar vera ábyrgir í sínum skrifum. Þorbjörn Broddason er háskólakennari í fjölmiðlafræðum, og það er alvarlegt mál ef slíkur maður setur fram hleypidóma af þessu tagi um tiltekinn hóp fólks sem á það eitt sameiginlegt að halda úti bloggsíðum.

Það verður hver og einn að vera ábyrgur orða sinna - það á við um Þorbjörn Broddason ekkert síður en bloggarana og fjölmiðlafólkið. Þá er það aumur málflutningur að gera bloggheiminn ábyrgan fyrir slælegum vinnubrögð ríkisfjölmiðlanna og rótgróinna dagblaða. 

dagblöð


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband