Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Í lagi að berja börn?

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur kveðið upp úr um að "varhugavert" sé að slá því föstu "að það falli ætíð undir það að vera yfirgangur, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi" að flengja börn. Að vísu telur dómurinn það "óheppilegt og óæskilegt" að flengja börn, en samt ... móðir barnann var viðstödd flenginguna og gerði ekki athugasemd við hana. Þá er allt í lagi ... eða hvað?  Angry

Hvernig VOGAR þessi héraðsdómari sér að úrskurða í dómsorði að það sé ekki yfirgangur, ruddaskapur eða ósiðlegt athæfi að beita börn líkamlegu ofbeldi? 

Í sama máli kemur fram að viðkomandi maður flengdi konuna sína í kynlífsleik, og neitaði að hætta þegar hún bað hann um það. Hún kærði það - en leyfði manninum samt að flengja börnin sín. Varla hefur það þó verið með þeirra samþykki.

Þessi héraðsdómari er blindur. Hann er haldinn þeirri ranghugmynd að það sé í lagi að berja börn bara ef tvær fullorðnar manneskjur koma sér saman um það.

Það er ekki í lagi að berja mann úti á götu. Skiptir engu hversu margir koma sér saman um að gera það. Hvers vegna  ætti þá að vera í lagi að berja barn inni á heimili?

Þetta dómsorð er hneyksli. Það liggur við að mér finnist það varða við lög - barnaverndarlög.

 


mbl.is Flengingar ekki alltaf ruddalegt eða ósiðlegt athæfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

RÚV gægist á glugga

Sjonvarpidlogo22 Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi voru sýndar þessar fréttamyndir sem teknar voru inn um glugga á borgarstjóraskrifstofunni í Ráðhúsinu nóttina áður. Þar sat miðborgarstjóri á einkafundi með fráfarandi borgarstjóra. Örvænting og örmögnun í loftinu. Stór geispi.

Nú þykist ég vita að Jakob Frímann Magnússon myndi ekki standa geispandi og úfinn frammi fyrir myndavélum ef hann vissi af því að þær væru í gangi. Það myndi enginn gera eða vilja - ekki ég að minnsta kosti. En Jakob Frímann vissi ekkert af þessari myndatöku - ekki heldur Ólafur F. Magnússon. Þessir tveir samverkamenn voru á einkafundi - fjarri augliti fjölmiðla að þeir töldu.

Þetta var óviðeigandi myndataka - og mér leið illa að verða vitni að þessu. Ríkisútvarpið á ekki að leyfa sér að liggja á gluggum og taka myndir af fólki því að óvörum, þar sem það telur sig vera óhult bak við lokaðar dyr.

Gægjuhvötin getur vissulega verið rík stundum og fjölmiðlar forvitnir um það sem gerist "bak við tjöldin". En það er ekki sama hvernig forvitninni er svalað. Fjölmiðill sem er vandur að virðingu sinni hagar sér ekki svona - hversu dramatískt sem augnablikið kann að vera. Allir eiga rétt á því að skýla sér fyrir augliti annarra þegar erfiðir atburðir eru að gerast. Það verður ríkisfjölmiðillinn að virða.


Orðabrigð og laumuspil - vond byrjun hjá Hönnu Birnu

Látum vera þó að meirihlutinn hafi sprungið og nýr myndaður. En framkoma helstu persóna og leikenda í því handriti er í senn yfirgengileg og sorgleg. Það eru ósannindin, hálfsannindin og blekkingar þessa fólks sem valda mér hugarangri og hneykslan.

"Orð skulu standa" er stundum sagt. Við Íslendingar höfum löngum litið svo á að orð og handsöl hafi gildi enda mikilvægt að hægt sé að reiða sig á eitthvað í mannlegum samskiptum.  Ekki síst hefði maður nú haldið að stjórnmálamenn þyrftu að kunna þessa kúnst - og einhvern veginn hélt maður að Íslendingar væru enn það siðvæddir að líta á orðheldni sem dyggð.  En í Borgarstjórn  Reykjavíkur er annað uppi á teningnum. Þar eru orð og yfirlýsingar einskis virði.

Í gær og morgun kepptist Óskar Bergsson við að sannfæra fjölmiðla og borgarfulltrúa minnihlutans um að hann ætti ekki í neinum þreifingum um nýja meirihlutamyndun í borgarstjórn. Hanna Birna hefur margoft lýst því yfir að Sjálfstæðismenn væru heilshugar í samstarfi sínu við Ólaf F. Magnússon. Flóttaleg framkoma hennar og Vilhjálms Þ. síðustu daga þar sem þau hafa laumast út um brunaútganga til að forðast fjölmiðla hefur ekki beinlínis borið vott um góðan málstað. Þau hafa verið á harðahlaupum undan eigin orðum og gjörðum - svo dapurlegt sem það nú er. Jafnvel sjálfur forsætisráðherrann hefur orðið uppvís að ummælum sem ekki fá staðist nánari skoðun - hann hefur ekki viljað kannast við að neitt væri í gangi.

Og nú hefur samstarfinu - þessu sem gengið var til svo "heilshugar" fyrir skömmu - verið slitið. Nýr meirihluti er orðinn að veruleika, Hanna Birna borgarstjóri og Óskar Bergsson formaður borgarráðs. Þetta hefur gerst þrátt fyrir nokkurra klukkustunda gamlar yfirlýsingar í allt aðra veru. Já, án þreifinga - án vitneskju formanns Sjálfstæðisflokksins, ef marka mætti orð þessa fólks - sem er auðvitað ekki hægt. Undangengnir atburðir sanna að ekki er ORÐ að marka sem það segir.

Samt er þetta fólkið sem þiggur umboð sitt frá almenningi og á að starfa í hans þágu. Svona starfar það.

Nei, dyggðir á borð við orðheldni, heilindi, drengskap eru augljóslega hverfandi á þessum leikvangi.  Og það er sorglegt að sjá.

Þetta er vond byrjun hjá Hönnu Birnu.


mbl.is Nýr meirihluti að fæðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú ætti að kjósa í Reykjavík

reykjavik Það er satt að segja undarlegt að ekki skuli vera gert ráð fyrir því í lögum hvernig bregðast skuli við stjórnarkreppu í sveitarstjórn. Lög gera ráð fyrir því að hægt sé að rjúfa þing og boða til kosninga - en sveitarstjórnir eru njörvaðar niður til fjögurra ára hvað sem tautar og raular.

Þessi fáránlega atburðarás í Reykjavík er talandi dæmi um þörfina á því að breyta lögum í þágu lýðræðisins. Nú ætti auðvitað að kjósa aftur í borginni og koma þar á starfhæfum meirihluta sem hefur skýrt umboð. Eins og sakir standa fer lítið fyrir umboði þeirra stjórnmálaafla sem þessa stundina engjast um eins og maðkar í valdaþrónni, meira eða minna rúnir trausti almennings ef marka má skoðanakannanir.

Svo er það málfarið á vitleysunni allri - það er orðið eins og vitleysan sjálf: Hvað er það að "ná ákvörðunum upp úr átakamiðuðu ferli"?? Shocking Og hvenær varð "endastaður" einhver staður? Woundering

Þetta er orðin ein hringavitleysa - bæði atburðarásin og umræðan.


mbl.is Samstarfið á „endastað"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horn skella á nösum - og hnútur fljúga um borð

bilde Sorglegt er að sjá hvernig komið er fyrir stjórnarháttum í höfuðborg landsins. Framsóknarmenn eru að hugsa um að ganga til meirihlutasamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Guðni Ágústsson segir flokkinn reiðubúinn að "axla ábyrgð" eins og hann orðar það. Fréttir herma að framsókn setji skilyrði um að Ólafi F. Magnússyni verði ýtt út - Sjálfstæðismenn eru að hugsa málið.

Ég spái því að þetta verði niðurstaðan, enda er ekki á nokkurn mann treystandi í þessum herbúðum eins og sakir standa og dæmin sanna. Yfirstandandi fundahöld Hönnu Birnu og Ólafs F í Ráðhúsinu í dag eru trúlega bara dauðateygjur þessa meirihlutasamstarfs. Sagan sýnir okkur að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins svífast einskis þegar svo ber undir - enda virðist borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna gjörsamlega heillum horfinn. Þar er ástandið eins og hjá Goðmundi á Glæsivöllum í frægu kvæði eftir Grím Thomsen ...

 ... trúðar og leikarar leika þar um völl,
en lítt er af setningi slegið.

 Og eins og í því ágæta kvæði er allt "kátt og dátt" á yfirborðinu ...

... en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt
í góðsemi vegur þar hver annan.

 Nú sannast það sem sagt var þegar grafið var undan 100 daga meirihlutanum: Borgarstjórn Reykjavíkur er óstarfhæf.  Þarna er engum að treysta - samningar og handsöl eru einskis virði - allt er falt fyrir völd og áhrif. Upplausnin er algjör. Undirferlið sömuleiðis og uppdráttarsýkin.

Horn skella á nösum
og hnútur fljúga um borð,
hógvær fylgja orð;
en þegar brotna hausar og blóðið litar storð,
brosir þá Goðmundur kóngur.

Já, þetta er Reykjavík í dag. Svei.


Nokkrir góðir dagar með BHSÍ

NýjaTeymið Jæja, nú er orðið langt síðan maður hefur bloggað - enda brjálað að gera í sumarfríinu. Wink Nú sit ég hér sólbrennd og þrútin eins og steiktur tómatur, nýkomin af frábæru fjögurra daga sumarnámskeiði með Björgunarhundasveit Íslands sem haldið var á Gufuskálum 7. - 10. ágúst, að báðum dögum meðtöldum. Við fengum sól og blíðu alla dagana.

Að þessu sinni mætti ég með nýjan félaga til leiks: Skutul litla, hvolpinn minn sem ég fékk í sumar. Hann er að verða fjögurra mánaða. LöngBiðÞetta námskeið var mikil lífsreynsla fyrir hann og hann stóð sig með prýði. Sýndi sjálfstæði á æfingunum, fór býsna langt frá mér þótt ungur sé að árum og var í alla staði hinn efnilegasti. Datt inn á lykt strax í fyrsta rennsli og "fann" sinn mann. Það er mikið álag á ungan hvolp að meðtaka allt sem fylgir æfingum sem þessum. Samvera með öðrum hundum og ókunnugu fólki, dvöl í búri, annarleg hljóð og margt fleira er mikið áreiti. Þetta litla grey var meðal annars sett í sigbelti og híft með talíu upp undir rjáfur. Ekki lét hann sér bregða við það. Þá var hann settur upp í kyrrstæða þyrlu og fékk að skoða þar allt innanborðs. Það fannst honum spennandi. En þegar þyrlan var komin í gang og hann var teymdur í átt að henni, fannst honum nóg komið og spyrnti við fótum. Hann var að sjálfsögðu ekki neyddur um borð, enda hávaðinn þvílíkur að mér sjálfri var nóg um.

 ÞyrlanLíf  Já, meðlimir í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar voru okkur innan handar á þessu námskeiði. Þeir mættu á TF-Líf og kynntu fyrir okkur starf þyrlusveitarinnar. Hundarnir fengu að fara inn í þyrluna og reyndustu hundateymin voru látin síga úr henni. Við Skutull gengum að sjálfsögðu ekki svo langt - en hér sjáið þið myndir af undirbúningnum og hérna er myndband af þyrlusiginu. Við Skutull sátum álengdar og fylgdumst með af tilhlýðilegri virðingu.

  SkvisaMátar  Sigið  Þyrlubið

Já þetta var í alla stað frábært námskeið. Hvað eru sólbruni og þrútnar varir á við nokkra dýrðardaga á Snæfellsnesi með skemmtilegu fólki? Smile 


Vestfirðir í ljóma dagsins!

 raudasandur Aldrei hefur Rauðisandurinn ljómað skærar í hásumarsól en í dag. Að dýfa tánum í ylvolgan sjóinn á aðfallinu var engu líkt. Í tindrandi tíbrá mókti Snæfellsjökull í fjarska. Já, þetta voru yndislegir endurfundir við gamlar slóðir.

Við Siggi brugðum okkur sumsé í lystireisu með hana móður mína í dag. Dynjandi02Ókum til Patreksfjarðar sem leið liggur um Önundarfjörð og Dýrafjörð, yfir Sandafell og Hrafnseyrarheiði, um Arnarfjörð og Dynjandisheiði. Komum við í Dynjandisvoginum á leiðinni þar sem við viðruðum hundana í veðurblíðunni. Heitur vindur lék í hári og gáraði hafflötinn - kindur lágu magnvana undir moldarbörðum og fólk flatmagaði eða sat í lautum og lægðum. Yndislegur dagur.

Þarna í Arnarfirðinum kom skáldskaparandinn yfir okkur mæðgur og við ortum:

Sól á fjörðum sindrar,
sveipar gullnum ljóma.
Ljóssins tíbrá tindrar.
Tún í fullum blóma.

Að hamraveggnum háa
hneigist fífan ljósa.
Brotnar aldan bláa
brött við sjávarósa.

Strýkur blærinn stráin,
stör á grónum hjalla.
Í fossi fellur áin
fram um hamrastalla.

Yfir landi liggur
ljómi sumardagsins,
hugur enginn hyggur
húmkul sólarlagsins.

 Eftir svolitla viðdvöl á Patreksfirði var ferðinni heitið út á Rauðasand. Þar hefur orðið mikil og sjáanleg uppbygging á undanförnum árum fyrir tilstilli Kjartans Gunnarssonar og Sigríðar Snævarr sem fyrir nokkrum árum keyptu land í hreppnum og hófust handa. Nú er þar m.a. rekið "franskt" kaffi hús á fögrum útsýnisstað. Þar er gott tjaldstæði og aðstaða öll hin besta.

Við settumst út á verönd í sumarhitanum og fengum okkur vöfflur með rjóma. Hittum þar frú Sigríði með frumburð sinn og tókum tali. Þá hittum við þarna fleira fólk úr hreppnum sem mamma þekkti að sjálfsögðu öll deili á, enda ættuð úr Rauðasandshreppi og á þar enn frændfólk á öðrum hverjum bæ. 

Útsýnið var óumræðilegt og undarlegt að fylgjast með aðfallinu, hve ört féll að á grunnsævinu. Ég stóðst ekki mátið að rífa mig úr skóm og vaða út í volgan sjóinn, draga að mér ilminn af sauðfénu sem var þarna í námunda, kúnum sem lágu jórtrandi og lynginu í hlíðinni.

Á heimleiðinni ókum við Barðaströndina. Komum við í Flókalundi og borðuðum síðbúinn kvöldverð við glugga sem vísar út Vatnsfjörðinn með útsýn yfir hluta Breiðafjarðar. Tíbráin titraði enn í bláum fjarskanum en jökullinn var horfinn í mistrið.

Oohhh - það jafnast ekkert á við Vestfirði í góðu veðri.

*

PS: Því miður gleymdi ég myndavélinni og get ekki sýnt ykkur myndir frá sjálfri mér. Þessar myndir hér fyrir ofan fékk ég á netinu. Því miður kemur þar ekki fram hver tók þær, en þær lýsa býsna vel því sem blasti við augum í dag.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband