Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
Hávaði er stjórntæki
31.3.2008 | 23:28
Hávaði er stjórntæki - hann er notaður markvisst til þess að stjórna kauphegðun fólks og neysluvenjum. Þessu hef ég nú loksins áttað mig á og það sýður á mér við tilhugsunina um það hvernig maður lætur stjórnast af áreitum eins og til dæmis hávaða.
Raunar tók ég aldrei eftir þessu þegar ég var yngri. Kannski voru eigendur verslana og veitingahúsa ekki jafn útsmognir í að beita þessu þá og þeir eru nú. En með árunum hef ég orðið þess vör að hávaðinn í kringum mig er sífellt að aukast. Sérstaklega þegar ég fer út fyrir landsteina. Á sumardvalarstöðum í sunnanverðri Evrópu er ástandið orðið þannig að það er hvergi friður fyrir tónlist. Í öllum verslunum, á öllum veitingahúsum, í lyftum, jafnvel á salernum ómar hvarvetna tónlist. Eiginlega er ekki rétt að segja að hún "ómi". Þetta bylur á manni í sífellu og hækkar eftir því sem nær dregur helgi, og eftir því sem líður á daginn. OG það er hvergi friður fyrir þessu. HVERGI.
London er engin undantekning. Þar sem ég hélt að Bretar væru séntilmenn, þá mannaði ég mig upp í það - þar sem ég lenti ítrekað í því að fá borð beint undir hátalara - að biðja um að tónlistin yrði lækkuð lítið eitt. Það bar ekki árangur. Þjónarnir ypptu öxlum og sögðu afsakandi að þeir gætu því miður ekkert gert. Það væri nefnilega búið að prógrammera tónlistina. Á tveimur veitingahúsum var gefið sama svar.
Og þar sem ég sat með síbyljuna í eyrunum, og þann góða ásetning að láta þetta ekki eyðileggja fyrir mér kvöldið, fór ég að fylgjast með fólkinu umhverfis mig. Ég sá pirraða matargesti á yfirfullum veitingahúsum moka í sig matnum og flýta sér síðan út. Um leið voru komnir nýir gestir á borðið. Þá rann upp fyrir mér að til þess er leikurinn einmitt gerður. Á veitingahúsum miðborgarinnar er tónlistin beinlínis notuð til þess að stýra því hversu lengi fólk staldrar við, sérstaklega um helgar þegar annríkið er mest. Því fleiri gestir sem koma og fara á einu kvöldi, því betra fyrir veitingahúsið. Af þessu leiðir að því meira sem er að gera, því hærri verður tónlistin - til þess að fólk staldri skemur við, borði meira og hraðar og forði sér svo.
Í miðri viku þegar minna er að gera lækkar tónlistin. Þá er notalegt að sitja kyrr og spjalla. Og það gerir fólk. Þeir sem sitja lengur kaupa meira, fá sér einn drykk enn, skoða eftirrréttaseðilinn í rólegheitum, fá sér kannski kaffið sem þeir ætluðu að sleppa. Þá græðir veitingahúsið á því að gesturinn vilji sitja.
Og gesturinn gerir bara eins og til er ætlast, eins og kýrnar sem hlaupa á réttan stað þegar þær fá rafstuð í rassinn.
Mórallinn í sögunni? Þögnin er stórlega vanmetin sem lífsgæði.
*
PS: Að þessu sögðu er rétt að upplýsa að ég er nýkomin úr annars yndislegri helgarferð til London - þar sem ég naut dvalarinnar ásamt eiginmanni, systur og mági - þrátt fyrir hávaða.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Vorlitir yfir London
28.3.2008 | 18:22
Eg sit her a hotelherbergi i London, og pikka a lyklabord sem hefur ekki islenska stafi. Fyrir vikid er eg halfpartinn mallaus, finnst mer.
En eg er semsagt i silfurbrudkaupsferd. Jebb, tad eru 25 ar i hjonabandi, segi og skrifa! Halldora systir og Nonni, hennar madur, giftu sig sama dag og vid Siggi fyrir aldarfjordungi, i stofunni heima a Hrannargotunni. Pabbi pussadi okkur saman med syslumannsvaldi = og thad hefur bara dugad oll thessi ar - blessud se minning hans.
Nu akvadum vid systurnar ad bjoda okkar heittelskudu eiginmonnum i helgarferd til London i tilefni af tessum merka afanga.
Her er thokkalegasta vedur, solarglennur af og til og stoku rigningarskurir. Vorid er a naesta leiti ser madur a litunum; tren eru farin ad graenka og gardarnir.
Vid spigsporum um gotur borgarinnar, aetlum ad kikja i leikhus, fara ut ad borda, kannski versla svolitid og svona.
Tad verdur tvi ekki bloggad meira fyrr en eftir helgi. Sjaumst!
Launaleynd Þórhalls
26.3.2008 | 10:46
Þórhallur Gunnarsson hefur lagt fram lögbannskörfu á Ríkisútvarpið til að hindra að launakjör hans verði opinberuð. Hann segist sjálfur ætla að ráða því hvenær persónulegar upplýsingar um hann verði birtar opinberlega og telur á sér brotið ef þetta verður upplýst. Frá þessu er sagt á visir.is og það er Óskar Hrafn Þorvaldsson ritstjóri visis.is sem hefur óskað eftir þessum upplýsingum. Hann óskar ennfremur eftir því að sjá launaupplýsingar Sigrúnar Stefánsdóttur sem gegnir sama starfi og Þórhallur - kveðst hafa grun um að laun þessara tveggja stjórnenda á ríkisútvarpinu séu ekki sambærileg.
Nú er auðvitað hugsanlegt að launin hans Þórhalls séu svo lág að hann skammist sín fyrir að sýna það. En hversvegna þumbast útvarpsstjóri við?
Nú er það þannig að fyrirtæki sem rekin eru af almannafé hafa lögbundnar skyldur til þess að upplýsa almenning - eða fulltrúa þeirra - um stjórnsýslu sína. Og á meðan lög gilda sem banna launamismunum á grundvelli kynferðis, þá verður almenningur að geta fylgst með því að þeim sé framfylgt. Málið snýst um grundvallaratriði - jafnréttislögin - launajöfnuð. Það virðist augljóst.
Hitt er auðvitað svolítið sérkennilegt að einkafyrirtæki skuli algjörlega undanþegin upplýsingaskyldu af þessu tagi á meðan ríkisstofnanir verða að leggja allt á borðið. En þannig virkar lýðræðið. Almenningur á rétt á því að vita hvernig farið er með fjármuni hans. Og þó svo að ríkisútvarpið sé orðið ohf - þá er það enn í eigu almennings, fjármagnað af opinberu fé. Á meðan svo er verður ríkisútvarpið að lúta sömu reglum og önnur opinber fyrirtæki.
Það verður því fróðlegt að sjá hvort lögbannskrafan nær fram að ganga. Ég verð að viðurkenna að mig langar að fá þessar upplýsingar - nú þegar forvitnin hefur verið vakin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
Eldarnir þrír sem brunnu
25.3.2008 | 21:36
Þessa dagana eru tíðar fréttir af eldsvoðum og slökkvistarfi. Það er svo undarlegt með eldinn, hann á það til að "ganga ljósum logum" í orðsins fyllstu merkingu, eins og farsótt. Stundum er engu líkara en ósýnileg hönd sé að verki sem kveiki nýjan eld jafnóðum og annar slokknar.
Eldurinn er merkilegt fyrirbæri. Hann bæði yljar og eyðir eins og ástríður mannanna, skapsmunir og aðrar tilfinningar. Það er því ekki að furða þó eldurinn hafi orðið skáldum og heimspekingum innblástur á stundum.
Í ljóðinu "Eldarnir þrír" sér Davíð Stefánsson tækifæri lífs síns sem kulnaða elda. Hér kemur ljóðið:
Þegar þú gekkst í garðinn fyrst,
brann gneisti í hverju spori.
En nornirnar gátu rúnir rist,
sem rændu mig sól og vori.
Eg hirti hvert sprek, sem við hafið lá,
frá hausti til hvítasunnu ...
Enn þá man eg eldana þrjá,
eldana þrjá, - sem brunnu.
Á bak við logana leyndumst við
og létum þá eina tala
um saklausar ástir, svanaklið
og sólmóðu grænna dala.
En oft er, að sumarið seiðir mest,
ef sól er að djúpi runnin,
og þegar við fundum funann bezt,
var fyrsti eldurinn - brunninn.
Sá uggur, sem fór um okkur tvö,
var öskunni mest að kenna.
Af loftinu hverfa sólir sjö,
er síðustu sprekin brenna.
En óskalandið var lýst í bann
og lífinu fjötrar spunnir.
Logarnir titruðu, tíminn rann,
unz tveir voru eldar brunnir.
Að una sem gestur í annars borg
var aldrei að þínu skapi.
Um loftið, myrkvað af leyndri sorg,
fór leiftur af stjörnuhrapi.
Á hinztu glæður brá fölskva fljótt,
því fram hjá var stundin runnin.
Þjáningin kom eins og þögul nótt
og þriðji eldurinn - brunninn.
Í dökkvanum jörðin döggvuð svaf,
og dulið var allt, sem við þráðum.
Milli okkar er hyldjúpt haf,
þó himinn sé yfir báðum.
Í fjarska eru djúpin fagurblá
þó frjósi þau, vötnin grunnu ...
Ennþá man ég eldana þrjá,
eldana þrjá - sem brunnu.
Ljóð | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mannabein og galdur
24.3.2008 | 20:35
Hefðu "eigendur" hauskúpunnar sem fannst í Kjósinni verði uppi á sautjándu öld er nokkuð víst að þeir hefðu verið brenndir á báli sem sannreyndir galdramenn. Meðferð mannabeina í þá tíð var álitinn skýlaus vottur um fjölkynngi og ekkert annað.
Jafnvel dauðir menn voru brenndir ef í ljós kom að þeir höfðu eitthvað slíkt á sér. Það gerðist til dæmis árið 1650 þegar Jón Sýjuson var hálshöggvinn á alþingi fyrir blóðskömm. Þá uppgötvaðist eftir aftökuna að í skónum hans var hárug hausskel af manni. Höfðu menn nú snör handtök og brenndu líkið til ösku.
Meðferð mannabeina eða annarra líkamsleifa á borð við hár, neglur, jafnvel húð er þekkt í tengslum við galdraiðju og flokkast undir það sem kallað er necromantia. Í doktorsritgerð minni Brennuöldinni sem kom út árið 2000, gef ég þessu íslenska heitið náníð og tengi við myrkari gerðir galdurs á borð við þær að vekja upp og særa fram anda framliðinna. Um þetta eru þó skiptar skoðanir.
Það hljómar sjálfsagt undarlega í flestra eyrum, en þess eru dæmi enn í dag að iðkendur galdra notist við slík hjálpartæki. Til eru nornir og galdrafræðingar sem líta á líkamsleifar sem fullkomlega eðlileg meðul við galdraiðju og telja grafarmold til nauðsynjahluta. Bandaríska nornin Silver Raven-Wolf sem hefur skrifað nokkrar bækur um hagnýtan galdur, er í þeirra hópi. Ein þekktast norn á Norðurlöndum, danska galdrakonan Dannie Druehyld, talar að vísu ekki um mannabein í sinni fallegu bók Heksens håndbog, en hún er sannfærð um mátt grafarmoldar.
Ekki veit ég hvað hjólhýsafólkinu sem hafði hauskúpuna hjá sér gekk til - og ekki ætla ég að bera galdur upp á neinn. En það er hugsanlegt að þessi höfuðskel hafi einhverntíma þjónað öðru hlutverki en því að vera stofustáss.
Hauskúpan var meðal húsmuna í hjólhýsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Flugvélagnýr í firðinum
24.3.2008 | 11:19
Jæja, þá er nú páskahelginni að ljúka. "Börnin" farin að tygja sig til ferðar eftir viðburðaríka, sólskinsdaga.
Skutulsfjörðurinn hefur svo sannarlega skartað sínu fegursta þessa góðu páska - dimmblár og spegilsléttur. Á morgnana hefur sjófuglinn liðið letilega um hafflötinn og framkallað silfurþræði til beggja átta í kyrrð og þögn. Síðan hefur lífið smám saman færst yfir bæinn; skíðabrekkurnar fyllst af fólki, og bærinn iðað af mannlífi.
Sannkallaðir dýrðardagar.
En nú er ballið búið. Í morgun var enginn sjófugl á letilegu svamli í silfurslegnum haffleti - enda sjórinn orðinn úfinn og himininn grár.
Það er flugfélagnýr í firðinum. Einn af öðrum svífa stálskrokkarnir inn yfir byggðina og tylla sér niður skamma stund. Taka síðan flugið aftur og hverfa inn í grámann, með gesti helgarinnar innanborðs.
Jamm, þetta er lífsins gangur .... best að bretta upp ermar fyrir vinnuvikuna framundan. Enda langt til næstu páska.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hjartsláttur á danssýningu
22.3.2008 | 22:25
Það voru svo sannarlega "Leysingar" í dansatriðum þeirra stallstystra, Sögu dóttur minnar, Evu Mariu Kupfer og Tönju Friðjónsdóttur, sem þær sýndu Ísfirðingum í Edinborgarhúsinu í dag. Ég er ekki frá því að heyrst hafi stöku hneykslunarandköf í síðara verkinu - Sabotage#1 - þar sem Saga og Eva Maria hlykkjuðust um gólfið í undarlegustu stellingum og samsetningum, án tónlistar. Um miðbik verksins var Eva Maria skyndilega orðin kviknakin - og maður skynjaði fremur en sá hvernig áhorfendur litu hver á annan.
Það skal viðurkennt að inntak verksins lá ekki í augum uppi - og sem listræn upplifun reyndi það á áhorfandann. "Dans" er eiginlega ofmæli um það sem þarna átti sér stað - í raun væri nær að tala um hreyfilist.
Hvað um það - ég er ekki frá því að farið hafi um suma í þessu tiltekna atrið. Þarna voru mæður með barnungar dætur sínar sem bjuggust kannski við einhverju öðru en einmitt þessu - voru kannski að bíða eftir "ballettinum".
Og ég verð að viðurkenna að þegar Eva Maria var komin úr hverri spjör og farin að sparka í allar áttir - fylltist ég þeirri skelfilegu tilhugsun að kannski mynda Saga mín líka fara að rífa sig úr fötunum. Mér leist satt að segja ekki á blikuna - og prísaði mig sæla þegar verkinu var lokið og hún a.m.k. alklædd. Ég meina ... við erum jú á Ísafirði, ekki í Amsterdam.
Fyrra verkið "Leysingar" var allt annars eðlis. Það dönsuðu þær Saga og Tanja við undirleik þríeykisins Melneirophreinia sem þeir skipa Gunnar Theodór Eggertsson, Hallgrímur Jónas Jensson og Hallur Örn Árnason. Dansverk og tónlist voru í sameiningu dramatísk og ljóðræn upplifun. Eiginlega varð ég ekki síður hrifin af tónlistinni en dansinum. Það verður bara að segjast eins og er að þessir strákar eru meiriháttar.
Saga og Tanja sýndu góðan samleik í þessum dansi. Þær voru vatnsdropar sem slitnuðu sundur, elskendur sem sameinuðustu og sundruðust, klaki sem bráðnaði, gróður sem spratt upp úr jörðinni, ungt fólk sem dansaði ... þær sameinuðust tónlistinni og hver annarri afar vel. Verkið snerti ýmsa strengi.
Á heildina litið er ég sátt.
Ég veit hinsvegar ekki hvort þær eru það mömmurnar sem sátu með litlu stelpurnar sínar og biðu eftir ballett-atriðinu. Það verður bara að koma í ljós. Nútímadans er eins og önnur nútímalist - hann getur verið bæði átakamikill og ögrandi. Þegar best lætur ýtir hann hressilega við áhorfandanum og skilur eftir einhverskonar eftirbragð sem lifir með manni - stundum lengi.
Bæði þessi dansatriði skildu eitthvað slíkt eftir sig - hvort með sínum hætti.
Menning og listir | Breytt 23.3.2008 kl. 13:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Leysingar um páska
22.3.2008 | 12:18
Skíðaland Ísfirðinga er uppljómað af sól þessa dagana. Við skelltum okkur á skíði í gær, það var dásamlegt veður. Ég hef ekkert farið á skíði í vetur, þó skömm sé frá að segja, og er því ekki alveg laus við harðsperrur.
Bærinn iðar af menningu og mannlífi þessa dagana.
Í dag kl. 17:00 ætla Saga dóttir mín og tveir dansarar með henni, Eva Maria Kupfer og Tanja Friðjónsdóttir, að sýna tvö frumsamin nútímadansverk í Edinborgarhúsinu. Verkin heita Leysingar og Sabotage#1eru samin af þeim stöllum ásamt hljómsveitinni Malneirophreinia. Þetta verður MJÖG spennandi.
Stelpurnar útskrifuðust allar saman frá danshöfundadeild Listaháskólans í Arnhem í Hollandi fyrir tveimur árum og hafa getið sér gott orð sem dansarar og danshöfundar síðan. Saga til dæmis vann til 1. verðlauna sem danshöfundur í alþjóðlegri danshöfundakeppni í Búdapest í janúar í fyrra og hefur hlotið mjög lofsamlega dóma fyrir verk sín, m.a. í þýska danstímaritinu Tanz. Meðan hún var í dansnámi fékk hún fjárstyrk úr Minningarsjóði Gyðu Maríasdóttur - fyrrverandi skólastjóra Húsmæðraskólans Óskar á Ísafirði. Nú langar hana að þakka fyrir sig með þessum hætti.
Jæja, má ekki vera að þessu - þarf að skella mér á skíði og vera komin á
skiikkanlegum tíma til þess að sjá danssýninguna. Svo er allur hópurinn í mat hjá mér í kvöld.
Gleðilega páska!
Skíðavikan brostin á
20.3.2008 | 11:36
Þá er páskafríið hafið - og börnin mín tínast heim í foreldrahús - þau sem það geta. Það eru þó aðeins tvö (af fjórum brottfluttum) sem koma vestur á Ísafjörð að þessu sinni. Saga og Pétur eru á leiðinni vestur - bæði með vini sína með sér. Svo það verður mannmargt hjá mér þó svo að húsið fyllist ekki af mínum eigin afkomendum.
Hjörvar sonur minn (14 ára) er alsæll yfir því að Nonni frændi hans (15 ára) er kominn í heimsókn vestur. Nú fara þeir á hverjum degi beint upp á skíðasvæði - Pétur afi keyrir þá - og eru þar allan daginn. Svo fara þeim saman heim til Hjördísar ömmu og leyfa henni að stjana við sig þegar þeir koma niður úr fjallinu síðdegis. Sældarlíf á þeim frændum.
Það er mikið um að vera á Ísafirði um þessa páska eins og oftast. Skíðavika Ísfirðinga var sett í miðbæ Ísafjarðar í gær. Þrátt fyrir mikið fannfergi að undanförnu þurfti að bera snjó í aðalgötu bæjarins til þess að hin árlega sprettganga, sem markar upphaf skíðavikunnar, gæti farið fram.
Skíðavikan er mikill hápunktur í bæjarlífinu hér á Ísafirði. Hún er alltaf haldin í dymbilvikunni, því þá flykkjast ættmenni og vinir hvaðanæva að og mikið er um að vera á skíðasvæðinu og götum bæjarins. Fossvavatnsgangan fræga, garpamótið, Páskaeggjamótið og nammiregná skíðasvæðinu eru fastir liðir. Síðustu ár hefur Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, bæst í hóp fastra viðburða á skíðaviku. Í ár er Skíðamót Íslands einnig haldið hér. Já, það er mikið um að vera.
Jébb - það er allt að gerast á Ísafirði þessa dagana og ég HLAKKA SVO til að knúsa börnin mín - þó þau séu orðin stór.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Rennihurðir, rétt og rangt
18.3.2008 | 11:42
Hið góða sem ég vil, það gjöri ég ekki. Hið illa sem ég vil ekki, það gjöri ég, sagði Páll postuli á sínum tíma (Rómv. 7; 19). Allir menn kannast við þá innri baráttu sem þarna er lýst. Hún hefur fylgt mannkyninu frá öndverðu.
Getur þá einhver álasað innhverfri stúlku, sem orðið hefur fyrir einelti og aðkasti skólafélaga sinna, þó hún ráði ekki við tilfinningar sínar á erfiðri stundu? Er hægt að gera hana ábyrga fyrir viðbrögðum sínum jafnvel þó hún "þekki" muninn á réttu og röngu? Hún vildi vera ein - vildi loka að sér og ýtti á rennihurð - en var svo óheppin að kennarinn hennar varð fyrir hurðinni.
Nú hefur móðir stúlkunnar verið dæmd til að greiða 10 mkr. í bætur vegna örorku kennarans. Móðirin er gerð ábyrg fyrir hegðun barnsins vegna atviks sem á sér stað í skólanum.
Hvernig gengur það upp? Er ekki skólaskylda í landinu? Bar móðurinni ekki að hafa þetta barn í umsjá skólans? Og úr því svo er - ber skólinn þá enga ábyrgð? Ef barnið hefði nú sjálft farið sér að voða við það að ýta á rennihurðina? Hefði það klemmt sig illa, misst fingur til dæmis? Hver bar þá ábyrgð? Móðirin?
Sjálfri dettur mér ekki í hug að þessi stúlka hafi ætlað að meiða kennarann sinn. Hefði svo verið, þá hefði hún vafalaust slegið frá sér fremur en að ýta á rennihurðina. Mér sýnist augljóst að stúlkan hafi ætlað að loka að sér. Það var tilfinningaviðbragðið sem hún réði ekki við. Hún vildi vera ein. Margir hafa upplifað þessa tilfinningu og þekkja hana - nema kannski héraðsdómarinn sem dæmdi í málinu.
Það er undarlegt réttarfar að láta ábyrgðina falla á móður sem er víðsfjarri þegar atvik á sér stað. Það er ómannúðlegt að "hanka" einhverft barn á því að það eigi að þekkja muninn á réttu og röngu.
Fólk gerir margt rangt þó það viti betur - það þekkjum við öll.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)