Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
Þarf einhver að fjúka úr Seðlabankanum?
18.3.2008 | 09:05
Egill Helgason velti þeirri spurningu fyrir sér á bloggsíðu sinni í gær hvort tímabært sé orðið að reka Seðlabankastjóra - til dæmis Davíð. Tilefnið er fall íslensku krónunnar. Guðmundur Gunnarsson og fleiri eyjubloggarar taka í sama streng.
Menn telja mistök Seðlabankans í því fólgin að hann hefur beitt kenningum úr klassískri hagfræði sem virka ekki vegna þess hversu hagkerfið er opið. Þar með hafi verið gerð "stórkostleg mistök" í hagstjórninni. Vöxtum hefur verið haldið ofurháum meðan erlent fjármagn hefur flætt inn í landið sem lánsfé og vegna spákaupmennsku.
Í hálffimmfréttum greiningardeildar Kaupþings í gær var slegið á svipaðar nótur og því haldið fram að stýritæki Seðlabankans væru hætt að virka. Þar er bent er á að svigrúm Seðlabankans sé takmarkað vegna þess hve gjaldeyrisforði bankans er lítill. "Samt sem áður. Sú staða að stýritæki bankans hafi ekki lengur virkni hlýtur að vera mjög illþolanleg fyrir bankann og skapa væntingar um einhverjar aðgerðir af hans hálfu" segir greiningardeildin.
Hmmm ... það er kannski kominn tími til að einhver í Seðlabankanum taki ábyrgð á hagstjórnarmistökunum. En halda menn að það gerist ...?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Er mjólk góð?
16.3.2008 | 12:13
Ég veit það ekki ... ég drekk ekki mjólk! segja horaðar og illa útlítandi hengilmænur og stara daufum, líflausum augum framan í myndavélina í auglýsingaherferð MS. Þar er fullyrt að mjólk sé rík af allskyns vítamínum og bætiefnum. Skilaboðin eru þessi: Ef þú neytir ekki mjólkur þá verður þú vesalingur.
Samt er það nú svo, að heimalningar sem aldir eru á mjólk úr fernu, deyja innan fárra vikna fái þeir ekkert annað. Gerilsneydd og fitusprengd mjólk er með öðrum orðum enganveginn sambærileg við þá mjólk sem kemur beint af skepnunni. Sú síðarnefnda er vitanlega lífsnauðsyn öllu ungviði - sú fyrrnefnda er það alls ekki.
Hið "ríka" vítamín-innihald unninnar mjólkur, hvert er það? Á nýmjólkurfernunni í ísskápnum mínum er það gefið upp: B-1 og B-2 vítamín, kalk og fosfór (fyrir svo utan kolvetni og prótein). Ekkert annað. Aðrar mjólkurvörur geta haft A og/eða D vítamín, að sagt er. En varla getur það talist "ríkt" vítamín innihald.
Mjólkuróþol er vaxandi vandamál - sem stafar líklega af allt of mikilli mjólkurneyslu okkar Vesturlandabúa. Í Asíulöndum þekkist ekki mjólkurneysla meðal fullorðinna - hún er vestrænt fyrirbæri. Samt er beinþynning mun alvarlegra vandamál hér á Vesturlöndum heldur en á austrænum slóðum. Nýlegar rannsóknir benda til þess að mjólk næri krabbameinsfrumur.
Er þá hægt að segja að mjólk sé góð?
Kannski getur mjólk verið góð í hófi - en hún hentar alls ekki öllum. Fyrir suma er hún beinlínis heilsuspillandi. Ég efast því satt að segja um að þessi markaðssetning mjólkur sem hollustuvöru fái staðist ströngustu siðakröfur um framsetningu auglýsinga.
Auglýsingin er í besta falli stórkostlegt ofmat á mjólk sem hollustuvöru. Í versta falli eru hún aum blekking sett fram í gróðaskyni.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (63)
Harðindi fyrir hundinn - hörkupúl fyrir mig
15.3.2008 | 12:34
Vetrarnámskeið BHSÍ á Steingrímsfjarðarheiði var mikið ævintýri. Hér kemur ferðasagan.
Undirbúningur:
Daginn áður en námskeiðið hófst fór ég ásamt félögum mínum Auði og Skúla til þess að finna og merkja út hentug æfingasvæði. Við lögðum af stað um morguninn og vorum komin upp á heiði upp úr hádegi. Ekki vorum við heppin með veður. Það var mikill skafrenningur og blint þannig að okkur sóttist starfinn seint. Snjóbíll og tveir björgunarsveitarmenn frá Hólmavík aðstoðuðu okkur. Skúli var með vélsleða meðferðis og þau Auður með GPS tæki til þess að taka punkta á svæðunum. Hefði þessi búnaður ekki verið til staðar er næsta víst að værum öll týnd á heiðinni, því satt að segja sáum við ekki glóru.
Með nokkrum erfiðismunum tókst okkur að merkja út tvö svæði, en urðum að láta þar við sitja. Önnur tvö svæði urðu því að bíða næsta dags.
Fyrsti dagurinn:
Fyrsti dagurinn á svona námskeiði fer yfirleitt að mestu í að moka holur fyrir æfingarnar. Þá er tekin tveggja metra djúp gröf, síðan mokað inn þar til kominn er hæfilega stór hellir fyrir mann að liggja í og láta fara vel um sig. Síðan er mokað ofan í gröfina og skilin eftir svolítil rás eða op sem "fígúrantinn" getur smeygt sér niður um. Þegar hann er kominn ofan í er gatinu svo lokað og þarna dúsa menn þar til hundurinn finnur þá. Nú, eða þeir finnast með öðru móti, því fyrir kemur að hundarnir finna ekki. Þá koma að góðu gagni snjóflóðaýlarnir sem allir verða að hafa á sér við þessa iðju.
Og hvernig liðu dagarnir?
Mannskapurinn gisti í Reykjanesi. Þar var stjanað við okkur í mat og öðru atlæti.
Klukkan sjö að morgni fór fólk á fætur og viðraði hundana. Þeir héldu til í búrum þessi grey. Sumir í bílunum, aðrir inni í íþróttahúsi, svo það þurfti að viðra þá oft og reglulega.
Klukkan hálfátta tók við morgunmatur. Við smurðum okkur nesti, settum heitt vatn á brúsa og tókum okkur til. Síðan var lagt af stað upp á svæði upp úr kl. hálfníu. Þangað kom hópurinn klukkutíma síðar.
Þá var tekið til við að hleypa úr dekkjum svo bílarnir kæmust inn á sjálf æfingasvæðin. Svo þurfti að byrja á því að opna holurnar, hreinsa upp úr þeim frá deginum áður og gera þær klárar. Þetta er heilmikið basl og brölt. Og þá - um það bil tveim tímum síðar - hófust æfingar sem stóðu með hléum til kl. hálf fimm. Þá var haldið heim á leið, eftir svolítið bras og snúninga í snjónum, menn þurftu að dæla lofti í dekkin að nýju, og það tók nú tímann sinn.
Upp úr sex var mannskapurinn yfirleitt kominn í hús. Þá voru haldnir leiðbeinendafundir og í beinu framhaldi flokksfundir. Síðan kvöldmatur. Að honum loknum - eða klukkan átta - voru haldnir fyrirlestrar og erindi um eitt og annað sem lýtur að snjóflóðabjörgun og leit. Svo skelltu menn sér í laugina sem er heit eins og hitapottur. Þar var gott að slaka á eftir daginn.
Útkallsæfing:
Þannig liðu dagarnir einn af öðrum. Á sunnudagskvöldinu var dagskráin brotin upp með útkallsæfingu strax eftir kvöldmat. Með aðstoð lögreglu var sett á svið raunverulegt snjóflóð og útkallshundarnir virkjaðir í leit: 9-10 manns "týndir" á skíðasvæði. Þetta var tilkomumikil æfing fannst mér og tókst í alla staði mjög vel. Frá því björgunarhundarnir voru komnir á svæðið og þar til tilkynnt var um síðasta fundinn liðu 53 mínútur sem er vel viðunandi.
Síðasta kvöldið, á fimmtudagskvöld, var svo haldið lokahóf með afhendingu skírteina og viðurkenninga, skemmtiatriðum og söng og fólk gerði sér glaðan dag eftir erfiði vikunnar. Á föstudagsmorgni tygjaði mannskapurinn sig til heimferðar - en menn voru misjafnlega hressir eins og gengur.
Harðræði fyrir hundinn:
Ég sagði í síðustu færslu að ég væri úrvinda. Nú er ég öll að braggast - en það er önnur hér á heimilinu þreytt eftir þetta alltsaman. Það er tíkin mín hún Blíða. Þetta námskeið var mikið harðræði fyrir hana.
Það skyggði nokkuð á gleði daganna að hundurinn veiktist hjá mér og var eiginlega alveg ónýtur mestalla vikuna. Fyrsta vandamálið var eyrnabólga, og svo tók við svokölluð "vatnsrófa", á þriðja degi. Vatnsrófa (water-tale) hendir hunda sem lenda í vosbúð og bleytu (t.d. slyddu). Þetta er afar sársaukafullt fyrir hundinn og krefst verkjalyfja. Taugaendar við rófuna bólgna upp svo rófan lamast. Þetta líkist því helst að hundurinn sé rófubrotinn. Blíða blessunin bar sig því illa um tíma, og ég var komin á fremsta hlunn með að taka hana heim. Hún gerði að vísu það sem fyrir hana var lagt en augljóst var að hún hafði enga gleði af því. Ég þarf því aðeins að hugsa þetta betur, hvað ég vil leggja á hana í framtíðinni.
Lærdómsríkt:
Fyrir mig var þetta þó afar lærdómsríkt. Við fengum m.a. að leita A-svæði með tveimur týndum sem hundurinn fann á innan við 25 mínútum. Mér skilst að svæðisvinnan mín hafi verið góð (í þessaari tilraun) og mér fannst mjög gaman að spreyta mig á þessu.
Ekki byrjaði ég þó glæsilega. Framarlega í svæðinu sökk ég á bólakaf í snjó og lá kylliflöt. Ekki beint tilkomumikið upphaf. Ég veltist um góða stund í skaflinum, innan um snjóflóðastöngina og skófluna sem þvældust fyrir mér, og ætlaði aldrei að hafa mig á fætur. Það tókst þó með erfiðismunum, og áfram hélt ég. Þetta var svona eins og lífið sjálft - maður sekkur, bröltir upp aftur og heldur svo áfram.
Jamm ...
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Úrvinda og kem af fjöllum
14.3.2008 | 11:22
Jæja, ég kem af fjöllum - í orðsins fyllstu merkingu. Úrvinda eftir tæprar vikudvöl við björgunarhundaþjálfun á Steingrímsfjarðarheiði ásamt fjölda manns úr BHSÍ, og hef hvorki lesið blöð né komist á netið "allan þennan tíma." Sem var reyndar frábært!
Veðurbarin og freknótt eins og rjúpa í vorlitum, sit ég nú og kasta mæðinni með kaffibolla í hönd og bloggsíðuna opna fyrir framan mig. Komin til byggða á ný, með þrjár frunsur og vott af millirifjagikt eftir snjómokstur og bægslagang í fannfergi og fjallshlíðum.
Annars er mesta furða hvað maður saknar lítið menningarinnar þegar maður er svona úti við og fjarri mannabyggð. Maður dettur bara einhvernvegin úr sambandi. Helsta og eina fjölmiðlaefnið sem nær til manns eru veðurfréttirnar, sem maður hlustar gaumgæfilega á að sjálfsögðu, og spekúlerar svo um við morgunverðarborðið: Hvort skafrenningnum fari nú ekki að linna, hríðinni að slota, vindinn að lægja og sólin að skína.
Annars fengum tvo fína daga. Þar fyrir utan var rysjótt veður, en það var allt í lagi - ekkert óveður svosem.
Nú kasta ég mæðinni, áður en ég blogga meira - sjáumst.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Farin á fjöll - bloggfrí í viku
6.3.2008 | 19:32
Viðurkenning og hvatning
6.3.2008 | 09:46
Það er gaman að fá hvatningu og svolitla viðurkenningu. Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitarinnar hefur nú borist kærkominn styrkur frá fyrirtæki í Reykjavík sem telur starf okkar mikilvægt og vill létta undir með okkur vegna kostnaðar við vetrarnámskeiðið sem hefst í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp á laugardag og stendur yfir næstu viku.
Það er kæli- og frystivélafyrirtækið Kæliver sem veitir okkur 125 þúsund króna styrk til að standa straum af námskeiðskostnaði. Steinar Vilhjálmsson eigandi og framkvæmdastjóri Kælivers, segist hafa ákveðið að styrkja Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitarinnar þar sem meðlimir sveitarinnar vinni gott og fórnfúst starf og brýnt sé að Vestfirðingar hafi greiðan aðgang að góðum hundateymum til björgunar og leitarstarfa. Steinar skorar á fleiri fyrirtæki að gera slíkt hið sama.
Ég hef unnið mikið fyrir vestan og kynnst aðeins starfi deildarinnar. Ég vildi styrkja þessa vinnu þeirra þar sem það hefur sýnt sig hversu mikilvægir björgunarhundar eru og þá sérstaklega á Vestfjörðum, sagði Steinar í fréttaviðtali í gær.
Það björgunarfólk sem tekur þátt í úttektarnámskeiðum Björgunarhundasveitarinnar tekur sjálft á sig kostnaðinn vegna vinnutaps, gistingar og fæðis. Í sumum tilvikum koma björgunarfélögin til móts við þátttakendur með niðurgreiðslum eða greiðslu ferðakostnaðar, en það er misjafnt hversu vel björgunarfélögin eru í stakk búin til þess að styrkja sína félagsmenn að þessu leyti. Að auki leggja margir á sig langt ferðalag og sjálfboðavinnu við skipulag og undirbúning námskeiðanna þannig að útlagður kostnaður getur hlaupið á hundruðum þúsunda líkt og í þessu tilviki.
En sumsé - við leggjum af stað í býtið í fyrramálið. Þurfum að vera tímanlega á ferð þar sem eftir er að velja æfingasvæði á Steingrímsfjarðarheiðinni. Við ætluðum að gera þetta um síðustu helgi, en komumst þá ekki vegna ófærðar og snjóflóðahættu.
Nú krossleggjum við fingur og vonumst eftir góðu veðri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Snjóþyngsli - bloggþyngsli - þyngsli
5.3.2008 | 09:59
Eftir því sem snjóskaflarnir hækka og vegunum fækkar sem ferðast má um hér í nágrenni Ísafjarðar, því hærri verður bloggstíflan innra með mér. Ég þjáist af bloggþyngslum - þau aukast með snjóþyngslunum.
Síðdegis í gær ætlaði ég í göngutúr með hundinn, en komst hvorki lönd né strönd fyrir lokuðum gönguleiðum. Snjófljóðahættan var hvarvetna.
Já, þetta er niðurdrepandi svona dag eftir dag.
Verst er þetta með samgöngurnar - að komast ekki spönn frá rassi. Því þegar snjófljóðahættan úr fjallshlíðunum er til staðar (og hér liggja jú allir vegir meðfram fjallshlíðum) þá er yfirleitt blindbylur með skafrenningi, þannig að það er ekki flogið heldur. Þá biður maður til guðs um að ekki komi upp neyðarástand þannig að flytja þurfi fólk með hraði á sjúkrahús fyrir sunnan, til dæmis. Það væri sko ekkert grín.
Ég er ekki hönnuð fyrir svona aðstæður vikum saman. Segi það satt. Þetta getur bókstaflega gert mann brjálaðan.
Víða erfið færð á Vestfjörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vesturbyggðarmenn geta ekki haldið því fram að það sé þeirra einkamál hvort olíuhreinsistöð rísi á Vestfjörðum.
Þeir virðast gleyma því að út af Vestfjörðum eru gjöfulustu fiskimið landsins. Og þó að sjávarútvegur og fiskvinnsla á Vestfjörðum sé vart svipur hjá sjón þeirri sem áður var - þá sækja aðrar útgerðir á þessi mið. Íslenskur sjávarútvegur á nánast allt sitt undir því að þessum fiskimiðum verði ekki spillt.
Öllum þeim sem sækja fisk í sjó við landið ráðlegg ég að skoða myndband af olíuslysi Exxon Valdez við strendur Alaska fyrir nokkrum árum. Það er bæði tímabært og þarft innlegg í þessa umræðu um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum (smellið hér ).
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.3.2008 kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
Er engin leið að hætta?
3.3.2008 | 14:23
Þetta getur ekki gengið svona lengur - það er óbærilegt að horfa upp á þessa endaleysu ár eftir ár eftir ár eftir ár .... þessa eilífu tilgangslausu hringrás óstöðvandi styrjaldarógnar sem enginn mannlegur máttur virðist geta stöðvað.
Það eru árásir, hefndaraðgerðir, gagnárásir ... friðarviðræður .... árás, hefndaraðgerð, gangárás .... friðarviðræður ... árás ... yfirlýsingar ... gagnárás ... hefndaraðgerð, árás .... yfirlýsingar .....
Hvers vegna er ekki hægt að stöðva þetta?
Er ekki hægt að hjálpa þessum þjóðum til þess að komast út úr þessum vítahring stríðshyggju og haturs? Er ekki EITTHVAÐ sem heimurinn getur gert?
Hernaðaraðgerðum ekki lokið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Kvenréttindi kaffærð í snjó
1.3.2008 | 17:52
Var að koma inn frá því að moka innkeyrsluna - þvílíkur snjór!
Þegar ég leit út í morgun - sást ekki milli húsa fyrir skafrenningi og hríðarbyl. Svo slotaði aðeins milli élja og þá sá ég bílinn minn eins og snjóþúst á kafi í stærðar skafli úti í götu (ég kom honum ekki í innkeyrsluna í gærkvöld, því hún var auðvitað full af snjó).
Jæja, við Hjörvar klofuðum snjóskaflana út að bíl, mokuðum hann upp og komumst klakklaust á Hótel Ísafjörð. Þar fór fram sýning á fermingarvörum, gjafavöru og fatnaði sem hann tók þátt í að sýna ásamt nokkrum jafnöldrum sínum. Þau gerðu þetta með glæsibrag, blessuð börnin. Og mesta furða hversu vel var mætt, í þessu líka ótætis veðri.
Jæja, þegar við komum heim sá ég að við svo búið mátti ekki standa.
Ég gat ekki skilið bílinn eftir úti í götu eina ferðina enn - snjóruðningstækin þurfa auðvitað að komast leiðar sinnar. Svo ég beit á jaxlinn - gallaði mig upp og sótti skófluna. Siggi fyrir sunnan og ekki um það að ræða að bíða lengur með moksturinn. Einhver varð að gera þetta.
Ég verð þó að viðurkenna að þrem korterum síðar var kvenréttindakonan í mér farin að láta undan síga þar sem ég hamaðist á klofháum snjóskaflinum, kófsveitt og bölvaði í hljóði. Þetta er auðvitað ekki kvenmannsverk
En, núna er innkeyrslan auð og fín og bíllinn stendur þar í góðu yfirlæti. Ég er bara ánægð með sjálfa mig ....
... en samt .... alveg tilbúin að þiggja karlmannsaðstoð við þetta næst. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan þá er nóg verk að vinna framdyramegin .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)