Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Það er nóg komið

gaza3 Hafi einhvern tíma verið í hugskoti mínu snefill af samstöðu með Ísraelsmönnum - einhver  minnsti vottur af skilningi á aðgerðum þeirra og afstöðu gagnvart Palestínumönnum - þá er hann nú fokinn út í veður og vind eftir síðustu atburði á Gaza. Árásir Ísraelsmanna á Palestínumenn um þessi jól eru yfirgengilegt grimmdarverk og ekkert annað.

Það er nóg komið af þögn og meðvirkni heimsins gagnvart yfirgangi Ísraelsmanna og grimmd þeirra í garð Palestínumanna. Það er óþolandi að horfa upp á annað eins og þegja.Palestina

Nokkrir þjóðhöfðingjar hafa nú þegar harmað atburðina á Gaza og sent yfirlýsingar þess efnis til heimspressunnar. En það er bara ekki nóg. Það á að sýna Ísraelsmönnum vanþóknun í verki - slíta öllu sambandi við þá og viðskiptum. Það eigum við Íslendingar líka að gera, þó við séum lítil þjóð og fámenn.

Ég veit vel að það breytir sjálfsagt engu fyrir gang mála hvað okkur finnst. En samvisku okkar og sjálfsvirðingar vegna megum við ekki sitja þegjandi og aðgerðalaus. Það minnsta sem við getum gert er að fordæma þessa framgöngu Ísraelsmanna afdráttarlaust og láta sjást að við viljum engin samskipti við þá sem haga sér svona. 

 

gaza


mbl.is Yfir 1.700 særðir á Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skammarleg frammistaða LÍN

sine Lánasjóður íslenskra námsmanna á skömm skilið fyrir slælega frammistöðu gagnvart námsmönnum erlendis. Á annað hundrað námsmenn hafa nú beðið í tvo mánuði eftir afgreiðslu svokallaðra neyðarlána sem menntamálanefnd Alþingis og menntamálaráðuneytið lofuðu námsmönnum fyrr í haust. Menntamálaráðherrann sló sér meira að segja upp á þessu og maður trúði því eitt andartak að einhver alvara eða umhyggja lægi þar að baki. Síðan hafa sjö - já hvorki meira né minna en sjö námsmenn af 130 umsækjendum - fengið jákvætt svar um neyðarlán. Sjóðurinn túlkar umsóknirnar eins þröngt og hugsast getur og finnur þeim allt til foráttu. Á meðan mega námsmenn í neyð bara bíða rólegir.

Unga konan sem ekki gat talað ógrátandi við fréttamann Kastljóssins í kvöld þegar hún var beðin að lýsa aðstæðum sínum - hún er ein þeirra sem nú á að bíða róleg ef marka má þá sem bera ábyrgð á aflgreiðsluhraðanum hjá LÍN. Já, engan æsing hérna! Þetta verður alltsaman athugað í rólegheitunum.

Þetta nær auðvitað engri átt. Angry

Og það var vægast sagt vandræðalegt að hlusta á Sigurð Kára - formann menntamálanefndar Alþingis - reyna að mæla þessu bót í Kastljósi kvöldsins. Hann talaði eins og það hefði verið menntamálanefndin (eða ráðuneytið) sem átti frumkvæði að því að athuga með stöðu námsmanna erlendis. Ég man þó ekki betur en það hafi verið námsmannasamtökin sjálf (SÍNE) sem vöktu athygli ráðamanna á bágu ástandi námsmanna  í útlöndum. Það voru námsmenn sjálfir sem settu fram beinharðar tillögur að lausn vandans til þess að flýta fyrir henni. Raunar brugðust bæði menntamálanefnd og -ráðuneyti skjótt við - en það sama verður ekki sagt um stjórn LÍN.

Það hlýtur eitthvað mikið að vera athugavert þegar einungis sjö af um 130 umsóknum um neyðarlán hafa verið afgreiddar á tveimur mánuðum. Það er ekki eðlilegt að virða umsækjendum allt til vansa og vammar þegar meta skal þörf þeirra fyrir neyðaraðstoð.

Nógu erfitt er fyrir námsmenn að fá aðeins eina útborgun á önn, eftir að önninni er lokið, og þurfa að fjármagna framfærslu sína með bankalánum meðan beðið er eftir námsláninu. Og þegar það er fengið, dugir það rétt til að gera upp við bankann vegna annarinnar sem liðin er - og svo þarf að taka nýtt bankalán til að fjármagna önnina sem er framundan.

Það segir sig sjálft að þetta siðlausa fyrirkomulag þjónar ekki námsmönnum - það þjónar fyrst og fremst bönkunum sem þar með geta mjólkað lánakostnaðinn önn eftir önn eftir önn - árum saman.

Bandit

Ef einhver dugur er í menntamálanefnd Alþingis og menntamálaráðherra þá verður núna stokkað upp í stjórn LÍN og stjórn og starfsliði sjóðsins gerð grein fyrir því hver sé raunverulegur vilji ráðmanna í þessu máli.


Samvinna eða samkeppni - gæði eða magn!

pallsk Í kvöld hlustaði ég á Pál Skúlason heimspeking og fyrrum Háskólarektor í samtali við Evu Maríu (hér). Honum mæltist vel að venju og ósjálfrátt varð mér hugsað til þess tíma þegar ég sat hjá honum í heimspekinni í den. Það voru skemmtilegir tímar, miklar samræður og pælingar, og eiginlega má segja að þar hafi ég hlotið mína gagnlegustu menntun.

Heimspekin kennir manni nefnilega að hugsa - hún krefur mann um ákveðna hugsunaraðferð sem hefur svo sárlega vantað undanfarna áratugi. Það er hin gagnrýna hugsun í bestu merkingu orðsins gagn-rýni.

Mér þótti vænt um að heyra þennan fyrrverandi læriföður minn tala um gildi samvinnu og samhjálpar. Þessi gildi hafa gleymst á meðan skefjalaus samkeppni hefur verið nánast boðorð meðal þeirra sem fjallað hafa um landsins gagn og nauðsynjar hin síðari ár. Lítil þjóð þarf á því að halda að sýna samheldni og samvinnu - menn verða að kunna að deila með sér, eiga eitthvað saman. Þetta er eitt það fyrsta sem börn þurfa að læra, eigi þau að geta verið með öðrum börnum. Samvinnuhugsunin hefur hins vegar átt mjög undir högg að sækja hin síðari ár - og það er skaði.

Samkeppni og önnur markaðslögmál geta auðvitað átt rétt á sér - eins og Páll benti á - en það má ekki yfirfæra þau á öll svið mannlegra samskipta. Samkeppni getur í vissum tilvikum komið niður á mannúð og gæðum þar sem þörf er annarra sjónarmiða en markaðarins. Hún getur til dæmis orðið til ills í skólastarfi, innan heilbrigðiskerfisins eða í velferðarþjónustunni. Og þó svo að þetta virðist sjálfsagðir hlutir, þá þarf stöðugt að minna á þá - það sýnir reynslan.

Lítum til dæmis á endurskipulagningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Hefur hún ekki einmitt tekið mið af hagræðingu, samruna, stækkun og samlegðaráhrifum líkt og gert er við framleiðslufyrirtæki? Mér hefur sýnst það - þegar nær hefði verið að taka mið af því að starfsemi sjúkrahúsanna er í eðli sínu heilbrigðisþjónusta. Og það gilda önnur lögmál um þjónustu en framleiðslu

Í framhaldsskólakerfinu hafa fjárframlög til skólanna miðast við fjölda þeirra nemenda sem þreyta próf um leið og áhersla hefur verið lögð á að stytta námstíma þeirra til stúdentsprófs. Fyrir vikið hafa skólar keppst um að fá til sín sem flesta nemendur og útskrifa þá á sem skemmstum tíma. Slík framleiðsluhugsun getur átt fullan rétt á sér í kjúklingabúi, en hún á ekki rétt á sér þar sem verið er að mennta ungt fólk og búa það undir lífið. 

Já, það vöknuðu ýmsar hugleiðingar við að hlusta á tal þeirra Páls Skúlasonar og Evu Maríu í kvöld. Hafi þau bestu þakkir fyrir þennan góða viðtalsþátt.

 FootinMouth

PS: Ummæli Páls um landráð af gáleysi eru líklega gagnorðasta lýsingin á því sem gerðist á Mikjálsmessu þann 29. september síðastliðinn. 


Söknuður

P1000281 (Small) Það var undarlega hljótt í húsinu þegar dyrabjallan glumdi við nú síðdegis. Ég fór til dyra og tengdamóðir mín stóð á tröppunum. Hún var líka hálf undrandi á svip. Ekkert gelt. Bara ómur af þagnaðri dyrabjöllu - við heyrðum hver í annarri.

Blíða mín er farin af heimilinu og það munar um minna. Við Siggi ókum með hana norður á Hólmavík í dag, til móts við nýja eigendur sem búa á Sauðárkróki. Þar fær hún nýtt heimili hjá þessum góðu hjónum sem mér líst afar vel á. Þau eiga fjögur börn á unglingsaldri og annan hund að auki. Þau hafa áður átt Dalmatíuhund sem þau misstu í slysi fyrir nokkru - raunar var það bróðir Blíðu. Þannig að þetta fólk þekkir tegundina og veit að hverju það gengur varðandi hana. Ég held því að Blíða blessunin sé heppin að fá þetta heimili, úr því hún þurfti að hafa vistaskipti á annað borð.

Hún var svolítið feimin við nýju húsbændurna og hálf umkomulaus auðvitaðBlidaogHjorvar (Medium) þegar hún var komin inn í nýtt búr sem hún þekkti ekki. Ég kvaddi hana ekki - hefði bara beygt af ef ég hefði farið að faðma hana á þessari kveðjustund. Nei, ég harkaði af mér og skipaði henni upp í búrið, beygði mig niður að henni og bað hana vera rólega og stillta hjá nýju húsmóðurinni, lokaði svo skottinu og tók í hönd á fólkinu, með sviðasting fyrir brjóstinu.

Það féllu auðvitað nokkur tár á heimleiðinni - eins og við var að búast. En svona er lífið. Öllu er afmörkuð stund.

Heima beið mín hinn hundurinn minn hann Skutull sem er 8 mánaða. Ég  tók hann í langan göngutúr í náttmyrkrinu og gaf honum svo vænt bein þegar heim var komið. Hann var alsæll - svo sæll að hann bar ekki við að gelta þegar dyrabjallan hrindi.

Öðruvísi mér áður brá ... Frown

Blida07P1000530 (Medium)Bilferd (Medium)blida3 (Medium)


Ferðahrakningar um jól

hridarvedurNepalIs Það hefur ekki verið flogið hingað á Ísafjörð síðan 21. desember. Hvassviðri og éljagangur dag eftir dag, og varla hægt að segja að birti á daginn.

Fólkið mitt kom með seinna fluginu á sunnudag þannig að ég get ekki kvartað. En mér verður óneitanlega hugsað til þeirra fjölmörgu sem hafa ekki komist heim um þessi jól eða lent í hrakningum við það. Sjálf þekki ég mætavel slík vandræði af jólaferðalögum vestur á firði - þetta er jú sá tími sem veður gerast vályndust.

Minnisstæðust er mér ferðin sem við Siggi maðurinn minn, Doddi sonur minn og heimilistíkin Snotra, fórum með varðskipinu Tý árið 1980 vestur á Ísafjörð. Við Siggi vorum þá ungir námsmenn í Reykjavík með fimm ára gamalt barn og stefndum vestur til fjölskyldunnar um hátíðarnar. Ekki hafði verið flogið vestur í fjóra daga, komin Þorláksmessa, og búið að aflýsa flugi þann daginn. Í þá daga sat maður einfaldlega á flugstöðinni meðan verið var að athuga flug því ekki var komið textavarp og því síður farsímar. Á flugvellinum myndaðist oft heilmikil stemning, fólk kynntist og tók tal saman um veðurútlit og færðina m.m., en þetta voru þreytandi setur í reykfylltri flugstöðinni innanum óróleg börn, kvíðið fólk og farangur.

Jæja, en þar sem búið var að aflýsa flugi þennan Þorláksmessudag tyr-a-fullu (Medium)brugðum við á það ráð, sem stundum dugði í þá daga, að athuga með ferðir varðskipa. Og viti menn, einhverjir þingmenn þurftu að komast vestur og (þeirra vegna) hafði verið ákveðið að senda skip. Það var pláss fyrir okkur um borð, svo við rukum út í leigubíl og báðum hann að aka í loftköstum niður á höfn. En öldungurinn sem tinaði undir stýrinu taldi nú ýmis tormerki á því, og sennilega hefur engin ökuferð tekið lengri tíma frá Miklubraut að Reykjavíkurhöfn. Þegar þangað var komið var verið að leysa landfestarnar, og við bókstaflega stukkum yfir borðstokkinn úr öðru skipi sem lá við hliðina.

Þetta var skelfileg sjóferð - hún tók 26 tíma. Þegar Siggi og Doddi voru búnir að kasta upp öllu því sem þeir höfðu innbyrt, og lágu hálf meðvitundarlausir í koju sá ég mitt óvænna og fór upp í brú. Þar eyddi ég nóttinni að mestu milli þess sem ég gáði að þeim - og fyrir vikið varð ég ekki sjóveik. Annars urðu nánast allir sjóveikir í þessari ferð. Fólk lá hvert um annað þvert, magnvana af uppköstum og ógleði.  Meira að segja hundurinn ældi. Messadrengurinn, kokkurinn, já allir nema fjórar manneskjur: Skipstjórinn, 1. stýrimaður, þingmaður einn sem þarna var farþegi og ég - MOI! 

En þegar skipið lagði að bryggju á Ísafirði um hádegisbil á aðfangadag var skollið á blíðalogn. Og þar sem við stóðum á riðandi fótum og  horfðum yfir fjörðinn, sáum við hvar flugvélin renndi sér tígullega niður á flugvöllinn hinumegin fjarðarins ... FootinMouth

 

KubburOddurJonsson

Þessa fögru mynd tók Oddur Jónsson af Kubbanum í Skutulsfirði á lognkyrrum vetrardegi


Góð var skatan - gleðileg jól!

Skötuveisla dagsins var sko veisla í lagi! Það var vel þess virði að keyra út í Bolungarvík í hvassviðrinu til þess að gæða sér á þessu góðgæti. Skatan var hreint lostæti - borin fram á heitum diskum með soðnum kartöflum og vestfirskum hnoðmör, meðlætið nýtt rúgbrauð og ískaldur brennivínssnafs. Slurrrrrp!

Nú mallar þvottavélin værðarlega inni vaskahúsi. Jólakveðjurnar óma í útvarpinu. Það gerist ekki betra.

Gleðileg jól kæru lesendur.
Megi hátíðarnar færa ykkur frið og gleði. 

Jólamynd1
 


Allt að koma: Fuglar í jólahreiðrinu - hundarnir skínandi hreinir - skötuveisla á morgun ...

P1000658 (Medium)Jæja, þá eru komnir tveir litlir fuglar ofan í hreiðrið sem fylgdi jólatrénu mínu inn í stofu. Eins og þið sjáið er búið að koma þeim makindalega fyrir þarna inn á milli skreyttra greina. Ég þorði þó ekki annað en að spreyja rausnarlega yfir allt heila klabbið, minnug viðvarana um starrafló og hvaðeina sem getur fylgt svona fuglshreiðrum.

Annars er þetta nú ekkert venjulegt jólatré skal ég segja ykkur. Það kom í ljós þegar átti að fara að skreyta það að þetta er sannkallað villitré. Það stingur nefnilega frá sér svo um munar - augljóslega öðru vant en að standa sem stásstré inni í stofu. En það tekur sig sannarlega vel út þegar búið er að skreyta það - þó það hafi kostað sár og skrámur, því við berum þess menjar heimilisfólkið að hafa komið því í skartbúninginn. Já, sannkallaður ,,villingur í sparifötunum" eins og Saga dóttir mín orðaði það. Tré með karakter.

Það hefur verið siður á okkar heimili að skreyta jólatréð daginn fyrirP1000659 (Medium) Þorláksmessu frekar en bíða með það fram á Þorláksmessukvöld. Það er oft svo mikið að gera á sjálfa Þorláksmessu að okkur finnst þetta þægilegra. Þá er hægt að ryksuga og skúra allt út úr dyrum á sjálfa Þorláksmessu, og njóta svo ljósanna af trénu þegar maður slakar aðeins á þá um kvöldið eftir allt atið.

 Hér fyrir vestan er siður að halda (eða mæta í) skötuveislu á Þorlák. Við erum boðin einu sinni sem oftar til frændfólks í Bolungarvík. Það er ævinlega tilhlökkunarefni að fara í skötuna til Dísu og Boga, hún bregst aldrei. Það er líka gott að geta svo komið heim og skellt í eina þvottavél eða svo (fötunum eftir skötuveisluna). Wink

Síðan á ég eftir að baka Rice-crispies tertuna sem er orðin ómissandi hluti af eftirréttamatseðli fjölskyldunnar á jólum, ásamt ísnum og ensku jólakökunni (þegar ég man eftir að byrja á henni í tæka tíð, klikkaði á því núna).

P1000657 (Medium)Þá er þetta að mestu komið held ég bara. Ég er búin að baða hundana - þeir tipla hér á tánum svo skínandi hreinir og ilmandi að þeir þekkja varla sjálfa sig.

Á morgun verður skipt á rúmum. Annars erum við mest í því að vera bara hvert innan um annað að þessu sinni, enda langt síðan við höfum verið öll undir einu þaki.

Jebb ... þetta er bara allt að koma held ég, svona að mestu. Smile

 

 

P1000662 (Medium)             P1000648 (Medium)

 

 


Hreiður í jólatrénu

Ljosbrigdi-AgustAtlason Það er undarlegt að hugsa um storm í aðsigi þegar horft er á svarblátt lognið á pollinum fyrir utan gluggann minn - en þannig er lífið, ekki allt sem sýnist.

 Tréð er komið nýhöggvið inn á stofugólf - það var nú bara tekið úr garðinum að þessu sinni þar sem því var ofaukið. Fallegasta tré.

En þar sem við vorum að stilla því upp á sínum stað tókum við eftir haganlega gerðu hreiðri inni á milli greinanna, þétt við stofninn. Ég fékk sting í hjartað og hugsaði ósjálfrátt til fuglsins sem hefði lagt á sig erfiði við að útbúa þetta hreiður handa ungum sínum - af natni og dugnaði hefur hann tínt hvert einasta strá með litla gogginum sínum, fléttað og snúið í fallega körfu sem er svo bara orðin að jólaskrauti í stofunni hjá einhverju fólki.

Jæja - en hreiðrið verður látið kyrrt þar sem það er. Ég treysti því að í því leynist ekkert kvikt, flær eða annað álíka, því það hefur verið grimmdarfrost að undanförnu. En þetta er óneitanlega sérstakt og skemmtilegt jólaskraut - ekki síst í ljósi þess að ég hef alla tíð haft lítinn fugl á jólatrénu okkar. Ástæðan er saga sem fylgdi fallegu kvæði sem mamma söng oft fyrir okkur systurnar þegar við vorum litlar.  Læt það fljóta hér með að gamni:

Hér er bjart og hlýtt í kvöld,
helgi, ró og friður,
en mun þó engum ævin köld?
Ó, jú því er miður. 


Úti flýgur fuglinn minn
sem forðum söng í runni,
ekkert skjól á auminginn
og ekkert sætt í munni.

Frostið hart og hríðin köld
hug og orku lamar.
Æ, ef hann verður úti í kvöld
hann aldrei syngur framar.

Ljúfi Drottinn líttu á hann
og leyfðu að skíni sólin.
Láttu ekki aumingjann
eiga bágt um jólin.

 Þegar þarna var komið sögu sátum við systur tárvotar yfir örlögum litla fuglsins svo mamma bætti við farsælum sögulokum um opinn glugga, lítinn fugl sem flaug inn og settist á tréð þar sem hann gat nartað í nammið úr jólakörfunum (en í minni bernsku voru alltaf settar fallegar jólakörfur og kramarhús á tréð með litlum súkkulaðimolum).

Ég get bætt því við mína útgáfu sögunnar að hann hafi haft lítið hreiður að hlýja sér í - og því til sönnunar hef ég þessa mynd að sýna barnabörnunum.

P1000650 (Medium)

----------------------------- 

PS: Kvæðið mun vera eftir Sigurð J. Jóhannesson en ég hef þó hvergi rekist á fyrstu og síðustu vísurnar á prenti.


mbl.is Stormi spáð um landið sunnan- og vestanvert annað kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú mega jólin koma

 Jæja, þá geta jólin komið - ég er búin að fá "börnin" vestur. Að vísu söknum við elsta sonar míns, konu hans og (ömmu)barnsins, en maður fær víst ekki alltaf allt. Wink Saga, Pétur og Maddý eru komin heim, Maddý alla leið frá Árósum í Danmörku. Það er yndislegt að hafa þau öll í húsinu. Við erum í sæluvímu hérna. Borðuðum fiskibollur í kvöld, tókum það svo rólega, spjölluðum, kíktum á sjónvarpið. Við Saga fórum í góðan göngutúr í vetrarkvöldkyrrðinni með hundana. Gerðum engla í snjóinn á leiðinni og horfðum upp í vetrarhimininn.

Það má eiginlega segja að jólin séu komin - þau eru komin í hjartað. Heart

Milli hátíðanna fáum við svo að hitta nýja tengdasoninn (tilvonandi), þannig að það er ýmislegt spennandi framundan. Jebb ... lífið lætur ekki að sér hæða.


Stundum er þörf - stundum nauðsyn

ÞyrlanLíf Það er gott þegar björgunarsveitir landsins koma að gagni og farsællega tekst til með að hjálpa nauðstöddu fólki, eins og í þessu tilfelli. Það er jafn ergilegt þegar fjöldi björgunarsveitamanna er kallaður út til þess að hjálpa fólki sem hunsar viðvaranir og anar út í ófæruna, eins og gerðist á Hellisheiðinni í nótt.  Þar höfðu á annan tug manna farið upp á heiðina þótt hún væri lokuð umferð, og fest sig.

Þeir sem vaða út í óvissuna - keyra framhjá lokunarskiltum á fjölförnum leiðum, rjúka upp á heiðar þrátt fyrir viðvaranir veðurstofu og tilmæli um að vera ekki á ferðinni - gera það í trausti þessa að björgunarsveitirnar muni koma til aðstoðar ef illa fer. Og það gera þær vissulega. Þeir sem starfa í björgunarsveitum gera það af mikilli ósérhlífni og verja til þess  ómældum tíma og fjármunum. Köllun björgunarsveitanna er að hjálpa þeim sem þurfa þess - líka þeim sem hafa sjálfir komið sér í vandræði. Enda virðist svo vera sem fólki finnist almennt sjálfsagt að nýta sér aðstoð björgunarsveitanna hvernig sem á stendur.

Í gær voru tvö útköll - annarsvegar vegna manna sem villtust í slæmu veðri og voru í lífshættu, að minnsta kosti annar þeirra. Þar var mannafla og tækjabúnaði björgunarsveitanna vel varið.  Í hinu tilvikinu - þar sem á annan tug manna óð upp á Hellisheiði þrátt fyrir viðvaranir og pikkfestist þar - má segja að sjálfboðastarf björgunarsveitanna hafi verið misnotað.

Nú má auðvitað segja að sjálfskaparvítin séu ekkert skárri en önnur víti. Eftir að menn eru komnir í vandræði þurfa þeir auðvitað aðstoð hvernig sem sem þeir komust í vandræðin. En mér finnst koma til álita að fólk borgi fyrir björgunarkostnað þegar svona stendur á. Nóg gefa björgunarsveitarmennirnir af tíma sínum og fjármunum þó þeir séu ekki að fara upp úr rúmum sínum um miðjar nætur til að bjarga fólki sem hefur komið sér í vandræði að óþörfu. Ég verð bara að segja eins og er.

Það geta alltaf komið upp stórútköll þar sem björgunarsveitirnar þurfa á öllum sínum liðsafna að halda. Ef slíkt gerist er ekki gott að stór hluti sveitanna sé bundinn í verkefnum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir, eins og að bjarga bílstjórum sem virða ekki lokanir á vegum.

 

----------

PS: Meðfylgjandi mynd var tekin í sumar á æfingu Björgunarhundasveitar Íslands á Gufuskálum af Sigrúnu Harðardóttur, ungum félaga í sveitinni.


mbl.is Fundust heilir á húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband