Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Búálfarnir stríða mér

huldufólk Sagt er að um jól og áramót sé huldufólkið að hafa vistaskipti og því verði þess meira vart í mannheimum á þessum tíma en venjulega. Ég verð að játa að það þessa dagana virðist óvenju mikil huldu-umferð í húsinu hjá mér. Hér hverfur allt sem ég legg frá mér - sérstaklega pappírar.

Fyrir fáum dögum var ég að þýða texta - hann hvarf. Woundering Í gær hélt ég á miða með rúgbrauðsuppskrift sem ég setti inn á bloggið. Þegar ég stóð upp frá tölvunni og ætlaði að setja miðann á sinn stað var hann horfinn. Shocking Myndir sem ég var að skoða í tölvunni fyrir fáum dögum og ætlaði síðan að prenta út áðan til að setja inn í jólakort til kunningjafólks - þær eru horfnar. Blush DVD mynd sem ég ætlaði að gefa í jólagjöf gufaði einhvernveginn upp. Og nú er örkin með jólafrímerkjunum horfin af eldhúsborðinu. Whistling

Þetta mun allt skila sér aftur - það gerir það venjulega. En það sem er óvenjulegt við háttalag búálfanna að þessu sinni er að nú sækja þeir sérstaklega í pappíra og sjónræna hluti, ekki lykla, skæri, eða aðra smáhluti. Ég er vanari því að slíkt sé fengið "að láni" um þetta leyti.

Nei, nei - nú er greinilega verið að lesa og skoða í hulduheimum, því þeir eru óvenju lærdómsfúsir og hnýsnir blessaðir búálfarnir að þessu sinni.


Hverjum ber að biðjast afsökunar?

orgerur_Katrn_Heia_jpg_550x400_q95"Við eigum að biðjast afsökunar" segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaraðherra í DV í dag (sjá hér) og er helst að skilja að "við" eigi við um ríkisstjórnina sem hafi ekki "gætt" sín og ekki "haldið vöku" sinni. Þið fyrirgefið, en þetta er full almennt orðað fyrir minn smekk.

Já, það er full vel sloppið verð ég að segja, ef ákveðnir ráðherrar sem persónulega bera siðferðilega (ekki bara pólitíska) ábyrgð geta svo bara beðist afsökunar sem hópverur, þ.e. sem hluti af ríkisstjórn, en ekki einstaklingar.

Byrjum á menntamálaráðherranum og skuldafyrirgreiðslunni sem starfsmenn Kaupþings fengu vegna kaupa á hlutabréfum - þ.á.m. Kristján Arason eiginmaður ráðherrans. Nú hefur Kauphöllin seint um síðir áminnt gamla Kaupþing fyrir það hvernig staðið var að málinu  (sjá hér). Hvað varð um ábyrgðina á 500 milljónunum sem hann (þau hjónin?) tók(u) að láni til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi í gegnum einkahlutafélagið sem stofnað var í febrúar eða mars? 

Hvaða áhrif hefur þetta á siðferðilega stöðu menntamálaráðherrans? Hún upplýsir það ekki - enda ekki spurð. Og eftir síðustu uppákomur af ritstjórnarmálum DV er ég satt að segja ekkert sérlega hissa þó henni sé hlíft við að svara því. Enda í sjálfu sér ekki auðvelt að gera slíkt í sama viðtalinu og hún tjáir sig um alvarleg veikindi dóttur sinnar.

Já, það gæti komið sér vel fyrir menntamálaráðherrann að geta í skjóli ríkisstjórnarinnar runnið inn í einhverskonar hópafsökun - og málið dautt.  Að þurfa ekki að standa skil á einu eða  neinu sem tengist hennar persónulegu fjármálum. Óneitanlega væri það þægilegra fyrir ráðherrann. Angry

 

----

PS: Af gefnu tilefni árétta ég að ég mun ekki hika við að henda út ómálefnalegum athugasemdum séu þær meiðandi eða særandi fyrir fólk og/eða lífsskoðanir þess sbr. fyrri bloggfærslu mína um það efni (sjá hér).

 


Hamagangur í öskjunni

 Það hefur verið hamagangur í öskjunni hjá mér síðasta sólarhringinn. Rassinn á mér stóð úr bókahillum og geymslum í allan gærdag þar sem ég var að sortera skjöl, henda og sameina í möppur. Þvílíkt og annað eins.

Ég held ég hafi losað einar tíu möppur og hent samsvarandi magni af gömlum pappírum. Ég er nefnilega að hætta í vinnunni og ganga frá á skrifstofunni. Og af því að starfið hefur verið m.a. kennsla og rannsóknir eru allskyns hlutir sem ég þarf að taka með mér heim - hitt og þetta sem ég hef sankað að mér, bæði skjöl og bækur. Þessu þarf ég öllu að koma fyrir á skrifstofunni heima - þar sem bóndi minn blessaður er nú þegar búinn að fylla hvern krók og kima með sínum skjölum og bókum. Þannig að ... það er margt sem þarf að skipuleggja.

Á meðan seyddust rúgbrauðin í ofninum hjá mér, stillt og rótt, óháð fyrirganginum í húsmóðurinni. Þau rýrnuðu talsvert - og voru ekki tilbúin fyrr en í morgun. En mikið lifandis ósköp eru þau samt bragðgóð. Ooohhhh, ég fékk mér eina volga sneið núna áðan með miklu smjöri.

Hér er uppskriftin:BakingCookies

5 bollar rúgmjöl
3 bollar heilhveiti
5 tsk matarsódi
3 tsk salt
1 1/2 lítri súrmjólk (eða ab-mjólk)
500 gr. sýróp

Öllu hrært vel saman og deiginu hellt til hálfs ofan í fjórar 1-líters mjólkurfernur sem látnar eru standa upp á endann í ofninum á neðstu rim. Sett inn í 150° heitan ofn og lækkað strax í 100°. Bakað í 8-10 klst eða lengur. Verður dökkbrúnt að utan fullbakað.

Sumir geyma brauðin í fernunum, ég tek þau úr þeim hálf volg.

Njótið vel - nú er ég að fara að baka kryddbrauð. Wink


Máninn hátt á himni skín

Fyrir skammri stundu voru litirnir hér í Skutulsfirinum nákvæmlega eins og á myndinni hérna fyrir ofan: Svartalogn og dögun yfir fjöllunum. Nú hefur birt aðeins meira og "máninn hátt á himni skín - hrímfölur og grár" (ekki "blár" eins og Elín Hirst missti út úr sér í kvöldfréttatíma fyrr í vikunni). Wink

Ég er að baka rúgbrauð - er með fjögur stykki í ofninum. Bara góð.


Athyglisverð hljóðupptaka - undarlegt hugarfar

Reynir Traustason Það var undarlegt að hlusta á orðaflauminn renna út úr Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, þar sem hann reyndi að skýra fyrir blaðamanni sínum hvers vegna hann gæti ekki birt frétt þess síðarnefnda um Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans.

Reynir Traustason, ritstjóri er orðinn margsaga í sínum skýringum. Í yfirlýsingu sem þeir feðgar, hann og Jón Trausti Reynisson, létu frá sér í dag er áréttað að "hótanir komi ekki í veg fyrir birtingu frétta í DV" og blaðamaðurinn hafi "ekkert fyrir sér" í því að svo hafi verið.

Hljóðupptakan sem flutt var í Kastljósi ber þó vitni um hið gagnstæða. Þar kemur ljóslega fram að Reynir Traustason afsakaði sig við blaðamanninn með því að vísa í öfluga aðila sem gætu "stútað" blaðinu ef fréttin yrði birt.

Nú íhugar ritstjórinn málsókn gegn Kastljósi fyrir að birta upptökuna.  Hann lítur svo á að þarna hafi átt sér stað einkasamtal milli sín og blaðamannsins. Vissulega var þarna samtal tveggja manna sem ekki hefði undir eðlilegum kringumstæðum átt erindi í fjölmiðla. En þegar orð standa gegn orði - og annar aðilinn er auk þess með frýjanir um að hinn hafi ekkert í höndunum - þá þarf að skera úr um sannleiksgildið með einhverjum hætti. Þessi hljóðupptaka átti erindi við almenning. Svo sannarlega.

 Almenningi kemur það við hvernig ritstjórar fjölmiðla ganga fram í sínu starfi. Þeir fara með fjórða valdið - þeir hafa upplýsingaskyldu við almenning - og það er vandasamt verkefni.

Annað þótt mér merkilegt sem kom fram í þessari hljóðupptöku. Það voru orð Reynis ritstjóran um að einn daginn myndi DV takast að knésetja Björgólf Guðmundsson. Er það stefna blaðsins að knésetja þann mann? Ef til vill fleiri?

Þessi afhjúpuná afstöðu Reynis Traustasonar verður sjálfsagt lengi í minnum höfð. Það er jú ekki á hverjum degi sem ritstjóri "frjáls" fjölmiðils upplýsir að hann hyggist sitja fyrir einhverjum í því skyni að "taka hann" eða "skella honum" (man ekki nákvæmlega orðalagið í augnablikinu). Hann er ekki þarna að tala um raðmorðingja eða yfirlýstan nauðgara. Nei hann er að tala um mann sem hefur verið umsvifamikill í íslensku fjármála- og athafnalífi; mann sem mikið hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu. Björgólfur Guðmundsson er vissulega umdeildur nú um stundir, en ef þessi afstaða Reynis Traustasonar stjórnar gjörðum fjölmiðlanna sem eiga að "upplýsa" okkur almenning um það sem er að gerast á bak við tjöldin - ja, þá gef ég nú ekki mikið fyrir hina svokölluðu "upplýstu umræðu".

Þá er ekki síður athyglisvert að sjá viðleitni Reynis til að sverta blaðamanninn, þennan fyrrum starfsmann sinn, með því að blanda óskyldum málum inn í fyrrgreinda yfirlýsingu sína um þetta mál. Reynir upplýsir þar um óskylda hluti sem varða frammistöðu blaðamannsins í starfi - nokkuð sem að öllu eðlilegu ætti að vera trúnaðarmál milli vinnuveitanda og starfsmanns. Svo er hann sjálfur móðgaður og hissa á að að hljóðupptakan af símtali þeirra tveggja skuli hafa endað í Kastljósinu.

Nei, það var svo sannarlega athyglisvert og afhjúpandi að hlusta á Reyni Traustason í Kastljósinu í kvöld - því þó að samhenginu væri ekki fyrir að fara fór hugarþelið ekki framhjá neinum.

 Það hugarþel ætti ekki að vera við lýði á neinum íslenskum fjölmiðli.


mbl.is Upptaka af útskýringum ritstjóra DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

DV birtir gamla frétt sem ,,engu'' bætir við!?

bréfburður Á vefritinu NEI lýsir blaðamaðurinn Jón Bjarki Magnússon tildrögum þess að frétt hans um Sigurjón Þ. Árnason fv bankastjóra Landsbankans var tekin út úr blaðinu af ritstjóra DV, Reyni Traustasyni þann 6. nóvember. Mun ritstjórinn hafa sagt að "stórir aðilar" úti í bæ hafi stöðvað birtinguna og um væri að ræða líf eða dauða fyrir DV að birta ekki fréttina.

Reynir hafnar þessu og segir nú að fréttin hafi engu bætt við það sem þegar var komið fram í fjölmiðlum um að Sigurjón Þ. Árnason væri að koma sér fyrir í húsakynnum Landsbankans og hygðist þar stunda ráðgjöf fyrir fjármálastofnanir.

En ... athyglisvert er það, að frétt sem var orðin "of gömul" fyrir mánuði, skuli samt tekin til birtingar núna á vefsíðu DV. Frétt sem auk þess "bætir engu við" það sem þá þegar var komið fram.

Sé það raunverulega "bull" eins og ritstjórinn segir, að óeðlilegar ástæður hafi legið að baki því að ákveðið var að birta ekki grein Jóns Bjarka Magnússonar um Sigurjón Þ. Árnason,  af hverju er hann þá að birta þessa frétt  löngu síðar?

Þið fyrirgefið, en ég gef lítið fyrir þessar útskýringar ritstjórans. Verð bara að segja það eins og er. Þessi yfirlýsing blaðamanna á DV sannfærir mig ekki heldur. Hún fyllir mig bara óöryggi - já, óljósum kvíða um að blaðamenn landsins séu hreint ekki frjálsir í skrifum sínum þegar allt kemur til alls.

Fjölmiðlavaldið hefur þjappast á fárra manna hendur á undanförnum árum. Nú kemur æ betur í ljós - sem okkur hefur sum hver lengi grunað - hvað sem líður siðareglum blaðamanna og góðum ásetningi þeirra að sinna sínum störfum af kostgæfni - að íslenskir fjölmiðlar eru ekki sá frjálsi upplýsingavettvangur sem æskilegt væri.

DV virðist að minnsta kosti ekki vera það.


mbl.is Reynir: Fréttin bætti engu við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verum umræðunni til sóma

blómÞegar ég byrjaði að blogga fyrir tæpum tveimur árum, undirgekkst ég ákveðna skilmála sem eiga að gilda um alla bloggara. Þar segir m.a.:

Notandi samþykkir að miðla ekki ólöglegu efni, áreiti, hótunum, særandi skrifum eða nokkru öðru sem getur valdið skaða. Notandi samþykkir sérstaklega að miðla ekki háði, rógi, smánun, ógnun eða ráðast á mann eða hóp manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar, í samræmi við ákvæði 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þetta þýðir að sjálf ber ég ábyrgð á því sem sagt er á þessari bloggsíðu. Það er ekki nóg að ég sjálf gæti orða minna, heldur hef ég skyldu til að birta ekki á minni síðu efni sem felur í sér áreiti, hótanir eða særandi skrif, hvað þá háð, smánun, ógnun eða aðför að einstaklingum eða hópum.

Að gefnu tilefni neyðist ég nú til að árétta þetta. Um leið tek ég skýrt fram að hér eru allar skoðanir velkomnar svo framarlega sem framsetning þeirra er innan velsæmismarka. Séu þær það ekki áskil ég mér allan rétt til að eyða þeim út.

Í öllum bænum, berum þá virðingu fyrir eigin lífskoðunum og annarra, að skrif okkar séu málstaðnum og okkur sjálfum til sóma. Og þið sem hafið gengið hvað lengst í reiðiskrifum ykkar með því að uppnefna fólk, smána það og lífsskoðanir þess með niðrandi samlíkingum - ekki svína út bloggsíður annarra með þessháttar skrifum. Stofnið ykkar eigin bloggsíður og takið þar sjálf ábyrgð á orðum ykkar.

Að þessu sögðu vil ég vekja sérstaka athygli á aldeilis hreint frábærri grein eftir Einar Má Guðmundsson rithöfund sem birtist í Sunnudagsblaði Moggans í dag. Kapítalismi undir jökli nefnist hún. Snilldar grein - skyldulesning.

Eigið góðan sunnudag.


Mikilvægar upplýsingar

Þá hefur Ingibjörg Sólrún talað hreint út varðandi ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn - og það eru orð í tíma töluð. Margir hafa velt því fyrir sér að undanförnu hver væri staðan í stjórnarsamstarfinu. Nú vitum við það:  Sjálfstæðisflokkurinn þarf að gera upp við sig Evrópumálin. Gangi í sundur með flokkunum í því máli má búast við stjórnarslitum og kosningum. Verði ekki kosningar má búast við breytingum í ríkisstjórninni.

Það er mikilvægt fyrir almenning að fá vitneskju um hvað forystumenn Samfylkingarinnar eru að hugsa núna.

En svo er spurning hvort þetta er nóg. Hvort almenningur sættir sig við annað hvort eða, þ.e. kosningar eða "breytingar" í ráðherraliðinu.  Það á eftir að koma í ljós.


mbl.is Ríkisstjórnin verður að svara kalli um breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misvísandi fréttir af verðhækkun áfengis

Fréttir eru misvísandi af verðhækkun á áfengi og tóbaki. Hér er talað um 12,5% hækkun áfengisgjalds - í þessari frétt á ruv.is segir hinsvegar að léttvín muni hækka um 75% og sterk vín um 40%. Fær þetta staðist?

Ef svo er, þá segi ég nú bara eins og kallinn: Vínið er orðið svo dýrt að maður hefur ekki efni á að éta lengur!


mbl.is Áfengisverð hækkar ekki strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verum neytendur og neitendur

Ég hef oft verlsað í Next og Noa Noa - þar hafa fengist falleg föt. Ég er hætt því. Málið er einfalt, eins og bloggvinur min Jón Ragnar Björnsson hefur skilmerkilega sett það upp, og ég leyfi mér að vitna beint í þá þríliðu:

  1. Verslanir settar á hausinn. 
  2. Skuldirnar skildar eftir í bönkunum. Ég, börnin mín og barnabörn ásamt hinum óbreyttu Íslendingunum greiðum skuldirnar.
  3. Fyrri verslunareigandi kaupir skuldlausar verslanirnar og getur byrjað upp á nýtt og lifað hátt, þangað til hann setur aftur á hausinn.

Þetta er sumsé Nýja Ísland. Það er eins og þeir sem halda um fjármál og viðskipti séu orðnir svo spilltir í gegn að þeim sé ómögulegt að rífa sig upp úr sukkinu. Við, þessi svokallaði almenningur, megum bara standa agndofa og horfa upp á aðfarirnar - eða hvað?

Við getum beitt okkur sem neytendur - já og þar með líka sem neitendur með einföldi þ.e. með því að neita einfaldlega að versla við þá aðila sem hafa komist yfir eignir með þessum hætti.

Ég ætla að minnsta kosti að sniðganga Next og Noa Noa. 

mbl.is Next og Noa Noa aftur í eigu sömu hjóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband