Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Höfum nokkur hugtök á hreinu

kyr2Nú þegar talað er um nauðsyn þess að gera upp við hugmyndafræði kapítalismans og nýfrjálshyggjunnar er eins gott að hafa nokkur hugtök á hreinu. Cool

 

SÓSÍALISMI: Þú átt 2 kýr. Þú gefur nágranna þínum aðra þeirra.

KOMMÚNISMI: Þú átt 2 kýr. Ríkið tekur þær báðar og gefur þér mjólk.

FASISMI:  Þú átt 2 kýr. Ríkið tekur þær báðar og selur þér mjólk.

NASISMI:  Þú átt 2 kýr. Ríkið tekur þær báðar...og skýtur þig svo.

SKRIFRÆÐI: Þú átt 2 kýr. Ríkið tekur þær báðar, skýtur aðra þeirra, mjólkar hina og hellir svo allri mjólkinni.

HEFÐBUNDINN KAPÍTALISMI:  Þú átt 2 kýr. Þú selur aðra þeirra og kaupir naut. Þú stofnar kúabú. Þú hagnast vel, selur kúabúið og sest í helgan stein.

SÚRREALISMI: Þú átt 2 gíraffa. Ríkið krefst þess að þú farir í harmonikkunám.

BANDARÍSKT FYRIRTÆKI: Þú átt 2 kýr. Þú selur aðra þeirra og þvingar hina til að gefa af sér mjólk á við fjórar kýr. Þú ræður svo sérfræðing til að komast að því hvers vegna hún datt niður dauð.

ÍSLENSKT FYRIRTÆKI: Þú átt 2 kýr. Þú selur 3 þeirra til fyrirtækis á opnum markaði með veði í gervifyrirtæki mágs þíns, gengur svo frá yfirtöku með vísan í skráningu á markaði þannig að þú færð allar 4 kýrnar tilbaka og skattaívilnanir vegna einnar til viðbótar. Afurðarétturinn af kúnum 6 er færður yfir á fyrirtæki í Karíbahafinu, en leynilegur meirihlutaeigandi þess selur þér aftur réttinn að öllum 7 kúnum. Samkvæmt ársskýrslu á fyrirtækið nú 8 kýr, með eigendarétti að einni til viðbótar. Þú selur eina kú til þess að þóknast ónefndum stjórnmálamanni og átt þá níu kýr. Rétturinn að nautinu er seldur almenningi í hlutafjárútboði.

FRANSKT FYRIRTÆKI: Þú átt 2 kýr. Þú ferð í verkfall, skipuleggur mótmæli og tefur umferð...vegna þess að þú vilt eiga þrjár kýr.

JAPANSKT FYRIRTÆKI: Þú átt 2 kýr. Þú endurhannar þær þannig að þær verða tíu sinnum minni, en framleiða tuttugu sinnum meiri mjólk. Þú markaðssetur svo nýja teiknimyndahetju, "Kúmann", sem nær miklum vinsældum um allan heim.

Jamm .... þennan fékk ég sendan í dag. Mikið til í þessu.


Dómgreindarleysi

ValtýrSigAð Valtý Sigurðssyni ríkissaksóknara og Boga Nilssyni, fyrrverandi ríkissaksóknara skuli koma til hugar að þeir séu ekki vanhæfir til þess að "safna gögnum" og undirbúa rannsókn sem gæti beinst að sonum þeirra beggja, er með ólíkindum. Sigurður Valtýsson er forstjóri Bogi NilssonExista, Bernharð Bogason er framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Stoða. Þessi tvö fyrirtæki eru - fyrir utan bankana - þau sem hvað oftast koma til tals þegar fjármálahrunið ber á góma, enda hvort tveggja útrásarfyrirtæki með rík tengsl við Kaupþing og Glitni.

bjornavigrip Að dómsmálaráðherra skuli koma til hugar að feðurnir, Valtýr og Bogi, séu best til þess fallnir að svo stöddu til að meta eigið hæfi í þessu sambandi - er sömuleiðis með ólíkindum, sérstaklega í ljósi þess að þeim er ætlað að safna gögnum og leggja grunn að rannsókn málsins. Ríkissaksóknari talar eins og þetta skipti litlu eða engu máli - ekki sé verið að taka skýrslur af mönnum, enginn sé orðinn sakborningur sem stendur. Halló! Ætli það gæti þá ekki ráðist af gagnaöflun feðranna hvort synirnir lenda í þeirri stöðu??

Þetta nær auðvitað engri átt. Og að dómsmálaráðherra skuli veita þessum tveimur heiðursmönnum sjálfdæmi í því hvort þeir telja sig vanhæfa eða ekki með þeim orðum að fáir eða engir þekki betur vanhæfisreglurnar ... það er eins og að reka fingurinn framan í alþjóð.

Það er fyrirsláttur að halda því fram að á Íslandi finnist ekki nokkur maður án tengsla við einhvern hlutaðeigandi. Sé það tilfellið þá á að fá erlenda aðila til að stjórna þessari rannsókn - en ekki bara "aðstoða" við hana.

En að ætla tveimur háttsettum embættismönnum að leggja með gagnaöflun grunn að rannsókn sem beinst gæti að sonum þeirra - lykilmönnum í fjármálastofnunum sem hafa tengsl við fallna banka -  það er fullkomið dómgreindarleysi.

Slík "rannsókn" yrði aldrei hafin yfir nokkurn vafa. Angry

 


mbl.is Álíta sig hæfa til að rannsaka syni sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auschwitz - Birkenau

P1000621 (Medium) ARBEIT MACHT FREI stendur svörtum stöfum yfir innganginum að útrýmingarbúðunum í Auschwitz í Póllandi. Í 3ja km fjarlægð eru Birkenau búðirnar - sem oft og einatt eru kallaðar Auschwitz-Birkenau, eða Auswitz II.  Þær eru afkastamestu útrýmingarbúðir Þjóðverja á árunum 1940-45. Á ferð minni til Kraká í síðustu viku átti ég þess kost að skoða Auswitz og Birkenau.  Búðirnar eru 50 km suðvestur af Kraká.

P1000632 (Medium)Ég mun aldrei gleyma þeirri heimsókn - og það mun taka mig vikur, ef ekki mánuði að vinna úr þeirri upplifun sem ég varð fyrir þarna; þeim upplýsingum sem streymdu til mín í gegnum staðreyndir, minjar, myndir og annað sem fyrir augu bar.

Í Auschwitz I - upprunalegu búðunum - voru 70 þúsund manns tekin af lífi, aðallega Pólverjar og Sovéskir stríðsfangar. Í Birkenau lét að minnsta kosti 1 milljón manna líf sitt, mest Gyðingar og Pólverjar, en einnig Sígaunar, Vottar Jehóva, samkynhneigt fólk, fólk sem dæmt hafði verið fyrir ýmsa glæpi, fatlaðir og aðrir sem ekki féllu vel að hugmyndafræði Nazismans. Raunar  kom fram í Nurnberg réttarhöldunum,  hjá yfirmanni búðanna, Rudolf Höss, að þarna hefðu um 3 milljónir látið líf sitt - en skráning á þeim sem komu i búðirnar var að engu orðin undir lokin, svo sannanir um endanlegan fjölda skortir.

P1000624 (Medium)Innan við hliðið í Auschwitz I, léku hljóðfæraleikarar létta tónlist fyrir þá sem komu í búðirnar. Fólk hafði þá ferðast með gripavögnum dögum saman, án matar eða salernisaðstöðu, án nægjanlegs súrefnis og var aðframkomið þegar það kom á brautarpallinn í Auswitz. Sumir höfðu tekið með sér búsáhöld og aðrar eigur í þeirri trú að þeir væru að koma til nýrra heimkynna. Þeim var ráðlagt að skilja farangurinn eftir á brautarstöðinni og fara beint í bað. Við hliðið ómuðu léttir marsar og fólkið gekk grunlaust inn fyrir, framhjá tvöfaldri rafmagnsgirðingunni sem umlykur svæðið. Þar var því strax skipt í tvo flokka.

Til hægri fóru þeir sem áttu að lifa - fólk á góðum aldri sem líklegt var til þess að geta unnið. Til vinstri - og beint í gasklefann - fóru gamalmenni, fatlaðir, börn og aðrir sem ekki voru til stórræðanna.

Það er undarlegt að standa framan við dyrnar að gasklefanum. Sjá háan reykháfinn bera við loft -skammt frá húsinu þar yfirmaður búðanna bjó með konu sinni, börnum og heimilishundi. Úr stofuglugganum gátu þau séð fangana streyma inn í byrgið og reykinn liðast upp um reykháfinn. Enginn kom út aftur. Þjóðverjar reyndu að eyðileggja þessi ummerki áður en búðirnar voru frelsaðar. Þeim tókst það þó ekki nema að hluta. Líkbrennsluofnarnir hafa verið endurbyggðir nákvæmlega eins og þeir voru. Klefarnir eru upprunalegir.

                                                

P1000602 (Medium)Maður gengur inn um þessar lágu dyr. Þar fyrir innan var fólk látið afklæðast og því síðan þjappað inn í lágan klefa þar fyrir innan. Í loftinu eru einhverskonar túður eða stokkar - þar niður var eitrinu veitt. Zyklon-B nefndist hið banvæna efni. Þetta eru litar örður, minna helst á mulda sápu eða grófa, ljósa sandmöl. Þegar efnið komst í samband við súrefni og ákveðið hitastig losnaði eitrið úr læðingi. Tuttugu mínútum eftir að eitrinu var veitt niður um túðurnar, voru allir í klefanum látnir. Þá voru klefarnir opnaðir - líkin tekin og "hreinsuð". Gullfyllingar teknar úr tönnum og hár skorið af. Síðan voru líkamarnir settir í brennsluofinn.

Þeir sem ekki fóru beint í gasklefann voru fluttir í skálana þar sem þeim var úthlutað koju með 2-4 öðrum. Hár þeirra rakað af og húð þeirra merkt með brennimerki eða tattúi á handlegg eða brjóst. Í fyrstu voru allir fangarnir myndaðir og nafn þeirra skráð ásamt öðrum upplýsingum. Þegar leið á stríðið var þessu hætt, og fanganúmerið á húð þeirra látið duga - eftir það bar viðkomandi einungis þetta númer í stað nafns.

P1000637 (Medium) 

 

 

Enn skelfilegri var aðbúnaður fanganna í Birkenau - þar voru húsakynnin hesthús þar sem hróflað hafði verið upp rúmstæðum - þremur kojuröðum upp undir loft. Fimm til átta sváfu þar saman í hverri koju, með eina ábreiðu. Engin upphitun, engin hreinlætisaðstaða.  Þessi mynd er ekki góð en ef þið smellið á hana, stækkar hún, og þá má sjá betur hvernig umhorfs var í þessum vistarverum.

 

 

P1000598 (Medium) Í Auschwitz I vorum við leidd að gálgunum þar sem brotlegir fangar voru teknir af lífi fyrir litlar sakir - jafnvel tólf saman. Við sáum aftökustaðinn þar sem þeir voru skotnir til bana. Það var í portinu milli skálanna þar sem yfirmennirnir höfðust við öðrumegin. Hinumegin var hið svokallaða "sjúkrahús" þar sem Josef Mengele gerði sínar ómannúðlegu og skelfilegu tilraunir á konum og börnum, aðallega tvíburum. Við sáum líka refsiklefana þar sem fangarnir voru sveltir eða þeir kvaldir með því að standa örþreyttir eftir langan vinnudag. Já, við sáum klefa sem var 90 x 90 cm að þvermáli. Fanginn þurfti að skríða inn um lítið op sem var við gólfið, og rísa síðan upp og standa þar uppréttur, því ekki gat hann lagst - þar til næsti vinnudagur tók við.

Á göngunum eru myndir af þeim föngum sem myndaðir voru á fyrstu þremur árunum sem búðirnar voru starfræktar. Undir myndunum eru nöfn, fanganúmer og dánardægur hvers og eins. Margir létust fáeinum dögum eftir komuna, aðrir vikum eða mánuðum síðar. Flestir voru látnir áður en árið var liðið. Á þessum myndum sér maður líka börn sem hafa lifað mislengi. Hugrekki þeirra og þróttur, þar sem þau horfa framan í ljósmyndarann snertir mann djúpt.

Einn skálinn er helgaður þeim munum sem fundust eftir að búðirnar voru frelsaðar. Í einu herberginu er gríðarstór haugur af ferðatöskum. Annar haugur af búsáhöldum ýmiskonar  (sem fólk tók með sér því það hélt að þarna biðu þess ný heimkynni). Sá þriðji af gleraugum, sá fjórði af skóm.

Í einu herberginu er haugur af mannshári - heilt tonn - aðallega kvenhári. Það notuðu þjóðverjarnir til þess að vefa fóður í hermannabúninga. Í loftinu er undarleg lykt - sambland af myglu og mölkúlum. Þarna er manni farið að líða verulega illa. Í einu horninu eru bænasjöl sem gerð voru upptæk, einnig röndóttir fangabúningarnir, gauðrifnir og grófir, sem augljóslega hafa ekki haldið neinum hita í vetrarkuldum.

Innar í þessu sama herbergi eru svo barnafötin, rifin og snjáð, snuddurnar, litlu barnaskórnir, bangsar og dúkkur sem höfðu verið teknar með í leiðangurinn - í helförina.

Það verður enginn samur eftir að hafa komið á þennan stað.

 

P1000622 (Medium)

Sannleiksnefndina þarf að skipa núna

solarlag Nú, þegar ég kem aftur til landsins eftir um 10 daga fjarveru má segja að fátt hafi breyst frá því ég fór, nema eitt: Reiði almennings er orðinn auðsæ - allt að því áþreifanleg. Að öðru leyti er staðan sú sama. Stjórnvöld standa í samningaviðræðum við aðrar þjóðir um lán og aðstoð í efnahagsvanda okkar. Enn eru hnökrar á gjaldeyrisviðskiptum og seðlaskömmtun. Enn er spáð og spekúlerað.

Það sem nú er að gerast og er auðfundið - er að þjóðin er að koma út úr áfallinu. Reiðin er að taka völdin.

Nú þarf Alþingi Íslendinga að gera eitthvað til þess að sýna almenningi fram á að gerð verði skuldaskil gagnvart þeim sem bera ábyrgð. Gott og blessað er með það að halda áfram samningaviðræðum við aðrar þjóðir og gera það sem hægt er til að halda skipinu á floti. Það skyldu ríkisstjórn og Seðlabanki vitanlega gera. En, menn mega ekki gleyma því að almenningur á fullan rétt á því að málið verði gert upp. Og það má ekki dragast of lengi. Nú eru atburðir ferskir og menn til staðar sem geta lýst því sem gleggst hvað gerðist. Ríkisstjórn og Seðlabanka vinnst þá e.t.v. frekari friður til þess að sinna nauðsynlegustu verkum til að lágmarka skaðann af þeim erfiðleikum sem nú ganga yfir okkur öll.

Sannleiksnefndina þarf að skipa núna - það má ekki dragast lengur. Alþingi Íslendinga á að skipa þessa nefnd og í henni þurfa að sitja erlendir sérfræðingar sem hafnir eru yfir öll hagsmunatengsl og innanlandspólitík. Með nefndinni þurfa síðan að starfa valinkunnir sómamenn (konur eru líka menn) sem hafnir eru yfir allan vafa. Nefndin þarf að taka til starfa nú þegar.

 

 


Mikið déskoti var Sigmar góður!

Takið nú eftir - þið áhugamenn um fjölmiðla og viðtalstækni - hvernig Sigmar bar sig að í viðtali sínu við Geir Haarde í gær, samanborið við Egil í viðtali við Jón Ásgeir um daginn. Sigmar vissi upp á hár hvað hann ætlaði að fá út úr forsætisráðherranum. Hann virkjaði reiðina - sleppti henni aldrei lausri, heldur baunaði spurningunum (stundum á mörkum þess að missa það, en fór samt aldrei yfir strikið) hverri af annarri, í  rökréttri röð. Og þegar forsætisráðherranum var orðið nóg um, og taldi að spyrillinn væri farinn að fullyrða meira en spyrja - þá rökstuddi spyrillinn ástæður sínar fyrir framsetningunni og hélt sínu striki.

Þetta var beinskeytt viðtal - hugsað. Ákveðinn spyrill. Reiður undir niðri - en umfram allt vel undirbúinn. Það gerði gæfumuninn.

Annars er líka fróðlegt fyrir fjölmiðlafíkla að spá í muninn á viðtali Sigmars frá því um daginn við Davíð annarsvegar, og viðtali Egils við Jón Ásgeir hinsvegar. Í fyrra tilvikinu (viðtalinu við Davíð) hélt spyrillinn sig svo vel á mottunni að hann bókstaflega skrúfaði frá talandanum á seðlabankastjóra (með hrikalegum afleiðingum fyrir land og þjóð reyndar, en samt ...).

Í síðara tilvikinu (viðtali Egils við Jón Ásgeir) sleppti spyrillinn sér svo gjörsamlega að hann skrúfaði fyrir viðmælandann og fékk ekkert út úr honum eftir það.

Sumsé - eins og kría á steini, tylli ég mér niður á Frón, rétt nýkomin frá Póllandi á leið til Danmerkur í nótt. Verð ekki í bloggsambandi fyrr en eftir helgi.

En ... ég náði að kíkja á Kastljós gærkvöldsins og get ekki orða bundist: Mikið déskoti var Sigmar góður!


Farin af landi brott ...

kraka.jpg ... til Póllands. Sit nú og bíð þess sem verða vill varðandi flugáætlunina, brottförinni var seinkað um fjóra tíma.

Ég var svo heppin að eiga svolítinn gjaldeyri inni á reikningi sem ég hef nú kroppað út úr bankanum. Það er auðvitað undarlegt að þurfa að standa auðmjúkur á svip með farseðla í hönd og biðja um að að taka út sína eigin peninga. En svona er þetta nú samt.

Ef ég hefði ekki átt þessa aura, hefði ég auðvitað ekkert farið í þessa ferð, því ekki dettur manni í hug að kaupa gjaldeyri eins og á stendur. En ... við vorum fyrir löngu búin að borga sjálfa ferðina, þannig að ... við ætlum bara að skella okkur. Verðum í Kraká.

Það er ágætt að yfirgefa landið í nokkra daga núna - komast í burtu og sjá eitthvað annað en fallandi útvalsvísitölur, gröf yfir gengissveiflur og fréttir af atvinnuleysi og verðbólgu. Segi það satt.

Ætla að vera í bloggfríi á meðan - en þið sem kíkið inn á síðuna mína getið dundað ykkur við að skoða þessa upprifjun Kastljóssins á útrásarævintýrinu (smellið hér).

Svo er bara um að gera að berja sér á brjóst og minnast þessa að um æðar okkar rennur blóð stoltra bænda, sjómanna og víkinga aftur í aldirnar. Við kreppum hnefana þegar á móti blæs, bönkum á brjóstkassann ... og svo ... banka - kreppa - banka - kreppa ... Smile

 


Góð viðskipti

Hann var glaður í bragði bóndinn þegar hann kom heim einn daginn og tilkynnti frúnni að nú hefði hann gert góð viðskipti. "Ég seldi tíkina og fékk milljón fyrir hana!"

Konan, hálf hvumsa: "Seldirðu tíkina?"

Hann: "Jebb"

Hún: "Og hvar er milljónin?"

Hann, hróðugur á svip, dregur fram tvo litla kettlinga: "Hérna sjáðu. Tveir kettir - fimmhundruð þúsund hvor!"

 

kettir_330440

 


Greiðslur týnast í kerfinu

 Evra-AlvaranCom Svo virðist sem gjaldeyrisviðskiptin gangi á hvorugan veginn milli landa, þessa dagana. Norsk stúlka sem leigir hjá mér herbergi ætlaði að greiða húsaleiguna sína með því að millifæra hana í evrum frá norskum banka inn á gjaldeyrisreikning sem ég á í Kaupþingi. Þetta gerði hún s.l. föstudag. Greiðslan er ekki enn komin fram - og engar haldbærar skýringar gefnar. Greiðslan er bara "týnd" einhversstaðar í kerfinu.

 Svipaðar sögur berast af viðskiptum fyrirtækja milli landa - og þar eru nú töluvert hærri upphæðir í húfi.

Námsmenn í Danmörku eru margir hverjir í stökustu vandræðum - þeir geta ekki tekið út peninga fyrir nauðþurftum.

Í fjölmiðlum er sagt að þetta muni lagast - viðskiptaráðherra sagði í síðustu viku að gjaldeyrisviðskipti yrðu komin í lag s.l. mánudag. Þau eru ekki komin í lag. Í bankaútibúum á landsbyggðinni hefur víða verið algjör gjaldeyrisþurrð - til dæmis hér á Ísafirði.

Hvað skyldi þetta geta gengið svona lengi?

Og skyldu nást fram leiðréttingar vegna peninga sem hafa "týnst" í kerfinu undanfarna daga?


mbl.is Námsmenn enn í erfiðleikum með millifærslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóð Egill sig vel?

Egill "Ég reiddist bara fyrir hönd þjóðarinnar" segir Egill Helgason aðspurður um reiðikastið sem hann tók gegn Jóni Ásgeiri í Silfrinu á sunnudag. "Þetta var flottur þáttur" bætir hann svo við.

Þarna finnst mér Egill mætti lækka seglin aðeins. Í fyrsta lagi var þessi hluti þáttarins fjarri því að vera "flottur". Egill virtist ekkert sérlega vel að sér í umræðu efninu - hann var hinsvegar fullur heiftar í garð viðmælanda síns.  Hann fór með dylgjur og skæting, sem er ekki rismikil framkoma þáttarstjórnanda í ríkissjónvarpi.

Í öðru lagi má draga í efa að ríkissjónvarpið eigi að vera aftökutorg til að skemmta lýðnum þegar höggnir eru "skúrkar".

Í þriðja lagi er umræðuþáttur um þjóðfélagsmál ekki réttur vettvangur fyrir umsjónarmann að sleppa tilfinningum sínum lausum og svala þeim á viðmælendum sínum. Af ummælum Egils hér ofar má ráða að hann hafi talið sér þetta óhætt í ljósi þess að hann deildi tilfinningum með meginþorra þjóðarinnar. En það réttlætir ekki þessa framkomu - þetta veiklyndi liggur mér við að segja. Þjóðin er fullfær um að finna sínar eigin tilfinningar - hún þarf enga sýnikennslu í því. Það sem þjóðin þarf núna eru upplýsingar og svör. Ekki tilfinnignaútrás sjónvarpsmanna í beinni útsendingu.

Hlutverk þáttastjórnanda er að greina samfélag sitt, taka á þeim málum sem hæst ber hverju sinni, kalla eftir sjónarmiðum, skoða mál í nýju samhengi og varpa ljósi á þróun viðburða.

Enginn er ég málsvari útrásarliðsins um þessar mundir - eins og lesendur þessarar síðu vita vel. En Jón Ásgeir sýndi þó þann manndóm að mæta í viðtalið og standa þar fyrir máli sínu. Hann var miður sín af bræði, en stillti sig vel. Betur en Egill. Þegar upp var staðið var Jón Ásgeir sterkari aðilinn í viðtalinu.

Hafi Egill talið málstað Jóns Ásgeirs svo slæman að það gæfi honum sjálfum þetta skotleyfi sem hann tók sér - þá má draga í efa að rétt hafi verið af honum að fá hann til viðtals. Sé það fyrirfram gefin ákvörðun þáttarstjórnanda að hlusta ekki á rök viðmælanda síns, og gefa sér fyrirfram að hann fari með ósannindi og fleipur - þá má spyrja um tilganginn með viðtali sem þessu.

Hingað til hefur það verið óskráð siðaregla upplýstrar umræðu að gefa andstæðingnum kost á að tala sínu máli með eigin orðum - og svara því svo með rökum. Agli varð hált á röksemdasvellinu - hann lét offorsið bera sig ofurliði. Það var ekki "flott".


Meinið burt

Undanfarna daga hafa stjórnmálamenn í áfalli endurtekið hver eftir öðrum að nú sé ekki tími til að leita sökudólga heldur lausna. Ég óttast að þetta sé orðin einhverskonar sefjun eða mantra sem menn þylja til þess að róa sálartetur sitt og annarra. En sannleikurinn er sá, að uppgjörið er oft liður í lausninni - eða svo gripið sé til sjúkdómslíkingar utanríkisráðherra í merkri  grein sem birt er á mbl.is í dag: Stundum þarf að skera meinið burtu. 

"Það getur leitt af sér tímabundna vanlíðan, dregið úr virkni hins daglega lífs og sett okkur ýmsar erfiðar skorður en þegar allt er um garð gengið erum við betur sett eftir en áður en meinið var skorið" segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í grein sinni þar sem hún ræðir efnagaskreppuna sem við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir.

"Það má ... líta á þessa atburði alla sem sársaukafullt en um leið kærkomið tækifæri til að staldra við og endurmeta það sem máli skiptir í lífinu. Forsenda þess er að maður sætti sig við þá staðreynd að það er ekki hægt að komast á réttan kjöl aftur án umtalsverðra inngripa þar sem mein eru skorin burt" segir Ingibjörg Sólrún ennfremur.

En hvert er meinið sem skera þarf burtu úr íslenskum þjóðarlíkama svo hann nái bata? Mér sýnist það vera samsett af ýmsum sökudólgum: 

Í fyrsta lagi er það hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem  læddi þeirri hugvillu inn hjá ráðandi öflum að leikreglur og siðferði væru heftandi fyrir vaxtarmöguleika hagskerfisins.  Íhlutanir, eftirlit og inngrip, að ég tali nú ekki um aðild hins opinbera, væru gamaldags og þunglamaleg, beinlínis skaðleg fyrir efnahagslífið sem þyrfti að fá að blómgast í friði, laust við "forræðishyggju" og "ríkisafskipti".

Í öðru lagi eru það boðendur hugmyndafræðinnar - stjórnmálamenn og valdhafar - sem skeyttu ekki um að setja leikreglur og skorður, heldur hönnuðu leikvang hins "fullkomna frelsis" þar sem allt var leyfilegt og engin bar ábyrgð. Þeir lögðu gatnakerfið, en umferðarskilti, ljós og gatnamerkingarnar voru víðsfjarri.

Í þriðja lagi eru það iðkendur hugmyndafræðinnar - útrásarvíkingarnir - sem nýttu sér aðhaldsleysið og fóru eins og byssubrandur í útrásinni. Ragnar Önundarson bankamaður orðaði það ágætlega í Silfri Egils í gær þegar hann líkti þessum  mönnum við ökuþrjóta sem gerst hafa sekir um ofsaakstur fjármálakerfisins sem leitt hefur til stórslyss í hagkerfinu.

Í fjórða lagi er það eftirlitsaðilinn - Seðlabankinn - sem með rangri peningastefnu, skorti á eftirliti og röngum viðbrögðum við ástandinu, gerði vont verra.

Nú þarf að gera þrennt:

  1. Hverfa frá hinni skaðlegu hugmyndafræði og gera rækilega upp við hana.
  2. Kalla þá menn til ábyrgðar sem báru ábyrgð á atburðarásinni meðan þessi ósköp voru að gerjast og svipta þá umboði til þess að fara með efnahagsmál. Liður í því er að skipta um stjórn í Seðlabankanum.
  3. Leiða fyrir dómstóla þá fjármálajöfra sem með pappírssölum fyrirtækja og geigvænlegri lánasetningu bankakerfisins komu hér öllu í kaldakol.

Þetta er forsenda þess að að hægt verði að leggja grunn að bata í íslensku efnahagslífi - að íslenska þjóðarsálin finni þrótt til þess að takast á við vandann. Enginn sjúklingur nær bata nema hann sjái eitthvað framundan. Fyrsta skrefið núna er einmitt að fjarlægja meinið svo batinn geti hafist.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband