Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Mamma, þetta er sko það flottasta sem ég hef séð .... sagði sonur minn yfirkominn af hrifningu: Hún Saga ER listamaður!

saga-dansar  Pétur sonur minn var sumsé að koma frá því að aðstoða Sögu systur sína við að setja upp danssýninguna sem hún og Margrét, dansfélagi hennar, ætla að setja upp á nútímadanshátíðinni sem hefst kl 17:00 á morgun  (föstudag). Þær eru fyrsta atriði á dagskránni sem hefst með dansgöngu frá Austurvelli. Þaðan liggur leiðin í gömlu Morgunblaðshöllina við Aðalstræti þar sem "skrímslin" bíða í "helli" sínum á jarðhæð hússins. Það eru m.ö. þær Saga og Margrét - eða Good Company, eins og dansleikhúsið þeirra kallast. Verkið sem þær sýna þarna í Morgunblaðshöllinni heitir "Sgwímsli" (engin prentvilla) og er tvíleikur þeirra tveggja.

Sjálf er ég orðlaus yfir allri vinnunni sem hefur verið lögð í þetta eina verk - sem þær vita svo ekki einu sinni hvort nokkur kemur að sjá (því mér sýnast nú kynningarmálin hafa farið fyrir ofan garð og neðan - en það er önnur saga). Hingað til landsins eru t. a. m. komnir þrír hönnuðir, tveir frá Japan og einn frá Þýskalandi, til að aðstoða þær. Þetta fólk kom alla þessa leið til þess að setja upp sviðsmynd og búninga fyrir tvær sýningar (já, seinni sýningin mun vera kl. 14:00 á laugardag)! Raunar er þetta blessaða fólk - sem flaug yfir hálfan hnöttinn til að aðstoða - að fara heim aftur í nótt. Þau munu ekki einu sinni sjá sjálfa sýninguna. Eru í þessum töluðum orðum rétt búin að kveðja mig með hneigingum og þökkum (því þeir eru kurteisir Þjóðverjar og  Japanir, þótt ungir séu).

En sem sagt: Systkinin Pétur og Maddý voru líka að hjálpa til - og Pétur fylgdist með heilu rennsli í gær. Hann var með ljóma í augunum þegar hann lýsti þessu fyrir mér: "Þetta er það flottasta ... ég hef aldrei séð neitt eins og þetta! Þetta var ótrúlega flott." 

Ég horfði á hann. Fann hlýjan straum fara um brjóstholið. Minnug stundanna þegar þau léku sér að kubbum, rifust um dótið, grétu undan hvort öðru, sungu saman, hugguðu og studdu hvort annað gagnvart heiminum - lásu saman bækurnar, horfðu á Nilla Hólmgeirsson og eyddu heilum sunnudagsmorgni í að lita fallega mynd handa mömmu. Saga talaði fyrir Pétur á leikskólanum svo það þurfti að skilja þau að milli deilda. Það var fyrsti aðskilnaðurinn, og hann stafaði af of nánu systkinaþeli. Orðlausum skilningi.

Jæja, nú eru þau komin á þrítugsaldur - hafa þroskast hvert í sína áttina, Pétur helgar sig tölvuheiminum, Maddý arkitektúrnum, Saga dansinum.

Hvort áhorfendur munu sjá þessa sýningu sömu augum og hann á morgun veit ég auðvitað ekki. Það skiptir mig engu. Mér, móður þeirra, er nóg að vita að enn skilja þau hvert annað - orðlausum skilningi. Rétt eins og þegar þau öll þrjú fyrir löngu - með litla tungubroddinn sinn við annað munnvikið - lituðu saman fallega mynd til að leggja á koddann hjá mömmu.


Stones brýnin söm við sig!

StonesMick Jagger Stones voru frábærir á tónleikunum sem haldnir voru í O2-höllinni í London s.l. laugardagskvöld. Þetta voru lokatónleikar tveggja ára tónleikaraðar sem þeir nefna A Bigger Bang. O2 samkomuhöllin er tiltölulega nýbyggð, tekur um tuttuguþúsund manns. Þarna eru verslanir, matsölustaðir, kvikmyndhús, allt undir einu þaki, og svo þessi gríðarlegi leikvangur þar sem hægt er að setja upp tónleika á borð við þessa! Allt mjög flott.

Jagger fór á kostum. Fyrsta lagið á tónleikunum var Start Me Up! (held sveimérþá að þeir byrji alltaf á því). Fyrst kom upp svona "intró" á risaskjá fyrir ofan sviðið, því lauk með gríðarhvelli þegar "tungan" fræga leystist upp í frumeindir, og um leið hófst trommutakturinn hjá Charlie Watts. Þið hefðuð bara átt að finna strauminn sem fór um salinn þegar trommurnar byrjuðu - ljósin upp - og svo röddin í Jagger: Start me up! (púm, tútúmm tútúmm), you start me up I'll never stop! (tútúmm túmm). Hann var flottur karlinn - og úthaldið ekkert minna en þegar hann var upp á sitt besta.

Raunar var eitthvað vesen á hljóðinu hjá þeim um miðbik tónleikanna - ég held þeir hafi hreinlega magnað of mikið upp því það var á köflum bergmál í kerfinu (sem á auðvitað ekki að gerast hjá köllum eins og Stones, ég meina hvað haldið þið að þessi rótarar séu með í laun? Það er örugglega ekki lítið). En krafturinn og stuðið bætti það upp - svo einfalt er það mál.

Lisa Fisher er alveg hreint ótrúleg. Hún fékk ekki mikið að hnjóta sín núna - söng eitt lag með Jagger, en var annars í bakröddum. Í þessu eina lagi - þar sem þau skiptust á að syngja - leiddi hann hana aftur á sinn stað áður en laginu lauk. Ætlaði greinilega ekki að láta hana hirða frá sér athyglina eða fagnaðarlætin. Hún gerði það engu að síður, því það ætlaði allt um koll að keyra þegar hún var búin - og mér finnst hann hefði mátt leyfa henni að njóta þess.

En hvað um það - hún fann ábyggilega að hún átti í okkur hvert bein meðan hún söng. Hann fann það örugglega líka Devil.

Keith er farinn að láta á sjá - en hann var sjálfum sér líkur. Sömuleiðis Charlie Watts, sem er greinilega eftirlæti Stones aðdáenda, ef marka má viðtökurnar sem hann fær yfirleitt á sviði. Enda ótrúlega flott týpa - hlédrægur, öruggur og kraftmikill.

Jamm - við munum lengi lifa á þessu. Ég ætla að orna mér við minninguna aðeins lengur, áður en ég fer að blogga um önnur tíðindi Smile


Stones tónleikar í London á morgun

Bigger bang Mick Jagger Jæja, nú er maður að loka ferðatöskunum og búa sig undir það að taka flugið til London. Framundan eru Stones-tónleikar í O2 tónleikahöllinni í London síðdegis á morgunSmile Það eru lokatónleikarnir þeirra í tveggja ára tónleikaröð sem þeir nefna A Bigger Bang!

Yngsti sonurinn fær að fara með að þessu sinni - hann er 13 ára og ekki seinna vænna að kynna hann fyrir stórtóleikahaldi af þessu tagi. Fyrir tíu árum voru systkini hans tekin á Stones-tónleika í Tívolíinu í Kaupmannahöfn - Bridges to Babylon hét sú tónleikaferð þeirra. Þá hélt maður að gömlu brýnin færu að syngja sitt síðasta hvað úr hverju - en það var öðru nær.

Í fyrravor, þegar Keith Richards ráfaði fullur upp í tré, datt niður úr því og fékk heilahristing, hélt maður líka að þetta væri búið hjá þeim. En neibb .... þeir eru eins og samviskan, gera alltaf vart við sig aftur og aftur.

Áður hef ég séð Stones á Wembley 1994 þegar þeir voru að ljúka Vodoo Lounge tónleikaröðinni. Það var frábær upplifum - ógleymanleg.

Raunar er það Siggi, bóndi minn, sem er aðal Stones-maðurinn í fjölskyldunni. Hann hefur oft farið á tónleika með þeim, og það er fátt viðkomandi þessu  (að ég held) elsta rokkbandi heimsins sem hann ekki þekkir og kann. 

Það eru þeir félagarnir Mick Jagger (64), Keith Richards (63), Charlie Watts (66), Ron Wood (60 - unglingurinn í hópnum)  sem við köllum Rolling Stones. En á tónleikum hljómsveitarinnar koma mun fleiri fram en þeir kumpánar. Mér er t.d. sérstaklega minnisstæð frammistaða Lisu Fisher þegar hún söng Gimme Shelter með Mick Jagger á Vooodoo Lounge tónleikunum á Wembley. Sömuleiðis hafa þeir á að skipa frábærum aðstoðarmönnum á ýmis hljóðfæri bæði bassa, brass, hljóðgervla, bakraddir o.fl.

Þetta verður ábyggilega frábært hjá þeim núna.

Stones

 


Andateppuviðtal um þvagleggsþræðingu og fleira.

Helgi Seljan fékk mig og Dögg Pálsdóttir í kastljósið í kvöld til þess að skiptast á skoðunum um þvagleggsmálið á Selfossi og aðrar fréttir vikunnar. Úff, það var nú meira andateppuviðtalið - enginn tími til þess að fara ofan í málið og ræða það eins og vert væri - bara sprettur með andköfum, liggur við.

Þetta er vandi íslenskrar ljósvakamiðlunar - og hefur svosem verið árum saman - að þurfa alltaf að fleyta kerlingar á öllum málum af því það vinnst ekki tími eða rúm til þess að taka almennilega á þeim.

Ég vona bara að kastljósið láti ekki staðar numið hér heldur haldi umfjölluninni áfram, með viðtölum við fleiri. Þetta er ærið tilefni.

Kastljóssviðtalið er hér:  http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4301892/0


Ekki batnar það.

Ekki batnar málstaður Selfosslögreglunnar eftir að lögfræðingur konunnar hefur komið nánari upplýsingum til fjölmiðla um tildrög þvagleggsmálsins, sbr. þessa frétt á RÚV (http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item167229/)

Þó að sýslumaður hafi komið sínum sjónarmiðum að í gær - er of mörgu ósvarað enn um framgöngu þeirra sem stóðu að hinni umdeildu þvagsýnistöku:

1) Hvers vegna kom lögreglan konunni ekki undir læknishendur eftir að ljóst var að hún hafði misst stjórn á bíl sínum þannig að hann hafnaði utan vegar? Er það ekki lögbundin borgarleg skylda að aðstoða fólk á slysstað og koma því undir læknishendur - jafnvel refsivert að láta slíkt undir höfuð leggjast?

2) Hvers vegna fékk konan ekki lögmann um leið og hún óskaði þess? Eru það ekki líka lögbundin mannréttindi þeirra sem hafna í höndum lögreglu að kalla til lögmann?

3) Var það ákvörðun sýslumanns að konan skyldi beitt valdi við töku þvagsýnis - eða tóku lögregluþjónarnir þetta upp hjá sjálfum sér?

4) Hver var hlutur læknis og hjúkrunarkonu sem nefnd hafa verið í þessu sambandi - voru þau einungis "viðstödd" eins og ráða mátti af orðum sýslumanns í gær, eða tóku þau þetta þvagsýni?

5) Fékk konan læknisskoðun vegna hugsanlegra áverka eða afleiðinga útafakstursins, eða voru læknir og hjúkrunarkona einungis kölluð til svo hægt væri að afla sönnunargagna úr líkama hennar?

6) Ekki hefur komið fram að dómur sé fallinn í ölvunarakstursmáli konunnar - sýslumaður hefur þó kveðið upp úrskurð í fjölmiðlum um sekt hennar. Fær það staðist réttarfars- og siðaregluna um að hver maður sé saklaus uns sekt hans sannast?

7) Á hvaða lagagrunni byggir ríkissaksóknari þá ákvörðun sína að vísa málinu frá án rannsóknar?

Allar þessar spurningar lúta að grundvallarreglum réttarfars okkar - leikreglunum sem almenningur og opinberir þjónar hennar eiga að virða. Sýslumaður getur ekki látið þeim ósvarað. Ekki heldur lögreglu- og heilbrigðisyfirvöld þau sem bera ábyrgð á þeim aðilum sem komu að þessu máli. Viðkomandi siðanefndir verða að taka afstöðu til þess sem þarna átti sér stað.

Það er ekki nóg að almenningur þekki ábyrgð sína og axli hana þegar út af bregður. Það verða hinir opinberu þjónar og yfirvöld einnig að gera.

Ef ríkissaksóknari hunsar að taka mál þetta til rannsóknar eiga fulltrúar almennings - stjórnmálamenn og fjölmiðlar - að taka í taumana og rannsaka málið ofan í kjölinn.


Óafsakanleg framkoma.

Í fyrsta skipti frá því ég fór að blogga hér á mbl.is verður mér illt af því að lesa viðbrögð fólks í fréttablogginu.

Að nokkrum manni skuli detta í hug að mæla því bót þegar ölvaðri konu er haldið fastri af karlmönnum í lögreglubúningi sem leysa niður um hana inni í fangaklefa þar sem þvaglegg er troðið upp í þvagrás hennar - það er með ólíkindum. Skiptir engu hversu ölvuð konan var, hversu illa hún lét, jafnvel þó hún hafi hrækti og sparkaði - sé það rétt sem sagt er.  Ekkert af þessu skiptir mái. Ekki heldur afbrot hennar - fyrir það átti hún að gjalda með dómi að undangenginni eðlilegri málsmeðferð.

Blóðsýni vottar að áfengismagn konunnar var hátt yfir mörkum. Lögreglunni mátti vera það full ljóst að hún var ölvuð, og sé eitthvað að marka lýsingar á framkomu hennar mátti öllum ljóst vera að hún var ekki með sjálfri sér. Raunar spyr maður sig hversvegna þurfti þvagsýni, úr því að blóðsýni lá fyrir - en því verða aðrir að svara.

 Það var hroðalegt að sjá sýslumann Selfyssinga reyna að réttlæta þessar aðfarir í sjónvarpinu í kvöld. Málflutningur hans og fas var þannig að mér er raunverulega illt eftir það sem ég sá og heyrði.

Og ef satt er að læknir og hjúkrunarfræðingur hafi verið viðstödd þessar aðfarir (samþykk þeim, jafnvel aðstoðað við þær - en þannig mátti skilja sýslumann) þá er illa komið fyrir heilbrigðisstéttunum. Manneskjan var ekki einu sinni í sótthreinsuðu umhverfi - heldur inni í fangaklefa! 

Er það hlutverk lækna og hjúkrunarfólks að sinna "löggæslu" af þessu tagi? Að aðstoða lögreglu við að ráðast inn í líkama manneskju að henni nauðugri, til þess að afla sönnunargagna í ölvunarakstursmáli (sem hlýtur að hafa legið nokkuð ljóst fyrir úr því að blóðprufa náðist)?  

Ölvunarakstur er auðvitað alvarlegt brot - en yfirmaður lögreglu getur ekki notað dómgreindarleysi ofurölvaðrar konu sem réttlætingu fyrir eigin dómgreindarleysi eða sinna manna. Þessar aðfarir ná ekki nokkurri átt. Og það er uggvænlegt að ríkissaksóknari skuli hafa vísað þessu máli frá - uggvænlegt!

Ég er miður mín.

 ---

PS: Eftir athugasemdir um að það hafi verið læknir og hjúkrunarkona sem hafi þrætt þvaglegginn í konuna en lögreglan haldið henni á meðan - hef ég lítillega breytt orðalaginu í annarri setningu þessarar færslu. Af sjónvarpsfréttum mátti skilja að heilbrigðisstarfsfólkið hafi einungis verið "viðstatt" þessar aðgerðir, en ekki beinir þátttakendur. Ekki veit ég hvað rétt er í því - og þar sem tvímæli hafa ekki verið tekin af um þetta atriði tel ég réttast að fullyrða ekkert um það hver það beinlínis var sem þræddi þvaglegginn, enda er verknaðurinn nógu yfirgengilegur samt.


mbl.is Konu haldið niðri og þvagsýni tekið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Böggull og skammrif: Olíuhreinsunarstöð og vegabætur.

Arnarfjordur2 Fylgjendur olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum vísa einatt til þess að slíku fyrirtæki muni fylgja svo miklar samgöngubætur að Vestfirðingar hafi einfaldlega ekki efni á að segja nei takk! Þá muni þjónusta og fjarskipti lagast svo um munar með tilkomu slíkrar stöðvar. 

Hverskonar röksemdir eru þetta eiginlega?  Íbúar annarra landshluta sem þannig tala sýna okkur lítilsvirðingu með því að tala svona. Ef Vestfirðingar sjálfir trúa þessu, þá er lítilþægni þeirra meiri en ég hefði trúað. Við eigum ekki að þurfa olíuhreinsunarstöð til þess að fá hingað sjálfsagða hluti.

Góð þjónusta og greiðar samgöngur eru sjálfsagður hlutur í öllum landshlutum - og eiga að vera það hér á Vestfjörðum líka, óháð því hvort hér verður sett niður olíuhreinsunarstöð eða ekki. Hér eru atvinnuvegir og mannlíf sem verðskulda aðstöðu, samgöngur og þjónustu sem eru sambærileg við það sem gerist í öðrum landshlutum.

Vestfirðingar eiga sjálfsagða kröfu á því að sitja við sama borð og aðrir landsmenn. Þeir greiða sína skatta. Atvinnuvegirnir hér  leggja drjúgan skerf inn í þjóðarbúið, ekki síst sjávarútvegurinn.

Við eigum ekki að vera svo lítilþæg að líta á úrbætur í vegamálum sem einhverskonar "gjöf" eða "ölmusu" frá samfélaginu, og að slíkar úrbætur þurfi að tengja við umdeildar aðgerðir, eins og þegar böggull fylgir skammrifi.

Við Vestfirðingar erum þegnar í þessu landi - þetta landsvæði leggur fram sinn skerf og á að fá sinn skerf. Það er kominn tími til að menn átti sig á því.

----- 

Annars vil ég benda áhugasömum á að lesa vel rökstudda grein eftir Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðing frá í vor, en þar fjallar hann sérstaklega um umhverfisáhrif og mengun frá fyrirhugaðir olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum.


BÍ burstar Val!

Valur "Valurinn" sem lúrir innra með mér frá gamalli tíð, á það til að brjótast fram fílefldur af og til, einkum þegar KR og Valur eigast við.  Þó langt sé um liðið - áratugir - frá því ég handlék bolta í gamla Valsheimilinu við Hlíðarenda, hafa þau bernskuspor orðið þess valdandi að rauðhvíti liturinn er mér alltaf hjartfólginn - sérstaklega í samanburði við svarthvítar rendur!

P1000216 (Small)Jæja, en í gærdag urðu þau tímamót að Valnum innra með mér fataðist flugið. Það var þegar Hjörvar, 13 ára sonur minn, hringdi hamingjusamur að sunnan til þess að segja mér að þeir BÍ strákarnir í 4. flokki hefðu unnið Vals-strákana í fótboltanum, 4-0!!

Valur hvað?

Nú er það  BÍ og litur himinblámans sem blífur Smile Flott hjá ykkur strákar


Olíuhreinsunarstöð - framtíð fyrir hvern?

arnarfjordur Olía er eldfimt efni - olíuhreinsunarstöð er álíka eldfimt umræðuefni. Það sannast á athugasemdakerfinu hjá mér eftir daginn í dag.

Ég er hrædd um að menn sjáist ekki fyrir í þessu máli - að hinn meinti ágóði fyrir samfélagið í heild verði einhvern veginn mun takmarkaðri og "öðruvísi" en menn töldu í upphafi. Og áður en menn ná almennilegum áttum verður komið reykspúandi ferlíki ofan í einn fegursta fjörð Vestfjarðakjálkans  - af því menn treystu sér ekki, í erfiðu árferði, til þess að taka af skarið og segja NEI TAKK!

Einn bloggarinn orðaði það þannig í athugasemd hjá mér fyrr í dag:  "Gerðu mann nógu svangan og hann mun eta það sem þú réttir honum!" Ég er hrædd um að einmitt sú staða sé uppi núna. Menn eru tilbúnir að taka hverju sem er - taka við tálsýninni í von um að hún leysi einhvern vanda. Um leið er framtíðarhagsmunum fórnað fyrir skammtímahagsmuni.

Arnarfjordur2 Fyrr í sumar varpaði ég fram sjö spurningum sem ég vil biðja Vestfirðinga - þá sem hér búa NÚNA - að spyrja sjálfa sig, og helst að svara:

1) Er þetta framtíðartækifæri fyrir mig eða börnin mín?
2) Mun þetta freista unga fólksins sem nú er að fara utan til náms til að koma aftur að því loknu?
3) Mun olíuhreinsunarstöð bæta mannlíf á Vestfjörðum?
4) Mun hún laða atgervi inn á svæðið?
5) Mun hún fegra umhverfið? 
6) Mun hún auka möguleika okkar á öðrum sviðum og styðja við aðrar atvinnugreinar á svæðinu?
7) Munu Vestfirðingar njóta arðsins af starfsemi stöðvarinnar?

Sjálf get ég ekki svarað neinni þessara spurninga játandi - þvert á móti óttast ég að fórnirnar sem færa þarf verði umtalsvert meiri en hinn ætlaði ávinningur:

1) Ég þekki engan sem sér tækifæri eða framtíðarmöguleika fyrir sjálfan sig eða börn sín þessari olíuhreinsunarstöð.
2) Enginn sem ég hef rætt við telur að starf í olíuhreinsunarstöð muni freista ungs fólks að námi loknu, að koma heim aftur.
3) Olíuhreinsunarstöð myndi væntanlega þurfa á innfluttu vinnuafli að halda, líkt og Kárahnjúkavirkjun. En það er líka viðbúið að hún muni soga til sín mörg störf úr stoðkerfinu hér vestra. Stöðin mun því ekki koma sem blómstrandi viðbót heldur sem n.k. æxli sem sogar til sín mannafla sem samfélagið má síst við að missa úr öðrum störfum.
4) Olíuhreinsunarstöð mun því ekki laða atgervi inn á svæðið.
5) Stöð sem þessi þarf að koma frá sér mengun og úrgangi sem enn er ekki útséð með hvert muni lenda, en þar er einungis um þrennt að ræða: Hafið (uppsprettu fiskveiða okkar og fiskeldis), loftið (hina blátæru ímynd norðursins) eða jarðveginn (uppsprettu vatns og landsgæða).
6) Mengun sú sem fylgir olíuhreinsunarstöð mun ógna stöðu okkar og ímynd á ýmsum sviðum. Augljósasta ógnin snýr að fiskveiðum og ferðamennsku - en á báðum þeim sviðum hefur landið verið markaðssett sem náttúruperla. Hætt er við að menn geti gleymt möguleikum á vatnsútflutningi frá Vestfjörðum ef þetta verður að veruleika. 
7) Stöðin verður ekki í eigu Vestfirðinga, þannig að varla kemur arðurinn af henni inn í vestfirskt samfélag. Hún mun vissulega greiða aðstöðugjöld, en um leið mun hún líka krefjast mikillar aðstöðu, frálagna og aðfangaleiða af stærðargráðu sem líklega hefur aldrei sést hér áður.

Dynjandi Ég vildi óska að menn hættu að hugsa um þetta og sneru sér að einhverju sem hefur raunverulega uppbyggingu í för með sér: Háskóla, framsókn í ferðaþjónustu, menningarstarf, frumkvöðlastarf, vatnsframleiðslu, matvælaiðnað - m.ö.o. framþróun og tækifæri fyrir okkur sem hér búum og börnin okkar. Eitthvað sem við getum glatt okkur við að hlúa að til framtíðar.


Olíuhreinsunarstöð er óráð

Hafis2005 Það eina sem virðist geta bjargað okkur Vestfirðingum núna frá því óráði að reisa olíuhreinsunarstöð í einum fegursta firði Vestfjarðakjálkans, er landsins forni fjandi. Páll Bergþórsson veðurfræðingur bendir á að hafís muni valda olíuhreinsunarstöðinni vandræðum vegna aðflutninga.

Já, Vesturbyggðarmenn hafa stokkið á hugmyndina um olíuhreinsunarstöð - og vilja endilega setja hana niður í Hvestu í Arnarfirði. Hvað verður þá um kræklingaeldið, kísilþörungavinnsluna og náttúruvörurnar frá Villimey? Að ég tali nú ekki um hugsanlegan vatnsútflutning? Allt þarf það vottun til að geta talist gjaldgengt á markaði. Varla verður þessi olíuhreinsunarstöð góð markaðssetning fyrir slíkar afurðir, eða íslenskan fisk af Vestfjarðamiðum?

 Nú segi ég bara:

  • Heill þér vinur, "landsins forni fjandi",
  • ef forðað getur þjóð frá verra tjóni:
  • Reykspúandi ferlíki á Fróni
  • í firði bláum, upp af hvítum sandi.

grrrr .... nú sest ég niður og yrki drápu - ákvæðadrápu í þeirri von að hún hrífi.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband