Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Skyldan kallar - sumarleyfinu að ljúka!

P1000225 (Small)  Nú finnur maður að haustið nálgast - það er komið eitthvert andkul í vindinn, þrátt fyrir blíðskaparveður. Var á hundaleitaræfingu í gærkvöld í glaða sólskini og við sáum sólina hverfa bak við fjallið. Fáeinum mínútum síðar snarkólnaði. Á heimleið tveim tímum síðar varð mér litið á hitamælinn í bílnum, hann sýndi 4 gráður.

Já, maður er farinn að láta sjá sig á skrifstofunni, svona rétt til þess að venja sig við. Nýgerðar kennsluáætlanir, fundir og önnur skyldustörf handan við næsta leiti.

Í starfi mínu hjá Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands hef ég kennslu, rannsóknir og stjórnunarstörf á minni könnu. Stjórnunarstörfin eru tilfallandi, hafa hingað til einkum beinst að stofnun nýs fræðaseturs Háskóla Íslands hér á Vestfjörðum sem verður staðsett í Bolungarvík. Þessa dagana er verið að ráða nýjan forstöðumann og ég er ásamt fleirum að skila af mér áliti til stjórnar um þá tvo aðila sem sóttu um stöðuna.

Háskólakennslan bíður líka. Í vetur mun ég kenna námskeið á MA-stigi um miðlun menningar og fræða í útvarpi. Þetta er að hluta til hagnýtt námskeið, en líka fræðilegt - það verður kennt í gegnum fjarfundabúnað héðan frá Ísafirði. Ég og nemendur munum velta fyrir okkur menningarhugtakinu og því sem kallað er "alþýðleg" fræði. Sömuleiðis hugtökunum "vísindi" og "fræði". Fyrir hverja eru vísindin, hvað eru alþýðleg fræði. Lokaverkefni nemenda verður útvarpsþáttur um menningartengt efni sem þau vinna á eigin spýtur, en þó undir handleiðslu. Spennó Wink

 Já, maður er svona smám saman að koma sér út úr sumarleyfishamnum í vinnuhaminn - og það er svo einkennilegt, að eiginlega er ég farin að hlakka til að hefjast handa við vinnu á ný.

Annars eru mörg ár síðan ég tók almennilegt sumarfrí - og þá meina ég frí þar sem maður slakar á og hugsar ekki um vinnu. Í sumar hef ég getað um frjálst höfuð strokið. Það er ótrúlega gott! 

Líklega er það því að þakka að nú er ég farin að hlakka til að takast á við verkefni vetrarins.

 


Berjatíð

berjalyng Ég veit að ég mun bara sjá fyrir mér kolsvart berjalyng þegar ég leggst til svefns í kvöld. Mig mun dreyma ber í alla nótt. Í dag fórum við vinkonunarnar sumsé í berjamó - og höfum síðan verið á fullu við að sulta og safta með tilheyrandi rassaköstum og tilþrifum!

Við drifum okkur um hádegisbilið, þrjár saman - ég, Magga vinkona og Maddý dóttir mín - upp í hlíðina fyrir ofan austanverðan Tungudal. Tveim tímum síðar komum við heim með tuttugu lítra af berjum!

Nú er allt komið á krukkur og gamlar brennivínsflöskur með skrúfanlegum töppum. Afraksturinn er: 4 lítrar af krækiberjasaft, 1 lítri af krækiberjahlaupi, 4 lítrar af bláberjasultu og svo auðvitað einhver ósköp af ferskum bláberjum út á ísinn og skyrið. Nammm...... Smile

Eftir alla sultugerðina var Maddý minni ekki til setunnar boðið. Hún tók föggur sínar, kvaddi og hélt áfram för sinni um landið, eftir aðeins sólarhrings stopp. En hún er nú að sýna skólafélaga sínum frá Danmörku markverðustu staði landsins (og varð auðvitað að koma við hjá mömmu og pabba á Ísafirði). Blessunin Halo.

Jæja, eftir kossa og kveðjur til hennar þar sem hún renndi með vini sínum úr hlaði á litlu gömlu Toyotunni, þerraði ég tárin úr augnkrókunum og fór að elda kvöldmat fyrir Möggu og Baldur - vini mína sem eru nú í heimsókn. Tengdó komu líka í matinn - og að aðalréttinum loknum úðuðum við í okkur bláberjum með rjóma og ís - mmmmm........ 

Ég er enn svo pakksödd að ég get varla staðið upprétt - og guð má vita hvenær ég næ blámanum af framtönnunum. En, hva? Það er nú ekki svo oft sem besta vinkonan kemur til mín vestur á Ísafjörð alla leið frá Reykjavík. Verst hvað þau stoppa stutt.

En - öllu er afmörkuð stund. Og þetta var góður dagur.


Af björgunarhundanámskeiði í berjamó!

ollyogblida07 Jæja, þá er maður nú kominn heim til sín eftir mikið útivistarstand.

Eftir tiltektir, húsamálun og viðhaldsverk ýmis í borgarbústaðnum mínum á Framnesvegi hélt ég með minn "fjallahund" vestur á Gufuskála á fimmtudagskvöld. Þar fór fram helgarnámskeið Björgunarhundasveitar Íslands með félögum allstaðar að af landinu. Við eyddum þar helginni í góðra vina hópi við æfingar og leitarþjálfun við ágæt veðurskilyrði til slíkra hluta.

Blíða mín blessunin tók miklum framförum á þessu námskeiði - og nú hef ég tekið gleði mína með hana á ný. Mér sýnist hún vera komin yfir gelgjukastið síðara sem gekk yfir hana í vor, um það leyti sem við hættum í snjóflóðaleitinni og byrjuðum með nýtt prógram fyrir sumarleitina (víðavangsleit). Hún hefur endurheimt sinn fyrri áhuga, hefur gaman af því sem hún er að gera og vinnur vel með mér. Ég þakka það ekki síst góðum leiðbeinendum á síðustu tveim námskeiðum, sem hafa hjálpað mér að koma henni á góðan rekspöl.

Æfingar okkar að þessu sinni fólust í því að efla og treysta í sessi geltið hennar þegar hún finnur mann. Hún er löngu farin að gelta vel á mig þegar hún hefur fundið, en því miður hefur hún haft minni áhuga fyrir því að gelta hjá þeim "týnda" -  fígúrantinum svokallaða - þegar hún fer í vísun og hleypur til hans aftur. Að vísu þarf hún þess ekki, samkvæmt reglunum, en ég vil gjarnan ná því upp hjá henni, þar sem það er ólíkt þægilegra að vinna með hundi sem geltir vel þegar hann vísar eigandanum á manninn.

Nú er þetta allt á réttri leið. Leiðbeinandinn minn lagði ríka áherslu á það við fígúrantinn að vanda móttökurnar og vera skemmtilegur þegar hún kemur. Ég var mjög heppin með fígúrant - reyndan hundaeiganda sem kunni vel til verka - og árangurinn lét ekki á sér standa. Hundurinn sýndi fígúrantinum ótvíræðan áhuga - gelti kröftuglega við hvatningu, kom svo til mín og gelti kröftuglega óbeðinn,  og vísaði síðan af öryggi og gelti aftur hjá fígúranti. Ég er harðánægð með þetta, og nú verður haldið áfram á sömu braut.

En það var gott að koma heim í gærkvöld eftir sjö klst akstur vestur á Ísafjörð - fara í heitt bað og leggjast í rúmið sitt. Ekki var verra að vakna við sólskinið í morgun. Maddý dóttir mín er komin með vin sinn í heimsókn, og í kvöld koma góð vinahjón okkar til að vera í tvo daga. Sól skín á sundin og grænan lundinn - veður fyrir berjamó - og gaman að lifa Smile

berjalyng


Tiltektir og tiltektir - allt á öðrum endanum.

P1000235 (Small) Þessa dagana er allt á öðrum endanum hér á Framnesveginum - borgarbústaðnum okkar. Ekki höfðum við fyrr rennt í hlað eftir unglingalandsmótið á Höfn en við vorum komin með pensil í hönd, slípirokk, kúst og tusku ... jamm, það er verið að mála, þrífa, slá garðinn, pússa gólf, lakka gluggapósta ... nefnið það bara! Yfirbót fyrir sex ára vanrækslusyndir Crying.

Frá því við fluttum okkar aðal aðsetur vestur á Ísafjörð hefur gamla góða húsið okkar í Reykjavík setið á hakanum  og nú er kominn tími til að gera því eitthvað til góða.  

Annars virðast það vera álög á þessu húsi að það er sama hvaða málning er sett á það - alltaf verður hún bláleit eftir svolítinn tíma. Fyrir sjö árum máluðum við húsið rústrautt - tveim árum seinna var það orðið lillablátt.

Það var því með nokkurri staðfestu sem bóndi minn hélt í málningarbúðina að þessu sinni og kom heim með bros á vör og steingráa málningu, sagði hann. Nú skyldi sko settur almennilegur litur á útveggina - ekkert nærbuxnableikt takk fyrir!

Svo var hafist handa við að mála og fyrstu umferðinni komið á áður en fór að rigna. Ekki höfum við komist lengra að sinni - og ekki veit ég hvort það er rigningunni að kenna eða hvað - en húsið er EKKI steingrátt.  Það er fölblátt - eiginlega gráblátt - eins og þið sjáið ef þið kíkið á myndina hér fyrir ofan Errm en þar sjást bæði gamli liturinn og sá nýi.

Jæja, það gerir ekkert til - þetta er ágætis litur, þó hann sé svolítið kaldur. Aðal málið er að ná að klára þetta áður en maður þarf að þjóta vestur aftur.

Annars er heilmikil sálarró sem fylgir því að taka svona allt í gegn. Maður tekur einhvernvegin til í sálartetrinu um leið - verður bara eins og nýhreinsaður hundur. Og það er svo merkilegt að þegar maður er byrjaður er eins og allir smitist af þessu með manni. Börnin mín hafa öll tekið til hendinni (þau sem eru heima við) - flest óbeðin. Halo 

Já, húsið er að verða déskoti fínt. En það verður lítill tími til að njóta verkanna að þessu sinni - því við munum líklega rétt ná að klára sökkulinn á morgun, áður en við brunum af stað vestur.

Svo er bara að krossleggja fingur og vona að afkvæmin gangi vel um öll fínheitin þar til við komum í bæinn næst. Wink


Góð verslunarmannahelgi - flott unglingalandsmót á Höfn!

Jæja, þá erum við komin heim af unglingalandsmótinu á Höfn í Hornafirði, þar sem við eyddum helginni hjónin, með Hjörvari, yngsta syni okkar og Vésteini systursyni mínum.

 Frábært mót - vel skipulagt og skemmtilegt í fögru umhverfi og þokkalegasta veðri. Þangað mættum við á fimmtudagskvöld með tuttugu ára gamla tjaldvagninn okkar sem má nú muna sinn fífil fegurri en er alltaf jafn góður til síns brúks.

P1000216 (Small) Strákarnir kepptu í fótbolta - en við "gömlu" skelltum okkur á stórmót í Hornafjarðarmanna (sem ég hélt að ég kynni, en komst að raun um að er allt öðruvísi en ég hélt). Að vísu tókst ekki að setja heimsmet í fjölda þátttakenda, en það gerði ekkert til. Þetta var frábært framtak.

 Kvöldhimininn yfir Hornafirði á fimmtudagskvöldið var svo fagur að því lýsa engin orð. Öðrumegin sólarlagið og gulli sleginn jökullinn - hinumegin tungl í fyllingu - stafalogn og skyggður sjór. Það var engu líkt. Daginn eftir var komin svolítil súld, en annars var veður gott og góður andi yfir mótsgestum.

"Mínir" drengir tóku þriðja sætið í knattspyrnu 13 -14 ára fyrir HSV og mega vera stoltir af frammistöðu sinni. Stóðu sig frábærlega vel, börðust heiðarlega og sýndu fallega takta á köflum.

Það er ótrúlega gaman að sjá hvernig þessir guttar eru að þroskast og koma til sem efnilegir fótboltamenn - þó ungir séu að árum. Þeir hafa lifað og hrærst í fótbolta frá því þeir voru sex eða sjö ára gamlir. Ég man þegar þessi sami hópur keppti í fyrsta skipti á innanhússmóti fyrir svona eins og sex árum. Þá stóðu þeir varla út úr keppnistreyjunum. Hópurinn myndaði einhverskonar hnykil eða hnoðra sem barst um völlinn í sömu átt og boltinn. Á línunni skælbrosandi foreldrar sem sáu ekkert nema sitt eigið barn.

Mikið vatn er til sjávar runnið síðan þá. Nú spila þeir og leggja upp leikfléttur - á línunni er kröfuharður þjálfari sem heldur þeim við efnið - og foreldrar sem láta til sín heyra: Fagna óspart þegar skorað er, en um leið fljótir að hvetja og hugga þegar illa gengur, bera krem á auma vöðva og finna jákvæðu hliðarnar á hverjum leik, hver svo sem úrslit hafa orðið.

Smile

 Nú fer sumarleyfinu að ljúka svona hvað úr hverju. Ég ætla að vera nokkra daga í bænum að þrífa og laga eitt og annað í gamla húsinu okkar á Framnesveginum. Dugnaðarforkurinn hún Maddý dóttir mín og kærastinn hennar hann Eyþór voru þegar byrjuð áður en við komum. Búin að pússa upp eldhúsborðið og slípa trégólfið á loftherberginu, sem er nú eins og nýtt! Blessuð "börnin" Heart

Það verður í nógu að stússast næstu daga - og um að gera að nota þá vel áður en sumarleyfinu lýkur.

 P1000225 (Small)


Á ferð og flugi

Ég verð á ferð og flugi næstu daga - gaman, gaman (vonandi): Ungmennalandsmótið á Höfn er fyrst á dagskrá. Mæti þar til að styðja mína drengi (soninn og félag hans) í fótboltanum. Það er spáð rigningu og leiðindaveðri - en ég mæli um og legg svo á að það muni rætast úr veðrinu

 Wizard

Jæja, svo verða það nú nokkrir dagar í borginni, helgaðir húsþrifum, garðrækt og kannski utanhússmálun á Framnesveginum -- gamla góða húsinu okkar sem hefur verið afrækt síðustu ár, eftir að við fluttum vestur. Mesta furða hvað það þó er.

Smile

Og svo - hvað haldið þið? Auðvitað hundanámskeið á Gufuskálum með Björgunarhundasveit Íslands. Jebb - bara nóg að gera. Fæ vonandi að hitta stóru börnin mín öll á þessu flakki - og litla ömmudreng : )

En nú er það fundur með iðnaðarráðherra sem heiðrar Vestfirðinga með nærveru sinni í dag í tilefni af stofnun nýsköpunarmiðstöðvar sem kynnt verður á hádegisverðarfundi í Edinborgarhúsinu nú á eftir. Er að verða of sein - get ekki bloggað meira í bili.

Eigið góðan dag.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband