Kirkjukórskonan ... enginn veit sína ævina

 

kórsöngurEnginn veit sína ævina ... segir máltækið, og sannast á mér þessa daga.

Haldið ekki að ég sé komin í kirkjukór - að vísu bara sem íhlaupamanneskja þessa vikuna, svona rétt til þess að bjarga málum í fermingarmessunni sem framundan er í Suðureyrarkirkju á Hvítasunnudag. En það er sama - aldrei hélt ég að ég ætti eftir að taka mér stöðu í kirkjukór Suðureyrar í Súgandafirði. En þau voru í svolitlum vandræðum vegna mannfæðar - aðeins ein kona í altinni - og kórinn verður ekki nema svona 8-10 manns, svo ég sagði auðvitað já við erindinu. Og nú er eins gott að standa sig.

Það kom auðvitað í ljós á fyrstu æfingu að ég þekkti ekki nema helming sálmanna - og hef ekki sungið altröddina við nema einn. Ekki bætti úr skák að nóturnar eru með allt öðrum textum en þeim sem sungnir verða, þannig að ég er þessa dagana í hörðu textanámi til þess að geta fylgt nótunum í messunni (án þess að þurfa samtímis að finna texta neðar á blaðinu - en það er ekkert grín skal ég segja ykkur). Svo eru messusvörin - og þetta er svo metnaðarfullt fólk að það ætlar að sjálfsögðu að radda þau líka! Jamm ... ég hef nóg að gera í þessu fram að helgi.

Annars hefur sönglíf mitt verið óvenju fjörugt að undanförnu. Ég söng með á tónleikum Sunnukórsins á Ísafirði fyrir viku og svo með kvennakórnum Vestfirsku valkyrjunum á laugardaginn. Í síðara tilvikinu sungum við nokkur lög á samtónleikum með Árnesingakórnum sem haldnir voru í Ísafjarðarkirkju. Um kvöldið var samfagnaður þessara tveggja kóra yfir borðhaldi með miklum söng og skemmtilegheitum. Frábær kvöldstund - og skemmtilegt fólk þessi Árnesingakór.

Framundan er svo tveggja vikna tónleikaferð með Sunnukórnum til Svíþjóðar, Finnlands og Eistlands um miðjan júní. Munum m.a. syngja í hellakirkjunni í Helsinki. Það er mikið tilhlökkunarefni.

En næst á dagskrá er það semsagt fermingarmessan á Suðureyri á Hvítasunnudag. Er búin að læra Hvítasunnusálminn (Skín á himni skír og fagur...). Næst er það "Legg þú á djúpið ..." og röddunin við "Heilagur, heilagur" í messusvörunum. Úff!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Til hamingju með að vera komin í kirkjukórinn, það er ekki verri staður en hver annar.

Guðmundur Örn Jónsson, 23.5.2007 kl. 12:50

2 identicon

Til hamingju með stöðutáknið og vertu velkomin í hópinn.  Ég veit vel að þetta vefst ekki fyrir þér frekar en allt hitt sem þú ert að syngja þessa dagana.  Sjáumst á fimmtudaginn. 

Lilja Einarsdóttir (IP-tala skráð) 23.5.2007 kl. 13:46

3 Smámynd: Sigurlaug B. Gröndal

Til hamingju! Þetta er nefninlega ótrúlega gefandi og gaman. Hef sungið í kirkjukór frá 1989 og er nú formaður Kórs Þorlákskirkju. Að syngja í kirkjukór er töluvert öðruvísi en í venjulegum kór. Gangi þér vel með hátíðarsvörin hans Bjarna og sálmana. En þú gætir  ánetjast þessu, en það er hægt að ánetjast verri hlutum. Gleðilega hvítasunnuhelgi.

Sigurlaug B. Gröndal, 24.5.2007 kl. 10:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband