Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
Rógsmenn allir og umræðan
31.3.2007 | 12:45
Sjálf var ég alin upp við það sem barn að ekki væri rétt að setja út á fólk að því fjarstöddu. Það væri rógur, og að einungis huglaust fólk og illa innrætt beitti rógi. Rógur er aðför úr launsátri sagði faðir minn heitinn. Trúað gæti ég að fleiri Íslendingar hafi fengið viðlíka uppeldi.
Rógur er stjórnleysi - hann er siðvilla. Hver sá sem viðhefur róg eða hlustar á róg, hefur vikið frá réttlátum leikreglum. Þeir sem "hvísla" ærumeiðingar sínar í skjóli nafnleyndar að einhverjum æðra settum til þess að koma höggi á einstakling, hafa gerst sekir um tilraun til launvígs. Sá sem hlustar á róg, lætur hann viðgangast, jafnvel hafa áhrif á gerðir sínar er samsekur. Hann hefur þar með brotið mannréttindi þess sem um er rætt, brotið rétt viðkomandi til sjálfsvarnar. Þetta jafngilti ódæði á þrettándu öld - og einhvern veginn finnst manni að svo ætti að vera enn þann dag í dag. En þannig er það þó ekki.
Í íslenskum lögum er ekkert ákvæði um rógsmenn.
Íslensk stjórnsýslulög kveða á um málsmeðferð hins opinbera gagnvart þeim sem þurfa að sækja mál sitt til stjórnvalda, þ.m.t. andmælarétt, rannsóknarskyldu stjórnvalda og jafnræðisreglu. En í hinum almennu leikreglum sem gilda í reynd - þ.m.t. almennum hegningarlögum -- hafa rógberarnir frið til athafna. Yfir þeim vofir engin refsing eða krafa um að bera ábyrgð orða sinna.
Rógsmenn hafa fengið of mikið svigrúm í íslenskri umræðu. Við sjáum það á bloggsíðum netsins þar sem þeir vaða sumstaðar uppi í skjóli nafnleyndar. Við sjáum það jafnvel í opinberum málum sbr. bréfið fræga sem sent var dómendum í Baugsmálinu - og var tekið til umfjöllunar á opinberum vettvangi. Nafnlaus bréfritari sem bar ósannaðar sakir á dómendur og málsaðila varð stjarna um hríð. Ummæli hans urðu sérstakt umfjöllunarefni, einhverskonar liður í málflutningi. Ótrúlegt en satt.
Ég tel að þetta sé galli á íslenskri löggjöf - og um leið siðferðisbrestur í íslensku samfélagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stíflurof í stjórnmálunum?
29.3.2007 | 11:31
Hjörleifur Guttormsson á heiður skilið fyrir þann málflutning sem hann hefur haldið uppi í umhverfismálum að undanförnu.
Ég er líka ánægð með það að nú skuli vera komið fram nýtt framboð sem hefur náttúruvernd og umhverfismál á sinni stefnuskrá. Það er engin ástæða til þess að merkja þau mál vinstrinu, eins og verið hefur - og þó ég sé ekki liðsmaður þessa nýja flokks þá þekki ég fólkið sem er þar í forsvari og óska þeim velfarnaðar.
Það má kannski segja að með Íslandshreyfingunni hafi orðið nokkurskonar stíflurof í umhverfismálum á Íslandi - og það er ágætt. Það minnir mig á ljóðmæli sem ég setti á blað í haust þegar umræðan var hvað mest um Kárahnjúka og Draumaland Andra Snæs. Það er ekki úr vegi að deila því með ykkur.
Stíflurof
Við erum fólkið neðan við stífluna,
fólkið sem reisti hana
og vann af iðjusemi og natni
dag og nótt
svo hún hækkaði
já, og stækkaði
og var orðin stærsta stífla
sem um getur í sögunni -
hugmyndastíflan.
Þó vissum við lítið af henni
þar sem hún hvíldi í kyrrð
að fjallabaki hugans
fyrr en maðurinn kom
með bókina.
Hann barði á stífluvegginn
eitt snöggt
og þungt
högg
eins og þegar Sæmundur
bukkaði selinn
með Saltaranum forðum
og sá gamli sökk.
Stíflan brast.
Nú flæðir aurugt jökulvatn
milli skinns og hörunds
og harður straumur
byltist í brjóstinu.
Hjörleifur: Erum að kynnast kaupum umhverfisvænna ímynda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 26.3.2009 kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hitinn í umræðunni
27.3.2007 | 13:31
Ég hef ákveðið að takmarka aðgang að athugasemdum á bloggsíðunni minni um tíma. Ástæðan eru ómálefnaleg viðbrögð við bloggfærslu frá í gær um fréttafyrirsögn um Baugsmálið.
Meðan umræðan er að kólna geta einungis innskráðir bloggarar tjáð sig um bloggfærslur hér á síðunni. Ég áskil mér allan rétt til þess að fela færslur sem eru meiðandi eða óviðeigandi.
Annars hefur verið lærdómsríkt að fylgjast með atferli þeirra sem senda inn athugasemdir í þessu máli. Til dæmis sé ég í stjórnborðinu hjá mér að sami einstaklingur er að tjá sig um málið hér á síðunni undir ýmsum dulnefnum. Ég sé á orðfærinu að þessi sami einstaklingur hefur verið að senda mér óviðeigandi skilaboð á símann. Sjálfsagt er þetta ekkert einsdæmi þegar hitamál koma upp í umræðunni - fólk neytir allra bragða til að koma sínum málstað að. En svona óværa er auðvitað hvimleið, eins og hver annar lúsagangur.
Við vitum líka að yfirleitt gusast mest þar sem grynnst er undir. Nóg um það að sinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Dómar utan dómsala
26.3.2007 | 11:07
Ég get ekki orða bundist vegna fyrirsagnar á mbl.is um Baugsmálið í dag, svohljóðandi: "Sigurður Tómas: Framburður Jóns Ásgeirs ekki trúverðugur".
Nú er ég ekki ein af þeim sem hef mótað mér fasta skoðun á sekt eða sakleysi þeirra manna sem hafa verið sóttir til saka í Baugsmálinu - læt dómstólum það eftir. Málið er augljóslega viðamikið og flókið. Þess vegna blöskrar mér stundum umfjöllun fjölmiðla um þetta mál - einkum fyrirsagnir á borð við þessa hér, þar sem fullyrt er að framburður Jóns Ásgeirs sé ekki trúverðugur. Vissulega sér maður nafn saksóknarans ásamt tvípunkti framan við fullyrðinguna. En allir sem hafa unnið í blaðamennsku (ég þar á meðal) þekkja að uppsetning fyrirsagna hefur áhrif á lesendur. Þess vegna er framsetningu frétta og fyrirsagna oft ætlað að hafa skoðanamótandi áhrif.
Þessi fyrirsögn er skoðanamyndandi. Hún fjallar um nafnþekktan mann og trúverðugleika hans fyrir dómi - áður en dómur er fallinn. Nú er auðvitað ekkert launungarmál að Jón Ásgeir er ein aðalpersóna Baugsmálsins. En hann á að fá sanngjarna meðferð í fjölmiðlum ekkert síður en fyrir dómstólum.
Annars velti ég því fyrir mér hvað sé að verða um hlutleysisskyldu fréttamiðla - mér finnst hún vera á hröðu undanhaldi. Það er mjög miður - því ábyrgð fjölmiðla er mikil, ekki síst þegar æra manna og lífsafkoma er annars vegar.
Látum dómstólum eftir að dæma - það er ekki viðeigandi að reka mál á mörgum vígstöðvum samtímis.
Sigurður Tómas: Framburður Jóns Ásgeirs ekki trúverðugur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Komin heim með C-próf á hundinn!
23.3.2007 | 13:10
Jæja, ég er komin frá Kröflu, eftir vikudvöl við vetraræfingu björgunarhundasveitanna. Blíða tók C-prófið og stóð sig með prýði.
Þetta var aldeilis hreint frábær vika: 24 leitarteymi mættu til æfinga á Kröflu, fimm hundar voru endurmetnir sem A-hundar, einn tók nýtt A-próf, sjö hundar tóku B-próf og fjórir C-próf. Sem sagt sjö nýir hundar á útkallslista og fjórir unghundar með vottun um að vera efnilegir björgunarhundar, tilbúnir til frekari þjálfunar undir B-próf. Ekki amalegur árangur það fyrir björgunarhundasveitir landsins!
Við æfðum á fjórum leitarsvæðum. Veður var misjafnt, allt frá blíðskaparveðri yfir í hálfgert fárviðri. Merkilegt hvað hundarnir geta unnið í þreifandi byl og skafrenningi. Þessar blessuðu skepnur sem eru svo ótrúlega vel af guði gerðar.
Daginn sem við Blíða tókum C-prófið var skikkanlegt veður til að byrja með. Við leituðum óséð svæði og áttum að finna einn mann í snjóflóði. Um það bil sem við lögðum af stað skall á með skafrenningi, svo vart sá handa skil.
Hundurinn fór strax að þefa í kringum holu neðarlega á svæðinu þar sem áður hafði verið maður, en holan var tóm. Ég stóð nokkru ofar og sá ekki hvort holan var opin eða lokuð - en um mig fór sú óþægindatilfinning að ef einhver væri þarna þá væri hundurinn ekki að gefa það nógu sterklega til kynna. Þetta reyndust óþarfa áhyggjur, því seinna kom í ljós að þarna var enginn. Hundurinn fór af holunni og ég ákvað að ganga ofar í svæðið með vindáttina að okkur. Þá var það mín sem reisti sitt fallega höfuð með nefið hátt upp í vindinn, og þaut af stað í átt að snjóbarði þarna skammt frá. Þar tók hún til við að grafa af miklum móð, og linnti ekki látum fyrr en hún var komin inn fyrir - og maðurinn fundinn.
Mér hlýnaði um hjartað í orðsins fyllstu merkingu - því við þessar aðstæður verður maður að treysta hundinum fullkomlega, og það var góð tilfinning að sjá svo ekki var um að villast að hundurinn er fær um þetta verkefni. Það var því ánægður eigandi sem gekk af svæðinu með C-hundinn sinn!
Já, þetta var skemmtileg vika. Við kynntumst öllum veðrum. Vöknuðum kl. 7 á morgnana, fórum í morgunmat og vorum svo lögð af stað upp á leitarsvæði kl. 9. Þá var tekið til við að laga holurnar frá deginum áður eða moka nýjar og svo hófust æfingar og próf. Um fimmleytið var svo haldið af stað í búðirnar. Á kvöldin voru fyrirlestrar og erindi um ýmislegt sem tengist hundaþjálfun, snjóflóðaleit, félagabjörgun, hættumati o.fl. Mjög lærdómsríkt og skemmtilegt.
Inn á milli æfinga var slegið á létta strengi, sungið, hlegið og fíflast í snjónum, tjúttað við bílana ef gott lag kom í útvarpinu. Þetta er skemmtilegur hópur fólks á ýmsum aldri, flest allt þaulreynt björgunarsveitarfólk - frábært fólk.
Frá Ísafirði fóru þrjú leitarteymi. Auk mín og Blíðu voru það Auður Yngva (sem tók þarna réttindi sem leiðbeinandi í leitarþjálfun hunda) með Skímu sína (Border-Collie) og Ágúst Hrólfsson með Balta (Rottweiler). Skíma og Balti eru efnilegir og flottir unghundar sem bæði tóku C-próf með glans. Frá Patreksfirði komu Bríet Arnardóttir með Skutlu (sem tók A-próf), Þröstur Reynisson með Lassa (A-endurmat) og Smári Gestsson með Skyttu (en hún er of ung til að taka gráðu og varð því bara æfð að þessu sinni).
Kíkið endilega á heimasíðu Björgunarhundasveitarinnar á Vestfjörðum (www.simnet.is/bjorgunarhundar ) eða Björgunarhundasveitar Íslands (www.bhsi.is). Þar má ýmislegt lesa um starf sveitanna, þjálfun unghunda og fleira.
Það er ekki sjón að sjá mig eftir þetta ævintýri alltsaman - er með frunsu á nefinu og bauga undir augum - en alsæl, tilbúin að takast á við næstu verkefni :)
Hér koma svo nokkrar myndir: a) Auður og Ollý; b) Ég að moka holu; c) Blíða finnur mann í holu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Krafla
16.3.2007 | 08:43
En ástæðan er lögmæt - nú bregð ég mér í hlutverk hins vaska björgunarsveitarmanns, vippa mér með félögum mínum upp í björgunarsveitarbílinn á eftir, með minn leitarhund og svona .... og held upp á Mývatnsöræfin í 5 daga þjálfunarbúðir. .Sama gera félagar mínir úr öðrum björgunarhundasveitum víðsvegar að af landinu. Hundarnir (og eigendurnir líka að sjálfsögðu) verða æfðir í snjóflóðaleit undir stjórn færustu leiðbeinenda á landinu. Þetta verður meiriháttar. VIð munum halda til í vinnuskúrum við Kröflu.
Við erum sjö sem forum úr björgunarhundasveitinni á Vestfjörðum (www.simnet.is/bjorgunarhundar), tvær frá Ísafirði, einn úr Bolungarvík og fjórir frá Patreksfirði.
Vinir og vandamenn standa stóreygir yfir mér þessa dagana og spyrja hvað ég sé eiginlega búin að koma mér í. Er nema von - þetta er alveg ný stefna í lífi mínu, þetta leitarhundastúss og brölt um fjöll og firnindi, jökla og snjóbreiður í æfingaleiðöngrum ýmiskonar. En það er ótrúlega gaman, og bætir mér upp að hafa þurft að láta frá mér hrossin fyrir tveimur árum (eftir fjééritíu ára samfellda hestamennsku, segi og skrifa).
Þetta verður áreiðanlega krefjandi leiðangur - sjálfsagt erfiður - en ég er viss um að þetta verður bæði skemmtilegt og lærdómsríkt. Já, kannski bara eins og segir í vísunni góðu eftir Hjört Hjálmarsson:
Týndur fannst en fundinn hvarf
að fundnum týndur leita þarf,
týnist þá en fundinn fer
að finna þann sem týndur er!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Háskóli Vestfjarða er raunhæfur kostur
15.3.2007 | 10:38
Nú þrengir að í atvinnulífi og búsetuskilyrðum á Vestfjörðum og þarf þessi landshluti sárlega á auknu atgerfi og nýsköpun að halda. Í kjölfar ákalls frá sveitarstjórnarmönnum og íbúum á Vestfjörðum hefur forsætisráðherra skipað nefnd sem á að gera tillögur að styrkingu atvinnulífs á Vestfjörðum. Nefndin hefur þrjár vikur til stefnu að skila raunhæfum tillögum, svo nú er um að gera að vinna hratt og vel.
Sem íbúi á Vestfjörðum ein þeirra sem stóð að mörghundruð manna baráttufundi um framtíð byggðar á Vestfjörðum nú fyrir skömmu - vil ég ekki láta mitt eftir liggja að koma hugmyndum og rökstuðningi á framfæri við nefndina góðu. Ég skora á nefndarmenn að leggja til við forsætisráðherra að stofnaður verði háskóli á Ísafirði.
Hvernig háskóli?
Háskólinn á Ísafirði þyrfti að vera alhliða háskóli með kennslu á hug- og raunvísindasviði (þ.e. almennt háskólanám að BA og BSc prófi til að byrja með) sem fengi með tímanum að þróast yfir á sérsvið og framhaldsrannsóknir. Í því sambandi má nefna:
Umhverfis- og vistfræðirannsóknir þ.m.t. dýralíf (fuglar, refur, selur, hvalur, fiskistofnar), gróður, sjávarbúskapur, hafstraumar, loftslag, veður, snjóalög.
Fiskeldis- og veiðarfærarannsóknir.
Menningar- og félagsrannsóknir í tengslum við sögu svæðisins og búskaparskilyrði fyrr og nú (hvalveiðisaga Baska, galdrabrennur, Spánverjavíg, Ögurveldið gamla, vestfirsku skáldin, Vestfirðingasögur, o.fl., o. fl.)
Einnig mætti hugsa sér sérstaka tækni- eða verkmenntadeild innan háskólans, þá í samstarfi við fyrirtæki hér á staðnum (t.d. 3X-stál) og/eða framhaldsskólann um verklega þætti kennslunnar.
Fjöldi nemenda og starfsfólks
Reikna mætti með um 40-50 nemendum fyrsta árið (20 nýnemum af svæðinu og álíka mörgum annarsstaðar að af landinu). Þess vegna þyrfti fyrsta námsframboðið í Háskóla Vestfjarða að vera almennt grunnháskólanám.
Með tímanum myndi nemendum fjölga og upptökusvæðið stækka, ná jafnvel út fyrir landssteina vegna fjarkennslumöguleika. Að þremur til fimm árum liðnum mætti reikna með að nemendur losuðu hundraðið, en yrðu margfalt fleiri að tíu árum liðnum (300-500), ef vel tekst til.
Gera þyrfti ráð fyrir 10-15 stöðugildum við nýstofnaðan háskóla í fyrstu, en þeim þyrfti að fjölga á fyrstu 5-10 árunum í samræmi við fjölgun nemenda (25-40 störf).
Námsframboð og kennsluhættir
Kennsla gæti verið blanda af staðbundnu námi og fjarkennslu. Sú sem þetta skrifar en nú að gera tilraun með háskólafjarkennslu frá Ísafirði í samstarfi Stofnunar fræðasetra HÍ við Háskólasetur Vestfjarða og símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni. Kennt er í gegnum fjarkennslubúnað á Ísafirði til nemenda í Reykjavík, á Egilsstöðum, Höfn, Sauðárkróki, Skagaströnd, í Bolungarvík, á Þingeyri og Ísafirði. Kennslan gengur vel, nemendur virðast ánægðir, og því nokkuð ljóst að landsbyggðin getur allt eins verið veitandi í háskólakennslu eins og þiggjandi. Sama hátt mætti hafa á kennslu við Háskóla Vestfjarða (a.m.k. að hluta til).
Samstarf
Háskólinn á Ísafirði gæti verið í samstarfi við aðra háskóla og fræðastofnanir, t.a.m. fyrirhugað fræðasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík, Náttúrustofu Vestfjarða og Háskólasetur, svo fátt eitt sé nefnt. Með tímanum gæti þessi skóli verið í samstarfi við aðra háskóla í Evrópu möguleikar tækninnar eru orðnir þannig að landamæri eru ekki lengur farartálmar.
Fordæmi
Ýmis fordæmi eru fyrir stofnun háskóla og staðsetningu þeirra utan helstu þéttbýlissvæða í Evrópu, skóla sem hafa laðað að sér starfsemi og nemendur. Nægir að nefna háskólann í TromsØ í Noregi og SkØvde í Svíþjóð, svo einungis sé litið til Norðurlanda en fleiri dæmi mætti nefna víðar um Evrópu. Hér á landi höfum við uppörvandi fordæmi í skólum á borð við Bifröst, Háskólann að Hólum, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Háskólann á Akureyri, sem allir hafa sannað tilvist sína hver með sínum hætti.
Hvers vegna?
Tannhjól atvinnulífs og samfélags á Vestfjörðum þurfa tafarlausa innspýtingu núna, til þess að vélin geti afkastað því sem þarf svo byggð fái þrifist hér. Menn mega ekki hugsa þetta mál út frá því hvort nú þegar séu nógu margir á svæðinu til þess að vinna við og stýra háskóla. Þegar skólinn hefur verið stofnaður verður að sjálfsögðu auglýst eftir hæfu starfsfólki, og eðlilegt að reikna með því að það komi þá til staðarins, sé það ekki búandi hér fyrir.
Þegar Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður árið 1970 kom hingað vel menntað og duglegt fólk til þess að stýra þeim skóla og starfa við hann. Sama myndi gerast að þessu sinni, og víst er að þörfin er brýnni nú en oftast áður. Menn geta rétt ímyndað sér upplit þessa svæðis ef aldrei hefði komið hér menntaskóli.
Við núverandi aðstæður er stofnun háskóla á Ísafirði raunhæft úrræði. Það leysir ekki allan vanda eitt og sér, en yrði tvímælalaus lyftistöng og atgerfistilfærsla: Sú nærandi innspýting sem þetta landssvæði þarf svo sárlega á að halda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Dapur dagur
14.3.2007 | 15:02
Það er dapur dagur hér á Ísafirði í dag eftir sjóslysið sem varð í gærkvöldi. Þess vegna ætla ég ekki að blogga um dægurþrasið í dag. Læt nægja að birta þessa fallegu vetrarmynd sem er tekin ofan af Breiðadalsheiði fyrr í vetur. Í huganum flyt ég hljóðar bænir vegna þeirra sem nú eiga um sárt að binda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Leiðari Moggans í dag - ójöfnuður umræðunnar.
13.3.2007 | 12:22
Ég las leiðara Moggans í morgun, og fyrir eyrum mér ómaði rifhljóðið sem kemur í kvikmyndunum þegar alvarleg vonbrigði ríða yfir einhvern. Eftir gleðina sem fyllti mig þegar ég sá ítarlegar og góðar fréttir á forsíðu og í miðopnu blaðsins í gær um opinn baráttufund á Ísarfirði um framtíð byggðar á Vestfjörðum, var leiðarinn í morgun eins og blaut tuska í andlitið.
Þar segir:
Af frásögnum af fundinum að dæma var stjórnvöldum að flestu leyti kennt um og flestar þær hugmyndir og kröfur, sem viðraðar voru á fundinum, gengu út á aukin ríkisútgjöld eða ríkisafskipti af einu eða öðru tagi til að rétta hlut Vestfjarða.
Svo segir:
Nú stendur fyrir dyrum mikið átak í samgöngumálum á Vestfjörðum, sem mun stuðla að því að jafna stöðu þeirra miðað við aðra landshluta að þessu leyti, þótt því verki sé að sjálfsögðu fjarri því lokið.
Loks þetta:
Hitt er svo annað mál, að opinber störf munu aldrei verða undirstaða byggðar eða atvinnulífs í neinu landi eða landshluta. Lífvænleg byggðarlög byggjast á þróttmiklu atvinnulífi, sem einkaframtakið stendur undir.
Jæja, nú er tímabært að leggja orð í belg.
Í fyrsta lagi var fundurinn á Ísafirði ekki ákall um ríkisforsjá - hann var krafa um leiðréttingu.Auðlindir Vestfirðinga voru frá þeim teknar með einu pennastriki þegar núverandi kvótakerfi var komið á. Það var gert með stjórnvaldsákvörðun. Það þarf stjórnvaldsákvörðun til þess að leiðrétta það misrétti sem þessi landshluti hefur mátt búa við síðan.
Hverjir setja samfélagi okkar leikreglur - eru það ekki stjórnvöld? Eða eiga Vestfirðingar kannski að vera undanþegnir stjórnvaldsákvörðunum að mati leiðarahöfundar? Hverjir skapa skilyrðin fyrir atvinnuvegina og einkareksturinn? Eru þau skilyrði ekki sköpuð með lagasetningum og ákvörðunum stjórnvalda? Um hvað er leiðarahöfundur Morgunblaðsins eiginlega að tala?
Þegar því er haldið fram að nú standi fyrir dyrum"mikið átak í samgöngumálum á Vestfjörðum" vil ég benda á að það "mikla átak" hefur staðið fyrir dyrum í 44 ár - það var fyrst sett fram í byggðaáætlun árið 1963!
Í frábærri grein sem Kristinn H. Gunnarsson skrifar á bb.is í dag - og ég hvet alla til að lesa - eru raktar nokkrar staðreyndir um stærðargráður í þessu sambandi.
Kristinn bendir á að á sama tíma og stjórnvöld gera ráð fyrir 10 milljónum á ári í þrjú og hálft ár til Vestfirðinga setti Landsvirkjun milljarða króna í rannsóknir og undirbúning að virkjun við Kárahnjúka og að framkvæmdin ásamt álveri losar 200 milljarða króna. "Í Þingeyjarsýslum er verið að setja mikla peninga til þess að koma á fót álveri við Húsavík" segir Kristinn og bendir á að m.v. núverandi áætlanir vaxtasamnings Vestfjarða um fjárframlög ríkisins til atvinnumála á svæðinu tæki það ríkið eina öld að verja 1 milljarði króna til atvinnumála á Vestfjörðum, "það er að segja ef einhver trúir því að vaxtarsamningurinn verði framlengdur um 97 ár."
Ekki nóg með þetta. Kristinn - sem er stærðfræðingur - hefur reiknað það út að vaxtar-samningur í eina öld er samt ekki nema 0,5% af Austfjarðaátaki ríkisstjórnarinnar. Það myndi því taka 200 aldir með sama áframhaldi að ná "Kárahnjúkaumfangi" á Vestfjörðum.
Þetta er málið í hnotskurn - og verðugt íhugunarefni fyrir leiðarahöfund Morgunblaðsins sem og Íslendinga alla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.3.2007 kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Frábær stemning á fundinum - en stjórnarþingmanna var saknað
12.3.2007 | 11:31
Já, það var synd að enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins skyldi sjá sér fært að mæta til þessa frábæra borgarafundar sem við héldum á Ísafirði í gær. Að þeir skyldu ekki senda einhvern fulltrúa þingliðsins til fundarins, t.d. varaþingmann, til þess að bera fundinum kveðju og sýna á einhvern hátt að þeir vildu deila með okkur áhyggjum af stöðu mála. Ó, nei.
Þeir vöktu hrópandi athygli með fjarveru sinni - jafnvel reiði - og satt að segja held ég það sé verst fyrir þá sjálfa að hafa ekki sýnt þessu meiri umhyggju.
En það var ánægjulegt að sjá mætingu annarra þingmanna og rétt að geta þeirra sem komu (í stafrófsröð):
Anna Kristín Gunnarsdóttir, Guðjón Arnar Kristinsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhann Ársælsson, Jón Bjarnason og Kristinn H. Gunnarsson.
Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra var löglega forfallaður eins og þjóð veit, og bað fyrir kveðju á fundinn. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra lét vita af því að hann yrði staddur erlendis en hann myndi kynna sér umræður fundarins og ályktun. Sigurjón Þórðarson lét einnig vita af eðlilegum forföllum. Vestfirðingarnir Einar K. Guðfinnsson og Einar Oddur Kristjánsson svöruðu ekki fundarboði.
Jæja, en Vestfirðingar létu sig ekki vanta - húsið var troðfullt upp í rjáfur. Og hafi einhver verið í vafa um hug íbúanna og vilja þeirra í málefnum svæðisins, þarf ekki að velkjast í vafanum lengur. Þvílík rífandi stemning!
Margt var rætt og lagt til mála. Upp úr stóð að mínu viti þetta: Háskóli á Ísafjörð, tafarlausar samgöngubætur með jarðgöngum suður um, úrbætur í fjarskiptum og lækkun flutningskostnaðar. Þetta eru þau úrræði sem ganga þarf í strax! Það er jafn ljóst að nú láta íbúar sér ekki lengur lynda loðmulluloforð um eitthvað sem sé handan við hornið eða "á áætlun", kannski árið 2018. Neibb - nú vilja menn ekki fleiri orð, heldur efndir!
Á fundinum var samþykkt ályktun sem ég læt fylgja hér fyrir neðan. En fundurinn skoraði líka á nærstadda þingmenn að hittast strax og móta sameiginlegar tillögur um úrbætur í málefnum Vestfjarða. Var því vel tekið, og afráðið þarna á staðnum að boða þingmenn svæðisins til fundar kl. 13:00 í dag.
Guð láti gott á vita - það verður fylgst með því hvað út úr þessu kemur.
En hér kemur sumsé ályktun fundarins:
Opinn borgarafundur, haldinn í Hömrum á Ísafirði sunnudaginn 11. mars 2007, skorar á fulltrúa Vestfirðinga á alþingi og í sveitarstjórnum, hvar í flokki sem þeir standa, að taka höndum saman, leggja flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinast um þau brýnu úrlausnarefni sem við blasa í atvinnu- og byggðamálum hér á Vestfjörðum. Fundurinn krefst þess að stjórnvöld standi við marg- ítrekuð loforð og stefnumótun um uppbyggingu Ísafjarðar sem eins af þremur byggðakjörnum utan höfuðborgarsvæðisins. Ennfremur að þessu svæði verði settar sanngjarnar leikreglur með ákvörðunum um nauðsynlegar framkvæmdir í samgöngumálum, tilfærslu opinberra starfa og eðlilegt aðgengi að fjármagni. Mikið vantar á að þetta landsvæði njóti jafnræðis á við aðra landshluta varðandi samgöngur, fjarskipti, flutningskostnað, menntunarkosti og almenn skilyrði í atvinnulífi. Beinir fundurinn því til frambjóðenda stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi að mæta til kosningabaráttunnar nú í vor með haldbærar tillögur um framtíð byggðar á Vestfjörðum. Við köllum eftir samstöðu þings og þjóðar gagnvart þeim vanda sem Vestfirðingar standa nú frammi fyrir.
Stjórnvöld standi við margítrekuð loforð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)