Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
Baráttufundur í Hömrum kl. 14:00
10.3.2007 | 20:46
Það verður baráttufundur í Hömrum á Ísafirði í dag (sunnudag) kl. 14:00.
Vestfirskir borgarar munu þar eiga orðastað við sína fulltrúa á þingi og í sveitarstjórnum um stöðu mála hér fyrir vestan, búsetu- og atvinnuhorfur. Ég hef verið að tjá mig um þessi mál hér á bloggsíðunni og í blöðunu að undanförnu - og það sýður á mér enn. Sérstaklega þegar ég hugsa um öll loforðin sem gefin hafa verið þessum landshluta í aðdraganda kosninga, allan fagurgalann í byggðaáætlunum og vaxtasamningum - úff!
Ég segi bara eins og fleiri, það er tímabært að þjóðin og ráðamenn hennar geri það upp við sig hvort eigi að vera byggð í landinu eða ekki. Og ef það á að vera byggð - að gera þá það sem þarf til að hún fái þrifist.
Vona að það verði góð mæting - en veðurspáin er slæm þannig að það horfir ekkert sérlega vel með flug. Við sjáum hvað setur.
Lifi Vestfirðir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
9.3.2007 | 11:16
Ég kenni í brjóst um vesalings stúlkuna sem í sakleysi sínu stillti sér upp fyrir myndavélina með bros á vör og beygði sig eftir bangsanum - að fá svo yfir sig aðrar eins lýsingar og þær sem Guðbjörg Kolbeins hefur sett fram. Túlkun Guðbjargar á þessari tilteknu mynd - öllu heldur framsetning hennar á túlkun sinni - er allt of skefjalaus að mínu mati.
Hitt er svo staðreynd að það er rík tilhneiging til þess að hlutgera konur í auglýsingum, og sú tilhneiging er farin að teygja sig ansi langt niður eftir aldursskalanum. Við megum heldur ekki gleyma því. Ég get að vissu leyti tekið undir með þeim sem telja að stúlkan sé of fullorðinslega klædd fyrir þetta bangsaumhverfi - þá horfi ég kannski fyrst og fremst á netsokkabuxurnar og háu hælana, sem trúlega vekja ákveðin hugrenningatengsl hjá fólki.
En það er ekki sama hvernig hlutir eru sagðir. Hér á í hlut 14 eða 15 ára stúlka sem lét taka af sér mynd. Þeirri myndatöku var áreiðanlega stjórnað af fullorðnu fólki sem hún treystir væntanlega. Við skulum ekki gleyma því að ungar stúlkur vilja vera fullorðinslegar þegar þær eru komnar á fermingaraldur, og fermingin er ákveðin innganga í heim fullorðinna. Það var a.m.k. sagt hér áður fyrr að við fermingu kæmist maður "í fullorðinna manna tölu".
Það þarf ekki að vera neitt óeðliliegt þó myndin sýni einmitt fullorðinslega stúlku sem er samt barn: Skörun tveggja heima, barns og fullorðins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Vestfirðir lifi
8.3.2007 | 13:48
Tilefni fundarins eru þær blikur sem nú eru á lofti í atvinnumálum Vestfjarða í kjölfar gjaldþrots byggingafyrirtækisins Ágústs og Flosa, lokunar Marels á Ísafirði, uppsagna hjá Símanum og rannsóknaþjónustu Agars auk fregna af samdrætti og uppsögnum víðar að úr fjórðungnum á undanförnum mánuðum.
Nú er bara nóg komið það verður eitthvað að gera til að snúa þróuninni við. Þó ekki væri annað en að vekja ráðamenn til umhugsunar og íbúa svæðisins til sjálfsbjargar.
Sveitastjórnar- og þingmenn Vestfjarða eru sérstaklega hvattir til þess að mæta til fundarins og hlusta á raddir íbúanna og áhyggjur. Fundurinn er ákall til stjórnvalda og kjörinna fulltrúa Vestfjarða, hvar í flokki sem þeir standa, að taka höndum saman, leggja flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinast um þau brýnu úrlausnarefni sem við blasa í atvinnu- og byggðamálum hér á Vestfjörðum.
Það er löngu tímabært að Vestfirðir fái að sitja við sama borð og aðrir landshlutar varðandi almenn skilyrði í atvinnulífi, samgöngur (þ.m.t. flutningskostnað), fjarskipti, menntunarkosti, þekkingar- og þróunarmöguleika og fleira. Þetta landssvæði hefur lagt ríkulegan skerf til þjóðarbúsins og ætti að sjálfsögðu að standa jafnfætis öðrum landshlutum varðandi almenn búsetuskilyrði. Því fer þó fjarri og nú erum við að súpa seyðið af óhagstæðum samkeppnisskilyrðum.
Við erum ekki að kalla eftir ríkisforsjá eða einhverskonar ölmusu. Þvert á móti erum við einfaldlega að kalla eftir sanngjörnum leikreglum hugarfarsbreytingu jafnræði!
Jöfnuður felst ekki endilega í því að allir fái það sama, heldur að hver fái það sem honum ber og hann þarfnast! Því finnst mér vel koma til greina að veita nú Vestfjörðum tímabundinn forgang við ákvarðanatöku um framkvæmdir og fjárstreymi, þar til þessi landshluti stendur jafnfætis öðrum.
Að lokum þetta:
Um samgöngumálin er spjallað og spurt
sú speki nær fáa að laða,
greiðustu leiðirnar liggja í burt
og lakfært er milli staða.
Því er orðin þörf á dyggð
gegn þessu sem nefnt er að framan,
og víst er það að vestfirsk byggð
verður að standa saman!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvers vegna?
7.3.2007 | 17:12
Ég er af og til spurð hvers vegna ég vilji búa þarna fyrir vestan, eins og það er jafnan orðað. Spurningunni fylgir sami svipurinn og kemur á fólk þegar það talar um fjárstreymið til landsbyggðarinnar eins og nauðsynleg byggðaúrræði nefnast stundum einu nafni.
En sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir ýmsa erfiðleika sem dunið hafa yfir þetta landssvæði, þá er gott að búa hér. Og við sem hér viljum búa eigum ekki að þurfa að réttlæta þá ákvörðun okkar fyrir neinum. Við eigum einfaldlega að sitja við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að almennum búsetuskilyrðum. Við greiðum okkar skatta og skyldur, og landshlutinn í heild sinni er drjúg uppistaða þjóðartekna.
Það er því löngu tímabært að Vestfirðir fái að búa við samskonar samgöngur, fjarskipti, flutningskostnað, menntunarkosti og almenn skilyrði í atvinnulífi að hann sé samkeppnisfær. Til þess þarf ákvarðanir um framkvæmdir í samgöngumálum, tilfærslu verkefna á vegum hins opinbera, aðgengi að fjármagni og síðast en ekki síst sanngjarnar leikreglur!
Meira um það síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Með bronsið um hálsinn!
5.3.2007 | 13:23
Er komin heim af Bresa-mótinu í blaki sem fram fór á Akranesi um helgina - með brons um hálsinn! Jebb, hvorki meira né minna.
Þetta var aldeilis hreint frábær helgi. Við Skellurnar frá Ísafirði ókum suður á föstudaginn og skiptum okkur á tvo bíla. Það var leiðinda skafrenningur og þæfingur á Steingrímsfjarðarheiði, og minnstu munaði að þær í hinum bílnum lentu í óhappi efst á heiðinni. Þær óku fram á stóran flutningabíl sem var að hífa upp jeppa sem hafði farið út af (raunar þekki ég ökumann þess bíls, en hann hafði lent út af með a.m.k. eitt barn í bílnum - mildi að enginn slasaðist). Flutningabíllinn var ekki með hazardljósin á, og þar sem þarna var skafrenningur, kóf og lélegt skyggni, mátti engu skakka að þær færu bara beint á flutningabílinn. Þar skall hurð nærri hælum, og mátti ekki á milli sjá hvorum var meira brugðið, þeim eða flutningabílstjóranum. Þetta fór sem betur fór vel, en verður aldrei of oft brýnt fyrir þeim sem vinna á vegum úti að hafa merkingar og forvarnir í lagi - sömuleiðis fyrir ökumönnum að haga akstri eftir aðstæðum.
Jæja, við komumst heilar á húfi í sumarbústaðinn sem við fengum á Birfröst. Á laugardeginum var svo mætt til leiks á Akranesi þar sem konur á öllum aldri (og nokkur karlalið reyndar líka) kepptu af miklum móð. Þarna voru m.a. konur komnar á sjötugsaldur sem stóðu sig eins og hetjur, hreint út sagt. Þær sýndu og sönnuðu að það er ekki allt fengið með líkamlegri snerpu og ungdómi - þetta voru sannakallaðir reynsluboltar með staðsetningar og taktíkina alveg á hreinu. Flottar konur og frábærar fyrirmyndir. Ég hafði búið mig undir að vera mest á varamannabekknum - af því ég er byrjandinn í liðinu. En atvikin höguðu því þannig að ég lék tvo fyrstu leikina (við unnum annan en hinn var jafntefli) og hluta af þeim þriðja (sá leikur tapaðist). Loks kepptum við (ég á varamannabekknum að vísu) um bronsið í deildinni - og unnum. Ligga ligga lá!!
Það var frábært að leggjast svo í heita pottinn um kvöldið og horfa á tunglmyrkvann beint fyrir ofan okkur þar sem við létum fara vel um okkur með verðlaunapeninga um háls og ljúfar veigar við hönd. Enda var glatt á halla fram eftir þessari fallegu nóttu! Vonandi fæ ég einhverjar myndir frá ævintýrum helgarinnar til þess að setja á síðuna einhverntíma á næstu dögum.
Yngsti sonur minn, hann Hjörvar sem er 13 ára, fór líka á keppnismót um helgina - fótboltamót á Akureyri. Hann kom heim með tognaðan lærvöðva blessaður - en samt ánægður. Liðið hans lék fimm leiki, vann tvo leiki og gerði eitt jafntefli. Þegar við mæðgin tókum á okkur náðir í gærkvöldi lagðist hann í bólið sitt blessaður með klakapoka við lærið - vitandi betur en fyrr, að enginn verður óbarinn biskup.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)