Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
Áramótakveðja í bloggheima
31.12.2007 | 14:23
Jæja, þá er blessað árið að hníga til viðar - flugeldahríðarnar farnar að boða komu þess nýja.
Það eru ýmsar tilfinningar tengdar þessu ári sem nú er að líða. Flestar góðar, sem betur fer enda hefur margt skemmtilegt gerst á þessu ári - ferðalög, nýtt fólk, ný viðfangsefni og áhugamál. Bloggið er eitt af því nýja sem fyrir mig hefur borið á árinu, og eitt það skemmtilegasta. Eins og góð bloggvinkona skrifar um á sinni síðu í dag, þá hefur þessi vettvangur orðið mörgum dægradvöl og vinamynni. Það kom skemmtilega á óvart.
Völva vikunnar talar niðrandi um bloggið í áramótablaðinu að þessu sinni, segir þennan nýja vettvang hafa orðið þjóðinni "frekar til vansa"
Ég get ekki tekið undir það. Þvert á móti finnst mér bloggheimarnir hafa þroskast og tekið á sig mótaðri og yfirvegaðri mynd á þessu ári en áður var. Þetta er lifandi umræðuvettvangur - hér kemur fólk fram með skoðanir sínar og hugleiðingar sem yfirleitt eru settar fram á ábyrgan hátt, þó að stíllinn sé óformlegri en í hefðbundnum blaðagreinum. Vissulega eru til nokkrir einstaklingar sem kunna ekki að haga sér á þessum vettvangi frekar en annarsstaðar. Slíkir einstaklingar eru alltaf og allstaðar til staðar í einhverjum mæli. En það er þá undir hinum komið að láta hina æskilegu þróun halda áfram, þannig að umræðan þróist í farsælar áttir.
En, hér hefur maður kynnst skemmtilegu fólki sem setur fram skoðanir sínar umbúðalaust en af háttvísi og hugsun í bloggfærslum og athugasemdum. Hér hefur maður "mátað" kenningar sínar og skoðanir sem eru í mótun, fengið viðbrögð og góðar ábendingar. Það er allt til góðs.Bloggvinum og lesendum þakka ég fyrir árið sem er að líða - þið eruð öll orðin hluti af góðri minningu, og ég hlakka til nýja ársins með ykkur hér í bloggheimum.
Gleðilegt ár!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Það á ekki að leyfa flugeldasölu til almennings >:(
29.12.2007 | 14:57
Frá því ég fékk rakettuprikið í hausinn á Klambratúninu fyrir 35 árum, er mér illa við að vera úti þegar sprengingarnar byrja á gamlárskvöld. Líkamlega líður mér illa í þessum hávaða - ég verð eins og hundurinn, vil helst skríða í skjól. Og það sem ég ætla að segja núna er sjálfsagt ekki til vinsælda fallið. En ég segi það samt og mér er fúlasta alvara: Það á ekki að leyfa flugeldasölu til almennings. Og hananú.
Ég minnist þess alla ævi þegar kínverjinn sprakk við eyrað á stúlku sem stóð við hliðina á mér á gamlársdag fyrir mörgum árum. Ég var ellefu ára hún kannski fimmtán. Hún var að bera ölkassa inn í sjoppu, þegar kínverjanum var kastað að henni. Sársauki hennar og skelfing meðan verið var að koma henni undir læknishendur líður mér seint úr minni. Þessi stúlka missti heyrnina um aldur og ævi. Hún stóð við hliðina á mér þegar þetta gerðist - og það var hrein hending að hún varð fyrir þessu en ekki ég.
Síðan hef ég oft furðað mig á þeirri skefjalausu meðferð skotelda sem viðhöfð er hér á landi um hver einustu áramót. Að þetta skuli bara vera leyft. Til hvers er eiginlega verið að taka þessa áhættu? Til að skemmta auganu eina kvöldstund. Það er ekki áhættunnar virði, finnst mér. Til þess eru fórnirnar of miklar sem færðar hafa verið á undanförnum árum með skelfilegum slysum þar sem fólk hefur hlotið alvarleg örkuml, blindu og brunasár.
Eiginlega er þetta bara villimennska - og hún magnast ár frá ári. Fjölskyldufeður á nælonskyrtum, í misgóðu ástandi, börn og yfirspenntir unglingar, sameinast og sundrast inni í húsagörðum og á götum úti við að bera opinn eld að sprengiefni - án eftirlits, í hvaða veðri sem er. Og samfélagið virðist bara sammála um að þetta sé í lagi.
Svo fer eitthvað úrskeiðis (og það á hverju gamlárskvöldi), og einhver missir auga eða heyrn. "Æi, það var nú leiðinlegt. En þetta var auðvitað bara óhapp".
Mér finnst illt að björgunarsveitirnar skuli yfirleitt vera ofurseldar því að afla sér fjár með þessum hætti. Þær eiga bara að vera á íslensku fjárlögunum með veglega styrki. Síðan mættu þær gangast fyrir myndarlegum flugeldasýningum á gamlárskvöld - þar sem flugeldum er skotið upp undir ströngu eftirliti af kunnáttufólki almenningi til skemmtunar.
En að landið breytist í vígvöll þar sem hvínandi rakettur þjóta milli húsa og mannfólks sem er í misgóðu ástandi til þess að skjóta þeim upp (hvað þá forðast þá) - það á bara ekki að líðast.
Dægurmál | Breytt 30.12.2007 kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (56)
Hvert stefnir eiginlega?
28.12.2007 | 14:00
Ég ætlaði ekki að blogga um fréttir eða þjóðmál þessi jól. Ég ÆTLAÐI bara að vera friðsöm og södd og værukær. En svo fóru fjölmiðlar að hafa samband við mig og biðja mig að tjá mig um tíðindi líðandi árs - og áður en ég vissi af var ég farin hafa áhyggjur af veröldinni á nýjan leik.
Já, jörðin hætti svosem ekki að snúast þessi jólin. Nú er búið að myrða Benazir Bhutto og allt í upplausn í Pakistan. Maður má þakka fyrir að búa í friðsömu landi þar sem menn leggja það ekki í vana sinn að afgreiða pólitískan ágreining með blóðsúthellingum. En það er hryggilegt að heimurinn skuli ekki færast neitt nær friði - hversu mörg sem vítin verða sem varast ber.
"When will they ever learn?" Spurði Bob Dylan á sínum tíma - og sú spurning er enn brýn og áleitin sem fyrr. Ógnaráróður og tortryggni milli þjóða, heimshluta og menningarheima. Fjandskapur, ótti, stríðsátök, tilræði og hryðjuverk. Það er ekkert lát á.
Og hvernig horfir í umhverfismálum jarðarinnar? Úff!
Svo eru menn að tala um að kirkjan eigi ekki að hafa hlutverk í samfélaginu! Þegar stríð og ógnir eru nánast daglegt brauð í fréttum af heimsmálum - svo mjög að börnum er ekki óhætt að horfa á sjónvarpsfréttir. Þegar ótti og heift eru allsráðandi hvert sem litið er? Nei, ég held satt að segja að kristin kirkja hafi aldrei átt brýnna erindi en einmitt nú - segi það bara hreint út fyrir sjálfa mig.
Ég ætla að fá mér heitt súkkulaði og reyna að hugsa ekki um þetta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Gauksi í stuði
26.12.2007 | 02:22
Þegar maður hefur ekkert að skrifa um - er bara pakksaddur og alsæll á jólanótt eftir góða samveru með ættingjum og vinum - þá skellir maður bara inn einum léttum svona rétt fyrir svefninn. Þessi er reyndar ómótstæðilegur - og með taktinn á hreinu.
Páfagaukur í stuði - kíkið á þetta.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 02:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þrumugleði um jól
25.12.2007 | 02:29
Það var dásamlegt að heyra almættið þruma yfir höfuðborginni á sömu stundu og jólin gengu í garð. Kirkjuklukkurnar voru vart þagnaðar þegar elding lýsti upp himininn og mikilfengleg þruma fylgdi í kjölfarið. Og svo eins og verið væri að steypa hagli úr fötu.´
Við þessa óvæntu jólakveðju komst ég í alveg sérstakt hátíðarskap. Mér varð litið á fjölskylduna mína við veisluborðið - við vorum nýsest þegar þetta dundi yfir - og á einhvern óútskýranlegan hátt fannst mér eins og Drottinn sjálfur hefði sest að borðinu með okkur. Ég get ekki útskýrt það nánar. En hjarta mitt fylltist þakklæti og gleði - mér finnst ég hafa svo óendanlega margt að þakka fyrir.
Þetta var gott aðfangadagskvöld. Það var yndislegt að hafa næstum því alla fjölskylduna hjá sér - og hina innan seilingar sem ekki sátu með okkur til borðs. Vita af öllum ástvinum einhversstaðar í góðu yfirlæti.
Eftir matinn fórum við mæðgurnar (ég, Saga og Maddý) í miðnæturmessu í Hallgrímskirkju. Það var falleg messa. Sérstaklega var ég glöð yfir því að kirkjugestir skyldu hvattir til þess að taka virkan þátt í söngnum. Það var augljóslega vel þegið, og kirkjan ómaði öll. Hátíðleg og yndisleg stund.
Eftir messu dró ég Sigga svo með mér í göngutúr með hundinn í tunglsljósinu, enda brostin á blíða með stjörnubliki og silfruðum sjávaröldum. Afar falleg jólanótt.
Jólanótt
Norðurljósa litatraf
liðast hægt um myrkrahvel,
lýsir himinn, land og haf,
litkar hjarn og frosinn mel.
Rauðbleik merlar mánasigð
á myrkum sæ um þögla nótt.
Langt í fjarska bjarmar byggð
- borgarljósin tindra rótt.
En yfir raflýst borgarból
- á bak við heimsins ljósadýrð -
ber sín helgu boð um jól
björt en þögul nætursól,
við skörðum mána skín í kyrrð
skærum loga úr órafirrð
er lúnum mönnum lýsti þrem
langan veg til Betlehem.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Óvænt næðisstund á aðfangadegi
24.12.2007 | 16:24
Óvænt næðisstund á aðfangadegi: Hamborgarahryggurinn soðinn, ísinn tilbúinn, fiskhringurinn og Rice crispies tertan. Búið að leggja á borðið - allir búnir jólabaði, og stóru börnin í jólapakkaleiðangri. Eiginlega er maður bara að bíða eftir jólunum
Og þá - alltíeinu - langaði mig til að blogga. Bara eitthvað pínulítið.
Já, bloggið er orðinn svo snar þáttur í daglegu lífi, að meira að segja á aðfangadag finnst manni maður eiga eitthvað ógert ef ekki er komin inn bara svolítil bloggfærsla.
Jæja, hér er hún komin - og þá get ég haldið áfram jólastússinu. Ég læt fljóta með svolitla vísu sem varð til hjá mér fyrir nokkrum árum.
- Minningin er mild og tær
- merla stjörnuljósin
- í barnsins auga blíð og skær
- blikar jólarósin.
Svo vona ég að allir njóti nú jólanna virkilega vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Gleðileg jól!
22.12.2007 | 12:57
Kæru bloggvinir og lesendur nær og fjær.
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári - og þakka fyrir góð og gefandi kynni á árinu sem er að líða.
Bloggið er ný vídd í mínu lífi, sem hefur reynst mér gjöfult og hvetjandi. Hér hef ég eignast nýja vini, kynnst skemmtilegu fólki, fengið góðar kveðjur og skemmtileg skoðanaskipti.
Fyrir allt þetta þakka ég nú af heilum hug og vona að ég hitti ykkur öll fyrir heil og endurnærð, hér á sama vettvangi á nýju ári.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Frjósemisdansinn um jólatréð
21.12.2007 | 14:04
Mynd hinnar heilögu guðsmóður með jesúbarnið í fangi er órjúfanlegur hluti jólanna í hugum kristinna manna. Um hana hafa verið sungnir sálmar og lofsöngvar um aldir. Í forkristnum trúarbrögðum sem sum hver tíðkast enn, til dæmis í Afríku og á Indlandi, er það þó önnur móðir sem tignuð er í tilefni af hækkandi sól. Það er móðir jörð.
Þó að fæstir átti sig á því, má vart á milli sjá hvor er meira áberandi í jólahaldi okkar nútímamanna, María mey eða móðir jörð. Tákn þeirrar fyrrnefndu blasir við í trúarlegum skreytingum, tákn þeirrar síðarnefndu breiðir út ilmandi arma inni á heimilum landsmanna um hver einustu jól - það er nefnilega jólatréð.
Jólin marka komu nýrrar tíðar, þau eru endaskeið skammdegisins, boðberar um bjartari og lengri daga. Er því vel við hæfi að kalla þau hátíð ljóssins". Þessi tímamót, sem norrænir menn nefna jól" (yule á ensku) hafa verið haldin hátíðleg frá því í árdaga, löngu áður en kristnir menn gerðu þau að fæðingarhátíð frelsara síns. Þess vegna er margt í jólahaldi okkar sem á rætur að rekja til ævafornra trúarbragða og frjósemissiða. Á það ekki síst við um þá venju að skreyta jólatré og dansa í kringum það.
Kona verður tré
Í fornum arfsögnum eru þess ýmis dæmi að manneskjur ummyndast í tré. Af einhverjum ástæðum á þetta einkum við um konur. Ein þeirra var veiðigyðjan Daphne, dóttir vatnaguðsins Nereusar, sem var sonur jarðargyðjunnar Gæju. Daphne heillaði guðinn Appolló svo mjög að hann varð frávita af ást til hennar. En hún vildi ekki þýðast fegurðar- og skáldskaparguðinn og lagði á flótta. Hann elti að sjálfsögðu og gekk svo hart fram að um síðir leitaði hún á náðir föður síns og bað hann að afmá kvenleika sinn og fegurð.
Nereus breytti henni í lárviðartré. Hár hennar varð að laufskrúði, armar hennar að greinum og húðin að trjáberki. Fæturnir urðu rætur. En Appolló var í álögum ástarinnar og þrá hans dvínaði ekki við þessi umskipti. Hann féll að trénu, faðmaði stofn þess og kyssti laufgreinarnar.
Í norrænni goðafræði höfum við hliðstæðu þessarar sögu. Þar er sagt frá Iðunni sem gætti yngingareplanna. Eitt afbrigði goðsögunnar greinir svo frá að Iðunn hafi haldið til í laufkrónu Yggdrasils en fallið þaðan niður í Niflheim. Maður hennar, skáldskaparguðinn Bragi, unni henni svo mjög að þegar hann fann hana í undirheimum ákvað hann að verða eftir hjá henni. Á meðan Bragi beið með Iðunni í myrkri og kulda Niflheims hljóðnaði söngur hans, og ekki þarf að taka fram að æsir tóku að hrörna og eldast, þegar þeir nutu ekki lengur eplanna. Hér má líta svo á að dvali Iðunnar og þögn Braga tákni vetrarsvefn náttúrunnar. Á meðan gyðjan er fjarverandi ómar enginn söngur, hvorki fugla né fallvatna og náttúran verður hrum" líkt og hin öldnu goð.
Í báðum sögum eru hin kvenlegu mögn undirstaða lífs og gróandi. Það eru skáldskaparguðir sem leita gyðjanna og báðar renna þær saman við tré. Báðar sjá þær fyrir fæðu, Daphne er veiðigyðja en Iðunn gætir eplanna sem viðhalda æsku og þrótti guðanna. Þannig hafa þær í hendi sér frumskilyrði vaxtar og viðgangs, þær eru uppspretta lífsorku og þar með tákn eða fulltrúar móður jarðar.
Fornir frjósemissiðir
Tré hafa frá fornu fari verið einkennandi í sköpunar- og goðsögum þjóða. Hér nægir að nefna ask Yggdrasils í norrænni goðafræði og skilningstré góðs og ills í kristnum fræðum. Að sama skapi gegna tré víða veigamiklu hlutverki í frjósemis- og helgisiðum margra trúarbragða. Á Indlandi tíðkast að brenna tré í ársbyrjun og marka þar með endalok og nýtt upphaf. Sambærilegur siður eru áramótabrennur norrænna þjóða.
Samkvæmt fornu tímatali voru áramótin í marsmánuði og víða mörkuðu þau því einnig vorkomuna. Þess vegna eru sumir siðir sem tengjast vorinu og sáningunni keimlíkir jóla- og áramótasiðum. Sem dæmi má nefna þá venju að höggva tré, skreyta það og stilla því miðsvæðis þar sem fólk getur dansað umhverfis það. Í sveitum Englands hefur það verið all útbreiddur siður að fagna sumri með því að skreyta hús með greinum. Maístöngin eða blómastöngin sem sett er upp miðsumars í Svíþjóð hefur svipað tákngildi og jólatréð; Jónsmessubrennan er sambærileg áramótabrennunni. Hugmyndaþræði þessara athafna má rekja til jarðardýrkunar.
Á forsögulegum tíma greina goðsögur svo frá að jarðargyðjan hafi frjóvgast af samræði við sólarguðinn. Mannkynið er ávöxtur þessarar frjóvgunar, en jörðin móðir alls þess sem grær og lifir. Af henni fæðist allt, á henni nærist allt og til hennar hverfur allt. Af tignun jarðarinnar hafa skapast fjölmargir siðir og venjur einkum tengd fæðingum og frjósemi kvenna, sáningar- og uppskerutíma jarðyrkjunnar eða greftrunarsiðum og lækningum. Þess eru jafnvel dæmi meðal ættbálka í Afríku að ekki megi yrkja jörðina til þess að særa hana ekki í bókstaflegum og yfirfærðum skilningi. Í Úganda þykir heillavænlegt fyrir uppskeruna að það sé þunguð kona sem sái í akurinn. Enn í dag þekkjast frjósemissiðir á borð við þann að ung hjón hafi sínar fyrstu samfarir í nýju plógfari og á það ýmist að tryggja frjósemi jarðar og góða uppskeru eða frjósemi hjónanna og barnalán í framtíðinni.
Flestir þeir helgisiðir sem tengjast komu ljóss og vors eru því frjósemissiðir framdir til heilla samfélaginu með tignun jarðarinnar. Helgiathafnir þessar geta tekið á sig ýmsar myndir. Stundum er um að ræða ærslafullar orgíur sem eiga að storka máttarvöldunum og örva þau til þess að veita ríkulega af regni og sól. Um leið er verið að fremja táknrænan líkingargaldur þar sem kynlífinu er ætlað að hleypa af stað heilögum endurnýjunarkrafti lífsins.
Dönsum við í kringum ..."
Frumkrafturinn sem þessum siðum er ætlað að laða fram tilheyrir hvarvetna hinni miklu móður" sem gengur undir ýmsum nöfnum meðal ólíkra samfélaga. Við helgiathafnir af þessu tagi er jarðargyðjan hlut- eða persónugerð á einhvern hátt. Stundum er manneskja hulin stráum eða laufi og hún ávörpuð með nafni gyðjunnar. Einnig er til í dæminu að gerðar séu eftirmyndir úr hálmi, greinum eða heyi. Í Svíþjóð var ungum stúlkum ætlað að dansa við slíkar hálmbrúður fyrr á tíð meðan sáning stóð yfir.
Ein skýrasta hliðstæðan sem við höfum um tengsl frjósemis- og jólasiða er forn shamanísk sögn um það hvernig ættbálkur einn endurheimti þrótt og lífsorku með svokölluðum sólardansi. Þann dans átti að fremja með tiltekinni viðhöfn og umbúnaði sem ekki mátti bregða út af. Lykilatriði þessarar athafnar var hið helga tré". Það var valið í skóginum af mikilli kostgæfni, höggvið af sérstakri varúð og helgað með vel völdum orðum og athöfnum. Loks var það sett niður miðsvæðis fyrir sjálfa athöfnina. Hún fór fram með söngvum og dansi á vígðum reit við angan af reykelsi og friðarpípum og með áköllum til móður jarðar. Fólkið gekk að trénu og hengdi litlar gjafir á greinar þess en tók svo til við að dansa mót höfuðáttunum fjórum, þ.e. hringinn í kringum tréð.
Hið helga tré"
Í nútímasamfélögum má finna margvíslega hjátrú sem tengist trénu. Flestir þekkja þann sið að snerta tré eða banka í það og þylja sjö-níu-þrettán" til að storka ekki forsjóninni með óvarlegu tali. Hefur þessi siður jafnvel verið skýrður með tilvísan til kross Krists; að snerting við tréð sé ígildi þess að snerta krossinn sjálfan og feli þannig í sér bæn til Guðs. Önnur skýring á uppruna þessa siðar er sú að með því að snerta tréð sé verið að koma illum öflum fyrir inni í trénu. Sú skýring byggir á ævafornri og útbreiddri þjóðtrú sem víða er enn við lýði í heiðnum sértrúariðkunum og wicca-göldrum. Eru þess þekkt dæmi að sjúklingum sé komið fyrir inni í holum trjábol eða gilskorningi til þess að hreinsa þá af sjúkleika eða illum öndum. Í sama tilgangi er fólk grafið í jörð, nýfædd börn lögð á grasið eða sængurkona látin stíga á torfu, svo nefndir séu fáeinir siðir tengdir jarðartignun.
Í ljósi þessa má segja að krossins helga tré" hafi yfir sér dýpri margræðni en margan grunar sem einungis hefur lesið biblíusögurnar í æsku. Sú margræðni hefur lítið að segja í hugum kristinna manna sem tigna táknið, fyrst og fremst vegna þjáningargöngu Krists og upprisu. En jafnvel í kristnum trúarbrögðum hefur um aldir þrifist margvíslegt helgikukl tengt helgum gripum, ekki síst krossinum sjálfum. Sú iðja hefur verið iðkuð af lærðum og leikum í gegnum tíðina og á vitanlega rætur að rekja til forkristinna hugmynda sem við sjáum í svokölluðum frumstæðum" trúarbrögðum.
Það gildir því um hið helga tré líkt og jólahaldið sjálft, mestu fagnaðarhátíð kristinna manna, að hinir upphaflegu hugmyndaþræðir liggja langt aftur fyrir kristið tímatal; allt aftur til fornra frjósemistrúarbragða sem byggðu á frumstæðustu hugmyndum mannsins um líf og dauða, árvissa upprisu náttúrunnar og endurlífgun jarðar. Þannig hafa siðirnir lifað af trúskipti og nýja hugmyndastrauma um aldir þótt flestir hafi gleymt uppruna þeirra.
Enn um hríð munu kristnir menn því stíga frjósemisdansinn í kringum jólatréð, staðgengil hinnar miklu móður, en lofsyngja föðurinn í upphæðum fyrir fæðingu frelsarans.
Heimildir:
Ásgeir Blöndal Magnússon, 1989: Íslensk orðsifjabók. Reykjavík.
Eliade, Mircea, 1965: Patterns in Comparative Religion. London.
Gunnar Dal, 1997: Í dag varð ég kona. Reykjavík.
Eddukvæði (Ólafur Briem annaðist útgáfuna), 1968. Reykjavík.
Ólína Þorvarðardóttir, 2001: Brennuöldin. Galdur og galdratrú í málskjölum og munnmælum. Reykjavík.
Ringgren, Helmar & Ström, Åke, V, 1954: Religionerna i historia och nutid.
Símon Jón Jóhannsson 1993: Sjö, níu, þrettán. Reykjavík.
Snorra Edda (Árni Björnsson bjó til útgáfu) 1975. Reykjavík.
Og svo er það jólaskapið ...
20.12.2007 | 22:25
Það sem í mínum huga einkennir jafnan jólin er eftirvæntingin sem fylgir þeim -- og það hvernig barnið í mér nær einatt að brjótast fram í aðdraganda jólanna. Mín eigin börn hafa ýtt undir þessar tilfinningar hjá mér, því á einhvern hátt samlagast ég tilhlökkun þeirra á þessum tíma.
En fyrir utan ilm af rjúpu, grenilykt, jólabakstur og jólalög þá man ég líka annan ilm og önnur hljóð -- nefnilega lyktina í hesthúsunum og ánægjukumrið við heystallinn. Á þessum árstíma vorum við vön að taka hrossin úr vetrarhaganum. Það var alltaf tilhlökkunarefni að hitta aftur þessa vini sína þegar þeir voru komnir í vetrarhárin, síðfextir, úfnir og jafnvel fannbarðir -- og finna fyrir þögulli vellíðan þeirra þegar þeir voru aftur komnir á stallinn sinn með hey í jötu og yl af öðrum hestum. Einhvernveginn komst ég aldrei í almennilegt jólaskap fyrr en hestarnir voru komnir á hús.
Nú þarf ég að tala í þátíð, því hestarnir eru ekki hluti af daglegu lífi mínu lengur - ég lét þá frá mér fyrir þremur árum (eftir fjértíu ára samfellda hestamennsku, segi og skrifa). Minningin um lyktina af þeim, lágvær hljóðin og nálægðina fyrnist seint.
Já - og svo fæst rjúpan ekki lengur, þannig að rjúpuilmurinn er líka horfinn úr lífi mínu Hvað er þá eftir? Minning - minning um hefðir. Er það ekki einmitt dæmigert fyrir jólin - þau eru ein stór nostalgía.
En eitt er það sem ekki breytist og það er himininn yfir höfðum okkar - svo fremi maður sjái hann fyrir skýjum Og mér finnst mikilvægt að sjá heiðan stjörnuhimin um jólaleytið.
Mikilvægast er þó að vera með fólkinu sínu - og AÐ ÞESSU SINNI ætlum við Siggi suður til barnanna í stað þess að fá allan hópinn til okkar. Leggjum í hann seinnipartinn á morgun með troðfullan bíl af gjöfum, jólaskrauti, bakkelsi, mat og ég veit ekki hverju. Bíllinn er svo troðinn að Hjörvar blessaður verður sendur á undan með flugi.
Bara að það verði nú ferðaveður og allt gangi upp ... ætli jólaskapið velti nú ekki svolítið á því þessu jólin.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Valkyrjutónleikar og vandræðalegur textasmiður
20.12.2007 | 00:14
Jæja, nú fengum við - ég og Bjarney Ingibjörg, kórstjórinn minn - nóg af textanum "Við óskum þér góðra jóla" (We Wish You a Merry Christmas) og öllu talinu um graut og fleira í því annars ágæta kvæði. Svo nú bað hún mig að setja saman eitthvað hátíðlegra til að flytja við þetta lag á jólatónleikum kvennakórsins. Ég er að tala um kvennakórinn Vestfirsku valkyrjurnar, tveggja ára gamlan kór sem ég syng með.
Þetta gerði ég samviskusamlega.
Svo sungum við þetta fullum hálsi á jólatónleikum Valkyrjanna í Ísafjarðarkirkju síðastliðið mánudagskvöld, hátíðlegar á svip. Fólkið klappaði. Bjarney Ingibjörg hneigði sig kurteislega fyrir okkar hönd. Allt eðlilegt.
Þar til hún fór að veifa og banda með höndunum upp í kórinn. Við litum hver á aðra í öftustu röðinni - - áttum við að veifa á móti? Hvað var að gerast? Ég leit í kringum mig - stíf eins og stólpi á mínum stað (djúp alt stendur að sjálfsögðu í báða fætur aftast og lætur ekki haggast).
Jæja, áfram veifar Bjarney Ingibjörg, og nú var mér hætt að lítast á hana. Fór að hugsa hvort hana vantaði kórmöppu - eða hvort hún hefði týnt einhverju.
Þá finn ég að einhver potar í mig. Og allt í einu eru þær allar farnar að veifa og benda mér. Þá rennur það upp fyrir mér, seint og um síðir, að ég á semsagt að koma niður til hennar - og hneigja mig. Auðvitað var ég búin að steingleyma því að ég ætti þennan texta og að þetta teldist frumflutningur á honum.
Jæja, ég mismunaði mér niður í gegnum kórraðirnar og tók við klappinu - að mér fannst óverðskuldað - en hvað um það. Textinn hafði verið sunginn - og þó ég hafi aldrei lært hann almennilega þá var þetta nú minn texti og svona. Hann lætur svosem ekki mikið yfir sér - en hljómar svosem ekki illa þegar hann er sunginn (þó eiginlega sé ekki einsýnt um bragreglurnar í þessu - en það verður bara að hafa það).
Og hér kemur hann:
:: Nú gleðileg jólahátíð :: Nú gleðileg jólahátíð er gengin í garð.
Í kærleika'og frið við kertaljósið
með krásir á borðum svo glöð erum erum við.
:: Nú gleðileg jólahátíð :: ...
Við klukknanna róm og klingjandi óm
til kirkjunnar höldum í söngvanna hljóm.
:: Nú gleðileg jólahátíð :: ...
Svo friðsæl við völd - er fegurð í kvöld
við hugfangin störum á stjarnanna fjöld.
:: Nú gleðileg jólahátíð :: Nú gleðileg jólahátíð er gengin í garð.
Jamm, þannig er nú það. Annars held ég að tónleikarnir okkar Valkyrjanna hafi bara tekist bærilega þarna á mánudagskvöldið. Ég hef að vísu verið hnerrandi með hálsbólgu síðan -- en hvað er það hjá vel heppnuðum tónleikum?
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 00:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)