Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Dejlige Danmark - nu kommer vi!

Jæja, við Saga dóttir mín erum að leggja í hann til Danmerkur. Ætlum að heimsækja aðra dóttur mína hana Maddýju sem þar býr og stundar arkitektanám í Árósum. Næstu fimm dagar verða svona mæðgnadagar, spjall, leti, skoðunarrölt um Árósa og kannski svolítil jólaverslun í leiðinni.

 Við verðum sjálfsagt ekki komnar til hennar fyrr en seint í kvöld. En þá er bara að reyna að njóta ferðarinnar, fá sér glas af jólabjór í flugvélinni, lesa eitthvað skemmtilegt - kíkja í fríhafnarbúðirnar og svona.Wink

Eins og segir á einhverri flugleiðaservéttunni: "It's the journey - not the destination". Kannski ég bloggi eitthvað frá Danmörku - við sjáum til. Smile

 

Annars fékk ég fyrr í vikunni skemmtilega sendingu frá vinkonu minni. Heimspeki frá höfundi teiknimyndaseríunnar Peanuts, Charles Schultz.  Læt hana fljóta með hér að gamni - þetta er nefnilega góð speki.

 

Shultz varpar fram fimm spurningum til umhugsunar:

 

 

1. Nefndu fimm auðugustu einstaklingana í heiminum.

2. Nefndu fimm síðustu sigurvegara í fegurðarsamkeppni Evrópu.

3. Nefndu tíu einstaklinga, sem hafa unnið Nobels verðlaunin.

4. Nefndu sex leikara og leikkonur, sem unnu Óskars verðlaunin á  síðasta
ári.


Hvernig gekk þér?


Niðurstaðan er, að enginn okkar man fyrirsagnir gærdagsins. Þetta eru ekki annars flokks afreksmenn. Þeir eru þeir bestu á sínu sviði.  En klappið deyr út. Verðlaunin missa ljómann. Afrekin eru gleymd. Viðurkenningarnar og skírteinin eru grafin með eigendum sínum.


Hér eru nokkrar aðrar spurningar. Sjáðu hvernig þér gengur með þær:

1. Skrifaðu nöfnin á fimm kennurum sem hjálpuðu þér á þinni skólagöngu.

2. Nefndu þrjá vini, sem hafa hjálpað þér á erfiðum stundum.

3. Nefndu fimm einstaklinga, sem hafa kennt þér eitthvað mikilvægt.

4. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem kunnu að meta þig að verðleikum.

5. Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem þér þykir gott að umgangast.



Auðveldara?Lexían: Fólkið sem skiptir þig mestu máli í lífinu eru ekki þeir, sem hafa
bestu meðmælabréfin, mestu peningana eða flestu verðlaunin. Heldur þeir, sem finnst þú skipta mestu máli.


Sendu þetta áfram til þeirra einstaklinga, sem hafa haft jákvæð áhrif á líf
þitt.


Hafðu ekki áhyggjur af því, að heimurinn sé að farast í dag. Það er nú þegar
morgun í Ástralíu. (Charles Schultz)

 


Þetta veður er sko ekkert grín

Já, við biðum dágóða stund í fárviðrinu undir Hafnarfjalli meðan verið var að fjarlægja bílinn sem fauk út af. Það var bókstaflega brjálað veður í hviðunum. Ég hélt svei mér þá að bíllinn okkar tækist á loft - hélt það hvað eftir annað.

Bílarnir sem biðu sneru allir þversum (upp í vindinn) til þess að standa af sér hviðurnar - en það var verulega óþægilegt að sjá þá bifast undan vindinum þegar verst lét.

 

Jæja, allt fór þetta vel - og ég er fegin að vera komin heim til mín á Framnesveginn. Segi það satt. Vona bara að ökumaðurinn í bílnum sem fauk út af jafni sig fljótt. 


mbl.is Bíll fauk út af undir Hafnarfjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pabbahornið - má ég þá ekki tylla mér?

Af hverju er þetta eyrnamerkt fyrir "pabbana"?? Ég skil ekki. Mega mömmurnar þá ekki tylla sér þarna? Ég hefði nú einhverntíma þegið það að geta tyllt mér niður í þægilegan stól fyrir framan sjónvarp  - jafnvel enska boltann - á meðan ég biði eftir bónda mínum ljúka sínum erindum.

 Svona hvíldarhorn er góð hugmynd - en að ætla það karlmönnum sérstklega er eiginlega bara fyndið. Eiginlega bráðfyndið.

En um leið svolítið uggvekjandi - því ég hef á tilfinningunni að þeir sem standa fyrir þessu sjái ekki hvað þetta er fjarstæðukennt. Þá á ég ekki við hugmyndina um hvíldarhornið - heldur kynjaskiptinguna.

cowell


mbl.is Pabbar í pössun í Hagkaupum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlaust veður og ekki flogið

hestarihöm Það er komið vitlaust veður hér fyrir vestan - rafmagnið farið að flökta. Hrethviðurnar ganga hér inn fjörðinn, úfinn sjór og hvinur í trjám. Ég ætlaði suður í dag - og út til Danmerkur á morgun að hitta dóttur mína blessaða sem þar býr í Árósum.

Eeeen ... það verður ekki flogið í dag.

 Mér stendur til boða að fara með góðu fólki sem ætlar akandi suður í dag. Þáði það með þökkum að sjálfsögðu - en nú er ég bara ekkert viss um að það verði óhætt að keyra í þessu fjárans veðri.

Mér finnst orðið ansi hvasst nú þegar - samt átti veðrið ekki að skella á fyrr en síðdegis.

Brrrrr..... þetta er kuldalegt. Við sjáum hvað setur. 


"Sýsl" og "basl" í skáldskap

Margra barna mæður eiga ekki að "sýsla" og "basla" við ljóðagerð. Þetta er skoðun Skafta Þ. Halldórssonar bókmenntagagnrýnanda Morgunblaðsins sem birtir ritdóm í blaðinu í dag um ljóðabók mína Vestanvind. Að vísu sviptir Skafti mig einu barni - segir mig vera fjögurra barna móður. Er hann þar að vísa - að því er virðist - í einn af prósum bókarinnar, sem hann augljóslega tekur sem mína persónulegu dagbók, en ekki þá kómísku mannlífsmynd og hugvekju sem tilvitnaðri sögu var ætlað að vera.

Jæja, best ég leiðrétti nú þetta: Ég er FIMM barna móðir eins og fram kemur á bókarkápu. Ég er líka orðin amma. 

Og hvað er nú svona kona að gera upp á dekk í skáldskap? Það á gagnrýnandinn erfitt með að skilja. Að vísu telur hann "margt vel gert" - og eyðir síðan furðu löngu máli í að sýna fram á það með dæmum. En honum finnst samt að ég eigi bara að halda mig við vísnagerð - þar sé ég á heimavelli.  

Og svo tekur hann mig á kné sér til að kenna mér hvernig maður eigi að orða hugsanir í ljóðum. Myndlíkingar á borð við "hafdjúp hugans", "logndýpi drauma" og "grunnsævi vökunnar" kallar hann  "samsetningar" og frasakennda myndsköpun. Þarna hafi ljóðmálið tekið völdin af hugsuninni. Svo rökræðir hann við mig um það hvernig ég hefði átt - eða öllu heldur ekki átt - að yrkja eitt ljóðanna. Það er ljóðið Mæði:

Ástin / er berfætt ganga / um grýttan veg. 

Söknuðurinn / sárfætt hvíld / í skugga gleðinnar.

 "Ég get alveg skilið að ástin geti verið berfætt ganga um grýttan veg og söknuðurinn þá sárfætt hvíld. En að gleðin varpi skugga á söknuðinn finnst mér vera merkingarleysa", segir Skafti.

Hmmm ... það er einmitt það. Gott er nú fyrir ljóðskáld að fá svona kennslustund. Verst að mér skyldi aldrei hafa hugkvæmst þetta þegar ég skrifaði bókmenntagagnrýni fyrir moggann í den, að kenna ljóðskáldunum að yrkja. Reyndar held ég að Skafti hefði mátt hugleiða betur merkingu þessarar líkingar um gleðina og skuggann  - en ef hann meðtekur ekki hvað ég er að fara þarna, þá verður bara að hafa það.

Þessi ritdómur minnir mig óþægilega á þrjátíu ára gamla umræðu sem spratt upp um hinar svokölluðu kerlingabækurá sjöunda áratugnum. En það orð var notað í fúlustu alvöru um verk þeirra skáldkvenna sem þá höfðu kvatt sér hljóðs. Það voru karlrithöfundar - á svipuðu reki og Skafti er núna - sem fundu þessa ágætu einkunn yfir skáldskap kvenna. 

Þetta er trúlega hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem gagnrýnendur láta kynhlutverk og þjóðfélagsstöðu kvenna hafa áhrif á dóma sína. En svona til að lesendur geti áttað sig aðeins betur á þessu dæmi sem Skafti nefnir  "samsetning" ætla ég að birta það tiltekna ljóð hér fyrir neðan. Það heitir Út vil ek (og auðvitað á maður ekkert að vera að  bjóða upp á svona "frasakennda myndsköpun" eða leggja það á gagnrýnendur að botna í svona ljóðum). En ljóðið er svona:

Í hafdjúpum hugans

leitar vitundin landa

um útsæ og innhöf

ferðast hún um þangskóg

í sjávardölum

 

úr logndýpi drauma

sækir hún í strauminn

streitist á móti

brýst um

og byltist

í þungu róti

 

Á grunnsævi vökunnar

spriklar hún að kveldi

- þar lagði dagurinn netin

að morgni

 

þéttriðin net

troðfull að kveldi ...

 

 

PS: Og svo skil ég nú ekki hversvegna mogginn birtir af mér 18 ára gamla mynd - nema ég sé orðin svona herfilega ljót af öllum mínum barneignum, sýsli og basli að það sé ekki mönnum bjóðandi að sýna mig eins og ég er Shocking


Ráðhagur og ráðynja

Nú tek ég Reykásinn í ráðherramálinu: Cool  Eftir á að hyggja mætti kannski reyna að finna nothæf kynskipt orð yfir ráðherra - þó ég sé enn sem fyrr á móti því að breyta rótgrónum orðum. En EF menn finna GOTT orð og ÞJÁLT, tja .... þá má auðvitað skoða það ...

Tvær tillögur sem ég fékk í athugasemdakerfið mitt í gær vöktu mig til umhugsunar - svona geta góðar tillögur stundum snúið þverustu sauðum Wink  Sigríður Svavarsdóttir stakk upp á orðinu "ráðhagur" og Kári S. Lárusson kom með orðið "ráðynja". Hvort tveggja eru falleg orð - og því langar mig að vekja athygli á þeim hér fari svo að menn fari út í það að skipta um starfstitil á ráðherrum (sem mér finnst auðvitað óþarfi - en best að hafa varaáætlun ef út þetta verður farið).

 Ráðhagur og ráðynja - spáið í það.


Ráðherra - ráðsmaður - ráðskona - ráðslag .....

Ég veit að ég er ekki að bregðast við nýjustu fréttum. Samt verð ég að koma aðeins inn í þessar vangaveltur um ráðherranafngiftina - og þá tillögu Steinunnar Valdísar að fundið verði nýtt heiti yfir ráðherra.

Þó ég sé hafi oft verið sammála Steinunni Valdísi, þeirri mætu konu, þá get ég ekki tekið undir með henni núna.

Tungumálið sjálft er söguleg heimild. Það á við um starfsheiti, orðatiltæki og hvaðeina. Enn tölum við um að leggja árar í bát, vaxa fiskur um hrygg, skara eld að eigin köku - svo tekin séu fáein dæmi úr daglegu máli sem þykir gott og gilt. Hið fagra orð ljósmóðir er söguleg heimild um þá staðreynd að það voru fyrst og fremst konur sem sinntu barnsfæðingum. Ég sé enga ástæðu til þess að breyta starfsheitinu þó að karlmaður sinni því, enda vandfundið fegurra orð.

Sama á við um ráðherra. Orðið herra er hvort sem er gamalt orð sem við notum eiginlega ekki lengur nema við hátíðlegustu tækifæri. Það er barn síns tíma, eins og séra. Þegar fyrstu kvenprestarnir tóku vígslu var um það deilt hvort þær gætu borið titilinn séra þar sem hann þýðir einmitt herra (sbr. enska orðið sir). En hví skyldu konur ekki geta verið herrar í merkingunni sá/sú sem ræður? Var ekki Bergþóra kona Njáls sögð drengur góður - og kynsystur hennar margar hverjar skörungar, jafnvel vargar ef því var að skipta. 

Þó tekur steininn úr þegar konur vilja ekki vera menn, til dæmis blaðamenn og alþingismenn heldur aðgreina sig sérstaklega sem blaðakonur og alþingiskonur. Ekki skólastjórar heldur skólastýrur.  

Nei - ég nenni ekki að taka þátt í þessu, enda veit ég ekki hvaða endi þetta ætti þá að taka. Ég hef verið blaðamaður um mína daga, borgarfulltrúi, skólameistari, háskólakennari og rithöfundur - þetta eru allt karlkynsorð til vitnis um tíma sem voru áður og fyrr. Mér þykir vænt um þessi orð og ég vil ekki eigna þau öðru kyninu þó að þau beri þeim uppruna vitni að hafa einhverntíma verið karlmannsverk. Þann dag sem enginn tekur lengur eftir því hvort starfsheiti er kk, kvk eða hk - þann dag hafa skapast alvöru forsendur fyrir kynjajafnrétti. 

En svo ég hagi mér nú eins og útsmoginn lögfræðingur - þá er ég að hugsa um að setja fram varakröfu varðandi þetta mál með ráðherrana: Ef menn vilja endilega taka upp kynskiptingu í nafngiftum - þá bendi ég á tvö orð sem bíða þess bara að verða tekin úr sínu hverfandi hlutverki og sett í nýtt. Þetta eru þau virðulegu starfsheiti  "ráðsmaður" og "ráðskona" Smile


Breytingar breytinganna vegna

Ég þekkti mig ekki hér á moggablogginu þegar ég opnaði það í morgun. Nýtt útlit! Crying Ömffff? Af hverju alltaf að vera að skipta um alla hluti? Moggasíðan var bara flott eins og hún var.

Kannski er ég að verða íhaldssöm með aldrinum - en stundum fæ ég á tilfinninguna að menn séu að breyta bara til þess að breyta. Það eru alltaf að koma einhverjar tækninýjungar sem eiga að vera eitthvað flottari og betri en það gamla. Svo kemur upp úr kafinu að þær eru ekkert betri - kannski flottari, en ekki betri. Og alls ekki endingarbetri. Enda er það sjálfsagt ekki markmiðið. Hvaða tilgangur væri í því að finna upp nýja hluti ef þeir entust svo von úr viti? GetLost Það þarf auðvitað að halda söluhringiðunni gangandi.

Og svo er þetta með vefsíðurnar sem alltaf er verið að breyta. Til bóta? Ekki endilega - þær bara breyta um útlit. Ef eitthvað er til vitnis um stöðnunarfóbíu þá eru það vefsíðurnar. Ég hef a.m.k. enn ekki séð dæmi um betra viðmót eða skemmtilegri notkunarmöguleika á þeim fréttasíðum sem tekið hafa á sig nýtt útlit að undanförnu - mbl.is þar á meðal. 

 Já, mér fannst gamla síðan betri - og flottari. Undecided Eeeeeeen .... ég jafna mig.   


Guðni ljóstrar upp leyndarmáli

gudni_agustsson Guðni er að "kjafta" frá. Í fréttatímum gærdagsins var sagt frá því hvað forseti Íslands hefði "ætlað" að gera við fjölmiðlafrumvarpið hér um árið "ef" það hefði .... o.s.frv. Heimildamaðurinn er Guðni Ágústsson, núverandi formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi ráðherra. Guðni átti nefnilega "leynifund" með forsetanum um þetta leyti og varð þess þá áskynja hvernig forseta vorum var innanbrjósts. Guðni lýsir þessum fundi, ummælum forseta og yfirbragði. Guðni er nefnilega að gefa út bók - eins gott að hafa eitthvað bitastætt fram að færa þegar maður stendur í bóksölu.

Ég vona að ég sé ekki ein um það að finnast þetta óviðeigandi: Að upplýsa alþjóð um það sem fram fer á óformlegum tveggja manna fundi - trúnaðarfundi - leynifundi. Mér finnst að Guðni hafi þarna stigið yfir ósýnileg siðferðismörk. Og það sem verra er - hann hlýtur að vita að hann er einn til frásagnar. Forsetinn getur ekki tjáð sig um þetta mál - embættis síns og virðingar vegna. Það sér hver heilvita maður. Forsetinn hlýtur að telja sig bundinn af hinum óskráðu lögum um þagmælsku þegar tveir talast við og engum öðrum vitnum verður við komið.

En Guðni rýfur trúnaðinn - hann þarf að selja bók.

Þetta er ekki ósvipað þeim hvimleiða sið sem mörg dæmi eru um erlendis og því miður nokkur hérlendis - að hlaupa í blöðin með lýsingar á einkasamskiptum þegar fólk er skilið að skiptum. Segja "söguna alla" eins og það er stundum orðað. Þetta er alltaf ójafn leikur - og oft ljótur.

Í raun skiptir ekki svo miklu hvort um er að ræða einkamál eða stjórnmálaleg samskipti. Tveggja manna tal er alltaf tveggja manna tal. Menn eiga ekki að vitna í slík samskipti.

Trúað gæti ég líka að stjórnmálamenn þjóðarinnar hugsi sig um tvisvar áður en þeir eiga trúnaðarfundi með formanni framsóknarflokksins.


Lauslætinu lokið - Sigtryggur vann!

gulfre Æ, þetta var erfitt. Ég var að kveðja blogglesendur mína á visir.is til þess að færa mig alfarið yfir á moggabloggið. Snúin frá mínu hliðarspori - komin heim í "hjónarúm". Wink

Þannig er að ég byrjaði hér á moggablogginu í byrjun þessa árs. Hér kynntist ég þeim bloggurum sem ég hef síðan verið í sambandi við, og hér á ég flestalla mína lesendur. Í sumar tók ég svo einhverskonar tilboði um að koma yfir á visir.is og ákvað að sjá til. Veit ekki hvaða lauslætiskast það var eiginlega. Enda kom á daginn að ég gat aldrei fengið mig til þess að loka moggablogginu og flytja mig yfir. Alltaf þegar ég ætlaði að gera það titraði einhver taug innra með mér og ég GAT það bara ekki. Var einfaldlega búin að eignast of marga vini hér.InLove

Enda hafa mál þróast þannig að ég gleymi æ oftar að setja inn færslur á hina síðuna. Og nú er bara komið að því að VELJA,. Það á ekki við mig að þjóna tveimur herrum samtímis.

Að sumu leyti er þessi niðurstaða svipuð glímulýsingunum sem margir muna frá áttunda áratungum. Þá var aldrei spurning um leikslokin. Þulur sagði einfaldlega: Þeir taka hald  (löööööng þögn). Sigtryggur vann! 

 

PS: Myndina hér fyrir ofan tók ég af www.fva.is/harpa  - veit því miður ekki nánari deili á listamanninum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband