Færsluflokkur: Fjármál
Morgunblaðseggjum kastað
24.9.2009 | 12:40
Sé þetta rétt, sem fullyrt er á visir.is um uppsagnirnar á Morgunblaðinu, þá er nú verið að segja upp mörgum af bestu og tryggustu starfsmönnum blaðsins í gegnum tíðina.
Það er óneitanlega undarleg tilfinning að sjá þarna nöfn starfsmanna sem hafa fylgt Mogganum í áratugi, verið málsvarar blaðsins og einhvern veginn órjúfanlegur hluti þess: Hér erum við að tala um kanónur á borð við Freystein Jóhannesson, Björn Vigni, Árna Jörgensen o.fl. Morgunblaðsegg sem stundum hafa verið nefnd svo.
Það hefur hingað til ekki vafist fyrir væntanlegum ritstjóra Morgunblaðsins að skilja hafra frá sauðum í sínum liðsveitum - eins og sannast núna. Trúlega leggur hann þó eitthvað annað til grundvallar við skilgreiningu á því hvað séu hafrar og hvað sauðir, en fjölmiðlareynslu og gæði blaðamennsku einvörðungu.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Vettvangur dagsins: AGS, hagsmunatengslin, stjórnmálaástandið og gagnavinnsla Jóns Jósefs
20.9.2009 | 15:55
Staða stjórnmálanna, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, uppgjörið við hrunið, hagsmunatengsl viðskiptalífsins, ritstjóraskiptin á Morgunblaðinu - þetta var til umræðu á "vettvangi dagsins" í Silfri Egils í dag. Þar skiptumst við á skoðunum, Árni Snævarr, Agnes Bragadóttir, Andri Geir Arinbjarnarson og ég.
Áhugasamir geta horft og hlustað hér.
Á eftir var fjallað um sættir þær sem náðst hafa milli milli ríkisskattstjóraembættisins og Jóns Jósefs Bjarnasonar eftir stórundarlega uppákomu sem varð vegna upplýsingaöflunar þess síðarnefnda um þau flóknu og fjölþættu viðskiptatengsl sem til staðar eru í samfélagi okkar. Nú hafa náðst friðsamlegar málalyktir - ríkisskattstjóri hefur meira að segja beðið Jón Jósef afsökunar á upplýsingum sem fram komu í fréttatilkynningu um það þegar lokað var á aðgang Jóns að gögnunum (sbr. eldra blogg mitt um það mál).
Niðurstaða málsins er báðum málsaðilum til sóma. Þennan hluta þáttarins má sjá og heyra hér.
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Að tengja lán við launavísitölu?
9.9.2009 | 11:56
Það hljómar skynsamlega að tengja verðtryggingu lána við vísitölu launa fremur en neyslu, eins og Joseph Stiglitz bendir á. Hugmynd Stiglitz á vissan samhljóm í hugmynd Þórólfs Matthíassonar hagfræðings um afkomutengingu lána, þó hugmynd Þórólfs miðist fremur við greiðslugetu fólks en verðlagsforsendur lánanna. Báðir hagfræðingarnir eru hinsvegar að leita réttlátra leiða til þess að leysa almennan og yfirþyrmandi greiðsluvanda. Í því samhengi vilja báðir líta til afkomu fólks.
Vitanlega er það alveg rétt hjá Stiglitz að verðtryggingin eins og hún hefur verið praktíseruð á Íslandi er óréttlát. Hann hefur líkt henni við lyf sem gefið er við höfuðverk en drepur í reynd sjúklinginn (og þar með höfuðverkinn). Að miða afborganir lána við síhækkandi neysluvísitölu sem þróast öðruvísi en launavísitala, felur í sér verulega hættu fyrir lántakandann. Þetta hlýtur að vera hægt að leiðrétta.
Þó er ein hlið á þessu máli sem þarf að hugleiða, og það er svarti vinnumarkaðurinn. Hann hlýtur að skekkja myndina, hvort sem við erum að tala um að afkomutengja afborganir eða miða verðtryggingu við launavísitölu.
Er hægt að finna "rétta" launavísitölu í landi þar sem svartur vinnumarkaður þrífst undir (og jafnvel ofan á) yfirborðinu?
Þó ég spyrji svona - er ég samt höll undir þessar hugmyndir að breyta við miði lánanna þannig að afborganir þeirra og verðþróun fylgi fremur afkomu fólks en annarri verðlagsþróun. En til að slík breyting feli í sér eitthvert réttlæti, þurfa forsendur að vera réttar. Málið er því ekki einfalt.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Stiglitz mælir gegn almennum afskriftum
7.9.2009 | 10:36
Það var athyglisvert að hlusta á hagfræðiprófessorinn og Nóbels- verðlaunahafann Joseph Stiglitz í Silfrinu í gær. Þessi hagfræðingur er maður að mínu skapi. Sérstaklega þótti mér athyglisvert það sem hann sagði um afskriftir skulda - þegar hann benti á að almennar afskriftir skulda fela ekki í sér neitt réttlæti, þar sem þeir eru þá lagðir að jöfnu, auðmaðurinn og stórfyrirtækið sem voru í ofurskuldsetningunni annarsvegar, og hinsvegar Jóninn og Gunnan sem tóku íbúðalánið.
Ég hef áður bloggað um þetta mál á sömu nótum og Stiglitz talaði Silfrinu í gær. Flest bendir til þess að flöt niðurfærsla lána - almenn aðgerð - myndi fela í sér gífurlega eignatilfærslu frá einstaklingum til stórskuldugra fyrirtækja. Við værum jafnvel að tala um mestu eignatilfærslu af því tagi sem um getur.
Niðurfærsla lána hjá þeim sem helst þurfa á því að halda er annað mál. Sé tekið mið af greiðslugetu fólks þannig að niðurfærslan nýtist þar sem hennar er helst þörf, þá horfir málið öðruvísi við. Sú hugmynd sem Þórólfur Matthíasson hagfræðingur hefur sett fram um afkomutengingu lána, er í þeim anda, og ég tel að þá leið beri að skoða vel, eins og ég bloggaði um fyrir stuttu. Afkomutengin lána hefur þann kost að vera almenn aðgerð sem þó tekur tillit til greiðslugetu og afkomu skuldarans.
Jöfnuður felst ekki endilega í því að allir fái "eins" - heldur að hver og einn fái það sem hann þarfnast.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Hver er þá staða Icesave málsins?
2.9.2009 | 13:50
Hver er þá staðan í Icesave málinu eftir að Alþingi samþykkti ríkisábyrgðina með fyrirvörum? Staðan er sú að samningur sá sem undirritaður var í vor, er óbreyttur, og verður það nema Bretar og Hollendingar sætti sig ekki við fyrirvarana sem settir hafa verið.
Það sem hefur gerst í meðförum þingsins er hins vegar þetta:
Alþingi hefur samþykkt ríkisábyrgðina á Icesave samningnum með skilyrðum. Þingið hefur með öðrum orðum kveðið upp úr um það hvaða skilning beri að leggja í ríkisábyrgðina á grundvelli samningsins. Skilningur og þar með skilmálar þingsins eru m.a. þessir:
- Að greiðslur vegna samningsins fari ekki fram úr greiðsluþoli þjóðarinnar og haldist í hendur við landsframleiðslu. Þannig verði tekið tillit til erfiðra og fordæmalausra aðstæðna eftir bankahrunið á Íslandi
- Að ekki verið gengið að náttúruauðlindum Íslendinga.
- Að Íslendingar geti látið reyna á málstað sinn fyrir dómtólum.
- Að ríkisábyrgðin falli niður 2024.
- Að Alþingi geti ákveðið hvenær sem er að fram fari endurskoðun á lánasamningunum við Breta og Hollendinga. Alþingi hefur eftirlit með framkvæmdinni og fjármálaráðherra ber að veita þinginu árlegt yfirlit um hana.
Þetta eru veigamiklir fyrirvarar sem settir eru af þingsins hálfu fyrir ríkisábyrgðinni. Þeir eru til mikilla bóta þar sem þeir eru í reynd lagalegt, efnahagslegt og pólitískt öryggisnet fyrir okkur. Auk þeirrar verndar sem fyrirvararnir veita, telur lánshæfismatsfyrirtækið Moodys að þeir muni styðja við sjálfbærni ríkisfjármála hér á landi og jafnvel hafa jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Þá er ekki talið ólíklegt að fleiri ríki muni fylgja fordæmi Íslendinga og setja þak á skuldagreiðslur, eins og bent hefur verið á.
Minn skilningur er sá að fyrirvararnir við ríkisábyrgðinni breyti ekki samningnum sjálfum og feli því heldur ekki í sér gagntilboð til Breta og Hollendinga. Um þetta geta menn þó deilt, og úr því fæst ekki skorið fyrr en í ljós kemur hvort Bretar og Hollendingar sætta sig við fyrirvarana.
Það hlýtur að ráðast á allra næstu dögum.
Annað sem hefur gerst í meðförum þingsins á þessu máli er ekki minna um vert. Það er aukið sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu. Það sjálfstæði birtist ekki hvað síst í efnistökum þessa veigamikla máls í nefndum þingsins. Sú breiða samstaða sem náðist um fyrirvarana í fjárlaganefnd er m.a. til vitnis um þetta. Má segja að þar hafi sannast máltækið "fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott" - því þrátt fyrir allt hefur þetta erfiða og fordæmalausa mál leitt til betri vinnubragða á Alþingi Íslendinga.
En nú spyrjum við að leikslokum.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Magma Energy, erlent fjármagn, eignarhald ríkisins, almannahagsmunir
25.8.2009 | 14:59
Ég hef ekkert á móti erlendu fjármagni eða skynsamlegri einkavæðingu. En þegar erlend fyrirtæki gera sig líkleg til þess að sölsa undir sig nýtingarrétt íslenskra auðlinda á kjörum sem varla geta talist annað en afarkostir - þá vil ég spyrna við fótum.
Þegar erlent stórfyrirtæki býðst til að kaupa hlut í HS-Orku gegn því að Orkuveitan veiti 70% kúlulán (þ.e. afborganalaust lán sem greiðist í lok lánstíma) til sjö ára, á 1,5% vöxtum með veði í bréfunum sjálfum - þá fæ ég ekki séð að erlent fjármagn sé að streyma inn í landið.
Þegar erlent stórfyrirtæki sem hefur fengið 10 ára samning við erlend orkufyrirtæki (sjá hér) með framlengingar ákvæði til annarra 10 ára (samtals 20 ár), vill gera 65 ára samning við okkur með framlengingarákvæði um önnur 65 ár - alls 130 ár - þá líst mér ekki á blikuna.
Þegar svona er staðið að tilboðsgerð í nýtingarrétt íslenskra auðlinda, þá finn ég brunalykt og fer að hugsa um útsölur, eins og ég hef bloggað um áður.
Vissulega verðum við að laða erlenda fjárfesta til landsins - en það er ekki hægt að falbjóða náttúruauðlindir landsins fyrir lítið sem ekkert, jafnvel þó hart sé í ári.
Samkeppni og einkavæðing geta verið góðra gjalda verðar - en þá verða líka að vera eðlileg samkeppnisskilyrði til staðar. Slík skilyrði eru ekki til staðar á Íslandi eins og sakir standa.
Þó ekki væri nema vegna þessa, finnst mér réttlætanlegt að ríkið grípi inn í fyrirhugaða sölu á hlut HS-Orku til Magma Energy, og reyni að ganga inn í tilboðið. Satt að segja held ég það sé ráðlegt eins og sakir standa. En þá sé ég fyrir mér tímabundna ráðstöfun, en ekki varanlegt eignarhald - því ég held að ríkið ætti þá að leitast við að selja hlutinn á ný, á betri kostum en þarna bjóðast.
Ef þessi samningur fer óbreyttur í gegn, er gefið fordæmi fyrir fleiri viðlíka samninga, án þess að nokkur trygging sé fyrir því að arðurinn af auðlindum okkar muni renna inn í þjóðarbúið. Ég held það sé hættulegt íslenskum almannahagsmunum.
Auðlindirnar eru helsta von okkar Íslendinga núna - við megum ekki glutra þeim úr höndum okkar í eftirhruns-örvæntingu. Þetta mál er þörf áminning um þá hættu sem við gætum staðið frammi fyrir ef erlend auðfyrirtæki taka að ásælast auðlindir okkar fyrir lítið verð.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Afkomutenging lána fremur en almennar afskriftir
23.8.2009 | 13:51
Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor setur fram athyglisverða hugmynd í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í dag. Þar leggur hann til að afborganir húsnæðislána verði tengdar afkomu lántakans.
Þórólfur telur að þessi leið sé í reynd hagstæðari en lánalengingar enda sé ógerningur að fjármagna skuldaniðurfellingar sem einhverju máli skipta.
Mér líst vel á þessa hugmynd og hef stundum rætt þennan möguleika við óformleg tækifæri. A.m.k. tel ég það fyrirhafnarinnar virði að skoða þetta í fullri alvöru.
Bæði lántaki og lánveitandi geta haf ávinning af þessu fyrirkomulagi. Lánþeginn verður fyrir minni skerðingu ráðstöfunartekna ef tekjur hans lækka - lánveitandinn græðir á minni afföllum vegna greiðsluþrots lántakans. Verulega gæti dregið úr greiðslubyrði mjög skuldsettra heimila sem aftur gæti leyst bráðan vanda margra þeirra. Þannig myndi áhætta lántakans minnka án þess að áhætta lánveitanda sé aukin að nokkur marki, eins og Þórólfur bendir á.
Fyrir afkomutengingu lána eru ýmis fordæmi erlendis frá, en líka hérlendis. Til dæmis eru afborganir námslána bundnar við tekjur. Annað fordæmi höfum við í ríkisábyrgð Icesave samninganna sem á að binda við tekjuþróun.
Ég hef auk þess lengi haft þá skoðun að það skorti gagnkvæmni í íslenska lánasamninga. Þá á ég við það að áhættan er - og hefur alltaf verið - öll skuldarans megin. Lánasamningar eru þó ekkert frábrugðnir öðrum viðskiptum, og því ekki nema eðlilegt að lánveitendur taki á sig einhverja áhættu og/eða skuldbindingar til þess að virða breyttar forsendur.
Sigurður G. Guðjónsson hrl, kom inn á þetta í spjalli við þá Guðmund Ólafsson hagfræðing og Sigurjón M Egilsson á Sprengisandi Bylgjunnar í morgun, sem fróðlegt var að hlusta á (hér).
Fjármál | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Þreyttir þingmenn takast á um Icesave
21.8.2009 | 11:36
Það var kominn hálfgerður svefngalsi í þingheim seint í gærkvöldi þegar Icesave umræðan hafði staðið allan liðlangan daginn. Trúlega mun umræðan halda áfram framyfir helgi, enda augljóst að fólki liggur margt á hjarta.
Í gærkvöld hitnaði vel í kolum um tíma. Ég átti m.a. í snarpri orðræðu við nokkra þingmenn stjórnarandstöðuna eftir mína ræðu seint í gærkvöld. Í máli mínu minnti ég á meinsemdir þær sem herjað hafa og munu áfram herja á íslenskt samfélag, nema menn læri af reynslunni og hafni þeirri skefjalausu frjálshyggju sem riðið hefur yfir þjóðina eins og holskefla. Þetta sveið sjálfstæðismönnum og aðrir stjórnarandstæðingar blönduðu sér líka í umræðuna.
Umræðurnar getur fólk séð á þessari slóð hér.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Afneitun og ósvífni
20.8.2009 | 12:10
Því miður virðist ljóst að þeir sem stjórnuðu íslensku fjármálakerfi fyrir hrun -- hverjir enn eru sumir við stjórnvölinn og/eða virkir í opinberri umræðu -- hafa lítið lært.
Hugmyndir stjórnenda Straums-Burðaráss um bónusgreiðslur í samræmi við endurheimtur á eignum bankans á næstu fimm árum, er eitt talandi dæmi. Þar er um að ræða greiðslur frá 2,7 milljörðum og upp í tæpa 10 milljarða, eða 222 milljónir á hvern starfsmann bankans, sem "áætlun" hefur verið gerð um. Ummæli forstjórans þess efnis að "um væri að ræða áætlun um árangurstengd laun" sem "utanaðkomandi lögfræðingar" hefðu sagt "í fullu samræmi við það sem gengur og gerist" bæta ekki úr skák.
Sú tíð þegar stjórnendur fjármálafyrirtækja fengu föst laun fyrir það eitt að draga andann, og svo bónusgreiðslur fyrir að vinna vinnuna sína - sú tíð á að heyra sögunni til. Að einhverjum skuli raunverulega koma til hugar að fara fram á "árangurstengd laun" við það að "hámarka verðmæti" þrotabús eftir fjármálahrun, það er blaut tuska í andlit allra þeirra sem nú hafa tekið á sig lífskjaraskerðingu og búsifjar fyrir tilverknað þessarar hugmyndafræði. Leiðari Moggans tekur ágætlega á þessu máli í dag.
Annað dæmi er forherðing Kjartans Gunnarssonar, fv. stjórnarformanns gamla Landsbankans - sem ótvírætt hlýtur að teljast gerandi í bankahruninu en lætur það þó ekki hindra sig í að veitast að fjármálaráðherra og ríkisstjórninni í þeim björgunaraðgerðum sem nú standa yfir. Jón Baldvin Hannibalsson tók Kjartan í nefið í snarpri Morgunblaðsgrein í gær, sem ég hvet alla til þess að lesa (m.a. hér).
Hversu langt getur sjálfsafneitun og forherðing eiginlega náð?
Að fyrrverandi stjórnarformaður gamla Landsbankans -- og fv. framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins sem innleiddi hér hugmyndafræði hinnar skefjalausu einkavinavæðingar sem olli ógæfu okkar -- skuli veitast að þeim sem nú standa í björgunaraðgerðum á vettvangi -- það er eiginlega meiri ósvífni en maður hefði að óreyndu gert sér í hugarlund.
Gleymum ekki á hvaða vettvangi við erum, íslensk þjóð. Við erum stödd í þrotabúi Sjálfstæðisflokksins og frjálshyggjuhugmyndafræði hans. Átökin í íslenskum stjórnmálum næstu misserin munu m.a. snúast um það hvernig gert verður upp við fortíðina, og þá hugmyndafræði sem leiddi okkur í núverandi stöðu.
Fjármál | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ekki erindi til almennings?
1.8.2009 | 19:52
"Nýja Kaupþing og skilanefnd Kaupþings telja að upplýsingar um viðskiptavini Kaupþings eigi ekki erindi til almennings og sé brot á þeirri vernd sem bankaleynd á að veita viðskiptamönnum. Mikilvægt er að traust og trúnaður ríki milli fjármálastofnana og viðskiptavina" segir í yfirlýsingu þessara sömu aðila til fjölmiðla.
Það er einmitt það "vernd" til viðskiptamanna, "traust og trúnaður"
Það vantar eitt inn í þessa jöfnu - það vantar traust og trúnað almennings gagnvart umræddum fjármálastofnunum.
Þær upplýsingar sem nú hafa verið lögbannaðar varða ekki eingöngu "viðskiptavini Kaupþings" heldur viðskiptaaðferðir bankans og þær eiga fullt erindi til almennings, að mínu viti.
Kaupþing fékk lögbann á RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjármál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)