Færsluflokkur: Ferðalög
Í gang aftur eftir dásemdir Dolomítatindanna
8.2.2009 | 01:06
Jæja, þá er ég aftur komin í gang eftir dásamlegt skíðafrí með systrum mínum í ítölsku Ölpunum - undirlögð af harðsperrum en endurnærð til líkama og sálar. Annan eins snjó hef ég aldrei séð og þann sem kom niður úr himninum yfir Madonna síðustu daga. Og kalla ég þó ekki allt ömmu mína í þeim efnum, hafandi búið á Ísafirði í samanlögð 14 ár um mína daga. En tveggja mannhæða háar snjóhengjur ofan á þökum húsa hef ég aldrei augum litið fyrr en í þessari ferð.
Og náttúrufegurðin þarna, maður lifandi! Dolomíta-fjöllin með sínar tignarlegu klettaborgir og tvöþúsundmetra háu tinda. Þetta var engu líkt.
Eru þá ónefndar skíðabrekkurnar - endalausar og aflíðandi. Misvel troðnar að vísu - enda hafa ekki sést þarna önnur eins snjóþyngsli í manna minnum. Sem aftur varð þess valdandi að við systur vorum mis-glæsilegar á skíðunum. Sem aftur varð þess valdandi að við gátum mikið hlegið - allar sex!
Jamm ... það var auðvitað með hálfum huga sem ég fór þetta, svona mitt í efnahagshruninu. En þar sem ferðin hafði nú verið bæði pöntuð og greidd fyrir bankahrun - og ekki á hverjum degi sem systrahópurinn allur gerir sér dagamun með þessum hætti - þá lét ég slag standa.
Og ég sé ekki eftir því - enda hef ég ekki hlegið annað eins í háa herrans tíð og þessa síðustu viku. Hlátur er hollur.
En nú er þetta gaman sumsé búið í bili - og við tekur (vonandi) annað gaman hér heima.
Er að fara í Sprengisandinn hjá Sigurjóni M. Egilssyni á Bylgjunni í fyrramálið. Set kannski inn tengil hérna eftir þáttinn.
Bless á meðan.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Söknuður
27.12.2008 | 19:50
Það var undarlega hljótt í húsinu þegar dyrabjallan glumdi við nú síðdegis. Ég fór til dyra og tengdamóðir mín stóð á tröppunum. Hún var líka hálf undrandi á svip. Ekkert gelt. Bara ómur af þagnaðri dyrabjöllu - við heyrðum hver í annarri.
Blíða mín er farin af heimilinu og það munar um minna. Við Siggi ókum með hana norður á Hólmavík í dag, til móts við nýja eigendur sem búa á Sauðárkróki. Þar fær hún nýtt heimili hjá þessum góðu hjónum sem mér líst afar vel á. Þau eiga fjögur börn á unglingsaldri og annan hund að auki. Þau hafa áður átt Dalmatíuhund sem þau misstu í slysi fyrir nokkru - raunar var það bróðir Blíðu. Þannig að þetta fólk þekkir tegundina og veit að hverju það gengur varðandi hana. Ég held því að Blíða blessunin sé heppin að fá þetta heimili, úr því hún þurfti að hafa vistaskipti á annað borð.
Hún var svolítið feimin við nýju húsbændurna og hálf umkomulaus auðvitað þegar hún var komin inn í nýtt búr sem hún þekkti ekki. Ég kvaddi hana ekki - hefði bara beygt af ef ég hefði farið að faðma hana á þessari kveðjustund. Nei, ég harkaði af mér og skipaði henni upp í búrið, beygði mig niður að henni og bað hana vera rólega og stillta hjá nýju húsmóðurinni, lokaði svo skottinu og tók í hönd á fólkinu, með sviðasting fyrir brjóstinu.
Það féllu auðvitað nokkur tár á heimleiðinni - eins og við var að búast. En svona er lífið. Öllu er afmörkuð stund.
Heima beið mín hinn hundurinn minn hann Skutull sem er 8 mánaða. Ég tók hann í langan göngutúr í náttmyrkrinu og gaf honum svo vænt bein þegar heim var komið. Hann var alsæll - svo sæll að hann bar ekki við að gelta þegar dyrabjallan hrindi.
Öðruvísi mér áður brá ...
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Nú mega jólin koma
22.12.2008 | 00:31
Jæja, þá geta jólin komið - ég er búin að fá "börnin" vestur. Að vísu söknum við elsta sonar míns, konu hans og (ömmu)barnsins, en maður fær víst ekki alltaf allt. Saga, Pétur og Maddý eru komin heim, Maddý alla leið frá Árósum í Danmörku. Það er yndislegt að hafa þau öll í húsinu. Við erum í sæluvímu hérna. Borðuðum fiskibollur í kvöld, tókum það svo rólega, spjölluðum, kíktum á sjónvarpið. Við Saga fórum í góðan göngutúr í vetrarkvöldkyrrðinni með hundana. Gerðum engla í snjóinn á leiðinni og horfðum upp í vetrarhimininn.
Það má eiginlega segja að jólin séu komin - þau eru komin í hjartað.
Milli hátíðanna fáum við svo að hitta nýja tengdasoninn (tilvonandi), þannig að það er ýmislegt spennandi framundan. Jebb ... lífið lætur ekki að sér hæða.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Stundum er þörf - stundum nauðsyn
21.12.2008 | 14:54
Það er gott þegar björgunarsveitir landsins koma að gagni og farsællega tekst til með að hjálpa nauðstöddu fólki, eins og í þessu tilfelli. Það er jafn ergilegt þegar fjöldi björgunarsveitamanna er kallaður út til þess að hjálpa fólki sem hunsar viðvaranir og anar út í ófæruna, eins og gerðist á Hellisheiðinni í nótt. Þar höfðu á annan tug manna farið upp á heiðina þótt hún væri lokuð umferð, og fest sig.
Þeir sem vaða út í óvissuna - keyra framhjá lokunarskiltum á fjölförnum leiðum, rjúka upp á heiðar þrátt fyrir viðvaranir veðurstofu og tilmæli um að vera ekki á ferðinni - gera það í trausti þessa að björgunarsveitirnar muni koma til aðstoðar ef illa fer. Og það gera þær vissulega. Þeir sem starfa í björgunarsveitum gera það af mikilli ósérhlífni og verja til þess ómældum tíma og fjármunum. Köllun björgunarsveitanna er að hjálpa þeim sem þurfa þess - líka þeim sem hafa sjálfir komið sér í vandræði. Enda virðist svo vera sem fólki finnist almennt sjálfsagt að nýta sér aðstoð björgunarsveitanna hvernig sem á stendur.
Í gær voru tvö útköll - annarsvegar vegna manna sem villtust í slæmu veðri og voru í lífshættu, að minnsta kosti annar þeirra. Þar var mannafla og tækjabúnaði björgunarsveitanna vel varið. Í hinu tilvikinu - þar sem á annan tug manna óð upp á Hellisheiði þrátt fyrir viðvaranir og pikkfestist þar - má segja að sjálfboðastarf björgunarsveitanna hafi verið misnotað.
Nú má auðvitað segja að sjálfskaparvítin séu ekkert skárri en önnur víti. Eftir að menn eru komnir í vandræði þurfa þeir auðvitað aðstoð hvernig sem sem þeir komust í vandræðin. En mér finnst koma til álita að fólk borgi fyrir björgunarkostnað þegar svona stendur á. Nóg gefa björgunarsveitarmennirnir af tíma sínum og fjármunum þó þeir séu ekki að fara upp úr rúmum sínum um miðjar nætur til að bjarga fólki sem hefur komið sér í vandræði að óþörfu. Ég verð bara að segja eins og er.
Það geta alltaf komið upp stórútköll þar sem björgunarsveitirnar þurfa á öllum sínum liðsafna að halda. Ef slíkt gerist er ekki gott að stór hluti sveitanna sé bundinn í verkefnum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir, eins og að bjarga bílstjórum sem virða ekki lokanir á vegum.
----------
PS: Meðfylgjandi mynd var tekin í sumar á æfingu Björgunarhundasveitar Íslands á Gufuskálum af Sigrúnu Harðardóttur, ungum félaga í sveitinni.
Fundust heilir á húfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Auschwitz - Birkenau
29.10.2008 | 15:14
ARBEIT MACHT FREI stendur svörtum stöfum yfir innganginum að útrýmingarbúðunum í Auschwitz í Póllandi. Í 3ja km fjarlægð eru Birkenau búðirnar - sem oft og einatt eru kallaðar Auschwitz-Birkenau, eða Auswitz II. Þær eru afkastamestu útrýmingarbúðir Þjóðverja á árunum 1940-45. Á ferð minni til Kraká í síðustu viku átti ég þess kost að skoða Auswitz og Birkenau. Búðirnar eru 50 km suðvestur af Kraká.
Ég mun aldrei gleyma þeirri heimsókn - og það mun taka mig vikur, ef ekki mánuði að vinna úr þeirri upplifun sem ég varð fyrir þarna; þeim upplýsingum sem streymdu til mín í gegnum staðreyndir, minjar, myndir og annað sem fyrir augu bar.
Í Auschwitz I - upprunalegu búðunum - voru 70 þúsund manns tekin af lífi, aðallega Pólverjar og Sovéskir stríðsfangar. Í Birkenau lét að minnsta kosti 1 milljón manna líf sitt, mest Gyðingar og Pólverjar, en einnig Sígaunar, Vottar Jehóva, samkynhneigt fólk, fólk sem dæmt hafði verið fyrir ýmsa glæpi, fatlaðir og aðrir sem ekki féllu vel að hugmyndafræði Nazismans. Raunar kom fram í Nurnberg réttarhöldunum, hjá yfirmanni búðanna, Rudolf Höss, að þarna hefðu um 3 milljónir látið líf sitt - en skráning á þeim sem komu i búðirnar var að engu orðin undir lokin, svo sannanir um endanlegan fjölda skortir.
Innan við hliðið í Auschwitz I, léku hljóðfæraleikarar létta tónlist fyrir þá sem komu í búðirnar. Fólk hafði þá ferðast með gripavögnum dögum saman, án matar eða salernisaðstöðu, án nægjanlegs súrefnis og var aðframkomið þegar það kom á brautarpallinn í Auswitz. Sumir höfðu tekið með sér búsáhöld og aðrar eigur í þeirri trú að þeir væru að koma til nýrra heimkynna. Þeim var ráðlagt að skilja farangurinn eftir á brautarstöðinni og fara beint í bað. Við hliðið ómuðu léttir marsar og fólkið gekk grunlaust inn fyrir, framhjá tvöfaldri rafmagnsgirðingunni sem umlykur svæðið. Þar var því strax skipt í tvo flokka.
Til hægri fóru þeir sem áttu að lifa - fólk á góðum aldri sem líklegt var til þess að geta unnið. Til vinstri - og beint í gasklefann - fóru gamalmenni, fatlaðir, börn og aðrir sem ekki voru til stórræðanna.
Það er undarlegt að standa framan við dyrnar að gasklefanum. Sjá háan reykháfinn bera við loft -skammt frá húsinu þar yfirmaður búðanna bjó með konu sinni, börnum og heimilishundi. Úr stofuglugganum gátu þau séð fangana streyma inn í byrgið og reykinn liðast upp um reykháfinn. Enginn kom út aftur. Þjóðverjar reyndu að eyðileggja þessi ummerki áður en búðirnar voru frelsaðar. Þeim tókst það þó ekki nema að hluta. Líkbrennsluofnarnir hafa verið endurbyggðir nákvæmlega eins og þeir voru. Klefarnir eru upprunalegir.
Maður gengur inn um þessar lágu dyr. Þar fyrir innan var fólk látið afklæðast og því síðan þjappað inn í lágan klefa þar fyrir innan. Í loftinu eru einhverskonar túður eða stokkar - þar niður var eitrinu veitt. Zyklon-B nefndist hið banvæna efni. Þetta eru litar örður, minna helst á mulda sápu eða grófa, ljósa sandmöl. Þegar efnið komst í samband við súrefni og ákveðið hitastig losnaði eitrið úr læðingi. Tuttugu mínútum eftir að eitrinu var veitt niður um túðurnar, voru allir í klefanum látnir. Þá voru klefarnir opnaðir - líkin tekin og "hreinsuð". Gullfyllingar teknar úr tönnum og hár skorið af. Síðan voru líkamarnir settir í brennsluofinn.
Þeir sem ekki fóru beint í gasklefann voru fluttir í skálana þar sem þeim var úthlutað koju með 2-4 öðrum. Hár þeirra rakað af og húð þeirra merkt með brennimerki eða tattúi á handlegg eða brjóst. Í fyrstu voru allir fangarnir myndaðir og nafn þeirra skráð ásamt öðrum upplýsingum. Þegar leið á stríðið var þessu hætt, og fanganúmerið á húð þeirra látið duga - eftir það bar viðkomandi einungis þetta númer í stað nafns.
Enn skelfilegri var aðbúnaður fanganna í Birkenau - þar voru húsakynnin hesthús þar sem hróflað hafði verið upp rúmstæðum - þremur kojuröðum upp undir loft. Fimm til átta sváfu þar saman í hverri koju, með eina ábreiðu. Engin upphitun, engin hreinlætisaðstaða. Þessi mynd er ekki góð en ef þið smellið á hana, stækkar hún, og þá má sjá betur hvernig umhorfs var í þessum vistarverum.
Í Auschwitz I vorum við leidd að gálgunum þar sem brotlegir fangar voru teknir af lífi fyrir litlar sakir - jafnvel tólf saman. Við sáum aftökustaðinn þar sem þeir voru skotnir til bana. Það var í portinu milli skálanna þar sem yfirmennirnir höfðust við öðrumegin. Hinumegin var hið svokallaða "sjúkrahús" þar sem Josef Mengele gerði sínar ómannúðlegu og skelfilegu tilraunir á konum og börnum, aðallega tvíburum. Við sáum líka refsiklefana þar sem fangarnir voru sveltir eða þeir kvaldir með því að standa örþreyttir eftir langan vinnudag. Já, við sáum klefa sem var 90 x 90 cm að þvermáli. Fanginn þurfti að skríða inn um lítið op sem var við gólfið, og rísa síðan upp og standa þar uppréttur, því ekki gat hann lagst - þar til næsti vinnudagur tók við.
Á göngunum eru myndir af þeim föngum sem myndaðir voru á fyrstu þremur árunum sem búðirnar voru starfræktar. Undir myndunum eru nöfn, fanganúmer og dánardægur hvers og eins. Margir létust fáeinum dögum eftir komuna, aðrir vikum eða mánuðum síðar. Flestir voru látnir áður en árið var liðið. Á þessum myndum sér maður líka börn sem hafa lifað mislengi. Hugrekki þeirra og þróttur, þar sem þau horfa framan í ljósmyndarann snertir mann djúpt.
Einn skálinn er helgaður þeim munum sem fundust eftir að búðirnar voru frelsaðar. Í einu herberginu er gríðarstór haugur af ferðatöskum. Annar haugur af búsáhöldum ýmiskonar (sem fólk tók með sér því það hélt að þarna biðu þess ný heimkynni). Sá þriðji af gleraugum, sá fjórði af skóm.
Í einu herberginu er haugur af mannshári - heilt tonn - aðallega kvenhári. Það notuðu þjóðverjarnir til þess að vefa fóður í hermannabúninga. Í loftinu er undarleg lykt - sambland af myglu og mölkúlum. Þarna er manni farið að líða verulega illa. Í einu horninu eru bænasjöl sem gerð voru upptæk, einnig röndóttir fangabúningarnir, gauðrifnir og grófir, sem augljóslega hafa ekki haldið neinum hita í vetrarkuldum.
Innar í þessu sama herbergi eru svo barnafötin, rifin og snjáð, snuddurnar, litlu barnaskórnir, bangsar og dúkkur sem höfðu verið teknar með í leiðangurinn - í helförina.
Það verður enginn samur eftir að hafa komið á þennan stað.
Ferðalög | Breytt 16.4.2015 kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Farin af landi brott ...
17.10.2008 | 12:02
... til Póllands. Sit nú og bíð þess sem verða vill varðandi flugáætlunina, brottförinni var seinkað um fjóra tíma.
Ég var svo heppin að eiga svolítinn gjaldeyri inni á reikningi sem ég hef nú kroppað út úr bankanum. Það er auðvitað undarlegt að þurfa að standa auðmjúkur á svip með farseðla í hönd og biðja um að fá að taka út sína eigin peninga. En svona er þetta nú samt.
Ef ég hefði ekki átt þessa aura, hefði ég auðvitað ekkert farið í þessa ferð, því ekki dettur manni í hug að kaupa gjaldeyri eins og á stendur. En ... við vorum fyrir löngu búin að borga sjálfa ferðina, þannig að ... við ætlum bara að skella okkur. Verðum í Kraká.
Það er ágætt að yfirgefa landið í nokkra daga núna - komast í burtu og sjá eitthvað annað en fallandi útvalsvísitölur, gröf yfir gengissveiflur og fréttir af atvinnuleysi og verðbólgu. Segi það satt.
Ætla að vera í bloggfríi á meðan - en þið sem kíkið inn á síðuna mína getið dundað ykkur við að skoða þessa upprifjun Kastljóssins á útrásarævintýrinu (smellið hér).
Svo er bara um að gera að berja sér á brjóst og minnast þessa að um æðar okkar rennur blóð stoltra bænda, sjómanna og víkinga aftur í aldirnar. Við kreppum hnefana þegar á móti blæs, bönkum á brjóstkassann ... og svo ... banka - kreppa - banka - kreppa ...
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Ruslið í Reykjavík
26.9.2008 | 14:42
Síðustu daga hef ég verið að sinna vinnu og ýmsum erindum í Reykjavík. Þetta eru auðvitað blautir og vindasamir haustdagar þegar lauf fýkur af greinum og svosem ekki við því að búast að götur borgarinnar skarti sínu fegursta. Enda gera þær það ekki.
Hvert sem litið er blasir við pappírsrusl, matarleifar, blautir vettlingar, dósir. Sérstaklega er ástandið ömurlegt í kringum JL-húsið og Ánanaustin í Vesturbæ. Á Holtsgötunni eru pizzukassar, smokkar og skítugar nærbuxur að velkjast um á götunni. Á göngustígnum sem liggur meðfram sjónum í átt að Seltjarnarnesi hef ég gengið fram hjá gegnblautri sæng ásamt matarleifum og ýmsu ógeðfelldu rusli síðustu daga. Enginn þrífur þetta. Það fýkur bara um og treðst undir fótum manna innanum fölnuð haustlauf sem fylla allar göturennur og liggja meðfram húsum. Því miður hef ég ekki verið með myndavélina meðferðis, en þessi mynd sem ég tók af veraldarvefnum er engu að síður lýsandi fyrir það sem ég er að tala um.
Hvar er hreinsunardeild borgarinnar?
Já, vel á minnst: Í erlendum borgum sér maður yfirleitt götusópara að störfum við fjölfarna staði. Ég hef aldrei séð götusópara á Íslandi. Kannski er tími til kominn að ráða eins og eina herdeild af götusópurum til þess að þrífa til á götum borgarinnar - gera það að átaksverkefni í nokkra mánuði að taka til og þrífa.
Íslendingar virðast vera sóðar - og ekki kennum við uppvaxandi kynslóð að ganga vel um borgina ef við göngum ekki betur um hana sjálf en raun ber vitni. Hér þarf átak.
Já, það þarf allsherjar hreingerningu í Reykjavík.
Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur?
8.9.2008 | 10:43
Þetta hafa verið ógleymanlegir dagar - helgaðir vinum, samverkafólki, ástvinum og félögum, samtals á þriðja hundrað manns sem gerði sér ferð vestur að Núpi í Dýrfirði til þess að vera með okkur Sigga og samfagna fimmtugsafmælum okkar og silfurbrúðkaupi um helgina.
Veislan bar þessu fólki öllu vitni, enda einvalalið sem steig á stokk og skemmti afmælisbörnunum - og einvalalið sem skemmti sér í sætum sínum og tók undir með hlátri og söng. Allt fór þetta fram undir styrkri stjórn Halldórs Jónssonar veislustjóra og blaðamanns m.m. sem með sínum einstaka húmor hélt samkvæminu við efnið af stakri snilld.
Eins og við mátti búast var mikið sungið. Tveir kórar - Sunnukórinn og Valkyrjurnar - tróðu upp með miklum bravör og fjöri. Hljómsveitin Melneiophrenia sem kom sérstaklega sunnan úr Reykjavík til að heiðra tilefnið, vakti verðskuldaða athygli og gladdi okkur mjög. Stefanía Svavarsdóttir - sigurvegari Samfés - geypilega efnileg söngkona, aðeins sextán ára gömul, sló algjörlega í gegn. Magga vinkona færði mér málverk eftir sjálfa sig sem gæti heitið "Sjáðu jökulinn loga" - mjög falleg mynd. Að sjálfsögðu brá hún Óðni Valdimarssyni á fóninn af því tilefni og allur salurinn tók undir með honum: Ég er kominn heim!
Margar góðar ræður voru fluttar - vænst þótti mér um ræðuna hennar Halldóru systur sem var sérlega kærleiksrík (ég tala nú ekki um ljóðið eftir hana sem beið svo falið inni í pakka). Nonni Baddi, systursonur minn, sýndi og sannaði að hann er mikill húmoristi. Síðast en ekki síst vil ég nefna barnahópinn minn sem í lok dagskrár fluttu í sameiningu frumsamið lag til okkar foreldra sinna, sem Saga söng við undirleik bræðra sinna, Hjörvars og Péturs. Hún klykkti svo út með því að dansa fyrir mannskapinn.
Að lokum stigu á stokk þrír fyrrverandi nemendur mínir úr Menntaskólanum undir forystu síns gamla tónlistar-mentors Kristins Nielssonar og trylltu mannskapinn með Stones-syrpu. Síðan var dansinn stiginn til kl. 04.
Margir lögðu á sig langa ferð til að vera með okkur. Saga dóttir mín flaug milli landa og fékk lítinn svefn - þurfti að vera mætt á Keflavíkurflugvöll fáum klst eftir að hún kom akandi suður aftur úr afmælinu. Föðurbróðir minn og hans kona - fólk á níræðisaldri - lét sig ekki muna um að koma akandi frá Reykjavík til að taka þátt. Og það gerðu þau svikalaust, stigu svo dansinn til kl. tvö um nóttina.
Önnur kær vinahjón komu sömu leið þrátt fyrir annríki, en urðu svo að rífa sig upp kl fimm um morguninn til að vera komin í flug um miðjan næsta dag vegna opinbera skyldustarfa erlendis. Þau fengu fjögurra tíma svefn hið mesta - en létu sig hafa það til að gera samglaðst okkur.
Systir mín elskuleg lét þetta líka ganga fyrir öðrum skyldum og kom með alla fjölskylduna þó hún þyrfti að fara til baka snemma næsta dag til að taka á móti sláturbílnum heim á bæ síðdegis í gær.
Og svipaða sögu má segja af ýmsum sem settu þetta í forgang hjá sér að koma vestur og vera með okkur.
Við erum öllu þessu fólki af hjarta þakklát. Og mikið lifandis skelfingar ósköp var gaman að skemmta sér með því öllu á laugardagskvöldið.
Og hér sjáið þið svo þann hluta kjarnafjölskyldunnar sem sá sér fært að mæta í myndatöku s.l. vor. Þarna vantar Sögu og Dodda (sem er kominn með sína eigin fjölskyldu) - þau voru bæði í afmælinu. Það var Maddý hins vegar ekki, en hún er á myndinni. Dæmigert fyrir þennan fjölskylduhóp sem hefur í svo mörgu að snúast. En svona er lífið
Ferðalög | Breytt 12.9.2008 kl. 19:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Nú er komið að því ...
3.9.2008 | 11:00
Þessa dagana er líf mitt undirlagt af undirbúningi fimmtugsafmælisveislunnar okkar Sigga, sem verður á laugardaginn á Hótel Núpi í Dýrafirði - gamla heimavistarskólanum þar sem ég eyddi fimmtánda aldursárinu mínu, óþekk unglingsstelpa veturinn 1973-74. Nú hefur Núpur fengið nýtt hlutverk. Þar er nú starfrækt myndarlegt hótel sem um næstu helgi verður undirlagt af gestum sem ætla að samfagna okkur hjónunum yfir kvöldverði.
Það er ekkert smá mál skal ég segja ykkur að raða 250 manns til borðs þannig að allir komist þokkalega fyrir - ég hefði ekki trúað því að óreyndu. En það ætlar að hafast.
Og nú er eins gott fyrir vegagerðina að standa sig - það eru 100 manns á leiðinni vestur.
Já, það er í mörg horn að líta. Nú hef ég mestar áhyggjur af því að einhverjir muni dúkka upp sem ekki hafa látið mig vita af komu sinni. Það vil ég að sjálfsögðu ekki, því ég er Meyja, og meyjur þola ekki óvæntar uppákomur. Ég er altso búin að raða til borðs, og þar við situr. Þeir sem ekki hafa boðað komu sína eiga vinsamlegast ekki að mæta í kvöldmatinn. En þeir eru að sjálfsögðu velkomnir eftir borðhaldið. Þá verður barinn opnaður og slegið upp balli.
Það var 8. september fyrir hálfri öld sem þetta fljóð sem hér heldur á penna leit fyrst dagsins ljós á Landspítalanum í Reykjavík. Ég fór fljótlega að brosa framan í heiminn sem yfirleitt hefur brosað á móti - að minnsta kosti stundum alltaf eins og börnin segja.
Margt hefur á mína daga drifið síðan og allt hefur það mótað mig sem manneskju, sorfið mig og slípað. Þess vegna er það nú sem ég ætla að halda upp á þennan æviáfanga með pompi og prakt - og við hjónin saman - því Siggi varð líka fimmtugur fyrir skömmu. Auk þess eigum við 25 ára hjúskaparafmæli á þessu ári, svo það er eiginlega margfalt tilefni til að slá upp veislu og hitta fólk: Fólkið sem stendur næst okkur; fólkið sem er samverkamenn okkar; vinir og jafnvel fjandvinir. Þetta fólk hefur allt haft áhrif á líf okkar með einhverjum hætti - og þess vegna viljum við vera með því af þessu tilefni. Þakka því í huganum og með samverunni fyrir að hafa orðið á vegi okkar og rölt með okkur um lengri eða skemmri veg.
Það skyggir svolítið á gleðina að Maddý dóttir okkar verður ekki með okkur - hún er í stífu arkitektanámi úti í Danmörku og á þess engan kost að komast heim. Við munum sakna hennar. Hér sjáið þið mynd af okkur mæðgunum saman.
En það verður gaman að hitta alla hina. Og nú falla öll vötn til Dýrafjarðar!
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Það sem höfðingjarnir hafast að ...
29.8.2008 | 14:36
Ekki alls fyrir löngu hvatti Geir Haarde almenning til aðhalds í peningamálum vegna versnandi efnahagsástands (sjá hér ). Í opinberum ummælum ráðamanna og atvinnurekenda um kjaraviðræður er hamrað á því að fólk verði að sýna nægjusemi í erfiðu árferði. Á sama tíma sjáum við og heyrum í fjölmiðlum um milljónaútlát vegna ferðalaga einstakra ráðherra sem fara með fríðu föruneyti á Ólympíuleikana, ekki einu sinni heldur tvisvar. Við heyrum af rándýrum boðsferðum ráðamanna í laxveiðiár og lesum í tekjuyfirliti Frjálsrar verslunar um stjórnendur í fjármálageiranum sem hafa tugi milljóna á mánuði í laun.
Er nema von þó að almenningi sé um og ó?
Í ljósi þessarar umræðu er svolítið vandræðalegt að lesa varnarræðu Sigurðar Kára Kristjánssonar á bloggsíðu hans í dag. Þar ber hann í bætifláka fyrir menntamálaráðherra sem hefur sætt harðri gagnrýni fyrir mikinn ferðakostnað vegna Ólympíuleikanna. Sigurður Kári beitir því bragði að reyna að draga forsetann inn í umræðuna, augljóslega ergilegur yfir því að fólk skuli ekki beina athyglinni að honum en hlífa flokkssystur Sigurðar Kára, menntamálarðaherranum. Sá er þó munur á að forseti Íslands er þjóðhöfðingi, kjörinn af þjóð sinni til þess að vera fulltrúi hennar á alþjóðavettvangi. Ráðherra hins vegar er yfirmaður tiltekins málaflokks í umboði alþingis. Á þessu er allverulegur munur. Forsetahjónin voru tvö í för - í föruneyti menntamálaráðherra voru fjórir að ráðherra meðtöldum.
"Það sem höfðingjarnir hafast að - hinir ætla að þeim leyfist það" segir máltækið. En satt að segja, held ég að engum venjulegum manni dytti þó í hug að fara tvær opinberar ferðir á einn og sama viðburðinn við fjórða mann. Sannleikurinn er nefnilega sá að venjulegu fólki dettur ekki svona bruðl í hug. Þetta er ekki veruleikinn sem almenningur býr við í eigin aðstæðum.
Þeir sem mæla svona óráðsíu bót eru einfaldlega ekki í tengslum við raunveruleg kjör almennings. Þannig er nú það.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)