Færsluflokkur: Menning og listir
Góð messa á fallegum degi
28.5.2007 | 14:49
Það rættist úr helginni - svei mér ef það er ekki bara að koma vor.
Hvítasunnudagurinn í gær skein á himni "skír og fagur" eins og segir í sálminum góða. Ég mætti í fermingarmessu á Suðureyri og söng þar eins og herforingi með kirkjukórnum. Það gekk bærilega. Séra Karl V. Matthíasson hljóp í skarðið fyrir sóknarprestinn (sem var sjálfur að ferma sitt eigið barn í annarri sókn) og kom nú í sitt gamla prestakall - þangað sem hann vígðist sjálfur til prests fyrir 20 árum. Vel messaðist séra Karli og fallega fermdi hann börnin fjögur.
Það er ekki öllum prestum gefið að messa þannig að stundin lifi í sál og sinni eftir að henni er lokið. En séra Karl hefur einstaklega persónulega og hlýlega nærveru - og hann heldur nærverunni þótt kominn sé í fullan messuskrúða. Hann gerði þetta vel.
Ég hef ekki komið áður í Suðureyrarkirkju. Þetta er falleg lítil kirkja - og það var gaman að fá að vera með í þessari helgistund á sannkölluðum "drottins degi" - takk fyrir mig.
Kirkjukórskonan ... enginn veit sína ævina
23.5.2007 | 11:12
Enginn veit sína ævina ... segir máltækið, og sannast á mér þessa daga.
Haldið ekki að ég sé komin í kirkjukór - að vísu bara sem íhlaupamanneskja þessa vikuna, svona rétt til þess að bjarga málum í fermingarmessunni sem framundan er í Suðureyrarkirkju á Hvítasunnudag. En það er sama - aldrei hélt ég að ég ætti eftir að taka mér stöðu í kirkjukór Suðureyrar í Súgandafirði. En þau voru í svolitlum vandræðum vegna mannfæðar - aðeins ein kona í altinni - og kórinn verður ekki nema svona 8-10 manns, svo ég sagði auðvitað já við erindinu. Og nú er eins gott að standa sig.
Það kom auðvitað í ljós á fyrstu æfingu að ég þekkti ekki nema helming sálmanna - og hef ekki sungið altröddina við nema einn. Ekki bætti úr skák að nóturnar eru með allt öðrum textum en þeim sem sungnir verða, þannig að ég er þessa dagana í hörðu textanámi til þess að geta fylgt nótunum í messunni (án þess að þurfa samtímis að finna texta neðar á blaðinu - en það er ekkert grín skal ég segja ykkur). Svo eru messusvörin - og þetta er svo metnaðarfullt fólk að það ætlar að sjálfsögðu að radda þau líka! Jamm ... ég hef nóg að gera í þessu fram að helgi.
Annars hefur sönglíf mitt verið óvenju fjörugt að undanförnu. Ég söng með á tónleikum Sunnukórsins á Ísafirði fyrir viku og svo með kvennakórnum Vestfirsku valkyrjunum á laugardaginn. Í síðara tilvikinu sungum við nokkur lög á samtónleikum með Árnesingakórnum sem haldnir voru í Ísafjarðarkirkju. Um kvöldið var samfagnaður þessara tveggja kóra yfir borðhaldi með miklum söng og skemmtilegheitum. Frábær kvöldstund - og skemmtilegt fólk þessi Árnesingakór.
Framundan er svo tveggja vikna tónleikaferð með Sunnukórnum til Svíþjóðar, Finnlands og Eistlands um miðjan júní. Munum m.a. syngja í hellakirkjunni í Helsinki. Það er mikið tilhlökkunarefni.
En næst á dagskrá er það semsagt fermingarmessan á Suðureyri á Hvítasunnudag. Er búin að læra Hvítasunnusálminn (Skín á himni skír og fagur...). Næst er það "Legg þú á djúpið ..." og röddunin við "Heilagur, heilagur" í messusvörunum. Úff!
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Söngvakeppni (austur) Evrópskra sjónvarpsstöðva
10.5.2007 | 22:30
Þetta var með ólíkindum. Öll lélegustu lögin komust áfram. Meira að segja Tyrkland - sú rauðgljándi, iðandi hörmung. Það vantaði bara ALBANÍU til þess að kóróna ósköpin.
Og sáuð þið landafræðina í þessu? Balkan og Austur Evrópa!
Nei, þetta er ekki lengur söngvakeppni sem endurspeglar evrópska tónlistarmenningu - ekki fyrir fimm aura. Þetta er að verða hálfgert strip-show með flugeldasýningum og lafmóðu fólki sem heldur sumt ekki einusinni lagi fyrir látum. Við höfum ekkert í þetta að gera - hreint ekki neitt.
Eigum bara að hætta þessu.
En Eiki var góður - rokkaður reynslubolti, flottur á sviðinu og söng eins og hetja. Hann er eins og Burgundi-vínin, batnar með árunum.
Ísland komst ekki í úrslit Eurovision | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Hefðirnar og tæknin
9.4.2007 | 12:59
Tæknin er ótrúleg. Fyrir þessa páska gerði ég tvo þætti um kveðskap, þulur og þjóðlagahefð. Þeir voru fluttir í útvarpinu með viku millibili, sá fyrri 1. apríl, sá síðari í morgun.
Fyrir fáum árum hefði maður þurft að sitja um að heyra tiltekinn þátt í útvarpi. Og ef maður missti af honum varð maður að vona að hann yrði endurfluttur við tækifæri. Fólk á mínum aldri man sjálfsagt vel eftir "Lögum unga fólksins" sem voru flutt kl. 21:00 á miðvikudagskvöldum árum saman. Þá sátu unglingar landsins límdir við útvarpið. "Óskalög sjómanna" og "óskalög sjúklinga" áttu líka sínar stundir, og fyrir kom að maður beit á vör yfir að missa af þætti.
Nú eru aldeilis aðrir tímar. Þættirnir hafa ekki fyrr verið fluttir í útvapinu en þeir eru komnir á netið, og þar getur maður tengt inn á þá, t.d. af bloggsíðunni sinni, eins og ég er skemmta mér við að gera núna.
Já, tæknin hefur opnað ótrúlega möguleika á því að varðveita og miðla efni af margvíslegu tagi. Mér er málið skylt þar sem ég sýsla við gamlar hefðir og fræði. Satt að segja finnst mér sem það hafi orðið bylting í möguleikum menningarmiðlunar með tölvutækninni. Og það er vel.
Reyndar er sá galli á gjöf Njarðar varðandi heimasíðu RÚV, að hver þáttur fær ekki að vera á netinu nema tvær vikur. Hlekkirnir sem ég setti inn hér ofar munu því renna út 14. og 23. apríl. Þau ykkar sem áhuga hafið á að forvitnast um gamla kvæðahefð, þjóðlög og þulur, hvet ég til þess að smella á hlekkina fyrir þann tíma, og leggja við hlustir
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fuglar himinsins og helgidagalöggjöfin
7.4.2007 | 13:03
Loksins lét ég verða af því að mæta hjá Ólöfu Nordal, myndlistarkonu, til þess að gera mína eigin leirlóu í altaristöfluna sem sett verður upp í Ísafjarðarkirkju í sumar. Við hjónin drifum okkur á verkstæðið í Vestrahúsinu síðdegis í gær og gerðum hvort sinn fuglinn. Mín lóa er nr. 707 og hans nr. 708. Þetta var ótrúlega gaman - þarna sá maður leirfugla í hundraða tali. Sumir báru með sér að vera gerðir af áköfum barnahöndum, aðrir voru haganleg smíði, og svo allt þar á milli. Eftir handverkið skráði maður nafn sitt í bók þar sem númer fuglsins kemur fram, og hér eftir getur maður dundað sér við - ef maður missir athygli prédikarans í kirkjunni - að finna fuglinn sinn í altaristöflunni.
Sagan sem varð kveikjan að þessu listaverki er svona: Þegar Jesú var lítill drengur fór hann að dunda sér við það á sunnudegi að búa til leirfugla - það voru lóur. Farísearnir komu að honum heldur þungir á brún og töldu það helgispjöll að vinna slíkt verk á sunnudegi. Ætluðu þeir að uppræta ósómann og brjóta fyrir honum fuglana. En í þann mund flugu fuglarnir til himins með fjaðrabliki og söng.
Mér kom í hug helgidagalöggjöfin, þegar ég heyrði þessa sögu. Í kvöldfréttunum í gær var sagt frá fólki sem ákvað að spila bingó á Austurvelli til þess að mótmæla skemmtanabanni föstudagsins langa. Lögreglan var á vappi í námunda og fylgdist með, en hafðist ekki að. Og hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að auðvitað var fólkið ekkert að gera af sér - samt var það að brjóta lögin. Leiðinleg klemma fyrir laganna verði að vera settir í þessa stöðu. Þeir hefðu sjálfir raskað helgidagafriðnum ef þeir hefðu farið að handtaka fólkið sem sat þarna með börnin sín og spilaði bingó. Fyrir vikið gerði löggan ekkert (sem betur fer) en braut um leið eigin starfsskyldur. Fáránleg staða.
Því skyldi fólk ekki mega gera sér glaðan dag á helgidegi? Gera eitthvað skapandi, eða bara skemmtilegt? Það þarf augljóslega að endurskoða þessa löggjöf.
Flest erum við hlynnt því að samfélagið haldi í heiðri reglur sem tryggja rétt fólks til þess að eiga "helga" daga. Þá er ég ekki að tala um hástemmda andaktuga daga, tileinkaða trúarlífi sem einungis hluti þjóðarinnar virðir í reynd, heldur daga sem fólk hefur fyrir sjálft sig: Daga helgaða friðsemd, afþreyingu eða hvíld frá daglegu amstri, daga þar sem fólk ráðstafar tíma sínum sjálft. Bann við ákveðnum tegundum skemmtana tryggir enga "helgi". Það er ekkert verra að spila bingó heldur en fara á skíði, fara á tónleika eða móta leirlóur á föstudaginn langa.
Lög samfélagsins eru ekki náttúruögmál - það þarf alltaf að vaka yfir þeim, endurskoða þau og bæta í takt við samfélagsþróunina. Og nú er sennilega kominn tími á helgidagalöggjöfina.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)