Færsluflokkur: Samgöngur
Súðavíkurgöng
5.4.2013 | 08:17
Í janúar varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að leggja fram fyrsta þingmálið sem flutt hefur verið á Alþingi um ný jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar. Fékk ég til liðs aðra þingmenn Norðvesturkjördæmis sem eru meðflutningsmenn mínir á þingsályktunartillögu um að Súðavíkurgöng verði næstu jarðgöng á eftir Dýrafjarðargöngum. Lagt er til að jafnhliða verði efldar snjóflóðavarnir á Kirkjubóls- og Súðavíkurhlíðum allt þar til jarðgangagerðinni er lokið. Er þá einkum horft til stálþilja, víkkunar rása og grjótvarnarneta.
Vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er helsta samgönguæð þeirra sem þurfa að komast landleiðina að og frá Ísafirði, Bolungarvík, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri yfir vetrarmánuðina. Íbúar Súðavíkur þurfa enn fremur að sækja mest alla grunnþjónustu til Ísafjarðar um þennan veg. Í því ljósi má furðu sæta að Súðavíkurgöng skuli aldrei hafa komist inn á samgönguáætlun og að aldrei skuli hafa verið flutt þingmál þar um fyrr en nú.
Þingsályktunartillagan náði ekki fram að ganga fyrir þinglok og það voru vonbrigði. Það verður því verkefni þingmanna kjördæmisins á næsta kjörtímabili að tryggja framgang málsins. Ekki mun skorta stuðning heimamanna, því undirtektir hafa verið mjög góðar hér á heimaslóðum. Það sáum við til dæmis þegar hópur fólks kom saman á Súðavíkurhlíðinni í gær til áréttingar kröfunni um jarðgöng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar. Við það tækifæri var hrundið af stað undirskriftasöfnun á netinu á síðunni www.alftafjardargong.is þar sem skorað er á stjórnvöld að hefja rannsókn og undirbúning að jarðagangagerðinni hið fyrsta. Á síðunni er réttilega minnt á að þjóðvegurinn um Súðavíkurhlíð í Álftafirði og Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði er talinn einn hættulegasti vegur landsins. Þetta kom átakanlega glöggt í ljós í ofviðrinu sem gekk yfir Vestfirði skömmu fyrir síðustu áramót þegar fjöldamörg snjóflóð féllu á þessari leið á fáeinum dögum, m.a. úr 20 af 22 skilgreindum snjóflóðafarvegum í Súðavíkurhlíð. Tepptust þar með allar bjargir og aðföng til og frá Ísafirði, Bolungarvík, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Aðstæðurnar sem þarna sköpuðust eru með öllu óásættanlegar fyrir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum.
Vestfirðingar verða að standa vel saman í samgöngumálum sínum - það hefur reynslan kennt okkur. Nægir að nefna Dýrafjarðargöng. Þau voru talin brýnasta jarðgangaframkvæmdin á fyrstu jarðgangaáætlun vegagerðarinnar fyrir mörgum árum, en voru við upphaf þessa kjörtímabils komin aftur til ársins 2022 á þágildandi samgönguáætlun. Sem fulltrúi í samgöngunefnd þingsins gekk ég í það ásamt fleiri þingmönnum kjördæmisins að koma Dýrafjarðargöngum aftur á dagskrá og fá þeim flýtt. Það tókst og samkvæmt núgildandi áætlun á þeim að ljúka 2018. Má þakka það einarðri samstöðu í þingmannahópi Norðvesturkjördæmis, því hún skipti sköpum. Nú er brýnt að frá þessu verði hvergi hvikað.
Á framkvæmdatíma Dýrafjarðarganga ((2015-2018) þarf að nota tímann vel og undirbúa næstu brýnu samgöngubót - þá samgöngubót sem mikilvægt er að verði næst í röðinni. Það eru Súðavíkurgöngin.
Ofviðrið og afleiðingar þess - aðgerða er þörf
26.1.2013 | 11:42
Um síðustu áramót gekk ofviðri yfir norðvestanvert landið, með þeim afleiðingum að allar leiðir til og frá helstu þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum tepptust vegna fjölda snjóflóða. Rafmagn fór af fjölmörgum byggðum allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga. Rafmagnsleysið olli því meðal annars að síma og fjarskiptasamband lagðist af um tíma, þ.á.m. tetra-kerfið sem almannavarnir, lögregla og björgunarsveitir reiða sig á í hættuástandi.
Í veðrinu afhjúpuðust m.ö.o. alvarlegir veikleikar í samgöngu-, raforku- og fjarskiptakerfum Vestfirðinga.
Dómínóáhrif
Það sem við var að eiga voru samverkandi þættir dómínóáhrif. Óveður teppti samgöngur sem olli því að bjargir komust hvorki til né frá og ekki var hægt að gera við bilaðar rafmagnslínur. Rafmagnsleysi olli röskun á vöktun og fjarskiptum sem ofan á annan upplýsingaskort olli alvarlegu öryggisleysi með tilliti til almannavarna. Einungis munaði fáeinum mínútum að allir Vestfirðir yrðu alveg fjarskiptasambandslausir. Með öllu óásættanlegt sögðu fulltrúar neyðarlínu og almannavarna á fundi sem ég kallaði til í umhverfis og samgöngunefnd nokkrum dögum síðar með yfirmönnum samgöngu, raforku, og fjarskiptamála auk fulltrúa frá neyðarlínu og almannavörnum.
Umrædda daga var því ekki aðeins hættuástand á Vestfjörðum í raun og veru ríkti þar neyðarástand um tíma.
Sú óásættanlega staða sem þarna skapaðist getur hvenær sem er skapast aftur. Við Íslendingar höfum nú á fáum mánuðum fengið óveður af þeim toga sem einungis þekktust með ára millibili hér áður fyrr. Veðuröfgar verða æ tíðari en kerfið í dag er hið sama og það var um jólin. Það er slíkt áhyggjuefni að þing og ríkisstjórn hljóta að endurskoða nú framkvæmdahraða, verkefnaröð og áætlanir varðandi alla þá þætti sem þarna brugðust, samgöngur, raforku og fjarskipti.
Flóðavarnir og jarðgöng
Eitt það fyrsta sem kemur upp í hugann er flýting Súðavíkurganga svo þau geti orðið næsta jarðgangaframkvæmd á eftir Dýrafjarðargöngum. Ég vænti þess líka á meðan beðið er eftir jarðgöngum að lagt verði ofurkapp á að koma upp viðunandi snjóflóðavörnum á Kirkjubóls og Súðavíkurhlíð.
Þeir atburðir sem urðu um áramótin voru viðvörun. Til allrar hamingju hlaust ekki manntjón eða óbætanlegur skaði af. En það væri óafsakanlegt ábyrgðarleysi að láta sér ekki þetta að kenningu verða. Óhjákvæmilegt er að endurskoða nú áætlanir í samgöngu-, raforku- og fjarskiptamálum Vestfirðinga.
Það gengur ekki að allar leiðir til og frá höfuðstað Vestfjarða, séu lokaðar dögum saman vegna snjóþyngsla og snjóflóðahættu, líkt og gerist núorðið á hverjum vetri, og gerðist einnig að þessu sinni. Súðavíkurhlíðin er snjóflóðakista sem lokast iðulega þegar ofankoma verður meiri en í meðallagi. Vegurinn um Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð inn Djúp er helsta samgönguæð íbúa sex þéttbýlisstaða (Bolungarvíkur, Ísafjarðar, Þingeyrar, Flateyrar, Suðureyrar og Súðavíkur) við þjóðvegakerfið yfir vetrarmánuðina.
Þekkt eru 22 snjóflóðagil á þessari leið. Íáramótaveðrinu komu flóð úr 20 þeirra.
Þetta sýnir að Súðavíkurgöng verða að komast á teikniborðið hið fyrsta, og inn á samgönguáætlun strax í framhaldi af Dýrafjarðargöngum. Um leið blasir við að nú dugir ekki lengur að tala og þæfa um aðgerðir í raforku- og fjarskiptamálum Vestfirðinga nú þurfa verkin að tala.
Afleiðingar ofsaveðurs - skýringa er þörf
3.1.2013 | 17:38
Veðurofsinn sem gekk yfir Vestfirði nú um hátíðarnar afhjúpaði alvarlega veikleika í raforku, samgöngu- og fjarskiptamálum okkar Vestfirðinga. Af því tilefni hef ég nú þegar óskað eftir sérstakri umræðu í þinginu um raforkumál Vestfirðinga og mun fara þess á leit að yfirmenn samgöngu og fjarskiptamála verði kallaðir til fundar við umhverfis- og samgöngunefnd til þess að skýra fyrir nefndinni hvað gerðist, og hvaða áætlanir séu uppi um að hindra að annað eins endurtaki sig.
Vestfirðingar geta ekki unað því lengur að vera svo berskjaldaðir sem raun ber vitni þegar veðurguðirnir ræskja raddböndin af þeim krafti sem nú varð, hvorki varðandi raforkumál, fjarskipti né samgöngur. Það gengur ekki öllu lengur að allar leiðir til og frá höfuðstað Vestfjarða séu lokaðar dögum saman vegna snjóþyngsla og snjóflóðahættu, líkt og gerðist að þessu sinni (og ekki í fyrsta sinn). Súðavíkurhlíðin er snjóflóðakista sem lokast iðulega þegar ofankoma verður meiri en í meðallagi - en þessi vegur er helsta samgönguæðin milli Ísafjarðar og umheimsins yfir vetrarmánuðina. Að þessu sinni varð vart komið tölu á fjölda þeirra flóða sem féllu á veginn á fáeinum dögum. Þetta sýnir að jarðgöng milli Engidals og Álftafjarðar verða að komast á teikniborðið hið fyrsta, og inn á samgönguáætlun strax í framhaldi af Dýrafjarðargöngum, og þetta þarf að ræða við fyrsta tækifæri á vettvangi þingsins.
Þá getum við ekki unað því að fjarskipti fari svo úr skorðum sem raun bar vitni, bæði GSM kerfið og Tetra-kerfið sem almannavarnirnar reiða sig á, bæði björgunarsveitir og lögregla.
Þá finnst mér Orkubú Vestfjarða skulda Vestfirðingum skýringar á því hvers vegna fjórar varaaflsstöðvar voru bilaðar þegar á þurfti að halda, þar af tvær stöðvar á Ísafirði. Varaaflsstöðvarnar eru vélar sem þarfnast eftirlits, viðhalds og álagsprófunar. Eitthvað af þessu þrennu hefur farið úrskeiðis, og stjórnendur fyrirtækisins þurfa að skýra betur hvað gerðist. Enn fremur þarf að skýra það fyrir Vestfirðinum, almannavörnum og fleiri aðilum hvað fór úrskeiðis í upplýsingagjöf fyrirtækisins til íbúa á svæðinu.
Orkubú Vestfjarða er fyrirtæki í almenningseigu þannig að Vestfirðingar eru ekki einungis viðskiptavinir fyrirtækisins heldur einnig eigendur þess. Það hlýtur að vekja furðu að ekki skyldu strax gefnar út tilkynningar í gegnum almannavarnir um það hvað væri í gangi í rafmagnsleysinu. Fólk sat í köldum og dimmum húsum tímunum saman án þess að vita nokkuð. Það er ekki nóg að setja ótímasettar tilkynningar inn á heimasíðu fyrirtækisins, þegar rafmagnsleysi ríkir liggur netsamband að mestu niðri. Tilkynningar í gegnum almannavarnir til útvarpshlustenda og í GSM síma hefðu þurft að berast. Svör orkubússtjóra um að "panik og kaos" hafi skapast vegna veðurhamsins eru ekki fullnægjandi að mínu viti, því þessu veðri var spáð með góðum fyrirvara.
Þessi uppákoma afhjúpaði að mínu viti svo alvarlega veikleika í kerfinu að það þarfnast nánari skoðunnar, m.a. á vettvangi þingsins. Ég tel því óhjákvæmilegt að farið verði vel yfir þessi mál í þinginu strax að loknu jólaleyfi.
Byggðaröskun er ekki náttúrulögmál
18.11.2012 | 20:05
Það er gott að búa úti á landi, í námunda við hreina náttúru, í göngufæri við vinnustað og skjóli umhyggjusams nærsamfélags. En þessi lífsgæði kosta sitt.
Húshitun á köldum svæðum er margfalt dýrari en í Reykjavík. Það er mannleg ákvörðun. Vöruverð er umtalsvert hærra vegna flutningskostnaðar - því er hægt að breyta.
Samöngur, raforkuöryggi, gott internetsamband: Allt eru þetta forsendur þess að atvinnulíf og byggð fái þrifist og dafnað - og allt eru þetta mannlegar forsendur sem hægt er að breyta, ef vilji og heildarsýn eru fyrir hendi.
Höfuðborgin aflar 42% ríkistekna, en hún eyðir 75% þess sem kemur í ríkiskassann. Það er ekki náttúrlögmál.
Þróunin á landsbyggðinni er afleiðing ákvarðana, t.d. þeirrar ákvörðunar að afhenda fiskveiðiauðlindina útvöldum hópi og færa þeim óðalsrétt að þjóðarauðlind án eðlilegs endurgjald til samfélagsins. Af þeirri ákvörðun hefur hlotist mikil atvinnu- og byggðaröskun. Hin margrómaða hagræðing útgerðarinnar varð á kostnað samfélagsins - byggðarlögin borguðu. Daginn sem skipið er selt í hagræðingarskyni eða útgerðarmaðurinn selur kvótann og fer með auðævi sín úr byggðarlaginu, situr eftir byggð í sárum: Atvinnulaust fólk með verðlitlar fasteignir sem kemst hvergi, en unga fólkið lætur sig hverfa til náms, og kemur ekki aftur. Hvernig byggðinni farnast eftir slíka atburði, er háð öðrum skilyrðum, m.a. samöngum, fjarskiptum og raforkuöryggi - en ekki síður innra stoðkerfi og opinberri þjónustu.
Það þýðir ekki að tala um byggðaröskun sem eðlilega þróun", því þessi þróun er mannanna verk. Hún stafar af ákvörðunum og skilningsleysi misviturra stjórnmálamanna sem í góðærum fyrri tíða misstu sjónar af almannahagsmunum og skeyttu ekki í reynd um yfirlýst stefnumið laga um jafnan búseturétt.
Til þess að jafna stöðu byggðanna þarf einfaldega að taka réttar ákvarðanir, í samgöngumálum, í atvinnu- og auðlindamálum og við uppbyggingu stofnana og þjónustu. Búsetuval á að vera réttur fólks í nútímasamfélagi.
Stefnan er til á blaði í öllum þeim byggða-, samgöngu- og sóknaráætlunum sem til eru, en þeirri stefnu þarf að koma í verk.
Byggðahnignunin er ekki náttúrulögmál - hún er mannanna verk.
Suðurlandsvegur, Vaðlaheiði eða ...
30.6.2009 | 16:17
Nú takast menn á um það hvort samgönguráðherra eigi frekar að leggja áherslu á Sundabraut, breikkun Suðurlandsvegar eða Vaðlaheiðargöng. Já - þeir tala eins og þetta séu valkostirnir.
Nú sýður á mér.
Þeir sem þannig tala vita augljóslega ekki að til eru staðir á landinu þar sem fullnægjandi samgöngum hefur enn ekki verið komið á. Þar sem hið svokallaða "stofnkerfi" er einfaldlega ekki fullfrágengið. Dæmi um það er Vestfjarðavegur sem er eina leiðin út úr fjórðungnum fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegurinn um Dynjandisheiði og Hrafneyrarheiði er auk þess eina tengingin milli byggðarlaganna á norðan og sunnanverðum Vestfjörðum (Patreksfjarðar og Ísafjarðar). Sá vegur er ófær 9 mánuði ársins. Ef Patreksfirðingur á erindi til Ísafjarðar um hávetur, þarf hann að leggja á sig 10 klst. ferðalag um 700 km leið fyrir kjálkann - í stað 2 klst ferðalags yfir heiðarnar um sumartímann. Báðir þessir vegir teljast þó til þjóðvega.
Þegar skorið er niður skiptir miklu að forgangsraða verkefnum. Við forgangsröðun vegaframkvæmda er brýnt að gera greinarmun á því hvort um er að ræða
- Samgöngubætur (að bæta og viðhalda samgöngum sem eru þokkalegar fyrir líkt og víðast hvar á Suðvesturlandi) eða:
- Grunnkerfið sjálft (að koma á viðunandi samgöngum sem eru ekki til staðar að heitið geti (líkt og á Vestfjörðum).
Samfélagslegir þættir eiga að skipta máli við forgangsröðun verkefna á borð við vegaframkvæmdir. Ástand vega getur ráðið úrslitum um það hvort atvinnulíf fær þrifist á sumum stöðum, hvort þar er yfirleitt búandi. Samgöngurnar eru æðakerfið í byggðarlögunum. Ástand veganna getur þannig ráðið úrslitum um líf eða dauða byggðanna í landinu.
Þandi mig aðeins um þetta á Rúv í hádeginu (hlusta hér)
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Ennþá veðurteppt ... skapið þyngist
12.5.2009 | 10:12
Ég er enn þá veðurteppt á Ísafirði - vindinn ætlar seint að lægja.
En þessi færsla er helguð blogg-ósið einum sem lengi hefur farið í taugarnar á mér. Það er hvernig fólk misnotar skilaboðadálkinn sem opnaður hefur verið fyrir bloggvini í stjórnkerfinu.
Í fyrstu var gaman að kíkja á þessa skilaboðaskjóðu, því þangað komu kveðjur og orðsendingar frá öðrum bloggvinum sem ætlaðar voru manni persónulega, eða þröngum hópi bloggvina. Svo fór að bera á því að menn sendu inn tilkynningar um bloggfærslur sínar, ef þeim lá mikið á hjarta. Gott og vel, þá hópuðust bloggvinirnir inn á síðuna hjá viðkomandi. Þetta sumsé svínvirkaði. Og fleiri gengu á lagið. Svo varð þetta of mikið. Nú rignir daglega inn hvimleiðum skilaboðum frá fólki sem er að vekja athygli á eigin bloggfærslum - og hinar orðsendingarnar, þessar persónulegu, drukkna í öllu saman.
Skilaboðaskjóðan er ekkert skemmtileg lengur. Hún er bara smáauglýsingadálkur fyrir athyglisækna bloggara, þar sem hver keppist við að ota sínum tota.
Mjamm .... það verður sjálfsagt ekkert flogið í dag.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Veðurteppt á Ísafirði >:-(
11.5.2009 | 13:50
Nú sit ég veðurteppt á Ísafirði - kemst ekki á þingflokksfund. Horfi út á úfinn og hvítfyssandi fjörðinn á meðan hryssingslegt hvassviðrið hamast á glugganum. Grrr ....
Í morgun var meinleysisveður hér fyrir vestan með hægum andvara. Þá fóru þeir að fresta fluginu vegna "óhagstæðrar áttar" við flugvöllinn. Þeir frestuðu því nógu lengi til að stormurinn næði hingað vestur. Nú er ekkert ferðaveður.
Ætli maður taki ekki bílaleigubíl á morgun - þeir eru að spá áframhaldandi hvassviðri.
Jamm ... svona eru nú samgöngumálin hér á þessum slóðum. Ef ekki er flogið, þá er það 7 klst keyrsla suður til Reykjavíkur.
En ég anda með nefinu - orðin vön.
Þingflokkurinn bjargar sér án mín.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagsmorgunn á landsbyggðinni. Ég fylgist með veðurfréttum.
14.3.2009 | 09:25
Frost og fjúk utan við gluggann minn. Ég horfi út á úfinn fjörðinn hvar sjórinn þyrlast upp í gráa sveipi í hviðunum. Vindurinn gnauðar við mæninn og tekur í húsið.
Í stofusófanum liggur bóndi minn með blaðið frá í gær. Hann er að hlusta á Rás-1 með öðru eyranu. Það er þæfingur og þungfært í Ísafjarðardjúpi- flestar heiðarnar ófærar, segir þulurinn.
Inni í herbergi steinsefur unglingurinn á heimilinu. Hann er kvefaður.
Ketilkannan brakar á eldavélinni og gefur mér til kynna að kaffið sé tilbúið. Við fætur mér liggur hundurinn, rór og áhyggjulaus.
Þetta er laugardagsmorgunn á landsbyggðinni. Við munum fylgjast með veðurfréttum í dag.
Björgunarsveitir að störfum í vonskuveðri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Óréttlætið gagnvart landsbyggðinni
5.3.2009 | 11:45
Ég finn sárt til þess - þar sem ég hef búið á landsbyggðinni undanfarin átta ár - hversu mjög hefur hallað á hlut norðvestursvæðisins þar sem hagvöxtur hefur verið neikvæður og þungt fyrir fæti í svo mörgum skilningi.
Eins og öðrum íbúum svæðisins rennur mér til rifja sá aðstöðumunur sem er á milli þeirra sem búa á suðvesturhorninu og hinna sem búa úti á landi.
Ráðherraræðið í okkar litla landi hefur ekki aðeins grafið undan sjálfstæði Alþingis. Völd og miðstýring ráðuneyta hafa líka grafið undan sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. Það er því ekki nóg með að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar - gjáin er líka djúp milli höfuðborgar og landsbyggðar.
Meðal þess sem hefur hamlað vexti og viðgangi byggðanna á Vestfjörðum eru samgöngurnar. Þar þarf að gera stórátak. Þá er ég ekki bara að tala um vegina, sem eru fjarri því að vera viðunandi. Ég er líka að tala um flugvelli og hafnaraðstöðu sem atvinnulífið þarf svo mjög á að halda vegna aðfanga og vöruflutninga.
Háhraðatengingar og önnur fjarskipti þarf líka að stórbæta svo íbúar svæðisins geti vandræðalaust nýtt sér tækni og fjölbreytta menntunarkosti. Að ég tali nú ekki um raforkuflutninga sem vitanlega eru grunnforsenda allrar þjónustu.
Þetta sem nú er nefnt eru sjálfsagðir hlutir í nánast öllum byggðum landsins - nokkuð sem ekkert samfélag getur verið án.
Fari svo að Samfylkingin verði leiðandi afl í næstu ríkisstjórn mun það verða hlutskipti flokksins að koma að endurreisn samfélagsins á grundvelli jafnaðarstefnunnar. Gleymum því ekki að jafnrétti snýst ekki bara um aðstöðumun einstaklinga heldur líka landshluta og svæða. Eins og málum er háttað njóta íbúar Vestfjarða ekki jafnréttis á við íbúa annarra landshluta.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fjörið að byrja: Sauðárkrókur, Blönduós og Hvammstangi á morgun!
25.2.2009 | 23:54
Jæja, nú fer að færast fjör í leikinn. Á morgun leggja prófkjörsframbjóðendur Samfylkingarinnar af stað í fundaferð um norðvesturkjördæmið. Það segir sitt um samgöngumálin á Vestfjörðum að ég er komin í höfuðborgina til þess að komast norður á Sauðárkrók á morgun. Fyrsti fundurinn verður haldinn þar í hádeginu, síðan er Blönduós kl. 17.30 og svo Hvammstangi kl. 21 um kvöldið.
Á Sauðárkróki bíður okkar níu manna smárúta og í henni verðum við meira eða minna næstu fimm daga sýnist mér. Jamm, það verður transporterað með okkur milli staða sem leið liggur um kjördæmið og endað á Ísafirði 4. mars. Þar með verð ég komin heim til mín á ný.
Hér er prófkjörssíðan mín og hérna er prófkjörssíða kjördæmisins þar sem fundadagskráin kemur skilmerkilega fram.
Þetta verður fjör!
ps: Fallegu myndina hér fyrir ofan tók Ágúst Atlason. Hún er tekin í Önundarfirði.
Samgöngur | Breytt 28.2.2009 kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)