Færsluflokkur: Samgöngur

Bloggað fyrir Vestfirði!

KubburOddurJonsson Ég sé á mínum fyrstu bloggfærslum frá því fyrir tveimur árum, að ég hef upphaflega byrjað að blogga fyrir Vestfirði. Olnbogabarnið sem mér er svo kært og ég hef  nú deilt kjörum með um allnokkra hríð.

Upphaflegur tilgangur minn með því að kveðja mér hljóðs á þessum vettvangi,  var nefnilega sá að koma Vestfjörðum inn í umræðuna og vekja máls á ýmsu sem höfuðborgarbúum er hulið varðandi aðstæður og búsetumál á landsbyggðinni. Tilefnið var alvarleg röskun sem varð í atvinnulífi Ísfirðinga um svipað leyti. Sú staða leiddi til þess að ég og fleiri efndum til borgarafundar undir slagorðinu: Vestfirðir lifi! Við kölluðum þingmenn og ráðherra til fundarins og hleyptum af stað mikilli umræðu um stöðu mála.

Það er nú einhvernvegin þannig að þegar ég er spurð hvers vegna ég vilji búa “þarna fyrir vestan” eins og það er yfirleitt orðað, þá fylgir spurningunni eitthvert fas eða svipur. Þetta er sami svipurinn og kemur á fólk þegar það talar um “fjárstreymið til  landsbyggðarinnar” eins og nauðsynleg byggðaúrræði eru stundum nefnd.

En sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir ýmsa erfiðleika sem dunið hafa yfir þetta landssvæði, er gott að búa hér fyrir vestan. Hér á Ísafirði stendur menning með miklum blóma, sérstaklega tónlistin. Hér er mikil ósnortin náttúra allt um kring og hvergi fegurra á sólbjörtum dögum en við Ísafjarðardjúp.

Við sem viljum búa hér eigum ekki að þurfa að réttlæta þá ákvörðun okkar fyrir neinum. Við eigum einfaldlega að sitja við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að almennum búsetuskilyrðum og atvinnuháttum. Við greiðum okkar skatta og skyldur. Og þrátt fyrir þá röskun sem kvótakerfið hefur valdið hér í sjávarbyggðum, er landshlutinn í heild sinni drjúg uppistaða þjóðartekna.

Nú þegar fer að hitna í kolum fyrir næstu Alþingiskosningar er ekki úr vegi að minna á að það er löngu tímabært að Vestfirðir fái að búa við samskonar samgöngur, fjarskipti, flutningskostnað, menntunarkosti og almenn skilyrði í atvinnulífi og aðrir landshlutar. Að þessi hluti landsins sé samkeppnisfær. Og þó að ýmsu hafi verið þokað áleiðis er mikið ógert enn.

Brýnastar eru framkvæmdir í samgöngumálum og fjarskiptum - en síðast en ekki síst þurfum við: Sanngjarnar leikreglur! Meira um það síðar.

-----

PS: Myndina hér fyrir ofan tók Oddur Jónsson af Kubbanum í Skutulsfirði


Ferðahrakningar um jól

hridarvedurNepalIs Það hefur ekki verið flogið hingað á Ísafjörð síðan 21. desember. Hvassviðri og éljagangur dag eftir dag, og varla hægt að segja að birti á daginn.

Fólkið mitt kom með seinna fluginu á sunnudag þannig að ég get ekki kvartað. En mér verður óneitanlega hugsað til þeirra fjölmörgu sem hafa ekki komist heim um þessi jól eða lent í hrakningum við það. Sjálf þekki ég mætavel slík vandræði af jólaferðalögum vestur á firði - þetta er jú sá tími sem veður gerast vályndust.

Minnisstæðust er mér ferðin sem við Siggi maðurinn minn, Doddi sonur minn og heimilistíkin Snotra, fórum með varðskipinu Tý árið 1980 vestur á Ísafjörð. Við Siggi vorum þá ungir námsmenn í Reykjavík með fimm ára gamalt barn og stefndum vestur til fjölskyldunnar um hátíðarnar. Ekki hafði verið flogið vestur í fjóra daga, komin Þorláksmessa, og búið að aflýsa flugi þann daginn. Í þá daga sat maður einfaldlega á flugstöðinni meðan verið var að athuga flug því ekki var komið textavarp og því síður farsímar. Á flugvellinum myndaðist oft heilmikil stemning, fólk kynntist og tók tal saman um veðurútlit og færðina m.m., en þetta voru þreytandi setur í reykfylltri flugstöðinni innanum óróleg börn, kvíðið fólk og farangur.

Jæja, en þar sem búið var að aflýsa flugi þennan Þorláksmessudag tyr-a-fullu (Medium)brugðum við á það ráð, sem stundum dugði í þá daga, að athuga með ferðir varðskipa. Og viti menn, einhverjir þingmenn þurftu að komast vestur og (þeirra vegna) hafði verið ákveðið að senda skip. Það var pláss fyrir okkur um borð, svo við rukum út í leigubíl og báðum hann að aka í loftköstum niður á höfn. En öldungurinn sem tinaði undir stýrinu taldi nú ýmis tormerki á því, og sennilega hefur engin ökuferð tekið lengri tíma frá Miklubraut að Reykjavíkurhöfn. Þegar þangað var komið var verið að leysa landfestarnar, og við bókstaflega stukkum yfir borðstokkinn úr öðru skipi sem lá við hliðina.

Þetta var skelfileg sjóferð - hún tók 26 tíma. Þegar Siggi og Doddi voru búnir að kasta upp öllu því sem þeir höfðu innbyrt, og lágu hálf meðvitundarlausir í koju sá ég mitt óvænna og fór upp í brú. Þar eyddi ég nóttinni að mestu milli þess sem ég gáði að þeim - og fyrir vikið varð ég ekki sjóveik. Annars urðu nánast allir sjóveikir í þessari ferð. Fólk lá hvert um annað þvert, magnvana af uppköstum og ógleði.  Meira að segja hundurinn ældi. Messadrengurinn, kokkurinn, já allir nema fjórar manneskjur: Skipstjórinn, 1. stýrimaður, þingmaður einn sem þarna var farþegi og ég - MOI! 

En þegar skipið lagði að bryggju á Ísafirði um hádegisbil á aðfangadag var skollið á blíðalogn. Og þar sem við stóðum á riðandi fótum og  horfðum yfir fjörðinn, sáum við hvar flugvélin renndi sér tígullega niður á flugvöllinn hinumegin fjarðarins ... FootinMouth

 

KubburOddurJonsson

Þessa fögru mynd tók Oddur Jónsson af Kubbanum í Skutulsfirði á lognkyrrum vetrardegi


Stundum er þörf - stundum nauðsyn

ÞyrlanLíf Það er gott þegar björgunarsveitir landsins koma að gagni og farsællega tekst til með að hjálpa nauðstöddu fólki, eins og í þessu tilfelli. Það er jafn ergilegt þegar fjöldi björgunarsveitamanna er kallaður út til þess að hjálpa fólki sem hunsar viðvaranir og anar út í ófæruna, eins og gerðist á Hellisheiðinni í nótt.  Þar höfðu á annan tug manna farið upp á heiðina þótt hún væri lokuð umferð, og fest sig.

Þeir sem vaða út í óvissuna - keyra framhjá lokunarskiltum á fjölförnum leiðum, rjúka upp á heiðar þrátt fyrir viðvaranir veðurstofu og tilmæli um að vera ekki á ferðinni - gera það í trausti þessa að björgunarsveitirnar muni koma til aðstoðar ef illa fer. Og það gera þær vissulega. Þeir sem starfa í björgunarsveitum gera það af mikilli ósérhlífni og verja til þess  ómældum tíma og fjármunum. Köllun björgunarsveitanna er að hjálpa þeim sem þurfa þess - líka þeim sem hafa sjálfir komið sér í vandræði. Enda virðist svo vera sem fólki finnist almennt sjálfsagt að nýta sér aðstoð björgunarsveitanna hvernig sem á stendur.

Í gær voru tvö útköll - annarsvegar vegna manna sem villtust í slæmu veðri og voru í lífshættu, að minnsta kosti annar þeirra. Þar var mannafla og tækjabúnaði björgunarsveitanna vel varið.  Í hinu tilvikinu - þar sem á annan tug manna óð upp á Hellisheiði þrátt fyrir viðvaranir og pikkfestist þar - má segja að sjálfboðastarf björgunarsveitanna hafi verið misnotað.

Nú má auðvitað segja að sjálfskaparvítin séu ekkert skárri en önnur víti. Eftir að menn eru komnir í vandræði þurfa þeir auðvitað aðstoð hvernig sem sem þeir komust í vandræðin. En mér finnst koma til álita að fólk borgi fyrir björgunarkostnað þegar svona stendur á. Nóg gefa björgunarsveitarmennirnir af tíma sínum og fjármunum þó þeir séu ekki að fara upp úr rúmum sínum um miðjar nætur til að bjarga fólki sem hefur komið sér í vandræði að óþörfu. Ég verð bara að segja eins og er.

Það geta alltaf komið upp stórútköll þar sem björgunarsveitirnar þurfa á öllum sínum liðsafna að halda. Ef slíkt gerist er ekki gott að stór hluti sveitanna sé bundinn í verkefnum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir, eins og að bjarga bílstjórum sem virða ekki lokanir á vegum.

 

----------

PS: Meðfylgjandi mynd var tekin í sumar á æfingu Björgunarhundasveitar Íslands á Gufuskálum af Sigrúnu Harðardóttur, ungum félaga í sveitinni.


mbl.is Fundust heilir á húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekið framhjá banaslysi

Á föstudaginn varð banaslys í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi, þar sem ungur maður lét lífið eftir að hafa misst stjórn á bíl sínum í beygju og hafnað út í á. Eiginkonan komst með naumindum út úr bílnum og upp á veginn þar sem hún í örvæntingu beið aðstoðar á meðan maðurinn hennar var fastur í bílnum ofan í vatninu. Tveir ökumenn óku framhjá án þess að bjóða fram aðstoð. Þetta kemur fram á þessari frétt á mbl.is.

Hvernig skyldi henni hafa liðið að horfa á eftir bílunum tveimur hverfa út í buskann, vitandi af manninum sínum ofan í vatninu?

Hvernig skyldi þeim sjálfum líða núna, þessum ökumönnum?

Veit fólk ekki að það er borgaraleg skylda - samkvæmt lögum - að koma fólki til aðstoðar í neyð? Þó ekki væri til annars en að hringja fyrir það á hjálp. Þó það treysti sér ekki í eiginlegar björgunaraðgerðir, lífgun eða annað þessháttar. En bara það að hlúa að þeim sem í losti og örvæntingu bíður aðstoðar, slasaður eða blautur, breiða yfir hann teppi eða kápu, bíða með honum eftir hjálpinni. Það þarf enga sérstaka kunnáttu í slíkt - bara mannúð.

mannudNú kann að vera að þeir sem aka framhjá slysstað treysti sér einfaldlega ekki til þess að stoppa - telji sig ekki hafa kunnáttu eða andlegan styrk til að takast á við þjáningu annarra. Ég vil ekki trúa því að fólk sé almennt svo gersneytt mannúð og tilfinningum að það láti sér í léttu rúmi liggja afdrif annarra. Það hljóta að vera skýringar á svona hegðun. En siðferði felst ekki síst í því að breyta rétt, þó mann langi til að gera eitthvað annað.

Að skeyta ekki um fólk í neyð er glæpur.


Við hverja hefur samgönguráðherra talað?

KristjanMöller Kristján Möller samgönguráðherra sagði í Svæðisútvarpi Vestfjarða í gær að hann hefði orðið fyrir þrýstingi frá ýmsum "Vestfirðingum" að breyta áherslum í jarðgangagerð á Vestfjörðum. Verið væri að þrýsta á hann að fresta Arnarfjarðargöngum (hætta við?) en taka þess í stað göng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar fram fyrir.

Eitthvað er hér málum blandið varðandi  "þrýstinginn" sem ráðherrann verður fyrir. Mér vitanlega hefur hvergi nokkurs staðar verið samin ályktun eða samþykkt um að breyta forgangsröðun verkefna varðandi jarðgöng á Vestfjörðum. Þvert á móti hefur bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar áréttað fyrri samþykktir um nauðsyn á gerð Arnarfjarðarganga nú nýlega, ef mig misminnir ekki. Á síðasta ári var samþykkt í ríkisstjórn að flýta gerð jarðganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, þannig að framkvæmdum verði lokið árið 2012 í stað 2014.

Hvaðan kemur þá þessi "þrýstingur"? 

Mér finnst að ráðherra verði að skýra það betur. Og hvers vegna tekur hann mark á þessum svokallaða þrýstingi, svo mjög að hann færir málið í tal við fjölmiðla?

Í eyrum hins almenna Vestfirðings hljómar þetta allt mjög undarlega, því eins og sakir standa er ekkert sem bendir til þess að Vestfirðingar séu að hverfa frá áður markaðri stefnu í samgöngumálum, hvað svo sem líður afstöðu einhverra einstaklinga sem eiga símtöl við ráðherrann. Enda á þessi landshluti nánast allt sitt undir því að ráðist verði í þessi jarðgöng sem fyrst til þess að tengja saman norður og suðurhluta Vestfjarða og koma Kjálkanum þar með í raunverulegt vegasamband við landið.

Sá munur er á þessum tveimur framkvæmdum að göng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar myndu nýtast norðanverðum Vesfjörðum nær eingöngu. Þau myndu flýta för um Ísafjarðardjúp og auka umferðaröryggi milli tveggja bæja - líkt og göngin um Óshlíð bæta samgöngur milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar en nýtast ekki landshlutanum að öðru leyti.

Arnarfjarðargöngin hinsvegar nýtast landshlutanum í heild. Þau bæta samgöngur milli byggðarlaganna, gera Vestfirði að einu verslunarsvæði, jafnvel atvinnusvæði líka auk þess að bæta vegasamband við landið allt.

Samgönguráðherra hefur sést á ferli hér fyrir vestan síðustu daga. Mér vitanlega hefur hann þó ekki fundað með sveitarstjórnarmönnum um þessi mál, hvorki flokksmönnum sínum né öðrum. Ég leyfi mér að fullyrða að í þeim röðum er varla nokkur maður sem myndi mæla þessari stefnubreytingu bót.

Við hverja hefur ráðherrann þá verið að tala?


Bakþanki um hvítabjörn

untitled Hvítabirnir geta verið afar blíðlyndir. Eins þetta myndskeið sýnir getur farið mjög vel á með hundum og ísbjörnum (smellið hér) - þó ég myndi sjálf ekki kæra mig um þau groddalegu blíðuhót sem seppi fær þarna.

En ég er hugsi yfir atburðum dagsins. Sérstaklega finnst mér upplýsingar misvísandi um hættuna sem myndaðist á vettvangi. Myndskeiðið sem sýnt hefur verið á mbl og sjónvarpsstöðvunum bendir ekki til þess að björninn hafi verið í árásarham. Gagnrýni héraðsdýralæknisins á Blönduósi sem segist hafa haft deyfilyf í bílnum hjá sér og til þess gerða byssu að skjóta því finnst mér athyglisverð, svo ekki sé minna sagt.

Hvers vegna lokaði ekki lögreglan veginum og setti vakt á dýrið? Þeir fóru þarna margir saman að birninum og fóru ekki dult. Var að furða þó bangsi yrði þeirra var - yrði forvitinn og gæfi þeim nánari gaum?

Ég efast ekkert um góðan vilja - en ég held að þarna hefði mátt standa faglegar að verki, sérstaklega á vettvangi. Þar hafa menn líklega ofmetið hættuna sem stafaði af birninum. Þeir hafa jafnvel sjálfir aukið á hættuna með mannaferðum og ónæði fyrir björninn.

Aftur á móti er umhverfisráðherra í afar erfiðri stöðu að þurfa að taka ákvörðun á grundvelli þess hvernig aðstæður eru metnar á vettvangi að henni fjarstaddri. Sjálf hefði ég trúlega gert það sama og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þ.e. að taka gilt mat viðstaddra á aðsteðjandi hættu. Annað hefði verið ófyrirgefanlegt. Trúlega hefðu allir tekið sömu ákvörðun miðað við þær upplýsingar sem veittar voru. 

 En ... ég er hrædd um að kunnáttuleysi þeirra sem voru á staðnum -  og hræðsla - hafi ráðið mestu um það hvernig fór.


Ill nauðsyn - eða hvað?

Sorgleg endalok voru það að björninn skyldi felldur - en ill nauðsyn er ég hrædd um. Ekki hefði ég viljað vera þarna og sjá dýrið koma á móti mér.

Athugasemdir héraðsdýralæknisins á Blönduósi eru þó umhugsunarefni (sjá hér ) og þær vekja spurningar um hvort raunverulega hafi verið vilji til þess að ná birninum lifandi.

Fram kom í fréttum að það hefði tekið sólarhing að fá deyfilyf til landsins til þess að svæfa dýrið - og af því mátti skilja að vá  hafi verið fyrir dyrum að ætla að bíða svo lengi með lausan ísbjörn á vappi um hlíðar Þverárfjalls.  En .... var þetta athugað nógu vel? Héraðsdýralæknirinn segist vera með svona deyfilyf í bílnum hjá sér. Líka byssuna sem til þarf!

Eiginlega finnst mér að deyfilyf af þessu tagi eigi að vera tiltækt á lögreglustöðvum landsins og/eða hjá héraðsdýralæknum. Og varla getur verið svo mikið mál að koma því þannig fyrir.

Eiginlega finnst mér líka að það þyrfti að vera til viðbragðsáætlun fyrir uppákomur af þessu tagi. Hvítabirnir eru alfriðaðir - við getum alltaf átt von á því að þeir gangi á land hér, þó það gerist ekki oft.

Þá er vel hugsanlegt að grípa þurfi til svæfingarlyfja með skömmum fyrirvara vega fleiri dýrategunda en ísbjarna. Ég minnist þess þegar hreindýrskýr gat ekki losnað frá kálfi sínum og gekk með hann í burðarliðnum meðfram veginum í Fellahreppi á Fljótsdalshéraði um árið. Framan af þorði enginn að fella dýrið af því það var ekki veiðitímabil - og engin deyfibyssa var tiltæk heldur. Kýrin var þó skotin um síðir, en þá var hún búin að ganga sárkvalin sólahringum saman og var að dauða komin.

Gætu stjórnvöld til dæmis ekki átt samstarf við alþjóðleg náttúruverndarsamtök um viðbrögð og aðgengi að sérfræðingum þegar eitthvað þessu líkt kemur upp? Ég segi nú svona.


mbl.is Ísbjörninn felldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband